Latest stories

  • Upphitun fyrir úrslitaleikinn: Istanbúl

    Einsog ég hef montað mig af áður hér á þessari síðu, þá er ég, ásamt nokkrum öðrum gallhörðum Liverpool stuðningsmönnum, á leið til Istanbúl til að horfa á Liverpool og AC Milan spila í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

    Við förum út á þriðjudaginn og fljúgum til London. Þaðan tökum við svo flug til Istanbúl. Við förum svo heim sömu leið á fimmtudaginn. Þeir, sem koma til Istanbúl frá Englandi, koma inná minni flugvöllinn í Istanbúl, sem er í asíska hluta borgarinnar, en Milan aðdáendur koma inná aðalflugvöllinn.

    Istanbúl, stærsta borg Tyrklands liggur báðum megin við Bosporus sund, sem aðskilur Evrópu og Asíu. Istanbúl er stærsta borg Tyrklands og ein allra stærsta borg í Evrópu, en um 11 milljónir manna búa í borginni. Borgin var áður þekkt undir nafninu Konstantínópel þegar hún var undir stjórn Grikkja. Tyrkir, sem sigruðu borgina árið 1453, kölluðu borgina alltaf Istanbúl, en nafninu var ekki breytt formlega fyrr en árið 1930.

    Tyrkland er gríðarlega stórt land, en aðeins um 3% landsins er hluti af Evrópu, en höfuðborgin skiptist einsog áður segir á milli Evrópu og Asíu. Alls búa um 67 milljónir í Tyrklandi. 99,8% íbúa eru múslimar og allir tala tyrknesku.


    Úrslitaleikurinn á milli AC Milan og Liverpool verður spilaður á [Atatürk Olimpiyat](http://www.ataturkolympicstadium.com/eng/eng.asp) vellinum, sem er staðsettur í úthverfi í evrópska hluta borgarinnar.

    Atatürk völlurinn var byggður í því skyni að reyna að ná Ólympíleikunum til Tyrklands. Þrátt fyrir að vera einn af bestu völlum í Evrópu, þá hefur hann verið lítið notaður. Galatasary notaði völlinn eitt tímabil, en utan þess hefur hann einungis verið notaður fyrir meiriháttar viðburði.

    Völlurinn kostaði um 6 milljarða í byggingu og tekur alls um 80.000 manns í sæti. Fyrir úrslitaleikinn þá hefur miðunum verið dreift svona: Liverpool fékk 20.000 miða, AC Milan 20.000, UEFA.com 7.500, tyrkneska knattspyrnusambandið 7.500 og UEFA “football family” 14.500. Samtals 69.500 miðar. Vegna mikillar öryggisgæslu þá verða ekki seldir miðar í öll sætin á vellinum.

    Þannig að liðin tvö fá 20.000 miða hvort. Það er hins vegar ljóst að fullt af hinum miðunum, sérstaklega þeim sem var úthlutað í gegnum uefa.com og tyrkneska knattspyrnusambandið, munu verða keyptir upp af Liverpool og Milan stuðningsmönnum. Til dæmis koma miðarnir, sem við Íslendingarnir fáum, sennilega úr þeim hópi.

    Öryggisgæslan verður án efa gríðarleg á vellinum, ekki síst í ljósi þess sem hefur gerst á öðrum fótboltaleikjum í Tyrklandi. Tyrkneska knattspyrnusambandið er án efa undir gríðarlegum þrýstingi frá UEFA um að allt gangi einsog í sögu og því verður gæslan efalítið gríðarlega mikil. Við vonum náttúrulega að allt fari vel fram og að þetta verði Tyrkjunum til sóma.


    Ég ræddi það stuttlega við Kristján, að ég er ekki enn kominn með í magann fyrir leikinn. Held ég sé ekki almennilega búinn að gera mér grein fyrir þessu. **Ég er að fara að horfa á Liverpool í úrslitum Meistaradeildarinnar!** Einsog ég hef endurtekið áður, þá var ég 6 ára gamall þegar við vorum síðast í úrslitum þessarar keppni. Einhvern tímann í dag, morgun, eða mánudag mun það sennilega renna upp fyrir mér. Og þá fæ ég sko *sting* í magann!

    Það hefur alltaf verið gaman að hafa verið Liverpool stuðningsmaður. Það eru í raun einstök forréttindi að fylgja þessu yndislega liði og bera tilfinningar til þess. En það hefur sjaldan verið jafn gaman og núna. Á miðvikudaginn munum við sjá stærsta fótboltaleik okkar liðs í 20 ár. Við skulum njóta þess, hvort sem við verðum í stúkunni í Atatürk, á Players eða heima í stofu.

    **Áfram Liverpool!**

  • Arsenal bikarmeistari

    Það er ekki oft, sem ég hef samúð með Manchester United mönnum. Reyndar man ég ekki hvenær það hefur gerst.

