Latest stories

  • Ferðasaga Kop.is: febrúar 2014

    Um nýliðna helgi hélt Kop.is í sína aðra hópferð til fyrirheitna landsins. Eftir vel heppnaða fyrstu ferð í október í fyrra var ákveðið að setja upp aðra ferð í vetur og var stefnan tekin á leikinn gegn Swansea nú seint í febrúar. Það er skemmst frá því að segja að áhuginn á ferðina fór fram úr öllu hófi og þurfti meðal annars að panta flug til annarrar borgar (Glasgow) en upphaflega var áætlað (London) til að koma sem flestum með í ferðina.

    Í þetta sinn voru undirritaður og SSteinn fararstjórar og með í för voru 29 eldhressir Púllarar og einn hress Arsenal-maður. Sá var með syni sínum í för en sá yngri er grjótharður Púllari (uppeldið sennilega í öfuga átt á þeim bænum enda reyndi strákurinn ákaft að mennta föður sinn yfir helgina, án árangurs). Stefnan var tekin með flugi til Glasgow, þaðan með rútu til Liverpool en þar átti að heyja orrustu gegn Swanselóna frá Wales, liði sem kann sko alveg að spila knattspyrnu get ég vottað fyrir í dag.

    Friðrik Auðunn kann að pakka niður fyrir Kop.is-ferð!
    Friðrik Auðunn kann að pakka niður fyrir Kop.is-ferð!

    Föstudagur

    Eftir allt of langa ökuferð (frá mér í Hafnarfirði til Keflavíkur með „stuttum“ útúrdúr upp í Grafarvog að sækja Steina) allt of snemma vorum við komnir upp á Panorama-barinn í fríhöfn Leifsstöðvar. Þar byrjaði hópurinn að finna okkur smám saman og við hittum flest alla hressa. Sumir voru reyndar hressari en aðrir og reyndu strax að koma Tópas-skotum ofan í fararstjórana, og klukkan ekki orðin sjö á föstudegi. Það gekk misvel. Þaðan var hoppað í stutta flugferð til Glasgow þar sem við tók skemmtileg rútuferð til Liverpool. Skemmtileg segi ég af því að við nýttum tímann og héldum hressandi Kop.is Pub-quiz í rútunni. Því lauk með sigri Vestmannaeyinganna Sigursveins og Bergs í þreföldum bráðabana og ég fullyrði að þeir Benni Jón og Helgi Valur sem lutu í lægra haldi í bráðabananum vilja aldrei heyra minnst á Milan Jovanovic aftur (frekar en við hin).

    Í verðlaun fengu þeir Svenni og Bergur gjafainneign hjá Úrval Útsýn og ReAct hvor sem er ekki amalegt. Þá geta þeir flogið fljótlega út aftur með Úrval Útsýn í Liverpool-bolum frá ReAct. Svona á þetta að vera.

    Nú, á Casartelli Posh Pads-hótelið var komið síðdegis á föstudag og við tók fyrsti af þremur frábærum dögum í Liverpool. Menn voru fljótir út að skoða borgina og fá sér í gogginn. Um kvöldið var svo haldið veglegt Kráarkvöld á Sir Thomas Hotel-barnum og var hlaðið í drykki og veitingar í boði Úrval Útsýnar. Í ferðinni í haust var svo mikið af mat að það var ákveðið að minnka skammtinn um helming fyrir þetta kvöld en engu að síður vorum við ekki nálægt því að klára veitingarnar. Ég veit ekki hvað menn halda að við Íslendingar borðum venjulega stóra skammta en það lá við að maður móðgaðist.

    Nú, eftir Kráarkvöldið lá leiðin í gegnum miðbæinn (og Cavern Club) niður á Bierkeller þar sem þeir hörðustu fóru inn og misstu hökuna í gólfið, sem eru algeng viðbrögð þegar menn mæta í fyrsta skiptið inn á þennan magnaða stað. Allt á fullu, allt troðið af fólki sem stendur uppi á bekkjum og dansar. Það var lítið annað að gera en að fá sér væna krús af mjólk og slást í hópinn.

    Reyndar var öryggisgæslan í strangari kantinum þessa helgina og það fór svo að a.m.k. einum Íslendingi var vísað út fyrir að stíga upp á borðin á hverju af kvöldunum þremur. Við höldum fram sakleysi okkar og viljum meina að þarna hafi verið ráðist gegn okkur sem þjóðflokki. Ég bíð aðgerða Alþingis í þessu máli.

    Engu að síður klikkar Bierkeller aldrei og þar voru kvöldin enduð alla helgina. Þvílíkur staður!

    Laugardagur

    Eftir léttan morgunverð fóru menn í bæinn en hittust svo kl. 14 á The Park fyrir utan Anfield. Við sáum John Terry, eða Tim Howard, eða Frank Lampard skora sigurmark Chelsea gegn Everton á lokasekúndunum og fengum netta ælu í hálsinn en þessi dagur átti eftir að einkennast af því að allir andstæðingar Liverpool í deildinni (fyrir ofan, a.m.k.) unnu sína leiki og juku því enn frekar pressuna á að ná góðum úrslitum daginn eftir.

    Eftir þetta ælumark var farið í að koma hópnum á safnið og í skoðunarferð um Anfield. Þar lentu grunlausir fararstjórar í því að allar ferðir voru uppbókaðar, sem gerist ekki oft utan leikdags. Sem betur fer var því reddað og sérferð sett upp fyrir þennan stóra hóp seinna sama dag. Það er alltaf gaman fyrir menn að sjá völlinn í návígi, sérstaklega ef þetta er fyrsta ferðin út, enda fór hver einasti ferðalangur í túrinn og hafði gaman af.

    Óttar Arsenal-maður fékk að sjá alvöru knattspyrnu í þessari ferð og heilsaði upp á Kolo Touré í leiðinni
    Óttar Arsenal-maður fékk að sjá alvöru knattspyrnu í þessari ferð og heilsaði upp á Kolo Touré í leiðinni

    Um kvöldið fóru menn út að borða. Stór hluti hópsins fór saman á Sapporo, frábæran japanskan veitingastað þar sem kokkurinn kemur og eldar fyrir þig og leikur ýmsar listir með egg og núðlur og fleira. Reyndar tókst ekki að fá borð fyrir tólf manns fyrr en klukkan að ganga ellefu á laugardagskvöld þannig að menn voru að borða aðalréttinn sinn að ganga miðnætti, eitthvað sem ég mæli ekki með, en við fórum að sjálfsögðu bara á Bierkeller á eftir og hristum af okkur slenið fram eftir nóttu. Enn og aftur var Íslendingi vísað út af Bierkeller fyrir að stíga upp á borðin og í þetta sinn fengu báðir fararstjórarnir að fljóta með út eftir að hafa reynt að stilla til friðar. Þeir eru ekkert að grínast öryggisverðirnir á þessum stað, frekar en öðrum stöðum í Liverpool-borg. Hvað um það, bara gaman að því og menn skemmtu sér konunglega þrátt fyrir þessar litlu uppákomur.

    Sunnudagur

    Dagurinn hófst á morgunverð á The Vines, lítilli og gamalli kráarholu við hlið Adelphi-hótelsins sem margir Íslendingar kannast við. Þar mætti goðsögnin John Aldridge og sagði sögur og hitaði upp fyrir leikinn á meðan menn átu beikon og bakaðar baunir. Reyndar var karlinn sennilega á einhverju skralli kvöldið áður því hann var seinn fyrir og hafði fyrrverandi hnefaleikahetjuna Ricky Hatton með sér í för. Hann var steinhissa þegar Íslendingarnir fóru að spyrja sig úr spjörunum varðandi Aly Cissokho, átti sennilega ekki von á því að fá Cissokho-aðdáendaklúbbinn í heimsókn, hvað þá frá Íslandi. Aldridge er samt alltaf skemmtilegur, segir skemmtilegar sögur, er hreinskilinn og svarar öllum spurningum. Í lokin fengu menn tækifæri til að taka í spaðann á honum og Ricky Hatton og taka af sér myndir með þeim að vild. Frábær byrjun á leikdegi.

    Já, og það er vert að minnast á eitt. Á meðan við biðum steig Jón Þorberg upp á svið og tók “pulsu”-rappið sitt við mikla kátínu okkar Íslendinga og mikla furðu hinna gestanna frá Noregi og Dublin. Fyrir þá sem ekki þekkja Jón þá sló hann í gegn í Ísland Got Talent fyrir nokkrum vikum með þessu rappi:

    http://www.youtube.com/watch?v=TVKytbQdkMU

    Þetta tók hann fyrir steinhissa útlendinga á krá í Liverpool. Vel gert Jón, vel gert. Takk fyrir okkur.

    Nú, að morgunverði loknum stukku menn í leigara upp á Anfield … eða fyrst The Park, að sjálfsögðu, þar sem menn vökvuðu sig aðeins og hituðu upp með söngsveit Scousera. Svipurinn á þeim félögum Friðriki og Guðjóni Hall þegar þeir tóku Gary Macca-sönginn var óborganlegur en eins og vanir menn vita er sá söngur u.þ.b. 300 erindi og tekur kortér að syngja.

