Latest stories

  • Liðið gegn Toulouse komið: Leto byrjar!

    Jæja byrjunarliðið fyrir leikinn á eftir er komið og er það sem hér segir:

    Reina

    Arbeloa – Agger – Hyypiä – Riise

    Benayoun – Mascherano – Sissoko – Leto

    Kuyt – Crouch

    **BEKKUR:** Itandje, Finnan, Alonso, Babel, Lucas, Torres, Pennant.

    Það vekur vissulega athygli að sjá að Sebastian Leto er í liðinu. Hann hefur aðeins leikið einu sinni áður fyrir Liverpool, þótti eiga ágætis leik gegn Shanghai Senhua í æfingaleik í Rotterdam viku fyrir upphaf Úrvalsdeildarinnar, en hann fær séns í dag frammi fyrir pakkfullum Anfield til að sýna hvað í sér býr.

    Þetta verður áhugaverður leikur. Áfram Liverpool!!!

  • Toulouse á morgun

    Þá er komið að milljónaleiknum á Anfield. Það er ansi hreint mikið í húfi og eins gott að vera á tánum. Liverpool fer inn í þennann leik með góða stöðu, en 1-0 er nú engu að síður bara 1-0. Það þarf ekkert mikið til í svona löguðu til þess að hlutirnir renni út úr höndunum á mönnum ef menn eru ekki á tánum. Ég er þess fullviss að Rafa Benítez muni gera mönnum fulla grein fyrir því hvað er í húfi og það er ekki einn leikmanna liðsins sem getur hugsað þá hugsun til enda að vera ekki með í Meistaradeildinni á tímabilinu. Ef allt er eðlilegt, þá á þetta engu að síður að vera frekar létt verk fyrir okkar menn. Lið Toulouse er hreint út sagt ekki mjög sterkt lið og á hreinlega ekki að geta komið á Anfield og sett mörg mörk. Mér skilst einnig að það sé talsvert um meiðsl hjá þeim og það veikir þá mikið, þar sem þeir búa ekki yfir mjög sterkum hóp. Þessi leikur verður ekki tekinn neinum vettlingartökum, hann verður að vinnast og það örugglega. Við höfum reyndar lent í basli síðustu tímabil með þessa heimaleiki í undankeppninni og ekki náð neinum frábærum úrslitum í þeim, þó síður sé. Á morgun þarf að verða breyting þar á.

    Ég ætla mér ekki að fara neitt út í uppstillingu mótherjanna. Ástæðurnar eru aðallega tvær. Ég þekki ekki mikið til liðsins og hreinlega nenni ekki að fara djúpt ofan í leikmanna hóp þess. Hin ástæðan er sú að það á ekki að skipta okkar menn neinum máli hvernig uppstilling mótherjanna verður, við eigum að geta stillt um mun sterkara liði en þeir, þó svo að við myndum skipta öllu liðinu okkar út frá leiknum gegn Sunderland. Að vanda er hrikalega erfitt að ráða í það hvernig Rafa muni stilla liðinu upp. Hyypia er sagður klár í slaginn þrátt fyrir nefbrot. Sömu sögu er ekki hægt að segja af Carra og Stevie. Þeir verða örugglega báðir fjarri góðu gamni. Eina spurningin í mínum huga varðandi vörnina er hvort Rafa taki sénsinn með Sami og setji hann inn, eða hvort hann setji hreinlega Arbeloa inn í miðvörðinn við hlið Agger. Arbeloa er ekkert ókunnugur þeirri stöðu og treysti ég honum vel í að klára sig af leiknum. Reynsla Hyypia skal þó ekki vanmetin hér og það myndi alveg pottþétt styrkja vörnina ef hann verður úrskurðaður klár fyrir leikinn. Ég á þó ákaflega erfitt með að taka Arbeloa út úr liðinu, því ég er nánast viss um að Rafa finnur sæti fyrir hann þar.