    En við hljótum að geta verið sammála um að [þetta](http://news.bbc.co.uk/sport1/hi/football/fa_cup/4558271.stm) var náttúrulega brandari.

  • Milan-tap + Hargreaves + Baros

    Jæja, í gær réðust úrslitin í Serie A, þegar AC Milan gerðu jafntefli við Palermo, sem þýðir að Juventus eru orðnir meistarar. En það er ekki það sem kemur okkur hvað mest við, sjáið bara hvernig Ancelotti stillti upp byrjunarliðinu í gær:

    Abbiati

    Simic – Mazorrati – Costacurta – Pancaro

    Brocchi – Costa – Dhorasoo – Serginho

    Tomasson – Crespo

    Svona til glöggvunar, þá er sterkasta lið AC Milan eftirfarandi:

    Dida

    Cafú – Nesta – Stam – Maldini

    Gattuso – Pirlo – Seedorf
    Kaká
    Schevchenko – Inzaghi

    Þar sem Inzaghi er orðinn heill að nýju virðist sem Crespo sé orðinn varaskeifa fyrir hann og Shevchenko, þannig að ljóst er að í gær spiluðu AC Milan deildarleik með engan leikmann sem líklegur er til að byrja leikinn gegn Liverpool. Með öðrum orðum, Ancelotti fórnaði deildinni til að geta hvílt liðið eins og það leggur sig fyrir leikinn gegn okkur!¨

    Forvitnilegt.


    Annars er það helst í fréttum í dag að Liverpool eru sagðir vera við það að landa Owen Hargreaves. Hargreaves, sem er enskur ríkisborgari en fæddur í Kanada og uppalinn í Þýskalandi, hafði þetta um málið að segja í gær:

    >”Liverpool are a very interesting club.”

    >”They are a very strong team and it is clear they have a bright future under Rafael Benítez. But, really, I don’t want to say any more until the cup final against Schalke is out of the way.”

    Talað er um að kaupverðið sé um 2.5 milljónir punda og að Hargreaves fái 45,000 pund í laun á viku, sem er það sem hann hefur í dag hjá Bayern. Líst einhverjum illa á þann díl? Nefnið mér hvar annars staðar við gætum fengið leikmann sem hefur unnið alla titla með sínu félagsliði, hefur unnið Meistaradeildina og er fastamaður í enska landsliðinu, fyrir aðeins 2,5 millur. Ef hann væri að spila fyrir enskt lið myndi hann ekki kosta undir 6-8 milljónir punda, þótt hann eigi bara ár eftir af samningi.

    Að lokum: Milan Baros er að fara frá Liverpool. Í frétt á opinberu síðunni reynir hann ákaft að neita því að hafa gagnrýnt Rafael Benítez fyrir að taka sig alltaf útaf í leikjum (úps! Milan) … en það tókst ekki betur til en svo að hann nánast talaði af sér hvað varðar framtíð sína hjá félaginu. Þetta eru hans orð, orðrétt af opinberu síðunni, en takið eftir feitletrun minni:

    >”First of all I would like to say the English newspaper translated this. I never said anything like that about Benitez because I am not in the position to criticise him.

    >”But I am focused on Liverpool and I have still got a contract here for one month, so we’ll sort it out after the final. I do not want to speak about that now, I want to speak about the final.

    >”This is going to be one of the biggest games of my life, so everybody wants to play. But as I say it is up to the gaffer and it is up to me, I am working hard in training and we’ll see.”

    Úps, Milan! Úúúps!

    Svo virðist sem hann sé á förum frá Liverpool í sumar, og að það sé þegar búið að segja honum frá því. Ég ætla að nota þetta tækifæri og ráðleggja sjálfum mér, og Einari líka, að byrja að sætta okkur strax við orðinn hlut. Brottför Milan Baros frá Liverpool verður okkur sennilega erfiðari en flestum Púllurum, þar sem við höfum haldið mikið upp á hann – eins og þessi síða hefur sýnt greinilega.

    Vonandi kveður hann bara með stæl – sigurmark á miðvikudag, takk! 😉

  • Upphitun: 5 dagar!

    forzamilan.jpg

    Átta menn sig á því hvaða leikur er að fara að eiga sér stað eftir fimm daga??? Ég talaði við Einar í dag og við ákváðum að undirleggja þessa síðu undir ærlega upphitun fyrir stærsta leik Liverpool FC í 20 ár næstu dagana. Það eru fimm dagar í Úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, og því er þetta fyrsti upphitunarskammtur af fimm, munum setja inn skammt daglega.

    Ég stefni svo á að vera með aðeins breytt fyrirkomulag af bloggi á miðvikudaginn kemur, Úrslitadaginn sjálfan, þar sem ég mun einfaldlega tjá það hvernig mér líður þar sem ég sit heima hjá mér og tel niður að útsendingunni (Einar verður að sjálfsögðu í Istanbúl). En allavega, hefjum fjörið!