    Nú, að upphitun lokinni var farið inn á völlinn. Eins og Eyþór gerði góð skil í leikskýrslu sinni var leikurinn snarklikkaður og óhætt að segja við fengum allan regnbogann af stemningu, pirringi, reiði og svo aftur fögnuði þennan daginn. Allir voru í frábærum sætum og urðu vitni að eftirminnilegum sjö marka þriller. Það er oft sagt að það séu engin slæm sæti á Anfield og það sannaðist enn og aftur þar sem ég og Steini fórum ásamt Friðriki og Guðjóni Hall í Anfield Road End (fyrir aftan ekki-Kop markið) og fengum þar öll mörk Liverpool í fyrri hálfleik og allan hasarinn þegar Swansea reyndu að jafna í seinni hálfleik. Frábær leikur og fróðlegt að sjá liðið í nærmynd (það er efni í annan pistil).

    Eftir leik var eins og það tæki menn smá tíma að átta sig á að þetta hafi unnist. Hópurinn kom að mestu leyti inn á The Park aftur til að fagna aðeins áður en haldið var í bæinn og ekki skemmdi það lund manna að sjá Tottenham tapa fyrir Norwich sem þýddi að þessi dagur markaði möguleg þáttaskil í baráttunni um Meistaradeildarsætið. Og við vorum á staðnum til að fagna með Scouserunum. Best fannst mér að sjá Helga Val á Park eftir leik. Sá var nánast dreginn til Liverpool af vinum sínum, Benna Jóni og Valgeir, með engan áhuga á fótbolta almennt hvað þá Liverpool FC. Nema hvað, að leik loknum birtist Helgi Valur á Park í rauðri Suarez-treyju, með trefilinn um hálsinn og glottið allan hringinn. Vel gert Benni Jón og Valgeir, svona á að vígja menn!

    Frá vinstri: Benni Jón, Helgi Valur, Valgeir og Steini. Helgi sefur sennilega með rauða trefilinn næstu daga enda orðinn grjótharður Púllari!
    Frá vinstri: Benni Jón, Helgi Valur, Valgeir og Steini. Helgi Valur sefur sennilega með rauða trefilinn næstu daga enda orðinn grjótharður Púllari!

    Um kvöldið var svo rúsínan í pylsuenda ferðarinnar tekin þegar allur hópurinn settist saman inn á Bem Brasil, frábært brasilískt steikhús, og át þar eins mikið og hægt var af kjöti af öllum gerðum. Þetta frábæra steikhús klikkar aldrei. Að því loknu tvístraðist hópurinn, sumir orðnir orkulitlir eftir langa helgi og tóku kvöldið snemma á hótelherbergjunum á meðan aðrir fóru á barinn og skáluðu fyrir vel heppnaðri helgi.

    Frá vinstri: Hörður, Bergur, Ágúst, Svenni og Óskar. Vestmannaeyingarnir voru hæstánægðir á Park eftir leikinn.
    Frá vinstri: Hörður, Bergur, Ágúst, Svenni og Óskar. Vestmannaeyingarnir voru hæstánægðir á Park eftir leikinn.

    Mánudagur

    Það var því ánægður og glaður hópur sem mætti í rútuna kl. 9 að mánudagsmorgni. Stefnan var tekin beint til Manchester og þaðan með flugi heim enda vilja menn sem minnst stoppa í Manchester. Tyggjóið og rauðvínið verslað í Leifsstöð og ferðinni slúttað í kjölfarið.

    Fyrir hönd Kop.is og okkar Steina þakka ég ferðalöngunum bara vel fyrir okkur. Það er eitt að skipuleggja svona ferðir en það er alltaf spurning hvernig hóp maður fær. Við Steini teljum okkur hafa verið mjög heppna í þetta skiptið. Í hópnum voru eitt feðginapar, fjögur feðgapör, tvö hjónapör, tveir bræður (og tveir „þjáningarbræður“), einhverjir sjö Vestmannaeyingar, fjórir hressir úr Vík í Mýrdal, þrír frá Egilsstöðum og einn ofan af Akranesi og svo mætti lengi telja. Hópurinn var fjölbreyttur og skemmtilegur og stóðu sig frábærlega sem fulltrúar íslenskra Liverpool-aðdáenda.

    Við Steini þökkum fyrir okkur og sjáumst vonandi í einni af næstu ferðum.

    E.s.
    Sorrý Steini, en við verðum að ljúka þessu á fyndnasta atviki ferðarinnar. Á föstudagskvöldið, þegar upp á hótelið var komið, óskaði ég Steina góðrar nætur og hann stökk upp í lyftuna. Ég sat áfram í lobbýinu að kíkja á netið og með mér var Ástþór frá Vík í Mýrdal. Nema hvað, Steini var ekki fyrr horfinn inn í lyftuna að strákurinn sem var á vakt í lobbýinu snýr sér að okkur Ástþóri og sýnir okkur tölvuskjáinn sinn. Á tölvuskjánum er mynd af manni sem við þekktum strax.

    Og hann sagði: “Your mate, who just left, he looks exactly like a young Roy Hodgson.”

    Það er óþarft að taka það fram að við biluðumst úr hlátri. Fyrir áhugasama er hér mynd af Steina og svo nákvæmlega myndin sem hann sýndi okkur af Roy Hodgson:

    SSteinn er reyndar myndarlegur maður og nákvæmlega ekkert líkur Roy Hodgson. Ég skil ekki af hverju hann lendir alltaf í þessu en hann hefur oft verið talinn líkur Gary Neville sem er enn fáránlegra. Greyið Steini. Sorrý vinur minn.

    Sjáumst í næstu ferð!

  • Vangaveltur um varnarleik og breytingar milli tímabila.

    Sigur á Swansea og Liverpool nær mesta stigafjölda sem félagið hefur náð eftir 27 umferðir frá því Úrvalsdeildin var stofnuð. Þetta kom ég inná í síðustu viku og eins gerði ég sér færslu eftir 27 umferðir á síðasta tímabili.

    Þetta er ekki bara bæting frá síðasta tímabili um heil 17 stig heldur líka bæting á tímabilinu 2008/09 þegar liðið var með 55 stig eftir 27 umferðir og endaði með 86 stig. Besta sem félagið hefur náð í Úrvalsdeild.

    Það sem mig langar að skoða aðeins betur er hversu fáránlegt það er að þetta sé raunin á þessu tímabili. Það að Liverpool sé 4 stigum frá toppsætinu núna er svipað fáránlegt og að láta sér dreyma um sigur í Meistaradeildinni tímabilið 2004/05 (Hello, hello).

    Eftir síðasta tímabil var ljóst að Liverpool var mjög langt á eftir liðunum fyrir ofan sig í deildinni og við þurftum stórt sumar til að brúa þetta bil.

    Inn komu: Toure, Alberto, Aspas, Mignolet, Cissokho, Ilori, Sakho, Moses
    Út fóru: Shelvey, Suso, Reina, Spearing, Downing, Assaidi, Borini og Carragher

    Þetta er ekki nokkur bæting á pappír og skýrir alls ekki muninn á þessu tímabili og því síðasta. Kolo Toure er búinn að spila 16 af 27 deildarleikjum í byrjunarliði og hann er engu skárri en Carragher var í fyrra, líklega nokkuð langt í frá. Sakho er búinn að byrja 12 af 27 leikjum og Aly Cissokho er búinn að spila 11 af 27 deildarleikjum. Enrique er búinn að spila heila 6 deildarleiki og eins og ég sýni fram á hér neðar þá hafa sjö mismunandi leikmenn hafið leik í stöðu vinstri bakvarðar á þessu tímabili, sex mismunandi leikmenn hafa spilað í hægri bakverði eða væng bakverði. Mignolet kom í staðin fyrir Reina og telst varla mikil breyting heilt yfir.

    Þessi færsla er í grunninn um breytingar á varnarlínunni milli leikja en til að klára síðasta sumar þá tókst ekki að landa neinum af helstu skotmörkum sumarsins, Mkhitaryan, Costa eða Willian sem hafa allir verið mjög öflugir hjá sínum liðum. Moses er mun verri en Downing var í fyrra, Aspas er engu betri en Borini, Alberto mun verri en bæði Suso og Shelvey.

    Aðrir eins og Assaidi, Ilori og Spearing skipta ekki máli í samanburði milli tímabila.

    Sex lið enduðu tímabilið fyrir ofan Liverpool og markmið sumarsins var því að reyna brúa það stóra bil og helst þá með því að gera betur en þau á leikmannamarkaðnum.

    Deildin í fyrra

    Þessi lið voru ekki beint samvinnuþýð og svona var sumarið hjá þeim (Smellið á liðin til að sjá leikmannaviðskipti á þessu tímabili):

    Everton – 2 stigum fyrir ofan Liverpool. Skiptu um stjóra, fengu betri mann inn.

    Fellaini var frábær hjá þeim og Anichebe drjúgur en Lukaku rúllar Anichebe upp á meðan Barry og McCarthy hafa verið mun sterkari en Fellaini. Ofan á það styrkja þeir hópinn með hinum stórefnilega Delofeu, Wigan strákunum og núna í janúar tveimur leikmönnum til viðbótar. Mun sterkara lið á pappír sem reyndar er að standa sig vel.

    Samt er Everton 11 stigum frá okkur núna.

    Tottenham – 11 stigum fyrir ofan Liverpool. Þeir misstu vissulega sinn langbesta leikmann og losuðu sig ofan á það við marga squad leikmann á háum launum sem eru að gera ágæta hluti í EPL.

    Fyrir þá komu leikmenn fyrir 100m sem allir voru eftirsóttir og spennandi. Á pappír ættu Spurs að vera sterkari en í fyrra með þessa inn Paulinho, Chadli, Soldado, Capoue, Chiriches, Lamela, Eriksen. Af þessum sem fóru var Bale sá eini í risahlutverki, aðrir spiluðu lítið en voru á góðum launum. Fyrir er Spurs með gott lið og Adebayor er nánast nýtt signing hjá þeim núna.

