Latest stories

  • Titilvonir

    Yfirleitt er ég gæjinn sem skrifar hérna inn með glasið hálffullt, og sem slíkur hef ég oft átt fullt í fangi með að verja liðið og aðstandendur þess fyrir því sem mér hafa þótt vera frekar óverðskuldaðar og/eða ýktar gagnrýnisraddir. Í dag ætla ég hins vegar, að gefnu tilefni, að venda kvæði í kross og benda mönnum á hve mikið vantar uppá annars hálffullt glasið.

    Um helgina vann Liverpool nokkuð auðveldan, mjög sannfærandi og algjörlega frábæran sigur á Chelsea í deildinni. Í kjölfarið vann Arsenal sigur á Man U svo að forskot þeirra síðastnefndu á Liverpool fór úr fjórtán stigum niður í ellefu, á meðan forskot Chelsea minnkaði úr átta niður í fimm. Arsenal eru sem fyrr heilu stigi á eftir okkur, en við úrslit helgarinnar gerðist það að bilið á milli tveggja efstu liðanna annars vegar og næstu tveggja liða minnkaði um þrjú stig.

    Þegar Liverpool tapaði tvisvar fyrir Arsenal fyrir hálfum mánuði síðan (virðist langur tími í dag, er það ekki?) kepptust menn bæði á þessari síðu og um víða veröld við að úthrópa allt sem sneri að klúbbnum. Rafael Benítez var búinn að “missa’ða” á meðan annar hver leikmaður liðsins var ómerkilegri en skíturinn undir skóm netspjallara. Dagana eftir þessa tapleiki kepptist ég við að benda mönnum á að liðið væri ekki fullkomið, en samt langt því frá að vera jafn stórkostlega lélegt og sumir vildu meina.

    Tvær vikur eru langur tími í knattspyrnu. Tæpum fjórtán dögum eftir að Thierry Henry innsiglaði vandræðalegan sigur á okkar mönnum á Anfield mætti þetta sama rauðklædda lið útá sama völlinn og hreinlega skúraði gólfið (grasið?) með Englandsmeisturum Chelsea. Bæði lið voru án jafn margra lykilmanna en þó vantaði alla miðverði Chelsea, en það eitt og sér skýrir ekki getumuninn á liðunum á laugardaginn.

    Þannig að í kjölfarið hafa menn reynt að útskýra þetta. Er Liverpool virkilega svona gott lið? Er liðið best í heimi? Er Rafael Benítez hinn eini sanni “The Special One,” og José Mourinho bara aumingi? Svarið við þessu öllu er: róið ykkur og leyfið fótunum að snerta jörðina á ný. José Mourinho, sami maður og hefur rúllað Úrvalsdeildinni upp sl. tvö tímabil, varð ekki ömurlegur þjálfari um helgina. Hann er enn frábær þjálfari, en eins og allir aðrir þjálfarar er hann að upplifa lægð á sínum ferli sem stjóri Chelsea. Ekkert virðist ganga honum í hag og eins og hann hafi ekki um nóg að hugsa innan vallar er allt í uppnámi utan hans líka, og enska pressan er fljót að gera sér mat úr honum.

    Síðastliðið sumar var það Sir Alex Ferguson sem var búinn að vera. Þá var það Arsene Wenger, sem gerði alltof mörg jafntefli í haust, og svo kom röðin að okkar manni sem var alveg ómögulegur. Nú skyndilega virðist José Mourinho vera til þess eins nytsamlegur að gera grín að. Hve fljótt hlutirnir breytast, og ef menn vilja missa allt samband við raunveruleikann er nóg að láta ginnast af fyrirsögnum athyglissjúkra blaðamanna í Englandi.

    Dæmi: Benítez leggur ráðin á titilsigur (Guardian)

    Já, ég veit og ég man. Ég veit að Rafa Benítez er þjálfari sem gefst aldrei upp, og ég man að tvisvar á þremur árum stýrði hann Valencia-liðinu á Spáni til ótrúlegs endaspretts í baráttunni um titilinn þar í landi. Ég veit, og ég man. Ég veit líka að hann var margsinnis afskrifaður með Liverpool í Evrópu vorið 2005, og ég man hversu vel hann tók sig út með hendur á “Big Ears” í Istanbúl.

