Latest stories

  • United 1 – 2 Liverpool

    Við hendum nú í leikskýrslu þegar stelpurnar okkar vinna United, reyndar fyrsti sigurinn á þeim í Úrvalsdeildinni. 1-2 og þessi úrslit voru bara fullkomlega sanngjörn þrátt fyrir að liðið hafi ekki byrjað vel. En síðasti klukkutíminn var í eigu liðsins. Það var Taylor Hinds sem skoraði sigurmarkið eftir horn þegar rúmlega 20 mínútur voru til leiksloka.

    Gemma Bonner þurfti að fara af velli þegar um 10 mínútur voru til leiksloka, hún lenti í samstuði í vörninni og fór alblóðug af velli, sjálfsagt með heilahristing, en hún stóð upp og gat gengið með aðstoð af velli.

    Stelpurnar okkar eru því jafnar United í 5. sæti, bæði lið með 18 stig. Tökum eftir að á síðasta tímabili náðu stelpurnar í 23 stig í heildina, en tímabilið er ekki hálfnað í þetta sinn. Það er því ljóst að þær eru að bæta sig talsvert.

    Nú pöntum við annan sigur gegn United frá strákunum okkar!

  • Liðið gegn United (part 1)

    Eins og kom fram í vikunni þá verður þetta tvöfaldur slagur við rauðu djöflana í dag. Stelpurnar okkar ætla að mæta þeim í fjólubláu búningunum okkar á heimavelli United núna kl. 12:30, og strákarnir okkar fá heimsókn á Anfield kl. 16:30. Svo ætlar U23 liðið meira að segja að spila við Chelsea kl. 13, svo það verður nóg að gera á öllum vígstöðvum.

    Stelpurnar fara inn í þennan leik í 5. sæti deildarinnar, með United í sætinu fyrir ofan, þrem stigum á undan. Það er því tilvalið tækifæri til að hirða þessi 3 stig sem eru í boði og jafna þær í deildinni. Annars er staðan á toppnum sú að Arsenal og Chelsea eru jöfn í efsta sæti með 22 stig, en Arsenal eru reyndar búnar með sinn leik í þessari umferð og töpuðu þar fyrir Vicky Jepson og félögum hjá Spurs, svo Niamh Charles og félagar geta komist á toppinn með sigri á Amy Rodgers og félögum í Bristol City núna á eftir. Laura Coombs og félagar í City lúra svo í 3ja sætinu með 19 stig.

    En nóg um það. Það er óljóst hvort Matt Beard verður á hliðarlínunni í dag, hann var eitthvað lumpinn á miðvikudaginn svo Amber Whiteley stýrði liðinu í góðum 2-1 sigri á Everton, kannski tekur hún stýrið aftur í dag. Liðið sem byrjar lítur svona út:

    Micah

    Clark – Bonner – Fisk

    Koivisto – Nagano – Hinds

    Kearns – Holland

    Lawley – Roman Haug

    Bekkur: Spencer, Parry, Daniels, Lundgaard, Höbinger, van de Sanden, Enderby, Flint, Kiernan

    Það virðist vera eitthvað bras á Rachael Laws, svo hún er ekki á bekk, og Spencer er aftur sótt úr unglingaliðinu til að vera á bekk ef eitthvað skyldi nú koma fyrir Teagan Micah í markinu. Auk hennar eru þær Lucy Parry og Sofie Lundgaard á bekk en þær sýndu báðar virkilega góðan leik í miðri viku, og eru klárar í slaginn ef kallið kemur. Marie Höbinger sest á bekkinn fyrir scouserinn Missy Bo Kearns, sem byrjar sinn fyrsta deildarleik í einhvern tíma. Mia Enderby er búin að jafna sig af heilahristingnum og er líka á bekk, sömuleiðis Natasha “Tash” Flint sem var í einhverju brasi með kálfa en er orðin leikfær. Yana Daniels gerði vel í vinstri bakverði á miðvikudaginn og skoraði mark, væri nú tilvalið að endurtaka leikinn í dag ef hún verður sett inná. Nú svo var gaman að sjá Leanne Kiernan ná 90 mínútum á miðvikudaginn, kannski ekki skrýtið að hún sé ekki tilbúin í að byrja í dag, en ef það er einhver leikur tilvalinn fyrir hana til að koma inná og setja sitt fyrsta mark eftir meiðslin þá er það þessi.

