Föst skot?

Ég veit að Liverpool er ekki í tísku hjá Morgunblaðinu. Á meðan að leikmannakaup og þjálfaramál hjá “toppliðunum þremur” verða að heilsíðufrétt, þá er minnst á Liverpool mál í hliðardálkum.

Mér fannst þó verulega athyglisverð þessi fyrirsögn hjá Mogganum í morgun: [Föstum skotum skotið á Chelsea](http://www.mbl.is/mm/frettir/show_framed_news/?cid=3&nid=1095596).

Þarna er viðtal við Rick Parry, þar sem hann lýsir því að með liðsheildinni geti Liverpool unnið titilinn og að þeir geti ekki leyft sér að eyða peningum einsog Chelsea. Má ég biðja einhvern um að benda mér á þessi “föstu skot á Chelsea”? Eru það skot að Parry viðurkenni að Liverpool geti ekki eytt jafnmiklum pening og Chelsea?

Ein athugasemd

 1. Jamm, Liverpool er ekki í tísku hjá Morgunblaðinu. Og ekki heldur hjá Valtý Birni, sem stjórnar flottum spjallþætti um íþróttir á Skonrokki í hádeginu. Þeir eru alltaf fjallandi, á hverjum degi, um Utd, Arsenal og Chelsea en það þarf alltaf einhvern sem hringir inn og spyr um L’pool til að þeir fari að fjalla um þá. Og já, ég hef tekið eftir þessu með Moggann líka. Fáránlegt, en mér er svo sem sama.

  Ég held að þetta megi alveg túlkast sem skot á Chelsea. Í raun mætti samt alveg skjóta þessu á ManU, Liverpool og slík lið líka. Við höfum ekki beint verið sparsamir síðustu árin, né United. Og því síður Chelsea. Samt voru Arsenal-menn ljósárum á undan okkur öllum á síðasta tímabili.

  Það skiptir bara miklu meira máli hver er að þjálfa þessa gæja heldur en hvaða gæjar þetta eru. Hvernig gæti maður annars útskýrt það að Grikkland, með engar stjörnur, hafi unnið Frakka, Portúgali (tvisvar) og Tékka á EM? Hvernig útskýrir maður annars að Valencia hafi endað fyrir ofan Real í vetur? Hvernig útskýrir maður annars að Porto hafi unnið Meistaradeildina?

  Talandi um Porto. Ég hef ekki áhyggjur af því að Chelsea séu að kaupa. Þeir mega gera það mín vegna. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að þeir séu komnir með þjálfara sem er líklegur til að breyta þeim mannskap sem hann hefur, hvaða mannskapur sem það er, í meistaralið. Ef ég væri Parry hefði ég áhyggjur af því … þ.e.a.s. ef við hefðum ekki verið að fá annan slíkan þjálfara.

  Þannig að föst skot? Neibb, lítum í eigin barm áður en við skjótum á aðra. En góðir þjálfarar? Jamm, og ef eitthvað er þá ætti það að vera Ferguson og Wenger áhyggjuefni að sjá fram á baráttu við Benítez og Mourinho á næstu árum.

  Þetta verður roooooosalegt mót í vetur!

Leikmannafréttir.

Af hverju hata menn Diouf?