Latest stories

  • Samanburður leikmanna milli tímabila

    Eftir þetta tímabil get ég hreinlega ekki tekið undir með þeim sem eru með þá töfralausn helsta við öllum vandræðum Liverpool að skipta um stjóra. Rodgers hefur átt mjög erfitt tímabil rétt eins og flestir leikmenn liðsins og ég er ekkert alltaf sammála öllu hjá honum en þetta gríðarlega óþol margra við honum næ ég ekki alveg og sé það ekki sem neina töfralausn að reka stjórann og ráða inn nýjan mann sem sami hópur vill svo líklega fá í burtu sem allra fyrst um leið og næst blæs á móti. Frekar vill ég sjá þeim peningum sem félagið hefur úr að moða í sumar varið í nýja leikmenn.

    Rodgers hefur átt gríðarlega erfiðan og vondan vetur en að mínu mati er ekki hægt að kenna honum einum um og hann vann sér inn á síðasta tímabili að fá að njóta vafans í mótvindi. Undir hans stjórn spilaði Liverpool skemmtilegasta fótbolta sem flest okkar hafa séð liðið spila. Hann sér ekki einn um leikmannakaup félagsins og á ekki að sjá um það í framtíðinni, því ætti pressan að vera á þeirri nefnd í heild að skila af sér sterkara liði fyrir næsta tímabil enda fór síðasta sumar eins illa og það gat farið. Liverpool er með hræðilegan árangur undanfarin ár í að skipta út sínum bestu mönnum.

    Mig langar því aðeins að bera saman frammistöðu leikmanna Liverpool á þessu ári í samanburði við síðasta tímabil og eins bera saman þá leikmenn sem fóru við það sem komu í staðin. Með þessu er kannski hægt að finna betur út hvaða stöður ættu að vera í forgangi að styrkja fyrir næsta tímabil.

    Svona er ég að hugsa þetta og set viðeigandi lit við hvern leikmann/leikmenn eftir því hvort viðkomandi hafi bætt sig milli ára. Þetta er auðvitað bara huglægt mat hjá mér.
    Röðun

    Markmenn
    Markmenn
    Mignolet þurfti ekki að bæta sig mikið til að toppa frammistöðu síðasta tímabils en rétt eins og þá var honum aðeins vorkun í byrjun þessa tímabils enda með litla sem enga hjálp frá vörninni. Um leið og liðið fór að spila aðeins eðlilega vörn fór Mignolegt að standa sig betur, engin geimvísindi á bak við þetta og hann var á dögunum valinn leikmaður tímabilsins hjá Liverpool. Vonandi er hann kominn yfir David James tímabilið sitt og heldur áfram að bæta sig, treysti honum fyrir rammanum á næsta ári eins og staðan er núna, þveröfugt við það sem ég sagði í janúar.
    Brad Jones var síðan jafn lélegur í ár og hann var í fyrra og fer í sumar.
    (more…)

  • Hvíl í friði Benjamín Nökkvi

    Það er alltaf sorglegt þegar fólk fellur frá, hvað þá á unga aldri. Við stuðningsmenn Liverpool FC misstum einn félaga okkar fyrir stuttu síðan, en hann Benjamín Nökkvi var borinn til grafar í dag. Hann hafði barist við illvíga sjúkdóma allt sitt líf og því miður höfðu þeir betur þann 1. maí síðstliðinn. Benjamín var aðeins 12 ára gamall.

    Einkunnarorð okkar fallega félags eiga svo rosalega vel við á svona stundum og merking þeirra er svo falleg. Ég vil fyrir hönd Kop.is votta aðstandendum Benjamíns Nökkva alla okkar samúð og mun minningin um hann lifa áfram um ókomna tíð. Benjamín Nökkvi, You’ll Never Walk Alone. Blessuð sé minning þín.

    809329

  • Evrópudeild – here we come!

    Áður en lengra er haldið ætla ég að vara lesendur við því að þessi pistill er skrifaður af einstakling sem ætlar að líta á glasið sitt hálf fullt, reyna að sjá jákvæðan vinkil á vonbrigðum, fægja skítinn og eflaust má greina einhverja ákveðna pollýönnu hegðun hér.