    Ég spáði rangt fyrir um miðjuna síðast (og reyndar flest annað ef því er að skipta) og KAR hafði rétt fyrir sér með Alonso. Ég ætla þó að halda því fram núna að Alonso hefji ekki leikinn. Ég held að Maschareno komi inn á miðjuna, enda lék hann ekkert um helgina og hefur bara spilað gegn Toulouse á tímabilinu. Mér að vitandi eru þeir Kewell og Aurelio ennþá fjarverandi og vona ég því að Babel fái aftur tækifærið á kantinum. Það þarf að spila þeim strák talsvert til að koma honum almennilega inn í spilið hjá liðinu. Ég tel líka nánast öruggt að Benayoun kominn inn í byrjunarliðið. Hann var ekki einu sinni á bekknum gegn Sunderland og er eflaust hungraður í að spila. Svo er stóra spurningin með Lucas. Ég vonast til að sjá hann á bekknum og að hann fái eitthvað tækifæri ef staðan verður orðin góð fyrir okkar menn. Sömu sögu má segja með Leto (kannski meira óskhyggja og væntanlega verður Pennant á bekknum í hans stað). Momo mun pottþétt byrja á miðjunni eftir frábæra frammistöðu um helgina. Frammi verða það svo Kuyt og Crouch sem leiða sóknina. Ég ætla því að spá byrjunarliðinu svona:

    Reina

    Finnan – Agger – Hyypiä – Riise

    Benayoun – Sissoko – Maschareno – Babel

    Crouch – Kuyt

    Bekkurinn: Itandje, Arbeloa, Lucas, Alonso, Leto (Pennant), Torres og Voronin

    Nú er bara að klára þetta dæmi. Okkar menn hafa verið á flugi og ég sé ekki neina ástæðu til þess að menn lækki eitthvað flugið á Evrópukvöldi á Anfield á morgun. Ég ætla að gerast grófur og spá öruggum sigri okkar manna, 3-0. Babel mun setja sitt fyrsta mark fyrir félagið og svo munu þeir félagar í framlínunni setja sitthvort kvikindið.

  • Er launaþak lausnin?

    Menn hafa mismiklar áhyggjur af því hvort það sé fákeppni enska boltanum. Að það sé ómögulegt að brjótast í gegnum múrinn sem hinir “fjóru stóru” eru, það er að segja Liverpool, Chelsea, Manchester United og Arsenal. Önnur lið séu einungis að berjast um UEFA sæti og að falla ekki.Oft er horft til Bandaríkjanna og sagt að þar sé kerfið til fyrirmyndar þar sem um launaþak sé að ræða og nýliðaval sem skilar því að bestu leikmennirnir dreifast á liðin í stað þess að hrúgast allir í örfá lið.

    Menn vilja líka meina að tilkoma Úrvalsdeildarinnar hafi líka haft slæm áhrif í þessa átt. Að nú sé ómögulegt fyrir lið eins og Nottingham Forest, Aston Villa og Derby að vinna deildina. En hvað segja tölurnar.

    (more…)

  • Paletta seldur

    Það héldu allir að Rafa væri að lána Gabriel Paletta til Boca í Argentínu. Svo er víst ekki og hefur opinber heimasíða Liverpool FC staðfest þetta. Það má alveg segja það eins og það er, Paletta náði engan veginn að heilla mann í þau skipti sem hann spilaði með Liverpool. Hann er ungur að árum og á framtíðina eflaust fyrir sér, en Rafa hefur greinilega ekki séð nóg í honum til að halda honum og því hefur hann útskipað honum til Argentínu á nýjan leik. EKkert hefur komið fram varðandi kaupverðið á honum. Nú er bara að sjá hvort Rafa nái einum miðverði inn áður en leikmannaglugganum lokar.

  • Er Torres næsti Dalglish? hhmmm

    Það var ljóst þegar Torres var á leið til Liverpool að væntingarnar til hans yrðu miklar og þess vegna mikilvægt fyrir hann sem og Liverpool að honum myndi ganga vel í upphafi, hefja ferilinn á jákvæðum nótum. Það voru/eru margir blaðamenn bæði í Englandi sem og Spáni sem biðu eftir því að Torres myndi byrja illa og við getum ímyndað okkur ef hann hefði t.d. fengið rautt spjald fyrir skalla Terry hvað hefði verið sagt í blöðunum. En það gerðist ekki heldur skoraði hann frábært mark og sýndi að bæði andlega og líkamlega er hann tilbúinn í ensku deildina.

    Torres hefur verið STJARNAN hjá Atletico Madrid síðan hann var bleyjubarn og þekkir það að vera með ábyrgð á sínum öxlum. Hann var því ótrúlega vel undirbúinn andlega að koma til Liverpool. Núna eftir 3 leiki í deildinni og hreint út sagt frábæra byrjun drengsins eru margir blaðamenn að missa sig yfir því hversu góður hann er, m.a. sagður nýi Dalglish.