    Þeir hafa núna skipt um stjóra og eru ennþá okkar helsta ógn en þó 6 stigum á eftir Liverpool.

    Arsenal – 12 stigum á undan Liverpool í fyrra. Fyrir það fyrsta héldu Arsenal öllum þeim leikmönnum sem þeir vildu halda og bættu við Özil á 42m og Flamini í stöðu sem þeim hefur vantað mann síðan hann fór frá Arsenal.

    Þeir hafa líka alveg haldið dampi í vetur en eru nú bara þremur stigum á undan Liverpool.

    Chelsea – 14 stigum á undan Liverpool. Þetta er auðvitað hálfgert svindllið og ekki hægt að keppa við þá á leikmannamarkaðnum. Þeir hafa verslað mikið af leikmönnum undanfarin ár og eru með afar sterkan hóp sem þeir bættu bara enn frekar í sumar. Þeir skiptu um stjóra sem ég fagna mikið en það fá fáir meiri pening til að styrkja sín lið en Motormouth.

    Þennan hóp þurfti lítið að styrkja og bæði í sumar og janúar hafa þeir keypt leikmann sem var sterklega orðaður við Liverpool og rétt rúmlega það. Fyrst Willian og svo núna Salah. Eins var Atsu sterklega orðaður við okkur líka en fór til Chelsea og hefur ekki frést af honum síðan. Þeir bættu þremur mönnum við hópinn hjá sér í janúar líka.

    Hópur Chelsea er svo stór að ekki er hægt að hafa þá alla og því eru þeir með 1-2 sterk byrjunarlið úti á láni líka. Þeir hafa ekki látið neinn fara sem þeir sakna nema þá líklega Lukaku sem er á láni hjá Everton. Mata var ekki í náðinni hjá Motormouth.

    Chelsea er núna 4 stigum á undan Liverpool. Magnað ef skoðað er hvernig þessi lið hafa nýtt leikmannamarkaðinn á þessu tímabili.

    Man City – 17 stigum á undan Liverpool. Þetta er hitt svindlliðið og að mínu mati skiptu þeir inn mun betri stjóra en var hjá þeim áður. Hópur City var fyrir alveg fáránlega sterkur og þeir bættu við hann Navas, Negredo, Fernandinho og Jovetic. Allir hafa verið mjög góðir það sem af er þó Jovetic sé bara ný stigin upp úr meiðslum.

    Út fór enginn sem veikti hjá þeim byrjunarliðið og varla hópinn heldur. Samt eru þeir bara stigi á undan Liverpool núna en eiga reyndar leik til góða.

    Ég óttast að á endanum bíti munurinn á hópum þessara liða okkur í rassinn en það að vera ennþá með í samtalinu í febrúar er gott afrek eftir sl. sumar.

    Man United – 28 stigum á undan Liverpool. Meistararnir eru svo skemmtilegasta dæmið. Enn eitt liðið sem skipti um stjóra og sú breyting hefur farið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Enn sem komið er a.m.k.

    Ekki geta þeir bent á leikmannagluggann sem afsökun enda þótt þeir hafi verið skemmtilega klaufskir þar þá fengu þeir inn miðjumann á tæplega 30m og misstu engann úr leikmannahópi sem vann deildina af öryggi í maí sl. Þeir bættu svo ennþá dýrari miðjumanni við í janúar og tóku upp úr akademíunni eitt mesta efnið í fótboltanum í dag. Eini sem fór frá þeim sem einhver alvöru söknuður er af er svo Bebe.

    Samt er Liverpool núna með 11 stiga forystu á United.


    Endalaust rót á vörninni

    Ekki getum við þakkað stöðugleika þetta bætta gengi okkar því nánast allir leikmenn liðsins hafa á einhverjum tímapunkti dottið í meiðsli eða leikbönn, flestir í nokkrar vikur í senn. Mest hefur rótið verið á vörninni og þar eru líka flest öll okkar vandamál.

    Auðvitað er það þannig í fótbolta að allir leikmenn liðsins bera ábyrgð á varnarleiknum og það hvernig Liverpool leggur leiki upp á þessu tímabili er alltaf að fara skapa vandræði í varnarleiknum. Það er einfaldlega fórnarkostnaður sem stjóri Liverpool er tilbúinn að taka og gerir ítrekað. Hann hefur eftir síðasta leik talað um að vilja mun frekar klára leiki með style og/eða reyna við öll þrjú stigin heldur en að pakka í vörn og merja leiki með herkjum. Eins hefur hann talað um að einhverjir þeirra varnarmanna sem hann fékk í arf þegar hann tók við sé ekki hægt að þjálfa í hans hugmyndafræði og það er augljóslega farið að fara aðeins í taugarnar á honum.

    Agger, Skrtel og Toure eru ekki á góðum aldri hvað leikmenn hjá Liverpool í dag varðar og verða aldrei allir þrír ennþá hjá okkur á næsta tímabili. Leikmenn sem eru komnir á aldur og eru á góðum launum verða að skila betur af sér inni á vellinum til að réttlæta veru sína hjá FSG sem er vægðarlaust hvað þetta varðar. Johnson er líka mjög tæpur og staða Enrique getur ekki talist örugg. Nánast öll vörnin og allir (utan Skrtel og Toure) eiga þeir það sameiginlegt að vera allt of mikið frá svo hægt sé að stóla á þá.

    Ef Liverpool heldur áfram á þeirri braut sem þeir eru á núna endar liðið á því að skora meira en það hefur áður gert í Úrvalsdeild áður en afreka þá líka á sama tíma að leka inn fleiri mörkum en liðið hefur áður gert. Hversu dæmigert er það fyrir okkar ástkæra félag? Aldrei eðlilegir, aldrei leiðinlegir.

    Það er því að sjálfsögðu alls ekki hægt að kenna varnarmönnum liðsins einum um og miðjan hefur oft á tíðum verið ansi fámenn og hjálplítil varnarlega. Engu að síður er það rót sem verið hefur á varnarleiknum klárlega helsta ástæðan fyrir því hvað liðið lekur inn af mörkum. Þetta er eitthvað sem Rodgers þarf að laga og það strax og vonandi næst það með minna leikjaálagi og smá heppni.

    Mjög mörg þeirra marka sem Liverpool hefur fengið á sig í vetur er vegna afar klaufalegra varnarmistaka sem skrifast einfaldlega bara á varnarmennina, ekki skyndisóknir sem eru tilkomnar vegna þess að allir aðrir voru í sókn. Hef ekki tölur yfir þetta en mig grunar að svona mistök hafi kostað fleir mörk en stórsókn okkar manna.

    Ég tók saman út frá leikskýrslum hér á kop.is byrjunarliðið í hverjum leik það sem af er þessu tímabili, þ.e. hvernig varnarlínan hefur verið.

    Breytingar á vörn 27 umferðir
    *Mögulega eru einhverjar smávægilegar villur í þessu og þetta tekur ekki á skiptingum í miðjum leik.

    Liverpool hefur spilað 32 leiki í öllum keppnum og í 23 skipti hefur varnarlínunni verið breytt milli leikja. Ein breyting eða fleiri.

    Liðið hefur spilað 27 deildarleiki og í 18 skipti hefur vörninni verið rótað milli leikja.

    Sex mismunandi leikmenn hafa hafið leik í hægri bakverði eða sem væng bakverðir í deildarleikjum og sjö ef við teljum bikarleiki með, Kelly bætist þá við hópinn.

    Sjö leikmenn hafa hafið leik í vinstri bakverði eða í væng bakverði.

    Ef maður skoðar þetta svona er ekki hægt að segja að vandræði varnarinnar komi beint á óvart.

    Fyrir mót hefði maður talið okkar bestu varnarlínu vera Johnson – Agger – Sakho – Enrique. Þeir hafa afrekað svona marga leiki í byrjunarliði og aldrei allir í einu:

    Leikir

    Fyrir mót vorum við búin að afskrifa Skrtel með öllu og raunar hefur hann gert ansi mörg varnarmistök. Hann hefur þó verið eini kletturinn í vörninni á þessu tímabili og bjargað því sem bjargað verður. Cissokho var hálfgert grín en er að koma ágætlega til. Kolo Toure byrjaði vel en hefur á köflum ekki verið í Championship klassa og fyrir mót var ekki nokkur einasti maður að svo mikið sem tala um Flanagan, hann er núna búinn að spila 12 deildarleiki og það í bæði hægri og vinstri bakverði.

    Wisdom var sendur á láni, Ilori fékk ekki leik og Kelly hefur svo gott sem ekkert spilað.

    Úr þessu hefur Rodgers náð að moða hingað til, ekki beint með glæsibrag varnarlega en það er nokkuð keppnis að bregðast við vandræðum í vörninni með því að skora bara meira en andstæðingurinn.

    Liverpool er einu marki frá því að vera búið að skora jafn mörg mörk núna og það gerði allt tímabilið í fyrra, með nákvæmlega sömu leikmenn (Sturridge og Coutinho þó bara hálft tímabil í fyrra).

    Bætingin á Suarez er ótrúleg og hann á Rodgers mjög margt að þakka, hvað þá eftir endirinn á síðasta tímabili og sápuóperu sumarsins. Hans saga er síðan heldur betur búinn að drepa þá klisju að það sé aldrei gott að halda leikmönnum gegn þeirra vilja. Það er að ganga fínt hjá okuur þakka þér fyrir.