    En þetta er ný keppni, nýtt ár og ný tækifæri. Tækifæri til að skapa nýjan kafla í glæsta sögu klúbbsins, en um leið tækifæri til að klúðra öllu. Línan á milli er stundum hárfín, en hún er þarna.

    Bjartsýnismaðurinn í mér segir að það sé vel hægt að ná Man U og Chelsea og sigra Úrvalsdeildina vorið 2007. Það er hægt, og annað eins hefur nú gerst. Og Rafa hefur algjörlega, óumdeilanlega rétt fyrir sér í því að á meðan það er stærðfræðilegur möguleiki á liðið hans alls ekki að gefa upp vonina.

    En hvað með okkur hina? Eru menn farnir að hugsa um þetta sem titilbaráttu, eða erum við enn bara að setja stefnuna á Chelsea í öðru sætinu?

    Arsenal eru stigi fyrir aftan okkur, Chelsea fimm á undan og United ellefu á undan. Málið er að leiðin til að halda Arsenal fyrir aftan okkur er sú sama og leiðin til að ná Chelsea og United. Til að eitthvað jákvætt gerist í þessum málum þarf liðið að halda áfram að vinna sigra. Og til að sigra í fjórtán leikjum af fjórtán þarf að taka hvern þeirra fyrir sig og meðhöndla viðkomandi leik sem algjöran úrslitaleik.

    Rafa hefur oft rétt fyrir sér, en sjaldan hefur hann verið jafn spakur og þegar hann tönnslast á því að hann sé bara að hugsa um næsta leik. Við erum öll að horfa á blessaðan Englandsmeistaratitilinn, þann sem hefur verið í sautján ára útlegð frá Merseyside. Leikmennina dreymir hann, Rafa þráir hann og við hin lifum fyrir að sjá hann snúa aftur í hendur fyrirliða Liverpool. Og hver veit, kannski gerast kraftaverkin enn? Kannski er það árið í ár?

    Líklegast ekki, samt. Það er einfaldlega ómögulegt um að segja á þessu stigi málsins. Það eina sem hægt er að gera er að taka fyrir einn leik í einu og vinna þann leik. Næsti úrslitaleikur Liverpool er eftir rúma viku gegn West Ham, á útivelli, og hann verður að vinnast.

    Þið hin megið, ef þið viljið, láta ykkur dreyma um titilinn í vor. Það er ekkert óhollt við að láta sig dreyma, eins lengi og draumarnir hafa ekki óraunhæf áhrif á raunverulegar vonir og væntingar manna. Ég ætla að halda fótunum á jörðinni og minna sjálfan mig á að þetta sama lið og vann Chelsea um helgina tapaði tvisvar fyrir Arsenal fyrr í sama mánuði. Þetta tímabil getur vissulega brugðið til beggja vona, eins og leikir mánaðarins hafa sýnt okkur.

    Einn leikur í einu. Ég hlakka til næsta leiks, og svo sjáum við til.

  • Warnock til Blackburn (STAÐFEST)

    Enskir fjölmiðlar, þar á meðal [Guardian](http://football.guardian.co.uk/News_Story/0,,1996042,00.html) fullyrða að Stephen Warnock sé á leiðinni til Blackburn.

    Kaldhæðni örlaganna er að honum er ætlað að fylla skarðs leikmanns, sem hefur orðið fyrir meiðslum, Andre Ooijer. Talið er að kaupverðið sé um 1,5 milljón punda. Þetta kemur svo sem ekki mikið á óvart þar sem það er ljóst að Aurelio og Riise eru framar í röðinni á Anfield og svo er Insúa á leiðinni í vor.


    **Uppfært (EÖE) – 19.48** Opinbera heimasíðan [hefur staðfest](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N154774070122-1619.htm) að Liverpool hafi samþykkt að selja Warnock til Blackburn. Vonandi að honum gangi vel með því liði og að hann geti haldið sér ómeiddum í nokkrar vikur hjá þeim.

  • United eða Arsenal?

