Latest stories

  • Stoke á sunnudaginn

    Æ, já alveg rétt það er einn leikur eftir.

    Á sunnudaginn fer fram lokaumferð Úrvalsdeildarinnar og gæti hún hreinlega varla verið minna spennandi en þetta. Sigurvegararnir eru komnir í leitirnar, Meistaradeildarsætin hafa raðast niður á fjögur lið, tvö af þremur liðum eru fallin og Evrópudeildarsætin eru að mestu leiti tryggð (þó að Aston Villa gæti rænt einu þeirra ef þeir vinna FA bikarinn).

    Staða Liverpool er sú að liðið fer í Evrópudeildina á næstu leiktíð, sama hvað – ef ég skil þetta rétt. Liðið er sem stendur í 5.sæti sem þýðir að liðið færi beint inn í riðlakeppnin held ég en ef liðið lendir í sætunum fyrir neðar þá þýðir það að liðið færi í forkeppnina. Í alversta falli lendir liðið í 7.sætinu, Villa vinnur bikarinn og tekur það sæti sem þýðir að Liverpool kæmist í keppnina í gegnum Fair Play deildina og tekur þátt í 1.umferð forkeppninar sem hefst 2.júlí. Það vonandi gerist ekki og liðið tryggir sig beint í riðlakeppnina.

    Það er afar takmörkuð spenna fyrir þessum leik. Tímabilið er svo gott sem búið, Gerrard var kvaddur á Anfield í síðasta heimaleik og gæti þetta verið hans allra síðasta leikur fyrir félagið. Ætli mesta spennan sé ekki það að sjá hvort að Sterling verði í byrjunarliði Liverpool eftir allt fjölmiðlafárið í kringum hann, umboðsmann hans og samningamálin undanfarið.

    Ég skipti reglulega um skoðun hvað það er sem ég vil að Liverpool geri varðandi Sterling í þessum leik. Eina stundina vil ég sjá hann sendan í sumarfrí og sætið hans í liðinu fara til ungs leikmanns eða einhvers sem hefur lagt hart að sér og á það skilið. Aðra stundina vil ég sjá Liverpool spila honum, kaffæra honum í ást og vonast til að hann sjái villu síns vegar – hér áttu heima strákur, komdu því í hausinn á þér!

    Ég veit ekki, ætli maður komist ekki að því á sunnudaginn þegar liðið verður tilkynnt hvað maður vonaðist eftir varðandi hann Sterling. Hvað segið þið, viljið þið sjá hann í hóp eða á að senda hann í skammarkrókinn?

    Sakho er byrjaður að æfa aftur sem er fínt. Hann vonandi kemur aftur í liðið þar sem hann gerir vörn okkar betri – það er bara þannig. Maður hefði viljað sjá Liverpool vinna síðasta leik, láta Gerrard kveðja Liverpool á Anfield í sigurleik og láta þar við sitja en ég býst við að hann vilji rétta úr kútnum og enda á sigri svo hann verður með á sunnudag. Spurning hvort að Sinclair fái tækifæri í byrjunarliðinu en hann er búinn að koma inn á í síðustu tveimur deildarleikjum.

    Það er afar erfitt að ætla að lesa inn í byrjunarliðið fyrir þennan leik en ætli þetta verði ekki nokkurn veginn á þessa átt:

    Mignolet

    Can – Skrtel – Sakho – Moreno
    Henderson – Gerrard
    Ibe – Coutinho – Lallana
    Lambert

    Kannski kemur Lucas inn fyrir Gerrard eða Johnson fyrir Moreno, kannski heldur Lovren sæti sínu, kannski kemur Lambert ekkert inn og kannski byrjar Sterling. Ég veit ekki, eins og ég segi þá er afar erfitt að spá fyrir um þetta. Kannski verða einhverjir leikmenn settir í búðargluggann, kannski fá einhverjir viðurkenningu fyrir erfiði og dugnað í vetur eða einhverjir fá kveðjugjöf frá félaginu. Þetta kemur allt í ljós.

    Eins og segir hér áður þá hefur þessi leikur ekki mikið vægi fyrir Liverpool að öðru leiti en það hvenær liðið hefur næsta tímabil. Það er því undir leikmönnum komið að vinna sér inn gott og kærkomið sumarfrí og endurheimta allavega smá stolt með því að enda vonbrigða tímabil á sigri.