    Bætingin á Sturridge er engu minni, hann væri ennþá varamaður hjá Chelsea og líklega farinn á láni hefði Rodgers ekki kippt honum yfir og bjargað ferli hans. Rifjum aðeins til gamans upp álit margra þegar Liverpool keypti hann á 12m. Á sama tíma og Chelsea keypti sjóðandi heitan Demba Ba á 7m. Hvor er hlæjandi núna?

    Coutinho var varamaður hjá Inter í fyrra og það lið var ekki að gera merkilega hluti. Sterling vorum við búnir að afskrifa nánast bara í október og hlógum að “good game son” línunni í ferðinni okkar frægu þegar við hittum kappann eftir leik. Eitthvað held ég að hann hafi fengið að heyra þessa setningu oft undanfarið.

    Henderson er síðan að stórbæta sig með hverjum leik á meðan Gerrard er að læra nýtt hlutverk 33 ára gamall og ennþá að skapa fullt af færum og mörkum.

    Þetta eru sömu leikmenn og við vorum með í fyrra og ef eitthvað er þá hefur sóknarógnin frá varnarmönnunum minnkað og það all verulega.


    Toppbaráttan eða baráttan um 4. sæti

    Ef við viljum skoða toppbaráttuna út frá þessu tímabili hingað til þá er þetta það sem þarf til að ná 85 stigum (sem gæti vel dugað).

    Þetta er hinsvegar það sem þarf til að tryggja 4.sætið (eða ætti að gera það)

    Ef síðasta tímabil er eitthvað til að fara eftir þá er hér samanburður á Liverpool nú og liðunum sem voru að keppa um 4. sæti á síðasta tímabili.

    Hér er síðan hægt að sjá myndrænt hvernig þetta er okkar besti árangur eftir 27 umferðir síðan úrvalsdeildin var stofnuð


    Hér er síðan að lokum árangur Rodgers í sögulegu samhengi. Hugsið ykkur ef hann/FSG nær að versla inn meistaradeildarklassa leikmenn? Hvað getur hann gert þá? Þar fyrir utan ættu flestir af núverandi hóp að vera nokkuð frá hátindi síns ferils.

    Ennþá er allt of snemmt að fagna nokkrum sköpuðum hlut, fjórða sætið er ennþá fyrsta takmark og því hefur ekki ennþá verið náð. Engu að síður eru FSG og Rodgers svoleiðis að hala inn bónusstigum þessa dagana að ekki er annað hægt en að virða það. Þetta er fram úr mínum vænginum enn sem komið er, svo mikið er víst.

    Það er ekki fyrir taugaveiklaða að halda með Liverpool og hefur aldrei verið. Þetta tímabil er eitt það klikkaðasta af þeim öllum og útilokað að spá fyrir um nokkurn hlut.

    Ef við tökum ekki titlatímabil með þá hefur líklega aldrei verið skemmtilegra að horfa á leiki liðsis. Hvað þá að vera á þeim.

  • Vorum við að sjá taugaóstyrk um helgina?

    Þvílíkur rússibani þessi leikur í gær.

    Litlu við flotta leikskýrslu Eyþórs að bæta en þar sem að ég var að keyra heim í um þrjá tíma eftir stuðið á Spot þá fór ég að velta fyrir mér hlutum.

    Því mér fannst svo oft í leiknum okkar menn taka skrýtnar ákvarðanir. Héngu of lengi á boltanum, sendu bullsendingar inn á varnarsvæðinu okkar, voru langt frá mönnum og virkuðu stundum ragir að taka af skarið. Las á twitter frá mönnum á Anfield að Rodgers hafi nærri hrist af sér hausinn í fyrri hálfleik.

    Þá kom upp í kollinn á mér að í raun má segja að þarna hafi verið kominn í fyrsta skipti í svolítinn tíma leikur sem var sannkallað “dauðafæri” að búa til smá andrými fyrir liðin fyrir neðan okkur. Auk þess sem að öllum var ljóst eftir rústið gegn Arsenal og síðan baráttusigur gegn Fulham að liðið er í toppbaráttu. Ekki bara meistaradeildarsæti. Heldur TOPPBARÁTTU.

    Það vitum við öll sem höfum tekið þátt í íþróttum að það er allt annar karakter sem þarf ef maður er að berjast um sigur heldur en ef maður lullar um miðjuna. Þrátt fyrir alla fótafimihæfileika og taktískar beygjur þá munu úrslitin í deildinni ráðast að stórum hluta hvaða lið og leikmenn halda haus.

    Um helgina má segja að þrjú af fjórum liðum toppbaráttunnar hafi unnið karaktersigra. Við einblínum á okkar lið en skulum ekki gleyma því að City marði Stoke í leik þar sem gestirnir fengu dauðafæri í lokin til að ná í stig og Chelsea vann með sjálfsmarki í uppbótartíma. Það mun þurfa marga svona sigra næstu 11 leikina til að við náum þeim árangri sem okkur langar til. Hvað af efstu fjórum sætunum sem við stefnum á.

    Í gær fannst mér áberandi að ungu mennirnir áttu erfitt. Flanno, Coutinho og Sterling voru langt frá því sem við höfum séð best til þeirra. Var það vegna þess að þeir voru stressaðir vitandi hvað var í húfi, eða var þetta bara “one of those days” hjá þeim.

    En fleiri spiluðu undir getu. Skrtel, Agger, Johnson og Suarez klárlega og þá erum við komnir í rúmlega byrjunarliðið okkar.

    En á sama hátt sýndu aðrir frábæra frammistöðu og drógu vagninn í gengum erfitt endamark, við unnum okkur inn þrjú stig sem voru sko aldrei gefin og í leik þar sem öll pressan var á okkur en engin á Swansea.

    Pressa fyrir leik skiptir máli. Þetta eru manneskjur sem þurfa að sofa, borða og fókusera eins vel og mögulegt er. Það eru 11 úrslitaleikir eftir, við þurfum að mínu mati 21 stig til að ná 4.sætinu og 27 stig til að vinna mótið. Svona jafnt held ég að þetta verði.

    Ef að ég er að hugsa svona þá eru örugglega einhverjir leikmenn og starfsmenn Liverpool að hugsa svona líka.

    Um næstu helgi er annar svona leikur, gegn liði sem mun koma á fullri ferð og hafa engu að tapa. Við verðum að vera klárir í slaginn, bæta það sem illa gekk í síðasta leik sem var klassískt í raun, vörn í set-piece atriðum og varnarvinnan á miðjunni en líka halda okkar vopnum og fara á fulla ferð sóknarlega frá fyrstu mínútu.

    Vel má vera að leikurinn um helgina hafi bara verið ákveðið “blip” í leikforminu og við stútum þeim næstu. En það er alveg þekkt í sögunni að lið falli á andlitið á lokasprettinum þegar að lið stíga út úr skugga og verða “alvöru” leikmenn á borði þeirra stóru. Spyrjið bara t.d. Newcastleaðdáendur, bæði núna nýlega og í sögulegu klúðri 1996.

    Ég hef þó trú á því að við séum með mikla karaktera í hópnum sem verða gríðarlega mikilvægir næstu mánuði. Það er manna eins og Agger, Toure, Gerrard, Sturridge og Suarez að berja menn áfram og koma mönnum yfir næstu hjalla.

    Þá verður gaman í maí elskurnar…..mögulega MJÖG GAMAN!!!

  • Liverpool – Swansea 4-3

    Ef þú ert fótboltaáhugamaður og vilt umfram allt horfa á skemmtilega leiki. Þá horfir þú á alla leiki Liverpool. Það er bara þannig.

    Liverpool með Kop.is í broddi fylkingar tóku á móti Swansea mönnum á Anfield í dag og var leikurinn hin besta skemmtun, en jafnframt hættulegur heilsunni ef þú ert hjartveikur Liverpool stuðningsmaður.

    Þrjár breytingar voru gerðar á liði Liverpool frá því í tapleiknum gegn Arsenal. Mignolet, Glen Johnson og Henderson komu inn á kostnað Jones, Cissokho og Allen. Virkilega gott uppá endasprettinn að fá Glen Johnson aftur inn!

    Liverpool liðið leit sem sagt svona út:

    Mignolet
    Johnson – Skrtel – Agger – Flanagan
    Henderson – Gerrard – Coutinho
    Suarez – Sturridge – Sterling

    Á meðan Swansea stillti þessu liði upp:

    Vorm
    Rangel – Flores – Williams – Taylor
    de Guzman – Britton – Shelvey
    Dyer – Bony – Routledge

    Öll toppliðin sigruðu sína leiki í gær og Tottenham átti seinni leik dagsins, það var því hrikalega mikilvægt að vinna þennan leik!

    Fyrri hálfleikur

    Það tók Sturridge þrjár mínútur að bæta upp fyrir klúðrin gegn Arsenal um síðustu helgi. Rangel missti boltann á vondum stað og Sterling brunaði upp völlinn, sendi frábæran utanfótarbolta innfyrir á Sturridge, sem fór framhjá Vorm, sem kom á móti, og skoraði í tómt markið! 1-0.

    Næstu tíu mínútur gerðist nú ekki mikið, við vorum að missa boltann oft á vondum stað, spila boltanum illa úr vörninni og Swansea að pressa vel, án þess að skapa sér eitthvað færi þó sem heitið getur. Bony virtist ekki vera í miklum vandræðum að taka á móti boltum með Agger eða Skrtel í bakinu og spila honum frá sér. Shelvey átti jú frábæran bolta inn á teiginn á 13 mínútu en Bony rétt missti af honum.