    Í dag ætla ég að fjalla stuttlega um það af hverju þessi úrslitaleikur er hugsanlega sá stærsti síðan 1999, jafnvel fyrr. Árið 1998 mættust Juventus og Real Madríd í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, og ári síðar mættust Man U og Bayern München, en síðan þá má segja að engin tvö jafn mikil stórlið hafi mæst og gerðu þessi tvö ár. Þangað til núna.

    Juventus, Real Madríd, Bayern München, Man U … þetta eru lið sem hafa ekki aðeins unnið marga titla í heimalöndum sínum heldur hafa þau einnig unnið helling af Evróputitlum á milli sín. Þetta eru stórlið í orðsins fyllstu merkingu. Árið 2003 mættust svo AC Milan og Juventus, en sá leikur fyrir mér var öðruvísi af því að þar mættust tvö lið frá sama landi, og því telst hann ekki með hér – það var bara deildarbragur yfir þeim leik, að mínu mati, þótt mikið væri í húfi.

    Að öðru leyti hafa úrslitaleikir undanfarinna ára einkennst af því að ‘litla liðið’ mætir ‘stóra liðinu,’ Davíð gegn Golíat, og í fyrra gerðist það síðan að tvö ‘lítil lið’ mættust í Úrslitunum. Jú, vissulega myndu einhverjir vilja meina að Liverpool sé ‘litla’ liðið í þetta sinn – en það er bara af því að Liverpool er ekki besta liðið í deildinni heimafyrir akkúrrat núna. Þegar litið er á sögu þessara tveggja klúbba – AC Milan og Liverpool – þá sést vel að þessi tvö lið eiga bæði heima í topp-5 yfir stærstu klúbba sögunnar í Evrópu. Fyllilega.

    AC Milan hefur unnið Evrópukeppni Meistaraliða/Meistaradeildina sex sinnum. Þeir hafa einnig unnið alla hina Evróputitlana nokkrum sinnum, og eru með réttu eitt stærsta knattspyrnulið í heiminum. Þeir hafa alið af sér þónokkur frábær lið, en uppúr stendur ennþá gullaldartímabilið milli 1985 og ’95. Það lið, með menn á borð við Baresi, Donadoni, Tassotti, Ancelotti, Van Basten, Rijkaard, Gullit, Papin, Weah og að sjálfsögðu Paolo Maldini í broddi fylkingar var sennilega besta félagslið sem ég hef nokkurn tímann augum litið, svo mikið er víst.

    Lið þeirra í dag er ekki mikið verra, en ég mun fjalla ítarlegar um það á næstu dögum. Það dylst allavega engum að AC Milan er risastór klúbbur, og hvað varðar fjöll sem þarf að klífa til að ná tindinum, þá eru þeir Mount Everest Meistaradeildarinnar. Við skulum vona að okkar menn séu reiðubúnir að klifra í næstu viku.

    Liverpool – liðið okkar – þarf sennilega ekkert að fjölyrða um hér, við sem lesum og skrifum á þessa síðu vitum öll hver saga þessa stórkostlega klúbbs er. Fjórir sigrar í Evrópukeppni Meistaraliða, tap í fimmta úrslitaleiknum og eftir 20 ára “útlegð” frá stóra sviðinu er Rauði Herinn mættur aftur á nýjan leik, reiðubúinn til að gera Evrópu að bráð sinni enn eina ferðina!

    Samt, miðað við umfjöllun fjölmiðla fyrir þennan leik mætti halda að þetta sé eitthvað smálið sem AC Milan eru að fara að mæta. Það er engu líkara en AC Milan hreinlega hljóti að vinna þennan leik, og að annað sé hneyksli. Menn virðast fljótir að gleyma sögu og hefð þeirri sem ríkir innan raða Liverpool – svo ekki sé minnst á það að liðið sem er að vinna AC Milan í titilkapphlaupinu á Ítalíu, Juventus, féll út úr þessari keppni fyrir Liverpool fyrir rétt um einum og hálfum mánuði. Með öðrum orðum, þótt AC Milan séu að vinna titla í sínu heimalandi undanfarin ár en Liverpool ekki, þá er Liverpool lið á uppleið sem hefur fulla getu til að vinna sigur í þessum leik!

    Oft finnst mér þetta gleymast í umræðunni undanfarna daga. Það er eins og menn horfi bara á stórnöfnin hjá AC Milan og hugsi með sér, “þetta lið getur ekki tapað!”