    Segjum bara 0-1 fyrir Liverpool þar sem Ibe skorar sigurmarkið og setur tóninn fyrir það sem koma skal á næstu leiktíð hjá honum, Mignolet hirðir gullhanskan og Liverpool endar á sigri áður en leikmenn og þjálfarar endurhlaða batteríin og gera betur á næstu leiktíð.

  • Hver spilar hvar?

    Hryggsúlan í liði Liverpool er eitthvað sem ég kom inná í síðasta podcasti og í kjölfarið langar mig að skoða aðeins betur hvar hver og einn leikmaður Liverpool hefur verið að spila undir stjórn Rodgers. Fyrsta verk við að byggja upp gott lið er að kaupa inn leikmenn sem þú ætlar að byggja liðið þitt á, hryggsúluna í liðinu. Þetta finnst mér Rodgers alls ekki hafa tekist hjá Liverpool og er það eitt mesta áhyggjuefni mitt núna eftir þetta tímabil. Ég var með sömu áhyggjur á löngum köflum á síðasta tímabili líka, jafnvel þegar liðið var ósigrandi þó sú gagnrýni hafi auðvitað hljóðnað eftir því sem leið á tímabilið.

    Bestu ár bæði Houllier og Benitez voru þegar þeir voru búnir að byggja upp þennan kjarna sem myndaði hryggsúluna í liðinu. Þessir leikmenn voru nánast alltaf í liðinu í stóru leikjunum og raunar flestum hinna líka. Það vantar eflaust menn inn í bæði lið en ca. svona voru þau á hátindi beggja.
    (more…)

  • Kop.is Podcast #81 + Sterling vill fara!

    Raheem Sterling er sagður ætla að biðja um sölu frá Liverpool í þessari viku. Þessu slá allir helstu fjölmiðlar upp og umboðsmaður hans hefur nánast staðfest með því að tala við blaðamenn. Við ræddum þessar stórfréttir sem bárust í beinni í þættinum hér fyrir neðan, höldum umræðum um þetta einnig í þessum þræði.


    Hér er þáttur númer áttatíu og eitt af podcasti Liverpool Bloggsins!

    KOP.is podcast – 81. þáttur

    Þið getið hlustað á þáttinn beint með því að nota spilarann hér fyrir ofan en þið getið líka smellt á DOWNLOAD-takkann og sótt mp3-skrána ykkur til hæginda. Einnig er hægt að gerast áskrifandi að þættinum á iTunes með því að setja þennan link, í RSS-áskrift undir podcast-lið iTunes.

    Ég (Kristján Atli) stýrði þættinum. Með mér að þessu sinni voru Einar Örn, Babú og Maggi.

    Í þessum þætti ræddum við svekkjandi lok tímabilsins og framtíð Brendan Rodgers í ítarlegu máli.

  • Gerrard og ég.

    Siðasti þáttur í sögu okkar af okkar ástkæra fyrirliða, Steven Gerrard. Við munum hér fara í nokkrum orðum um það sem þessi dásamlegi hefur þýtt fyrir okkur sem aðdáendur Liverpool FC. Í kvöld kemur svo podcast og þar með höfum við snúið okkur aftur að málefnum liðsins alls.

    gerrard8

    Kristján Atli

    Ég var búinn að tíunda mínar tilfinningar til Gerrard í löngu máli hérna

    Þetta er mér í raun mikið tilfinningamál. Ég átti eina hetju í uppvextinum, Paolo Maldini, og svo aðra á fullorðinsárunum, Steven Gerrard. Nú, þegar þeir eru báðir hættir að spila eru tilfinningatengsl mín við liðin þeirra að mestu rofin og ég óttast hreinlega að áhugi minn á Liverpool muni þverra á svipaðan hátt og áhugi minn og tengsl við AC Milan minnkuðu eftir að Maldini hvarf á braut (þar spiluðu aðrir hlutir inní reyndar, eins og spilltur eigandi, niðursveifla liðsins og ömurleg framkoma ultra-stuðningsmanna Milan á kveðjuleik Maldini).

    Þetta eru einfaldlega vatnaskil hjá mér í stuðningi við Liverpool. Það væri afskaplega vel þegið ef liðið gæti hlaðið í annað Öskubuskuævintýri strax næsta vetur til að hjálpa mér að verða ástfanginn á nýjan leik. Eins og stendur er Gerrard og hans hámark sem leikmaður (2000-2010 Houllier/Rafa og bikararnir) líklegur til að endast sem hápunktur stuðnings míns við liðið. Þetta hverfur allt á braut með Gerrard. Liverpool verður ekki eins án hans.

