Latest stories

  • City 0 – 2 Liverpool – farið þið núna að trúa okkur?

    Í dag var fyrsta skiptið þar sem Travelling Kop söng “And now you’re gonna believe us, we’re going to win the league!”.

    Og full ástæða til. Liðið er núna með 11 stiga forystu á Arsenal – hafa reyndar spilað einum leik meira – en núna hafa líkurnar á því að Liverpool nái í 20. titilinn í vor líklega aldrei verið jafn miklar á þessu tímabili eins og núna.

    Mörkin

    0-1 Salah (14. mín)
    0-2 Szoboszlai (37. mín)

    Hvað gerðist markvert í leiknum?

    Við sáum mögulega hlið á Liverpool sem hefur ekki mikið sést hingað til, en kannski er þetta lið og leikstíll sem er búinn að þróast í hausnum á Slot eftir leikina gegn Everton og Villa. Semsagt, liðið lá að mestu baka til, spilaði sig skynsamlega fram, pressaði á vel skilgreindum stöðum á vellinum og klukkunni, og nýtti svo færin sem gáfust.

    Fyrsta markið kom eftir korter. City hafði verið meira með boltann þegar þeir töpuðu honum við að spila út, og þar kom pressan fyrst almennilega við sögu. Szoboszlai fékk boltann á hættulegum stað eftir að leikmenn City höfðu tapað honum, gaf á Díaz sem vann horn. Jújú, þið munið þessi föstu leikatriði sem hafa skilað litlu sem engu á tímabilinu? Nema að nú drógu okkar menn upp úr rassvasanum rútínu beint af æfingasvæðinu, þar sem Macca tók hornið, gaf á Szobo sem var á markteigshorninu nær, hann gaf beint á Salah sem var við vítapunktinn og Salah skoraði. Smá heppni því skotið hjá Salah fór í varnarmann, og sendingin frá Szobo var ekkert fjarri því að vera veidd af varnarmanni, en stundum þarf meistarheppni. Hún kom þarna.

    Svo þegar vel var liðið á hálfleikinn gaf Trent langa sendingu fram, Szoboszlai hefði verið rangstæður ef hann hefði farið í boltann en hann sleppti því og lét Salah eftir að taka hlaup upp kantinn sem hann og gerði. Salah spilaði inn í teig, fann þar Szoboszlai ekkert fjarri sama stað þar sem Salah hafði skorað áður, og Dom gerði engin mistök þegar hann renndi boltanum gegnum klofið á varnarmanni og í nærhornið, Ederson reyndi ekki einusinni við boltann sem þó var ekkert það mikið úti við stöng.

    City héldu svo að þeir hefðu minnkað muninn þegar Marmoush komst í gegn og skoraði, en hann var vel rangstæður þegar hann fékk sendinguna inn fyrir og markið réttilega dæmt af.

    Í síðari hálfleik sýndi Liverpool svo gríðarlega agaðan leik. Kannski ekki mesta skemmtanagildið í slíkum bolta, en ég tek samt skemmtanagildið við það að vinna City á Etihad framyfir allan daginn. City komust einfaldlega hvorki lönd né strönd þó þeir væru mun meira með boltann, Doku var hvað eftir annað að spila sig upp að endamörkum en svo kom ekkert út úr því. Í reynd voru það okkar menn sem voru nær því að skora, og gerðu það reyndar einusinni en Dom var naumlega rangstæður sem kom í ljós við VAR yfirferð. Díaz átti líka gott skot sem Ederson varði.

    Endo fékk óvenju margar mínútur og spilaði eins og samúræinn sem hann er. Elska þennan leikmann.

    Semsagt, okkar menn spiluðu eins og meistarar, og í uppbótartíma fór stúkan að syngja lagið sem var sungið svo glatt á vormánuðum 2020.

    Hvað réði úrslitum?

    Það má segja að Slot hafi ráðið úrslitum, einfaldlega með taktík. Hann spilaði í reynd ekki með neina níu, en Curtis og Szoboszlai voru í falskri níu. Þetta var því kannski meira eins og 4-2-4, en mjög fljótandi samt. Nú svo var það vinnusemin í leikmönnum sem gerði gæfumunin. Szoboszlai var sívinnandi allan leikinn og er líklega að hlaupa heim til Liverpool í þessum rituðu orðunum. Macca og Gravenberch unnu mjög óeigingjarnt starf, þetta var svona leikur þar sem miðjan okkar sýnir að hún er ein sú besta í heiminum.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Nafnbótin “maður leiksins” fer til Dominik Szoboszlai í dag, með Mohamed Salah mjög nálægt og í reynd ættu þeir að deila nafnbótinni. En liðið allt á hrós skilið, og Slot reyndar líka.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Tja…

    Mér dettur eiginlega ekkert í hug. Eini leikmaðurinn sem þarf eitthvað að hugsa sinn gang held ég að sé Darwin Nunez, sem fékk ekki eina einustu mínútu í dag. Ég er samt ekki viss um að það sé búið að afskrifa hann innan herbúða Liverpool eins og margir Liverpool aðdáendur hafa gert. En það kemur í ljós á næstu vikum. Ég yrði ekkert hissa þó Slot sé að halda áfram að vinna með honum, og hann fái sín tækifæri til að spreyta sig. En það er ljóst að þessi leikur hefði aldrei farið eins og hann gerði nema af því að Salah og Szobo nýttu færin sín.

