Bolton 1, L’pool 0

steviebolton.JPGÁður en ég fer í saumana á þessum leik langar mig að biðja Liverpool-aðdáendur vinsamlegast að tapa sér ekki í svartsýni, þótt leikurinn í dag hafi tapast. Vinsamlegast.

Allavega, Liverpool tapaði öðrum leik sinnum á einni viku í dag gegn frísku liði Bolton. Menn biðu eftir þessum leik með mikilli eftirvæntingu, ekki síst vegna þess að þeir Luis García og Xabi Alonso voru að spila sinn fyrsta leik í liði Liverpool í dag.

Hins vegar hættir okkur aðdáendunum svolítið oft til að hugsa þetta eins og við séum stödd í Championship Manager. Setja bara upp gott leikkerfi, finna toppmenn í hverja stöðu og þá er þetta bara komið.

Ekki alveg. Í alvörunni þarf nefnilega að veita mönnum smá tíma og þolinmæði til að venjast breytingum, ekki síst þegar nýir leikmenn eiga í hlut.

Og því fór sem fór. Fyrir leikinn spáði ég að okkar menn yrðu eflaust frekar brothættir í sóknaraðgerðum en að á endanum myndi gæðamunurinn á liðunum segja til sína og við sigra leikinn. Þeir sigruðu á endanum, 1-0, en það var ekki neinum gæðum af hálfu Bolton-liðsins fyrir að þakka.

Varnarlega fannst mér aldrei pressa á okkur í þessum leik, ef frá er skilið markið sem þeir skoruðu. Í markinu lét Josemi einfaldlega taka sig í nefið úti á kanti, Pedersen fór léttilega framhjá honum og átti góða fyrirgjöf sem barst á endanum út til Kevin Davies, sem þakkaði fyrir sig og setti hann í netið.

Þetta er í fyrsta sinn síðan hann var keyptur til liðsins sem ég sé Josemi algjörlega grillaðan, maður á mann, og vona ég að það gerist seint aftur. Enda klikkaði hann ekki aftur á þessu.

Nú fyrir utan þetta mark þeirra þá var Bolton-liðið ekki að sækja mikið, þeir áttu nokkur skot fyrir utan vítateiginn en brutu vörnina okkar aldrei upp eftir markið. Varnarlega finnst mér við alveg fínir, þetta eru góðir varnarmenn þarna en vandamálið hefur verið á miðjunni og í framlínunni í síðustu tveimur leikjum.

Við erum gjörsamlega steingeldir í öllum okkar sóknartilburðum. Reyndar er við því að búast, það getur hvaða lið sem er varist eins og þéttur pakki en það þarf eitthvað auka, eitthvað sérstakt, til að skapa góðar sóknir. Og þegar liðið er enn svona nýtt af nálinni og stendur í miklum breytingum er erfitt að finna samherjana. Það sáum við í síðasta leik og það sáum við aftur í dag. Spyrjið Chelsea-menn, þeir eiga í sama vanda.

En allavega, þrátt fyrir að þetta hafi ekki átt fyrir okkur að liggja í dag og við verið mjög lélegir fram á við er enn of snemmt að fara að leggja einhvern dóm á það. Menn eru bara að venjast og ég persónulega tek lífinu með ró, reyni að minna sjálfan mig á það að þrátt fyrir tap þá verður liðið að fá tíma til að aðlaga sig breyttum áherslum. Þetta kemur með tímanum.

JÁKVÆTT:
Stephen Warnock lék mjög vel í fyrri hálfleik, fannst mér. Hann kom inn í liðið fyrir Harry Kewell, sem var meiddur í dag, og stóð sig bara mjög vel. Hann bjó til eitt hættulegasta færið okkar í þessum leik og var sívinnandi. Í raun var það að mínu mati vitlaust af Benítez að taka hann út fyrir Cissé í hálfleik. Ég persónulega hefði tekið Hamann út fyrir Cissé, leyft Xabi og Stevie að spila saman á miðri miðjunni og haft áfram tvo vængmenn, Warnock og García.