    Babú

    Sjálfsagt hefur maður tekið Gerrard eins og sjálfsögðum hlut á köflum eins og líklega flestir stuðningsmanna Liverpool hafa gert. Gerrard hefur gert það sem maður óskar eftir að allir leikmenn liðsins geri, haldi tryggð við liðið. Hef farið yfir þetta að hluta hér og hér en dreg þetta kannski saman aðeins.

    Gerrard fer í flokk með helstu goðsögnum Liverpool og trónir klárlega á toppnum á nýrri öld. Fyrir mér er brotthvarf hans ekkert endalok félagsins eða stuðnings míns við Liverpool en maður tekur auðvitað af ofan fyrir svona mönnum og mun minnast hans um ókomin ár. Félagið hefur oft horft á eftir sínum stórstjörnum og ávallt lifað af. Þegar Liddell fór tóku Shankly árin við. Þar á eftir kom Paisley og nokkru seinna Dalglish. Fyrir mér er Gerrard á meðal þessara kappa í sögulegu samhengi auðvitað fyrir hæfileika og það að halda tryggð við félagið á afar erfiðum tímum, slíkt nánast gerist ekki lengur í nútíma fótbolta, því miður.

    Gerrard er sá síðasti sem kveður af uppöldum leikmönnum Liverpool frá síðustu öld. Þegar Fowler fór 2001 tók Liverpool þátt í titilbaráttu í fyrsta skipti í nokkur ár. Þegar Owen fór vann Liverpool Meistaradeildina. Þegar Carragher fór var Liverpool rétt búið að vinna titilinn öfugt við allar spár fyrir tímabilið. Guð má vita hvað gerist á næsta tímabili eða í framtíðinni en partur af rekstri knattspyrnuliða er að skipta út sínum bestu mönnum. Það er ekki hægt að fylla skarð þessara uppöldu leikmanna eða fá inn mann með sömu tengingu við félagið. En það taka við nýir tímar, nýar og öðruvísi hetjur. Það þarf ekkert að vera verra. Þegar Torres og Suarez voru í framlínu Liverpool saknaði ég ekkert Owen svo dæmi sé tekið og tryggð hans var ekkert meiri en þeirra. Fengum þó alvöru pening fyrir aðkomumennina.

    Allir fóru þeir þó á besta aldri og sýnir það kannski hvað Gerrard er einstakur og fyrir vikið verður goðsögn hans meðal stuðningsmanna Liverpool skuggalaus um ókomin ár.

    Gerrard takk fyrir allt saman

    Óli Haukur

    Ég er ekki það gamall að ég muni sérstaklega eftir því þegar Gerrard var að brjóta sér leið í aðallið Liverpool en mér finnst engu að síður eins og ég þekki ekki annað en Steven Gerrard í Liverpool. Ég var rétt nýorðinn sjö ára þegar hann tók þátt í sínum fyrsta leik með liðinu og þó maður hafði orðið gaman af fótboltanum á þeim tíma þá var vitneskjan og skilningurinn á leiknum eins mikil og í dag.

    Ég kynntist ekki hype-inu í kringum Gerrard þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í aðalliðinu. Undanfarin ár hefur maður fylgst mikið með unglingaliðum félagsins, horft á “næsta” hinn og þennan og ímyndað sér hvort hype-ið í kringum hinn og þennan hafi verið eitthvað í takt við það hvernig það var þegar Gerrard kom upp. Það má vel vera að hype-ið hafi verið til en enginn hefur ,og kannsk mun aldrei, staðið undir því eins vel og hann.

    Þegar ég var yngri og spilaði fótbolta þá sá maður ekki sólina fyrir leikmönnum eins og Michael Owen og Robbie Fowler. Þetta voru mín icon, mínar fyrirmyndir og ég þóttist vera þeir á æfingum eða í bolta út á túni. Það var kannski ekki fyrr en maður fór að verða aðeins eldri, þroskaðri og þori ég að segja gáfaðri, að maður áttaði sig betur á Steven Gerrard og lærði að meta hann jafn mikið eða meira en þessa leikmenn sem voru oftar en ekki í sviðsljósinu og skorandi öll mörkin.

    Árin líða, áhuginn eykst og ást manns og dýrkun á Gerrard óx og óx. Allt náði þetta hámarki fannst mér frá og með 2004 þegar hann gjörsamlega átti heiminn og maður sá hve rosalegan feng Liverpool hafði í höndunum. Ekki nóg með það að vera ógeðslega góður leikmaður, í raun hinn fullkomni miðjumaður, þá var hann sterkur karakter, sigurvegari og drifkraftur. Fullkominn fyrirliði. Það hvernig hann hefur getað borið uppi misgóð Liverpool lið í gegnum öll þessi ár, snúið blaðinu í erfiðum stöðum og unnið leiki og titla upp á einsdæmi er ótrúlegt. Eitthvað sem afar fáir geta leikið eftir.

