Má ég kynna: Milan Baros!

Ég held með Hollandi og hef gert síðan ég var 10 ára. Því á ég erfitt með að jafna mig eftir Tékkaleikinn. Þvílík vonbrigði að Holland skuli hafa tapað þessu í seinni hálfleik. Dick Advocaat fær fyrstu opinberu viðurkenningu þessa Liverpool bloggs:

“Gerard Houllier verðlaunin, fyrir heimskulega áherslu á varnarleik”

Það er nokkuð ljóst að Chelsea hafa gert góð kaup í þessum Arjen Robben, allavegana var hann ógnandi allan leikinn. Því var alveg hreint óskiljanlegt að Advocat hafi tekið hann útaf fyrir varnarmann þegar meira en hálftími var til leiksloka. Hélt einhver virkilega að Holland myndi halda fengnum hlut?


Allavegana, þessi síða fjallar ekki um Holland, heldur Liverpool. Og þá kem ég að því, sem fær mig til að halda sönsum í kvöld. Það er frammistaða Milan Baros.

Baros er búinn að vera frábær á EM. Hann var maður leiksins á móti Lettum og hefði ekki verið fyrir hreint stórkostlegan leik hjá Nedved, þá hefði hann verið besti maður Tékka aftur í kvöld. Ég veit ekki hversu oft ég hef haldið því fram að Baros væri vanmetnasti maðurinn í enska boltanum. Hann er ekki lengur bara efnilegur, hann er einfaldlega orðinn einn af bestu framherjum í Evrópu. Og það án þess að fá almennileg tækifæri undir Gerard Houllier.

Þeir sem ekki styðja Liverpool hafa nefnilega ekki skilið almennilega hversu stórkostleg vonbrigði það voru fyrir okkur Liverpool menn að hafa Heskey alltaf í byrjunarliðinu. Allir vissu að Heskey var lélegur, en það voru bara þeir Liverpool stuðningsmenn sem horfðu á alla Liverpool leikina, sem gerðu sér grein fyrir því hvað brosmildi Tékkinn á bekknum var góður.

Það er hreint magnað þegar maður hugsar útí það að Gerard Houllier hafi verið svona blindur að halda að Liverpool myndi spila betur með EMILE HESKEY í liðinu í staðinn fyrir Baros. Það er bara ekki hægt að skilja það! Fyrir EM var Baros sá Liverpool maður, sem ég vonaðist einna mest að gæti sannað sig. Hann hefur svo sannarlega gert það í fyrstu tveimur leikjunum og ég vona að hann haldi áfram á sömu braut. Núna má hann skora þrennu á móti Þjóðverjum og senda þetta grautfúla þýska lið heim til Berlínar.

Við Liverpool stuðningsmenn höfum vitað hvað Baros getur. Það var kominn tími til að aðrir knattspyrnuunnendur kæmust að því.

Leikurinn í kvöld var náttúrulega stórkostleg skemmtun. Ágætis upprifjun á því af hverju maður elskar fótbolta. Baros gerði nánast allt rétt í leiknum. Hann barðist einsog ljón, sem sýndi sig einna best þegar hann hafði betur en þrír hollenskir varnarmenn í fyrsta markinu, sem hann lagði algerlega upp fyrir Koller.

Hann var svo sí ógnandi allan leikinn, hljóp útum allt og skoraði svo eitt besta mark keppninnar með þrumuskoti. Koller skallaði á Baros, sem var við vítateigslínuna, Baros tók boltann á lofti og þrumaði honum uppí samskeytin. Frábært mark og frábær leikur. Vonandi heldur Baros áfram á sömu braut.

Já, og svo langar mig að minna fólk á það að Baros er 22 ára gamall. Þvílíkur leikmaður! Það er nokkuð ljóst að Rafael Benitez brosir breitt eftir þennan leik.


Viðbót (Kristján Atli): Það er ljóst að Milan Baros er, eins og við vonuðumst til, að stimpla sig inn all-rækilega í Portúgal í sumar! Sem er einmitt það sem ég vildi, þar sem Benítez hlýtur að fylgjast náið með þessum leikmönnum Liverpool sem eru á EM hlýtur hann að átta sig á því hvílíkur gæðaframherji Milan Baros er. Og þar sem hann veit nú þegar að hann hefur Michael Owen og Djibril Cissé til umráða þá sér hann vonandi hversu rosalega vel mönnuð framherjastaðan hjá okkur er með Baros sem þriðja mann.

Ég geri sterklega ráð fyrir að Benítez vilji samt byrja með Owen og Cissé frammi í haust, eða finnst það allavega lang-rökréttast. Það er bara of gott tækifæri til að sleppa því, að sjá þá tvo saman. En að sama skapi þá finnst mér engu að síður að Baros eigi að sitja við sama borð og þeir, þ.e. hann á ekki alltaf að vera átómatískt varamaður fyrir þá, eins og Houllier hafði hann alltaf. Houllier valdi Heskey alltaf fram yfir Baros. Ef Cissé eða Owen eru kaldir, eða annar þeirra lendir í markaþurrð, þá er mér sama þótt sá maður heiti “Saint Michael Owen of Wales” eða “Djibril landsliðsmaðurfrakklands Cissé” … Milan Baros á að fá að spila ef þeir standa sig ekki!

