Okkar menn komu sterkir undan landsleikjahléinu og unnu í dag sinn annan útileik í röð, **0-2 gegn Sunderland** í miklum baráttuleik. Fyrir vikið eru okkar menn komnir með 7 stig eftir þrjá leiki og aðeins dómaraskandall síðustu helgar kemur í veg fyrir að liðið sé með fullt hús stiga. Þetta er einfaldlega byrjunin sem við vorum að vonast eftir, frábær byrjun í deildinni sem gefur tóninn fyrir titilbaráttu á komandi vetri. Þar að auki var einfaldlega hrein unun að horfa á liðið í dag; menn voru flest allir að leika fantagóða knattspyrnu, nær allt sem Rafa lagði upp með gekk upp og þetta var svona klassískur útisigur sem við höfum síðustu tímabil horft öfundaraugum á Chelsea og Man Utd innbyrða. Ekki lengur, í dag voru það okkar menn sem létu ljós sitt skína.
Rafa Benítez stillti liðinu upp svona í dag:
Reina
Finnan – Carragher – Hyypiä – Arbeloa
Pennant – Alonso – Sissoko – Babel
Torres – Voronin
**BEKKUR:** Itandje, Agger, Riise, Mascherano, Kuyt.
Liverpool varð fyrir blóðtöku í þessum leik en liðið missti báða miðherja sína útaf meidda; Hyypiä fékk olnbogaskot í upphafi leiks og fór útaf eftir 15 mínútna leik með það sem virtist vera brotið nef og kom Daniel Agger inná í hans stað. Eftir rúmlega 60 mínútna leik fékk Carragher svo slysaspark í rifbeinin frá Pepe Reina í úthlaupi og þurfti að fara útaf. Það verður að koma í ljós hversu alvarleg meiðsli þeirra eru, en við vonum það besta. Undir lokin tók Rafa svo Babel útaf fyrir Dirk Kuyt.
Leikurinn:
Fyrri hálfleikurinn var einfaldlega stórkostlegur hjá okkar mönnum. Það var vart liðin mínúta þegar Andriy Voronin slapp í gegn en Craig Gordon varði vel frá honum og hélt Sunderland-liðinu á jöfnu. Hann átti eftir að reynast erfið lokahindrun fyrir okkar menn en hann var klárlega maður leiksins hjá báðum liðum og án hans hefði Torres sennilega skorað þrennu og Liverpool unnið svona 6-0. Það er þó ekkert nýtt að markverðir Sunderland eigi stórleiki gegn Liverpool. 🙂
Það er einfaldlega langt síðan ég sá Liverpool spila jafn vel á útivelli í deildinni. Sérstaklega í fyrri hálfleik var pressan á vörn Sunderland algjör; um miðjan hálfleikinn sá maður tölfræði á skjánum sem sagði að Liverpool voru búnir að vera með boltann 79% leiksins, sem eru náttúrulega sláandi miklir yfirburðir, enda komust Sunderland-menn vart fram yfir miðju fyrir hálfleikshléið.
Pressan var mikil; auk dauðafæris Voronin í byrjun voru hann, Torres og Alonso drjúgir upp við mark Sunderland en Gordon sá við öllu sem kom að marki. Á köntunum sýndu bæði Babel og Pennant góða takta – Pennant skilaði kannski meiru af sér inn í teig og sýndi manni enn og aftur að hann er orðinn með hættulegustu kantmönnum í deildinni í dag, en Babel var einnig stórgóður og fyrirgjafnirnar og framleiðnin hjá honum eiga bara eftir að batna. Framtíðin er björt með þessa ungu stráka á köntunum.
Það var svo á 37. mínútu að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós, og það kom sko úr óvæntustu mögulegu átt. Liðið átti góða sókn upp hægri kantinn og boltinn barst inn á teiginn þar sem Torres lét hann fara og Voronin náði honum utarlega, renndi honum út úr teignum þar sem **MOMO SISSOKO** kom aðvífandi og negldi þrumufleyg niðri í hægra hornið, óverjandi fyrir Gordon og Liverpool komið í 1-0! Þetta var fyrsta mark Momo fyrir Liverpool og miðað við að það hefur verið hálfgerður brandari að horfa á skottilraunir hans fyrstu tvö árin hjá félaginu verður að segjast að það var heldur betur óvænt að sjá hann skora svona glæsimark. En hann er allavega kominn á blað, loksins, og nú er bara að vona að hann geti byggt á þessu og skorað nokkur í viðbót í vetur.