    Leikurinn verður sýndur á BBC2 ásamt því að vera á The FA Player.

    KOMA SVO!!!

  • Upphitun: Manchester United á Anfield

    Það verður endurbættur Anfield sem við sjáum á morgun þegar erkifjendurnir í Manchester United mæta í heimsókn þar sem loksins verður opnað í sætin í viðbótinni sem átti að vera klár í upphafi móts og verða því um 57.000 manns á vellinum á morgun, en það er mesti fjöldi sem hefur mætt á Anfield síðan 1977.

    Liðin koma inn í þennan leik á mjög misjöfnum stað. Okkar menn hafa verið á góðu flugi, þó síðustu sigrar hafa ekki verið sannfærandi, og eru á toppi töflunar fyrir umferðina. United eru hinsvegar í miklu brasi féllu úr leik í Meistaradeildinni í vikunni og talið að staða Erik Ten Haager mjög völt og það er að verða hefð hjá þeim að reka stjóra sína stuttu eftir tap gegn Liverpool.

    Leikur liðanna á þessum velli í fyrra mun aldrei gleymast en leikar enduðu 7-0 okkar mönnum í hag og í kjölfarið voru einhverjir skemmtilegustu dagar sögunar til að vafra internetið. Gengi United gegn toppliðunum hefur ekkert skánað síðan en í síðustu þrettán leikjum sem þeir hafa spilað gegn liðum í efstu átta sætunum á útivelli eru þeir með þrjú jafntefli og tíu töp.

    Það hjálpar svo ekki United mönnum að stór skörð eru hoggin í þeirra lið en fyrirliði liðsins Bruno Fernandes nældi sér í fimmta gula spjaldið sitt um síðustu helgi og verður í leikbanni og eru Harry Maguire, Tyrell Malacia, Casemiro, Lisandro Martinez, Mason Mount, Christian Eriksen og Amad Diallo allir frá vegna meiðsla auk þess er óvissa með Luke Shaw sem fór meiddur af velli gegn Bayern og Martial sem hefur verið í veikindum.

    Okkar menn

    Okkar menn töpuðu gjörsamlega þýðingalausum leik gegn Union St. Gilloise í vikunni en les lítið í frammistöður í þeim leik. Mikið af ungum strákum og þeir sem reynslumeiri voru spiluðu á hálfum hraða til að forðast meiðsli. Eina jákvæða sem hægt er að draga úr þeim leik var geggjuð afgreiðsla Quansah sem er að verða betri með hverjum leiknum.

    Liverpool eru ekki lausir við meiðsli þó staðan sé kannski ekki jafn slæm og hjá United en það er búið að staðfesta að Matip er frá út tímabilið og meiðsli Mac Allister ekki jafn lítil og í fyrstu var búist við og hann nær ekki leiknum á morgun. Auk þeirra eru Bajcetic, Jota, Thiago og Robertson á meiðslalistanum.

    Án Robertson og Matip er varnarlínan ansi sjálfgefin, nema að Klopp komi öllum á óvart og spili Gomez í hægri bakverði og setji Trent upp á miðju í fjarveru Mac Allister en ég geri ekki ráð fyrir því að hann vilji draga úr sóknarþunganum gegn United liði sem mun að öllum líkindum reyna að sitja djúpt.

    Finnst líklegt að sóknin verði á þennan hátt einnig þar sem Gakpo byrjaði í vikunni og Jota er frá og þá eru þessir þrír eftir og vonandi fáum við þann Salah sem elskar að spila gegn United en hann er með 12 mörk í 12 leikjum í öllum keppnum gegn United.

    Miðjan er hinsvegar spurningamerkið. Miðað við leikinn í vikunni eru allar líkur á að Gravenberch byrji þennan leik en finnst hann hafa virkað best þegar hann hefur svæði til að hlaupa í og held að það verði ekki veruleikinn á morgun og þó Jones virki enn frekar ryðgaður þá hefur mér þótt meira koma út úr Diaz þegar hann var að spila þá stöðu og myndi vilja sjá hann á morgun þó Gravenberch sé líklegri.