    Umræðan eftir leik

    Helsti punkturinn er auðvitað þetta 11 stiga forskot sem liðið er núna með á Arsenal (og 20 stig á City, en það er bara ekki lengur eitthvað sem skiptir máli). Jújú, Arsenal á leik til góða, en þeir spila næst gegn Forest, United, Chelsea, Fulham og Everton, plús svo tvo leiki við PSV í Meistaradeildinni þarna inn á milli. Þetta er bara fjarri því að vera eitthvað auðvelt prógram, jafnvel leikurinn gegn United sem verður á Old Trafford. Við getum farið að láta okkur líða vel með stöðuna, rétt eins og Travelling Kop sýndi undir lokin.

    En gleymum samt ekki að það er ekki búið að afhenda bikarinn ennþá. Það eru ennþá 11 leikir sem okkar menn þurfa að mæta í í deildinni, og það þarf að ná eins góðum úrslitum eins og hægt er í þeim leikjum. Staðan er núna sú að 7 þeirra eru heima en 4 á útivelli. PPG á heimavelli er í dag 2.42 ÞRÁTT FYRIR tapið gegn Forest í haust, og á útivelli er liðið með PPG upp á 2.33 (og er n.b. með bætingu upp á 7 stig samanborið við sambærilega útileiki á síðasta tímabili, en -3 í samanburði á heimaleikjum).

    Semsagt: staðan er frábær, en þetta er EKKI BÚIÐ. Það er ekki þar með sagt að ef (eða þegar!) liðið tapar næst stigum – eða jafnvel leik, guð forði okkur – að þá sé allt í einu liðið ómögulegt, eigendurnir hálfvitar fyrir að hafa ekki keypt fullt af leikmönnum, og allt í hers höndum. Munum það.

    Liverpool og Arsenal mætast á Anfield þann 10. maí. Í fullkomnum heimi þá verða okkar menn búnir að tryggja sér titilinn þá, og Arsenal þurfa vonandi bara að standa heiðursvörð fyrir strákana okkar.

    Tölum svo aðeins um Mo Salah. Hann er núna búinn að jafna Gordon Hodgson í markaskorun hjá félaginu, og er jafn honum í þriðja sæti. LFC: viljið þið PLÍS semja við hann og gefa honum þó ekki nema eitt tímabil til viðbótar? Salah ÞARF að fá möguleikann á að komast í 2. sætið. Líklega nær hann Rush aldrei, enda spilaði Rush það lengi fyrir Liverpool að hans met fellur mögulega aldrei.

    Hvað er framundan?

    Newcastle koma í heimsókn á Anfield á miðvikudaginn. Það verður fjarri því að vera eitthvað léttur leikur, þeir sýndu a.m.k. í fyrri hálfleik gegn Forest af hverju það skyldi enginn vanmeta þá – og sýndu svo í seinni af hverju svona margir vanmeta þá. Svo er frí um næstu helgi því þá verður spilað í FA bikarnum, og á miðvikudag eftir rúma viku er það svo meistaradeildin. Engin ástæða til að hugsa of langt fram í tímann, nú er það bara leikurinn á miðvikudaginn.

    Munið krakkar: þetta er ekkert sjálfsagt. Njóta þess á meðan það er.

  • Liðið gegn City

    Hollendingurinn fljúgandi – Cody Gakpo – er kominn aftur, en byrjar á bekk. Annars virðist Slot lifa eftir orðtakinu að rótering sé fyrir aumingja:

    Bekkur: Kelleher, Tsimikas, Quansah, Endo, Elliott, Nunez, Gakpo, Chiesa, Jota

    Vonum bara að menn hafi náð að endurheimta almennilega eftir Villa leikinn.

    Alveg sæmilegustu möguleikar til að endurnýja í framlínunni ef og þegar menn verða þreyttir, en líklega mun Slot ekki skipta út á miðju eða í vörn nema hann neyðist til.

    3 stig væru frábær, 1 stig væri enginn heimsendir. Mikið væri svo líka gaman ef menn sleppa við meiðsli.

    KOMA SVO!!!!!