    Swansea menn voru sífellt að finna Jonjo á milli miðju og vítateigs og manni leist ekkert á blikuna. En það var svo Liverpool sem skoraði aftur á 20 mínútu. Suarez sendi háan bolta á Sturridge sem náði honum ekki langt frá hornfánanum hægra meginn. Tók skærin og lék á Taylor, lagði boltann á Henderson sem var rétt fyrir utan teig. Henderson lagði boltann svo upp í hornið vinstra meginn, frábært mark og óverjandi fyrir Vorm í marki Swansea.

    Jonjo vildi ekki vera síðri og smellti honum örfáum mínútum síðar, sláin inn rétt fyrir utan vítateig. Óverjandi fyrir Mignolet. Fagnaði ekki og var klappað lof í lófa af báðum settum stuðningsmanna. 3 mörk eftir rétt rúmar 20 mínútur, 2-1.

    Það var svo örfáum mínútum síðar sem að Swansea jafnaði. Fyrst var dæmd aukaspyrna á Skrtel, fyrir að sparka til Jonjo, liggjandi, eftir að boltinn var farinn. Aukaspyrnan kom inná teig þar sem að Bony var aleinn, skallaði boltann í öxlina á Skrtel og þaðan inn, líklega fær Bony markið þar sem mér fannst skallinn stefna að markinu. En who cares, staðan 2-2.

    Að missa niður tveggja marka forystu á rétt rúmum sex mínútum á heimavelli er einfaldlega bannað. Það á ekki að vera hægt! Þessi varnarleikur liðsins er svo slakur að maður á varla lýsingarorð fyrir það. Bony, þeirra langbesti skallamaður, var ódekkaður á vítapunktinum í föstu leikatriði. Voru þeir svona uppteknir af því að passa Dyer? Ótrúlegt.

    Ég þurfti nánast að fletta því upp eftir hálftímaleik hvort að Suarez væri ekki örugglega með. Ég heyrði jú nafn hans þegar boltinn barst vinstra meginn í teiginn. Kom þá ekki líka þessi fáránlega góða sending inn á markteiginn þar sem að Sturridge skoraði annað mark sitt, þetta sinn með skalla, staðan 3-2…. þrjú tvö … fimm mörk eftir 35 mínútna leik. Ótrúlegar tölur, eða eins og menn kalla það, Liverpool leikur.

    Á 42 mínútu sá maður kannski svolítið vel ástæðuna fyrir því að Liverpool fær á sig svona mörg mörk. Liverpool var að sækja, missti boltann í vítateig Swansea og þeir sóttu á okkur. Svæðið, frá vítateig Swansea að varnarmönnum okkar, sem voru s.a. á miðjunni, var covera-að af einu manni. Gerrard. Allt í einu var þetta 3 á 3, restin var nánast öll inní vítateig Swansea. Þetta var á 42 mínútu leiksins þegar við erum yfir í leiknum. Ekki þeirri nítugustu og þriðju í bikarnum og Liverpool undir. Sturlun. Það þarf líka að spila vörn í þessu kerfi þó að andstæðingurinn sé ekki eins sexy og Arsenal eða Everton! Gerrard var þarna að covera fyrir alla miðjumennina og annan bakvörðinn.

    Coutinho reyndi svo að láta Swansea jafna í uppbótartíma þegar mjög einföld pressa á miðju vallarins virkaði hjá Swansea, og þeir voru 3 á 3 aftur. Henderson fannst þetta rosa sniðugt og ákvað að reyna eitthvað svipað. Sendi 20 metra þversendingu á Swansea mann, en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir Liverpool manna þá tókst ekki að láta Swansea jafna, vantaði þó ekki viljann!

    Ótrúlegum 45 mínútum lokið, eiginlega því betur fer. Hafði ekki taugar í meira nema að fá smá pásu til að ná andanum. Ég hef sagt þetta áður, að vera Liverpool aðdáandi er rússíbanaferð og það var eitthvað þarna í hálfleik sem sagði mér að þetta væri sko ekki búið.

    Síðari hálfeikur

    Sú tilfinning reyndist rétt. Bony fékk vítaspyrnu á 46 mínútu eftir að Skrtel hélt honum í teignum. Ég sá þetta nú ekkert alltof vel, sjónarhornið sem var boðið uppá var lélegt. En Skrtel er auðvitað búinn að stefna að þessu í nokkra mánuði, það tókst sem sagt að lokum. Kemur eflaust engum á óvart nema honum sjálfum ef marka má svipbrigði hans. Aðdragandinn var meira en lítið klaufalegur, Liverpool vann boltann á vinstri vængnum, held það hafi verið Sturridge sem svo datt með boltann aftur og Dyer náði honum, sendi fyrir og úr því kom vítið. Skrtel var í þokkabót á gulu spjaldi og getum við talist heppnir að hann hafi ekki fokið útaf. Bony tók vítið sjálfur og jafnaði metin, 3-3.

    Suarez var næstum búinn að koma okkur aftur yfir tveimur mínútum síðar. Þegar Sturridge sendi fínan bolta innfyrir á Suarez, sem lét Vorm verja frá sér. Heitur Suarez hefði skorað þarna. Dauðafæri. Tvö mörk á fyrstu 5 mínútum síðari hálfleiks hefði ekki komið manni neitt á óvart.

    Þetta sló okkur svolítið útaf laginu. De Guzman skaut rétt framhjá úr aukaspyrnu og svo varði Mignolet vel frá Routledge sem var við það að sleppa einn í gegn eftir hælsendingu Bony og Skrtel spilaði hann réttstæðan. En Glen gerði vel að trufla hann.

    Allen kom inná á 57 mínútu fyrir Sterling (og átti flottan leik). Ég skildi skiptinguna, þ.e. að fjölga á miðjunni, en hefði líkelga frekar tekið Coutinho útaf (sem varla sást í síðari hálfleik). Agger fór svo útaf á 62 mínútu í stað Kolo. Meiddur? Lélegur? Kannski bæði. Þarna í millitíðinni áttu við fínt færi þegar Allen vann boltann á miðjunni og sendi á Sturridge sem var að komast einn í gegn, Williams hljóp hann þó uppi og náði að koma sér fyrir skotið. Suarez átti svo fínt færi eftir hornspyrnuna í kjölfarið en boltinn fór rétt yfir.

    Tveimur mínútum síðar ætlaði Skrtel að láta skjaldbökubolta, sem varla dreif inní teig, fara og láta Mignolet taka hann. Hann gerði það að lokum en var þá nánast kominn út úr teignum, og sést í endursýningunni að boltinn skoppar í hendina á Mignolet fyrir utan teig. Klaufaskapurinn hrikalegur. Hálf vandræðilegt á köflum. Þetta var klaufalegt hjá Skrtel, á því er enginn vafi, en guð minn góður Mignolet. Þú verður að vera á tánum, bæði með þessa bolta sem og að hirða svona eins og eina fyrirgjöf annað slagið væri vel þegið. Sbr annað markið hjá Fulham.

    Suarez vildi fá víti á 66 mínútu þegar hann var að taka snúning inní teig Swansea, en fékk ekki. Það var snerting, spurning hvort hann var ekki búinn að missa boltann og hvort að snertingin hafi verið nægjanleg. Ég verð að sjá betra sjónarhorn til að geta gert upp hug minn.

    Á 73 mínútu hoppaði ég hæð mína og öskraði sem villtur maður. Gerrard átti frábæran bolta á Suarez, sem tók hann á bringuna, lék framhjá varnarmanni Swansea og skaut í Williams, þaðan fór boltinn til Henderson sem kom á ferðinni og skaut í fyrsta, Vorm varði en af því að þetta var Henderson þá náði hann sjálfur frákastinu og skoraði, 4-3. Ekki margir sem hefðu fylgt þessu eftir, en Henderson er einn þeirra. Annað mark hans í leiknum!

    Moses kom inn í stað Sturridge á 78 mínútu. Og Kop.is ferðalangar fengu draum sinn uppfylltan þegar David nokkur Ngog kom inn hjá Swansea, en þeir keyptu frakkann í janúar frá Bolton. En samt, í alvöru talað, Sturridge út eftir 2 mörk og stoðsendingu í stað Suarez sem var klárlega ekki að eiga sinn besta leik og virkaði kaldur og þreyttur. Mér fannst það frekar skrítið svo ekki sé meira sagt.

    Það gerðist lítið næstu mínúturnar, eða þar til á 88 mínútu þegar að Gerrard skaut í innanverða stöngina eftir að skotið hafði haft viðkomu í varnarmanni Swansea, en inn fór boltinn ekki. Við náðum frákastinu og Gerrard fékk hann aftur að lokum í miðjum teignum en Vorm varði skot hans. Hefðum getað klárað leikinn þarna! Við tóku því stressandi fimm mínútur þar sem að Liverpool reyndi að landa stigunum þremur. Það hófst og guð minn góður hvað þetta var erfið fæðing!

    Þrjú stig, sjö mörk. Typical Liverpool leikur.