    Allt í góðu, þá höldum við áfram!
    (more…)

  • Chelsea 1 Liverpool 1

    Okkar menn heimsóttu Chelsea á Brúnni í dag í 36. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Lokatölur urðu 1-1 jafntefli í frekar daufum leik.

    Brendan Rodgers stillti upp þessu liði í dag:

    Mignolet

    Can – Skrtel – Lovren – Johnson
    Henderson – Gerrard
    Sterling – Coutinho – Lallana
    Lambert

    Bekkur: Ward, Touré, Moreno, Allen, Lucas (inn f. Gerrard), Ibe (inn f. Lallana), Sinclair (inn f. Lambert).

    Þetta var bragðdaufur leikur á það heila. John Terry kom heimamönnum yfir strax á 5. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Cesc Fabregas, hafði betur í skallaeinvígi gegn Rickie Lambert. Fabregas átti að fara út af í fyrri hálfleik, fékk gult spjald eftir tæpa mínútu fyrir glæfralega tæklingu á Raheem Sterling sem hefði getað gefið meira og svo sleppti dómarinn algjörlega að dæma á hann fyrir peysutog á 17. mínútu þegar Fabregas virtist halda sjálfur að hann væri að fara að fá rauða spjaldið.

    Hvað um það, ekki í fyrsta og ekki í síðasta skiptið sem Mourinho-lið byrjar leik gróft til að draga tennurnar úr andstæðingunum. Chelsea voru sterkari í byrjun en svo jafnaðist fyrri hálfleikurinn fljótlega út og fátt var um fína drætti þar til Steven Gerrard jafnaði metin á 44. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Jordan Henderson úr aukaspyrnu. Þetta er annar leikurinn í röð sem Stevie G skorar með skalla.

    Þetta mark og sennilega hálfleiksræðan virtist hressa okkar menn við og þeir voru miklu betri aðilinn í seinni hálfleik, pressuðu mikið en náðu ekki sigurmarkinu. Unglingurinn Jerome Sinclair kom inná fyrir Lambert en náði litlum tengslum við leikinn á meðan Jordon Ibe lífgaði upp á sóknina með innkomu sinni.

    Sóknarlínan sem kláraði leikinn fyrir Liverpool var því svona: Sinclair (18 ára), Ibe (19), Sterling (20) og Coutinho (22). Þar að auki var Lazar Markovic utan hóps í dag (21 árs) og Divock Origi (20) er á leið inn í sumar. Það er björt framtíð í þessu liði, það er engin spurning.

    Það sem þetta lið vantar samt – og það sást enn og aftur í dag – eru einn eða tveir heimsklassasóknarmenn á besta aldri, menn sem eru reiðubúnir að leiða þetta unga lið og stíga upp í svona leikjum.

    Þessi leikur ítrekaði bara það sem liggur fyrir í sumar. Jafntefli gegn metnaðarlausum meisturum á heimavelli þeirra með kornungu liði – ekkert til að kvarta yfir en það hefði verið sætt að ná sigurmarkinu.

    Þetta þýðir að sex stig og slæm markatala eru í 4. sætið í deildinni og aðeins tveir leikir eftir. Sú barátta er því búin þetta árið og með töpum Tottenham og Southampton er að verða ljóst að Liverpool endar í 5. sætinu þetta árið og verður í Evrópudeildinni á næsta ári.

    Við höfum allt sumarið til að ræða hvort það er á pari eða ekki, en þetta er niðurstaðan eftir alveg hreint ótrúlega svekkjandi tímabil.

    YNWA

  • Liðið gegn Chelsea

    Byrjunarliðið í dag er komið og er sem hér segir:

    Mignolet

    Can – Skrtel – Lovren – Johnson
    Gerrard – Henderson
    Lallana – Sterling – Coutinho
    Lambert

    Bekkur: Ward, Touré, Moreno, Lucas, Allen, Ibe, Sinclair.

    Sem sagt, sama byrjunarlið og gegn QPR fyrir viku. Athygli vekur að unglingurinn Jerome Sinclair er á bekknum.

