Upphitun + Joey Barton (uppfært)

barton.jpgLiverpool leikur annan leik sinn í Úrvalsdeildinni í dag, og þann fyrsta á heimavelli, gegn City liðinu frá Manchester. Þeir gerðu jafntefli í sínum fyrsta leik, eins og við, þar sem enginn annar en Robbie Fowler skoraði fyrir City.

Ég geri fastlega ráð fyrir að við vinnum þennan leik – það á allavega að vera stefnan. Þrjú stig, sannfærandi sigur og ekkert annað, takk! Það er kominn tími á að gera Anfield aftur að því óvinnandi vígi sem það var hér áður fyrr.

Liðið þeirra er ómögulegt að segja til um. McManaman er meiddur og missir af en Fowler verður eflaust í framlínunni með Anelka, úr því að hann skoraði fyrir viku. Þá verður David James í markinu hjá þeim – en þetta eru jú allt fyrrverandi leikmenn Liverpool.

Hins vegar var mig búið að hlakka svolítið til að sjá Joey Barton spila fyrir City í dag, þar sem það er þrálátlega búið að vera talað um að hann gæti verið á leiðinni til okkar. Og er það vel, hann er Scouser og ólst upp í sama hverfi og fyrirliðinn okkar, Steven Gerrard. Þeir eru s.s. æskuvinir sem hafa farið í gegnum yngri landsliðin saman.

Nú hefur þetta slúður fengið byr undir báða vængi. Munið eftir því, fyrir einni og hálfri viku, að Einar Örn birti áreiðanlegt slúður frá YNWA.tv, þess eðlis að Michael Owen væri að fara? Jú, það slúður reyndist rétt og nú hefur YNWA.tv ákveðið að birta aðra frétt sem þeir telja nógu trúanlega til að skella henni upp á forsíðu sína:

JOEY BARTON verður víst fimmti leikmaðurinn sem Rafael Benítez kaupir eftir helgina!

Og hana nú! Skv. fréttinni á Barton aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við City og því myndum við fá hann fyrir mjööööög gott verð, í kringum 1m punda eða svo. Ekki mikið meira en það, sem er frábært verð fyrir heimamann sem hefur reynslu í Úrvalsdeildinni, er besti vinur fyrirliðans okkar og mjög efnilegur fyrrv. unglingalandsliðsmaður.

Nú, fréttin nefnir það einnig að þar sem kaup þessi muni ganga í gegn strax eftir helgina verði Joey Barton hvorki í byrjunarliðinu né á bekknum gegn Liverpool í dag. Þannig að ef við sjáum að hann vantar alveg í City-liðið í dag þýðir það væntanlega að hægt er að gefa þessari frétt traust!

Við sjáum til. En aftur að leiknum … sem ég býst við að við vinnum. Þar sem nýju mennirnir okkar þeir Luis García og Xabi Alonso verða ekki með í dag, og Antionio Nunez er meiddur, mun Benítez eflaust stilla upp sama liði í dag og spilaði leikina gegn Grazer og Tottenham:

JERZY DUDEK

JOSEMI – CARRAGHER – HYYPIÄ – RIISE

FINNAN – GERRARD – HAMANN – KEWELL

BAROS – CISSÉ

Það gera flestir ráð fyrir að með komu þeirra Xabi Alonso og Luis García á miðjuna muni þeir Steve Finnan og Didi Hamann detta út úr liðinu, svo það verður spenandi að sjá hversu ákafir þeir eru í að standa sig vel í dag.

Mín spá: 2-0 eða stærra fyrir Liverpool. Myndi ekkert gráta ef Fowler læddi einu inn á okkur en á samt ekki von á öðru en öruggum sigri í dag!


**Uppfært (Einar Örn)**: Veit einhver hvort það sé hægt að horfa á enska boltann í Leifsstöð??? HJÁLP!

Ég er nefnilega að fara í flug kl 5 og besti möguleikinn minn er sennilega að láta skutla mér uppí flugstöð fyrir kl 2 og reyna að sjá leikinn þar.

En allavegana, það er alveg ljóst að Hamann og Finnan þurfa núna að berjast fyrir lífi sínu hjá liðinu, sérstaklega ef að Barton er að koma líka. Ég hefði viljað sjá Biscan fá tækifæri inná miðjunni á heimavelli. Við þurfum að sækja á City og þá er ekki nógu gott að vera með einn bakvörð og einn mjöööög varnarsinnaðan miðjumann á miðjunni.

Hefði viljað sjá þetta einsog Kristján spáir en bara með Biscan á miðjunni.

Ég hef trú á því að Baros nái að skína. Hann er gríðarlega vinsæll á Anfield og mun fá frábæran stuðning og ég held að hann eigi eftir að tæta City vörnina í sig. Trúi ekki öðru en að við vinnum þennan leik.

Xabi og Luis eru komnir (Staðfest, Öruggt, Klárt mál!)

L’pool 2 – ManCity 1