Luis García og Xabi Alonso komust vel frá þessum leik, þrátt fyrir að hafa lent í miklum erfiðleikum framan af. Fyrstu 10 mínútur leiksins eða svo sá maður Xabi skokka um og reyna að koma sér inn í leikinn, en hann fékk varla að snerta boltann. Svo fór hann fljótlega að koma meira og meira inn í leikinn og um miðjan seinni hálfleikinn var hann farinn að stjórna leik liðsins með öllu.
Luis García stóð sig einnig mjög vel. Hann fékk úr litlu að moða í fyrri hálfleik en var þó alltaf ógnandi með boltann þegar hann fékk hann. Í seinni hálfleik fór hann síðan hamförum, var ótrúlega vinnusamur og spilaði reglulega vel. Eins og með Xabi Alonso sá maður bara greinilega gæðin sem þessi gæji hefur yfir að ráða, þrátt fyrir að það hafi ekki mikið komið út úr því í þessum leik.

John Arne Riise og Josemi virðast ætla að vera klassabakverðir í þessu liði. Reyndar gerðu þeir báðir stór mistök: Josemi átti fulla sök á marki Bolton og svo undir lokin fékk Riise góðan séns á fyrirgjöf en sendi boltann hátt yfir teiginn. En engu að síður þá eru þeir að spila fantavel og eigna sér sína vængi bæði í vörn og sókn. Ef aðeins að mennirnir í kringum þá væru að spila betur saman í sókn, þá fengjum við að sjá þessa tvo menn á fullu með sókninni.

NEIKVÆTT:
Milan Baros var hreint út sagt hörmulegur í þessum leik. Algjörlega. Mig langaði að sjá hann tekinn út af á 10. mínútu, svo slappur var hann. Reyndar var Djibril Cissé ekki mikið skárri eftir að hann kom inná en samt, hann spilar með félögum sínum. Milan Baros þarf alvarlega að líta í eigin barm og læra að spila með samherjum sínum. Það gerðist tvisvar með García í fyrri hálfleik og svo tvisvar í seinni hálfleik – annað skiptið með Cissé og hitt með García – að Baros átti að gefa boltann á mann í dauðafæri en kaus þess í stað að snúa sér við og lenda beint á varnarmanni sem tók af honum boltann!

Þetta má ekki gerast hjá aðalframherjanum okkar. Baros er yndislega góður leikmaður og geggjaður markaskorari en hann verður að læra að nota hausinn aðeins meira.

Steven Gerrard er ekki kantmaður og Rafa Benítez verður að hafa það á hreinu. Hann prófaði þriggja manna miðjuna með Xabi og Hamann við hlið fyrirliðans og það var ekki alveg að virka. Gott og vel, breytum þá aftur í 4-4-2. En hann átti þá að taka Hamann útaf (ræði það hér á eftir) og hafa þá Xabi og Gerrard inná miðjunni, með tvo vængmenn í liðinu. En nei, hann fórnaði vængmanni fyrir Cissé og setti Stevie G út á hægri vænginn. Gerrard var ekki með í seinni hálfleik, gjörsamlega ekki með.

Dietmar Hamann er frábær varnarlega en Gvöð minn góður, það var alveg augljóst í þessum leik að hann er ekki nógu góður til að vera í þessu liði. Ef Benítez ætlar að spila 4-4-2 á hann að hafa Gerrard og Xabi Alonso saman á miðjunni. Ef hann ætlar að spila 4-3-2-1 myndi ég jafnvel bara vilja sjá Warnock með Gerrard og Alonso á miðjunni … með Kewell og García á köntunum. Hamann er góður varnarlega en Xabi, Gerrard og Warnock vinna alveg nógu vel varnarlega séð. Við þörfnumst hans ekki þar.

Og sóknarlega er amma mín heitin betri en Didi Hamann. Í alvöru. Hann er bara fyrir og þegar hann er farinn að valda því að Gerrard þarf að spila annars staðar en á miðjunni, til að koma Hamann fyrir í liðinu, þá er betra að selja hann bara med det samme!


Á heildina litið þá örvænti ég ekki. Við vorum ekki betri aðilinn í dag en heldur ekki verri aðilinn. Við lentum sjaldan í vandræðum varnarlega og vorum meira með boltann. Dómarinn í dag var alveg steingeldur, hreinlega ööömurlegur (tók löglegt mark af Luis García á 80. mín!!! ) en það afsakar ekki þetta tap. Við vorum ekki nógu góðir sóknarlega og hefðum átt að kála þessu Bolton-liði í seinni hálfleik. EN það átti því miður ekki að verða.

