Tottenham 1 – Liverpool 1 (Uppfært)

Liverpool gerði í morgun jafntefli við Tottenham Hotspur á útivelli í fyrsta leik Úrvalsdeildarinnar. Lokatölur: 1-1 og verða það að kallast nokkuð sanngjörn úrslit.

Liverpool byrjuðu leikinn miklu betur og voru miklu sterkari í fyrri hálfleik. Cissé kom okkur yfir á 38. mínútu og við vorum með verðskuldaða forystu í hálfleik. Í seinni hálfleik snerist dæmið eiginlega við, Tottenham sóttu í sig veðrið eftir því sem að leið á leikinn um leið og Liverpool-liðið dró sig aðeins aftar á völlinn og virtist ekki ná að fylgja góðum sóknartöktum fyrri hálfleiksins eftir.

Maður leiksins: Djibril Cissé í fyrri hálfleik, ekki spurning. Í seinni hálfleik var Harry Kewell síðan allt í öllu hjá Liverpool. Kewell var þó seinn í gang og Cissé týndist aðeins í seinni hálfleik og kom það í raun fáum á óvart að hann skyldi vera tekinn útaf á 63. mínútu fyrir Sinama-Pongolle.

Cissé var frábær í fyrri hálfleik, en hann á samt augljóslega eftir að þurfa að nota nokkra fyrstu leikina til að venjast hraðanum aðeins. Hinn nýi leikmaðurinn okkar, Josemi, lék í hægri bakverðinum og spilaði mjög vel.

Reyndar var vörnin mjög góð mestallan leikinn, fyrir utan jöfnunarmark Tottenham þá virtist vörnin aldrei lenda í neinum vandræðum með sóknarlínu Spurs.

Miðjan var mjög öflug í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik duttu þeir Hamann, Gerrard og Finnan alveg út úr leiknum … á sama tíma og Kewell bar liðið algjörlega uppi langtímum saman í seinni hálfleik. Þetta er augljóslega eitthvað sem verður að laga og hef ég fulla trú á að Benítez vinni í þessu, bæði á æfingasvæðinu næstu vikuna og væntanlega með því að kaupa menn eins og Xabi Alonso, Antonio Nunez og Luis García til liðsins.

Nú, vonbrigði leiksins að mínu mati var Milan Baros. Hann komst því miður aldrei í takt við þennan leik. Það þarf þó ekki að örvænta, hann þarf kannski einn-tvo leiki í viðbót til að komast í takt við nýju leikaðferð liðsins, auk þess sem hann og Cissé eru enn að venjast og kynnast hvor öðrum þarna frammi. Þannig að þetta kemur allt með tímanum.

Hitt er svo alveg ljóst að ef þetta var ‘byrjendabragurinn’ hjá Liverpool, og við gerum ráð fyrir að liðið muni bara bæta sig með hverjum leik sem það leikur, þá erum við í góðum málum … því þetta var mjög góð frammistaða, þá sérstaklega í fyrri hálfleik!

Sem sagt, stórmeistarajafntefli í fyrsta leik tímabilsins og Cissé strax kominn á blað. Fín byrjun hjá liðinu og héðan liggur leiðin aðeins upp á við.

Það er ein vika í næsta leik liðsins, sem er laugardaginn næstkomandi. Þá tekur Anfield Road í fyrsta sinn á móti Rafael Benítez, og væntanlega verða Josemi og Djibril Cissé ekki einu Liverpool-leikmennirnir sem verða að spila þar í fyrsta sinn næsta laugardag! 🙂


Viðbót (Einar Örn): Er nýkominn heim eftir að hafa horft á leikinn í Smárabíó í boði Skjás Eins. Það er nokkuð skemmtilegt að horfa á fótboltaleik í beinni á bíó tjaldi og mætti bjóða uppá þetta oftar. Ég var þó ekki hrifinn af Liverpool, sérstaklega í seinni hálfleik.

Ég er alveg ferlega ósammála þér Kristján varðandi hann Milan Baros. Hann átti vissulega ekki sinn besta leik, en hafa verður í huga að helmingurinn af miðjunni var alveg fullkomlega getulaus í þessum leik.

Að mínu mati voru það þrír menn, sem voru lang slappastir í þessum leik og ég vona að Benitez verði búinn að koma þeim öllum útúr liðinu fyrir næsta leik.