  • Heimsókn á Etihad á morgun – tækifæri til að stinga af

    Á morgun mun Liverpool heimsækja Man City í leik sem hefur talist sem hápunkturinn í strembinni leikjahrynu Liverpool í febrúar mánuðinum sem hefur svona því miður kannski ekki farið alveg eins og maður hefði óskað eftir jafntefli gegn Everton og Aston Villa en eftir úrslit dagsins í dag þá er staðan alls ekki slæm þar sem Arsenal tapaði gegn West Ham og er bilið núna átta stig þegar bæði lið eru búin að spila 26 leiki.

    Pressan á Liverpool er því kannski bæði aðeins minni og aðeins meiri fyrir leikinn á morgun eftir þessi úrslit í dag. Liverpool er því enn með þetta þriggja leikja forskot á Arsenal og hefur svigrúm til að mistakast án þess að það bitni það mikið á þeim ef ekki tekst að landa öllum þremur stigunum. Rosa fín staða það en sigur þýðir að Liverpool fer yfir stóra hindrun og ætti ellefu stiga forskot – þó Arsenal ætti leik inni – og sú staða yrði rosalega góð þar sem nokkrar áhugaverðar viðureignir eru framundan hjá báðum liðum.

    Nóg um hvað gæti orðið og förum í það sem verður og það er leikurinn á morgun. Eins og áður segir hafa úrslit og jafnvel frammistöður Liverpool undanfarna leiki ekkert verið 10 af 10, nokkrar daufar og misjafnar frammistöður og úrslit sem hefðu svo sannarlega mátt vera betri svo það er klárlega svigrúm til bætinga og morgundagurinn fínn tími til að koma þeim af stað.

    Arne Slot hefur sagt að Gakpo, sem hefur misst af síðustu tveimur leikjum og er orðinn algjör lykilmaður í liðinu, sé pínu touch and go með það hvort hann verði klár í leikinn og væri frábært ef hann væri það. Bradley fór meiddur út af gegn Villa og verður ekki með frekar en Joe Gomez og ég held að það séu svona helstu og jafnvel einu fjarverurnar hjá Liverpool fyrir leikinn. Meira að segja Slot og Hulshoff, aðstoðarmaður hans, verða á hliðarlínunni en þeir bíða eftir að fá úrskurðað hve marga leiki þeir fá í bann fyrir rauðu spjöldin eftir leikinn gegn Everton.

    Man City eru auðvitað enn án Rodri og þeir Akanji og Stones ættu að vera fjarverandi. Spurning er með Haaland sem fékk einhvern hnykk á hnéð í síðasta deildarleik þeirra og þurfti að fara út af. Hann var á bekknum gegn Real Madrid þegar þeir voru slegnir út úr Meistaradeildinni en kom ekkert inn á þó þeir hafi þurft að skora til að eiga möguleika á að komast áfram. Það er því spurning hvort hann sé alveg heill og geti spilað í eða byrjað leikinn á morgun, ef hann er í standi þá eflaust gerir hann það en spurning annars hvort þetta sé leikurinn sem Guardiola myndi finnast hann þurfa að spila honum ef því fylgir áhætta á að meiðslin yrðu verri og hann lengra frá.

    Ólíkt Liverpool þá eyddi Man City töluverðum fjárhæðum í janúar glugganum og virðast nokkrir af nýju leikmönnunum vera byrjaðir að stimpla sig inn þá sérstaklega sóknarmaðurinn Omar Marmoush sem lengi vel var orðaður við Liverpool sem eftirmaður Salah og hann skoraði þrennu í síðasta deildarleik. Þá hefur mér fundist miðjumaður Nico Gonzalez komið ágætlega inn í þetta hjá þeim líka en miðverðirnir tveir eru mjög hráir og lítið sýnt hingað til.

    Gengi og frammistöður Man City hefur svo sannarlega ekki verið á pari við það sem maður hefur þurft að venjast undanfarin ár og hafa þeir í ansi mörgum leikjum virkað mjög slakir til baka og afskaplega bitlausir og hugmyndasnauðir í sóknarleiknum. Samkvæmt því öllu þá má alveg færa rök fyrir því að ef það er gott að mæta þeim á útivelli en við vitum það öll að það er líklega aldrei góður tími til að mæta þeim því þeir eru alltaf líklegir til að geta sett allt í fimmta gír og verið nær ósnertanlegir ef sá hátturinn er á þeim.

    Það má því alls ekki búast við fyrirfram þægilegum leik á morgun og hvorugt liðana vilja selja sig ódýrt og gefa frá sér stig. Liverpool þarf stigin til að færast nær titlinum og Man City þurfa öll stig sem þeir geta fengið í baráttu sinni við að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.