    Torres er góður leikmaður og verður bara betri enda einungis 23 ára gamall, en að líkja honum við Dalglish, Keegan eða einhvern af gömlu stjörnunum? Er hann ekki bara Torres?

    Nánari upplýsingar um drenginn:
    Fullt nafn: Fernando José Torres Sanz
    Fæddur: 20. Mars 1984
    Hæð/Þyngd: 1,81 m og 78 kg
    Landsleikir/mörk: 42 / 14, U21: 10/3.
    Leikir/mörk með Atletico Madrid (Síðan 2000): 214 / 82

  • Gerrard, Carra og Hyypia frá gegn Toulouse.

    Svo gæti verið að sigurinn gegn Sunderland hafi verið Pyrrosarsigur þar sem bæði Carragher og Hyypia meiddust í þeim leik og verða næstum örugglega ekki með gegn Toulouse á þriðjudaginn. Hyypia mun hafa nefbrotnað og misst sjónina tímabundið á vinstra auga og talið að Carra hafi rifbeinsbrotnað. Þetta þýðir að við erum tæpir í miðri vörninni og Arbeloa mun vera með Agger þar. Þetta er skýrt dæmi um stöðu þar sem við erum ekki með nægilega gott “back up”. Ég von á því að miðvörður komi fyrir lok mánaðarins.

    Á jákvæðum nótum þá er Aurelio víst að koma til og mun snúa til æfinga á fullu á næstunni eftir að hafa rifið hásin á síðasta tímabili.

  • Sunderland 0 – Liv’pool 2

    Okkar menn komu sterkir undan landsleikjahléinu og unnu í dag sinn annan útileik í röð, **0-2 gegn Sunderland** í miklum baráttuleik. Fyrir vikið eru okkar menn komnir með 7 stig eftir þrjá leiki og aðeins dómaraskandall síðustu helgar kemur í veg fyrir að liðið sé með fullt hús stiga. Þetta er einfaldlega byrjunin sem við vorum að vonast eftir, frábær byrjun í deildinni sem gefur tóninn fyrir titilbaráttu á komandi vetri. Þar að auki var einfaldlega hrein unun að horfa á liðið í dag; menn voru flest allir að leika fantagóða knattspyrnu, nær allt sem Rafa lagði upp með gekk upp og þetta var svona klassískur útisigur sem við höfum síðustu tímabil horft öfundaraugum á Chelsea og Man Utd innbyrða. Ekki lengur, í dag voru það okkar menn sem létu ljós sitt skína.

    Rafa Benítez stillti liðinu upp svona í dag:

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypiä – Arbeloa

    Pennant – Alonso – Sissoko – Babel

    Torres – Voronin

    **BEKKUR:** Itandje, Agger, Riise, Mascherano, Kuyt.

    Liverpool varð fyrir blóðtöku í þessum leik en liðið missti báða miðherja sína útaf meidda; Hyypiä fékk olnbogaskot í upphafi leiks og fór útaf eftir 15 mínútna leik með það sem virtist vera brotið nef og kom Daniel Agger inná í hans stað. Eftir rúmlega 60 mínútna leik fékk Carragher svo slysaspark í rifbeinin frá Pepe Reina í úthlaupi og þurfti að fara útaf. Það verður að koma í ljós hversu alvarleg meiðsli þeirra eru, en við vonum það besta. Undir lokin tók Rafa svo Babel útaf fyrir Dirk Kuyt.

    Leikurinn:

    Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega stórkostlegur hjá okkar mönnum. Það var vart liðin mínúta þegar Andriy Voronin slapp í gegn en Craig Gordon varði vel frá honum og hélt Sunderland-liðinu á jöfnu. Hann átti eftir að reynast erfið lokahindrun fyrir okkar menn en hann var klárlega maður leiksins hjá báðum liðum og án hans hefði Torres sennilega skorað þrennu og Liverpool unnið svona 6-0. Það er þó ekkert nýtt að markverðir Sunderland eigi stórleiki gegn Liverpool. 🙂

    Það er einfaldlega langt síðan ég sá Liverpool spila jafn vel á útivelli í deildinni. Sérstaklega í fyrri hálfleik var pressan á vörn Sunderland algjör; um miðjan hálfleikinn sá maður tölfræði á skjánum sem sagði að Liverpool voru búnir að vera með boltann 79% leiksins, sem eru náttúrulega sláandi miklir yfirburðir, enda komust Sunderland-menn vart fram yfir miðju fyrir hálfleikshléið.

