Spennandi deildarkeppni framundan!

Það er ekki miklar fréttir að hafa af þjálfaramálum Liverpool þessa dagana. Benítez er enn langlíklegastur til að taka við og maður bíður bara þolinmóður eftir því að einhverjar frekari tilkynningar berist um málið, annað hvort frá honum sjálfum eða frá Liverpool FC.

Á meðan við bíðum er þó ekki úr vegi að velta aðeins fyrir sér framtíð liðanna í efri hluta deildarinnar á næsta tímabili. Vissulega munu nýliðar eins og Norwich, W.B.A. og Crystal Palace eiga erfitt uppdráttar og tel ég einnig að lið eins og Portsmouth, Blackburn, Middlesbrough, Southampton og Bolton muni eiga erfitt tímabil fyrir höndum. Vissulega áttu Bolton-menn frábært tímabil sl. vetur en það áttu Southampton og Blackburn líka árið þar áður. Ég er á því að Bolton-menn muni ekki ná að fylgja þessu frábæra gengi sínu eftir á næstu leiktíð, nema alvarlegar fjárfestingar í leikmannahópnum eigi sér stað.

Reyndar heyrði ég af því á spjallsvæði RAWK að Sam Allardyce vilji kaupa Danny Murphy og Djimi Traoré frá Liverpool, þannig að kannski eru einhver leikmannakaup á dagskrá hjá honum. Engu að síður tel ég að Bolton-liðið muni, eins og hin liðin sem ég taldi upp áðan, eiga erfitt uppdráttar og eflaust verma neðri hluta deildarinnar á næsta tímabili.

Nú, hvað toppinn varðar er það alveg fyrirséð. Eins og venjulega verða Arsenal, ManU, Newcastle, Chelsea og Liverpool þarna uppi við tindinn. Það verður spennandi að sjá hvernig Mourinho tekur til hendinni hjá Chelsea, skv. fréttum í dag ætlar Peter Kenyon honum að gefa æsku liðsins sérstakan gaum, sem hljóta að teljast góðar fréttir fyrir menn eins og Wayne Bridge, Joe Cole, Damien Duff, Glen Johnson og Scott Parker. Þá hefur mér þótt skrýtið hvað lítið hefur heyrst af leikmannamálum hjá Newcastle. Slúðrið er að segja okkur að þeir séu reiðubúnir að selja Dyer, Bellamy og Bramble fyrir rétt verð, sem túlkast sem tveir sem meiðast of oft og einn sem getur ekki neitt verði að víkja til að hægt sé að kaupa a.m.k. tvo góða sem hægt er að treysta á að spili heilt tímabil og það vel. En að öðru leyti er lítið fjallað um kaup hjá Newcastle. Þó tel ég algjöra vitleysu að afskrifa þá, eftir lélegt tímabil er þeim eflaust jafn mikið í mun og okkar mönnum í Liverpool að ná að bæta sig.

Nú, fyrir utan þessi klassísku topp-5-lið þá eru nokkur sem gætu farið á hvorn veginn sem er, þ.e. lent í botnbarátturugli eða barist um Evrópu- og jafnvel Meistaradeildarsæti á komandi vetri. Að mínu mati eru þetta lið eins og: Birmingham, Aston Villa, Charlton, Fulham, Manchester City og Everton. Vissulega fúlsa sumir við því að ég hafi Everton og ManCity þarna en gleymum því ekki að fyrir rétt rúmu ári var þetta Everton-lið að spila hörkubolta og sækja hart að sæti í Meistaradeild ásamt Liverpool. Manchester City-liðið er enn hörkuvel mannað og ef Keegan nær að koma taktískum málum í lag og kaupa a.m.k. einn flottan miðvörð í sumar (þar sem hann er með einhverja slöppustu vorn sem ég hef lengi séð) þá ætti skemmtilega liðið í Manchester-borg vissulega að geta gert okkur hinum skráveifur næsta vetur. Nema við kaupum Shaun Wright-Phillips, þá verður þetta bara erfitt fyrir þá…

Nú eru 19 lið upptalin og aðeins eitt eftir. Lið sem, að mínu mati, gæti orðið það lið sem bætir sig mest á næsta vetri: Tottenham Hotspur. Jú, eins og Einar gat um í færslu hér fyrr í dag voru Spurs að ráða landsliðseinvald Frakka, Jacques Santini sem framkvæmdarstjóra sinn næsta vetur. Hann mun taka við Spurs-liðinu eftir að Frakkar hafa lokið þátttöku í Evrópukeppni Landsliða sem hefst eftir rúma viku. Það verður að teljast líklegt að þeir fari alla leið í undanúrslitin, að minnsta kosti. Þá voru þeir nýlega að reka David Pleat sem umsjónarmann knattspyrnumála hjá liðinu og réðu Danann snjalla, Frank Arnesen sem starfað hefur við góðan orðstír hjá hollenska stórliðinu PSV í hans stað.

