Ok, time to panic?

Ég (Einar) er í Bandaríkjunum og hérna er ekki beinlínis of-framboð af enskum knattspyrnuleikjum í beinni. Reyndar gat ég séð Bolton leikinn á Pay-Per-View, en hann var klukkan 9, daginn eftir djamm. Ef marka má það, sem ég hef lesið um leikinn og leikinn á móti Graz, var þetta ekki gott.

En samt, verð ég að segja að fólk er full æst yfir þessum leikjum, ef dæma má það sem ég hef lesið á þessari síðu og öðrum þá er fullt af fólki sem er strax komið í “panic mode” yfir frammistöðu liðsins.

Ég vil bara segja: “Dragið djúpt andann og slakið aðeins á”.

Við erum komin í Meistaradeildina og búnir að tapa einum leik í deildinni. Þetta eru EKKI endalokin. Í síðasta leik voru tveir frábærir leikmenn að spila sinn fyrsta leik fyrir liðið. Við erum með markahæsta leikmann EM í liðinu, sem er ekki alveg byrjaður að spila einsog hann getur best. Og við erum með einn efnilegasta framherja í Evrópu, sem er enn að átta sig á ensku deildinni.

Ef það má dæma af ummælum fólks eftir leikinn þá var Hamann lélegur og vonandi gefst Benitez uppá þessu 5 manna miðju kjaftæði, því að við verðum að fá Hamann útúr liðinu. Ef við ætlum að reyna 5 manna miðju, þá hefði ég viljað reyna t.d.

**Garcia – Gerrard – Alonso – Le Tallec – Kewell**

eða

**Garcia – Gerrard – Alonso – Warnock – Kewell.**

Bara ekki Hamann, Gerrard og Alonso. Þeir eru allir frekar varnarsinnaðir. Gerrard er sá sókndjarfasti, en t.d. með enska landsliðinu spilar hann varnarsinnaða hlutverkið. Ef hann ætlar að leika með 5 menn á miðjunni, þá þarf hann að hafa einhvern sókndjarfann með Alonso og Gerrard.

En grundvallaratriðið er að núna hefur Benitez tvær vikur til að laga liðið. Hann hefur verið að prófa sig áfram með ýmsa hluti. Það eru engar smá breytingar, sem hafa átt sér stað á liðinu undanfarnar vikur. Ef við skoðum liðið, sem Houllier virtist halda mest uppá á síðasta tímabili:

Kirkland

Finnan – Hyypia – Henchoz – Carragher

Murphy – Hamann – Gerrard – Kewell

Heskey – Owen

Berið þetta svo saman við liðið, sem spilaði síðasta leik. Þarna eru ein staða, sem hefur ekki breyst, það er Hyypia. Allir hinar stöðurnar hafa annaðhvort nýja leikmenn, eða þá að leikmenn eru að spila aðra stöðu, einsog Gerrard og Carragher.

Við megum því búast við að það taki smá tíma fyrir þetta lið að ná saman. Þetta eru til að mynda MIKLU róttækari breytingar en Mourinho er að framkvæma hjá Chelsea. Ef að Benitez fer aftur í 4-4-2, þá spái ég því að liðið verði svona:

Dudek

Josemi – Hyypia – Carragher – Riise

Garcia – Alonso – Gerrard – Kewell

Baros – Cisse

Þið sjáið að þarna eru bara tveir leikmenn í sömu stöðu og í fyrra, það er Gerrard og Kewell. ALLAR HINAR NÍU STÖÐURNAR HAFA BREYST! Það mun taka tíma að laga þetta til.

Við skulum vona að Benitez nýti næstu tvær vikur vel. Við getum alveg verið róleg, því framtíðin er björt. 🙂

6 Comments

 1. Nákvæmlega Einar … þess vegna byrjaði ég leikskýrsluna fyrir Bolton-leikinn á því að biðja fólk að anda rólega og gefa liðinu tíma.

  Það magn haturs, pirrings og hótana sem ég hef lesið hjá hinum ýmsu vefsíðum/spjallborðum/blaðamönnum síðan á sunnudag er hreinlega fáránlegt! Það er ótrúlegt til þess að hugsa að fólk skuli virkilega vilja selja Baros út af því að hann á tvo slaka leiki í röð (eigum við þá ekki að selja Gerrard líka?) eða jafnvel að reka Benítez fyrir að “spila nákvæmlega sama helv**is varnarboltann og Houllier” og eitthvað álíka gáfulegt.

  Ég spyr bara, hvað er að fólki? Eru menn orðnir svo gegnumsýrðir af Championship Manager að þeir einfaldlega geta ekki skilið það að svona umbreyting tekur kortér í tölvuleiknum þínum en nokkra mánuði AÐ MINNSTA KOSTI í alvörunni?

  Auðvitað var leikurinn grútlélegur hjá okkar mönnum en það var líka margt jákvætt í honum og það er það sem ég horfi á. Ég treysti Benítez til að laga það sem aflaga fer. Ég anda rólega.

  Vonandi gera það fleiri.

 2. Bara svona til að leiðrétta mistök hjá þér, Einar. Þá eru nú fleiri leikmenn en Kewell og Gerrard sem voru að spila í sömu stöðu og í fyrra. Dudek var nú t.d. að spila í markinu oft á tíðum. Einnig spilaði Riise vinstri bakvörðuinn. Ekki má gleyma að Baros fékk að spila frammi þannig að þessar breytingar sem þú ert að tala um eru nú í rauninni ekki nema fimm þótt Carragher hafi getað spilað þessa miðherjastöðu áður. En engu að síður þarf fólk að fara að hætta þessu djöfulsins panic rugli! Auðvitað er hundfúlt að tapa leikjum og að sjá miðlungslið eins og ManUre vera að vinna titla (ok gerðu það sl áratuginn) en það eru aðrir tímar í nánd. Við eigum eftir að sjá nóg af stigum í hús í framtíðinni og skemmtilegan leik (vonandi) þegar leikmenn verða farnir að venjast aðstæðum.

 3. Já ég er alveg sammála ykkur, Kristjáni og Einari.
  Menn virðast vera að missa sig í Champ fílingnum og gera sér ekki grein fyrir að allt gott tekur sinn tíma.
  Það er auðvitað ekkert mál fyrir mann eins og Mourinho sem að getur keypt hvern sem er og er með frábært lið þó svo að það sé ekki fullmótað sem lið. En Benitez hefur hins vegar takmarkað fjármagn og þar af leiðandi mun meiri vinnu fyrir hendi, en árangurinn sem liðið hefur sýnt síðan hann tók við fyrir 3 mánuðum er mjög góður.
  Fólk verður bara að slappa aðeins af og átta sig á því að þetta tímabil er rétt að byrja og tími Benitez er einnig rétt að byrja sem þjálfari Liverpool 🙂

 4. Já þetta er alveg hárrétt allt hérna, bið fólk bara að hugsa aðeins aftur í tímann og sjá hvað það var tilbúið að gefa Houllier langan tíma með liðið og þeim leikmönnum sem hann keypti, þeir fengu að minnsta kosti meira en einn leik til að slá í gegn 😉 þetta kemur einfaldlega allt með kalda vatninu 🙂

 5. þetta er bara snild að vera komin með nyjan þjálfara og það held eg að allir liverpool menn seu samála 😉 😉 :wink:gangi liverpool vel :biggrin2:you never walk a lone

Bolton 1, L’pool 0

Leikmannaglugginn lokar!