    Maður á ekki til nógu mörg orð til að lýsa því hve frábær Gerrard er og hve mikið maður metur framlag hans og erfiði til félagsins. Eflaust hefur maður oft tekið hann sem sjálfsögðum hlut og gerir kannski enn, það verður líklega ekki fyrr en á næstu leiktíð að maður átti sig í raun og veru á því hve stórt skarð hann skilur eftir sig – alveg sama þó það sé aðeins farið að hægjast á honum.

    Nú eru tímamótaskipti í sögu Liverpool. End of the Gerrard era. Ég er spenntur, hræddur og sorgmæddur á að þetta sé á enda. Liverpool mun aldrei eiga annan Gerrard, enginn mun eiga eða vera annar Gerrard – Liverpool á því að nota þetta sumar til að búa til nýtt pláss í liðinu en ekki reyna að finna nýjan Gerrard – því það gerist aldrei. Það er bara einn Steven Gerrard!

    Ssteinn

    Það er ekkert einfalt mál að segja frá því hvað fyrirliðinn hefur þýtt fyrir mann sem stuðningsmann. Það er eiginlega fáránlegt hvað þetta félag á stóran part í lífi manns og núna um ansi langt tímabil, þá hefur fyrirliðinn verið stærsti partur félagsins og sá aðili sem tengir mann alveg að rótum þess.

    Hann hefur bara nánast frá fyrstu tæklingu á ferli sínum með aðalliðinu, stimplað sig inn í hjarta manns. Þrótturinn, dugnaðurinn, krafturinn og hefur hreinlega blásið öllum eldmóð. Þar fyrir utan þá hefur hann ávallt komið vel fram í viðtölum og hefur verið algjör fyrirmynd utan vallar. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að hitta kappann nokkrum sinnum og ræða við hann, þetta er einfaldlega stórbrotinn persóna. Þetta allt saman hefur svo skapað honum alveg rosalega virðingu um allt fótboltasamfélagið.

    Steven George Gerrard hefur jafnframt verið miðdepillinn í mínum stærstu stundum tengdum fótbolta. Ég fór til Istanbul, við vitum jú öll hvað þar fór fram og hver kveikti í hlutunum þar með dásamlegu skallamarki. Tveimur árum seinna þá fór ég til Cardiff og þar töfraði hann fram rosalegt mark á rosalegum tíma, alveg búinn á því, en samt náði hann að hrista þetta fram úr erminni.

    Hann gaf okkur stuðningsmönnum allan sinn feril þrátt fyrir stór og mikil gylliboð frá öllum stærstu félögum heimsins, já hann gaf okkur þetta og líklegast er það stærsta gjöfin af þeim öllum. Það er bara mikill heiður að hafa fengið að fylgjast með þessum kappa og hans ferli frá a-ö.

    Stevie, takk fyrir allt og vertu ávallt velkominn heim aftur.

    Maggi

    Fyrir 17 árum síðan var ég nýbyrjaður að kenna í Breiðholtinu, nýorðinn pabbi af stelpu númer tvö og enn að spila fótbolta. Síðan þá hefur lífið mitt tekið gríðarlegum breytingum sem segir mér hversu ótrúlega hollustu hann Stevie G hefur sýnt málstaðnum okkar allra hér, Liverpool FC.

    Ég held svei mér þá að enski boltinn hafi verið á RÚV þegar ég sá hann skora fyrsta markið sitt, slánalegur nr. 28 sem fór í gegnum vörn Sheffield Wednesday og negldi hann inn. Man mómentið eins og það hafi verið í gær. En ferillinn hann hefur verið í raun margskiptur. Fyrst tók maður eftir hörkunni og grimmdinni. Bakvörður og í varnarhlutverki á miðju fyrst um sinn og síðan í flatri fjögurra manna línu með Murphy og Hamann. Þegar Rafa kom gerði Spánverjinn hann að sóknarvopni sem hann hafði alls ekki verið svo glatt fram að því. Fyrst úti á kanti og síðan með AM-C undir senternum. Þar hélst hann hjá Roy og Kenny en þegar Brendan kom var hann færður í quarterback. Allt leysti hann vel, eiginlega fullkomlega allt þar til að fjaraði undan í vetur og ég er ákveðinn að blokka þann kafla bara út í minningunni.

