Liverpool brást bara ansi vel við ömurlegum úrslitum síðustu helgi eftir 1-0 tap gegn Leeds á Anfield og vann Napoli 2-0 í kvöld með mörkum frá Mo Salah og Darwin Nunez. Liverpool endar þar af leiðandi í öðru sæti riðilsins með fimmtán stig líkt og Napoli en ítalska liðið er á toppnum með betri markahlutfall – sem gerir stórt tap gegn þeim í fyrstu umferðinni alveg extra súrt.
Það voru gerðar nokkrar breytingar á byrjunarliðinu í leiknum til að mynda þá byrjaði Nunez á bekknum, Henderson var ekki í hópnum, Konate kom í miðvörðinn og Jones byrjaði. Napoli mætti til leiks með sterkt lið og flesta af lykilmönnum sínum í byrjunarliðinu.
Heilt yfir þá spilaðist leikurinn bara nokkuð vel og hann var hraður og mikið var um að liðin létu boltann ganga hratt sín á milli og reyndu að sækja hratt og ákaft á hvort annað. Dómari leiksins dæmdi heilt yfir ekki rosalega mikið eða oft og lét leikinn flæða frekar mikið – leikmenn Napoli voru þó einstaklega góðir í að krydda snertingar og næla sér í nokkrar aukaspyrnur hér og þar í leiknum en það er bara eins og það er.
Það var samt almennt ekki mikið um færi og alls ekki dauðafæri. Ég man varla til þess að Napoli hafi átt eitthvað almennilegt marktækifæri í kvöld sem sýndi að varnarleikur Liverpool var heilt yfir mjög flottur og þeir Konate og Van Dijk leystu sitt í hjarta varnarinnar nokkuð vel – það sem við höfum saknað Konate undanfarið, hann er alveg virkilega flottur.
Napoli tókst að koma boltanum í netið í síðari hálfleik þegar varnarmenn Liverpool gleymdu sér í að dekka eftir fast leikatriði Napoli en eftir ansi margar mínútur þá var það dæmt af vegna rangstöðu þess sem skoraði. Þetta var svolítið gegn gangi leiksins en Liverpool brást bara nokkuð vel við þessu.
Það lá nú ekki alveg endilega mark í loftinu en Liverpool var farið að sækja af meiri krafti að marki Napoli og á 85.mínútu á Nunez skalla á markið eftir hornspyrnu sem markvörðurinn rétt svo nær að verja og halda hluta boltans fyrir utan línuna og þar mætti Mo Salah í frákastið og tókst að koma honum öllum yfir línuna. Flott mark og vel gert hjá bæði Nunez og Salah þarna en innkoma Nunez í leikinn var mjög jákvæð.
Í kjölfar marksins gerði Klopp þrjár skiptingar og setti inn þrjá sem vonandi verða flottir fyrir Liverpool næstu árin. Carvalho kom inn ásamt þeim Stefan Bajcetic og Calvin Ramsay sem er loksins að koma til baka úr meiðslum sem hann varð fyrir um leið og hann kom til Liverpool – shocker! – og hefur hann farið vel af stað með u23 ára liðinu undanfarið og búinn að skora þar tvö mörk úr hægri bakverðinum.
Á 98. mínútu kom upp mjög svipað atvik þegar Van Dijk skallaði boltann að marki eftir fast leikatriði og markvörður Napoli varði boltann á marklínu og þá var það Nunez sem hirti frákastið og negldi honum yfir línuna. Flott mark og frábært að sjá að Nunez heldur áfram að skora og lagði líka upp í dag.
Það má alveg færa rök fyrir því að leikurinn hafi verið svona pínu “dauður” í ljósi þess að bæði lið voru komin áfram og allt það en hvorugt liðið vildi tapa leiknum, það var aldrei einhver spurning um það. Liverpool vann þennan leik vel og liðið og leikmenn þurftu nauðsynlega á þessum sigri að halda.
Van Dijk og Konate voru flottir í kvöld. Tsimikas og Trent díluðu vel við sitt og áttu rispur fram á við. Það var kraftur í Milner í fyrri hálfleik en hann fór út af í hálfleik, líklega vegna höfuðhöggsins sem hann fékk og Thiago var flottur eins og vanalega. Fabinho gerði margt fínt í þessum leik en heilt yfir fannst mér vanta helling hjá honum og er það því miður bara orðinn einhver vani virðist vera – hann virkaði þessu sekúndubroti á eftir í frekar mörgum aðgerðum og augnablikum – það sama má segja um samlanda hans Firmino sem hefur verið frábær undanfarið en mér fannst hann alls ekki “on it” í kvöld. Alveg spurning hvort að kosningarnar í Brasilíu hafi farið eitthvað illa í þá félaga!
Curtis Jones fannst mér mjög flottur og það var skemmtilegt að sjá hann spila þennan leik með brjóstkassann upp í loft og hann virtist hafa töluverða trú á því sem hann var að gera. Við viljum sjá miklu, miklu, miklu meira af þessu frá honum. Elliott kom inn á í hálfleik fyrir Milner og átti bara nokkuð góðan leik fannst mér og sérstaklega svona þegar leið á seinni partinn þá átti hann nokkrar góðar rispur þarna hægra megin og voru þeir félagar hann, Salah og Carvalho nokkuð sprækir þarna í lokin.
Salah átti góðan leik, hann var mikið að og keyrði vel á vörn Napoli. Hann fékk svo sem ekki mikið af færum og komst í dauðafæri einn á móti einum í fyrri hálfleik en markvörðurinn varði og hann svo flaggaður rangstæður en hann skoraði sigurmarkið og það var frábært. Job well done hjá Salah í kvöld. Þá var innkoma Nunez í leikin mjög jákvæð og það er flott að sjá að hann heldur bara áfram að skora og skoraði sitt sjöunda mark á leiktíðinni í kvöld og hefur hann bara byrjað átta af þeim fimmtán leikjum sem hann hefur tekið þátt í og það er nú bara ansi flott tölfræði.
Smá meiri Nunez tölfræði en hann er að skora mörk á 107 mínútna fresti fyrir Liverpool ef leikurinn í samfélagsskildinum er talinn með og eru það bara Robbie Fowler, Daniel Sturridge, Fernando Torres, Diogo Jota og Mo Salah sem hafa skorað fleiri mörk en hann í fyrstu fimmtán leikjunum sínum og ég er nokkuð viss um að margir þeirra hafi byrjað fleiri en átta af þeim fimmtán svo það er ekki slæmt að vera þarna rétt við þennan hóp. Hann fer flott af stað og á klárlega enn helling inni.
Næsti leikur verður gegn Tottenham um næstu helgi og mikilvægt að Liverpool vinni þann leik, takk!