Liverpool 0 – Porto 1

Zak WhitbreadFyrst: Vladimir Smicer verður frá í sex mánuði!!!

Og þar með tel ég að ferli hans hjá Liverpool sé að ljúka. Samingur hans við liðið rennur út næsta sumar og tel ég víst, þótt hann gæti náð að spila einhverja leiki eftir áramót ef hann kemst þá í liðið, að honum verði tjáð það í vetur að samningurinn verði ekki endurnýjaður. Hvað get ég sagt, sumir eru óheppnari en aðrir…?


En allavega, leikurinn í kvöld. Þar sem þeir hjá SÝN töldu mikilvægara að menn horfðu á útbrunnan bandarískan “boxara” – Mike Tyson – berjast við óþekktan Breta í heilar 20 sekúndur eða eitthvað álíka en að menn horfðu á Liverpool FC og Porto spila í Ameríku þá skellti maður sér bara yfir á Ölver og naut þess að horfa þar á leikinn í beinni, í góðra vina hópi.

Nú, þetta var annar leikurinn í þessu svokallaða Champion’s World-móti í USA/Kanada. Við unnum Celtic, 5-1, á aðfaranótt þriðjudags en í kvöld biðum við lægri hlut gegn Porto, 1-0.

Hvað get ég sagt um þessi úrslit? Það er hálf erfitt að fjalla um svona leik, en ég ætla að reyna. Byrjunarlið kvöldsins var sem hér segir:

DUDEK

CARRAGHER – HYYPIÄ – WHITBREAD – WARNOCK

MURPHY – GERRARD – HAMANN – RIISE

OWEN – CISSÉ

Nú, okkar menn byrjuðu þennan leik af sama krafti og einkenndi sigurinn á móti Celtic en munurinn var einfaldlega sá að andstæðingarnir í kvöld eru aaaaaaðeins betri á knattspyrnuvellinum en skosku meistararnir. Um er að ræða Evrópumeistara Porto frá Portúgal og ekki láta það plata ykkur að Mourinho sé farinn að þjálfa Chelsea og þeir hafi selt þrjá-fjóra af sínum stjörnum. Þeir hafa fengið góðan þjálfara í staðinn – Luigi Del Neri sem þjálfaði Chievo Verona á Ítalíu í fyrra – og nokkra hörkuspilara í stað þeirra Deco, Paulo Ferreira, Ricardo Carvalho og Nuno Valente sem fóru frá liðinu í sumar.

Leikurinn einkenndist af tvennu, að mínu mati: Miðjubarátta og óþarfabrot. Það var kannski ekki mikið um gróf brot í þessum leik en menn voru talsvert ‘dirty’, stundandi peysutog, hrindingar og aftaníkrækjur villt og galið út um víðan völl. Þá er ég aðallega að tala um Portúgalina en okkar menn voru þó ekki alsaklausir. Þetta fannst mér drepa leikinn svolítið niður og hindra það að hann kæmist almennilega í gang.

Um frammistöðu liðsins er svo sem fátt að segja. Við vorum ekki lélegir í kvöld en heldur ekki góðir, og því síður frábærir eins og gegn Celtic. Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kom upp einhver misskilningur á milli þeirra Hyypiä og Whitbread og í stað þess að skalla fyrirgjöf frá marki fóru þeir báðir upp í boltann, sem hrökk fyrir markið og þaðan til Carlos Alberto, hins unga brasilíska kappa, sem setti hann í tómt markið. 1-0 fyrir Porto og urðu það lokatölur leiksins.

Ef þetta hefði verið leikur í riðlakeppni Meistaradeildar væri ég alveg brjálaður núna. Einfaldlega af því að við vorum klaufar að skora ekki í þessum leik, þrátt fyrir að hafa ekkert verið að gera góða hluti sóknarlega gátum við alveg verið búnir að skora tvö-þrjú mörk bara fyrir hlé. Þá vorum við alls ekki lakari aðilinn í þessum leik og því væri tapið rosalega sárt – ef það skipti einhverju máli.

En þar sem við erum ekki að spila í riðlakeppni Meistaradeildarinnar heldur bara æfingaleik í Ameríku, þá var þetta allt í lagi. Jafnvel bara nokkuð jákvætt, því að í þessum leik mættu á svæðið gamalgrónir veikleikar sem hafa undanfarin ár háð þessu liði allt of mikið. Og það var bara jákvætt að Benítez skyldi fá að sjá þá núna strax, svo hann viti nákvæmlega hvað þarf að laga hjá þessu liði, frekar en þegar í alvöruleikina er komið í ágúst.

Gallarnir:

1: Eftir sigurleikinn gegn Celtic talaði Benítez um það að liðið næði ekki að halda boltanum nógu vel sín á milli, næði ekki að spila nógu mörgum sendingum í einu, og það var vissulega uppi á teningnum í kvöld.

2: Löngu sendingarnar. Lesist: lööööööngu sendingarnar innfyrir á Owen, Baros, Cissé og/eða Pongolle sem eru gjörsamlega vonlausar. Og hvað þá 30 sinnum í leik. Það er eitthvað við þessa leikmenn, þegar þeir eru undir pressu og á móti blæs þá panikka þeir, hætta að þora að spila boltanum með jörðinni og bara dúndra honum aftur og aftur og aftur og aftur inn fyrir varnarlínuna á framherjana. Það er bara svo auðvelt að verjast þessu því það eiga allir von á þessu.