Eftir hlé jafnaðist leikurinn aðeins; okkar menn höfðu áfram yfirburði á miðsvæðinu og stjórnuðu leiknum algjörlega í seinni hálfleik en sóttu ekki af jafn miklum þunga og Sunderland-menn fóru smám saman að koma framar á völlinn. Það verður að segjast þessu liði Roy Keane til hróss að þeir börðust frábærlega í dag og léku í raun alls ekki illa. Okkar menn voru ekki að vinna lélegt lið í dag, þetta Sunderland-lið sýndi það fyrir tveimur vikum að þeir geta velgt toppliðum eins og Tottenham undir uggum með baráttugleði sinni og ákveðni á heimavelli, en gæði Liverpool-liðsins í dag var einfaldlega of stór biti fyrir þá.
Allavega, áfram héldu yfirburðir Liverpool og Torres var í tvígang óheppinn að skora ekki eftir að hafa sloppið í gegn. Eins og ég sagði áður hefði hann átt að skora allavega eitt í dag en klaufagangur hans og stórleikur Gordon í marki Sunderland kom í veg fyrir það.
Á 89. mínútu innsigluðu okkar menn svo sigurinn. Þá áttu Babel og Sissoko góða sókn upp völlinn og Babel gaf svo boltann inná Torres við vítateiginn og hann renndi honum áfram á **ANDRIY VORONIN** úti við vinstri hlið vítateigsins. Hann lék að marki og sneri á varnarmanninn fyrir framan sig og sendi svo hnitmiðað skot í fjærhornið, óverjandi fyrir Gordon. Staðan orðin 2-0 fyrir Liverpool og þrjú stigin í höfn!
**MAÐUR LEIKSINS:** Sko, það lék ekki einn maður illa í þessu liði í dag. Reina þurfti ekki að verja skot í allan dag en greip vel inní það litla sem þurfti, á meðan Agger og Carragher voru öryggið uppmálað í vörninni og Finnan og Arbeloa bæði vörðust og sóttu vel upp völlinn líka. Babel og Pennant voru sem fyrr segir hættulegir á köntunum og Alonso stjórnaði spilinu eins og hann gerir best. Frammi voru Torres og Voronin svo í fantagóðu formi; Torres er fyllilega að standa undir væntingum okkar og ef hann spilar í allan vetur eins og hann hefur gert í fyrstu þremur leikjum vetrarins á hann eftir að raða inn mörkum. Hann skoraði ekki í dag en það kemur, á betri degi hefði hann skorað þrennu með þessum færum sem hann fékk í dag. Þá er alveg ljóst að Voronin er kominn til að vera í þessu liði. Þvílíkur leikmaður, hann er þegar búinn að skora í báðum þeim leikjum sem hann hefur leikið frá byrjun og hann er einfaldlega að spila það vel að Dirk Kuyt getur ekki verið bjartsýnn á stöðu sína við hlið Torres í okkar sterkasta byrjunarliði.
En maður leiksins var klárlega **MOMO SISSOKO**. Þessi ungi malíski miðjumaður lenti í mikilli leiklægð þegar hann kom inn úr meiðslum í vor og sumir héldu jafnvel að framtíð hans hjá Liverpool væri búin, en svo er nú aldeilis ekki. Eftir að hafa verið utan hóps í upphafi tímabils kom hann inn í byrjunarliðið í dag og minnti okkur algjörlega á það hvers vegna Rafa stal honum frá Everton fyrir tveimur árum. Hann gerði það sem hann gerir best; vann endalaust af boltum, var alls staðar út um allan völl að angra Sunderland-menn, setti gríðarlega pressu á þá ofarlega á vellinum sem var oftar en ekki ástæða þess að okkar menn náðu að halda sóknarpressu langtímum saman, og svo var hann duglegur að mata þá Pennant og Babel á köntunum á góðum boltum. Þar í ofanálag skoraði hann stórglæsilegt mark í dag sem setti liðið á leið að þremur stigum. Frábær dagur hjá þessum miðjumanni sem á fáa sína líka þegar hann spilar svona vel.
Næst er leikur gegn Toulouse á Anfield á þriðjudag og svo heimaleikur gegn Derby County um næstu helgi. Gæti þetta tímabil byrjað betur? 🙂