Angel inn, Gerrard út

juanpabloangel.jpg Samkvæmt fréttum í Englandi í dag er Rafael Benítez talinn líklegur til að vilja gera Juan Pablo Angel hjá Aston Villa að sínum fyrstu kaupum fyrir Liverpool í sumar, eftir að hann hefur formlega tekið við störfum.

Þetta er eflaust bara slúður og lítið meira en það. Vitað er að Benítez hafði áhuga á Angel á meðan hann stjórnaði Valencia og nú, þegar Angel virðist eiga í vandræðum með að samþykkja nýjan samning við Villa, eru menn augljóslega bara að leggja saman 2 og 2 og fá út 5, í þessari gúrkutíð sem ríkir á Anfield.

Þar að auki hef ég áhyggjur af liðinu ef Benítez kaupir Angel. Ekki misskilja mig, hann spilaði frábærlega á síðasta tímabili og sannaði sig í Úrvalsdeildinni þannig að hann væri ekki slæm kaup. En miðað við það að við vorum að kaupa Djibril Cissé og fyrir hjá liðinu eru Owen, Baros (sem verður heimsfrægur eftir Euro 2004, sjáiði til), Pongolle og Mellor þá finnst mér hreinlega óþarfi að kaupa annan framherja. Allavega ekki í sumar, og ekki fyrr en í fyrsta lagi í janúar … ef í ljós kemur að Cissé ræður engan veginn við enska boltann. Sem er ólíklegt.

Ég held bara að Benítez ætti frekar að eyða milljónunum í nýjan miðvörð, nýjan miðjumann með Gerrard, hægri kantmann og – miðað við frammistöðu hans með spænska landsliðinu gegn Rússum í gær – Vicénte Rodríguez, takk fyrir!

Annað sem veldur mér áhyggjum er hið þráláta slúður um að Chelsea vilji kaupa Steven Gerrard eftir Euro 2004. Ég er í raun viss um að þetta er rétt og að þeir muni reyna, en eins og með Ronaldinho hjá Barcelona þá geri ég sterklega ráð fyrir að Gerrard muni segja “nei takk”, sérstaklega í ljósi þess að Liverpool-liðið er komið með nýjan stjóra og mun eflaust kaupa mikið í sumar.

Ég veit bara ekki hvað ég gerði ef Stevie G færi til Chelsea – ég myndi örugglega gera eitthvað ólöglegt. Ég fæ í magann bara við tilhugsunina. Ég myndi frekar vilja skipta út öllum öðrum leikmönnum í liðinu … kaupa nýtt lið í kringum Stevie – en að missa hann og halda öllum öðrum. Hann er, rétt eins og Ronaldinho hjá Barca og Henry hjá Arsenal, eini leikmaðurinn sem ég myndi segja að væri Ómissandi Fyrir Liverpool FC.

Þetta er slúður dagsins og við vonum að það haldist þannig – slúður. Ég hefði svosum ekkert á móti því að sjá Angel í rauðri treyju en Benítez þarf að einbeita sér að öðrum svæðum en framherjastöðunni.

Í dag: England – Frakkland. Gleðilega hátíð, knattspyrnuunnendur!

6 Comments

 1. Ha ha, ég var að skrifa nánast nákvæmlega eins grein um Gerrard og Angel. 🙂

  Ég skrifaði:

  “Ég veit að maður á ekki að trúa öllu sem maður les, eeeeen það er vissulega hræðileg tilhugsun að hugsa til þess að Gerrard gæti verið seldur.

  Hvað gerir stjórn Liverpool ef að til dæmis tilboð uppá [66 milljónir punda](http://www.skysports.com/skysports/article/0,,7-1139318,00.html) kæmi fyrir Gerrard? Stjórnin ætti mjög erfitt með að hafna slíku tilboði og þá væri spurningin hvað Gerrard vildi gera. Auðvitað treystir maður því að hann sé trúr sínu félagi, en ef maður horfir bara á hvað hefur gerst hjá Alan Smith, þá sér maður að tryggð við sitt félag nær bara visst langt. Aldrei hefði maður trúað að Smith myndi fara til Man U.

  Það væri ekki fræðilegur möguleiki á því að Liverpool gæti fengið annan miðjumann, sem er nálægt Gerrard í getu, jafnvel þótt liðið hefði 50 milljónir punda. Hvað myndi Liverpool eiginlega gera við peningana? Það er alveg ljóst að ef Gerrard yrði seldur myndi allt verða vitlaust. Ég myndi allavegana tapa mér.”

  Og ég sagði svipaða hluti um Angel, það er að framherjastaðan er ekki beint forgangsverkefni.

  Og já, Baros verður frægur eftir EM! Ég vona svo innilega að hann standi sig. Ég hef gríðarlegt álit á honum sem leikmanni.

 2. Hehe… ég var á undan! Þetta hefur svo sem komið fyrir áður hjá okkur, þú varst t.d. rétt á undan mér að skrifa um Henry og Owen fyrir helgi, þá þurfti ég að d/l-a heilli færslu, heh.

  En ég er alveg ákveðinn í því að hafa ekki áhyggjur af Gerrard. Það er ekki séns að hann fari, þótt þetta sé fáránlega mikill peningur. Ég bara trúi því ekki, allavega ekki í sumar. Ekki þegar nýr þjálfari er að koma og þetta er allt á uppleið.

  Ef næsta tímabil er hörmung gæti ég skilið ef hann og Owen vilja fara sumarið 2005 – en ekki núna.

 3. Ég veit bara ekki hvað ég gerði ef Stevie G færi til Chelsea – ég myndi örugglega gera eitthvað ólöglegt. Ég fæ í magann bara við tilhugsunina. Ég myndi frekar vilja skipta út öllum öðrum leikmönnum í liðinu ? kaupa nýtt lið í kringum Stevie – en að missa hann ég er alveg sammála þessu hjá þér !

 4. Ég hef viljað fá Rafa Benitez sem þjálfara til Liverpool í nokkurn tíma og það skemmir svo sannarlega ekki að heyra að hann vilji fá Juan Pablo Angel sem fyrstu kaup. Akkúrat sóknarmaðurinn sem ég hefði viljað sjá í liðinu! Vissulega höfum við Cissé, Owen, Baros, Mellor og Pongolle, en það er fínt að hafa nóg um að velja yfir langt tímabil.

  Hvað Steven Gerrard varðar mundi ég íhuga það ef við fengjum 70 milljóna punda tilboð í hann. Ég meina ef David Moores er að reyna selja 30% af liðinu til TÆLANDS (Já, TÆLANDS AF ÖLLUM LÖNDUM!!) þá hlýtur fjárhagsstaðan að vera brothætt. Ég meina 30 milljónir færu beint upp í nýja leikmenn (Vicente, Baraja, Pablo Aimar og Ayala frá Valencia) plus þá aura sem við fengjum fyrir Diao, Diouf og Biscan. Pottþétt plan sem bregst ekki, my friends! :biggrin:

  PS: Flott síða sem er komin í bookmarks hjá mér!

 5. Ég verð að segja að ég er ekki alveg sammála því að Gerrard sé ómissandi frekar en aðrir leikmenn Liverpool. Maður kemur í manns stað svo ég held að liðið plumi sig alveg án Gerrards og jafnvel Owens.

Emile “been there, done that” Heskey

Houllier um Henry og Owen