Yfirleitt er ég gæjinn sem skrifar hérna inn með glasið hálffullt, og sem slíkur hef ég oft átt fullt í fangi með að verja liðið og aðstandendur þess fyrir því sem mér hafa þótt vera frekar óverðskuldaðar og/eða ýktar gagnrýnisraddir. Í dag ætla ég hins vegar, að gefnu tilefni, að venda kvæði í kross og benda mönnum á hve mikið vantar uppá annars hálffullt glasið.
Um helgina vann Liverpool nokkuð auðveldan, mjög sannfærandi og algjörlega frábæran sigur á Chelsea í deildinni. Í kjölfarið vann Arsenal sigur á Man U svo að forskot þeirra síðastnefndu á Liverpool fór úr fjórtán stigum niður í ellefu, á meðan forskot Chelsea minnkaði úr átta niður í fimm. Arsenal eru sem fyrr heilu stigi á eftir okkur, en við úrslit helgarinnar gerðist það að bilið á milli tveggja efstu liðanna annars vegar og næstu tveggja liða minnkaði um þrjú stig.
Þegar Liverpool tapaði tvisvar fyrir Arsenal fyrir hálfum mánuði síðan (virðist langur tími í dag, er það ekki?) kepptust menn bæði á þessari síðu og um víða veröld við að úthrópa allt sem sneri að klúbbnum. Rafael Benítez var búinn að “missa’ða” á meðan annar hver leikmaður liðsins var ómerkilegri en skíturinn undir skóm netspjallara. Dagana eftir þessa tapleiki kepptist ég við að benda mönnum á að liðið væri ekki fullkomið, en samt langt því frá að vera jafn stórkostlega lélegt og sumir vildu meina.
Tvær vikur eru langur tími í knattspyrnu. Tæpum fjórtán dögum eftir að Thierry Henry innsiglaði vandræðalegan sigur á okkar mönnum á Anfield mætti þetta sama rauðklædda lið útá sama völlinn og hreinlega skúraði gólfið (grasið?) með Englandsmeisturum Chelsea. Bæði lið voru án jafn margra lykilmanna en þó vantaði alla miðverði Chelsea, en það eitt og sér skýrir ekki getumuninn á liðunum á laugardaginn.
Þannig að í kjölfarið hafa menn reynt að útskýra þetta. Er Liverpool virkilega svona gott lið? Er liðið best í heimi? Er Rafael Benítez hinn eini sanni “The Special One,” og José Mourinho bara aumingi? Svarið við þessu öllu er: róið ykkur og leyfið fótunum að snerta jörðina á ný. José Mourinho, sami maður og hefur rúllað Úrvalsdeildinni upp sl. tvö tímabil, varð ekki ömurlegur þjálfari um helgina. Hann er enn frábær þjálfari, en eins og allir aðrir þjálfarar er hann að upplifa lægð á sínum ferli sem stjóri Chelsea. Ekkert virðist ganga honum í hag og eins og hann hafi ekki um nóg að hugsa innan vallar er allt í uppnámi utan hans líka, og enska pressan er fljót að gera sér mat úr honum.
Síðastliðið sumar var það Sir Alex Ferguson sem var búinn að vera. Þá var það Arsene Wenger, sem gerði alltof mörg jafntefli í haust, og svo kom röðin að okkar manni sem var alveg ómögulegur. Nú skyndilega virðist José Mourinho vera til þess eins nytsamlegur að gera grín að. Hve fljótt hlutirnir breytast, og ef menn vilja missa allt samband við raunveruleikann er nóg að láta ginnast af fyrirsögnum athyglissjúkra blaðamanna í Englandi.
Dæmi: Benítez leggur ráðin á titilsigur (Guardian)
Já, ég veit og ég man. Ég veit að Rafa Benítez er þjálfari sem gefst aldrei upp, og ég man að tvisvar á þremur árum stýrði hann Valencia-liðinu á Spáni til ótrúlegs endaspretts í baráttunni um titilinn þar í landi. Ég veit, og ég man. Ég veit líka að hann var margsinnis afskrifaður með Liverpool í Evrópu vorið 2005, og ég man hversu vel hann tók sig út með hendur á “Big Ears” í Istanbúl.
En þetta er ný keppni, nýtt ár og ný tækifæri. Tækifæri til að skapa nýjan kafla í glæsta sögu klúbbsins, en um leið tækifæri til að klúðra öllu. Línan á milli er stundum hárfín, en hún er þarna.
Bjartsýnismaðurinn í mér segir að það sé vel hægt að ná Man U og Chelsea og sigra Úrvalsdeildina vorið 2007. Það er hægt, og annað eins hefur nú gerst. Og Rafa hefur algjörlega, óumdeilanlega rétt fyrir sér í því að á meðan það er stærðfræðilegur möguleiki á liðið hans alls ekki að gefa upp vonina.
En hvað með okkur hina? Eru menn farnir að hugsa um þetta sem titilbaráttu, eða erum við enn bara að setja stefnuna á Chelsea í öðru sætinu?
Arsenal eru stigi fyrir aftan okkur, Chelsea fimm á undan og United ellefu á undan. Málið er að leiðin til að halda Arsenal fyrir aftan okkur er sú sama og leiðin til að ná Chelsea og United. Til að eitthvað jákvætt gerist í þessum málum þarf liðið að halda áfram að vinna sigra. Og til að sigra í fjórtán leikjum af fjórtán þarf að taka hvern þeirra fyrir sig og meðhöndla viðkomandi leik sem algjöran úrslitaleik.
Rafa hefur oft rétt fyrir sér, en sjaldan hefur hann verið jafn spakur og þegar hann tönnslast á því að hann sé bara að hugsa um næsta leik. Við erum öll að horfa á blessaðan Englandsmeistaratitilinn, þann sem hefur verið í sautján ára útlegð frá Merseyside. Leikmennina dreymir hann, Rafa þráir hann og við hin lifum fyrir að sjá hann snúa aftur í hendur fyrirliða Liverpool. Og hver veit, kannski gerast kraftaverkin enn? Kannski er það árið í ár?
Líklegast ekki, samt. Það er einfaldlega ómögulegt um að segja á þessu stigi málsins. Það eina sem hægt er að gera er að taka fyrir einn leik í einu og vinna þann leik. Næsti úrslitaleikur Liverpool er eftir rúma viku gegn West Ham, á útivelli, og hann verður að vinnast.
Þið hin megið, ef þið viljið, láta ykkur dreyma um titilinn í vor. Það er ekkert óhollt við að láta sig dreyma, eins lengi og draumarnir hafa ekki óraunhæf áhrif á raunverulegar vonir og væntingar manna. Ég ætla að halda fótunum á jörðinni og minna sjálfan mig á að þetta sama lið og vann Chelsea um helgina tapaði tvisvar fyrir Arsenal fyrr í sama mánuði. Þetta tímabil getur vissulega brugðið til beggja vona, eins og leikir mánaðarins hafa sýnt okkur.
Einn leikur í einu. Ég hlakka til næsta leiks, og svo sjáum við til.