    Einnig finnst mér vera frekar mikið einblínt á varnartilburði þessara tveggja liða, og þá sér í lagi Liverpool. Það er eins og hlutlausir áhorfendur búist við einhverju leiðinlegu 0-0 dæmi, af því að þessi lið spila bæði mjög sterka vörn. AC Milan fengu þó á sig þrjú mörk í síðasta leik, og við höfum skorað heilan haug af mörkum, þannig að ef líklegt þykir að Schevchenko, Kaká, Crespo og Co. geti skorað gegn Liverpool-vörninni þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að Cissé, Baros, García og Co. geti skorað nokkur hjá Milan-vörninni og við fáum bara hörkuskemmtilegan markaleik fyrir vikið. 🙂

    Að lokum langar mig að rifja upp tvo leiki sem eiga vel við í þessa umræðu. Sá fyrri er einhver almesta slátrun sem ég hef séð í stórleik í Evrópukeppni: Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar 1994, þar sem AC Milan yfirspiluðu stórlið Barcelona í heilar 90 mínútur og unnu 4-0 stórsigur!

    milan94.jpgÞað sem er merkilegt við þennan sigur er ekki bara það hversu mikla yfirburði á öllum sviðum knattspyrnunnar AC Milan hafði í þessum leik, heldur það hversu mikið menn höfðu búist við akkúrrat öfugri niðurstöðu. AC Milan var á þessum tíma ósigrandi í deildarkeppninni á Ítalíu, sérstaklega vegna ótrúlegrar varnaruppstillingar Fabio Capello, enda hafði hann úr mönnum á borð við Baresi, Rijkaard, Maldini, Desailly og Gullit að velja í vörnina og á miðjuna. Þegar kom að úrslitaleiknum voru þónokkur meiðsli í gangi hjá Milan og meðal þeirra sem ekki gátu spilað voru Van Basten, Gullit og Maldini – frekar en Baresi minnir mig. En Milan-liðið var veikt fyrir í þessum úrslitaleik.

    Hinum megin á vellinum var hins vegar spænska stórliðið Barcelona, sem þá var talið vera besta félagslið í heiminum. Undir stjórn Johan Cruyff hafði liðið á að skipa stórstjörnum á borð við Ronald Koeman, Miguel Nadal, Barjúan Sergi, Josép Guardiola, José Maria Bakero, Guillermo Amor, Hristo Stoichkov og Romário hinn brasilíska.

    Með öðrum orðum, fullskipað lið Barcelona átti að slátra meiðslum hrjáðum varnarmúr AC Milan. Annað kom þó á daginn, frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu fóru leikmenn Milan á kostum og hreinlega völtuðu yfir hið frábæra sóknarlið Barcelona. Þá – eins og í ár gegn Chelsea – kom í ljós að frábær sókn er ekki nóg þegar þú mætir taktískum snillingi á borð við Capello/Mourinho. Barcelona áttu aldrei séns fyrir 11 árum síðan!

    Hvernig tengist þetta okkar leik gegn Milan, utan þess að AC Milan vann þetta afrek? Jú, í ár hefur lítið verið rætt um annað en það að þótt Liverpool-vörnin sé sterk þá muni hún aldrei ná að leika í 90 mínútur gegn Crespo, Kaká, Inzaghi, Rui Costa, Pirlo, Cafú, Serginho, Maldini, Seedorf og sjálfum Andriy Schevchenko án þess að fá á sig mark.

    Ég segi bara, lítið á söguna – af hverju ekki? Ef Fabio Capello gat undirbúið lið sitt til að vinna óvæntan sigur gegn besta liði Evrópu, með lið sitt í meiðslavandræðum, af hverju getur Rafael Benítez það þá ekki núna?

    alaves.jpgHinn leikurinn sem ég ætla að minnast á var ekki síðri, knattspyrnulega séð. Þegar Liverpool komust síðast í úrslit Evrópukeppni, Félagsliða árið 2001, þá var altalað að þetta yrði sennilega einhver leiðinlegasti úrslitaleikur seinni ára, þar sem lið Houllier og Alavés-liðið frá Spáni höfðu bæði komist í úrslitin byggt á sterkum varnarleik, fyrst og fremst.

    Staðan í hálfleik var 3-1 fyrir Liverpool. Staðan í leikslok var 4-4. Sigurmarkið kom í framlengingu, svokallað gullmark, þegar varnarmaður Alavés skallaði fyrirgjöf Gary McAllister í eigið mark. Liverpool vann 5-4 og varð Evrópumeistari Félagsliða 2001, vann þrennuna það vorið og alls fimm titla á árinu 2001.

    Það sem ég tel að megi rekja markasúpuna til í þeim leik var sú staðreynd að Liverpool komust mjög snemma í 2-0 í leiknum, bara á fyrsta kortérinu eða svo. Það þýddi að leikáætlun Alavés-manna, hvort sem hún var varnarsinnuð eða ekki, var fokin út um gluggan og þeir urðu að gjöra svo vel og sækja, ekkert minna en það. Því hófu þeir að pressa á Liverpool-liðið, sem þó hélt áfram að sækja með örugga forystu, og úr varð ótrúlegur leikur þar sem boltinn barst vítateiga á milli og bæði lið óðu í dauðafærum. Á endanum voru skoruð 9 mörk í rúmlega 100 mínútna leik, allt af því að annað liðið gerðist svo ósvífið að byrja leikinn á að skora 2 mörk.