    Lokaorð

    Það er kannski óþarfi að halda áfram að telja leikina þetta tímabilið þar sem við fáum 2+ mörk á okkur. Þannig var það í dag og í þetta sinn, eins og svo oft áður, náði sóknin að skora þessi 3+ mörk sem við oft þurfum til þess að klára leiki. Swansea var fyrir þennan leik búið að skora 33 mörk í 26 leikjum. Auðvitað urðu þeir að skora þrjú stykki á Anfield og þar af tvö mörk á einhverjum sex mínútum. En hvað gerir maður þá? Jú, maður skorar bara meira. Þetta var einmitt svoleiðis leikur að liðið sem skoraði meira vann (höfundarréttur KAR). Þvílík sturlun og þvílík skemmtun sem þetta Liverpool lið er. Að hugsa sér að fyrir rétt rúmum þremur árum var Roy Hodgson á hliðarlínunni og Poulsen inná vellinum. Og að horfa á Liverpool leik var drep drep leiðinlegt. Ef Agger var tekinn útaf bara vegna Bony og slakrar frammistöðu þá óttast ég um framtíð hans á Anfield. En varnarleikurinn skrifast að sjálfsögðu á allt liðið. En við erum þar fyrir utan auðvitað að gera alltof mikið af einstaklingsmistökum. Skrtel gaf í dag víti og aukaspyrnuna sem leiddi til annað marks Swansea, svo sem ágætis dagsverk.

    Þetta var HRIKALEGA mikilvægur sigur. Chelsea marði þrjú stig í gær með marki í uppbótartíma. Við mörðum þrjú stig í þessum leik þrátt fyrir að spila ekki vel. Lið með karakter vinna leiki sem þennan og Fulham leikinn fyrir rúmlega 10 dögum síðan. En það er samt hellingur til að hafa áhyggjur af. Við getum ekki alltaf verið að fá þessi 2+ mörk á okkur í leik. Og að skipta sífellt um miðverði er ekki lausnin. Þegar þú stillir liðinu svona upp, og varnarvinnan frá miðju og sókn er ekki betri en þetta, þá færðu einfaldlega helling af mörkum á þig. Það er enginn miðvörður þarna úti sem lagar það. Varnarvinnan er vinna allrar liðsheildarinnar og það er engin tilviljun að okkar besta varnarvinna þetta tímabilið er líklega í leikjunum gegn Everton og Arsenal þar sem að þau fá varla færi og hefðu ekki skorað ef ekki væri fyrir vítaspyrnuna sem Gerrard gaf Arsenal. Þar var jú liðsheildin að virka og menn hlupu úr sér lungun. Þeir nenna því ekki alveg jafnmikið gegn WBA, Fulham, Aston Villa og nú Swansea.

    Ég trúi því og treysti að það verði unnið í þessu. Og á meðan við höldum áfram að skora 3 mörk+ í leik þá er erfitt að kvarta.

    Slakur leikur af okkar hálfu, en þrjú stig. Ótrúlega mikilvægt og ég er hrikalega sáttur með að Liverpool geti í dag unnið ljótt (ef það er á annað borð hægt). Það hefur liðið klikkað á síðasta áratuginn eða svo.

    Eflaust velja margir menn leiksins í þeim Henderson og Sturridge. Ég ætla að velja Sturridge sem mann leiksins, Hendo fær annaðsætið. Afhverju? Ég held að Sturridge fái ekki það lof sem hann á skilið. Maðurinn er kominn með 30 deildarmörk í 34 leikjum. Þrjátíu. Þrír, núll. Samt fær hann brotabrot af athygli Suarez og er skipt útaf í hverjum leik á meðan Suarez spilar áfram, eins og í dag, sama hvernig frammistaðan hans er. Til að undirstrika hve óheppinn hann er þá var Suarez valinn leikmaður mánaðarins hjá LFC í janúar. En Sturridge er núna búinn að skora í 8 deildarleikjum í röð. Við hefðum tapað stigum gegn Swansea, Stoke og Fulham ef ekki væri fyrir hann, hið minnsta. Ég vil bara þakka Chelsea enn og aftur fyrir þennan strák, þvílíkur leikmaður.

    Endum þetta á jákvæðu nótunum:

    Liverpool hefur aldrei, frá stofnun EPL, verið með þetta mörg stig (56) eftir 27 leiki.

    Markahæstu leikmenn deildarinnar eru Suarez (23) og Sturridge (18). En Suarez missti af fyrstu fimm leikjunum og Sturridge verið frá í átta leikjum sökum meiðsla.

    Gerrard og Suarez eru efstir í stoðsendingartölfræðinni þetta tímabilið, báðir með 9 stoðsendingar.

    Liverpool er búið að skora 70 mörk í 27 deildarleikjum. Bara Real Madrid hefur skorað fleiri (71).

    YNWA

  • Liðið gegn Swansea

    Liðið gegn Swansea er komið. Frábærar fréttir þar sem að Glen kemur til baka, stimplum slaka frammistöðu hans síðustu misseri á meiðsli og fáum hann tvíefldan til baka, díll? Annars er ekkert óvænt þarna, Henderson og Mignolet einnig komnir til baka. Cissokho, Jones og Allen taka sér sæti á bekknum.

    Mignolet
    Johnson – Skrtel – Agger – Flanagan
    Henderson – Gerrard – Coutinho
    Suarez – Sturridge – Sterling

    Lið gestanna er sem hér segir:

    Vorm, Rangel, Chico Flores, Williams, Taylor, Britton, de Guzman, Shelvey, Dyer, Routledge, Bony

    Koma svo!!

  • Swansea menn mæta á Anfield

    Eftir fyrsta tap okkar manna á árinu 2014 um síðustu helgi hafa okkar drengir haft heila viku til að undirbúa heimsókn fyrrum lærisveina Rodgers, Walesverjanna í Swansea City.

    Eins og flestum lesendum má vera ljóst þá ákvað Kop.is gengið að þar færi leikur sem þarfnaðist öflugs stuðnings úr stúkunni og á vellinum verða 34 einstaklingar úr okkar ranni sönglandi og dansandi og trallandi, ákveðin í að skila stigunum þrem heim.

    Einhverjar áhyggjur hafa verið af því að Kristján Atli hafi ekki fengið að sjá mikið af mörkum okkar manna í eigin persónu í síðustu heimsóknum hans, en mér skilst á Babú að einhver hafi ætlað að fórna sér í það að hugsa einhverja lausn ef ekkert mark er komið eftir fyrstu 45….en þessi texti er líka settur upp til að brjóta jinxið hjá okkar góða félaga. Tutututututu og fótbrotnaðu bara Kristján minn!

    En að leiknum.

    Swansea menn hafa átt misjöfnu gengi að fagna og skiptu um stjóra nú nýlega. Michael Laudrup náði einhvern veginn aldrei hylli hjá þessum klúbb, þrátt fyrir að vinna einn bikar og eftir einhvers konar störukeppni milli hans og eigenda liðsins um framhald samstarfsins ákvað eigandinn Huw Jenkins að nóg væri komið, rak Laudrup með e-mail og réð tímabundið Garry Monk. Huw er einn af betri vinum Rodgers í boltanum og Monk var fyrirliði félagsins allan tíma hans hjá Swansea svo að óhætt er að segja að fram fari bræðrabylta á Anfield á morgun.

    Frá því að Monk tók við hefur liðið ekki tapað leik í deildinni (bara 2 búnir sko), féllu út úr bikarnum gegn Everton þar sem þeir stilltu upp veikara liði og gerðu svo 0-0 jafntefli heima gegn Rafa og félögum frá Napoli í fyrri Evrópudeildarviðureign í 32ja liða úrslitum þeirra keppni. Ágæt byrjun klárlega.

    Það er að mínu mati gott að þeir eiga enn möguleika gegn Napoli, þangað munu þeir halda í næstu viku fyrir seinni leikinn og ég held að þeir séu með annað augað á þeim leik á Anfield. Þeir sitja nú í 10.sæti deildarinnar og leikmannahópurinn sennilega ekki nægilega öflugur til að koma þeim mikið ofar en það, þeir allavega eru langt frá öllum Evrópusætismöguleikum og það mun þýða að Napoli leikurinn er þeirra stærsti framundan. Sem hjálpar okkur.

    Ég held að frekar erfitt sé að átta sig á hvort að við sjáum leikmannahópinn sem spilaði gegn Everton eða Napoli (8 breytingar milli leikja) á sunnudaginn og ég ætla því að láta vera að stilla upp liðinu þeirra. Held þó og vona að við fáum að sjá Jonjo spila á Anfield, líka hans vegna, því hann var vinsæll hjá fólki og má alveg fá klapp.

    Að okkar mönnum.

    Á blaðamannafundi Brendan Rodgers í vikunni kom í ljós að Glen Johnson er kominn á fulla ferð, segist ekki hafa verið í betra standi um langan tíma og því tilbúinn að klæðast rauðu treyjunni á ný. Enn fréttist ekki neitt af meiðslum Enrique og Sakho, Lucas enn um 4 vikur í burtu.

    Aðrir leikmenn eru heilir, Agger hefur ekki fengið neitt bakslag og Hendo er annað hvort kominn með léttara gifs á hendina eða alveg laus við það. Svo að staðan í leikmannahópnum hjá okkur hefur ekki verið eins góð býsna lengi. Ég ætla að prófa að stilla liðinu upp á þennan veg:

    Mignolet
    Johnson – Skrtel – Agger – Flanagan
    Henderson – Gerrard – Coutinho
    Suarez – Sturridge – Sterling

    Glen, Mignolet og Hendo koma því að mínu mati inn í leikinn í stað Jones, Allen og minns manns Cissokho sem setjast á bekkinn.

    Ég held að Rodgers meti Flanno framar Aly og þrátt fyrir ágæta innkomu Allen gegn Arsenal þá slátraði þessi miðjuuppsetning bæði Everton og Arsenal og því engin ástæða til að breyta því.