    Alisson

    Trent – Konate – Van Dijk – Robertson

    Mac Allister – Gravenberch – Szoboszlai

    Salah – Diaz – Gakpo

    Hef ekki hugmynd um hvernig eða hvort Arne Slot muni rótera eitthvað í þessum leik þar sem það kemur svo leikur gegn Newcastle á Anfield á miðvikudaginn en þykir líklegra að hann gæti tekið einhverjar breytingar þar. Robertson hefur spilað svolítið mikið undanfarið og mögulega er einhver Tsimikas rótering þarna en hugsa að það verði frekar í næsta leik. Mögulega gæti Jones komið inn í eitthvað hlutverk á miðjunni en ég reikna með að þessir þrír byrji. Ef Gakpo er heill þá held ég að hann byrji og Diaz komi inn í þennan leik sem fölsk nía en ef Gakpo er ekki heill þá mun Diaz vera á kantinum og Jota eða Nunez leiða línuna.

    Sjáum hvað setur, það væri nú rosalega fínt að fá þrjú stigin á morgun en eftir úrslit dagsins þá gæti eitt stig bara verið í lagi. Sjáum til, þetta verður líklega hörku leikur.

  • Aston Villa 2 – 2 Liverpool

    0-1 Mo Salah 29 mín

    1-1 Tielemans 38. mín

    2-1 Watkins  45.mín

    2-2 Trent  61.mín

    Liverpool byrjuðu leikinn í dag ágætlega og voru búnir að fá nokkur tækifæri sem þeim tókst ekki að koma á ramman áður en Salah kom liðinu yfir á 29.mínútu með sínu 24 deildarmarki í ár eftir góðan undirbúning frá Jota. Aðeins níu mínútum seinna tókst Villa að jafna þegar klafst í teignum endaði á því að Szoboszlai skallaði boltann beint fyrir fæturna á Tielemans sem skoraði auðveldlega.

    Strax eftir markið voru Liverpool nálægt því að taka forustuna á ný þegar Jota slapp í gegn en skot hans fór langt framhjá. Í uppbótatíma fyrri hálfleiks tóku Villa svo forustuna þegar það kom fyrirgjöf inn í teiginn og af einhverjum ástæðum fylgdi enginn Watkins á eftir sem skoraði með skalla.

    Eftir fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik fóru Liverpool að taka völdin í leiknum og uppskáru svo loks. Fyrst átti Jota skot í þverslá og mínútu seinna jafnaði Trent leikinn þegar MacAllister kom boltanum á Salah sem sótti í átt að teignum, gaf svo á Trent sem átti skot í Mings og þaðan í netið.

    Á mínútunum sem fylgdu komu nokkur færi Liverpool þar sem Szoboszlai og Salah voru nánast búnir að spila sig í gegnum vörn Villa manna og Jota átti skalla yfir markið. Slot gerði þá tvöfalda skiptingu þar sem Jota og Trent fóru útaf fyrir Nunez og Bradley. Vissulega margir leikir á fáum dögum þessi misseri en Trent var búinn að vera að vaxa inn í leikinn og skora jöfnunarmarkið.

    Stuttu eftir skiptinguna fékk Nunez sannkallað dauðafæri þar sem Szoboszlai gaf boltann þver yfir teiginn og Nunez skaut yfir markið undir pressu en með það fyrirgefur ekki það að það var enginn í markinu þar sem Martínez hafði mætt Szoboszlai. Eitt af klúðrum tímabilsins.

    Eftir þetta fór allur kraftur úr okkar mönnum Villa skoraði en sem betur fer var það rangstæða. Bradley meiddist og þurfti að fara af velli eftir að hafa komið inn á og á lokamínútunum fengu Villa tvö fín færi til að klára leikinn en sem betur fer endaði 2-2

    Bestu menn Liverpool

    Salah skilar af sér marki og stoðsendingu í enn eitt skiptið á tímabilinu. Jones var flottur í pressunni og Trent var að líta vel út þegar hann var tekinn af velli.

    Vondur dagur

    Líklegast slakasti leikur Gravenberch á þessu tímabili en verðum að fyrirgefa það því í fljótu bragði man ég ekki eftir öðrum slökum leik hjá honum á tímabilinu, leiðréttið mig ef það er rangt. Hinsvegar verður Nunez að vera hér menn bara verða að klára svona færi og tók svo ótal rangar ákvarðanir í kjölfarið. Jota hefði líka mátt gera betur í sínu færi og er það helst færanýting og kærulaus varnarleikur sem kostar okkur í dag.

    Umræðan

    • Gefum Arsenal tækifæri á að minnka munin og setjum enn meiri pressu á leik okkar manna gegn City um helgina.
    • Það er hægt að kvarta sig sáran undan færanýtingu og ekkert rangt við það en að skora tvö mörk gegn Everton og Villa og labba ekki út með þrjú stig er sárt og verðum að fara verjast betur en í síðustu leikjum ef við ætlum að sigla heim þessum titli.
    • Síðan er alveg punktur í þessu að Villa eru ekki mikið í því að tapa á heimavelli í ár. Þeir töpuðu fyrsta heimaleiknum sínum gegn Arsenal en hafa síðan unnið sex og gert sjö jafntefli, með leiknum í dag.

