Kaup & Sölur Á Bið?

Þegar Gérard Houllier var rekinn frá Liverpool fyrir rúmri viku voru samningaviðræður við nokkra mögulega nýja leikmenn komnar vel á veg. En í kjölfar fréttanna af brottrekstri Houlliers voru flestar þessar samningaviðræður settar í biðstöðu þangað til nýr framkvæmdarstjóri væri kominn til starfa. Kaupin á Djibril Cissé voru, Guði sé lof, þau einu sem var ákveðið að klára þrátt fyrir brotthvarf Houlliers – enda nokkuð ljóst að það er ekki einn þjálfari í heiminum sem myndi fúlsa við því að hafa Djibo í sínu liði.

En hvað með önnur kaup? Nýlega sagði Sigursteinn Brynjólfsson, formaður Liverpoolklúbbsins á Íslandi, í grein sem birtist á Liverpool.is, frá þessum kaupum sem sett hafa verið á bið. Meðal annars fjallaði hann um kaupin á Joey Barton frá Manchester City:

>Einn af þeim sem var á leiðinni var Joey Barton, leikmaður Manchester City. Talið var að hann væri á leiðinni fyrir 2 milljónir punda, en nú er það talið í óvissu. Ekki er þó víst að málið sé dautt með hann, þar sem hann hefur verið einn af fáum björtum punktum í leik City í vetur og fæst á lágu verði.

Og þetta hafði hann síðan um fyrirhuguð kaup á Rafael Van der Vaart að segja:

>Rafael Van der Vaart er annar, þar sem samningaviðræður voru komnar á lokastig. Þau kaup hafa líka verið sett í algjöra biðstöðu og verður ákvörðun um hann einnig tekin af nýjum framkvæmdastjóra.

Sigursteinn er að mínu mati alveg jafn áreiðanlegur miðill fyrir slúðrið eins og hver annar. Oft hefur hann átt gátuna og haft rétt fyrir sér, og man ég sjaldan eftir því að hann hafi farið með fleipur, ef nokkru sinni. Ég veit að hann hefur örugga heimildarmenn innanborðs hjá klúbbnum í Bítlaborginni, hverjir það eru veit ég ekki nákvæmlega en mig grunar nokkur nöfn, en ljóst er að hann er að fá mjög áreiðanlegar upplýsingar.

Mörgum léttir eflaust við tilhugsunina um að nýr þjálfari gæti fengið Van der Vaart í hendurnar þrátt fyrir allt – þegar Houllier fór héldu margir að þar með væru þau kaup úr sögunni. Þá líst mér í raun ekkert illa á Joey Barton heldur; hann er einn besti vinur Steven Gerrard, uppalinn Scouser, ungur og baráttuglaður. Kannski enginn heimsklassaleikmaður á miðjuna (það væri Van der Vaart) en frábær viðbót í ‘hópinn’ engu að síður.

Svo er náttúrulega spurning um sölur líka. Margir búast við því að Igor Biscan og El-Hadji Diouf verði seldir í sumar, ef ekki fleiri. Þá hefur Djimi Traoré verið að reyna að komast til W.B.A. undanfarna daga en án árangurs. Rick Parry hefur að sjálfsögðu frestað öllum sölum þangað til nýr framkvæmdarstjóri kemur, enda ekkert vit í að selja gæja sem nýr maður myndi kannski vilja halda.

Ókei, smá hliðarspor: Ef nýr stjóri vill ekki selja Igor Biscan er hann ekki hæfur sem stjóri Liverpool. Ekkert flóknara en það!

Já, hvar var ég? Jamm, leikmenn sem gætu farið frá félaginu. Sumir af þessum gæjum eru þöglir sem gröfin en það gladdi mitt litla hjarta að sjá að Vladi Smicer vill ólmur impressa nýjan stjóra, hvort sem það er Rafa Benítez eða einhver annar! Ég hef nefnilega alltaf haft mikið álit á Smicer. Hann er, að mínu mati, frábær leikmaður til að hafa í hópnum hjá sér. Fjölhæfur, vinnur vel fyrir liðið, er óeigingjarn og mjög hæfileikaríkur. Svona kannski svipaður leikmaður og Danny Murphy, svo að dæmi sé tekið.

Það sem hefur hindrað hann í að verða fastamaður í liði Liverpool er tvennt: meiðslaóheppni og óstöðugleiki. Hann á það til að leika hræðilega í nokkra leiki, en nær samt einhvern veginn alltaf að fá mann til að fyrirgefa sér aftur. Ég held að Vladi verði aldrei fastamaður í liði Liverpool, sama hver kemur inn til að stjórna liðinu, en það er allavega gaman að sjá að hann hefur viljann til að sanna sig undir handleiðslu nýs stjóra:

>As far as I’m concerned I want to stay and show the new boss I deserve to play for Liverpool. I have another year to run on my contract and want to stay.

Þetta líkar mér að heyra! Þeir mættu vera fleiri í liðinu sem hugsa svona!

Kewell og Baros

Af hverju Benitez hætti