    Með Glen í bakverði erum við komin með sóknarógn upp vængina enn frekar en í þessum leikjum og það auðveldar mótherjum okkar ekki verkið. Það er morgunljóst að við munum sjá okkar lið hápressa frá fyrstu mínútu ofarlega á vellinum og pinna þá aftarlega á völlinn.

    Það er þannig núna að manni finnst í raun spurningin alltaf snúast um það hvernig andstæðingurinn þolir þessa pressu og þá um leið hvort að okkar lið hefur þolinmæði ef að ekki gengur strax að skora mark eða mörk. Ég met það þannig að í þessum leik verði ekki sama leifturbyrjunin uppi á teningnum og hefur verið í síðustu leikjum því Swansea munu ólíkt Everton og Arsenal setjast aftarlega á völlinn og reyna að leggja rútu í teignum. Sem stundum hefur reynst okkur erfitt.

    Að því sögðu þá held ég að Napoliskugginn muni líka vofa það fast yfir að við ætlumst enn frekar til öruggra þriggja stiga sem gætu fært okkur nær fyrsta sætinu og lengra frá sætunum þarna neðan við Meistaradeildina, því leikir Everton og Tottenham um helgina gætu hæglega reynst þeim erfiðir.

    Mín spá er að við skorum fyrsta markið rétt fyrir hálfleik og Kristján minn fái því hamborgarafrið í hléinu og í seinni fáum við tvö mörk í viðbót. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að við höldum líka hreinu svei mér þá.

    Mín spá er því 3-0 sigur sem fær okkur til að gleyma Arsenaltapinu.

    KOMA SVO!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  • Opinn þráður – Rodgers á réttri leið?

    Það eru þessar vikur sem sýna okkur hvað Liverpool þarf hrikalega að fara drulla sér aftur í meistaradeildina. Við söknum deilarinnar og hún saknar svo sannarlega Liverpool. Spyrjið hvaða kráareiganda sem er út í þetta.

    Þá er ég að tala um Meistaradeildina, eins og við sjáum mjög vel á þessu tímabili þá er nákvæmlega enginn söknuður af Evrópudeildinni og mér gæti ekki verið meira sama þó Liverpool sé í fríi í kvöld í stað þess að vera búa sig undir leik í Úkraínu. Því síður myndi ég vilja fá Benitez með annað lið á Anfield líkt og hann mun gera í Swansea í kvöld. Það helsta sem ég hef tekið frá þessari Evrópudeild er reyndar tengt Napoli þar sem ég fann það út í undirbúningi fyrir upphitun að pizzan er upprunalega þaðan. Þannig að Evrópudeildin var vissulega ekki alveg tilgangslaus hjá Liverpool, sé þó ekki annað jákvætt við þátttöku Liverpool í þeirri keppni undanfarin ár. Hún hefur nákvæmlega ekkert hjálpað árangri okkar í deildinni og því síður hjálpað stjórum Liverpool að tryggja sig í starfi.

    Liverpool hefur enda ekki verið í eins góðum séns að vinna sér sæti í þessari keppni og núna á þessu tímabili. Rodgers er smátt og smátt að gefa okkur trú á liðinu sem við höfum ekki haft síðan árið 2009 og það með mun skemmtilegri fótbolta. FSG hefur tekið sinn tíma að fóta sig í fótboltanum og þetta hefur alls ekki verið sársaukalaust en núna loksins fyrir alvöru virðist liðið vera að taka framförum og það mjög greinilegum.

    Síðast þegar við sáum svona framfarir á liðinu var undir stjórn Rafa Benitez og því líklega best að miða Rodgers við árangur hans. Þetta er auðvitað alls ekki alveg sanngjarn samanburður enda skilaði Benitez meistaradeildartitli á fyrsta tímabili og bikar á því næsta, en árangur Rodgers er engu að síður mjög spennandi m.v. þetta. Hann er (ásamt FSG) að smíða lið sem hefur alla burði til að bæta sig verulega á næstu árum rétt eins og lið Benitez gerði árin eftir 2005/06.

    Benitez tók við árið 2004 og náði 58 stigum á sínu fyrsta tímabili. Árið eftir náði liðið í 82 stig og bætti sig því um 24 stig milli tímabila en það dugði þá einungis í þriðja sæti.

    Rodgers náði 61 stigi á sínu fyrsta tímabili með Liverpool. Hann hefur núna náð 53 stigum og það eru 12 umferðir (36 stig) eftir. Liverpool hefur núna náð 16 stigum meira úr sömu viðureignum m.v. síðasta tímabil og var með 36 stig eftir 26 umferðir á síðasta tímabili.

    Af þessum viðureignum sem við eigum eftir náði Liverpool í 24 stig af 36 stigum á síðasta tímabili. Sami árangur núna ætti að skila okkur í meistaradeild (77.stig) og haldi liðið áfram að bæta árangur síðasta tímabils líkt og við höfum séð það sem af er móti er allt hægt. Þetta getur auðvitað líka allt farið til fjandans, höfum það alveg í huga.

    Önnur gagnslaus tölfræði sem er okkur í vil á þessu tímabili er að ekkert lið hefur verið með fleiri stig í 4. sæti eftir 26 umferðir en Liverpool er núna. Höfum þó í huga að sama á við um 5. og 6. sæti (held ég).

    Liverpool er núna með 53 stig eða tveimur meira en Aston Villa var 2008/09. Þeir náðu að klúðra sínum málum glæsilega og enduðu í 6.sæti. Tóku 11 stig úr síðustu 12 leikjunum. Þetta er einmitt Martin O´Neill-legasta tölfræði allra tíma enda hafa hans lið alltaf sprungið á lokakafla tímabilsins. Maðurinn er ekki ennþá búinn að frétta af rotation eða að það megi skipta mönnum inná í miðjum leik.

    Arsenal er hitt liðið sem hefur verið með 51 stig eftir 26 umferðir. Þeir tóku sig til og unnu bara alla helvítis leikina sem þeir áttu eftir og tóku raunar fullt hús úr 13 síðustu umferðum tímabilsins þetta tímabil (2001/02). Liverpool var að sjálfsögðu liðið sem þurfti að vera í baráttu við þá þetta tímabil og enduðu í öðru sæti.

    Tottenham var í svipaðri stöðu í fyrra og Liverpool núna með 48 stig eftir 26 umferðir, fjórum meira en Arsenal sem tók á endanum sætið af þeim. Raunar hefur bara einu liði (Arsenal) tekist að ná ofar á töfluna eftir að hafa verið í 4. sæti eftir 26 umferðir undanfarin fimm tímabil. Tottenham (2), Villa og Liverpool 2009/10 hafa öll misst flugið og endað utan meistaradeildarinnar.

    Huggum okkur þó við það að hafa meiri trú á okkar mönnum nú en 2009/10 sem var ömurlegt ár. Eins er þetta lið okkar betra en Villa var 2008/09 og vonandi fá okkar menn ekki skitu (bókstaflega) eins og Tottenham fékk 2010/11.

    Á síðsta tímabili gerði ég færslu eftir 27 umferðir og sýndi þar fram á hvernig Liverpool hafði verið með 39 stig þrjú ár í röð.

    Mögulega geri ég nýja færslu eftir helgi en sigur á Swansea myndi gera 56 stig hjá Liverpool eða 17 stiga bætingu frá síðasta tímabili.

    Það væri meira en Liverpool náði öll bestu ár Benitez með liðið

    Ég skal einfalda þetta, sigri Liverpool Swansea þá verðum við með 56 stig sem er meira en Liverpool hefur nokkurntíma náð eftir 27 umferðir síðan úrvalsdeildin var sett á laggirrnar. Síðast þegar Liverpool var með fleiri stig á þessu stigi tímabilsins var tímabilið 1990/91 þegar Liverpool var með 57 stig eftir 27 umferðir.
    Liverpool var bara með 53 stig eftir 27 umferðir tímabilið á undan (1989/90) en það var einmitt síðast þegar liðið vann titilinn.

    Samkeppnin á toppnum er auðvitað allt öðruvísi núna og við erum fyrir mér ennþá að reyna tryggja sætið í Meistaradeildinni. Engu að síður verður ekki þrætt fyrir það að Rodgers hefur unnið ansi vel úr þessum hóp á þessu tímabili. Hvað þá ef við hugsum til þess að nánast allir leikmenn liðsins hafa á einhverju stigi verið frá vegna meiðsla eða leikbanna og það oftar en ekki í nokkrar vikur.

    Það er því óhætt að segja að þó maður sé varkár og hafi ansi oft orðið fyrir vonbrigðum þá er glasið meira hálf fullt núna heldur en hálf tómt. Næstu umferðir eru gegn liðum sem hafa verið að stríða okkur undanfarin ár en allt leikir sem Liverpool á að taka. Vonandi eru við með sterkara lið í ár heldur en undanfarin ár.

    Það sem af er þessu tímabili sýnist mér það vera raunin.

    p.s.

    Við verðum að sjálfsögðu með nóg af fulltrúum á Swansea leiknum. Hópurinn fer af stað í fyrramálið og það er ljóst að það er komin töluverð spenna í hópinn og maður öfundar þá “pínulítið”.

    Friðrik Auðunn einn ferðalanga er svo spenntur að hann er búinn að pakka nú þegar

    Pakkað fyrir ferð

    Sé ekki að það vanti nokkurn skapaðan hlut í þetta.

    Hrikalega góða ferð út þið sem eruð að fara.

  • Kop.is Podcast #53

    Hér er þáttur númer fimmtíu og þrjú af podcasti Liverpool Bloggsins!

