Föstudagurinn lélegi…

Mínir menn í Liverpool FC voru að spila við Arsenal í morgun. Arsenal búnir að tapa tveim leikjum í röð, gegn Man Utd og Chelsea, voru sýnd veiði en ekki gefin í þessum leik en maður leyfði sér þó að vera bjartsýnn, enda Liverpool með sjálfstraustið í lagi eftir 4-0 sigur um síðustu helgi og ágætis spilamennsku undanfarið.

Þessi leikur var eins og svart og hvítt. Fyrri hálfleikur datt okkar megin, Liverpool-menn spiluðu ef eitthvað var betur en Arsenal og voru með verðskuldaða 2-1 forystu í hálfleik – ég farinn að gera mér vonir um sigur. Arsenal-liðið var taplaust í deildinni í vetur fyrir leikinn í dag, skyldi hið ómögulega geta gerst? Mmm… nei! Eftir fimm mínútur í seinni hálfleik voru þeir komnir 3-2 yfir og enduðu leikinn með 4-2 sigri.

Hvað gerðist, spyrja sumir? Jú, tvennt gerðist: Í fyrsta lagi þá hrukku Arsenal-menn í gang í seinni hálfleik og spiluðu eins og maður hefur séð þá spila svo oft í vetur. Þegar þeir eru í stuði er hreinlega ekkert lið sem stendur þeim á sporði. Hvergi. Sem betur fer fyrir Man Utd og Chelsea sýndu þeir ekki sitt rétta andlit gegn þeim en – því miður fyrir Liverpool – var annað uppi á teningnum í dag. Við áttum hreinlega ekki séns.

Í öðru lagi, þá hrundi Liverpool-liðið eins og spilaborg í Vestmannaeyjum eftir hléð. Þvílíkur skammarleikur sem mínir menn léku í seinni hálfleik, vörnin var til skammar, vinnslan í flestum leikmönnum hreint út sagt fáránleg og til að bæta gráu ofan á svart virtust mínir menn ekkert svar eiga við stórsókn Arsenal-manna eftir að þeir komust yfir, 3-2. Eða þá að menn hreinlega nenntu ekki að reyna.

Að mínu mati eru aðeins þrír leikmenn sem komast frá þessum leik með óskaddað orðspor, og það rétt svo: fyrirliðinn Steven Gerrard er eins og alltaf yfirburðamaður í liðinu og þrátt fyrir að hafa tapað miðjubaráttu dagsins gegn hinum nærri því fullkomna Patrick Vieira hjá Arsenal bar hann engu að síður höfuð og herðar yfir aðra leikmenn Liverpool-liðsins. John Arne Riise hefur, eftir erfiða mánuði í vetur, verið að koma sterkur inn og eftir daginn í dag hlýtur hann að vera búinn að eigna sér vinstri bakvarðarstöðuna út tímabilið. Hann var eini varnarmaður liðsins sem lét andstæðinga sína ekki gera sig að fífli; þvert á móti þá hreinlega hakkaði hann Ljungberg allan leikinn og það var ekki fyrr en Ljungberg fór að leita inn á miðjuna hjá Hyypiä og Biscan að hann komst í einhver færi. Þá var Riise einnig okkar besti maður fram á við, auk Gerrard og Diouf, en því miður þá náði Owen ekki að nýta dauðafærið sem Riise skapaði með stórkostlegri 60-metra langri sendingu inn fyrir vörn Arsenal í fyrri hálfleik. Flottur leikur hjá Riise og ef Houllier tekur hann úr liðinu eftir þessa frammistöðu þá veit ég ekki hvað ég geri. Síðast en ekki síst er síðan maðurinn sjálfur, Michael Owen. Hann skoraði annað mark okkar í dag og spilaði rosalega vel; fékk erfitt hlutskipti í framlínunni í dag en vann vel úr því. Hann sást ekki í seinni hálfleiknum en verður þó ekki kennt um það þar sem hann þarfnast þess að menn séu að koma boltanum á hann í eyðunum og þegar mennirnir fyrir aftan hann eru einfaldlega ekki að spila fótbolta er ekki við hann að sakast þótt hann fái ekki mikið af tækifærum. Samt flottur leikur hjá honum.

Hvað getur maður sagt um aðra leikmenn liðsins? Hamann: ömurlegur. Carragher: versti leikur hans í vetur. Hyypiä: gott mark en ömurleg varnarvinna. Biscan: ekki nógu góður fyrir Liverpool. Murphy: ekki nógu góður fyrir Liverpool. Diouf: vann vel, reyndi en gekk lítið. Heskey: átti góðar 10 mínútur og svo ekki meira. Þegar hann spilar vel er hann einn af þeim bestu en þegar hann spilar illa er hann fyrir neðan allar hellur. Ekki nógu góður fyrir Liverpool. Kewell er kannski einna skástur af þessum gæjum en hann, eins og allt of margir aðrir í dag, spilaði hörmulega.

Hvað getur maður gert í kjölfarið á svona sigri? Það eina jákvæða við þennan leik er það að nú eru Arsenal-menn komnir í gang og næsta lið sem þeir spila við eru Newcastle á sunnudaginn, akkúrrat liðið sem við erum að berjast við um 4. sætið í deildinni. Á sama tíma leikum við heima gegn Charlton. Ef við sigrum þann leik og Arsenal vinnur Newcastle (sem verður að teljast líklegt) þá erum við samt sem áður í mjög góðri stöðu fyrir lokaleikina, þrátt fyrir tapið í dag. Þannig að ég held áfram að fagna páskunum, allavega fram á páskadag…

Afsakanir fyrir Houllier

Þunglyndur Liverpool aðdáandi