    Hinn valkosturinn sem við höfum meira séð í miðjum leik frekar en frá upphafi væri að fara í nokkurkonar 4-4-2 með Darwin og Salah fremsta og Diaz úti vinstra meginn og þá Elliott eða Szobozslai hægra meginn og tveggja manna miðju.

    Spá

    United liðið er að mæta brotið en eins og áður sagði gæti það orðið til þess að við sjáum þá sitja dýpra en venjulega gegn okkur en ég á erfitt með að sjá annað en Liverpool sigur á morgun og spái 3-0 sigri þar sem Salah setur tvö og Darwin setur sitt fyrsta deildarmark síðan gegn Forest í tíundu umferð.

  • Union St. Gilloise 2 – 1 Liverpool

    Mörkin

    1-0 Einhver Belgadjöfull (32. mín)
    1-1 King Quansah (40. mín)
    2-1 Annar Belgadjöfull eða kannski sá sami mér er drull (43. mín)

    Hvað þýða úrslit leiksins?

    Nákvæmlega ekki neitt.

    Hverjir stóðu sig vel?

    Jarell Quansah sýndi enn eina frammistöðuna þar sem yfirvegun einkenndi leik hans. Persónulega er ég mjög spenntur fyrir þessum leikmanni, og fyrst Matip er úr leik (og væntanlega búinn hjá Liverpool, því er nú fjandans ver og miður), og Joemez er farinn að daðra meira við að vera cover fyrir báðar bakvarðastöðurnar, þá má alveg færa rök fyrir því að Quansah sé orðinn þriðji á eftir Virgil og Konate. Breytir í sjálfu sér engu með að það má alveg kaupa miðvörð í janúar, meiðslin hjá Matip gulltryggðu þá þörf, en þetta er kannski ekki alveg jafn gargandi nauðsynlegt með hann í hópnum.

    Aðrir leikmenn komust misvel frá þessu tækifæri, Conor Bradley var sprækur, Luke Chambers í aðeins meira brasi. Kaide Gordon leit út eins og leikmaður sem var að koma til baka eftir 20 mánuði á hliðarlínunni vegna meiðsla, Ben Doak leit út eins og leikmaður sem þarf að komast á lán og fá spilatíma. Enginn þeirra var að standa sig eitthvað illa, það er bara mjög eðlilegt að B og jafnvel semí-C lið Liverpool sé ekki að spila sama þungarokkið og Alisson, Virgil, Trent, Salah et al. Þeir höfðu örugglega allir gott af þessum leik, og mega endilega fá fleiri tækifæri sé þess nokkur kostur.

    Hvað hefði mátt betur fara?

    Leikmenn eins og Jones og Gakpo hefðu alveg mátt grípa tækifærið fastari tökum. Gleymum því nú samt ekki að báðir hafa sýnt góða spretti þegar á þá hefur reynt í vetur. Þessi leikur dæmir þá ekki einn og sér.

    Hvað er framundan?

    Nú fer þessi keppni í “smá” pásu fram í mars, en þá taka við 16 liða úrslitin. Sem betur fer sleppa okkar menn við umspilið sem 3ju sætis liðin úr Meistaradeildinni spila gegn liðunum sem urðu í 2. sæti í Evrópudeildarriðlunum.

    En alvaran tekur við á sunnudaginn, þegar United mæta á Anfield. Leikurinn síðan í fyrra (þið munið, þessi sem fór 7-0) setur að vissu leyti tóninn fyrir þennan leik. Sérstaklega þar sem að liðin komu inn í þann leik þannig að Liverpool var á hælunum eftir lélegt gengi í deildinni en United voru í raun fullir sjálfstrausts, en nú er því öfugt farið. Bæði lið eru að glíma við meiðsli, United mögulega í verri stöðu hvað það varðar, en svo er það kannski bara betra fyrir þá að lötu prímadonnurnar skuli ekki vera leikfærar og ungu pjakkarnir fái þar með tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Þannig að förum varlega í að dæma þennan leik unnin fyrirfram. Það bara á alltaf við um viðureignir þessara liða, að það skiptir í raun ekki nokkru einasta máli í hvernig formi liðin eru, alltaf skal maður vera drullunervus fyrir þessa leiki.