Didi Hamann: Fyrirgefið, en við bara hreinlega getum ekki spilað skemmtilegan bolta með þennan sleða í liðinu. Hann er ALLTOF seinn, og skapar nákvæmlega ekki neitt fyrir liðið. Skoðið bara leikina á undirbúningstímabilinu. Alltaf þegar við spiluðum skemmtilega var Hamann á bekknum. Það er engin tilviljun.

Við þurfum ekki fimmta varnarmanninn, heldur vantar okkur mann, sem getur gert eitthvað annað en að vinna boltann fyrir framan okkar vítateig. Jurgen Klinsman er [búinn að átta sig á þessu og valdi ekki Hamann í landsliðið](http://www.itv-football.co.uk/News/story_121759.shtml) (það segir ansi mikið, því þýska liðið er ömurlegt). Benitez virðist að vissu leyti átta sig á þessu, en samt þá þorði hann ekki að taka áhættuna í þessum leik og byrja með Biscan. Vonandi verður Xabi Alonso í liðinu næsta laugardag.

Steve Finnan: Er ekki kantmaður og því svosem ekki mikið hægt að skammast útí hann. Verðum að finna betri lausn á hægri kantinum.

Jerzy Dudek: Mjög slappur í þessum fyrstu tveim leikjum. Á móti Graz og Tottenham hefur hann (að mig minnir) fengið á sig TVÖ skot og er strax búinn að fá eitt mark á sig. Í Graz leiknum missti hann boltann klaufalega í úthlaupi (einsog gegn ‘Boro hérna um árið) og hann gefur manni ekki mikið sjálfstraust.

Markið, sem hann fékk á sig í dag var ÖMURLEGT. Alvöru markvörður Á AÐ VERJA SKOT Á NÆRSTÖNGINA í svona stöðu!!! Gefum Kirkland séns. Gerarrd Houllier var allavegana búinn að átta sig á því að Kirkland er miklu betri, en Benitez hefur ekki enn fattað það. Nokkur svona bjánamistök hjá Dudek í viðbót og þá áttar hann sig.

Ok, þetta var fyrsti leikurinn og það á White Hart Lane, sem er óhappavöllur, en ég er samt verulega vonsvikinn (einsog fólk ætti að hafa getað lesið útúr skrifum mínum). Liðið hætti hreinlega að spila fótbolta í seinni hálfleiknum. Mjög lélegt. Það vantaði allan kraft og baráttu í seinni hálfleiknum. Þetta verður að lagast!

4 Comments

 1. Ég er sátt, þrátt fyrir að sigur hefði að sjálfsögðu verið betri. En ég var sátt… :biggrin:

 2. Hmm… Vissulega blendnar tilfinningar eftir leik dagsins. Í fyrsta lagi fannst manni í fyrri hálfleik að leikur liðsins sé að breytast til hins betra. Við erum að nota kantana mikið meira og það komu allnokkrir krossar inn í boxið, ólíkt því sem gerðist í fyrra.

  Það var auðvitað frábært að Cisse skyldi skora og brjóta ísinn svona í fyrsta leik. Auk þess fannst mér hinn nýliðinn, Josemi, gera ansi fína hluti. Þó er ljóst að báðir eiga þeir eftir að komast betur inn í enska leikinn og sem dæmi um það þá á Cisse greinilega eftir að læra að hann getur ekki hangið á boltanum mjög lengi áður en tæklingarnar koma fljúgandi. Manni fannst hann á stundum vera heldur lengi að skila boltanum frá sér.

  Seinni hálfleikurinn var svo eins og hann var – Back to the future eiginlega. Sátum aftar og biðum eftir að þeir sæktu á okkur. Ekki vænlegt til árangurs eins og við ættum að vita svo vel. En Rafa og Gerrard eru sammála því í viðtölum eftir leikinn að seinni hálfleikurinn hafi ekki verið nógu góður, og það er spurning hvort Graz leikurinn hafi staðið í okkar mönnum.

  Einnig fannst mér áberandi í leiknum hvað við erum með marga hæga leikmenn. Það vantar alveg hraða á hægri kantinn og Didi ásamt miðvörðunum er ekki nógu fljótur.

  Um einstaka leikmenn hef ég þetta að segja:

  *Dudek* fannst mér ekki alveg nægilega öruggur og alveg spurning að mínu mati hvort hann átti eitthvða í markinu. Reyndar var nú hendi á Defoe ( :wink:) en manni fannst svona að Dudek hefði getað gert betur. Verður að gera betur ef hann ætlar að halda Kirkland í kuldanum.

