Bjóðum Velkominn: Djibril Cissé!

cisse15.jpgÍ dag, 1. júlí 2004, rætist loksins úr ósk sem flestir stuðningsmenn Liverpool FC hafa alið með sér í nærri því þrjú ár. Í dag gengur framherji Auxerre og franska landsliðsins, Djibril Cissé, loksins opinberlega til liðs við Liverpool Football Club. Í dag stígur Liverpool, að mínu mati, stórt skref í áttina að því að verða besta knattspyrnulið Englands á ný. Í dag er ég bjartsýnn.


Það var í nóvembermánuði árið 2001, um það leyti sem Robbie Fowler yfirgaf Liverpool FC, að sögusagnir um að hinn ungi og stórefnilegi Djibril Cissé gæti verið á leiðinni frá Auxerre í Frakklandi til Liverpool fengu byr undir báða vængi.

Nú, tæpum þremur árum síðar, er draumurinn um að fá að sjá Cissé í rauðu treyjunni, loksins orðinn að veruleika. Drengurinn sem var markahæstur í frönsku deildinni vorin 2002 og 2004 (skoraði einu marki minna en Shabadti Nonda hjá Mónakó vorið 2003) og er, aðeins 22 ára gamall, orðinn fastamaður í franska landsliðinu, er orðinn leikmaður Liverpool FC.

Það er ekki margt sem ég get bætt við allt það sem ég hef sagt um Cissé á þessari síðu undanfarna daga og vikur. Ég er búinn að fylgjast með honum í rúm tvö ár, eða síðan Fowler var seldur og við fórum fyrst að heyra talað um hann sem mögulegan leikmann Liverpool. Síðan þá hef ég fylgst af áhuga með honum í hvert skipti sem honum bregður fyrir á Eurosport (þeir sýna frönsku mörkin alltaf á mánudögum, mjög handhægt) og reynt að fylgjast með honum í öllum öðrum leikjum sem ég get. Hann lék einn leik gegn Liverpool með Auxerre í fyrra (var meiddur í heimaleik Auxerre) í UEFA-keppninni og spilaði þá vel á Anfield. Þá var hann með Frökkum á FIFA-mótinu sem haldið var í fyrra, en varð þó frægara fyrir andlát Marc Vivien-Foé en fyrir þátttöku hans. Þá hefur netið verið mjög handhægur miðill við að fylgjast með dreng síðastliðinn vetur, en heimasíðan hans er mjög, mjög, mjög góð: Djib-Cisse.com.

djibprofile.jpgMeð komu Djibril Cissé til Liverpool erum við loksins búnir að laga eitt stærsta vandamálið sem háð hefur liðið undanfarin tvö ár, að mínu mati. Í einu nafni: Emile Heskey. Michael Owen skilar alltaf sínum 20+ mörkum á tímabili en á enn eftir að fara í gegnum heilt tímabil án þess að missa a.m.k. úr mánuð í einu, þannig að það hefur alltaf verið mikill línudans að treysta eingöngu á hann til að skora mörkin.

Það hefur þó verið raunin í seinni tíð Houllier-liðsins, þar sem Emile Heskey tók upp á því eftir frábæra frammistöðu á þrennutímabilinu 2000-2001 að detta gjörsamlega úr sambandi hvað markaskorun varðar. Í fyrra náði hann aðeins níu mörkum ef ég man rétt (er svosem sama og nenni ekki að fletta því upp, ætla aldrei aftur að pæla mikið í Heskey) og í vetur skoraði hann 12. Sem voru framför, en betur má ef duga skal. Það var alltaf einn af stóru göllum Houllier hvað hann notaði Heskey mikið – en hinn stóri gallinn hjá Houllier var sá að með því að nota Heskey lét hann einn magnaðasta framherja Evrópu fara til spillis á bekknum, Milan Baros.

Þetta hefur núna verið lagað. Emile Heskey hefur verið seldur og Djibril Cissé er kominn inn í staðinn. Þá hefur Milan Baros farið á kostum á EM í sumar og tryggt það að Benítez líti ekki á hann sem sjálfkrafa varaskeifu fyrir Owen og Cissé í vetur. Þannig að eftir að hafa treyst nær eingöngu á Owen varðandi markaskorunina undanfarin ár erum við allt í einu í þeirri stöðu að hafa úr þremur heimsklassa-framherjum að velja sem ættu í raun allir að geta skilað 20+ mörkum fyrir okkur á tímabili. Í stað þess að láta Owen og Heskey leika 55-60 leiki hvorn í byrjunarliði og leyfa Baros aðeins að byrja inná svona 10-15 sinnum á tímabili ætti Benítez núna að geta leyft Owen, Cissé og Baros að byrja inná svona 40-45 sinnum hvern á næsta tímabili.

