Forráðamenn Liverpool hafa sofið nokkuð illa á verðinum er kemur að því að endurnýja liðið undanfarin ár og þurfa því að gera full mikið núna á skömmum tíma. Liverpool liðið hefur verið fáránlega óstöðugt allt tímabilið 2022-23 og ætti sumarið núna að fara að mestu í að tækla það vandamál. Gæði leikmannahópsins er ekkert stóra vandamálið, hópur Liverpool 2022-23 stenst hvaða liði sem er ágætlega snúning á pappír. En að geta treyst þeim til að drífa inn á völlinn í hverri viku er allt að því vonlaust.
Frá sumarglugganum 2019 hafa stóru leikmannakaupin verið Elliott, Thiago, Jota, Konate, Diaz, Nunez, Arthur (á láni) og Gakpo núna í janúarglugganum. Allir (nema Gakpo) hafa þeir lent í þrálátum meiðslum eða langtímameiðslum. Nunez spilaði 50% af deildarleikjum Liverpool í vetur, Gakpo 43% (var auðvitað ekki leikmaður Liverpool fyrri helming mótsins) Thiago 37%, Konate 45% Arthur 0% Diaz 29% og Elliott 47%

Ekki einn helvítis leikmaður sem Liverpool hefur keypt undanfarin fjögur tímabil náði að spila meira en 50% af leikjum liðsins á síðsta tímabili. Það er fullkomlega galið og ljóst að einhverju þarf að breyta í innkaupastefnu félagsins.
Undanfarið hefur fókusinn mjög mikið verið á miðjunni en förum núna í gegnum allt liðið undanfarin fjögur tímabil og sjáum hvernig stöðugleikinn hefur verið í hverri stöðu fyrir sig.
Markmaður

Áður en Liverpool keypti Alisson var þetta búið að vera vandræðastaða í tæplega áratug. Hann hefur blessunarlega spilað 88% af leikjum liðsins undanfarin fjögur tímabil og tímabilið sem hann var hvað mest frá vegna meiðsla kom ekki að sök þar sem Liverpool rústaði deildinni. Hans meiðsli kostuðu hinsvegar Meistaradeildina það tímabil. Guð hjálpi okkur ef Alisson væri jafn óstöðugur og samherjar hans aðeins ofar á vellinum.
Hægri bakvörður

Liverpool er búið að spila rússneska rúllettu með hægri bakvarðarstöðuna frá því Trent eignaði sér hana. Hann er að spila 88% af leikjum Liverpool undanfarin fjögur ár. Þrátt fyrir (oft fáránlega) gagnrýni á hann er ágætt að hafa í huga að Liverpool er í enn verri málum ef hann er frá en ef Alisson meiðist. Það er ekkert gáfulegt back-up til í staðin og samhliða nýjum útfærslum á leikkerfi væri óvitlaust að leiðrétta það í sumar.
Ramsey verður aldrei alvöru valkostur fyrir Trent, hvað þá ef að hann er að fara þróast svipað og Kimmich hjá Bayern og færast meira inn á miðjuna. Með brottför Milner er ennþá sterkari þörf á að taka ekki heimsklulega áhættu hér, eitthvað sem félagið hefur gert undanfarin ár í öðrum stöðum og fengið hressilega í bakið.
Vinstri bakvörður

Staðan er svipuð í vinstri bakverði en þar var a.m.k. keypt leikmann sem getur leyst Robertson af ef í harðbakkann slær. Robbo hefur verið að spila 20-25% minna en hann var að gera eftir að Tsimikas var keyptur. Þetta n.b. snýst ekki bara um að gefa Robbo og Trent hvíld heldur þurfa þeir eins og aðrir aðhald og heilbrigða samkeppni um stöðu.
Miðverðir

Hér byrja vandamálin og þau eru engu minna aðkallandi en á miðjunni. Van Djik verður 32 ára núna í sumar og þarf að fara sparlega með leikjaálagið á honum. Ef að Liverpool ætlar enn eitt árið að treysta á Gomez og Matip eru allar líkur á því að hann verði að spila deildarbikar, bikar eða Evrópudeildarleiki næsta tímabil sem annars væri ætlaður þeim en gengur ekki upp þar sem þeir eru meiddir. Liverpool þarf líka að fara kaupa arftaka VVD, helst áður en hann yfirgefur sviðið sjálfur.
Konate hefur alveg gæðin en núna erum við búin með tvö tímabil þar sem hann hefur spilað 29% og 45% af leikjum Liverpool. Hann er bara nákvæmlega sama tóbakið og Gomez og Matip hafa verið allan sinn feril hjá Liverpool. Vantar ekki gæðin en ekki hægt að treysta né byggja lið í kringum svona miklar fjarvistir. Hann var ekkert skárri hjá Leipzig, tímabilið 2020-21 spilaði hann 695 mínútur og tímabilið 2019-20 spilaði hann 568 mínútur í deildinni. Þetta eru ígildi 6-8 leikja.
Gomez náði næstum því smá stöðugleika tímabilið 2019-20 við hlið Van Dijk og spilaði um 60% af tímabilinu og hafði Matip og Lovren til að covera rest. Tímabilið 2021-22 náði Matip sínu besta ári og spilaði 82% af leikjum Liverpool. Van Dijk spilaði bæði tímabilin auðvitað nánast alla leikina. Þetta voru 99 stiga tímabil og 92 stiga tímabil hjá liðinu.
Hin tvö árin, úff.
2020-21 er í raun bara brandari hvað stöðugleika í vörninni varðar. Það komu sex mismunandi miðverðir við sögu allt tímabilið og þeir náðu samt bara að spila 67% af leikjum liðsins. Nat Phillips og Ozan Kabak spiluðu mest af miðvörðum Liverpool og Rhys Williams spilaði meira en Van Dijk og Gomez!
33% af leikjum tímabilsins voru leystar af öðrum leikmönnum en þessum sex miðvörðum! (t.d. Fabinho – Henderson – Wijnaldum)
Það að tapa bara niður 30 stigum milli ára og ná 69 stigum var í raun afrek í ljósi aðstæða. Þetta voru mjög mikið til heimatilbúin vandræði samt enda ekkert keypt fyrir Lovren og treyst á bæði Gomez og Matip. Þeirra tölfræði árin á undan þessum sem við erum að skoða hérna er ennþá verri en þetta og Lovren var alltaf meiddur líka.
Höfum hugfast að venjulegt lið á ekkert að þurfa meira en þrjá góða miðverði, sá fjórði er jafnan varaskeifa sem kemur ekki mikið við sögu, þannig er það aldrei hjá Liverpool enda alltaf verið að treysta á sömu mennina.
2022-23 var sami heimatilbúni vandinn nema núna var það kannski meira miðjan sem gaf sig heldur en allur miðvarðahópurinn. Van Dijk á skilið alvöru partner við hliðina á sér sem hægt er að treysta á og mynda stöðugleika í kringum. Hann var nánast aldrei með sama manni við hliðina á sér tvo leiki í röð og auðvitað hefur þetta áhrif á leik liðsins. Hvað þá ef miðjan getur ekki hreyft sig og varið vörnina líkt og við eigum að venjast.
Hér er bara alveg rosalega stórt svigrúm til bætinga og því fyrr sem við losnum við óstöðugleika líkt og hefur alla tíð einkennt Matip og Gomez því betra. Það lagaðist svo ekki neitt með kaupunum á Konate.
(more…)