Heysel, 19 árum síðar

Heysel.jpgÍ dag eru 19 ár liðin frá því að 39 knattspyrnuaðdáendur létust þegar þeir ætluðu að horfa á Juventus spila við Liverpool í úrslitum Evrópukeppninnar á Heysel leikvanginum í Brussel þann 29. maí 1985. Sjá fréttaskýringu á BBC.

Heysel leikvangurinn var í ömurlegu ástandi og skipulagning mótshaldara var léleg þennan dag. Ákveðið var að úthluta ákveðnum fjölda miða til hlutlausra Belga, sem varð til þess að aðdáendur liðanna gátu keypt miða á svörtum markaði af Belgunum. Þess vegna lentu aðdáendur Liverpool og Juventus hlið við hlið, aðskildir einungis af girðingu.

Ástandið fyrir leikinn versnaði fljótt og að lokum byrjuðu stuðningsmenn Juventus að kasta hlutum á Liverpool aðdáendurna, sem varð til þess að stuðningsmenn Liverpool réðust á þá. Stuðningsmenn Juventus fylltust örvæntingu og flúðu flestir að vegg, sem varð til þess að stúkan hrundi undan þunga þeirra. 38 stuðningsmenn Juventus og 1 Belgi létust. Yfir 350 manns særðust.

Þessi dagur er án efa sá svartasti í sögu Liverpool og varð til þess að öllum enskum félagsliðum var bannað að taka þátt í Evrópukeppni í 5 ár. Heysel leikvangurinn var rifinn.


Liverpool tapaði sjálfum leiknum 1-0. Platini skoraði úr vítaspyrnu. Liverpool komst ekki aftur í úrslitaleik í Evrópukeppni fyrr en þrennuárið 2001.

Þetta er fyrsti knattspyrnuleikurinn, sem ég man greinilega eftir. Ég var sjö ára og man ekki alveg hvort ég hélt með Liverpool þá. Ég man óljóslega eftir heimsmeistarakeppnum fyrir þennan tíma. Einhvern veginn situr Frakkland-Þýskaland frá 1982 eftir í hausnum á mér. Ég man að Platini var uppáhaldsleikmaðurinn minn og ég hélt með Frakklandi. Hrottalegt brot Schumachers á Battiston er einhver skýrasta minning mín, þrátt fyrir að ég hafi bara verið 5 ára gamall.

Ég er ekki 100% viss um að ég hafi haldið með Liverpool árið 1985 enda var ég aðeins 7 ára gamall. Samt er þessi leikur einn af þrem leikjum, sem sitja eftir í minningunni um þá leiki, sem ég sá í æsku og ég mun sennilega aldrei gleyma. Hinir leikirnir sem ég man skýrast eftir eru Hilsborough leikurinn 1989 og þegar Liverpool tapaði titlinum á móti Arsenal á Anfield 1989.

Allavega, ég veit fyrir víst að á þessum tíma hélt ég með Juventus og ég er nokkuð viss um að ég hafi haldið líka með Liverpool. Mig minnir að ég hafi horft á leikinn með stóra bróður mínum heima hjá mér. Ég man að leikurinn var ekki spennandi, en minningin um þessa hræðilegu atburði hefur séð til þess að maður mun aldrei gleyma þessum leik.

Óafsakanleg hegðun nokkurra vitleysinga varð til þess að 39 stuðningsmenn Juventus létust og að nafn Liverpool var í fjöldamörg ár tengt ruddaskap stuðningsmanna liðsins.

Uppfært: Hérna er samansafn af frásögnum Liverpool-aðdáenda, sem upplifðu Heysel. Sannarlega átakanleg lesning.

Hargreaves

Rick Parry talar