    KOP.is podcast – 53. þáttur

    Þið getið hlustað á þáttinn beint með því að nota spilarann hér fyrir ofan en þið getið líka smellt á DOWNLOAD-takkann og sótt mp3-skrána ykkur til hæginda. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að þættinum á iTunes með því að setja þennan link, í RSS-áskrift undir podcast-lið iTunes.

    Ég (Kristján Atli) stýrði þættinum sem fyrr og með mér að þessu sinni voru Maggi, SSteinn, Eyþór og Babú.

    Í þessum þætti ræddum við sigurinn á Fulham, bikartapið gegn Arsenal og spáðum í spilin í næstu leiki í deildinni.

  • Arsenal – Liverpool 2-1

    Fyrsta tap ársins staðreynd þegar Arsenal sló Liverpool úr bikarnum í dag á Emirates í hörkuleik.

    Liðin stilltu þessu svona upp í dag:

    Jones
    Flanagan – Skrtel – Agger – Cissokho
    Allen – Gerrard – Coutinho
    Suarez – Sturridge – Sterling

    Jones tók sæti Mignolet á milli stanganna, Agger kom inn í stað Toure og Allen lék við hlið Gerrard í stað Hendo sem var á bekknum eftir smá aðgerð á úlnliðnum í vikunni.

    Fabianski
    Jenkinson – Mertesacker – Koscileny-Monreal
    Arteta-Flamini
    Chamberlain-Özil-Podolski
    Sanogo

    Fabianski, Jenkinson, Sanogo, Podolski og Flamini komu allir inn hjá Arsenal.

    Fyrri hálfleikur

    Það voru fimm mínútur búnar af fyrri hálfleik þegar maður var blótandi yfir því að vera ekki í 0-2. Fyrst fékk Sturridge frábæran bolta frá Gerrard, ekki ósvipað sendingunni gegn Fulham, reyndi að skjóta á milli fóta Fabianski sem varði í horn, dauðafæri. Það var svo mínútu síðar eða svo sem Suarez vippaði boltanum yfir vörn Arsenal á Sturridge sem lék á Fabianski en skaut í hliðarnetið í dauðafæri. Hefði eflaust viljað vera með boltann á þeirri vinstri þarna, en átti engu að síður að gera mikið betur!

    Það var svo á 16 mínútu, eftir hornspyrnu Arsenal, sem að fyrirgjöf kom af hægri kanntinum, Skrtel fór upp í óskiljanlegan bolta, var svo langt frá því að ná honum að þetta minnti mann á David James á sínum Liverpool árum. Sanogo fékk því nægan tíma til að taka boltann á kassann og skjóta. Mér sýndist boltinn fara í hönd Gerrard, þaðan barst hann til Chamberlain sem var einn og óvaldaður og skoraði örugglega, 1-0.

    Eftir þetta var ekki mikið að gerast, fyrri hálfleikur var frekar rólegur og spilaður mjög hægt. Eins og hvorugt liðið vildi taka almennilega sénsa. Það átti svo sannarlega eftir að breytast.

    Seinni hálfleikur

    Fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik voru nákvæmlega eins og fyrstu 45 mínúturnar, við fengum dauðafæri þegar Suarez spólaði sig í gegnum vörn Arsenal en Fabianski varði frábærlega með fótunum. Í næstu sókn kom Podolski Arsenal í 2-0 þegar þeir komust á bakvið vörn okkar, sendu út í miðjan teiginn á þjóðverjan sem skoraði örugglega.

    Stuttu síðar hefði Özil svo getað klárað leikinn en Jones varði mjög vel. Þegar þarna var komið var hrikalegur hraði í leiknum og liðin skiptust á að sækja. Suarez fékk boltann á hægri vængnum, lék inní teig þar sem Podolski kom og sparkaði aftan í Suarez og Webb dæmdi víti. Upp steig fyrirliðinn og setti boltann í sama horn og gegn Fulham fyrr í vikunni, staðan 2-1 og game on! Í kjölfarið kom Hendo inn í stað Cissokho og nú átti að vinna leikinn.

    Sturridge fékk stuttu síðar sitt þriðja dauðafæri eftir frábæran bolta frá Coutinho, aftur reyndi hann að sóla Fabianski sem sá við honum í þetta skiptið. Maður hafði varla tíma til að sækja sér kaffibolla á þessum tíma. Í næstu sókn kom vendipunktur leiksins, Suarez ætlar að taka boltann með sér vinstra meginn í teignum en Chamberlain nelgdi Suarez niður beint fyrir framan Webb. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ákvað Webb að sleppa augljósustu vítaspyrnu tímabilsins. Hræðileg ákvörðun!

    Arsenal menn þurftu eftir þetta að verjast löngum stundum. Við pressuðum ofarlega á vellinum og fannst mér Sterling vera frábær, lék sér að Monreal lengi vel og var alltaf hætta þegar hann fékk boltann. Þetta minnti lengi vel á handboltaleik, hrikalegur hraði og liðin skiptust á að sækja.

    Gerrard var heppinn að fá ekki sitt seinna gula spjal eftir brot á títt nefndnum Chamberlain, en sendi svo fimm mínútum síðar heimsklassabolta innfyrir vörn Arsenal á Coutinho sem náði ekki almennilegu valdi á boltanum og skotið var slakt. Hefði e.t.v. geta sent boltann út á Suarez í staðinn.

    Við fengum lokatækifæri til þess að jafna þegar Agger skallaði framhjá eftir aukaspyrnu Gerrard. Fabianski kom út og náði ekki til boltans (náði aðeins til Aggers í staðinn), en Agger hefði bara þurft að hitta á markið, en þetta var svona dagur, inn fór boltinn ekki.

    Leikurinn fjaraði svo út eftir þetta og niðurstaðan svekkjandi 2-1 tap gegn Arsenal.

    Niðurstaða

    Byrjum á manni leiksins, það er auðvitað Fabianski, klárlega. En besti leikmaður Liverpool í þessum leik fannst mér Sterling (eins og svo oft áður á síðustu vikum og mánuðum). Vantaði kannski upp á end prodöktið hjá honum en hann skapaði hættu hvað eftir annað og var virkilega sprækur í þessum leik.

    Sko, við áttu að vinna þennan leik. Við fengum amk 4-5 dauðafæri ásamt því að Webb gerði sig að athlægi þegar hann dæmdi ekki víti þegar Suarez var sparkaður niður. Það var eins og hann vildi ekki dæma annað víti svona stuttu eftir hitt. Alveg hreint fáránlegur dómur!

    En ég sagði það fyrir þennan leik og fyrir leikinn á Anfield, ef ég hefði mátt velja annan þessara leikja til þess að vinna þá hefði það verið deildarleikurinn allan daginn, alla daga vikunnar. Við höfum átt erfiðu gengi að fagna þarna á Emirates í gegnum árin en frammistaðan og spilamennskan í dag fannst mér nokkuð góð, þrátt fyrir tapið.

    Það er oft stutt á milli hláturs og gráturs, þessi leikur tapaðist vegna þess að sóknin skoraði ekki þrjú mörk að þessu sinni (djúpt, ég veit). Við fáum á okkur of mörg mörk, 2 í dag og er það í þrettánda sinn á leiktíðinni þar sem við fáum á okkur 2+ mörk. Hingað til hefur sóknin reddað því fyrir okkur en náði því ekki í dag, því miður. Á góðum degi hefði Sturridge getað sett þrennu, en hann var búinn að skora í 7 leikjum í röð áður en það kom að þessum leik og því varla við hann að sakast, það hlaut að koma að þessu.

    Sigurvegarinn í þessum leik fær Everton á heimvelli í næstu umferð. Maður horfði á liðin sem eru eftir í pottinum og það var tækifæri þarna til að ná í dollu! En það verður ekki þetta árið því miður.

    Nú er ein keppni eftir, og þar erum við í flottum málum. En það er stutt í næstu lið, fyrir ofan og neðan, og því má ekkert útaf bregða. Þetta tímabil er svo jafnt að við gætum alveg eins endað í sjötta sæti eins og því fyrsta. Liðin fyrir ofan okkur eru að fara spila stóra leiki í CL á næstu vikum og eiga eftir að koma á Anfield á meðan við höfum viku á milli leikja núna þar til í maí. Á þessum tímapunkti er hinsvegar ekkert gefins, allir leikir eru úrslitaleikir þar til sú feita syngur í maí. Við erum á rosalegu rönni og þurfum að halda því áfram og klára tímabilið með stæl!

  • Liðið gegn Arsenal

    Liðið gegn Arsenal er komið, Agger er kominn til baka og tekur sæti Toure. Jones stendur á línunni og Allen kemur í stað Henderson, sem fór víst í litla aðgerð á úlnliðnum í vikunni og tekur sér sæti á bekknum.

    Jones
    Flanagan – Skrtel – Agger – Cissokho
    Allen – Gerrard – Coutinho
    Suarez – Sturridge – Sterling

    Fínasta lið, ég skil þó ekki alveg í því að gefa Jones þennan leik á kostnað Mignolet, en hvað um það. Sterkt lið, eins og við var búist, á með topp topp leik að geta lagt þetta Arsenal lið.

    Lið Arsenal er:

    Fabianski
    Jenkinson – Mertesacker – Koscileny-Monreal
    Arteta-Flamini
    Chamberlain-Özil-Podolski
    Sanogo

    Þeir skipta s.s. einnig um markmann, Jenkinson kemur inn í stað Sagna, Flamini kemur úr banni, Podolski og Sanogo koma einnig inn, sá síðarnefndi á kostnað Giroud, sem er að biðja konunnar afsökunar.

    KOMA SVO!!

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close