Af hverju er Parry í fríi?

Segjum sem svo að það sé verkfall í fyrirtækinu sem þú, lesandi góður, stjórnar. Eða að þú sért skólastjóri og kennararnir hafi allir verið reknir í gær og skólinn eigi að hefjast eftir nokkra daga. Segjum sem svo að eitt umdeildasta frumvarp seinni ára sé til umræðu á þingi og þú sért forseti. Ímyndum okkur sem svo að þú sért nýbúinn að reka framkvæmdarstjóra Liverpool FC og að nú bíði allir með óþreyju eftir að þú ráðir annan mann í hans stað.

Sem sagt, áríðandi mál sem þola enga bið. Spurningin er: færir þú í frí?

Ég kemst ekki hjá því að verða hálf ringlaður þegar ég hugsa til gjörða og sagna Rick Parry sl. viku. Maðurinn er í hrópandi þversögn við sjálfan sig. Hann talar í sífellu um hversu mikilvægt það er að ráða réttan mann í starfið og því vilji menn ekki taka neinar flýtiákvarðanir. Og flýgur svo í fjölskyldufrí til Barbados…..?

Ég fatta manninn eiginlega ekki. Ég hefði haldið að hann myndi fresta fríinu, fara beint í það að tala við hugsanlega arftaka Houlliers eftir mánudaginn síðastliðinn … og svo að ráðningu lokinni gæti hann slakað á á sólarströnd í 10 daga? Það meikar allavega meira sens.

Slúðrið er nánast einhliða – Rafael Benítez er á leiðinni til Liverpool. Samt er hann í samningaviðræðum við Valencia núna, þar sem talið er að hann muni neita að framlengja. Og síðan muni hann semja við okkur. En ef hann er enn að velta fyrir sér samningi frá Valencia, af hverju er þá Parry ekki að hamast á honum með betra tilboð akkúrat núna?

Tökum annað dæmi: Alan Curbishley. Hann er líklegast ekki á leiðinni til okkar, þar sem hann er þegar byrjaður að versla leikmenn fyrir næstu leiktíð. Martin O’Neill er líklegast ekki heldur að koma, enda væri það í meira lagi skrýtið eftir að hann vann dómsmál á hendur síðasta blaðinu sem þorði að slúðra um flutning hans til Liverpool. Þá tel ég nokkuð öruggt að Kenny Dalglish sé ekki heldur á leið til Liverpool ………. eða hvað?

Ég rak augun í nokkuð skrýtið um daginn í grein á netinu (finn hana því miður ekki aftur og get því ekki vísað í hana). Þar stóð að Parry væri ekki aðeins á leið til Barbados með fjölskyldunni til að slappa af heldur einnig til að spila sem markvörður með Old Boys-liði Liverpool FC í einhverju skemmtimóti. Mér fannst ekki mikið til þessara upplýsinga koma þegar ég las þessa frétt fyrir tveimur dögum, en í dag fór ég að hugsa: hverjir aðrir eru að spila í þessu Old Boys-liði?

Getur verið að Parry liggi svona mikið á að fara til Barbados af því að þar sé maður sem hann vilji lokka til starfa fyrir Liverpool? Og þá er hin augljósa spurning í framhaldi af því: Hver gæti sá maður verið?

Augljósir kostir væru t.d. Phil Thompson, Ian Rush og Kevin Keegan sem eru allir fyrrverandi leikmenn Liverpool og með reynslu í þjálfara/framkvæmdarstjórastöðu. Jú, og Kenny Dalglish.

Ég verð því miður að játa að ég er ekki með frekari upplýsingar um það hverjir aðrir eru í þessu Old Boys-liði en ef einhver hefur rekist á það einhvers staðar má sá hinn sami endilega láta okkur vita!

Auðvitað er þetta bara galin hugdetta hjá mér … þar til annað kemur í ljós. Ég tel enn langlíklegast að Benítez sé að koma og að þrátt fyrir orð Parrys þá hafi hann verið búinn að ganga frá munnlegu samkomulagi við Benítez áður en hann fór í frí. Það er bara það eina sem kemur til greina, í rauninni, að hann hafi gengið frá þessu áður en hann fór að flatmaga á strönd (og í marki) í Barbados! En hvað sem því líður þá er ljóst að við fáum að heyra eitthvað ákveðið í síðasta lagi eftir tvær vikur … þannig að ég minni aðra (og sjálfan mig) enn og aftur á: þolinmæði er dyggð!

5 Comments

  1. Nákvæmlega, ég skil þetta ekki með þetta frí hans Parry. Ef hann er að segja alveg satt og að hann fór í frí án þess að tala við einn einasta mann, þá er það nánast glæpsamlegt kæruleysi.

    Hann bara hlýtur að vera búinn að tala við einhvern. Hann breytti líka aðeins tóninum frá því að hann “vonaðist” til að klára þetta á næstu 4 vikum yfir í að það væri “öruggt” að þetta myndi klárast á næstu tveim vikum. Þannig að hann hlýtur að vera öruggur um að fá sinn mann. Ég vona bara að það sé Benitez.

    Þrátt fyrir að Daglish sé goðsögn og allt það, þá vil ég ekki fá hann aftur sem framkvæmdastjóra. Það virkar aldrei vel að leita svoleiðis aftur til fortíðar.

  2. Nákvæmlega það sem ég var að segja – ef hann fór í frí án þess að vera búinn að tala við neinn er það nánast glæpsamlegt kæruleysi – NEMA að hann ætli sér að tala við einhvern á Barbados. Þaðan kom nú þessi brjálaða kenning mín um Dalglish… :tongue:

    Það er bara svo erfitt að trúa blöðunum. Þau voru fljót með fréttirnar af sölu Heskey, kaupum Cissé og uppsögn Houlliers … og því vill maður trúa þeim núna. Það er samt erfitt á meðan Parry heldur akkúrrat öfugum staðreyndum fram.

    Biðin er erfið…

Ranieri rekinn

Benitez HÆTTUR!