    Það hafði hvarflað að mér að skrifa einhverjar pælingar hérna í dag en á endaum hætti ég við það, allavega þangað til stórleik dagsins er lokið. Þannig að í stað þess að ég komi með pælingar langar mig til að gefa ykkur lesendunum orðið og biðja ykkur um að svara einfaldri spurningu:

    Hvort höldum við með Man U eða Arsenal á eftir? Það er, eigum við að halda með Arsenal af því að það er raunhæft að Liverpool geti náð United í deildinni, eða er það of langsótt og eigum við því að vona að United vinni Arsenal sem missi af lestinni í baráttu við okkur og Chelsea um 3. og 2. sætið?

    Með hvoru liðinu eigum við Púllarar að halda? Orðið er ykkar. 🙂

  • Liverpool – Chelsea 2-0

    kuytpennant_al_g.jpg

    Jæja LOKSINS LOKSINS sögðu skáldin og á það við núna… öruggur sigur á Chelsea og héldum markinu hreinu!

    Það er ekki hægt að segja annað en ég hafi bara verið ánægður með byrjunarliðið sem Rafa stillti upp, hraði í vörninni en jafnframt líkamlegur styrkur.

    Reina

    Finnan – Carragher – Agger – Riise

    Pennant – Gerrard – Alonso – Aurelio

    Crouch – Kuyt

    Bekkurinn: Dudek, Bellamy, Hyypia, Gonzalez, Fowler.

    Fyrir leikinn hafði ég það á orði að það lið sem myndi skora fyrr í leiknum myndi vinna sérstaklega í ljósi þess að þegar Liverpool lendir undir töpum við (á þessu tímabili). Hins vegar var það á hreinu þegar maður sá byrjunarlið Chelsea að ef við myndum ekki vinna þá í dag þá vinnum við þá aldrei! Geremi – Feirrera – Essien – Cole í vörninni!!! Ekki einn einasti eiginlegur miðvörður og enda kom það á daginn að það vantaði mikið! En lítum á byrjunarliðið þeirra:

    Chech

    Geremi – Feirrera – Essien – Cole

    Kalou – Ballack – Mikel – Robben
    Lampard
    Drogba

    Við byrjuðum þennan leik fantavel og skoruðum strax á 3 mín., var þar að verki Dirk Kuyt með gott framherja mark. Það kom há sending á Crouch sem skallaði boltann aftur fyrir sig, þar tók Kuyt við knettinum. Hann stóð af sér Feirrera og Geremi og setti boltann örugglega framhjá Cech í markinu! 1-0 og nóg eftir af leiknum.

    Eftir markið óðum við í færum og m.a. átti Riise dauðafæri eftir frábæra sendingu frá Alonso en tók illa á móti boltanum og skot með hægri fæti var slakt. Eftir sem áður var algjör einstefna í upphafi leiksins og spiluðum við “vörnina” þeirra illa trekk í trekk. Það kom að því að eitthvað myndi gefa eftir og kom markið frá næstum ólíklegasta leikmanni Liverpool eða Pennant en hann tók boltann niður rétt fyrir utan teig og hamraði knettinum sláinn inn! Frábært mark og gott fyrir hann að skora svona mark og í þessum leik.

    2-0 og ennþá aðeins um 20 mínútur liðnar af leiknum.

    Chelsea gerði snemma breytingu á sínu liði í fyrri hálfleik vegna meiðsla Robben og kom þá Shaun Wright-Phillips inná. Leikurinn datt aðeins niður eftir seinna markið en Chelsea átt samt aldrei nein hættuleg færi í fyrir hálfleik. 2-0 í hálfeik og mjög sanngjörn staða!

    Engar breytingar voru gerðar á liðunum í hálfleik. Við sóttum á færri mönnum á meðan vörnin hjá Chelsea með Essien fremstan í flokki stóð sig mun betur. Crouch átti að fá víti eftir frábært skot Riise í slána en þá fór Essien vel undir risann en ekkert dæmt. Kuyt fékk einnig dauðafæri eftir sendingu frá Gerrard en skaut rétt yfir markið.
    Chelsea fékk aldrei nein hættuleg færi í leiknum og voru mjög ósannfærandi en enginn spilar betur en andstæðingurinn leyfir! Við spiluðum einfaldlega vel í dag, allstaðar á vellinum.

