Milan Baros: 5 mörk í 4 leikjum!

barosdenmark.jpg Það verður að segjast, við Einar Örn vorum búnir að margspá þessu hér á blogginu. Fólk þarf bara að skoða færslurnar frá því í lok maí/byrjun júní til að sjá að við vorum ekki efins, við vorum vissir um að Milan Baros yrði ein af stjörnum EM 2004.

Í ljós hefur komið að við höfðum rangt fyrir okkur. Milan Baros er ekki ein af stjörnum EM 2004. Hann er stjarna EM 2004. Punktur.

Í kvöld lágu Danir í því. Þeir steinlágu fyrir Tékkum, 3-0 í leik sem var í raun jafnari en þær tölur gefa til kynna. Það sem bar á milli í hnífjöfnum leik var það sem hefur skilið Tékka frá öllum mótherjum sínum í þessari keppni hingað til: þeir hafa leikmenn sem þurfa ekki nema eitt tækifæri. Þeir refsa andstæðingunum best allra liða í Evrópu í dag.

Jan Koller. Marek Heinz. Pavel Nedved. Karel Poborsky. Tomas Rosicky. Vladimir Smicer. Og Milan Baros. Þetta eru allt leikmenn sem refsa andstæðingunum grimmilega fyrir mistök …

Eins og staðan er núna eru Tékkar komnir í undanúrslit og mæta þar Grikkjum. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast heimamenn í Portúgal og hinir sókndjörfu Hollendingar. Milan Baros er nú markahæstur í Evrópukeppninni með 5 mörk í 4 leikjum og hefur skorað í síðustu sex landsleikjum Tékka í röð. Ágætt það … aðeins Ruud Van Nistelrooy getur ógnað honum sem markakóngi EM, sá hollenski er kominn með 4 mörk í 4 leikjum og er sá eini af markahæstu mönnum keppninnar, fyrir utan Baros, sem er enn með í keppninni. Þannig að annar þeirra mun væntanlega verða markakóngur … og eins og staðan er í dag myndi ég ekki veðja á móti Baros.

Þvílík mörk. Í fyrra markinu gaf Poborsky frábæra stungusendingu innfyrir vörnina og Baros stakk sér á milli varnar og markmanns, sumir myndu segja í anda Michael Owen, og lyfti boltanum svo rólega yfir Sörensen í marki Dana. 2-0.

Seinna markið var öllu massífara, en engu að síður alveg jafn öflugt. Aftur kom stunguboltinn innfyrir, í þetta sinn vinstra megin við miðverði Dana, og Baros hljóp þá einfaldlega af sér. Tók eina snertingu inn í teiginn og dúndraði boltanum svo upp í þaknetið með vinstri fæti … óverjandi fyrir Sörensen sem verður varla sakaður um neitt af mörkum Tékka í kvöld!

Þessi drengur er bara orðinn svo góður framherji að það hálfa væri nóg. Á blaðamannafundi í morgun sagði hann frá því að hann var reiðubúinn að yfirgefa Liverpool í vor áður en að Houllier var rekinn. Sennilega væri hann farinn frá félaginu í dag ef Houllier væri enn stjóri – þar sem hann (og við aðdáendurnir) var mjög ósáttur við það að vera alltaf settur á bekkinn á meðan gúmmítékkinn Emile Heskey fékk að spila, alveg sama hversu lítið hann skoraði.

Svo fór Houllier, Benítez kom og Heskey var seldur. Nú sér Baros fram á bjartari tíð hjá Liverpool og þrátt fyrir komu Djibril Cissé í sumar ætti Baros, í ljósi framgöngu sinnar á EM, að geta gert ráð fyrir miklu fleiri tækifærum með liðinu næsta vetur. Sem er gott – því nú eigum við þrjá heimsklassaframherja sem eiga allir jafnt tilkall til byrjunarliðsins í vetur. Sem þýðir að við þurfum vonandi aldrei aftur að líða Owen að spila áfram í byrjunarliðinu þrátt fyrir 10-leikja markaþurrð. Hann er að sjálfsögðu okkar maður #1 (þ.e.a.s. ef hann er enn á Anfield í byrjun leiktíðar) en ef hann eða Cissé (sem ég geri ráð fyrir að fái að byrja leiki með Owen í upphafi leiktíðar) eru ekki að spjara sig þá á að slúffa þeim, umsvifalaust. Baros er ekki lengur framtíðin – Baros er núna og hann á að fá að spila með byrjunarliðinu NÚNA!

Holland í undanúrslit!

Blaðamannafundur í dag!