  *Rise og Josemi* fannst mér spila bærilega og Josemi var að mínu mati einn af okkar betri mönnum í síðari hálfleik. Hann mætti þó vera aðeins duglegri að fara fram, en þó skal hafa það í huga að í sl. tveimur leikjum hafa vinstri kantarar andstæðinga okkar verið svona þeirra bestu menn og því kann að vera að Josemi spili viljandi meira til baka en hann kynni annars að gera. Sjáum til. Rise var duglegur að fara fram, en því miður kom bara voðalega lítið út úr því fannst mér.

  *Carra og Hypiia* voru svosem ágætir. Þeir þurfa þó að slípast betur. Ekkert sérstaklega snöggir, þeir félagarnir, og spurning hvort það muni koma okkur í koll.

  *Finnan* fannst mér eiga margar góðar sendingar og hornspyrnur í leiknum. Var sæmilega duglegur og svona. En hann er enginn kantmaður – ekkert sérstaklega fljótur og ég held að hann hafi hreinlega ekki einu sinni í leiknum tekið menn á. Kantmenn þurfa að geta tekið menn á.

  *Kewell* sást ekki mikið í fyrri hálfleik en var góður í þeim síðari. Fann sig þó ekki þegar hann var setur þarna fram eða kannski ætti ég frekar að segja fyrir aftan strikerinn. Á samt fullt inni.

  *Gerrard* var góður í fyrri hálfleik og átti að fá víti. Duglegur að dreifa spilinu og svona. Sást svo ekki mikið í þeim síðari – ólíkt honum að hverfa svona. Hins vegar þá var hann búinn að lenda illa í tæklingum allan leikinn og það hefur örugglega dregið úr honum. Skil ekki að Redknapp hafi ekki bara fengið rauða fyrir brotið þarna í fyrri hálfleik. Rugl.

  *Hamann* spilaði bærilega. En hins vegar skil ég ekki hvað maður eins og hann er að gera í byrjunarliði Liverpool. Hann er fenginn til að vinna boltann – gott og vel og hann er frábær í því. En sóknarlega er hann dragbítur. Ekkert flókið. Við þurfum tvo miðjumenn sem geta sótt. Punktur. Biscan kom inn fyrir Hamann og náði svosem lítið að sýna.

  *Cisse* skoraði markið. Byrjar vel. Annars verð ég að vera sammála því að hann hafi virkað þreyttur og þess vegna verið tekinn út af. Hann var lítið í boltanum í seinni hálfleik. Pongolle kom inná fyrir hann og var bara í ruglinu. Mætti þakka fyrir að hafa hangið inná – steig á Davis og sparkaði í hné Edman. Það var hans eina framlag.

  *Baros*. Hvað getur maður sagt? Fyrsta snerting sveik hann trekk í trekk og hann virðist ekki alveg vera kominn í stuð. Spurning hvort hann þurfi ekki bara aðeins fleiri leiki. Reyndar átti hann svo gott færi þegar Finnan lagði boltann út á hann í fyrri hálfleik og auk þess átti hann flottann samleik við Kewell tvisvar sinnum (fyrst þegar hann lagði boltann út á Gerrard og svo þegar hann lagði boltann aftur á Kewell inn í teig og Kewell komst næstum því í gegn). Var skipt útaf fyrir Warnock, sem gerði svosem ekkert merkilegt, en leit ágætlega út.

  Bottomline: Fannst við hefðum átt að vinna, en það var bara ekki niðurstaðan því miður. Sjáum til hvað setur í næsta leik.

 3. Ég er ekki sammála þér Einar, mér fannst þetta alls ekki svona dimmt og drungalegt í seinni hálfleik. Jújú, við bökkuðum allt of mikið og hættum að sækja en Benítez sagði að það væri af því að þeir voru að spila svo mikið af háum og löngum boltum, sem héldu varnarlínunni okkar fastri of aftarlega á vellinum.

  Það er bara taktískt atriði sem Benítez á eftir að laga. Og varðandi markið hjá Dudek þá er vænlegast að markmenn verji skot í nærhornið … en í þessu tilfelli verður að hafa það í huga að Defoe var einn og óvaldaður með topp-skotfæri á markteignum. Það er erfitt fyrir markmann að verja svoleiðis skot, alveg sama hvert á markið skotið fer.

  Finnan er enginn kantmaður, það er vitað mál, en í dag var hann okkar skásti kostur á hægri vænginn. Það lítur allt út fyrir að Antonio Nunez komi inn á þennan væng í næsta leik og þá fáum við að sjá hvort 8m+Nunez var allt of lítið verð fyrir Owen eða bara ágætis díll. Finnan er í raun bara búinn að vera að kóvera þessa stöðu því það getur það enginn annar, og því neita ég að skamma hann fyrir að hafa ekki verið frískur fram á við.

