Canizares

Einn athyglisverðasti leikmaðurinn, sem Liverpool hafa verið orðaðir við í sumar er Santiago Canizares, markvörður Valencia og landsliðsmarkvörður Spánar. Athyglisvert fyrst og fremst því markvarðarstaðan hjá Liverpool er sennilega sú staða, sem er best mönnuð þessa stundina. Canizares, sem er 35 ára gamall er að [sögn með útrunninn samning við Valencia](http://www.lfconline.com/news/loadnews.asp?cid=TMNW&id=161815) og kæmi því ókeypis.

Ég verð að játa það að ég er rosalega hrifinn af Canizares. Hann er gríðarlega litríkur og skemmtilegur markvörður. Hann er “aðeins” 180 sentimetrar á hæð en er samt öruggur og ég man ekki eftir því að hafa séð hann gera mistök í þeim leikjum, sem ég hef séð með honum. Canizares, sem kom frá Real Madrid til Valencia hefur verið fyrirliði liðsins og hefur einnig verið landsliðsmarkvörður Spánar. Hann missti þó af HM 2002 þegar hann missti rakspíra á löppina og skaðaði einhverja vöðva með því.

Það er þá áhugavert að velta því fyrir sér hvað þetta myndi hafa að segja um hina markverðina hjá Liverpool ef að Canizares kæmi. Þetta myndi náttúrulega þýða að Dudek yrði seldur og fyrir hann fást væntanlega 2-4 milljónir punda, þannig að ef að Canizares kæmi frítt kemur Liverpool út í góðum plús með þessu. Þá er það spurning hvað verður um “hr. meiðsli”, Chris Kirkland.

Kirkland var orðinn markvörður númer 1 á síðasta tímabili en hann má nánast ekki fara í takkaskó án þess að meiðast. Það er augljóst að ef Canizares kæmi með Benitez, þá yrði hann markvörður númer eitt og að Kirkland yrði að sitja á bekknum. Kirkland er 23 ára og væri án efa orðinn landsliðsmarkvörður Englands ef hann væri ekki alltaf að meiða sig. Ég vil sjá hann fara í gegnum a.m.k. heilt tímabil án meiðsla áður en ég myndi treysta honum fyrir aðalmarkvarðarstöðunni. Þess vegna held ég að Canizares yrði góður kostur á meðan.

Ef það má taka mark á síðasta [vináttuleik Spánar fyrir EM](http://www.foxsportsworld.com/content/view?contentId=2462858) verður Canizares markvörður númer 2 hjá Spáni á EM á eftir Iker Casillas.

Góð grein um hópinn sem bíður Benítez!

Baros meiddur!