    Næsta verkefni

    Við lokum næstu umferð með síðdegis leik á sunnudegi á Etihad gegn Manchester City sem áttu erfitt kvöld í kvöld þegar þeir féllu úr leik í Meistaradeildinni gegn Real Madrid og vonandi mun það sitja í þeim um helgina.

  • Byrjunarliðið gegn Villa

     

    Bekkur: Kelleher, Bradley, Quansah, Tsimikas, Elliott, Endo, Nunez, Chiesa og Diaz

    Áhugavert lið í dag þar sem Diaz fær hvíld en í stað Chiesa eða Nunez úti vinstra meginn virðist vera að Jones eða Szoboszlai byrji þar í dag.

  • Villa á virkum degi

    Þrettán leikir eftir. Titill í húfi. Næsti (fyrsti?) leikurinn í þessum lokaspretti er annað kvöld þegar okkar menn heimsækja Aston Villa til Birmingham, í leik sem hefði átt að fara fram í mars en var færður fram í ljósi þess að Liverpool er að spila við Newcastle í úrslitum deildarbikarsins og er því ekki í stöðu til að spila í kringum þann leikdag. En byrjum aðeins að skoða stöðuna í töflunni, og berum saman gengi liðsins á þessari leiktíð við þá síðustu.

    Gengið hingað til

    Nú er 25 leikjum lokið og 13 eftir, því má segja að við séum búin með u.þ.b. 2/3 af leiktíðinni. Í þessum töluðu orðum er Liverpool með 60 stig eftir þessa 25 leiki – og eini stjórinn sem hefur nokkurntímann náð í fleiri stig í sínum fyrstu 25 leikjum fyrir félag var José nokkur Mourinho sem krækti í 64 stig í þessum fyrstu 25 umferðum. Á síðustu 10 árum hefur liðið aðeins tvisvar verið með fleiri stig á þessum tímapunkti í keppninni: 2018-2019 þegar liðið var með 62 stig og endaði í 97 stigum, og svo tímabilið sturlaða 2019-2020 þegar liðið var með 73 (!) stig af 75 mögulegum.

    Ef við berum þessa leiktíð saman við þá síðustu, skoðum leikina sem Liverpool er búið að spila og hvernig liðinu er að ganga samanborið við sömu leiki í fyrra (þar sem Leicester kemur í staðinn fyrir Luton, Ipswich í staðinn fyrir Burnley, og Southampton í staðinn fyrir Sheffield United), þá kemur í ljós að liðið er merkilegt nokk bara með 2 stig í plús. Það sem af er þá er liðið í mínus í leikjunum gegn Fulham (-2) – þar sem Andy Robbo var rekinn af velli, Newcastle (-2) og Forest (-5), og okkar menn munu ekki ná að bæta tölurnar fyrir þessi 3 lið í leikjunum sem okkar menn eiga eftir gegn Fulham og Newcastle, einfaldlega vegna þess að sambærilegir leikir á síðustu leiktíð unnust og því ekki hægt að gera betur en þá. En svo á móti þá hefur liðið náð að bæta árangurinn frá síðasta tímabili gegn Everton (1 stig í plús – jújú það er eftir jafnteflið góða á Goodison), City (2 stig í plús), United (2 stig í plús), Spurs (3 stig í plús – sem ættu svosem bara að vera 2 stig ef Díaz markið hefði nú staðið), og að lokum West Ham (2 stig). Bara í ljósi þessara talna, og í ljósi þess að Liverpool endaði síðustu leiktíð með 82 stig, þá er ekkert út úr kortinu að spá því að okkar menn endi með 84-85 stig. Vonandi meira.

    Það eru n.b. bara 2 lið sem geta fræðilega séð náð í 85 stig fyrir utan Liverpool: Arsenal sem er með PPG upp á 2.12 en þurfa að hífa sig upp í 2.46, og Forest sem þurfa þá að vinna alla leikina sem þeir eiga eftir.

    Það er líka svolítið áhugavert að skoða muninn á stigasöfnun liðsins heima og úti. Í fyrra náði liðið að jafnaði í 2.52 stig í leik á heimavelli (1 tap, 3 jafntefli, 15 sigrar), en aðeins 1.78 á útivelli (3 töp, 7 jafntefli, 9 sigrar). En í ár er þetta jafnara. Liðið er örlítið undir pari á heimavelli með 2.42 PPG á heimavelli (helvítis Forest leikurinn…), en 2.38 á útivelli sem er talsverð bæting. Útkoman á heimavelli stafar af því að liðið er nú þegar búið að tapa einum heimaleik og gera 2 jafntefli, og má því í raun bara gera eitt jafntefli til viðbótar heima til að árangurinn verði ekki verri á þessu ári en því síðasta. En á útivelli er liðið enn taplaust – vs. 3 töp á útivelli allt tímabilið í fyrra – og er komið með 4 jafntefli á útivöllum á þessari leiktíð vs. 7 á allri síðustu leiktíð. Bætingin á útivelli er því allnokkur – a.m.k. enn sem komið er.

