Ekki í fyrsta sinn í vetur gengu leikmenn Liverpool pirraðir af velli í kvöld. Wolverhampton Wanderers komu í heimsókn og liðin kepptu í elstu bikarkeppni heims. Ég er ekki viss um að gestirnir hafi verið að gera heimamönnum lífið leitt, Liverpool virðist fullfært um að gera sér erfitt fyrir sjálfir.
Fyrri hálfleikur
Okkar menn keyrðu á Wolves-liða snemma leiks og satt best að segja var maður farin að vonast eftir að sjá gamla góða Liverpool liðið. Salah átti fínasta skot úr aukaspyrnu, Gakpo náði að töfra fram góða stöðu í teignum og Nunez reyndi hjólhestaspyrnu sem varnarmaður Wolves dýfði sér hetjulega fyrir. Enga síður voru sömu veikleikar til staðar og hafa hrakað liðið sístu mánuði: Galopin miðja, menn ekki að tengja fremst á vellinum og almennur hægagangur í öllu spili.
Það var eftir 25 mínútnaleik þegar Karius, nei fyrirgefðu Alisson, ákvað að gefa Wolves mark á silfurfati. Hann fékk boltann í lappir eftir klaufagang og reyndi að sneiða boltann út til Matip. Það gekk ekki betur en svo að Guedes komst inn í sendinguna og gat ekki annað en skorað. Liverpool lentir undir í sirka milljónasta skiptið í röð.
Okkar menn voru skiljanlega eins og þeir hefðu fengið kjaftshögg. Wolves fundu fyrir tækifærinu og settu mikla pressu á okkar menn. Það var óstjórnalega pirrandi að horfa á næstu tuttugu mínutur. Liverpool undir í öllum einvígum, töpuðu boltanum trekk í trekk. Allir eins og þeir vildu ekkert meira en að komast inn í hálfleikinn með ekki fleiri mörk á bakinu.
Svo komu töfrarnir. Uppúr þurru var Trent með allt heimsins pláss á hægri vængnum. Hann sendi ótrúlegan bolta inn í teig. Þar kom Darwin nokkur Nunez á sprettinum og rétt blakaði í boltann með fyrstu snertingu, stýrði honum eins og skurðhníf í fjærhornið og tók einlægasta fagn sem lengi hefur sést. Landslagið gjörbreytt, rétt fyrir hálfleikinn.
Seinni hálfleikur.
Liverpool byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafi. Það tók ekki nema fimm mínútur að komast yfir. Andy Robertson sendi háan boltan inn í teig á rangstæðan Salah. Varnarmaðurinn skiljanlega reynir að leika skalla boltanum frá en hreinsar ekki nógu vel. Salah sýndi meistaratakta að ná stjórn á boltanum og skoraði en eitt markið sitt. Mér skilst að samkvæmt reglubókinni sé þetta ekki rangstæða en fróðari menn verða að útskýra hvort það sé rétt.
Næstu tíu mínútur blæsu okkar menn og blæsu en hurðin hélt. Wolves menn gripu á það ráð að gera þrefalda skiptingu og náðu aðeins meiri tökum á leiknum.
Það borgaði sig. Cunha reyndi að senda boltann á Hwang í teignum. Boltinn skoppaði einhvern veginn af Konate, í Hwang og undir Alisson. Með aulalegri mörkum sem sést hefur og óstjórnarlega óþolandi.
Síðast hálftíminn var hreinn glundroði. Vissulega voru Liverpool meira með boltann en það var eins og þeir væru að reyna að fá Wolves meira inn í leikinn, svo lélegar voru sumar sendingarnar. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka hélt Toti að hann hefði skorað en í ljós kom að Matheus var rangstæður þegar hann fékk boltann aftur eftir hornið. Elliot fékk smá færi á að jafna en skotið geigaði.
Að lokum var 2-2 niðurstaðan, líklega sanngjarnt og við þurfum að leika við Wolves aftur eftir nokkrar vikur.
Umræðupunktar eftir leik.
- Er einhver annar farin að grípa sig við að hreinlega nenna ekki að horfa á þetta lið? Baráttuandinn sem einkenndi það virðist alveg horfin og þrátt fyrir að hafa fengið langa pásu virðast menn upp til hópa uppgefnir.
- Nunez er komin með tíu mörk og eitthvað álíka af stoðsendingum eftir 23 leiki.
- Kannski mest pirrandi af öllu er að eftir að hafa komist yfir var engin ró í mannskapnum. Það var ekki gerð nein tilraun til að hægja á leiknum, bara sama óreiðan og alltaf.
- Ben Doak má bara hreinlega spila meira. Þessi ungi leikmaður er ekki svarið við vandamálum Liverpool en hann kemur inn með áræðni og kraft sem sárlega vantar.
- Maður tók ekki mikið eftir Gakpo í leiknum. En þessi fáu móment sem hann átti voru virkilega fín.
Vondur dagur.
Alisson er einn uppáhaldleikmaður minn í þessu liði, en hann á þennan titil skuldlaust í dag.
Maður leiksins.
Nunez heldur áfram að valda alls konar vandræðum fyrir andstæðingin og vonandi lyftir þetta mark fargi af honum.
Næst á dagskrá.
Brighton að viku liðinni. Ég er skíthræddur…