    Það er ótrúlegt að þessi drengur hafi sýnt okkur þessa tryggð. Á 17 árum vann hann sjö titla. Á síðustu 9 árum höfum við unnið einn á meðan að öll stærstu lið heims hefðu þegið að fá hann til liðs við sig. Sérstaklega síðustu 5 árin þar sem hann bar þetta lið á löngum köflum á herðum sínum í gegnum ótrúlega stórsjói innan vallar sem utan, aldrei gafst hann upp á málstaðnum.

    Með brotthvarfi hans hverfur allavega um sinn sá eiginleiki sem ég hef mest tengt við sem stuðningsmaður félagsins. Það er “Scouse” hjartað, uppaldir leikmenn sem hafa gengið á undan öðrum og staðið í raun fyrir það sem klúbburinn vill vera. McManaman, Fowler, Redknapp (ættleiddur Scouser), Owen og Carra þekktastir en við munum líka sum allavega eftir Warnock, David litla Thompson og jafnvel menn eins og Matteo og Harkness, seinna Spearing kallinn. Ég er örugglega gamaldags og hallærislegur en mér finnst meira gaman að kalla nöfn þessarra manna upphátt en margra annarra og ég kvíði því mjög að missa þennan eiginleika úr liðinu, eiginlega bara rosalega mikið.

    Stevie er einstakur leikmaður og hans skarð verður aldrei fyllt með einum manni. Það verður hins vegar að finna leikmenn sem hafa eitthvað af hans eiginleikum. Ég held að erfiðast verði að bæta upp grimmdina og áræðnina sem við höfum vissulega saknað í vetur. Mögulega gæti Emre Can farið í það hlutverk en þá þarf að kaupa mann sem skapar 20 mörk plús á tímabili líkt og hann hefur gert. Það verður lykilatriði í framtíð félagsins okkar að menn taki það alvarlega að á síðustu tveimur tímabilum höfum við tapað heimsklassaleikmönnum eins og Reina, Carra, Agger, Suarez og nú Gerrard. Til að bæta upp svona tap þarf heimsklassa leikmenn.

    En það er ekki mál Stevie. Ég mun klárlega fylgjast með LA Galaxy næsta vetur og vona innilega að þessi Ameríkuferð verði sá endir á ferlinum sem hann vonast til. Ég vill bara eiginlega ekki að hann komi aftur á lán til okkar, á hann ekki bara að “taka Beckham” á þetta því það er pottþétt að lið á meginlandinu myndu þiggja aðstoð hans líka.

    Stevie G ríður út í sólarlagið. Fari hann vel og hafi heila þökk fyrir framlagið.

  • Gerrard – eftirminnilegast.

    Fjórði kaflinn í kveðjustund Gerrard er þegar við pennarnir hér rifjum upp það sem við veljum sem það eftirminnilegasta á ferli hans þau 17 ár sem hann barðist í treyjunni okkar og lengst af þeim tíma í liðum sem voru ekki verðug hans hæfileika og hann bar á bakinu.

    Lokakaflinn kemur svo á morgun þar sem við ætlum allir að draga saman stuttan texta um hvað Gerrard þýddi fyrir okkur sem stuðningsmenn.

    Steini og Einar Örn eru uppteknir erlendis en við hinir hendum þessum punktum inn…bætum strákunum strax inn ef þeir ná innslagi!

    Svo hér er það upprifjun eftirminnilegra atvika:

    (more…)

  • Lokadagur Stevie

    Skulum ekki velta þessu of lengi upp þessum blessaða leik.

    Dagurinn snerist um Stevie G og hans kveðjustund á Anfield. Þó hún hafi endað illa var þetta samt kveðjustund, við skulum bara rúlla yfir daginn í myndum.

    Treyjan Hér til vinstri er það treyjan sem beið eftir kappanum og hans síðasta fyrirliðaband á vellinum. Það band hefur hann borið oftast allra leikmanna í sögu félagsins og án vafa meðal þeirra áhrifamestu í okkar glæstu sögu.

    Þetta band verður væntanlega fært núna yfir á Hendo sem bæði leiddi liðið út fyrir leik og áður en að kveðjustund kom. Vonandi nýtir hann bandið til að verða enn betri en hann er í dag.