Eins og Benítez sagði sjálfur eftir leikinn þá þarf hann nokkra mánuði í viðbót áður en þetta lið fer að spila þann bolta sem hann vill að það spili.

Nú fer í hönd tveggja vikna frí frá félagsliðunum á meðan landsleikir fara fram og því verður Benítez væntanlega fríinu fegnastur, hann getur þá unnið í að skipuleggja liðið og æfa það á meðan. Síðan hefst þetta á fullu aftur eftir 13 daga með heimaleik gegn W.B.A., og svo Mónakó í Meistaradeildinni þar í vikunni á eftir. Þannig að nú er um að gera fyrir Benítez að safna þreki, bæði fyrir sig og leikmenn sína, og snúa svo tvíefldur eftir tvær vikur!

Ég mun bíða með alla sleggjudóma þangað til a.m.k. eftir tvær vikur, þegar hann hefur Hyypiä og Kewell aftur heila og vonandi engin meiðsli úr landsleikjavikunni … og hver veit nema Antonio Nunez verði tilbúinn í slaginn gegn W.B.A.? Og þá verður forvitnilegt að sjá hvernig menn bregðast við tveimur tapleikjum í röð.

Á meðan verðum við að anda rólega, 8 stigum á eftir Arsenal og Chelsea og með leik til góða. Þetta lagast með tímanum.

7 Comments

 1. Sammála öllu. Ég vill að Benitez spili 442 taktík með þá Gerrard og Alonso á miðjunni og Garcia og Kewell á köntunum. Það er líka hægt (ef að Nunez stendur sig vel) að hafa Garcia á vinstri og Nunez á hægri. Svo hefði ég helst viljað fá annan sóknarmann. Það dugar ekki að hafa 3 sóknarmenn þegar maður er að spila í meistaradeildinni og ensku úrvalsdeildinni. Það sem mér fannst einkenna liðið var það að leikmennirnir reyndu alltaf að ýta boltanum í markið. Þeir áttu bara að skjóta þegar þeim fannst þeir geta það. Inní sendingar duga ekki ef að það er enginn að taka við þeim. Bara láta vaða. Gerrard skoraði þrjú þannig mörk á móti Graz. Það var eins og þeir héldu að markmaður Bolton gæti varið allt. En þegar Garcia náði alvöru sparki á markið (sem var ekki einu sinni skot) þá skoruðu þeir. Þannig að spila 442, kaupa Mista, láta vaða á markið í færum eins og Baros fékk og spila sóknarbolta. Þetta er það sem ég vill.

 2. ég veit ekki hvaða leik þið voruð að horfa á….
  þetta var einn lélegasti leikur sem ég hef séð með Liverpool. við áttum 2 skot á markið og það á móti Bolton. hvað í andskotanum á það að þýða? það er alveg sorglegt að sjá Barros og Cisse saman þarna frammi, Barros hefur ekki hugmynd um hvar Cisse er og er Cisse við það að missa sig úr pirring yfir því. (líkamstjáning Cisse er farinn að minna mig á Hasselbank, að drepast úr fýlu) það er ekki vænlegt til árangurs. ég hef reyndar trú á því að þeir félagar verði sendir í hjónabandsráðgjöf fyrir jól. það er ekki þar með sagt að liði sé dauðadæmt síður en svo, en það þýðir samt ekki að loka augunum. þetta mun taka sinn tíma.