3: Léleg nýting á marktækifærum. Ókei, við lágum ekkert í færum í þessum leik en við fengum samt alveg 4-6 góða sénsa á að skora og nýttum ekkert þeirra. Reyndar efast ég um að Vítor Baía hafi þurft að verja einn einasta bolta í öllum leiknum. Dauðafærin fóru öll rétt yfir, rétt framhjá eða bara ekki neitt (Cissé var í dauðafæri en sparkaði út í loftið í fyrri hálfleik).

Jæja … en þetta eru allt hlutir sem Benítez hefur tekið eftir og mun laga. Sjáið til. Það bara tekur tíma … þótt liðið hafi unnið Celtic 5-1 þá eru þeir ekki enn orðnir meistarar. Og eiga svolítið í land með það. En þetta er allt á jákvæðri leið, við þurfum bara að gefa Benítez smá þolinmæði.

Nú, það var sumt jákvætt í leiknum. Leikmennirnir eru til að mynda allir í fantaformi. Það er greinilegt að fitness-þjálfunin hjá Paco Ayesteran er að skila sínu! Menn voru allir að sýna frábæra vinnslu og yfirferð í leiknum, þó fáir meiri en John Arne Riise sem virðist geta hlaupið heim til Noregs og til baka ef honum sýnist þessa dagana. Gaman að sjá að menn eru í toppstandi, líkamlega.

Þá finnst mér vert að nefna einn leikmann sem stóð sig vel í kvöld. Liðið var mjög jafnt allan leikinn, engir yfirburðamenn en heldur engir slakir. Þetta var bara svona meðalframmistaða hjá liðinu, nærri því hverjum einasta manni.

Þó var einn sem mér fannst vart stíga feilnótu í leiknum og spilaði eins og engill. Og það var Bandaríkjamaðurinn Zak Whitbread, sem lék fyrir hálfleikinn í miðverðinum með Hyypiä en seinni hálfleikinn í vinstri bakverðinum. Hann var mjög ferskur í þessum leik og bankar greinilega á dyrnar á aðalliðinu í vetur.

Í seinni hálfleik var liðið síðan svona:

DUDEK

CARRA – HENCHOZ – HYYPIÄ – WHITBREAD

FINNAN – DIAO – BISCAN – KEWELL

BAROS – PONGOLLE

Glöggir menn sjá hér að Jerzy Dudek spilaði allan leikinn, sem hentar því Kirkland spilaði allan leikinn gegn Celtic. Það verður gaman að sjá hver verður í markinu á þriðjudagskvöldið n.k. gegn Roma.

Þá var Benítez greinilega að prófa nokkra hluti í þessum leik. Hann prófaði að hafa Riise á kantinum í fyrri hálfleik og prófaði Finnan á hægri kanti í seinni hálfleik. Þá er hann greinilega að sjá hvaða framherjar passa best saman – gegn Celtic spiluðu Cissé og Pongolle saman og Owen og Baros saman. Geri þá væntanlega ráð fyrir að gegn Roma spili Owen/Pongolle saman hálfleik og Cissé/Baros saman einn hálfleik.

Jæja … eins og ég segi, úr því að þetta var bara æfingaleikur þá var þetta víst í lagi. Gott fyrir Benítez að sjá fyrsthendis hvað þarf að laga hjá liðinu. Þetta var erfiður leikur gegn sterku liði en það verða margir svoleiðis leikir í vetur, bæði á Englandi og í Evrópu, þannig að það þarf að halda áfram að vinna í þessum málefnum.

Tap … en engin örvænting. Er það ekki bara? Rafael Benítez virðist allavega ekki örvænta í viðtali eftir leikinn:

>It was a typical pre-season match. The two teams both worked hard and both sides had opportunities to score. I thought we played better in the first 30 minutes of the first half.

>Porto are champions of Europe and a very good team and like to play quick attacking football. We wanted to try a few things and in pre-season it was always my intention to make six changes at half time. I wanted to give the other players a chance and try different things and get to know them better.

Nákvæmlega. Hann er bara að þreifa sig áfram með liðsuppstillingar, taktík og annað slíkt. Þá er hann bara að kynnast leikmönnunum líka, sjá hver þeirra takmörk eru og þeirra styrk- og veikleikar. Þetta kemur allt saman með tímanum.

Ein athugasemd

  1. Fínn pistill og sammála flest öllu, nema……Zak Whitbread. Hann spilaði alls ekki illa, en heldur ekkert sérstaklega vel. Hann var að hleypa andstæðingunum frekar ódýrt í gegnum sig vinstra og var það frekar áberandi og, jú, hann og Hyypiä misskyldu hvorn annan í aukaspyrnunni. Þetta er aftur á móti í góðum málum því að þetta var vináttuleikur og vill maður frekar sjá svona mistök í þeim heldur en í keppni. Zak Whitbread, enginn er óbarinn biskup 🙂

Benitez um Diouf

Benítez viðurkennir hugsanleg kaup