    Pressan var mikil; auk dauðafæris Voronin í byrjun voru hann, Torres og Alonso drjúgir upp við mark Sunderland en Gordon sá við öllu sem kom að marki. Á köntunum sýndu bæði Babel og Pennant góða takta – Pennant skilaði kannski meiru af sér inn í teig og sýndi manni enn og aftur að hann er orðinn með hættulegustu kantmönnum í deildinni í dag, en Babel var einnig stórgóður og fyrirgjafnirnar og framleiðnin hjá honum eiga bara eftir að batna. Framtíðin er björt með þessa ungu stráka á köntunum.

    Það var svo á 37. mínútu að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós, og það kom sko úr óvæntustu mögulegu átt. Liðið átti góða sókn upp hægri kantinn og boltinn barst inn á teiginn þar sem Torres lét hann fara og Voronin náði honum utarlega, renndi honum út úr teignum þar sem **MOMO SISSOKO** kom aðvífandi og negldi þrumufleyg niðri í hægra hornið, óverjandi fyrir Gordon og Liverpool komið í 1-0! Þetta var fyrsta mark Momo fyrir Liverpool og miðað við að það hefur verið hálfgerður brandari að horfa á skottilraunir hans fyrstu tvö árin hjá félaginu verður að segjast að það var heldur betur óvænt að sjá hann skora svona glæsimark. En hann er allavega kominn á blað, loksins, og nú er bara að vona að hann geti byggt á þessu og skorað nokkur í viðbót í vetur.

    Eftir hlé jafnaðist leikurinn aðeins; okkar menn höfðu áfram yfirburði á miðsvæðinu og stjórnuðu leiknum algjörlega í seinni hálfleik en sóttu ekki af jafn miklum þunga og Sunderland-menn fóru smám saman að koma framar á völlinn. Það verður að segjast þessu liði Roy Keane til hróss að þeir börðust frábærlega í dag og léku í raun alls ekki illa. Okkar menn voru ekki að vinna lélegt lið í dag, þetta Sunderland-lið sýndi það fyrir tveimur vikum að þeir geta velgt toppliðum eins og Tottenham undir uggum með baráttugleði sinni og ákveðni á heimavelli, en gæði Liverpool-liðsins í dag var einfaldlega of stór biti fyrir þá.

    Allavega, áfram héldu yfirburðir Liverpool og Torres var í tvígang óheppinn að skora ekki eftir að hafa sloppið í gegn. Eins og ég sagði áður hefði hann átt að skora allavega eitt í dag en klaufagangur hans og stórleikur Gordon í marki Sunderland kom í veg fyrir það.

    Á 89. mínútu innsigluðu okkar menn svo sigurinn. Þá áttu Babel og Sissoko góða sókn upp völlinn og Babel gaf svo boltann inná Torres við vítateiginn og hann renndi honum áfram á **ANDRIY VORONIN** úti við vinstri hlið vítateigsins. Hann lék að marki og sneri á varnarmanninn fyrir framan sig og sendi svo hnitmiðað skot í fjærhornið, óverjandi fyrir Gordon. Staðan orðin 2-0 fyrir Liverpool og þrjú stigin í höfn!

    **MAÐUR LEIKSINS:** Sko, það lék ekki einn maður illa í þessu liði í dag. Reina þurfti ekki að verja skot í allan dag en greip vel inní það litla sem þurfti, á meðan Agger og Carragher voru öryggið uppmálað í vörninni og Finnan og Arbeloa bæði vörðust og sóttu vel upp völlinn líka. Babel og Pennant voru sem fyrr segir hættulegir á köntunum og Alonso stjórnaði spilinu eins og hann gerir best. Frammi voru Torres og Voronin svo í fantagóðu formi; Torres er fyllilega að standa undir væntingum okkar og ef hann spilar í allan vetur eins og hann hefur gert í fyrstu þremur leikjum vetrarins á hann eftir að raða inn mörkum. Hann skoraði ekki í dag en það kemur, á betri degi hefði hann skorað þrennu með þessum færum sem hann fékk í dag. Þá er alveg ljóst að Voronin er kominn til að vera í þessu liði. Þvílíkur leikmaður, hann er þegar búinn að skora í báðum þeim leikjum sem hann hefur leikið frá byrjun og hann er einfaldlega að spila það vel að Dirk Kuyt getur ekki verið bjartsýnn á stöðu sína við hlið Torres í okkar sterkasta byrjunarliði.

