Holland í undanúrslit!

swedenholland.jpg Ókei, þannig að uppáhaldslið okkar Einars, Hollendingar, rétt mörðu Svía í vítaspyrnukeppni í kvöld. Sem betur fer, annars held ég að Einar hefði staðið sig frekar illa á viðskiptafundum í Houston næstu vikuna… 🙂

Þessi leikur olli samt nokkrum vonbrigðum að mínu mati. 0-0 eftir framlengingu var ekki það sem ég hefði giskað á, enda um tvö af skemmtilegustu sóknarliðum keppninnar að ræða. En þegar svona langt er komið í stórmóti sem þessu er ekki við öðru að búast en að menn leggi ofurkapp á að fá ekki á sig nein klaufamörk – og fyrir vikið varð leikur beggja liða mjög varkár, hægur og fyrirsjáanlegur. Vissulega fengu bæði lið nóg af tækifærum til að klára dæmið en á endanum var jafntefli sennilega sanngjörn niðurstaða og því þurfti happdrættið til að útkljá það hvort liðið fékk að halda áfram.

Á morgun: Milan Baros gegn frændum vorum: Tékkland – Danmörk! Það ætti að verða rrooooossalegt! Ég á enga ósk heitari en þá að Baros endi keppnina með fleiri mörk skoruð en Wayne “Shrek” Rooney. Og það væri líka það besta sem gæti komið fyrir okkur Liverpool-menn, að með góðri frammistöðu í þessu móti myndi Baros neyða Benítez til að líta á sig sem hugsanlegan byrjunarliðsmann í vetur. Við þurfum smá heilbrigða samkeppni þarna frammi, Owen og Heskey voru öruggir í liðið síðustu árin en nú ber annað við. Cissé, Baros og Owen eiga að standa jöfnum fæti í þessu liði að mínu mati.

Sjáum til, en ég spái allavega einu marki hjá okkar manni í bláu skónum á morgun…

Bruno Cheyrou til Marseille

Milan Baros: 5 mörk í 4 leikjum!