 3. Góði Guð
  Gerðu það ekki láta koma annað svona Houllier tímabil. Mig langar bara til að liðið mitt spili skemmtilegan fótbolta. Þeir þurfa ekkert að vinna alltaf eða fá eitthvað fullt af bikurum (þó svo það sé alveg gaman að fá einn og einn) bara að þeir spili skemmtilega fótbolta.
  Takk fyrir áttunda áratuginn by the way.
  Amen :confused:

 4. Góði Guð
  Gerðu það ekki láta koma annað svona Houllier tímabil. Mig langar bara til að liðið mitt spili skemmtilegan fótbolta. Þeir þurfa ekkert að vinna alltaf eða fá eitthvað fullt af bikurum (þó svo það sé alveg gaman að fá einn og einn) bara að þeir spili skemmtilegan fótbolta.
  Takk fyrir áttunda áratuginn by the way.
  Amen :confused:

 5. Sammála með skiptinguna Warnock-Cisse! Var mjög hissa af því Warnock var frískasti maðurinn í fyrri hálfleik.

  Mér fannst Baros slappur en hann var þó ekki alltaf vælandi eins og Cisse!! Ég sver það, ég fer að fá svona Diouf-syndrome ef þetta heldur svona áfram! Hef aldrei þolað Diouf! Ég meina, Cisse átti í það minnsta að hitta rammann þegar hann slapp í gegn í restina. Mér fannst Baros þó reyna meir. Ekki gleyma því að hann var einn frammi í fyrri hálfleik og fékk lítið sem ekkert úr að moða.

  Skil ekki af hverju Snorri Már og Rikki Daða voru að tala um að Garcia væri ekki í réttum takti og að honum yrði örugglega skipt útaf. Ég verð að segja það að mér leist FJANDI vel á kauða og eins á Alonso! Þessi miðja lítur amk betur út núna heldur en með Murphy og Riise eins og GH stillti oft upp.

  Vonandi þarf Gerrard ekki að fara á kantinn aftur, hann á heima á miðjunni!!

  Spurnargæinn, þú segir að við þurfum meira en 3 strikera og það er rétt! Náum í Tony Tallec aftur og Mellor!!!! Það fer EKKERT eins mikið í taugarnar á mér eins og að sjá uppalda stráka úr Liverpool fara í önnur lið fyrir lítið. Á meðan getum við spreðað milljörðum í einhverja gúmmíkalla!

  Sorrí en ég varð bara að létta á mér! Hata að tapa og vonandi gera leikmenn Liverpool það líka!!

 6. Sammála þér í nánast einu og öllu, fyrir utan það að mér fannst Riise koma frekar illa út úr þessum leik, enþað skiptir svosem kannski ekki sérstaklega miklu máli.

  Eins finnst mér svakalega svekkjandi að horfa upp á fyrirliðann eiga tvo slaka leiki í röð – en að hluta til má skrifa það upp á þá staðreynd (að minnsta kosti í gær) að hann var látinn spila sem vængmaður.
  Stevie G. sem vængmaður!!!!

  Það er alveg glatað að fórna okkar besta miðjumanni á vænginn til þess að koma Hamann í liðið. Hamann var vissulega ekki slakasti leikmaður vallarins, langt í frá. En hans varnarsinnaði stíll er okkar dragbítur.

  Vissulega má benda á að undanfarin ár höfum við verið með betra rekkord með Hamann innanborðs heldur en þegar Hamann er ekki í liðinu. En þeir tímar ættu að vera liðnir, nú þegar við höfum Xabi (sem mér fannst svakalega góður í gær) og nú þegar við höfum hug á að spila “allir að verjast, allir að sækja” fótbolta, en ekki “allir að verjast, Owen að sækja”.

  Leikstíll Hamann er ekki það sem við þurfum í dag og að mínu mati ætti hann að fara þarna út. Hann er góður í því að spila varnarsinnað, varnarsinnað, varnarsinnað, en hann á að mínu mati ekki lengur erindi í topp-klassa lið (eins og við ætlumst til að Liverpool verði). Þrátt fyrir að það tæki kannski smá tíma að venjast því að hafa hann ekki þarna, og við gætum jafnvel tapað einhverjum leikjum, þá hef ég fulla trú á því að Gerrard og Alonso fylli með tímanum skó hans og vel það.

  Annars man ég eftir umræðunni í vor þar sem verið var að gagnrýna Svenson fyrir að nota besta miðjumann Englands á kantinum. Það er nákvæmlega það sem gerðist í gær og við það er ég ekki sátt. Vona að það gerist ekki aftur.

  Að mínu mati hefði átt að taka Hamann út frekar en Warnock – þar er ég fullkomlega sammála þér Kristján.

Bolton í dag: Upphitun

Ok, time to panic?