    Eins er áhugavert að skoða að þegar leiknum á sunnudag lýkur, þá mun Liverpool aðeins eiga 4 útileiki eftir: Gegn Brighton, Chelsea, Fulham og Leicester.

    Er einhver niðurstaða af þessu öllu? Nei í raun og veru ekki. Við vitum að okkar menn verða að halda sama dampi og helst að gefa í, og eins að meiðsli gætu sett strik í reikninginn. En ég vona að ég sé ekki að fullyrða of skarpt með því að segja að ekkert lið er í betri stöðu en okkar menn eins og staðan er núna.

    Ég læt að lokum fylgja með mynd af þeim tölum sem ég var að vinna með, svo fólk sjái tölurnar svartar á hvítu (og alls konar aðrir litir þarna með).

    Síðustu viðureignir

    Þessi lið mættust á Anfield í haust, og þeim leik lauk með 2-0 sigri okkar manna. Í fyrra þá vannst heimaleikurinn sömuleiðis, en leikurinn í Birmingham fór 3-3, þar sem Jhon Duran var okkar mönnum erfiður og skoraði 2 mörk á síðustu mínútunum. Hans mun ekki njóta við á morgun, en í staðinn eru Villa menn komnir með ýmis önnur vopn í vopnabúrið. Marcus Rashford hefur nú gjarnan verið okkar mönnum óþægur ljár í þúfu, vonum að svo verði ekki á morgun.

    Nú svo er vert að minnast aðeins á leik liðanna tímabilið 2019-2020, þegar Villa voru 1-0 yfir þegar 5 mínútur voru til leiksloka, en Andy Robertson jafnaði eftir fyrirgjöf frá Mané, og sá síðarnefndi skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma eftir hornspyrnu frá Trent. Ég væri alveg til í sömu úrslit á morgun eins og þá, en að sama skapi mætti líka alveg vinna ögn öruggar heldur en þá. Sætt var það verður þó að viðurkennast.

    Staðan á liðinu

    Byrjum á meiðslalistanum. Cody Gakpo er frá, en verður vonandi orðinn klár fyrir leikinn gegn City á sunnudaginn. Joe Gomez er líka frá, gæti mögulega þurft í uppskurð, en hvort sem af því verður eða ekki þá sjáum við hann líklega ekki fyrr en undir lok leiktíðarinnar. Tyler Morton meiddist á öxl og mun ekkert koma við sögu það sem eftir er leiktíðar, og hefði svosem ekki gert það hvort eð var. Þá er það upptalið, og Curtis Jones er endurheimtur eftir smávægilegt leikbann sem hann fékk út af dottlu.

    Svo er það andlega staðan á hópnum. Eru menn búnir að jafna sig á svekkelsinu síðan fyrir viku síðan? Vonandi er það gleymt, líka rétt að minna leikmenn á að þeir fengu þó eitt stig sem er einu stigi meira en fékkst á Goodison á síðasta ári. Nú svo má líka bara sýna mönnum stöðutöfluna til að hressa, bæta og kæta liðsandann.

    Hvað uppstillinguna varðar, þá er nú líklegt að Slot vilji stilla upp eins sterku liði og mögulegt er. Þó er líka vel mögulegt að hann nýti sér þá róteringamöguleika sem hann hefur. T.d. er ekki ólíklegt að bakvörðunum verði skipt út, þ.e. að Tsimikas og Bradley taki þennan leik, en Trent og Robbo taki svo City leikinn. Eitthvað er talað um að Trent hafi í raun verið að spila meiddur megnið af leiktíðinni, hafi gjarnan þurft sprautur, og því full ástæða til að rústa honum ekki endanlega með of miklu leikjaálagi. Eins er Robbo farinn að dala eins og sést hefur. Nú og svo er alveg líklegt að Curtis komi ferskur inn eftir bannið, en líklega leggur Slot ekki í frekari róteringar varðandi byrjunarliðið. Í framlínunni er svo í raun eina spurningin hvort Jota eða Nunez byrji, og undirritaður ætlar að giska á þann síðarnefnda.

    Semsagt, spáum liðinu svona:

    Alisson

    Bradley – Konate – Virgil – Tsimikas

    Curtis – Macca

    Salah – Szoboszlai – Díaz

    Nunez

    Alls konar möguleikar á að hræra í þessu að sjálfsögðu: kannski verður Grav í sinni stöðu og Jones frekar í hlutverki Szoboszlai. Kannski spilar Trent. Kannski verður Jota í níunni. Nú og kannski vill læknateymið hvíla einhvern sem þarf að vera í toppformi á sunnudaginn. En líklega er þetta ekkert mjög fjarri lagi, ég verð fúll ef ég verð ekki a.m.k. með 8 rétta.