    Ef við næðum að leika sama leik gegn Milan, skora tvö mörk á upphafsmínútunum, þá er ég nokkuð viss um að niðurstaðan yrði sú sama. Hver svo sem taktík Milan-liðsins verður, þá myndi hún fjúka út í veður og vind og þeir myndu sækja af öllu afli – sem gæti skilað sér í stórskemmtilegum leik fyrir hlutlausa áhorfendur, sennilega nánast of spennandi fyrir okkur hina!

    Þetta eru sennilega tveir bestu úrslitaleikir síðustu 15 ára í Evrópukeppnum félagsliða, að mínu mati. Að Liverpool og AC Milan, sem leika til úrslita í ár, hafi átt þátt í báðum þessum leikjum hlýtur að boða gott. Það eru fimm dagar í leikinn í Istanbúl – ætlar einhver að veðja gegn því að sá leikur verði stórskemmtilegur og opinn?

    Læt það verða lokaorðin í dag – næsti skammtur af upphitun kemur á morgun. Áfram Liverpool!

  • 2 eða 3 í spænska landsliðinu

    [Luis Garcia og Xabi Alonso](http://www.goal.com/NewsDetail.aspx?idNews=62608) eru báðir í spænska landsliðshópnum fyrir leiki gegn Litháen og Bosníu.

    Jose Reina, sem menn telja að sé nær öruggt að komi til okkar í sumar, er líka í hópnum. Hann er að öllum líkindum markvörður númer 2, á eftir Iker Casillas, en á undan Canizares. Gott mál.


    Talandi um Spán, þá finnst varaforseta Milan vera ástæða til að [gefa út yfirlýsingu](http://www.marca.com/edicion/noticia/0,2458,633566,00.html) um að hann sé *ekki* stressaður yfir því að dómarinn í leiknum sé Spánverji. Einhverjir eiga víst að hafa haft af því áhyggjur að Spánverjinn yrði of góður við landa sína hjá Liverpool.

    Bleh bleh ble ble ble…

  • Varaliðið & erlendir leikmenn

    Ég sá þessa frétt á mánudag, en hef vegna anna ekki getað fjallað um hana fyrr en í dag. En allavega, nú er orðið ljóst að Rafael Benítez mun kalla á erlenda leikmenn til að fylla uppí laus pláss í varaliðinu okkar á næstu leiktíð. Þar sem hann lét nýlega nokkra varaliðsmenn fara á lausum samningi frá liðinu, og þar sem menn á borð við Smicer og jafnvel Biscan munu eflaust yfirgefa liðið í sumar, þá er aðalliðshópurinn okkar orðinn frekar fáliðaður, og því ljóst að auk þess að kaupa nokkrar stjörnur eða toppleikmenn fyrir aðalliðið, þá þarf einnig að fjölga í varaliðinu.

    Vandamálið er hins vegar það, að varaliðið okkar var mjög slappt í vetur, enduðu næstneðst í deildinni, og ekki stóð U-18 ára liðið sig betur. Rafa ku vera mjög óánægður með þau leikmannagæði sem honum stendur til boða, og ég held að það geti flestir verið sammála um að hingað til hefur Akademían margrómaða ekki verið að skila nógu mörgum efnilegum leikmönnum upp í aðalliðið.

    Hver er þá vandinn? Við munum öll eftir meintu ósætti þeirra Gérard Houllier og Steve Heighway, sem stjórnar Akademíunni, sem leiddi til þess að Houllier keypti eingöngu erlenda, unga leikmenn á borð við Pongolle, Le Tallec, Diouf og Cheyrou og notaði þá fram yfir Akademíustráka á borð við Welsh, Otsemobor og Mellor. Fyrir þetta fékk Houllier mikla gagnrýni, þá aðallega af því að erlendu leikmennirnir þóttu almennt reynast illa, og fannst mörgum hann vera ósanngjarn að gefa ungu “heimamönnunum” ekki tækifæri.

    Nú, ári síðar, virðist þessi ákvörðun Houlliers að hluta til hafa reynst rétt, ef marka má viðbrögð Benítez. Það að Rafa skuli vera ósáttur með þann mannsskap sem Heighway og Akademían hafa skilað af sér, og ætla sér að sækja útlenska stráka til að fylla upp í varaliðið á næstu árum, segir manni bara eitt: Houllier gerði rétt í að vera ekki að taka þessa stráka inn á sínum tíma!

    Pælið í því, frá því að Steven Gerrard kom inn í liðið, hversu margir hafa komið úr akademíunni síðan þá (1998) ???

    Neil Mellor, Stephen Warnock, Zak Whitbread, John Welsh, Jon Otsemobor, Paul Harrison, Richie Partridge, og nú síðast Darren Potter.

