Liverpool 0, Graz 1

grazer.JPGÞað verður ekki verra en þetta.

Liverpool komst í kvöld inn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, en töpuðu samt leiknum gegn Graz AK á heimavelli. 0-1 á Anfield og var það í raun bara verðskuldað. Okkar menn byrjuðu leikinn ágætlega, náðu að spila vel í svona 10-15 mínútur … og síðan bara fjaraði þetta út. Þetta var gjörsamlega, algjörlega lang-lélegasti leikur liðsins síðan Rafael Benítez tók við liðinu í sumar og verðum við að teljast heppnir að ekki fór verr. Við komumst þó áfram úr þessu einvígi, naumlega.

Það er ekkert við Benítez að sakast, það held ég að sé alveg öruggt. Hann er nýr, hann er að prófa sig áfram með leikskipulag og liðsuppstillingu og hann er enn að kynnst leikmönnunum. Í kvöld kynntist hann myrkrahlið þeirra.

Byrjunarliðið var svona:

JERZY DUDEK

CARRAGHER – HENCHOZ – HYYPIÄ – RIISE

POTTER – GERRARD – DIAO – KEWELL

BAROS – CISSÉ

Ég veit ekki hvað ég get sagt. Liðið var lélegt í kvöld. Svo lélegt að meira að segja Stevie G var algjörlega heillum horfinn í þessum leik. Reyndar myndi ég aðeins taka tvo menn út og hrósa fyrir góða frammistöðu. Menn leiksins í kvöld voru þeir Salif Diao og John Arne Riise, einfalt mál. Þeir voru þeir einu sem léku af getu og Diao gerði ferli sínum stóran greiða með því að bera miðjuna á herðum sér í þessum leik. Ef hann hefði verið jafn dapur og fyrirliðinn okkar hefðum við skíttapað þessum leik.

Dudek var lélegur. Hann átti reyndar enga sök í markinu, sem var algjörlega óverjandi, en hann virkaði ótraustur og stressaður nær allan leikinn.

Carragher, Hyypiä og Henchoz voru góðir varnarlega og hleyptu litlu í gegn, en fram á við voru þeir alveg steingeldir. Carra á bara að spila miðvörðinn með Hyypiä, þeir virka best saman þar og þurfa hvorugur að sækja mikið fram með boltann. Carra sem bakvörður er alls ekki nógu góður, sóknarlega. Riise var besti maður leiksins, varnarlega séð og líka besti maður leiksins, sóknarlega. Hann átti stórleik í kvöld og virðist koma rosalega ferskur inn undan sumrinu! Ef bara fleiri hefðu spilað eins vel og hann.

Á miðjunni var hinn ungi Darren Potter að leika sinn fyrsta leik og því varla við hann að sakast. Hann barðist vel, náði sér í gult spjalt og svona, og var viðriðin nokkrar af skárri sóknum Liverpool-liðsins. Fínn leikur hjá honum, þótt það hafi ekki skilað miklu. Eins og ég sagði áðan var Gerrard ekki með í þessum leik og Harry Kewell ekki heldur. Stephen Warnock kom inná fyrir Kewell um miðjan seinni hálfleik og stóð sig betur en Harry, en samt ekki nógu vel. Það kom ekki nóg út úr því sem miðjumennirnir okkar voru að gera í dag, nema einum.

Salif Diao spilaði í kvöld eins og Steven Gerrard er vanur að spila. Hann gjörsamlega átti miðjuna, stjórnaði spilinu hjá okkar mönnum og vann ótal tapaða bolta til baka fyrir samherja sína. Hann var sannkallaður klettur á miðjunni og yfirferðin á honum var frábær. Kannski á hann sér framtíð á Anfield Road eftir allt saman?

Framherjarnir hefðu betur setið heima. Cissé var pirraður allan leikinn, ekkert gekk upp hjá honum og þau fáu skipti sem hann komst í séns var brotið á honum. Hann fór útaf á 75. mínútu fyrir Florent Sinama-Pongolle, sem var engu skárri. Hann fékk eitt dauðafæri og náði þá aðeins laflausu skoti beint á markvörð Graz.

Milan Baros gerði mig bara reiðan í kvöld. Hann var nokkrum sinnum nálægt því að skora en hann gerði allt of mikið af því að bara hlaupa, hlaupa, hlaupa hálf stefnulaust. Benítez virtist vera að reyna að segja honum að eyða ekki of mikilli orku, ekki bara hlaupa til að hlaupa eitthvað heldur tímasetja sprettina sína betur og vera sniðugri að finna plássin. En allt kom fyrir ekki.

Ég varð fyrir stórum vonbrigðum með þá félaga Cissé og Baros í kvöld, en þeir voru alls ekki verstir í liðinu. Ég varð í raun bara fyrir stórum vonbrigðum með liðið eins og það leggur sig.


En hvað um það, 2-1 sigur í þessu einvígi og við sleppum í gegnum Forkeppnina og inn í Riðlakeppni Meistaradeildarinnar … naumlega þó!

Þetta munar náttúrulega rosalega miklu, að komast inn í riðlana, bæði andlega fyrir klúbbinn og fjárhagslega fyrir félagið. Því ber að fagna, þótt eflaust hefðum við stuðningsmennirnir viljað geta fagnað góðum leik í kvöld. Það var augljóst á Rafa Benítez að hann var mjög ósáttur eftir leikinn. Hann klappaði áhorfendum lof í lófa stuttlega og rauk svo niður tröppurnar og inn í klefa.