    En hvort að einhver mun þora að fara í númer 8 næsta vetur verður gaman að sjá. Ég held að ég myndi bara leggja þessu ágæta númeri…bæði fyrir Gerrard og Heskey á undan honum 😉

    Fyrir leik

    Stevie_girls

    Stúlkurnar hans þrjár voru víst ekki “mascots” í dag en fengu að fara með pabba inn á völlinn. Virkilega sætt að sjá þegar sú litla vildi halda fyrir eyrun þegar inn á völlinn kom.

    Fánar og flögg

    Fullt var af nýjum fánum fyrir fyrirliðann í dag

    S8Gmosaic

    The Kop og Centenary Stand voru með mósaík fyrir fyrirliðann okkar – að sjálfsögðu!

    Fagnaðarlætin

    Lallana kláraði sitt færi mjög vel og í stutta stund vorum við að vinna þennan leik

    Liðið númer 8

    Meira ætla ég ekki að tala um leikinn og við vindum okkur bara í eftir-leik-fagnaðarlætin. Leikmennirnir komu allir í nýju NB – treyjunum sínum með nr. 8 og GERRARD á bakinu. Það var mjög flott!

    Eftir leik

    Að sjálfsögðu var allur fókusinn á fyrirliðanum sem fékk öll sönglögin sín dynjandi í eyrun og trillaði allan hringinn undir dynjandi lófataki.

    SteviemeðJCJR

    Ég ætla að enda á þessari mynd. Legend sem hafa haldið mér gangandi í svo mörg ár að ég nenni ekki að telja. Redknapp flottur á sínum tíma en að sjá Carra og Stevie faðmast þarna skutlaði út fullt af tárum og endalausri hrinu gæsahúða.

    THE CAPTAIN HAS LEFT THE BUILDING KRAKKAR MÍNIR

    rykíaugum

  • Liverpool 1 – C.Palace 3

    Ég virkilega ætlaði að láta mér verða sama hvernig þessi leikur færi varðandi leikskýrslu. Dagurinn snerist um SG.

    Ég get það ekki eftir þessa frammistöðu. Hún var sennilega sú versta í vetur af mörgum sem hægt er að muna eftir, allavega miðað við um hvað var að tefla.

    Byrjunarliðið í dag…

    Mignolet

    Can – Skrtel – Lovren – Moreno
    Gerrard
    Ibe – Coutinho´- Henderson – Lallana
    Sterling

    Varamenn: Ward, Johnson, Toure, Lambert, Lucas, Allen, Sinclair

    Enn á ný reynt að troða SG í holuna og senterinn Sterling, í bakverðinum Emre Can sem er góður leikmaður en svo alls ekki í réttri stöðu.

    Þetta byrjaði ágætlega en strax í kjölfar þess að Lallana skoraði eftir mistök í vörn Palace tóku gestirnir völdin á Anfield. Já takk, þeir tóku völdin og héldu þeim þar til á 70.mínútu þegar að staðan var orðin 1-2, loksins búið að koma SG framar og setja inná framherja. Þó ég skilji ekki hversu Sterling þarf að vera lélegur til að verða tekinn útaf, en það var allavega orðið smá shape á þessu liði.

    Það kom stuttur kafli þar sem við virtumst ætla að skora en vandræðalegur varnarleikur Can og klaufabrot Lucasar (vissulega utan teigs) skóp salt í sárin og ömurlegt tap staðreynd.

    Þetta var ÓBOÐLEGT OG TIL SKAMMAR fyrir þá sem að leiknum komu. Eina sem mögulega gat lyft brosinu hefði verið að klára tímabilið almennilega fyrir Stevie en það tókst ekki.

    Ég er alveg kominn með nóg af þeirri aðferðarfræði sem er í gangi á Anfield og heimta breytingar. Brendan Rodgers lítur vissulega afskaplega illa út enda voru slökustu leikmenn dagsins þeir sem hann keypti. Sérstaklega var sláandi að horfa á Alberto Moreno sem hefur sloppið létt við gagnrýni í vetur. Það er ekki hægt að hafa bakvörð í fjögra manna vörn sem kann ekki að verjast. Lovren leit hræðilega út á ný og vinstri væng í vörn hef ég ekki séð svo veikan síðan Harkness og Piechnik voru þar hlið við hlið.

    Það að láta Can áfram vera í bakverði, troða Stevie í DM og hafa Sterling í senter gengur ekki. Það er FULLKOMLEGA vonlaust og við vitum það öll. Lambert hefur ekkert spilað vel en hann kann þó að vera senter og setur menn inn í leikinn eins og bæði Fowler og Warnock töluðu um fyrir leik. Svo gat Sterling ekkert en eins og að undanförnu hefur hann bara greinilega leyfi til að geta ekkert og fær að klára alla leiki.

