Benítez staðfestir söluna á Owen!

Staðfest: Benítez segir að Owen sé búinn að semja við Madríd!

Ég hef svo sem ekki miklu við þetta mál að bæta. Einar skrifaði frábæra grein um tilfinningar okkar Liverpool-manna til Owen í gær. Hann hefur verið markahæsti maður liðsins sex ár í röð, gefið okkur ótal minningar og munum við ávallt minnast hans með hlýhug. Og hver veit nema hann snúi aftur einhvern tímann í framtíðinni? En sumarið í sumar hefur verið tími breytinga og sem slíkt þá er maður ekkert að tapa sér í svartsýni yfir brottför Owens. Við vissum að hann myndi á einhverjum tímapunkti fara til Evrópu að spila fyrir annað lið, hann var alltaf búinn að segja það sjálfur. En, eins og Einar sagði, þá kannski gerði maður ekki ráð fyrir að það yrði strax.

En hann er farinn og því fór sem fór. Eftir situr Liverpool með þrjá frábæra framherja: Djibril Cissé, Milan Baros og Florent Sinama-Pongolle. Þeir eiga reyndar allir eftir að sanna sig sem markaskorarar í Úrvalsdeildinni, en ég hef í raun ekki miklar áhyggjur af þeim. Cissé er bara of góður til að verða að einhverju klúðri í deildinni og ég held að maður eins og Milan Baros muni springa út nú þegar hann er orðinn fyrsti kostur í byrjunarliðið með Cissé … og ef Baros fær núna kannski að spila fullt af leikjum í röð og festa sig í sessi í spili liðsins á ég fastlega von á að hann verði að ómissandi leikmanni fyrir liðið!

Hvað fengum við svo fyrir Owen? Þökk sé því að hann er fjórum mánuðum frá því að semja frítt við hvaða félag sem er getum við verið þakklát fyrir 8m-punda og leikmann í staðinn. En hvaða leikmaður er þessi Antonio Nunez svo sem?

Skv. ferilskrá hans hjá UEFA.com er honum lýst sem náttúrulegum arftaka Figo hjá Real Madríd. Hann kom til þeirra fyrir þremur árum en hefur ekki náð að koma sér inn í byrjunarliðið. Ég man eftir nafninu svona í svip en verð að viðurkenna að ég get engan veginn dæmt það hvernig leikmaður hann er. Það verður að koma í ljós hvað hann getur, en hann er í það minnsta hægri kantmaður skilst mér og er það gott mál. Þá eigum við a.m.k. einn slíkan!

Nunez á erfiða baráttu fyrir höndum, þar sem hann kemur “í staðinn fyrir” gulldrenginn Michael Owen. Það er erfiður skuggi að bera á bakinu en ég vona að hann nái að hrista það af sér á næstu vikum og sýna okkur að við getum fagnað því að hafa fengið hann. En þangað til hann sýnir okkur ástæðu til að halda annað get ég lítið annað en yppt öxlum yfir þessum leikmanni og sagt: So what?

Kannski er þetta nýjasta Kop-hetjan hjá Liverpool-liðinu? Eða er þetta kannski nýr Cheyrou-gaur, sem gerir ekkert af viti og fer eftir tvö ár? Kemur í ljós.

E við gerum ráð fyrir að peningurinn frá Owen-sölunni tryggi kaupin á Xabi Alonso, sem ég vona að verði tilkynnt opinberlega í dag, þá hlýtur spurningin að vera hvað verður um fyrirhuguð kaup á Luis García, úr því að við erum komnir með hægri kantmann í Nunez. Ætlar hann að kaupa þá báða? Kemur í ljós …

En allavega, dagurinn í dag er skrýtinn. Ég er að farast úr spenningi og bjartsýni fyrir fyrsta leik á morgun, en á sama tíma ríkir hjá manni mikil óvissa því að Liverpool voru að missa eina leikmanninn sem var pottþéttur 20+ marka maður í vetur. Vonandi valda Cissé og Baros okkur ekki vonbrigðum. Baros vildi fá stóra tækifærið og nú fær hann það!

Framhaldið er undir honum komið.

4 Comments

 1. Póstur sem ég var að fá frá ‘púlara:
  Explaining Owen’s Decision:
  If you are going to be sitting on the bench, you would rather do it in the warmth of Spain wouldn’t you?
  Og það held ég sé laukrétt. Owen hefði orðið 3ji striker hjá ykkur í vetur. Og verður 3ji eða 4ði hjá Real. Og 9 millur plús maður er bara fínn díll fyrir ‘púl.
  Mun samt auðvitað ekki gráta það ef Cissé og Baros spila eins og fífl í vetur

 2. Ég held nú að Owen hefði lítið setið á bekknum, einfaldlega vegna þess að hann er Michael Owen. Hjá Liverpool hefði hann oftast verið í aðalliðinu.

  En kannski er þetta gott fyrir hann núna. Hann hefur verið með öruggt sæti í Liverpool liðinu og enska landsliðinu síðust 5 árin. Kannski eflist hann allur þegar hann er ekki lengur framherji númer 1 og þarf að fást við samkeppni um stöður.

 3. Já ég felli sorgartár í dag vegna þessarrar sölu!! En stutt er samt í brosið þegar ég hugsa um tímabilið sem er í vændum og einnig að CL sætið er 95% öruggt!

  Allir á mini Anfield í fyrramálið, Ölver!!
  YNWA!

Owen til Real Madrid fyrir 8 milljónir punda

T’ham – L’pool: Upphitun