    Það fer tvennum sögum af því hvort Stuart Atwell eða Craig Pawson verða á flautunni. Vonum bara að dómarinn – hver sem hann verður – dæmi bara eftir bókinni og setji sjálfan sig ekki í aðalhlutverkið. Ólíkt sumum.

    Óskin er afar einföld: 3 stig og sleppa við meiðsli. Þetta er agnarlítil bón sem við skulum öll leggjast á eitt með að óska eftir.

    Spái 2-0 sigri. Alveg sama hverjir skora, þó auðvitað væri frábært ef Salah héldi áfram marseringunni í átt að gullskónum.

    KOMA SVO!!!!!

  • Gullkastið – Sjónvarpið fékk að heyra það!

    Liverpool er í mjög þungu prógrammi þessa dagana og það sást vel í báðum leikjum vikunnar sem tóku á taugarnar. Framundan eru tveir risastórir útileikir gegn Villa og Man City. Ögurverk liðið er á sínum stað og fagmaðurinn í boði Deloitte

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    Egils Gull / Deloitte / Verdi Travel Ögurverk ehf / Done

    Afsláttarkóði í febrúar á WoktoWalk.is – 25% afsláttur með afsláttarkóðanum Liverpoolerubestir

    MP3: Þáttur 509

  • Stelpurnar mæta City

    Minnum á að það er enn nóg sem þarf að ræða eftir leik dagsins hjá strákunum í leikskýrslunni hjá Ívari.


    Það er nóg að gera í dag fyrir þau okkur sem erum hvað helsjúkust, því núna kl. 18:45 mæta stelpurnar okkar á heimavöll Manchester City og mæta heimakonum í deildinni.

    Okkar konur eiga harma að hefna eftir að hafa mætt City á Anfield í haust þar sem gestirnir náðu að skora sigurmarkið á lokamínútunum. Heimakonurnar í dag eru nú þegar komnar í eltingaleik við Chelsea, United og Arsenal, eru nú þegar 5 stigum á eftir þeim síðastnefndu en Chelsea virðast hreinlega ætla að stinga alla af og eru með 40 af 42 stigum mögulegum.

    Okkar konur eru svo á nokkuð lygnum sjó í 7. sæti með 15 stig, en gætu komist í það 6. með sigri í dag og færu þá upp fyrir Spurs sem eru með 17 stig eftir að hafa skíttapað 5-0 fyrir Arsenal fyrr í dag.

    Okkar konur eru svona að mestu leyti allar klárar í bátana, en þó spilar Olivia Smith ekki í dag þar sem hún er búin að krækja sér í nokkur gul spjöld. Liðið lítur a.m.k. svona út:

    Micah
    Clark – Fisk – Evans

    Parry – Holland – Kerr – Höbinger – Hinds

    Kiernan – Roman Haug

    Bekkur: Laws, Bernabé, Bonner, Daniels, Nagano, Shaw, Enderby, Kapocs

    Semsagt, þær Jas Matthews, Niamh Fahey, Hannah Silcock og Sofie Lundgaard eru enn frá vegna meiðsla, Smith frá vegna spjalda, og svo er lánskonan Julia Bartel ekki á skýrslu heldur.

    Leikurinn verður sýndur á Youtube eins og áður.

    KOMA SVO!!!!

  • Liverpool 2-1 Wolves

    Liverpool mætti, ja…nokkuð öflugum Úlfum í dag. Förum yfir stöðu mála:

    Mörkin

    1-0 Luis Diaz (15.mín)

    2-0 Salah (37.mín – víti)

    2-1 Cunha (67.mín)

    Hvað gerðist markvert í leiknum?

    Leikurinn byrjaði frekar rólega, fyrstu 10-12 mínúturnar voru liðin að þreifa fyrir sér. Liverpool virkaði með yfirhöndina og eftir ekkert alltof langa bið kom fyrsta mark leiksins. Skyndisókn, Salah með frekar misheppnaða snertingu/sendingu, en varnarmenn Úlfanna lögðu boltann fyrir Diaz sem skoraði með maganum.

    Eftir markið var Liverpool með yfirhöndina, Úlfarnir komust lítið sem ekkert áleiðis og þessir yfirburðir skiluðu sér í vítaspyrnu. Hún kom eftir sendingu MacAllister, innfyrir varnarlínuna á Diaz. Hann axlaði Agbadou og komst einn í gegn, tók snertingu á boltann og Sá óð í hann og tók hann niður. Pjúra víti.

    Fyrri hálfleikurinn leið svo sitt skeið, það var þó ansi afdrifaríkt að Konate fékk gult fyrir brot við vítateig andstæðinganna og svo hálft annað gult skömmu seinna, þannig að Slot þorði ekki öðru en að taka hann út af í hálfleik. Eftiráaðhyggja frábær ákvörðun en þið farið kannski yfir það í ummælum hvort hægt sé að spjalda fyrir uppsöfnuð brot liðsins. Sem ég held reyndar að sé oft gert.