    Það þarf að hreinsa út í sumar. Af leikmönnum klárlega, Aspas, Luis Alberto, Allen, Lambert, Balotelli og Borini eiga ekki fleiri mínútur skilið. Lovren má fara ef við fáum tilboð í hann og ef við ætlum að spila fjögra manna vörn þarf þetta lið tvo bakverði og hafsent ofan á senteraþurrðina.

    Stjórinn?

    Ég veit bara ekki meir. Hann hefur staðið sig fullkomlega ömurlega frá leiknum gegn United á Anfield og virðist í dag vera þrjóskupúki sem horfir frekar til ákveðinna leikmanna en liðsins. Það finnst mér sjást í þvermóðskunni með Can í bakverði og endalausa notkun á Sterling.

    Yfir honum starir dökkt ský og hann er í þeirri stöðu að þurfa að losa sig við fullt af mönnum sem hann lagði áherslu á að fá. Stóru spurningarnar eru tvær.

    a) Eru FSG að stjórna innkaupastefnunni og áherslu á endalausa hauga af efnilegum leikmönnum og hann fær að halda djobbinu þess vegna?

    b) Er honum treystandi að skipta út þessum tíu til tólf nöfnum sem ég tel hér upp og fá aðra betri í staðinn?

    Hvort sem er þá þurfum við breytingar eftir þennan HRYLLILEGA vetur.

    Ég er búinn að fá nóg af þessari aðferðarfræði og uppstillingu á liði og klúbbnum í heild

  • Byrjunarlið á SG-daginn

    Verður svona:

    Mignolet

    Can – Skrtel – Lovren – Moreno
    Henderson – Gerrard
    Ibe – Coutinho – Lallana
    Sterling

    Varamenn: Ward, Johnson, Toure, Lambert, Lucas, Allen, Sinclair

    Munið hashtagið #SG8kopis til að spjalla um fyrirliðann í dag!

  • Gerrard-dagurinn í dag – #SG8kopis

    WhenIdie

    16:30

    Nú er komið að leiknum. Að sjálfsögðu allt vitlaust þegar fyrirliðinn labbaði inná með dæturnar þrjár og allur völlurinn söng lagið hans hástöfum, mósaíkmyndirnar auðvitað tókust fullkomlega.

    Þvílíkur hávaði á vellinum og nýr borði á Kop.

    Elska það að halda með þessu liði á svona stundum.

    rykíaugum

    16:20

    Mér sýnist Anfield einfaldlega pakkfullur núna tíu mínútum fyrir leik.

    Gerrard-fjölskyldan er mætt í boxið og við erum öll komin með vasaklútana. Síðasta færsla hér verður 16:30 og svo kemur stutt skýrsla um leikinn og síðan uppfærsla eftir að umfjöllun Lfc.tv lýkur að leik loknum.

    Í dag koma fjölskyldur leikmanna inn á völlinn og farið verður í að þakka fyrir veturinn.

    16:00

    Pardew birtist með kampavínsflösku og afhenti fyrirliðanum í klefanum fyrir leik. Vel gert hjá Pardew sem þekkir það að gott vín getur glatt menn! Þegar Gerrard kom út að hita upp var honum vel fagnað af þeim sem mættir voru snemma í sín sæti.

    Leikurinn í dag verður leikur Gerrard númer 709 fyrir liðið okkar og hann hefur nú skorað 185 mörk.

    Þetta þýðir að hann er þriðji leikjahæstur í sögu félagsins okkar og sá fimmti markahæsti.

    Þetta verður leikur númer 472 sem fyrirliði félagsins og þar trónir hann efstur, 55 leikjum meira en næsti maður. Líklega tala sem ekki verður svo glatt slegin út.

    15:40

    Guð Fowler er í viðtalinu við LFC.tv og menn eru bara hrærðir…verður eiginlega svolítið spennandi að sjá hvernig þessi leikur fer – gæti farið í allar áttir því fókusinn er ekki mikill.

    Þar er líka verið að rifja það upp að hann er eini maðurinn í enskum fótbolta sem hefur skorað mark í úrslitaleikjum allra stóru keppnanna. Þ.e. í úrslitaleik FA-bikarsins og deildarbikarsins í Englandi, Europa League og Meistaradeildarinnar. Ekki nóg með það, liðið hans vann alla þessa úrslitaleiki svo hér er á ferð tölfræði sem aldrei verður slegin út, bara jöfnuð!

