Liverpool 5 – Celtic 1 (uppfært)

_40424355_cisse203.jpgJahá, þvílíkur leikur. Gaupi lýsti þessu í beinni á Sýn og hálfpartinn missti sig yfir hinu “nýja Liverpool-liði”, sem undir stjórn Benítez hefur eflaust komið mörgum á óvart í kvöld. Liðið var svo vel skipulagt, svo agað að það hálfa væri nóg. Þegar ég sá byrjunarliðið í kvöld grínaðist ég við Einar að það væri augljóst að einnar-snertingar-bolti væri á döfinni hjá Liverpool í kvöld … sagði það meira í gríni en alvöru, en á daginn kom að það var nákvæmlega það sem Benítez hafði í huga.

Byrjunarliðið:
Kirkland
Finnan|Hyypiä|Carragher|Riise
Smicer|Hamann|Biscan|Kewell
Owen|Baros

Viti menn? Igor Biscan var bara virkilega frick’n góður í þessum leik. Verulega góður, út um allan völl vinnandi bolta, étandi menn lifandi og takandi virkan þátt í sóknarleiknum. Hann lofaði bara rosalega góðu í þessum leik og kannski er hann bara sá leikmaður sem nær loks að uppfylla efnilegheit sín undir stjórn Benítez?

Annars var þetta flottur leikur, maður var ekki fyrr sestur en Riise hamraði inn einu úr aukaspyrnu eftir 3mín. eða svo. Tíu mínútum seinna átti hann 60-70 metra sendingu innfyrir vörn Celtic, hvar Michael Owen tók boltann yfir markvörðinn. 2-0 í hálfleik og Liverpool yfirburðalið í fyrri hálfleik.

Benítez gerði sex breytingar á liðinu í hálfleik: Henchoz inn fyrir Hyypiä, Diao inn fyrir Hamann, Gerrard inn fyrir Biscan, Murphy inn fyrir Smicer, Pongolle inn fyrir Baros og Cissé inn fyrir Owen. Þannig að ljóst er að við verðum að bíða aðeins lengur með að sjá Owen og Cissé spila saman.

En allavega, hafi liðið haft yfirburði í fyrri hálfleik þá var það enn verra fyrir þá skosku í seinni hálfleik. Liverpool hreinlega völtuðu yfir skosku meistarana í seinni hálfleik og unnu hann 3-0 … fyrir utan vítið sem var ekki víti en þar sem þetta var æfingaleikur þá nennti enginn að væla í því.

En hverjir skoruðu mörkin í seinni hálfleik? Jú, Djibo stimplaði sig inn með flottri tvennu og eins og bróðir minn sagði, þá var eins og hann væri bara á 60% hraða í báðum mörkum … þrátt fyrir að vera að stinga sér innfyrir vörn Celtic-manna. Hversu fljótur er þessi gæji? Hversu rosalegur er hann þegar hann virkilega gefur í? Æðislega gaman að sjá hann skora fyrir Liverpool … biðin er á enda! 🙂

En þá kemur að hápunkti leiksins; fjórða markinu. Það tilheyrði nefnilega manni sem losnaði loks við þær martraðir að verða að eilífu nefndur í sömu andrá og Rob “Trigger” Jones, sem einn af fáum leikmönnum Liverpool sem höfðu aldrei skorað mark fyrir liðið.

Já, ég segi það og skrifa: STEPHANE HENCHOZ skoraði fjórða mark Liverpool í kvöld. Reyndar heppnisstimpill yfir þessu marki en engu að síður, gaman fyrir hann að ná loksins marki og menn fögnuðu honum vel á vellinum. Frábært alveg.

Ég veit ekki alveg hvort þessi leikur gefur falska öryggiskennd eða ekki. Celtic eru greinilega enn að jafna sig eftir að hafa misst Larsson til Barca, og þeir voru án Martin O’Neill þjálfar síns í þessum leik en hann er heima í Skotlandi að hjálpa konu sinni að berjast við krabbamein. Óskum henni skjóts bata.

Hins vegar gátu þeir stillt upp sínu sterkasta liði og höfðu þegar spilað einn leik í þessu móti, og áttu því að geta verið einbeittari en Liverpool-liðið sem var eflaust enn að venjast tímamismuninum, auk þess sem fimm af ellefu byrjunarliðsmönnum Liverpool í kvöld voru að spila sinn fyrsta leik eftir að hafa fengið frí eftir EM 2004.

