Owen verður áfram!

Frétt dagsins á LiverpoolFC.tv: Owen: I want to stay for life!

Frábær frétt sem ætti að vera einhver léttir fyrir Liverpool-aðdáendur víða. Í þessari frétt segir hann í rauninni tvennt og hef ég valið úr tilvitnanir sem sýna það:

>It was important we got Champions League qualification. The most important thing for me is to continue to win as many trophies as possible, in a great club, and Liverpool can be this one.

>In a perfect world, it would be the greatest team in the world, and I would stay my entire career. I am dreaming about that.

Og svo:

>Now we have to see if Liverpool will quickly become a great club again. A footballer’s career is short and it is important to be at the right place at the right time.

Fyrir mér er það augljóst hvað hann er að segja í þessu viðtali. Eins og fyrri tilvitnunin gefur til kynna vill hann vinna titla á ferli sínum og, í fullkomnum heimi, vill hann helst vinna þessa titla með Liverpool. En hann er þegar búinn að gefa það sterklega til kynna og ítrekar það aftur hér að titlarnir eru númer eitt, tvö og þrjú hjá Owen. Þannig að ef hann vinnur enga titla með Liverpool þá fer hann.

En eins og seinni tilvitnunin gefur bersýnilega til kynna þá er hann ekki á förum … strax! Augljóslega vill hann, í ljósi nýlegra breytinga innan klúbbsins, vera áfram og sjá hvað nýr þjálfari og nýir leikmenn geta gert við liðið næsta vetur.

Af þessu finnst mér nokkuð augljós kostur kominn upp í samningamáli Owens: hann hlýtur að framlengja samning sinn um eitt ár og ekki meira. Með því er hann í rauninni að fresta ákvarðanatöku sinni um hugsanlega brottför í eitt ár, þ.e. næsta sumar væri hann staddur aftur í sömu sporum og hann er í núna.

Munurinn er sá að næsta sumar gæti hann betur metið hvert klúbburinn stefnir með nýjan þjálfara, nýjum leikmönnum og heila leiktíð í Meistaradeildinni og (vonandi) toppbaráttu í Englandi að baki. Mér finnst allavega augljóst á þessu viðtali við hann að hann ætlar ekki að fara í sumar en gæti hugsað sér að fara eftir ár ef klúbburinn er ekki að þróast og afreka næsta vetur eins og hann myndi vilja.

Og þar sem klúbburinn vill síður missa Owen frítt þá munu þeir nær örugglega bjóða honum ársframlengingu með möguleika á lengri samningi næsta sumar. Þá, ef Owen ákveður að fara eftir ár, geta þeir selt hann og fengið væna fúlgu fyrir … eða ef hann ákveður að verða um kyrrt geta þeir boðið honum vænan lengri samning.

Þannig að þetta hljóta að teljast góðar fréttir, allavega þær bestu sem við höfum fengið í langan tíma! Auðvitað á enn eftir að semja um kaup og kjör og ekkert mun gerast í þeim málum fyrr en eftir ráðningu nýs stjóra og eftir Euro 2004, en orð Owen lofa allavega mjöööög góðu!


Annars var landsleikur í dag, eins og flestir landsmenn vita. Englendingar unnu Íslendinga 6-1 í Manchester-borg í dag. Þótt ég sé hálf-fúll yfir tapi sem var í raun of stórt (3-1 hefði verið nærri lagi en þökk sé lélegri vörn varð þetta stórtap) kemur þetta mér í rauninni ekkert á óvart, enska liðið er bara einfaldlega miklu betra en það íslenska. Meir’að segja Eiður Smári mátti sín lítils gegn þeim ensku.

Þó var tvennt sem mér þótti mega túlka sem góðar fréttir fyrir Liverpool-menn í leiknum:

1: Jamie Carragher: Drengurinn var hér að spila sinn fyrsta landsleik sem miðvörður í fjarveru hins hnjaskaða John Terry. Þótt Terry verði eflaust búinn að jafna sig fyrir Euro 2004 eftir viku þá er ljóst að Eriksson telur Carragher vera betri kost en hinn óreynda Ledley King í miðvarðastöðuna. Og hann spilaði líka fantavel í þessum leik.

Að mínu mati býður færsla Carragher inn í miðja vörnina upp á skemmtilegan kost fyrir Liverpool-liðið og nýjan stjóra þess. Segjum, pælinganna vegna, að Benítez verði þjálfari og að hann kaupi Ayala með sér. Ayala er frábær en hins vegar 31 árs gamall. Hyypiä er 30 ára gamall og því teljast þeir varla framtíðarmenn. Henchoz er einnig 31 árs gamall. Þannig að ef huga þarf til framtíðar í miðvarðarstöðunni þá þarf að kaupa þar í það minnsta innan tveggja ára, jafnvel þótt Ayala komi í sumar.

