
Þetta var sko alvöru leikur!!!
Liverpool unnu nágrannana í Everton í dag á Anfield í hörkuleik, þar sem dómarinn veifaði 10 gulum spjöldum og tveimur rauðum og Liverpool misstu fyrirliðann útaf með rautt eftir 19 mínútur.
Jæja, byrjum á byrjuninni. Rafa stillti þessu svona upp í upphafi:
Reina
Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
Gerrard – Sissoko – Alonso – Kewell
Garcia – Crouch
Leikurinn byrjaði alls ekki vel fyrir Liverpool og Everton höfðu yfirhöndina fyrstu 20 mínúturnar. Þeir fengu nokkur færi og Liverpool átti í erfiðleikum með að stjórna spilinu. Á 19 mínútu breyttist leikurinn hins vegar mikið þegar Steven Gerrard fékk sitt annað gula spjald og þar með rauða spjaldið.
Það verður eflaust mikið skrifað um dómara leiksins, Phil Dowd. Ég verð að segja að ég var nokkuð sáttur við dómgæsluna hans fyrir utan nokkra hluti. Í fyrsta lagi var fyrra spjaldið á Gerrard að mínu mati óþarfi. Gerrard sparkaði boltanum í bultu þegar Everton fékk aukaspyrnu. Samkvæmt bókinni er þetta gult, en á 15. mínútu í leik Everton og Liverpool, þá finnst mér þetta óþarfi að spjalda það.
Einnig fannst mér spjöldin á Alan Stubbs og Harry Kewell vera óþarfi. Þeir voru eitthvað aðeins að vinna sér pláss í teignum. Fyrir það gaf Dowd báðum þeim gult spjald. Annað var ég nokkuð sáttur við. Leikurinn var harður á tímum og brotin verðskulduðu mörg gul spjöld.
Einsog ég sagði, þá fékk Steven Gerrard sitt annað gula spjald á 19. mínútu þegar hann braut á leikmanni Everton rétt fyrir utan teiginn. Dowd dæmdi strax aukaspyrnu og gaf Gerrard gult spjald. Klárlega réttur dómur. Ég var verulega pirraður, en ekki útí dómarann heldur heimskuna í Gerrard. Ég sagði við vin minn í hálfleik að þetta hefði minnt á Gerrard fyrir 3-4 árum. Staðreyndin er sú að á síðustu árum hefur Gerrard róað sig verulega og hann lætur nánast aldrei skapið ýta sér útí heimskuleg brot. En kannski vantaði honum bara smá hvíld. 🙂
Það, sem eftir lifði af fyrri hálfleik var leikurinn í járnum. Everton var örlítið sterkara ef eitthvað var og maður beið eiginlega eftir hálfleiknum með eftirvæntingu í þeirri von um að Rafa Benitez myndi breyta hlutunum. En nokkrum sekúndum áður en flautað var til hálfleiks fengu Liverpool menn hornspyrnu og úr henni skoraði önnur Neville systirin, **Phil Neville** glæsilegt sjálfsmark. 1-0 fyrir Liverpool í hálfleik.
Í seinni hálfleik breyttist leikurinn svo. Liverpool tók öll völd á vellinum og 10 leikmenn Liverpool yfirspiluðu 11 menn Everton. Þegar stutt var liðið af hálfleiknum þá gaf Reina langa spyrnu fram á völlinn, Crouch skallaði áfram á **Luis Garcia**, sem lyfti þá frábærlega yfir Richard Wright í marki Everton. Frábærlega klárað hjá Luis Garcia og Liverpool menn fögnuðu gríðarlega (Pepe hljóp m.a.s. alla leið frá markinu uppað hornfánanum hinum megin til að fagna)!
Liverpool hélt svo áfram að sækja, en á 60. mínútu fengu Everton hornspyrnu og úr þeirri spyrnu skoraði Tim Cahill, staðan orðin 2-1 fyrir Liverpool.
Eftir það héldu Liverpool menn áfram að sækja og áttu nokkur góð færi. Xabi Alonso skaut m.a. í slána úr aukaspyrnu og Richard Wright varði glæsilega frá Harry Kewell. Á 75. mínútu fékk svo Andy van der Meyde rautt spjald fyrir að gefa Xabi Alonso olnbogaskot þegar að þeir fóru saman upp í skallabolta. Réttur dómur. Síðan skoraði Sami Hyypia mark eftir aukaspyrnu frá Xabi Alonso en það var dæmt af vegna þess að Crouch var rangstæður.
Eftir það var þetta orðið nokkuð klárt. Nokkrum mínútum fyrir leikslok skoraði svo **Harry Kewell** frábært mark. Hann fékk boltann fyrir utan vítateig og ákváðu Everton menn að fara ekki í hann (nota bene, EKKI góð hugmynd!), svo að Kewell mundaði vinstri fótinn úr kyrrstöðu og skaut frábæru skoti í markhornið framhjá Wright. Frábær endir á frábærum seinni hálfleik.
**Maður leiksins**: Þetta er nokkuð erfitt. Allt liðið (utan Gerrard) á mikið hrós skilið fyrir frábæran leik eftir að við lentum manni undir. Að ná að vinna 3-1 einum færri er frábær árangur, sérstaklega þegar litið er til þess að Everton hefur verið á miklu skriði að undanförnu. Ég verð þó að minnast á nokkra leikmenn.
**Peter Crouch** og **Luis Garcia** voru að mínu mati frábærir í dag. Flest litlu trixin virkuðu hjá Garcia í dag og hann var sífellt ógnandi. Crouch olli allskonar vandræðum í vörn Everton þrátt fyrir að hann væri einn mestallan tímann. Markið hjá Luis Garcia var líka frábært. Harry Kewell á líka hrós skilið fyrir leik sinn í vinstri kantinum. **Momo Sissoko** var líka sterkur inná miðjunni og frábært að hann sé kominn aftur. Svo voru Carra og Hyypia sterkir í vörninni.
En kóngurinn í dag var að mínu mati klárlega **XABI ALONSO**. Hann tók einfaldlega að sér að stjórna þessum leik. Hann vann boltann hvað eftir annað af Everton mönnum, var oft orðinn aftasti maðurinn þegar að Everton sóttu og barðist gríðarlega vel. Hann róaði líka spil okkar manna niður og lét menn fljótt gleyma því að við værum einum færri. Frábær leikur hjá Spánverjanum. Eina leið Everton til að stöðva Xabi var að brjóta á honum.
Við erum þá komin tímabundið uppá 2. sætiði í ensku deildinni, en Man U á auðvitað þrjá leiki til góða á Liverpool núna. Það breytir því ekki að það setur pressu á Man U að sjá okkur þarna fyrir ofann á töflunni. Gerrard er kominn í eins leiks bann, en einsog liðið lék í dag ætti það ekki að hafa mikil áhrif gegn W.B.A. á útivelli.
Þetta var allavegana frábært í dag og okkar menn geta verið stoltir.