Bikar!

dudek_worthington.jpgJa hérna, haldiði ekki að Liverpool hafi bara unnið bikar um helgina. Þetta var dálítið skrítin upplifun að horfa á leikinn, því ég horfði á hann með Emil og við höfum nokkurs konar þögult bandalag um að monta okkur ekkert alltof mikið af sigurgöngu okkar liða en hann heldur með United. Ég stökk því ekki nema einu sinni upp þegar Liverpool skoruðu mörkin og dansaði engan stríðsdans. Ég sleppti líka að öskra alltof mikið í leikslok.

En mikið afskaplega var þetta nú gaman. Loksins eitthvað til að fagna. Ég held að ég hafi ekki fagnað raunverulega í leikslok í marga mánuði.

Og yndislegast af öllu var náttúrulega að Jerzy Dudek var maður leiksins. Þrátt fyrir að ég hafi gagnrýnt nær alla leikmenn Liverpool undanfarið þá datt mér aldrei í hug að gagnrýna Dudek, því ég er fullkomlega sannfærður um að hann sé besti markvörður í heimi. Ég man að þegar hann kom aftur inní markið á móti Crystal Palace þá fékk maður aftur þessa gömlu öryggistilfinningu, sem maður hafði misst í leikjunum í nóvember.

Dudek er náttúrulega snillingur en honum var enginn greiði gerður með að hafa hann í liðinu í desember því hann var greinilega ein taugahrúga. Núna er hann hins vegar búinn að ná sé og það er frábært.

Og Diouf var bara góður líka. Ja hérna. Hann tók Silvestre hvað eftir annað í bakaríið. En náttúrulega var Emile Heskey lélegur einsog ávallt. Það var lygilega mikil breyting þegar Baros kom inná. Eftir nokkrar mínútur var hann búinn að rekja boltann upp allan völlinn, draga að sér þrjá menn og gefa svo sendingu á Gerrard í dauðafæri. Vonandi að Houllier átti sig bara á því einhvern daginn að Baros er mun betri en Heskey. Ekki nóg með það heldur er Baros líka 4 árum yngri.

Og víst maður hefur skammað Houllier oft, þá verður maður líka að hrósa honum þegar gengur vel. Núna lagði hann leikinn upp á besta hátt og setti í raun það lið, sem ég hefði sett inná (fyrir utan Heskey og Carragher). Það er ljóst að Houllier er ekki á leiðinni burt, þannig að maður verður bara að vona að hann átti sig á mikilvægi þess að liðið spili sókarbolta. Ég þoli ekki fleiri tímabil af þessari varnarknattspyrnu. Meira að segja Michael Owen er búinn að fá nóg.

3 Comments

  1. Mér fannst svo merkilegt að hafa komist í gegn um allan pistilinn að ég varð bara að senda komment 😯

  2. Kannski að ég ætti að hafa samantekt fyrir þig einsog þú varst með á þinni síðu fyrir Kristján.

    Til dæmis fyrir þessa færslu

    Liverpool vann bikar, það gerir Einar glaðan 🙂

Where did it all go wrong?

Ó Heskey