    En nú fær Klopp föstudag og laugardag til að rífa menn í gang, því það er ekkert annað í boði en 3 stig á sunnudaginn. Öðruvísi halda menn ekki toppsætinu.

  • Liðið gegn USG

    Nokkurnveginn eins og spáð hafði verið, en þó er Konate að byrja sem er algjör óþarfi:

    Kelleher

    Bradley – Konate – Quansah – Chambers

    Elliott – Endo – Jones

    Doak – Gakpo – Gordon

    Bekkur: Pitaluga, Mrozek, Gomez, Diaz, Szoboszlai, Nunez, Tsimikas, Gravenberch, Scanlon, McConnell, Koumas, Hill

    Kannski ekki margir möguleikar í stöðunni varðandi Konate, jú það hefði mátt setja Endo í miðvörðinn og spila McConnell. Vonum bara að menn komi heilir úr þessum leik. Biðjum eiginlega ekki um meira.

    KOMA SVO!!!!!1!!!

  • Stelpurnar heimsækja Everton í Continental bikarnum

    Á meðan strákarnir okkar eru nýlentir í Belgíu (og það er blaðamannafundur í gangi í þessum skrifuðu orðum), þá eru stelpurnar okkar að fara að spila sinn næsta leik í Continental Cup bikarnum núna kl. 19:00, en svo ætla þær að fylgja fordæmi strákanna og spila við United á sunnudaginn í deild.

    Þessi leikur mun litlu máli skipta, liðið er búið að tapa tveim fyrstu leikjunum í þessum riðli og er því ekki á leið upp, en hei þetta er Liverpool vs. Everton og það er alltaf heiðurinn að veði.

    Svona ætlar Matt Beard að stilla upp:

    Laws

    Parry – Fisk – Clark – Daniels

    Missy Bo – Holland – Lundgaard

    Kiernan – Roman Haug – Lawley

    Bekkur: Micah, Koivisto, Bonner, Hinds, Nagano, Höbinger, van de Sanden

    Það vantar enn þær Enderby og Flint sem voru báðar frá um helgina vegna meiðsla, en annars er svolítið verið að rótera enda 3 leikir á 8 dögum.

    Það virðist eiga að sýna leikinn á Youtube rás Liverpool, sem kemur kannski pínku á óvart í ljósi þess að þetta er útileikur, en við tökum því að sjálfsögðu fagnandi.

    Fögnum því að geta horft á alvöru fótbolta svona á miðvikudagskvöldi.

    KOMA SVO!!!

  • Royale Union Saint Gilloise – lokaleikurinn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar

    Þá er komið að lokaleiknum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Mótherjinn er sá sami og í fyrsta leik, Union Saint Gilloise, sem koma úr úthverfi Brussel, höfuðborgar Belgíu. Belgískt Breiðholtsbúgí af bestu gerð. Leikurinn verður spilaður kl. 17:45, fimmtudaginn 14.desember. Það er ágætt að nefna að félagið leikur heimaleiki sína á heimavelli erkifjendanna og nágrannanna í Anderlecht, Lotto Park, þar sem heimavöllurinn þeirra, með fullri virðingu við Keflvíkinga, er meira í ætt við Keflavíkurvöll heldur en völl sem ætlaður er til að taka á móti stórliðum Evrópu.

     

    Þar sem ekki hefur verið fjallað um andstæðingana áður hér á síðunni er gott að fara aðeins yfir sögu félagsins, sem trónir nú á toppi belgísku deildarinnar.

    Eins og mörg af félögum álfunnar var USG stofnað rétt fyrir síðustu aldamót, eða árið 1897. Félagið ber nafn hverfisins sem það var stofnað í en síðan flutti félagið yfir í næsta hverfi sem nefnist Vorst, enn utar í Brussel en bæði þessi hverfi eru nágrannar Anderlecht hverfisins þaðan sem samnefnt félag kemur.

    Félagið átti gullöld sína á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þeir unnu flesta sína titla þá, alls 11 talsins. Á þeim tíma var félagið það stærsta í Belgíu. Hins vegar hrundi félagið á sjöunda áratug aldarinnar og skemmst er frá því að segja að í tæp 50 ár voru þeir að svamla í neðri deildum belgíska boltans. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að félagið ákvað að gerast ekki atvinnumannafélag þegar slíkar reglur voru teknar upp. Deildarskiptingin og keppnisfyrirkomulagið í Belgíu er síðan kapítuli og flækjustig út af fyrir sig sem ekki borgar sig að flækjast í.