    Vörnin var öflug með Carragher fremstan í flokki, miðjan var sterk þar sem Alonso stjórnaði spilinu ótrúlega vel og frammi vann Kuyt á við tvo menn. Það var einnig gaman að sjá hvernig Aurelio og Riise skiptu með sér verkum á kantinum og bakverðinum.

    Þessi sigur gefur liðinu mikið sjálfstraust og vonandi verður áframhald á svona frammistöðu. Lið spilaði sem ein heild og barðist eins og ljón. Núna erum við 5 stigum á eftir Chelsea og 11 stigum á eftir Man U (þeir eiga leik inni á morgun gegn Arsenal).

    Maður leiksins: Mér fannst heilt yfir allt liðið leika vel og má segja að klisjan að velja liðsheildina eigi vel við hérna en ég ætla að taka út Jamie Carragher fyrir klókann varnarleik og halda Drogba niðri næstum allan leikinn. Góður leikmaður og frábær caragh(t)er!

  • Byrjunarliðið gegn Chelsea

    Lítur svona út:

    Reina

    Finnan – Carragher – Agger – Riise

    Pennant – Gerrard – Alonso – Aurelio

    Crouch – Kuyt

    Bekkurinn: Dudek, Bellamy, Hyypia, Gonzalez, Fowler.

    Ekkert út á þetta að setja…

    YNWA

  • Chelsea á morgun!

    Liverpool og Chelsea mætast á morgun í 24. umferð Úrvalsdeildarinnar og, að mér telst til, í aðeins þrettánda skiptið á tæpum þremur tímabilum síðan þeir José Mourinho og Rafael Benítez tóku við liðunum.

    Í þessum þrettán viðureignum hefur José Mourinho yfirhöndina, með sex sigra, fjögur jafntefli og þrjú töp. Í deildinni er hins vegar annað uppi á teningnum, en þar hefur José Mourinho unnið alla fimm leiki sína gegn Rafa Benítez. Á morgun einfaldlega verður sú tölfræði að breytast Benítez í hag.

    league_190107.pngEins og þið sjáið hér til hliðar er staðan í Úrvalsdeildinni mjög áhugaverð fyrir leiki helgarinnar. Auk stórleiks morgundagsins mætast liðin í fyrsta og fjórða sæti, Man U og Arsenal, á heimavelli þess síðarnefnda á sunnudag. Auðvitað vinnst enginn titill í janúarmánuði en fari svo að við vinnum Chelsea og United vinni Arsenal – og nái fyrir vikið níu stiga forskoti – verður að teljast mjög líklegt að Rauðu djöflarnir hampi titlinum í vor. Hvað snýr að okkar mönnum hugsa ég að sigur okkar á morgun og tap Arsenal gegn United myndi henta okkur best, því það er langsótt að við vinnum upp forskot United en gætum þegið að setja Arsenal lengra fyrir aftan okkur.

    Af Chelsea-liðinu er það helst að frétta að allt virðist í uppnámi innan klúbbsins. José Mourinho er sagður vera á förum frá félaginu í vor vegna deilna við Roman Abramovich eiganda og Frank Arnesen, yfirmann leikmannamála, og þá segir slúðrið að Andryi Shevchenko sé höfuðþátturinn í þeirri deilu. Þess utan eru nokkrir leikmenn fjarri góðu gamni, en Claude Makelele er í leikbanni á morgun á meðan þeir John Terry, Joe Cole og Khalid Boulahrouz eru frá vegna meiðsla. Hins vegar kemur hinn stórgóði Petr Cech aftur inn í mark Chelsea á morgun eftir fimm mánaða fjarveru eftir höfuðkúpubrot.

    Þeirra veikasti hlekkur verður nær örugglega vörnin og markið. Í fjarveru John Terry og Claude Makelele þarf Michael Essien sennilega að sinna miðjuhlutverkinu, sem þýðir að Mourinho gæti þurft að hafa bakvörð í miðri vörn sinni með Ricardo Carvalho. Þá er endurkoma Cech mikill óvissuþáttur – verður hinn frábæri Tékki í sínu gamla, góða formi strax í fyrsta leik eða mun mikið ryð og jafnvel ótti einkenna leik hans? Hver veit, en það gæti verið að endurkoma hans hafi stór áhrif á útkomu leiksins á einn veg eða annan. Ég er samt viss um að ég tala fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að ég vona að Cech meiðist ekki. Maður óskar mótherjum sinna ýmislegs en ekki meiðsla.