  Hvað Hamann varðar er ég nokkuð sammála þér, án þess þó að sjá ástæðu til að kalla hann sleða. Hann vann fullt af boltum og fullt af tæklingum fyrir okkur í dag og er enn rosalega mikilvægur, okkar besti varnarsinnaði miðjumaður í dag. Mér finnst Hamann ómissandi í leiki eins og erfiða útileiki þar sem við gætum þurft að verjast og vera þolinmóðir.

  Þetta var hins vegar ekki einn af þeim leikjum. Í þessum leik, miðað við fyrri hálfleikinn, áttum við að geta sótt fast að þeim í 90mín. og unnið sannfærandi sigur. Því hefði verið vænlegast að hafa mann á miðjunni með Gerrard sem er betri fram á við en Hamann er.

  Biscan er betri fram á við en Hamann, og ég hélt að Benítez myndi velja Biscan í liðið í dag en úr því Hamann spilaði vel á þriðjudaginn hefur Benítez væntanlega gefið honum annan séns.

  Það gerist væntanlega ekki aftur. Xabi Alonso verður væntanlega kominn í þessa stöðu eftir viku … en ef hið ómögulega gerist og Real “we have no respect for other teams whatsoever” Madríd ræna honum þá myndi ég allavega vilja sjá Biscan koma þarna inn.

  En jæja. Margt jákvætt í þessum leik og líka nokkuð neikvætt. En ég neita að vera hundfúll og reiður yfir þessu, Einar, því ég veit að Benítez hefur núna viku til að laga það sem fór aflaga á æfingasvæðinu. Næst þegar menn ganga inn á völlinn verður það í 7-dögum betra formi, betra leikskipulagi og annað slíkt.

  Auk þess sem við höfum væntanlega tvo nýja leikmenn í liðinu, þá Nunez og Xabi Alonso. Og þá sjáum við hvernig til tekst. Við vissum alltaf að Benítez myndi þurfa meiri tíma en bara einn mánuð af undirbúningstímabili til að breyta þessu liði í meistaralið og því á það ekki að vera ástæða til þunglyndis að liðið lék illa í 45 mín. í dag, Einar. 😉

  Og Evah … gott framtak hjá þér. Kannski maður gefi hverjum leikmanni fyrir sig einkunn í næstu leikskýrslu? Það má íhuga það… 🙂

 4. Einn punktur enn – er búin að vera að lesa svona hvað Rafa hefur um þennan leik að segja. Hann er svona nokk sáttur við eitt stig og jara jara.

  En hins vegar finnst manni hann ekki vera með neinar afsakanir. Hann tók Cisse og Baros út af og útskýrir af hverju hann gerði það – þeir voru (að hans mati) þreyttir. Þeir kynnu að vera ósammála því, sagði Rafa, en hann sagði þetta vera sína ákvörðun og hann stæði við hana.

  Hann er líka greinilega meðvitaður um það sem flestir áhangendum finnst – fyrri hálfleikur var ágætur, en seinni hálfleikur ekki.

  Ef GH væri enn í brúnni þá hefði maður búist við kommentum á borð við: “við hefðum átt að fá tvö víti”, “það var hendi á Defoe þegar hann skoraði” og jara jara. Að minnsta kosti bara komment á það hvernig dómarinn/völlurinn/boltinn hefðu verið þess valdandi að við náðum ekki að landa sigri.

  Ekki misskilja – Houllier gerði margt ágætt skilst manni (æfingaraðstaðan, afnám Spice-boys ímyndarinnar o.s.frv.) og það er alveg rétt að Defoe tók hann með hendi og það átti að minnsta kosti að vera víti þegar Gerrard var togaður niður. En það er samt ágætt að vita að stjórinn átti sig á því að það sé pláss fyrir endurbætur og að það sé ekki alltaf einhverjum öðrum en liðinu/stjóranum um að kenna þegar ekki gengur eins og best verður á kosið.

  Svo var ég að pæla í einu; þegar það var brotið á Baros og við fengum aukaspyrnu rétt utan við teiginn – er ég að muna rétt þegar mér finnst eins og Biscan hefði verið með svipað brot gegn Marseille (var reyndar aftastur) og fékk rautt og Marseille víti, þó að brotið hefði byrjað utan teigs? Er ég kannski bara eitthvað að rugla?

T’ham – L’pool: Upphitun

Dioufy til Bolton