Því kom það svo mikið á óvart hversu miklu, miklu betri okkar menn voru í kvöld. Það verður spennandi að sjá hvort þeir geta haldið þessu áfram en næsti leikur er um helgina gegn Evrópumeisturum Porto. Þangað til að þeim leik kemur getum við yljað okkur við frammistöðuna í kvöld, sem gaf tilefni til bjartsýni, og farið að sofa með markið hans Henchoz á replay í huganum. 🙂

Besti leikmaður kvöldsins: John Arne Riise, engin spurning. Ef hann spilar svona í vetur mun ENGINN taka af honum vinstri bakvarðarstöðuna. Þvílíkur leikur hjá þeim rauða!

Heiðurs-maður leiksins: STEPHANE HENCHOZ. Ójá! Æðislegt! Það sofnar einhver með frosið-brosið í kvöld maður … … … 😀 😀 😀

Frammistaða liðsins: Alveg 9,5 eða svo maður. Enn of snemmt að segja hvort þetta lið sé að fara að afreka eitthvað í vetur en af æfingaleik að vera var þetta déskoti massíf frammistaða! Bring on Porto … 😉


**Uppfært (Einar Örn)**: Ég hef ekkert alltof miklu að bæta við þessa fínu skýrslu hjá Kristjáni. Þó nokkrir athyglisverðir punktar.

Kirkland var í markinu allan tímann. Það hlýtur að segja okkur að hann verði markmaður númer eitt í vetur (nema þegar hann meiðist náttúrulega). Ég er ánægður með þetta. Ég tel að Kirkland sé sterkari markvörður en Dudek í dag og Kirkland mun bara verða betri.

Það er einnig gaman að fylgjast með Benitez á hliðarlínunni. Hann er mættur í æfingagallanum og er á fullu allan tímann. Houllier lét Thompson eftir að æpa á meðan hann sat þunglyndur á bekknum, en Benitez er öskrandi allan tímann. Virkaði vel á mig.

Baros var svakalega sprækur í leiknum. Hann lagði upp færi fyrir Smicer og var síógnandi. Varnarmenn í enska boltanum verða skíthræddir við hann í vetur, þannig að það mun losna meira um Cisse og Owen.

Það vantar enn hægri kantmann. Smicer var fínn í fyrri hálfleik, en ég var ekki nógu hrifinn af Murphy í þeim seinni (hann lagði þó upp tvö mörk, svo ég get nú varla kvartað mikið). Ógnunin var langmest upp vinstri kantinn, enda náðu Riise og Kewell vel saman.

Já, og svo verður maður náttúrulega að minnast á Biscan. Hann var virkilega góður í leiknum. Hann var eiginlega jafn góður og Diao var lélegur. Það verður spennandi að sjá hvort að Biscan eða Hamann munu verða með Gerrard inná miðjunni á móti Tottenham.

En ég er sammála Kristjáni, þetta var frábær leikur hjá okkar mönnum og þetta lofar svo sannarlega góðu fyrir leiktíðina!

2 Comments

  1. Ég er sammála ykkur kumpánunum í öllu og það sem kom mest á óvart er að Biscan er að spila sullandi vel enda kominn í rétta stöðu…LOKSINS! Leikmenn Liverpool voru eins og beljur að koma út úr fjósi á vorin…sprikklandi út um allan völl ákveðnir í að vinna leikinn og ekki bara það, heldur var boltinn markviss. Menn vissu svo sannarlega hvaða meining var að baki orðalaginu: “að sækja sem lið, verjast sem lið”.

    Kirkland er í markinu núna eflaust til að láta hann klára fullan leik en svo verður Dudek næst. Það er algjörlega tilgangslaust að hafa markvarðarskipti í leikjum og frekar betra að gefa þeim heilan leik til að dæma þá….en annað á við útileikmenn. Kirkland er samt góður markvörður þangað til hann meiðist næst…og hversu langt verður í það er ekki gott að segja en gefum því 2-3 vikur. :biggrin:
    Svo er önnur tugga sem er eflaust orðin gamalgróin en engu að síður vel pirrandi. Lýsandi leiksins fór gífurlega í pirrurnar á mér og að mínu mati eyðilagði leikinn með allri þessari vitleysu sem hann setti upp á borð. Ég get ekki beðið með að sjá og heyra leikina hjá S1 með ensku þulum! 😡

  2. er það ekki sækja sem lið,verjast sem heild :laugh:
    enn er baros ekki búinn að skora 😯 hann verður að fara skora nnars verður hann ekki í byrjunaliðinu eg meina cisse og owen báðir búnir að skora en baros ekkert en Hupi var snú að standa sig vel

Sander á leið frá Real Sociedad

Josemi skrifar undir! (staðfest)