Davids inn, margir út!

Jahérna … leikmannamarkaðurinn í Evrópu opnaði opinberlega á ný 1. júlí, eða fimmtudaginn síðastliðinn. Og það er þegar hellingur búinn að gerast í heimi þeirra Rauðu. Það helsta…

Bruno Cheyrou er farinn til Marseille (staðfest)! Jamm … hann fór víst á láni og verður allavega næsta tímabilið … en skynsemin segir mér að hann hafi nær örugglega leikið sinn síðasta leik í Liverpool-treyju. Good riddance…

Þá vill Markus Babbel komast heim til Þýskalands sem allra fyrst, og eru Kaiserslautern helst nefndir í því samhengi. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það – að vissu leyti finnst mér rosalega sorglegt hvernig endalok ferils hans hjá Liverpool urðu; hann fékk rautt spjald í varaliðsleik, Houllier fór í fýlu við hann og sendi hann í burtu og nú vill hann ekki koma nálægt Anfield aftur. Sem er sorglegt, því fátt hefði glatt mann meira fyrir rúmu ári síðan en að sjá Babbel koma aftur á Anfield í byrjunarliði Liverpool, frammi fyrir fullu húsi sem hefðu gefið honum höfðinglegar móttökur eftir þau erfiðu veikindi sem lömuðu feril hans veturinn 2001-2002. En það gerðist aldrei, hann fór til Blackburn og nú sé ég lítið vit í að halda honum hjá klúbbnum.

Markus fer þó vonandi með góðu og á þakkir okkar skildar. Hann var ómetanlegur á þrennutímabilinu, spilaði eins og engill og sýndi mjög sterkt hjarta í baráttu sinni við veikindin tímabilið þar á eftir. Hann var og er frábær leikmaður, einn af þeim betri sem hafa spilað fyrir Liverpool á síðasta áratug að mínu mati (sem varnarmaður þá hættir mér enn til að fylgjast sérstaklega með bakvörðunum og hvernig þeir vinna sína vinnu – og Babbel var í algjörum heimsklassa í þeim efnum!).

Þannig að Babbel og Cheyrou eru farnir eða við það að fara. Og eins og Einar sagði frá í gær er Diouf að öllum líkindum á leið frá félaginu. En það er ekki allt. Skv. áreiðanlegum heimildum The Mirror ætlar Rafa Benítez að hreinsa ærlega til á næstu vikum, og er talað um að allt að átta leikmenn gætu farið frá félaginu á þessum tíma, áður en yfir lýkur. Er almennt talið að þessir leikmenn sem um ræðir sem eru í hættu séu: Cheyrou (farinn), Babbel (að fara), Traoré, Biscan, Diao, Alou Diarra, Diouf, Gregory Vignal, Dietmar Hamann (vonandi í skiptum fyrir Hargreaves eins og rætt hafði verið um) … og jafnvel Vladimir Smicer!

Af þessum leikmönnum þá þætti mér ekkert hræðilegt ef Salif Diao, Djimi Traoré og Vladimir Smicer yrðu áfram, þar sem mér þykir þeir enn nógu góðir til að viðhalda breiddinni í hópnum – þótt enginn þeirra sé af nægum gæðum til að vera byrjunarmenn í Liverpool-liðinu. Hamann mætti vera áfram líka, en ekki ef Benítez er að versla tvo-þrjá miðjumenn í sumar. Þá verður lítið pláss fyrir hann.

Allavega, það eru spennandi tímar framundan … sérstaklega ef aðalfréttir helgarinnar – þær að Edgar Davids sé staddur í Liverpool um helgina að ræða samningstilboð við Rafa Benítez – reynast sannar! Jíha … ég brosi bara við tilhugsunina um þessa miðju:

KEWELL – DAVIDS – GERRARD – VAN DER VAART

Og já … það er enn verið að ræða helling um að Van Der Vaart sé á leiðinni til Liverpool og býst ég fastlega við að geta fært ykkur frekari fréttir af því strax í næstu viku (því hefur verið fleygt fram að hann verði jafnvel kynntur ásamt Cissé og Davids á þriðjudag á blaðamannafundi, en ég trúi því tæpast fyrr en ég sé það…)

Samt, bara tilhugsunin um að fá Edgar Davids til Liverpool er æðisleg. Að mínu mati væri þetta fyrsta “meistaraskot” Rafael Benítez sem stjóra Liverpool, að fá þennan reynda bardagakappa til liðsins. Einfaldlega af því að…

1: Hann er með þeim reyndari í boltanum.

2: Hann er alveg sjúklega góður miðjumaður og yrði frábær félagi með Gerrard – einhver sem gæti verið leiðtogi með Gerrard á miðjunni, auk þess sem Gerrard myndi læra helling af að spila með honum í eitt-tvö ár.