Eftir leikinn talaði hann síðan um að það væri nauðsynlegt fyrir liðið að bæta sig. Þeir mættu ekki láta svona frammistöðu endurtaka sig, hvorki í deildinni ensku né í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Ef betra lið en Graz AK hefði verið á móti okkar mönnum í kvöld hefðu þeir verið rassskelltir.

Við vorum heppnir að komast í gegn.

Þið verðið að fyrirgefa, kannski er þetta svolítið svartsýn leikskýrsla og allt það en það er bara hreinlega ekki frá neinu jákvæðu að segja í kvöld, utan frammistöðu Diao og Riise.

Ég er hins vegar sannfærður um að svona léleg frammistaða verður ekki uppi á teningnum í næstu leikjum. Þeir leikmenn sem gerðu svona hryllilega í brækur í kvöld munu leggja ofurkapp á að það endurtaki sig ekki, auk þess sem við fáum þrjá menn inn fyrir næsta leik: bakvörðinn Josemi sem kemur inn úr meiðslum, sem og nýju leikmennina Luís García og Xabi Alonso.

Og miðað við daginn í dag geri ég ráð fyrir að þeir fari beint inn í liðið gegn Bolton á sunnudag.

Jæja, nóg komið í bili. Í hnotskurn þá var þetta ömurlegur leikur, lélegt tap og við heppnir að komast áfram úr þessu einvígi. En við komumst áfram og það er dregið í riðlana á fimmtudag. Ég fer betur yfir möguleika okkar í þeim drætti annað kvöld þegar forkeppni Meistaradeildarinnar lýkur.

Framtíðin er enn björt, en kvöldið í kvöld gerði okkur aðdáendunum (og sennilega Benítez líka) það algjörlega dagsljóst hversu mikil vinna er fyrir höndum áður en þetta lið getur með réttu kallast stórlið.

4 Comments

 1. Já maður er aldrei sáttur við að tapa, sérstaklega á Anfield!! Björtu hliðarnar eru þær að við erum komnir í CL og kannski er bara gott að fá SPARK í rassinn fyrir komandi átök!

 2. við getum þó huggað okkur við það að tilraunir Herra Benitez til að skoða hópinn “virka” í rauninni alltaf þar sem það hefur ekki bitnað á okkur hingað til. Eitt núll tap er í raun sigur þótt við eigum ekki að hugsa svona, en það að komast gegn slöppu liði Grazer er alveg nóg. Það er ljóst að það tekur alveg tímabilið að raka saman mönnum og láta þá spila saman sem liðsheild. Vonandi hefur Steven Gerrard meiri þolinmæði en Owen loksins þegar kominn er almennilegur þjálfari.

 3. Já miðað við hvað maður hefur lesið þá var þetta ekki góður leikur en björtu hliðarnar eru þær að við erum komnir í meistaradeildina.
  En er samt ekki fínt að fá smá skell í svona leik sem var næstum unnin og þá taka menn sig á og spila eins og menn betra heldur enn að spila svona þegar lengra er liðið á tímabilið og þá sér maður líka vondu hliðarnar á leikmönnum.

 4. Ágæt greinargerð um leikinn að mörgu leyti, en þessari setningu get ég bara ekki verið sammála:

  **Salif Diao spilaði í kvöld eins og Steven Gerrard er vanur að spila. Hann gjörsamlega átti miðjuna, stjórnaði spilinu hjá okkar mönnum og vann ótal tapaða bolta til baka fyrir samherja sína. Hann var sannkallaður klettur á miðjunni og yfirferðin á honum var frábær. Kannski á hann sér framtíð á Anfield Road eftir allt saman?**

  Diao spilaði ekki eins og Gerrard er vanur að spila. Hann átti ekki miðjuna og hann stjórnaði ekki spilinu. Auk þess fannst mér hann seinn í tæklingar, ekki vinna nógu margar af þeim og hann er skelfilegur í loftinu. Eins og ég las einhvers staðar þá er hann Creative-sponge: he gets the ball and sucks creativity out of the game.

  Hann var svosem ekkert skelfilegur, en hann býr svo augljóslega ekki yfir nægum gæðum til að standa sig í þessum alvörubolta.

  Vissulega átti hann prýðilega innkomu síðustu helgi – en þá vorum við að spila gegn bitlausum City-mönnum sem voru auk þess einum færri meirihluta þess tíma sem Diao spilaði inni á.

  Liverpool átti ekki miðjuna í þessum leik nema bara fyrstu 20 mínúturnar. Eftir það vorum við í eltingaleik við austurríkismennina sem stjórnuðu leiknum.

  Diao á að mínu viti (og vonandi) ekki framtíð á Anfield.

  Pongolle fannst mér heldur ekki jafnslakur og þú lýsir, en það svosem kom ekkert svakalega mikið út úr hans leik þetta þriðjudagskvöld. En mér fannst hann skárri en t.d. Cissé.

  Að lokum vildi ég bara minnast á hvað mér finnst Henchoz vera orðin slakur. Miðað við þennan leik á þriðjudaginn þá er hann ekki lengur í nægilega háum klassa til að spila fyrir okkar ástkæra Liverpool. Aftur á móti er kannski fullharkalegt að dæma hann fyrir einn leik.

  Til að líta á björtu hliðarnar þá hefðum við ekki getað valið betri leik til að spila illa :biggrin2:

Leikur við Graz í kvöld!

García og Alonso kynntir í dag! (uppfært)