    Frammi verða þeir samt skeinuhættir sem aldrei fyrr. Didier Drogba hefur verið einn besti leikmaður Úrvalsdeildarinnar í vetur og Arjen Robben hefur verið að koma inn sjóðheitur, og þeir munu leiða sóknarlínu liðsins á morgun. Auk þess er ljóst að menn eins og Lampard og Ballack þurfa aldrei nema eitt færi til að setja mark sitt á leikinn.

    Það er ljóst í mínum huga að þessi leikur á morgun heldur jafnvægi á bláþræði fyrirfram, og getur dottið fyrirvaralaust niður öðrum hvorum megin. Bæði lið hreinlega verða að sigra og margt mælir bæði með og á móti málstað beggja. Vonandi verður Anfield tólfti maðurinn á morgun og vonandi ná okkar menn að svara gagnrýnisröddunum og vinna eitt af hinum stórliðunum þremur.

    Hjá Chelsea held ég að þetta sé líklegt lið:

    Cech

    Geremi – Ferreira – Carvalho – Cole

    Ballack – Essien – Lampard

    Shevchenko – Drogba – Robben

    Hjá okkar mönnum hefur lítið breyst í leikmannamálum. Bolo Zenden er byrjaður að æfa en verður líklega ekki í hópnum á morgun, á meðan menn eins og Momo Sissoko, Harry Kewell og Luis García verða frá vegna meiðsla. Mark Gonzalez er orðinn heill og gæti orðið með á morgun en það yrði þá aldrei nema sem varamaður. Spurningin er aðallega hvort Rafa mun stilla öllum þremur framherjunum upp aftur eða ekki. Ég hallast að því að hann láti Crouch byrja á bekknum á morgun og stilli upp hefðbundnu 4-4-2. Þá held ég að hann velji reynslu fram yfir unggæði í vörninni, sérstaklega þar sem Sami Hyypiä er eini varnarmaðurinn okkar með líkamsburði til að berjast eitthvað að ráði við Didier Drogba.

    Ég held að byrjunarlið okkar á morgun verði sem hér segir:

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

    Pennant – Gerrard – Alonso – Aurelio

    Bellamy – Kuyt

    Hvað veit maður svo sem? Þetta eru tveir óútreiknanlegustu stjórar deildarinnar, ég gæti haft kolrangt fyrir mér með bæði liðin. En það er gaman að giska. 🙂

    MÍN SPÁ: Aldrei þessu vant, þegar Chelsea-liðið er annars vegar, segja bæði heilinn í mér og hjartað það sama. Vandræði þeirra innan og utan vallar, auk góðs forms okkar manna í Úrvalsdeildinni sl. tvo mánuði, gera það að verkum að okkar menn þykja hreinlega sigurstranglegri á morgun. Það eru fimmtán mánuðir síðan við töpuðum 4-1 fyrir Chelsea í síðasta deildarleik á Anfield og rúmir þrír mánuðir síðan þeir unnu okkur 1-0 á Stamford Bridge. Í þeim leik voru Liverpool betri aðilinn en einstaklingssnilli Didier Drogba skildi liðin að.

    Ég er allavega viss um að þeir munu ekki halda hreinu á morgun. Vörn Chelsea hefur einfaldlega verið hriplek upp á síðkastið og jafnvel með endurkomu Petr Cech sé ég hana ekki fyrir mér halda stórsókn Liverpool á Anfield fjarri. Gleymum því ekki að okkar menn hafa verið að skora helling sl. tvo mánuði, jafnvel í tapleikjunum tveimur gegn Arsenal skoruðum við fjögur mörk á 180 mínútum. Þannig að það er ekkert óeðlilegt að ætla að okkar menn skori á morgun.