    Warnock er orðinn fullgildur meðlimur aðalliðsins og hlýtur að teljast sá farsælasti úr Akademíunni síðan Gerrard kom upp, hefði sennilega verið kominn fyrr í liðið ef hann hefði ekki tvífótbrotnað um tvítugt. Neil Mellor verður líka að teljast farsæll meðlimur Akademíunnar, þar sem hann hefur nú leikið fyrir aðalliðið undir stjórn tveggja mismunandi stjóra og skorað hátt í 10 mörk fyrir aðalliðið.

    Darren Potter er enn ungur og gæti komið sterkur inn á næstu árum, það sama mætti segja um Zak Whitbread – sem er bandarískur. En hinir? Otsemobor, Harrison og Partridge voru látnir fara í vor, og maður veit ekkert hvað framtíðin hefur að geyma fyrir John Welsh.

    Við erum að tala um árangur síðan 1998. Bætið við Sinama-Pongolle og Le Tallec, og þá erum við að tala um 4-5 leikmenn á sjö árum, og enginn þeirra er öruggur með sæti sitt í 16-manna hópnum í dag.

    Berið það saman við framleiðnina hjá t.d. Man U á síðasta áratug, og Arsenal það sem af er þessa áratugar. Og spyrjið ykkur síðan, hver er munurinn?

    Svar: líklegast það að bæði Man U og Arsenal hafa leitað víðar.

    Maður fékk fréttir af því strax síðasta sumar að eitt af fyrstu verkum Rafa var að endurskipuleggja útsendarakerfið, og koma upp njósnurum í Suður-Ameríku og Afríku, en Houllier hafði víst aldrei lagt mikla áherslu á þessar tvær álfur. Þetta virðist strax skila sér, en varaliðið lék tvo æfingaleiki í síðustu viku og léku fjórir nýir leikmenn þessa leiki: einn Spánverji, einn Ghana-búi og tveir Argentínumenn. Þessir fjórir ónefndu leikmenn eru víst allir til reynslu hjá Liverpool, og reyna þessa dagana að vinna sér inn samning við liðið.

    Þetta verður allavega spennandi að fylgjast með þróun þessara mála. Það verður nóg að gera í leikmannakaupum/sölum hvað aðalliðið varðar, og svo bætist við þessi væntanlegi gestagangur af reynslu-leikmönnum í allt sumar. Fréttin sem ég vísaði í – skrifuð af Dave Usher sem ku hafa góð sambönd innan Liverpool – segir að það gæti farið svo að allt að 6-8 nýir leikmenn komi til Liverpool í sumar, og annað eins af varaliðsmönnum, flestir þá af yngri og efnilegri kynslóðum og víðsvegar að komnir.

    Ef við lítum yfir hópinn okkar í dag mætti segja að eftirtaldir séu varaliðsmenn: Patrice Luzi, David Raven, Zak Whitbread, John Welsh, Anthony Le Tallec, Neil Mellor, Robbie Foy, og svo leikmenn á láni eins og Danny Mannix, Carl Medjani, Bruno Cheyrou og Salif Diao. Jafnvel væri, í ljósi góðrar frammistöðu þeirra sem eiga í samkeppni við þá um stöðu, hægt að segja að Chris Kirkland, Igor Biscan og Antonio Núnez teljist til varaliðsmanna.

    Þetta eru samt ekki nærri því nógu margir. Liverpool þarf að eiga sterkan 20-manna hóp, og svo helst 10-15 góða varaliðsleikmenn sem geta allir annað hvort skilað góðu starfi í neyð eða verið efnilegir til framtíðar. Það er því ljóst að það á hellingur af leikmönnum eftir að koma til Liverpool í sumar, bæði “toppleikmenn” og “liðsheildarmenn” …

    … þá er bara spurningin, leynist einhver Fabregas á meðal þeirra ungu stráka sem Rafa mun fá til liðs við sig í sumar? Það væri ekki verra. 😉

  • Nýji varabúningurinn

    0002F22F-25EF-128B-BF4980BFB6FA0000.jpg

    Menn eru almennt á því að þetta sé nýji varabúningurinn okkar. Ég segi bara Guði sé lof fyrir að Liverpool ætlar að hætta með þessa veeeeðbjóðslegu gulu búninga. Ég vil fá hvítan búning aftur. Þá geta Liverpool menn allavegana bókað að ég splæsi á nýja treyju 🙂

  • Planið hjá Rafa

    Athyglisvert [frá Chris Bascombe í The Echo](http://icliverpool.icnetwork.co.uk/0500liverpoolfc/0100news/tm_objectid=15530862%26method=full%26siteid=50061%26headline=jinx%2dstrikes%2dreds%2dtarget-name_page.html):

    >Benitez has an extensive list of targets, but much of his recruitment depends on sales.

    >Real Zaragoza’s £6mrated Argentinian centre-half Gabriel Milito, 24, and Feyenoord striker Dirk Kuyt also top Benitez’s priority list, demonstrating the manager’s view a centre-half and more forward power is required.

    >Kuyt, also 24, was the alternative target to Fernando Morientes last January, but at £10m is currently beyond Liverpool’s valuation.