    15:15

    Nokkuð af “fyrstu” tölfræði um Steven Gerrard.

    Fyrsti leikur Gegn Blackburn Rovers 28.nóv 1998, kom inná í uppbótartíma fyrir Vegard Heggem og lék í stöðu hægri bakvarðar.

    Fyrsti leikur í byrjunarliði Gegn Tottenham 5.desember 1998, lék á hægri kanti í 2-1 sigri.

    Fyrsta mark fyrir Liverpool Gegn Sheffield Wednesday í 4-1 sigri 5.desember 1999

    Fyrsti leikur sem fyrirliði Liverpool Gegn Olimpija í UEFA bikarnum 15.október 2003. (opinber fyrirliði)

    Fyrsta bikar lyft sem fyrirliði Meistaradeildarbikarinn í maí 2005.

    Fyrsta brottvísun Gegn Everton í september 1999

    Fyrsti landsleikur Gegn Úkraínu í maí 2000.

    Fyrsti landsleiksmark í 1-5 sigri gegn Þjóðverjum í Munchen í september 2001.

    14:50

    Þá skulum við fara að gíra okkur almennilega í gang. Undanfarna daga hafa alls konar “video tribute” streymt inn á vefinn. Ég pikka hér inn tvö:

    Fyrst eru hér 171 mörk á ferlinum han í réttri tímaröð, öll þau bestu en þetta tímabil er ekki með

    Og svo er hérna býsna skemmtileg upprifjun á alls konar mómentum

    Annars er orðið ljóst að okkar maður verður síðastur út á völlinn í dag. Bæði lið munu standa heiðursvörð fyrir hans og dætur hans eru “mascots” dagsins. Stemmingin á Park er víst SVAKALEG og reiknað er með að völlurinn skoppi í takt við lagið hans í allan dag.

    Eldra

    Hér er þá lögð af stað uppfærsla dagsins í dag, 16.maí sem verður hér bara nefndur Gerrard dagurinn.

    Endilega hendið inn ykkar hugsunum á blað í athugasemdir og búum okkur til hashtagið #SG8kopis til að spjalla um mál málanna – our captain says farewell to his people.

    Ég ætla að henda inn hlutum í gegnum daginn um Gerrard og síðan þegar kemur að leiknum þá mun ég skella inn byrjunarliðsuppstillingu á öðrum þræði en halda áfram að uppfæra þennan alveg fram að leik. Nýjast alltaf efst.

    Hér ætla ég að velta okkur upp úr deginum sem snýst algerlega um Steven Gerrard og þá staðreynd að í dag gengur hann inn á Anfield á undan félögum sínum í síðasta sinn. Auðvitað viljum við vinna alla leiki en úr því sem komið er held ég að aðalmálið verði það að SG8 kveður.

    StevieGLeikskýrsla dagsins mun snúast að mestu um það sem tengist fyrirliðanum þó auðvitað eitthvað komi inn um markaskorara og helstu atvik. Á morgun og mánudag höldum við svo áfram að velta okkur upp úr þessum leikmanni sem ég tel þann besta í sögu félagsins þegar á allt er litið.

    Í dag hefur twitter logað af tributes um þennan magnaða mann. Ekki úr vegi að sýna hérna smá samantekt Echo frá því í morgun af nokkrum góðum tístum.

    Ég er með kvíðahnút í maganum fyrir þessum áfanga…ég ætla bara að viðurkenna það. Illa leið mér þegar Carra kvaddi en þetta er bara eitthvað sem líkist engu…nema kannski þegar maður heyrði fréttirnar af brotthvarfi King Kenny.

    Njótum dagsins.

  • Steven Gerrard – leiðin á toppinn

    Allir góðir hlutir taka enda og þannig er það líka með ástarævintýri Liverpool FC og Steven Gerrard. Leiðir skilja kannski um sinn en það þarf enginn að segja mér að við sjáum ekki Gerrard hjá klúbbnum aftur í framtíðinni, kannski bara ekki í sama hlutverki og áður.

    Í gær skrifaði Babu frábæran pistil um uppvaxtarár Steven Gerrard, komu hans inn í Liverpool liðið og árin undir Houllier. Ég tek við keflinu og mun hér fara yfir feril hans eftir komu Rafael Benitez. Það er ekki minn stíll í að fara of mikið í tölfræðina og þess háttar umfjöllun. Þegar kemur að því að kveðja Steven Gerrard þá verður það að vera frá hjartanu.

    JS54974673-1

    (more…)

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close