En ef við horfum á t.d. Aston Villa-liðið þá ættu menn alveg að geta sagt sér að ef þjálfaramálin verða loksins tekin í gegn hjá liðinu þá er ekki eins og það þurfi að eyða fleiri tugum milljóna í að kaupa nýtt lið. Síðan O’Leary tók við Villa fyrir ári síðan hefur hann aðeins verslað tvo leikmenn: markvörðinn Thomas Sorensen sl. sumar og svo Nolberto Solano frá Newcastle í maí sl. Að öðru leyti treysti hann á ungu strákana í Villa-liðinu, auk þess að vekja Kólumbíumanninn Juan Pablo Angel upp frá dauðum. Sá maður átti 0% framtíð í liðinu undir stjórn Graham Taylor en er undir stjórn O’Leary orðinn einn skæðasti framherji deildarinnar.

Ef við lítum á leikmannahóp Tottenham Hotspurs sést glögglega að svipuð staða er uppi á teningnum:
Markmenn: Paul Robinson, Kasey Keller og hinn ungi Rob Burch

Varnarmenn: Stephen Carr, Mauricio Taricco, Goran Bunjevcevic, Gary Doherty, Mbulelo Mabizela, Ledley King, Anthony Gardner, Dean Richards og hinn ungi Stephen Kelly

Miðjumenn: Jamie Redknapp, Michael Brown, Rohan Ricketts, Dean Marney, Johnnie Jackson og Simon Davies

Framherjar: Fréderic Kanoute, Robbie Keane, Hélder Postiga, Jermain Dafoe og hinir efnilegu Lee Barnard og Mark Yeates

Eins og sést glögglega eru nokkrar stöður sem þarf að fylla í, en kjarninn er til staðar. Í Paul Robinson (nýkominn frá Leeds) og Kasey Keller eru þeir með eitt af betri markvarðapörum deildarinnar, í vörninni geta þeir byggt í kringum kjarnann sem samanstendur af Stephen Carr (hægri bak), Ledley King, Dean Richards og Anthony Gardner (miðverðir). Á miðjunni hafa þeir góða menn í Simon Davies (hægri kantur), Jamie Redknapp, Michael Brown og hinum unga Rohan Ricketts (miðjumenn) og í framlínunni hafa þeir frábæra fernu í Kanoute, Keane, Defoe og Postiga.

Það þarf augljóslega að fylla upp í vinstri vænginn hjá liðinu. Eins og er hafa þeir engan góðan vinstri bakvörð og því síður vinstri kantmann. Þá þurfa þeir eflaust að kaupa einn góðan mann á miðjuna þar sem Jamie Redknapp er allt of meiðslagjarn. Ef hann nær að verða heill einhverja mánuði í einu þá er hann gulls ígildi fyrir liðið enda einhver hæfileikaríkasti enski miðjumaðurinn síðasta áratuginn. En það er bara allt of sjaldan, ég man varla hvenær hann náði síðast að spila 10 leiki í röð án þess að meiðast alvarlega. Þannig að þeir verða að fá góðan mann með Brown og Ricketts á miðjuna.

Að öðru leyti eru þeir vel staddir: Flottir markverðir, flottir hægri-menn í Carr og Davies, flottir landsliðsmiðverðir í Richards, King og Gardner og flott framherjaferna. Það þarf ekki mikið til að þetta Tottenham-lið verði alveg stórhættulegt fyrir okkur hin, og miðað við aldur og fyrri störf Santinis (gerði Lyon að Frakklandsmeisturum 1996) ætti hann að vera meira en hæfur til að fylla í þessar tvær-þrjár stöður í byrjunarliðinu sem þarf til að liðið verði öflugt.

Þá er annað sem hann þarf að gera og það er að losa Tottenham við Igor Biscan þeirra Lundúnarbúa: Gary Doherty. Ég get ekki ímyndað mér að Biscan komist í vörnina hjá nýjum þjálfara Liverpool, er hreinlega reiðubúinn til að éta sokkana mína (eða verða morðóður) ef ég sé Biscan aftur í miðri vörn Liverpool þegar Benítez er (væntanlega) tekinn við. Á sama hátt verð ég gjörsamlega hlessa ef, einhverra hluta vegna, Gary Doherty fær leik fyrir Tottenham undir stjórn Jacques Santini.

Við Einar munum spá betur í væntanlegt tímabil þegar nær dregur byrjun mótsins í Englandi en ég þori alveg að spá því hér og nú, í kjölfar ráðningar Santinis, að Tottenham eru mjög líklegir til að verða spútniklið næsta veturs.

Að lokum: Einar, það tók Tottenham 10 mánuði að ráða nýjan stjóra. Er það ekki svolítið ósanngjarnt að við séum óþreyjufullir eftir 9 daga? 😉

Af hverju Benitez hætti

Hamann til Bayern?