Vangaveltur um leikmannahópinn

Brottrekstur Houllier hefur auðvitað þau áhrif að þeir leikmenn, sem Liverpool hefur verið orðað við, eru ekki endilega spennandi í augum nýs þjálfara.

Joey Barton er einn af þessum leikmönnum, sem [þarf núna að bíða eftir þjálfarabreytingum hjá Liverpool](http://www.manchesteronline.co.uk/sport/football/manchestercity/s/118/118284_houllier_axe_leaves_barton_in_limbo.html). Barton var búinn að vera orðaður nokkuð oft við Liverpool. Hann ku vera góður vinur Stephen Gerrard og er víst sjálfur mikill Liverpool aðdáandi.

Ég var aldrei neitt sérstaklega spenntur fyrir þeim leikmönnum, sem við vorum orðaðir við hvað mest áður en að Houllier hætti, það er Barton, Shaun-Wright Phillips og Michael Dawson. Get ekki séð að neinn af þessum leikmönnum myndi bæta byrjunarlið Liverpool. Ef þeir eru keyptir sem back-up þá er það í lagi, en ég bara sé ekki tilganginn með því að styrkja bekkinn endalaust. Auk þess voru upphæðirnar, sem voru nefndar fyrir Wright-Phillips, fáránlegar.


Fyrir nokkru skrifaði ég þessa grein: [Hvernig má bjarga Liverpool](http://www.kop.is/gamalt/2004/03/14/05.57.55/index.php). Liverpool eru nú þegar búnir að klára skref 1 (reka Houllier) og hluta af skrefi 2 (selja Heskey).

Ég hef alltaf haldið því fram að það að reka Houllier væri ekki lausn per se, en væri hins vegar fyrsta skrefið í átt til þess að bjarga liðinu. Næsta skrefið hlýtur að vera að ráða toppþjálfara og gefa honum svo tækifæri til að laga til í hópnum. Einsog ég sagði í greininni þá eru að mínu mati í liðinu 6 leikmenn, sem ættu heima í byrjunarliðinu: Kirkland, Hyppia, Gerrard, Kewell, Owen og Baros. Það þýðir að 6 stöður af 11 eru í lagi. Hinar 5 eru í misvondum málum. Það þarf að fá inn nýja leikmenn og losa sig við einskins nýta leikmenn.

Þannig að ég tel okkur vanta miðvörð með Hyppia, hægri bakvörð, vinstri bakvörð, hægri kantmann og miðjumann með Gerrard. Í raun einu hlutar liðsins, sem eru í fullkomnu lagi eru markvarðastaðan og framherjarnir. Ég er á því að Henchoz og Hamann séu ekki nógu góðir til að spjara sig og að þeir þurfi að fara. Eins er ég ekki hrifinn af Jamie Carragher sem bakverði. Ef hann á að spila einhvers staðar, þá er það í miðverðinum, því það kemur ekki nokkur skapaður hlutur útúr honum í sókninni.


Ef við látum okkur dreyma um að Benitez komi til Liverpool og taki með sér Ayala og Aimar, þá erum við þar búnir að laga tvær stöður, það er miðvörðinn og miðjuna. Þá vantar okkur enn hægri kantmann og bakverði.

Tveir bestu bakverðir Liverpool í dag eru að mínu mati Riise og Finnan. Þeir geta báðir spilað alveg frábærlega en á síðasta tímabili voru þeir alls ekki að standa undir væntingum.

Diouf á hægri kantinum er einnig (að mínu mati) frábær leikmaður. Hann er ótrúlega leikinn og einhvern veginn finnst mér stundum einsog hann þyrfti bara nýjan þjálfara til að taka sig í gegn. Kannski eru það draumórar en við megum ekki gleyma því að [Diouf](http://www.liverpoolfc.tv/team/squad/diouf/) er bara 23 ára gamall en samt hefur hann verið valinn knattspyrnumaður Afríku tvisvar. Það hafa allir séð hvað hann getur gert. Spurningin er bara hvort hann geti gert þá hluti í hverjum leik.

Ég get ekki látið mér detta í hug hægri kantmann, sem ég get séð að gæti gengið strax inní liðið og bætt það (fyrir utan Beckham kannski :-)). Þannig að það er spurning að gefa Diouf tækifæri áfram. Að mínu mati eru langmikilvægustu stöðurnar, sem þarf að laga miðvarðarstaðan með Hyppia og miðjumannsstaðan með Gerrard.

Þjálfaraflækjur

2 vikur?