    >Goalkeeper Jose Reina will sign from Villarreal for £6m this summer.

    >Benitez wants two wingers and another centre-midfielder when an extensive rebuilding programme gets underway, regardless of the outcome of the Champions League Final

    Einnig í þessari frétt er það að Benitez hafi verið ákveðinn í að kaupa Mark Gonzales, kantmann frá Chile. En um leið og hann var orðaður við Liverpool meiddist hann. Í raun gekk hann skrefinu lengra en Antonio Nunez og ákvað að meiðast *áður* en hann skrifaði undir. Magnað!

  • Benitez að reyna að kaupa miðvörð

    Jæja, núna er sumarslúðrið komið á fleygiferð.

    Athyglisverðasta slúðrið og það, sem er líklegast til að vera byggt á einhverju almennilegu er það að Rafa sé á eftir argentíska [varnarmanninum Gabriel Milito](http://icliverpool.icnetwork.co.uk/0500liverpoolfc/0100news/tm_objectid=15529761%26method=full%26siteid=50061%26headline=benitez%2dready%2dto%2dopen%2dtalks%2dover%2d%2dpound%2d6m%2dmilito-name_page.html). Gabriel talar bæði spænsku og spilar í spænsku deildinni, þannig að það var óumflýjanlegt að hann yrði orðaður við okkur.

    En Milito er að sögn frábær varnarmaður og hafa Man U og Barcelona verið á eftir honum í einhvern tíma, auk þess sem hann skrifaði næstum því undir samning við Real Madrid fyrir tveim árum.

    Í sömu frétt Echo er Liverpool svo orðað við Dirk Kuijt, sem var [markahæsti](http://soccernet.espn.go.com/stats/topscorers?league=NED.1&year=2004&cc=5739) leikmaður hollensku deildarinnar í fyrra, en hann leikur með Feyenord. Hann er metinn á 10 milljónir punda en Echo segja það mögulegt að Liverpool muni skila Jerzy Dudek aftur til Feyenord sem hluta af kaupverðinu.

    Þá er bara spurningin, hefur einhver séð Kuijt eða Milito spila? Eru þetta spennandi kostir?


    **Uppfært (Einar Örn)**: Bæði Milito og Real Zaragoza [neita því að Liverpool hafi haft samband](http://skysports.planetfootball.com/list.asp?hlid=277381&CPID=23&CLID=&lid=2&title=Reds+Milito+talk+played+down&channel=Football_Home) og Milito segist vera ánægður hjá Zaragoza. Við sjáum hvað gerist á næstu dögum.

  • Lið ársins í Úrvalsdeild (okkar val)

    00001945-image.jpgJæja, þá er maður kominn heim úr helgarfríi. Liðið okkar endaði á sigri og Cissé fullkomnaði öskubuskusögu sína með tvennu, sem boðar bara góða hluti fyrir næstu viku þegar við mætum AC Milan í Istanbúl. Eins og komið hefur fram hér mun Einar fara út á leikinn á meðan ég horfi á hann heima í sjónvarpinu eins og þið hin. Einar = fáviti, ég = saklaust fórnarlamb … og því mun ég áskilja mér rétt til að vera fúll og pirraður út í Einar alla þessa viku! 😉


    En allavega, við fengum þá hugmynd að velja okkar lið ársins í ensku Úrvalsdeildinni fyrir tímabilið 2004/05. Hér kemur minn skammtur, Einar bætir svo sínu liði við. Ég ákvað að velja enga Liverpool-menn í mitt lið, einbeita mér frekar að öðrum liðum í deildinni í þetta sinn, en annars hefðu Carragher, Finnan, Alonso og García alveg getað verið í svona liði ársins að mínu mati. En að Liverpool-liðinu undanskildu, þá er þetta 11-manna súperlið Úrvalsdeildarinnar fyrir nýafstaðinn vetur. Leikkerfið er 4-4-2, þannig get ég valið tvo menn í hverja stöðu:

    Cech

    Lauren – Terry – Gallas – Heinze

    Wright-Phillips – Lampard – Cahill – Fabregas

    Johnson – Henry

    Leikmaður ársins: Frank Lampard, Chelsea.
    Efnilegastur: Francesc Fabregas.
    Þjálfari ársins: David Moyes, Everton.

    Þetta lið finnst mér vera nokkuð augljóst, allavega fannst mér mjög auðvelt að velja bestu mennina í ár. Petr Cech var yfirburðamarkvörður í ár, en annars voru þeir Paul Robinson hjá Tottenham og Gabor Kiraly hjá Crystal Palace góðir.

    Chelsea-vörnin var yfirburðavörn í ár en ég er samt ekki nógu hrifinn af Paulo Ferreira, og Wayne Bridge spilaði ekki nóg í vetur til að teljast með. Þá hef ég aldrei fílað Ricardo Carvalho nógu vel, ákvað þess í stað að velja William Gallas með John Terry í vörnina. Gallas er að vissu leyti Carragher-týpa þeirra Chelsea-manna, hann er fjölhæfur og sinnir jafnan þeirri vinnu sem ætlast er til af honum. En hann fær aldrei nógu mikið hrós fyrir frammistöðu sína, að mér finnst, og því ákvað ég að velja hann í þetta lið.