Að mínu mati erum við núna með þrjá framherja sem eru allir áþekkir að gæðum, þótt hver þeirra hafi sína sérstöku eiginleika fram yfir hina tvo. Cissé er bomban í hópnum, algjör Batistuta í raun, á meðan Owen hefur hraðann og þefvísina. Baros hefur svo að mínu mati sitt lítið af öllu, en sérgrein hans verður að teljast hvað hann er rosalega grimmur.

Þetta verður spennandi tímabil… vonandi er Benítez sá þjálfari sem leyfir þeim öllum að spila til jafns!

8 Comments

 1. Sammála sammála sammála!

  Baros var alveg frábær í þessum leik og að mínu mati maður leiksins ásamt Edgar Davids og Pavel Nedved. Þvílíkt mark hjá hetjunni okkar 🙂

  Miðað við þau ummæli sem maður séð höfð eftir Benitez virðist sem hann sé aðdáandi Baros (ar?) og vonandi að strákurinn fái að spreyta sig af einhverju viti undir stjórn Spánverjans snjalla.

  Annars er ég alveg svakalega hrifin af þessu tékkneska liði. Ég er ekki eins og pistlahöfundur – held ekki tryggð við neitt ákveðið landslið utan þess íslenska – heldur tel ég þann kost vænstan að velja hverju sinni lið sem mér finnst gaman að horfa á og halda með því. Tékkland kemur sterkt þarna inn og ég er eiginlega búin að ákveða að halda með þeim, og smá með Englandi svona fyrir Gerrard og Owen. Og líka smá með Svíum 🙂 En aðallega held ég með fótboltanum (klisja, ég veit).

  Að öðru leyti má ég til með að nefna tvo punkta sem sitja í mér eftir að hafa horft á einn skemmtilegasta leik EM í ár:

  Í fyrsta lagi: Hvað ætlar Chelsea að gera við bæði Robben og Duff? Er möguleiki fyrir okkur að næla í Duff? Mig minnir að hann hafi nú ekki verið neitt sérstaklega ánægður í viðtölum við fjölmiðla eftir að kaupin á Robben voru kunngjörð.

  Í öðru lagi: Sorrý Einar, en lið sem getur ekki notað Roy Makaay á bara ekki skilið að vinna :confused:

 2. Já, ég hafði áður pælt í þessu með Duff. Ég man að það var haft eftir honum að hann væri verulega hissa á því að Chelsea væri að kaupa annan vinstri kantmann. Eina rökrétta útskýringin á þessum kaupum er sú að Chelsea séu hræddir við meiðslin hjá Duff. Allavegana, hann var sá leikmaður Chelsea sem virtist ósáttastur við sífelldar breytingar hjá Ranieri, þannig að það er spennandi að sjá hvað gerist fyrir hann undir stjórn Mourinho. Ég væri allavegana til að sjá Duff hjá Liverpool.

  Annars varð ég rosalega hissa á að sjá hversu SVAKALEGA góður Pavel Neved er. Þar sem maður hefur ekki lengur ítalska boltann, þá getur maður ekki fylgst með Juventus. Ég hafði ekki hugmynd um að hann væri svona góður.

 3. Já, Nedved er alveg svakalega góður. Maður sá þetta til hans með Juve í Meistaradeildinni í fyrra, annars hefur farið lítið fyrir því. Stundum saknar maður þess að sjá ekki meira til ítalska boltans … þar eru snillingar eins og Nedved, Schevchenko og Adriano að spila um hverja helgi og maður sér ekkert til þeirra…

 4. Milan Baros er klárlega einn af mönnum mótsins hingað til ásamt framherja Lettanna. Milan Baros er hreint ótrúlegur framherji og hreint út úr kortinu að Houllier hafi ekki notað hann meira en hann gerði! Þetta sýnir bara hvað Liverpool liðið var komið í mikinn skít! En þetta styður þær kenningar að Liverpool getur alveg lifað án Gerrard og Owen og í raun værum við betur settir án þeirra og með allan peninginn til leikmannakaupa.

 5. Maður var nú reyndar að vonast til þess að þessi leikur Barosar hefði sýnt öllum Liverpool aðdáendum fram á það að besti framherji Liverpool er tékkneski snillingurinn. Að sjá framherja sem leikur með Liverpool geta lent saman við andstæðing og vera sá sem stendur eftir er velkomin tilbreyting frá Michael “Stend ekki í lappinar” Owen.

  Því miður er staðan orðin þannig að á meðan Owen er aðalframherji Liverpool, verður Liverpool aldrei meira en “næstum því” klúbbur. Vonandi gerir nýi framkvæmdastjórinn okkar sér grein fyrir því.

  Strumpakveðjur 🙂

  P.s. þið megið trúa því, að ef ég hef rangt fyrir mér og MO brillerar næsta vetur með Liverpool, þá verður enginn eins glaður og ég.

 6. 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂 🙂
  ég dýrka þig ég kem frá hollandi!!!!!!!!!!!!!1

 7. vóv já Bara Baros Er bestur hef haldið með honum þegar eg sá þessa leiki hjá Tékklandi hann bara æði nuna er hann að fara keppa móti Noregi og vonandi hann geri sitt besta þar 😀

Ricardo Quaresma á leið til L’pool?

Hvað er í gangi hjá Stevie G?