    En maður leiksins var klárlega **MOMO SISSOKO**. Þessi ungi malíski miðjumaður lenti í mikilli leiklægð þegar hann kom inn úr meiðslum í vor og sumir héldu jafnvel að framtíð hans hjá Liverpool væri búin, en svo er nú aldeilis ekki. Eftir að hafa verið utan hóps í upphafi tímabils kom hann inn í byrjunarliðið í dag og minnti okkur algjörlega á það hvers vegna Rafa stal honum frá Everton fyrir tveimur árum. Hann gerði það sem hann gerir best; vann endalaust af boltum, var alls staðar út um allan völl að angra Sunderland-menn, setti gríðarlega pressu á þá ofarlega á vellinum sem var oftar en ekki ástæða þess að okkar menn náðu að halda sóknarpressu langtímum saman, og svo var hann duglegur að mata þá Pennant og Babel á köntunum á góðum boltum. Þar í ofanálag skoraði hann stórglæsilegt mark í dag sem setti liðið á leið að þremur stigum. Frábær dagur hjá þessum miðjumanni sem á fáa sína líka þegar hann spilar svona vel.

    Næst er leikur gegn Toulouse á Anfield á þriðjudag og svo heimaleikur gegn Derby County um næstu helgi. Gæti þetta tímabil byrjað betur? 🙂

  • Liðið á móti Sunderland

    Svona lítur þetta út:

    Reina

    Finnan – Carragher – Hyypiä – Arbeloa

    Pennant – Sissoko – Alonso – Babel

    Voronin – Torres

    Á bekknun: Itandje, Agger, Riise, Kuyt, Mascherano.

    Þetta er athyglisvert, sérstaklega það að Peter Crouch sé ekki einu sinni í hópnum. Momo og Xabi eru á miðjunni, sem kemur kannski ekki á óvart, en það verður gaman að sjá Babel og Voronin í fyrsta skiptið í byrjunarliðinu á ensku deildinni.

  • Sunderland á morgun

    Jæja, æsispennandi landsleikjahléi lokið og nú tekur alvaran við. Tveir afar jákvæðir punktar í þessum landsleikjum, Carra staðfesti það í verki að hann er hættur að láta velja sig í hópinn og Stevie hafði “göts” til að draga sig út úr honum. En nú er það Sunderland á morgun. Í mínum huga skera úrslitin í þeim leik úr um það hvort við getum sagt að við byrjum deildina virkilega vel. Annar útileikur okkar á tímabilinu og vinnum við hann þá tel ég liðið okkar vera búið að taka stórt skref í þá átt að teljast vera að bæta sig mikið milli ára. Á öllu síðasta tímabili sigruðum við 6 leiki á útivelli. Ef okkur tekst að vinna á morgun, þá erum við strax búnir með 1/3 af því og enn 17 slíkir eftir. Ég mun því hækka verulega í bjartsýnisstuðlinum fyrir þetta tímabil ef tekst að leggja Sunderland að velli.

    Sunderland eru sýnd veiði en ekki gefin. Spyrjið bara Tottenham menn að því. Þeir fóru þangað í fyrstu umferðinni og töpuðu með einu marki gegn engu. Heimamenn munu parkera fyrir framan mark sitt og beita skyndisóknum í hvert einasta skipti sem við gefum frá okkur boltann. Nú skiptir það fyrst og fremst máli að vera þolinmóðir og reyna að finna glufur á vörninni. Ég gleymi hreinlega aldrei leik sem við áttum einmitt gegn Sunderland fyrir ekki svo mörgum árum síðan. Þá vorum við einmitt í heimsókn á þessum velli og yfirburðir Liverpool FC voru HRIKALEGIR. Mig minnir að við höfum átt einhverjar 24 marktilraunir gegn ENGRI. Við tókum einhverjar 12 hornspyrnur og Sunderland fékk ENGA. Samt endaði leikurinn 0-0 og Jurgen Macho átti leik lífs síns í markinu. Maður gat varla verið pirraður eftir þann leik, maður bara klóraði sér í hausnum og átti varla orð yfir það sem maður var búinn að sjá. Við VERÐUM að finna leið framhjá svona varnarmúr og ég er sannfærður um að loksins séum við komnir með mennina til þess að brjóta svona upp. Við erum með menn núna eins og Torres og Babel sem geta komist langt á sínu moment of brilliance, sem getur bara ráðið úrslitum.