    Eins og víðast hvar annars staðar í nútímafótbolta þá er uppgangur félagsins ekki tilkominn af frábæru unglingastarfi eða stórkostlegri stjórnun heldur kaupum fjársterkra aðila á félaginu. Sá aðili heitir Tony Bloom og er enskur auðjöfur sem auðgaðist að mestu á veðmálum og póker. Hann keypti hlut í félaginu árið 2018 og er minnihlutaeigandi en hann á einnig meirihluta í Brighton. Þar hafa auðvitað gerst ansi eftirtektarverðir hlutir á síðustu árum og líklega verður þetta verkefni hans í Belgíu leyst á svipaðan máta.

    Tony Bloom keypti sinn hlut í félaginu árið 2018 og árið 2021 komst það loks í efstu deild, eftir þetta 50 ára bras. Árangurinn síðan þá hefur verið virkilega góður. Á fyrsta tímabilinu sínu í efstu deild urðu þeir í öðru sæti, á eftir Club Brugge, á því næsta urðu þeir í þriðja sæti eftir mikla dramatík í úrslitakeppninni þar sem Antwerpen urðu meistarar. Þetta tímabilið komust þeir líka í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar. Þeir hófu leik í Meistaradeildinni en duttu út úr henni í play-off leik við Rangers þar sem þeir unnu 2-0 á heimavelli en töpuðu 3-0 í Glasgow. Þeir lentu í riðli með SC Braga, Union Berlin og Malmö og unnu riðilinn nokkuð sannfærandi. Samkvæmt wikipedia drógust þeir síðan aftur gegn Union Berlin, fóru í gegnum þá en luku keppni með tapi gegn Bayer Leverkusen liði Xabi Alonso.

    Eins og staðan er núna á liðinu þá er liðið efst í belgísku deildinni með 6 stiga forystu á nágranna sína og erkifjendur í Anderlecht. Þeir hafa fengið 41 stig í 17 leikjum, búnir að vinna fjóra af síðustu fimm og virðast vera nokkurn veginn óstöðvandi þetta tímabilið.

    Helstu leikmenn liðsins eru alsírski markaskorarinn Mohamed Amoura, sem er sennilega Mo Salah Belganna, spilar á kantinum og hefur skorað 11 mörk í deildinni. Cameron Puertas er stoðsendingakóngurinn og á 10 stoðsendingar. Christian Burgess er síðan 32 ára gamall Englendingur sem er spjaldakóngurinn þeirra, hávaxinn varnarmaður sem er harður í horn að taka, enda hefur hann spilað megnið af sínum ferli í neðri deildum enska boltans. Svo má auðvitað ekki gleyma litla bróður okkar eigin Alexis, Argentínumanninum Kevin MacAllister.

    En nóg um Union Saint Galloise og að okkar mönnum.

    Það er virkilega ótrúlegt að hugsa til þess að okkar menn hafi náð toppsæti ensku deildarinnar á laugardaginn. Eftir 76 arfaslakar mínútur gegn Crystal Palace, þar sem hvorki gekk né rak, náðum við að merja sigur og koma okkur á toppinn. Arsenal tapaði síðan fyrir Aston Villa þannig að eftir 16 leiki í deildinni erum við með 37 stig. Síðustu leikir hafa ekki verið neitt sérstakir en stigin hafa mallað inn og það skilar okkur þangað sem við erum núna.

    Í Evrópudeildinni er Liverpool líka komið áfram, þannig að – hvað er hægt að biðja um meira? Jú, kannski aðeins minna stress og meira öryggi í leikjum, kannski að sleppa því að vera að vinna leikina alltaf á 90+ mínútu? Eða er það kannski það sem við elskum mest? Svari hver fyrir sig.