    Til að gera langa sögu stutta er einhver pirringur í litlu tánni sem segir mér að við munum vinna 2-0 sigur á morgun og þeir Steven Gerrard og Dirk Kuyt munu skora mörkin í sitt hvorum hálfleiknum. Ég vona alveg svakalega heitt og innilega að ég hafi rétt fyrir mér. 🙂

    Áfram Liverpool!

  • Rafa um Mascherano

    Jæja, Rafa er að tjá sig um Mascherano við fjölmiðla. Hann [segir](http://home.skysports.com/transferarticle.aspx?hlid=442514):

    >”We are trying to find a solution with Fifa and believe we have a good case to appeal for the transfer to go ahead,”

    >”People say we can’t do this deal, but why are there so many other examples?

    >”I know of one player who played for four clubs in a year.

    Það er svo sem nákvæmlega ekkert nýtt í þessu, en það er þó athyglisvert að Liverpool menn séu bjartsýnir á að þetta gangi í gegn.

    Já, og [Darren Potter hefur verið seldur](http://news.bbc.co.uk/sport2/hi/football/teams/w/wolverhampton_wanderers/6276263.stm) til Wolves fyrir 200.000 pund. Potter er 22 ára.

  • Eru kaupin á Neill að klikka? (Uppfært: JÁ!)

    Sky halda því núna fram að Lucas Neill [geti verið á leið til West Ham](http://home.skysports.com/list.aspx?hlid=442242&CPID=8&clid=14&lid=&title=Neill+closes+on+move&channel=&) mjög fljótlega.

    Samkvæmt Sky virðast Liverpool hafa gert Neill tilboð að samningi, en að hann sé að taka langan tíma í að segja já. Rafa Benitez tjáir sig um þetta og ég er mjög ánægður með þetta kvót:

    >”We are continuing working on these things but we will not wait. If a player wants to come to play for Liverpool, he must say yes quickly,”

    >”If he thinks about it for too long, maybe itÂ’s a signal itÂ’s time for us to look for other players. We have alternatives.”

    Semsagt, ef að Neill vill spila fyrir uppáhaldsliðið sitt, þá verður hann að segja já við þessu samningsboði Liverpool og gera það strax. Ef ekki, þá getur hann eflaust farið til annarra liða og fengið meiri pening fyrir og hugsanlega átt stöðu í liðinu vísari.


    Uppfært (Kristján Atli): Ókei í fyrramálið munu blöðin staðfesta að Lucas Neill hefur valið launapakkann hjá West Ham fram yfir titlabaráttuna og metnaðinn hjá Liverpool. Sjá frétt á The Times.

    Ég hef lítið um þetta að segja og ætla ekki að eyða orðum. Lucas Neill er góður knattspyrnumaður en hann valdi lið sem er í bullandi fallbaráttu en með mjög, mjög góð laun fram yfir lið sem er í Evrópukeppni og toppbaráttu og aðeins mjög góð laun. Metnaðarleysi er rétta orðið yfir slíka menn, og ég segi það ekki bara sem bitur Púllari heldur bara af því að það er satt. 30,000 pund hjá Liverpool hefðu verið launahækkun fyrir hann frá því sem hann þénaði hjá Blackburn, og slíkar fjárhæðir eru ekkert slor til að byrja með, en á endanum stóðst hann ekki auka 20 þúsundin.

    Gangi þér vel í fallbaráttunni, Lucas. Íslendinganna vegna vona ég að þetta reddist hjá ykkur, en líka af því að þá geturðu heimsótt Anfield næsta vetur og fengið að sjá með eigin augum hverju þú slepptir fyrir aðeins ríflegri ellilífeyri.

  • Ungverskur táningur

    Sky greina frá því að [Liverpool sé að spá í að kaupa 17 ára ungverskan leikmann](http://home.skysports.com/list.aspx?hlid=442305&CPID=8&clid=14&lid=2&title=Reds+eye+Hungarian+starlet), Andras Simon.

    Hann mun æfa með liðinu á næstu dögum. Sky greina einnig frá því að Liverpol hafi komist að samkomulagi um kaupin á sænska framherjanum Astrit Ajdarevic, sem er 16 ára. Vonandi að hann verði einhvern tímann jafngóður og ákveðinn annar sænskur framherji með austur-evrópskt nafn.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close