    En þá að liðunum. Það er alveg á tæru að Roy Keane, stjóri Sunderland, mun vita upp á hár hvernig eigi að trekkja sína menn upp fyrir leikinn og þeir munu koma grimmir til leiks. Þeir töpuðu um síðustu helgi illa fyrir Wigan og vilja eflaust hefna fyrir þær ófarir og sýna fram á að þeir eigi heima í þessari deild. Fyrirliði þeirra er víst meiddur (Dean Whitehouse) og einn af þeirra betri mönnum (Carlos Edwards) líka. En mér skilst að aðrir séu klárir í slaginn. Þrír leikmenn eru til reynslu hjá þeim núna, en ekki er búist við því að þeir verði komnir með leikheimild fyrir leikinn, en þetta eru gamlir og þekktir jaxlar úr boltanum: Andy Cole, Ian Harte og Samuel Kuffour. Sunderland eru þó með einna sterkasta liðið af nýliðunum, enda búnir að eyða hátt í 30 milljónum punda í leikmannakaup í sumar.

    Þá að okkar mönnum. Stevie G er meiddur og spilar líklega ekki með. Auðvitað er alltaf slæmt að missa þann kappa út, en miðjustaðan hjá okkur er að mínu mati sú best mannaða í boltanum í dag. Hann er frá og þá þarf að velja einn af þessum 5 á miðjuna í staðinn. Xabi Alonso, Javier Maschareno, Momo Sissoko, Lucas Leiva eða Yossi Benayoun. Geri aðrir betur. Vandamálið er bara hvern á að setja inn. Aurelio er enn meiddur og ég hef ekkert heyrt af Kewell, þ.e. hvort hann sé ennþá fjarverandi eða hvort hann sé klár í slaginn á ný. Ég reikna nú ekki með því að hann geri mikið tilkall í liðið allavega þar sem hann þarf eflaust að jafna sig vel á þessu, vitandi hversu brothættur kall greyið er.

    Ég reikna með að Benítez stilli upp sókndjörfu liði á morgun. Sunderland liggja væntanlega í vörn og því þarf sköpunargáfu fram á við til þess að brjóta það á bak aftur. Ég á alveg eins von á að Xabi Alonso muni ekki byrja inná og Javier komi inn í hans stað. Ég á síðan afar erfitt með að átta mig á hvernig hann ætlar að stilla upp fremri miðjumanninum og köntunum. Persónulega vil ég sjá Pennant áfram á þeim hægri, því mér fannst hann frábær gegn Chelsea. Vinstra megin er öllu erfiðara um að spá. Mun Rafa halda þeim Arbeloa og Riise þar, eða mun hann setja Riise niður í bakvörð og þá Babel eða Benayoun á kantinn? Mun Sissoko koma inn á miðjuna, eða tekur kallinn smá séns og setur Benayoun þar? Svo gæti hann reyndar komið öllum á óvart með því að setja Lucas beint inn í liðið ásamt Leto. En mér finnst það afar ólíklegt þar sem hann hefur sagt frá því að hann vilji leyfa þeim að aðlagast vel áður en þeim er hent út í djúpu laugina. Ég ætla því að stilla upp tveimur liðum hér að neðan. Það fyrra er það lið sem ég vil helst sjá hefja leikinn, og það seinna er svo það sem ég tel líklegast að Rafa geri:

    Reina

    Finnan – Carragher – Agger – Riise

    Pennant – Benayoun – Mascherano – Babel

    Kuyt – Torres

    Og þá það sem ég held að verði (þó það sé auðvitað lífsins ómögulegt að spá fyrir um:

    Reina

    Finnan – Carragher – Agger – Arbeloa

    Pennant – Sissoko – Mascherano – Riise

    Kuyt – Torres

    Ég ætla mér að vera bara bjartsýnn á leikinn og tippa á að við skorum snemma. Gerum við það, þá getur þetta vel orðið markaleikur, því þá þarf Sunderland að sækja. Ég ætla að spá okkur 0-3 sigri þar sem Torres heldur áfram sinni iðju og skorar tvö mörk og Dirk félagi okkar Kuyt setji eitt.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close