    Þetta þýðir einfaldlega það að síðasti leikurinn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þetta árið skiptir einfaldlega engu máli. Hann kemur á frábærum tíma, inni í miðju leikjaálagi sem Andskotinn sjálfur hannaði þannig að allir sem eru nálægt byrjunarliðinu ættu að fá frí í þessum leik, jafnvel fá frí frá því að vera á bekknum. Meiðslalistinn er nú þegar orðinn nokkuð langur og á eflaust eftir að lengjast enn meira eftir því sem líður að lokum ársins. Að því sögðu þá eru nokkrir leikmenn sem þurfa á spilatíma að halda. Darwin Nunez hefur svo sannarlega ekki verið á skotskónum undanfarið og þarf að fá slatta af færum og helst að skora 2-3 mörk. Cody Gakpo hefur ekki spilað mikið undanfarið, aðallega komið inn á sem varamaður og mögulega fær hann alveg frí ef hann er hugsaður í byrjunarliðið gegn Man Utd í stað Darwin Nunez. Eins með líklega Elliot, því við vitum ekki hversu lengi MacAllister verður frá, hvort hann verði tilbúinn gegn Man Utd og hvort Harvey Elliot fái þá hvíld í þessum leik og byrji þá á sunnudaginn.

    Mín ágiskun er því þessi:

    Kelleher

    Bradley – Quansah – Gomez – Chambers

    Endo

    Elliot – Jones

    Doak – Gakpo – Nunez

    Ég ætla svo sem ekki að spá neitt í bekkinn, þar verða vonandi McConnell, Scanlon, Gordon, Pitaluga og önnur frekar ókunnug nöfn, ég kann svo sem ekki deili á mörgum öðrum.

    Ég vil ekki sjá neinn af burðarásum liðsins neins staðar í kringum þennan leik. Þeir eiga bara að fá sér kampavín í heita pottinum á meðan á leik stendur, vera í nuddi og bómull. Að því sögðu þá er alveg jafn líklegt að einhverjir (lesist Salah) spili þennan leik.

    Spáin er öruggur 3-0 sigur, þetta á ekki að verða neitt vesen.

  • Gullkastið – Libpool, Libpool top of the league

    Tilvitnun Bill Shankly á ansi vel við eftir þessa viku “Ay, here we are with problems at the top of the league” Tveir frekar ósannfærandi útisigrar, sex stig og einhvernvegin er Liverpool komið á toppinn í deildinni. Tökum því heldur betur fagnandi.

    Tvær umferðir og mikið leikjaálag hjá toppliðunum á Englandi og áhugaverð úrslit, deildin er töluvert jafnari á þessu tímabili.

    Bættum svo miðjumanni við í Ögurverk Lið aldarinnar og drógum út sigurvegara í Facebook leik Kop.is og Jóa Útherja.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.
    Egils GullHúsasmiðjan / Verdi Travel Jói ÚtherjiÖgurverk ehf / Done

    MP3: Þáttur 451

  • Stelpurnar fá Bristol í heimsókn

    Nú fer jóla”törnin” að byrja hjá kvennaliðinu, en þær spila 3 leiki á næstu 8 dögum. Og fara svo í mánaðar pásu. Nei í alvöru, hver setur upp þetta prógram?

    Það er sumsé síðasti heimaleikurinn á árinu núna kl. 14, Bristol City mæta í heimsókn, og þar koma nokkrir góðir gestir. Þ.e. meðal leikmanna Bristol eru þær Amy Rodgers, Amalie Thestrup og Grindvíkingurinn Rachel Furness. Allt fyrrum leikmenn Liverpool. Bristol hafa annars unnið einn leik á árinu, gert eitt jafntefli, en tapað svo rest. Sigurleikurinn kom gegn West Ham, og jafnteflið gegn Everton.

    Okkar konur eru hins vegar í 5. sæti á eftir þessum fjórum sem hafa verið efst síðustu ár, að sjálfsögðu er markmiðið að blanda sér í þann hóp og það virðist nú bara vera á góðri leið. Sigur í dag og liðið fer a.m.k. tímabundið upp fyrir United og í fjórða sætið, gæti semsagt komist í 17 stig.

    Liðið sem byrjar lítur svona út:

    Micah

    Clark – Bonner – Fisk

    Koivisto – Nagano – Hinds

    Holland – Höbinger

    van de Sanden – Roman Haug

    Bekkur: Laws, Fahey, Parry, Taylor, Lundgaard, Missy Bo, Daniels, Lawley, Kiernan

    Semsagt, sama lið og valtaði yfir Brighton í síðasta leik, kemur þannig séð ekkert á óvart. Bekkurinn jafnframt svipaður, fyrir utan að Yana Daniels kemur aftur í hóp en þær Mia Enderby og Natasha Flint bíða utan hans. Jasmine Matthews er ennþá meidd.