    Á hægri kantinn setti ég Shaun Wright-Phillips hjá Manchester City, en mér finnst hann hafa verið yfirburðakantmaður í deildinni í ár. Þar sem mér fannst enginn vinstri kantmaður standa upp úr í ár, og af því að mig sárvantaði pláss fyrir þriðja miðjumanninn, setti ég þar Francesc Fabregas – kaup ársins og án efa leikmaður ársins hjá Arsenal. Hann hefur verið frábær og það er ótrúlegt að hugsa til þess að hann sé enn bara 18 ára gamall. Spánverjar eru heppnir að geta byggt upp landslið í kringum hann og Xabi Alonso á miðjunni.

    Þeim við hlið eru Frank Lampard – leikmaður ársins í deildinni að mínu mati – og Tim Cahill, sem er eini leikmaður Everton sem ég væri til í að sjá hjá Liverpool. Ég tel Gerrard enn vera miklu betri en báðir þessir leikmenn, en hins vegar hefur form fyrirliðans okkar valdið vonbrigðum í vetur á meðan þessir tveir – og þá sérstaklega Lampard – hafa blómstrað.

    Frammi eru sjálfvaldir hættulegustu framherjar deildarinnar, sem þó eru mjög ólíkir. Andy Johnson bar einn ábyrgð á því að Crystal Palace áttu yfirhöfuð séns á að bjarga sér frá falli á sunnudag, án hans hefðu þeir verið löngu fallnir. Og Thierry Henry sannaði það enn og aftur í vetur, þrátt fyrir að hafa hægar um sig en venjulega, að hann er besti framherjinn í Úrvalsdeildinni. Þó ber ég þá von að Djibril Cissé gæti stolið þeirri tign af honum á næstu árum 😉

    Þjálfari ársins, þar kemur bara einn til greina. Á meðan José Mourinho fékk allt upp í hendurnar, Arsene Wenger var með meistaralið á sínum snærum og Alex Ferguson gleymdi að kaupa miðjumann þurfti Moyes að keppa við ótrúlegan mótbyr. Rooney fór í upphafi tímabils og Gravesen í janúar, liðið var á barmi gjaldþrots sl. sumar og spáð falli. En hann fór með þetta lið – þetta ömurlega slappa Everton-lið – alla leiðina í 4. sætið í ár, sem er stórkostlegur árangur. Þegar litið er á hversu lélegt þetta lið er á pappírnum finnst mér ljóst að afrek Moyes er ennþá merkilegra fyrir vikið!

    Þannig var nú mitt val.


    **Viðbót (Einar Örn)**: Jammmmm… Svona er mitt lið. Ég byrja með Roy Carroll í markinu… nei djók.

    Cech

    Gallas – Terry – Ferdinand – Heinze

    Robben – Lampard – Makelele – Pires

    Henry – Johnson

    Leikmaður ársins: Frank Lampard, Chelsea
    Efnilegastur: Francesc Fabregas, Arsenal
    Þjálfari ársins: Jose Mourinho, Chelsea

    Ég lenti í mesta baslinu með miðvörð númer tvö, hægri bakvörð og annan framherjann. Ég hefði í raun valið Finnan og Carragher í vörnina, þar sem mér finnst þeir hafa verið frábærir og svo er ég ekki alveg sannfærður um getu Andy Johnson. Vissulega hefur hann skorað og skorað, en ég er ekki alveg viss um hann. En hins vegar, þá fyrir utan hann og Thierry Henry, þá skoraði [enginn framherji fleiri en 13 mörk í vetur](http://uk.sports.yahoo.com/football/fapremiership/scorer.html), sem er með hreinum ólíkindum. Robert Pires og Frank Lampard skora meira en þeir framherjar, sem koma á eftir Johnson og Henry. Johnson skoraði 8 mörkum fleiri en næsti framherji og því hlýtur hann að vera í liðinu.

    Líkt og Kristján ætla ég að leyfa mér smá hringl líka með vörnina og setja Gallas í vitlausa bakvarðarstöðu, einfaldlega vegna þess að hann og Heinze hafa verið miklu betri en nokkur hægri bakvörður í deildinni. Ég tel að Robert Pires eigi erindi í liðið, sem og Robben og því erum við alveg ósammála um kantmennina. Ég vel einnig Makalele í staðinn fyrir Cahill.

    Við erum sammála um mann deildarinnar og þann efnilegasta, en ósammála um þjálfarann.

    Við ætlum að bíða með að tilnefna leikmenn ársins hjá Liverpool þangað til *eftir* úrslitaleikinn í Meistaradeildinni, sem Kristján mun einmitt horfa á í Hafnarfirði.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close