    Því að seinni hálfleikur var eins slappur og sá fyrri var hress. Þetta var eins og svart og hvítt því Liverpool gat hreint ekki rassgat í seinni hálfleik og Úlfarnir gengu svo sannarlega á lagið. Jota hefði getað gert aðeins betur í skyndisókn þar sem hann reyndi að fiska víti og Salah skoraði síðan rangstöðumark. En Salah er nú kominn með jafnmörg mörk úr vítum og Steven Gerrard, 32 talsins. Og þarf þá bara eitt víti í viðbót til að komast á toppinn hjá Liverpool yfir flest mörk skoruð úr vítum í sögu félagsins. Enn eitt metið hjá honum. Og hann er í fjórða sæti á eftir Alan Shearer, Frank Lampard og Harry Kane í ensku úrvalsdeildinni.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Það er nánast eingöngu hægt að tala um fyrri hálfleik. Seinni hálfleikur var virkilega slakur þótt varnarhluti liðsins hafi spilað ágætlega þann part.

    Í fyrri hálfleik voru það Diaz og Salah sem gerðu það sem breytti leiknum. Þeir gerðu það sem skipti máli rétt eina ferðina enn. Diaz hefur spilað út úr stöðu upp á síðkastið og í dag minnti hann á sig á vinstri kantinum. Við erum bara spoilt for choices þar, en ekki eins mikið í sentersstöðunni. Miðjumennirnir réðu ferðinni í leiknum og stjórnuðu þessu öllu saman mjög vel.

    Mér fannst Jota líka spila nokkuð vel megnið af hans mínútum inni á vellinum, djöfulgangurinn í honum er alveg magnaður og hæfileikarnir líka. Vonum að hann haldist heill fram á vorið, þá verður titillinn okkar.

    En…maður leiksins fyrir mig. Tveir gaurar. Þegar Úlfarnir hótuðu jöfnunarmarki varði Alisson frábærlega. Og í lokin átti Quansah blokk sem kom í veg fyrir klárt mark frá Wolves. Þess vegna fá þessir drengir mann leiksins í dag. Og það er þrátt fyrir að Van Dijk hafi átt nánast alveg gallalausan leik, Salah hafi hálf lagt upp og skorað, og Diaz fiskað víti og skorað – það sem gerði út um leikinn. Þegar þarna var komið sögu þurftu menn að stíga upp og Alisson og Quansah gerðu það, menn leiksins í mínum huga.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Agalegur seinni hálfleikur hjá svo gott sem öllu liðinu. Menn stóðu þó pliktina sína og kláruðu þrjú stig. Héldu ekki hreinu. Margar frammistöður sigu verulega í seinni hálfleik, kannski ætti ég að nefna miðjumennina, en það er óþarfi, þrjú stig eru komin í pokann.

    Umræðan eftir leik

    Hálfleikirnir eins og svart og hvítt. Hvernig væri að ná bara heilum leik á fullu blasti? Ef við gerum það klárum við alla leiki 3 eða 4-0. En það er auðvitað farið að vora, meira að segja hérna á klakanum og þreyta tímabilsins er kannski farin að segja til sín þótt prógrammið hafi hingað til ekki verið neitt bilað. Kannski líka andleg þreyta eftir að hafa misst leikinn gegn Everton í jafntefli. Staðan er samt 7 stiga forysta og með hverjum sigrinum minnkar trú Arsenal á verkefnið. 3 stig. Það er það sem skiptir öllu.

    Hvað er framundan?

    Næst er það heimsókn á Villa Park. Við erum með 4 af 6 mögulegum stigum úr þessu 15 stiga prógrammi í febrúar. Það er ágætis byrjun, höfum það 7 af 9 eftir leikinn gegn Villa. Svipað byrjunarlið, vonandi verður Gakpo klár, Jota og Trent fengu hvíld í dag. Miðjan þarf samt að klára 90 mínúturnar gegn Villa aðeins betur. Þeir eru samt búnir að vera upp og ofan og stefnum bara á klár þrjú stig þar.

    YNWA

  • Liverpool-Wolves – liðið og leikþráður

    Liðin eru svona:

    Liverpool:

    Bekkur: Kelleher, Bradley, Quansah, Tsimikas, Elliot, McConnell, Endo, Nunez, Chiesa

    Wolves:

    Ait Nouri-Gomes-Agbadou-Doherty-Semedo

    Gomes-André

    Cunha-Guedes-Sarabia

    Bekkur: Bentley, Djiga, Lima, Bueno, Traore, Bellegarde, Munetsi, Doyle, Forbs

    Áfram Liverpool

    YNWA

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close