    Það ætti að vera hægt að sjá leikinn á The FA Player, en ef fleiri streymi finnast þá verður þeim bætt við í athugasemdum.

    KOMA SVO!!!

  • Crystal Palace 1-2 Liverpool

    Mörkin
    1-0 Mateta (víti) 57.mín
    1-1 Salah 76. mín
    1-2 Elliott 91. mín

    Hvað réði úrslitum?
    Sigurinn var svo sem alveg verðskuldaður þar sem Liverpool skoraði mörkin sem þurfti til að gera það en frammistaðan var heilt yfir ekki merkileg. Alisson var aftur í markinu og hafði það klárlega áhrif á leikinn enda átti hann tvær frábærar vörslur en það sem réði úrslitum var líklega það að Liverpool gerði breytingar á liðinu og Crystal Palace missa mann af velli seint í leiknum, þá girti Liverpool loksins upp um sig buxurnar og fóru að gera það sem þeir þurftu að gera til að vinna leikinn.

    Alisson var frábær og átti tvær mjög góðar vörslur, eina snemma í leiknum og eina í blálokin sem voru svokallaðar þriggja stiga vörslur. Jones átti mjög góða innkomu í liðið þegar hann kom inn á og lagði upp mark Salah og ef hann hefði ekki skorað þá hefði hann eflaust unnið víti. Innkoma Harvey Elliott var hins vegar algjör lykill í þessu fannst mér, hann var að opna sókn hjá Liverpool þegar hann var tekinn niður og leikmaður Palace fékk sitt annað gula spjald og var rekinn út af, hann skoraði sigurmarkið og átti geggjaða sendingu inn á Diaz sem kom boltanum í netið en var örlítið fyrir innan rangstöðuna.

    Hvað þýða úrslitin?
    Úrslitin þýða það að Liverpool sest í toppsætið, stigi á undan Arsenal sem mæta Aston Villa á útivelli seinna í dag. Takist Arsenal ekki að vinna Aston Villa þá mun Liverpool halda toppsætinu þar sem markatalan er hagkvæmari.

    Enn og aftur spilar Liveprool ekki nógu vel og lendir undir en nær að vinna leikinn, það er alls ekki frábært en þó á sama tíma frábært.

    Hvað hefði betur mátt fara?
    Spilamennskan var hreinlega mjög dauf. Miðjan var heilt yfir mjög bitlaus og gekk miðjumönnunum Endo, Gravenberch og Szoboszlai sem byrjuðu leikinn mjög illa að ná tökum á leiknum. Á margan hátt var vörnin nokkuð fín en van Dijk gerði sig sekan um smá mistök þegar hann braut á sóknarmanni Palace og fékk dæmda á sig vítaspyrnu en brotið var á Endo í aðdragandanum svo hann slapp með skrekkinn og vítaspyrnan tekin af. Quansah var svo sekúndubroti of seinn með fótinn upp í baráttu við sóknarmann Palace seinna í leiknum og fékk þá dæmda á sig vítaspyrnu sem þeir skoruðu úr. Tvö óþarfa brot þarna enheilt yfir var vörnin nokkuð fín, ekki fullkomin en alls ekki léleg. Sóknin var hins vegar helsta vandamálið hjá Liverpool í dag fannst mér og mark Salah var fyrsta skotið á markið hjá Liverpool og það var á 76. mínútu. Þeir voru engan vegin í takt þarna frammi, hlupu sig í vandræði, gengu illa að senda og taka á móti bolta og voru bara mjög bitlausir. Breytingar Klopp hins vegar komu með jákvæðari hluti í sóknina og miðjuna svo það var flott.

    Næsta verkefni
    Næsti leikur er útileikur gegn Union SG í lokaleik riðlakeppni Evrópudeildar, Liverpool er búið að tryggja sér fyrsta sætið í riðlinum svo það er ekki ólíklegt að þeir muni rótera mikið fyrir þann leik og um helgina kemur Man Utd á Anfield og það eflaust leikurinn sem Liverpool er hvað mest við hugann við núna.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close