Blaðamannafundur: Gerrard verður kyrr!

Og þar með dó safaríkasta frétt síðari ára í enskum íþróttum. Á blaðamannafundi sem haldinn var kl. 15:00 að staðartíma á Anfield í Liverpool í dag staðfesti Steven Gerrard, fyrirliði vor, það sem við vorum öll búin að vona: HANN ER EKKI AÐ FARA FET!!!!!

Ég get rétt ímyndað mér andlitið á Einari þegar hann fréttir þetta. Ætli hann lesi þetta á netinu? Ætli einhver hafi hringt yfir hafið til að láta hann vita? Ég veit að þegar ég stökk inn á skrifstofu um 5 mínútur yfir og sá staðfestar fregnir þá hringdi ég einhver 10 símtöl út um allt land og sendi því fleiri SMS-skilaboð. Það þurfti einhver að taka að sér að deila gleðinni í dag og mín var ánægjan! 😀

Þetta eru vægast sagt frábærar fréttir fyrir Liverpool FC. Maður var orðinn svo vonlítill að ég var meira að segja búinn að skrifa uppkast að pistli sem ég ætlaði svo að setja hér inn um leið og salan á Gerrard yrði staðfest. Ég þarf sem betur fer aldrei að leyfa þeim pistli að líta dagsins ljós … og það verður við hátíðlega athöfn sem ég eyði honum út af tölvunni heima í kvöld!

Þess í stað skrifa ég hér gleðiorð því í stað þess að þurfa að byrja stjórnartíð sína hjá Liverpool á að finna eftirmann Stevie G getur Benítez með bros á vör eytt næstu vikum í að finna hentuga menn til að spila við hliðina á fyrirliðanum. Liverpool verða miklu sterkari fyrir vikið.

Annars viðurkenndi Gerrard ýmislegt á þessum blaðamannafundi, sem þó stóð ekki nema í alls 2 og 1/2 mínútu eða svo. Hann sagðist hafa verið mjög ringlaður síðustu 3-4 vikurnar og viðurkenndi hann að eitt af því sem hafi hvarflað að honum hafi, jú einmitt, verið möguleikinn á því að skipta um félag. Hins vegar var ljóst að um leið og hann kom heim frá Euro 2004 og var búinn að tala við fjölskyldu sína, kærustu, Benítez og Parry þá var ákvörðunin í raun auðveld.

Annað sem ég tók eftir við Gerrard – sem hefur alltaf átt erfitt með að tala fyrir framan stóran hóp af fjölmiðlum – og það er það hversu ákveðinn hann virtist á þessum fundi. Sumir vildu meina að hann hafi verið sorgmæddur á svip en að mínu mati var það alls ekki svo. Að mínu mati leit hann út eins og honum væri mikið í mun að koma þessum málum á hreint – sem er einmitt það sem við vonuðumst til að hann myndi gera.

Ég sagði það á föstudaginn sl. að ef mánudagurinn kæmi og færi án þess að Stevie eða Liverpool FC væru búin að tjá sig um málið gæti maður nánast bókað það að hann væri á förum. Reyndar var ég orðinn mjög svartsýnn um helgina og nánast öruggur um að hann væri að fara – en svo kom mánudagurinn og Gerrard reddaði málunum!

Ég er svo ánægður núna – og mér er svo rosalega létt! Vissulega er enginn leikmaður stærri en Liverpool FC og liðið hefði örugglega lifað það af að missa Gerrard. Hins vegar hefði það verið óþarfa vesen, eitthvað sem Benítez gæti alveg lifað af án í byrjun stjórnartíðar sinnar. Ef Gerrard hefði farið hefðum við fengið pening til að kaupa en það er ekki víst að þeir sem hefðu komið inn í liðið í staðinn hefðu staðið undir væntingum. Það er alltaf áhætta að kaupa nýja leikmenn, sama hversu virtir þeir eru, á meðan við vitum nákvæmlega hvað við höfum í Steven Gerrard: heimsklassi. Maður sem svínvirkar með Liverpool og er algjör leiðtogi liðsins.