Sem hefur ýmsa kosti:
1: Benítez gefst kostur á að hvíla framherjana til skiptis og halda þeim öllum ferskum yfir allt tímabilið.
2: Fyrir vikið stórminnkar álagið á Owen og ætti því að fækka hjá honum álagsmeiðslum.
3: Meiðsli manns eins og Michael Owen ætti ekki að hafa jafn lamandi áhrif á sóknarleik liðsins í ár og undanfarin ár … þar sem Baros, Cissé og Sinama-Pongolle geta allir komið inn í staðinn og fyllt hans skarð.

Þá geta Harry Kewell, Anthony Le Tallec og El-Hadji Diouf (ef hann verður kyrr hjá Liverpool) allir líka brugðið sér í framlínuna, þannig að í fyrsta sinn í langan tíma er hægt að segja með góðri samvisku: Liverpool FC er með einhverja best mannaða framlínuna í enskri knattspyrnu í dag. Húrra!

Annars er hægt að sjá frekari upplýsingar um Djibril Cissé hérna:
Opinbera síðan: CISSE BECOMES A RED.
Opinbera síðan: THE DJIBRIL CISSÉ FANCLUB.
Opinbera síðan: ALL YOU NEED TO KNOW ABOUT DJIBRIL CISSÉ.
Opinbera síðan: CISSÉ ON HIS BIG ANFIELD MOVE.

Þá er hægt að skoða flest öll mörk kappans frá síðustu leiktíð með Auxerre á spjallborði KopTalk.com – og svo bendi ég fólki endilega á að skoða opinberu heimasíðu kappans, sem eins og ég sagði áðan er alveg frábær. Reyndar á frönsku … en við klórum okkur fram úr því.

Það er samt alveg ljóst að framtíðin hjá Liverpool FC er björt – framtíðin er Djibril Cissé:

cissefrance.jpg

**Uppfært (Einar Örn):** Þetta eru náttúrulega frábærar fréttir. Það, sem hefur einnig glatt mig við þetta er að Cissé hefur sagt ALLA réttu hlutina varðandi þessi skipti.

Hann fer varla í viðtal án þess að lofsama Liverpool, aðdáendurna, söguna og liðið sjálft. Hann er greinilega mjög hungraður í að sanna sig fyrir Liverpool. Einnig stóð hann við orð sitt varðandi það að koma til liðsins. Sama hvaða lið voru á eftir honum, þá var Liverpool alltaf númer eitt. Svona leikmenn vil ég sjá hjá liðinu okkar.

Góður dagur!

Þetta er í raun alveg fáránlegt hvað við erum núna með góða framherja. Við erum með efnilegasta franska framherjann, markakóng EM og svo mann sem var kosinn knattspyrnumaður Evrópu fyrir þrem árum. Og þeir eru allir yngri en 24!!

Framtíðin er vissulega björt 🙂

16 Comments

 1. Loksins loksins
  Mér finnst bara menn vera full bjartsýnir að þessi maður eigi að bjarga Liverpool frá glötun. Hann er góður leikmaður en að leggja allt sitt traust á einn leikmann er það ekki full mikið. Ég vildi bara minna á að 2 síðustu markastjörnur sem komu úr franska boltanum í þann enska heita Marlet og Wiltord ef einhver man eftir þeim.

 2. Hver var að tala um að leggja allt sitt traust á einn mann, Óli?

  Ég talaði einmitt um það að síðustu ár hefur Liverpool sett allt sitt traust á einn mann, Owen, en geta núna treyst á þrjá menn, Owen, Baros og Cissé.

  Þeir eru ekki einn maður, er það nokkuð? 😉

 3. Menn eru einmitt blessunarlega lausir við allt tal um að Cisse sé “final piece of the puzzle” einsog þú gefur í skyn að menn hugsi, Óli. Ég man einmitt eftir því þegar Kewell, Ziege og fleiri voru keyptir að þá var alltaf talað um þá sem týnda hlekkinn í liðinu.

  Núna eru menn mun raunsærri. Ég sé Cisse sem frábæra viðbót við liðið, en við gerum okkur öll grein fyrir því að það þarf fleiri leikmenn til liðsins. Það er líka augljóst að Benitez er ekki hættur, hann mun bæta við hópinn. Við vonum náttúrulega að þeir leikmenn, sem bætist við, séu jafn spennandi og Cisse 🙂

 4. Velkominn á Anfield, Sissi og farðu að undibúra þig fyrir fagnaðarlætin. Styttist í þau!

 5. Á hvaða tungumáli er þetta fólk eiginlega að tala? Hefði allavegana haldið að númer 6 og 7 væru franska, en hvað er 5 og 8? Er þetta kannski allt franska?

 6. Salut Djiril t trop fort ta un jeu de pied extraordinaire!!

  Une fan d’ Auxerre é de toi!!

 7. Mér er skapi næst að finna franskar bloggsíður og kommenta þar á íslensku … líður eins og ég þurfi að hefna mín eða e-ð :laugh:

Portúgal í úrslit!

Ósigur fyrir knattspyrnuna