Vicente fúll út í Valencia

Vicente.jpgSkySports: Unhappy Vicente Blasts Valencia

Skv. þessum fréttum þá er talið líklegt að Vicente Rodriguez fari frá Valencia, svo lengi sem þeir stórhækki ekki samningstilboðið sem hann var að hafna. Hann vill víst fá mikið hærri laun en hann er að fá (ku vilja fá jafn mikið og David Albelda, fyrirliði og launahæsti leikmaður Valencia) og er alls ekki sáttur með það “lága” tilboð sem hann fékk frá Valencia.

Vicente er aðeins 22 ára gamall og ef þið eruð búin að horfa á leiki Spánar gegn Rússum og Grikkjum í EM 2004 eins og ég þá vitið þið vel að þar er heimsklassaleikmaður á ferð. Algjörlega. Mikið dj… væri ég til í að fá hann á vinstri vænginn á næsta tímabili, með Kewell þá á hægri vængnum. Þótt þeir séu báðir örfættir þá væri ég alveg til í það, ég er viss um að þessi drengur myndi blómstra hjá Liverpool undir stjórn Benítez!

Annars er eflaust of snemmt að spá í hverja Benítez kaupir. Hann fer á markaðinn á næstu dögum og verslar, það er ljóst, en í kvöld ætla ég að láta mér nægja að fagna komu Spánverjans snjalla.

Samt, gaman að ímynda sér menn eins og Vicente Rodriguez í rauðri treyju…


Viðbót (Einar Örn):. Ég leitaði að fréttum af Vicente á Google og rakst þá á [þessa frétt af Marca](http://www.marca.com/edicion/noticia/0,2458,498336,00.html), sem er vinsælasta fótboltablaðið á Spáni (kemur sér vel að kunna spænsku).

Fréttin er á spænsku og er innihaldið svipað og Sky fréttin, það er að Vicente sé ósáttur við að sér sé ekki boðinn nýr samningur. Hjá Marca er talað um að núverandi samningur hans gildi til 2007 og einnig að það sé “buy-out” klásúla uppá 60 milljónir Evra, eða 39 milljónir punda.

Hins vegar segir einnig að ef að Vicente sé virkilega ósáttur og vilji fyrir alla muni fara, þá geti hann leitað til UEFA og fengið klásúluna í samningum lækkaða um helming, eða niður í 19 milljónir punda. Umboðsmaður hans segir hins vegar að “ennþá” sé Vicente ekki svo ósáttur að hann myndi fara þá leið. En þetta er greinilega óbein hótun frá honum.

Annars, ef maður leitar að fréttum af Vicente, þá er búið að orða hann við nokkurn veginn öll stórliðin í Evrópu: Juventus, Milan, Barcelona, Arsenal, Man United, Real Madrid, etc, etc. Sá hann ekki orðaðan við Chelsea, en það hljóta bara að vera einhver mistök hjá blöðunum.

Blaðamannafundurinn

Houghton bullar