3: Hann er 31s árs gamall og því ekki framtíðarmaður, en ef hann yrði hjá okkur í einn-tvo vetur þá myndi það gefa Benítez tíma og rúm til að fara í rólegheitunum á stúfana til að finna hinn fullkomna félaga með Gerrard á miðjuna.

Þannig að ef þetta gengur eftir þá myndum við örugglega geta kvatt Davids eftir svona tvö ár með bros á vör, þakkir um frábæra þjónustu til liðsins (í anda McAllister sem gaf okkur tvö frábær ár) og um leið heilsað nýjum heimsklassamanni sem ætti að falla inn í stað Davids við hlið Gerrard.

Segið mér að þetta sé ekki frábær ákvörðun hjá Benítez – ef satt reynist? Ég er allavega spenntur … ótrúlega spenntur. Ég vona að þetta sé satt, en eins og með Gerrard-Chel$ki sögurnar fyrir viku þá getum við bara beðið … tíminn leiðir þetta í ljós. Davids sagði á fimmtudag eftir tap Hollendinga gegn Portúgal að hann myndi kynna ákvörðun sína eftir helgina þannig að við heyrum vonandi góðar fréttir af þessu á mánu- eða þriðjudag! Shjibbí! :biggrin:

8 Comments

 1. Já, Davids er 31 árs gamall. En það má ekki gleyma því að hann og Hamann eru nákvæmlega jafn gamlir. Ef að það má dæma menn af frammistöu þeirra á EM, þá hefur Davids vinninginn.

  Hamann var gjörsamlega líflaus á EM. Ímyndið ykkur hversu miklu öflugra lið Liverpool yrði með Davids hlaupandi einsog brjálæðingur um allan völl.

  Eftir allt, þá voru það Davids og Ronaldinho, sem komu Barcelona úr fallbaráttunni í annað sætið á síðasta tímabili. Það væri vissulega frábært að fá Davids til liðsins. 🙂

 2. Er Rafael van der Vaart á leiðinni til okkar?
  Ég hélt nefnilega að þegar Houllier var rekinn þá hafi möguleikinn á að fá Vaart væri lítill.

 3. Það er víst verið að leiða líkum að því að þegar Houllier hafi verið rekinn hafi kaupin á VdV einfaldlega verið sett á bið. Svo þegar Benítez hafi verið búinn að koma sér fyrir í stjórastólnum hafi Parry einfaldlega spurt hann, viltu klára kaupin eða eyða peningunum í einhvern annan? Og Benítez á víst að hafa sagt já (who wouldn’t?) … og skv. slúðrinu er hann að fara að skrifa undir í næstu viku, jafnvel á mánudag eða þriðjudag.

  Annars geturðu séð ágætis umfjöllun um þetta hér á YNWA.tv spjallborðinu (þarft held ég að vera skráður til að vera þarna inni – en það er frítt og vel þess virði).

  Annars, eins og ég sagði í fréttinni, vonast ég til að geta fært mönnum frekari fréttir af þessu strax í næstu viku. Ég er nefnilega með heimildarmann sem ég ætla að hringja í á mánudaginn… og neita að leggja á fyrr en hann segir mér allt sem hann veit um málið. 😉

 4. Þetta væri óneitanlega sterk miðja. Talsvert sterkari en miðjan í fyrra í það minnsta. Með Baros, Cissé og Owen frammi þá lítur þetta þokkalega út. Ég myndi þó gjarnan vilja sjá vörnina styrkta.

 5. Já, ef að þetta slúður reynist satt þá verður Liverpool sko í toppbaráttunni á komandi tímabili ásamt Chelsea og Arsenal.

 6. Allir þessir 8 leikmenn sem nefndir voru mættu fara frá LFC á meðan keyptar verða 3-4 stjörnur í staðinn. Talandi um stjörnur þá er Edgar Davids, Van der Vaart, Cissé og slíkir tappar ekkert nema stjörnur og munu umbreyta LFC á næsta tímabili. Davids kæmi betur inní LFC þar sem hann og Gerrard eru svipaðir leikmenn, þeas báðir með 2000 vél á meðan Hamann er 1600 týpan og allt of varnarsinnaður. Það er allavega greinilegt að Benitez vill hafa leikmenn sem geta sótt fram völlinn….sem er það sem LFC aðdáendur eiga að venjast. LIFI BYLTINGIN, LIFI BENITEZ!

 7. Ég væri sérstaklega til í að fá Davids til Liverpool. Ótrúlegur leikmaður!

 8. Já hey þetta er allveg satt hjá þér DAVIDS hefði átt að koma til Liverpool en ekki Inter Mílan. Davids er alveg besti fótboltamaður sem maður getur séð inná vellinum LENGI LIFI DAVIDS :biggrin2: 🙂 :biggrin: 😉 :laugh:

Owen mun skrifa undir

Viðtal við Parry