Nú er bara tvennt á dagskrá fyrir Benítez, að mínu mati. Fyrst af öllu þarf að klára þessi samningsmál með Owen sem allra fyrst – úr því Gerrard er til í að gefa þessu allavega eitt-tvö ár í viðbótt ætti að vera lítið vesen að fá Owen til að samþykkja það sama. Síðan þarf að hella sér út á markaðinn, vonandi með sem mesta peninga, til að styrkja liðið. Gerrard hefur verið fjölyrður um þörfina á að kaupa nýja menn til liðsins – og úr því að hann hefur ákveðið að vera áfram geri ég ráð fyrir að það sé að hluta til af því að Parry og/eða Benítez hafa sagt honum góðar fréttir af fyrirhuguðum leikmannakaupum.

En spurningin er, hverjir koma? Við vitum allir hvaða stöður þarf nauðsynlega að manna: miðvörður, miðjumaður með Gerrard, hægri kantur og jafnvel einn sóknarmiðjumaður.

Dæmi um góð kaup í sumar: Ayala, Baraja, Hargreaves og Van der Vaart.

Dæmi um slæm kaup í sumar: Wiltord, Rosicky og Rufete.

Bætið við þessa jöfnu (þá góðu) að Djibril Cissé mun looooksins skrifa undir samning og vera formlega kynntur á fimmtudaginn, auk uppgangs Mílans nokkurs Baros, og þá sjá menn að við höfum fulla ástæðu til bjartsýni í haust … að því gefnu að Benítez kaupi vel á næsta eina og hálfa mánuðinum!

Gerrard verður áfram og líklegast/vonandi Owen líka. Bring on 14. ágúst! 🙂

5 Comments

 1. Ég er nú ekki alveg sammála þér varðandi góð og slæm kaup.

  Dæmi um góð kaup í sumar: Ayala, Baraja, Hargreaves og Van der Vaart.

  Dæmi um slæm kaup í sumar: Wiltord, Rosicky og Rufete.

  Hargreaves er ég ekki svo viss um að væru góð kaup á meðan ég er viss um að Risicky gæti gert góða hluti.

  En svo er aldrei hægt að segja fyrirfram til um hvernig menn muni standa sig 🙂 Best að treysta bara Benitez og vona það besta.

 2. Ég skal með ánægju éta ofan í mig ummæli mín í síðustu viku.

  Þetta eru bestu fréttir sem ég hef fengið í langan tíma.

 3. þetta eru virkilega góðar fréttir, og spennandi tímar framundan hjá okkur púlurum

 4. Jamm, eins og Einar sagði margoft í síðustu viku þá var maður eiginlega farinn að neyða sjálfan sig til að venjast lífinu án Gerrard. Þannig að ég var viðbúinn brottför hans … og því kom fréttamannafundurinn í dag svo skemmtilega á óvart!

  Þetta er vonandi það sem þarf til að sannfæra Owen um að vera líka um kyrrt í Liverpool – sem ætti endanlega að gefa Benítez þann byr undir báða vængi sem hann þarf til að hefja þetta lið til flugs!

  Næstu vikur verða ótrúlega spennandi. Æfingar hjá Liverpool hefjast opinberlega á mánudaginn eftir viku – þótt þeir sem voru að spila á EM fái að mæta seinna til æfinga (19. júlí minnir mig). Þá opnar leikmannamarkaðurinn á fimmtudaginn næsta, 1. júlí, og munum við þá strax semja endanlega við Djibril Cissé (sem er ‘done deal’ nú þegar, hann bara má ekki skrifa undir opinberlega fyrr en 1. júl) … og svo verður spennandi að sjá hvaða hreyfingar verða á leikmannamarkaðnum næstu vikur!

  Það er gaman og spennandi að vera L’pool-aðdáandi í dag … :biggrin:

Blaðamannafundur í dag!

Góð Grein & Vond Grein…