Hins vegar, ef Jamie Carragher gæti fylgt í fótspor Kolo Touré og fært sig úr bakverði inn í miðja vörnina þá myndi ég telja að það henti okkur vel. Sem bakvörður að upplagi er Carra með betri bolta- og sendingatækni en margir miðverðir, en hann er samt sem áður mjög líkamlega sterkur, góður skallamaður, einn besti man-marker deildarinnar og frábær tæklari. Þá er hann mjög fljótur, allavega miðað við miðverði og enn á besta aldri, aðeins 26 ára gamall. Þá er hann mjög virtur innan hópsins og mikill Liverpool-maður að innræti.

Segið mér að hann sé ekki framtíðarmiðvörður hjá okkur?!?!?

2: Owen Hargreaves: Mér fannst Hargreaves eiga góða innkomu í seinni hálfleik og það sem vakti athygli mína er það að í fyrsta skiptið í langan tíma notaði Sven Göran Eriksson hann á miðri miðjunni. Þar sem Lampard og Gerrard skiptust á að stjórna traffíkinni hjá Englandi í fyrri hálfleik tók Hargreaves við því hlutverki í seinni hálfleik og stóð sig rosalega vel. Eins og Gerrard er Hargreaves mjög fjölhæfur miðjumaður, getur spilað báða kanta og í raun bakverðina auk miðjunnar. Þá er hann jafnfættur, vinnur rosalega vel, er þindarlaus og hefur næmt auga fyrir góðum staðsetningum og sendingum. Þá er hann prýðis-tæklari. Ef það er eitthvað sem hann skortir þá er það örlítið meiri líkamlegri styrkur … en það stendur til bóta. Hann er miklu sterkari í dag en fyrir fjórum árum, og þá vann hann Meistaradeildina með Bayern Munchen.

Ef, eins og ég leiddi líkum að í síðustu færslu gærdagsins, við ætlum okkur að selja Dietmar Hamann á lágu verði til Bayern Munchen, þar sem nýi stjórinn Felix Magath tekur honum eflaust opnum örmum, er ekkert svo vitlaust að ætla að við viljum fá aðgang að Owen Hargreaves í staðinn. Og ég tel að Liverpool gætu gert mörg vitlausari kaup en Owen Hargreaves … ég væri í það minnsta til í að fá hann. Hann gæti orðið fullkominn félagi Stevie G á miðjunni, nú og ef við kaupum t.d. Aimar eða Van der Vaart með Stevie G á miðjuna gæti Hargreaves leyst hægri kantstöðuna sem er mikið vandamál hjá okkur. Hann er vissulega góður kantmaður, a la Beckham, sem getur líka spilað bæði á kanti og miðju.

Þannig að ef eitthvað er að marka þennan leik þá eigum við að setja Carra í miðja vörnina og kaupa Hargreaves á miðjuna. Ó, og versla Heiðar Helguson sem back-up fyrir Owen/Cissé/Baros/Pongolle. Haldiði að hann væri ekki skothelt laumuvopn fyrir Liverpool í vetur? Ég sé það fyrir mér, erfiður 0-1 útisigur gegn AC Milan í undanúrslitum Meistaradeildarinnar eftir 10 mánuði … og súper-varamaðurinn Helguson skorar markið … með skalla! Nema hvað. 🙂

5 Comments

  1. Íslendingar voru ekki að standa sig…þó að við vórum að keppa á móti Englandi á maður ekki að tapa 6-1..annars síndu Íslendingarnir góða tkta inn á köflum:)

  2. Já, ég er nokk sammála um að Carragher gæti verið athyglisverður kostur í miðvarðarstöðuna.

    Er það ekki rétt munað hjá mér að Carragher hafi byrjað sem varnarsinnarður miðjumaður, hafi svo verið færður í miðvörðuinn í einhverjum meiðslum og svo verið færður í bakvörðinn þegar Ziege meiddist.

    Ég vil allavegana frekar sjá hann í miðverðinum heldur en í bakverðinum. Held að hæfileikar hans nýtist betur þar.

  3. Er Carra ekki þekktur fyrir að skora sjálfsmörk þegar hann spilar miðvörð?

Kaup og sölur? Án þjálfara???

Góð grein um hópinn sem bíður Benítez!