    YNWA

  • Chelsea á morgun

    Síðasta upphitun mín á þessu stórfurðulega tímabili. Það hefur oft verið talað um að það að vera stuðningsmaður Liverpool FC sé hálfgerð rússíbanareið, en því er ég ósammála. Þetta er algjör rússíbanareið. Við erum búin að horfa upp á liðið okkar taka tvær afar djúpar og leiðinlegar dýfur, en þess á milli að lyfta sér upp í hæstu hæðir og virka nánast ósigrandi. Það er full stutt á milli hláturs og gráturs í þessu. Hláturinn er mun skemmtilegri, þó svo að ég sé á því að gráturinn styrki menn líka til lengri tíma en í hæfilegu magni þó.

    Þetta tímabil á Englandi hefur reyndar í heild sinni verið nokkuð furðulegt og staðan er bara þannig að mótherjar okkar á morgun, Chelsea, eru búnir að vinna mótið þótt svo að nokkrar umferðir séu eftir. Hversu seinheppnir eru okkar menn samt að stigatalan sem þeir náðu um síðustu helgi, stigatalan sem tryggði þeim titilinn, hún var lægri en stigatala okkar manna á síðasta tímabili. Þetta Chelsea lið er sterkt, en ég er þó á því að lið eins og Man.City, klúðruðu sínum málum all svakalega í vetur. Þetta hefði átt að vera skemmtileg keppni um titilinn, milli þessarra tveggja öflugustu liða Englands. En svo varð ekki, þeir Chelsea menn renndu þessu bara í hlað og það örugglega. Liðin hans Mourinho hafa seint verið sökuð um að spila skemmtilegan fótbolta, eða öllu heldur áferðafallegan, en þau skila árangri og það er það eina sem telur þegar tímabilin eru gerð upp. Það eru engin aukastig gefin fyrir skemmtilegheit, enda fengi hann sjálfur prívat og persónulega, þrjá sekki af mínusstigum ef slíkt væri við lýði.

    En hvað, eru menn bara ekki hálf þunnir eftir öll fagnaðarlætin hjá þeim bláu? Ekkert eftir til að spila fyrir og tímabilið þeirra bara búið hreinlega? Eru þessir síðustu 3 leikir ekki bara töf á Barbados ferðinni hjá leikmönnum? Jú, ég er á því, en þess ber þó að hafa í huga að þótt þú sért þunnur og sért ekki hæfur til að keyra rútu, þá er ekkert mál að vera í henni parkeraðri. Motormouth mun svo sannarlega ekki koma með liðið sitt á Anfield til að gefa okkar mönnum einhverjar gjafir, síður en svo, hann ætlar að ná sér í öll þau stig sem í boði eru. Lögðust þeir á grúfu fyrir ári síðan og biðu þess að þeir yrðu flengdir? Þeir höfðu að engu að keppa þá, frekar en núna. Nei, heldur betur ekki. Þetta Chelsea lið er ekki að fara að láta borða sig á eigin heimavelli, það er algjörlega ljóst.

    En er að einhverju að keppa hjá Liverpool? Er tímabilið ekki bara búið eins og hjá mótherjum okkar? Heldur betur ekki, þessir síðustu þrír leikir skipta bara verulegu máli. Auðvitað er það langsóttur möguleiki að komast upp fyrir nágranna okkar í ManU þar sem 4 sig skilja liðin að og aðeins 3 leikir eru eftir (þessi freaking Hull leikur verður verri og verri eftir sem líður á). Það þýðir að þeir þurfa að misstíga sig tvisvar á meðan við megum bara ekki við því. Ég hef ennþá trú á verkefninu, en sú trú er ekkert öfga sterk neitt. Bæði lið eiga erfiða leiki eftir og allt getur gerst, en því miður hef ég alveg trú á að þeir fokki þessu upp, en hef reyndar trú á að við gerum slíkt hið sama. Lítum á leikina sem eftir eru:

    Crystal Palace – Man.Utd & Chelsea – Liverpool

    Fyrirfram er þetta auðvitað fáránlega erfitt hjá Liverpool og ætti að vera nokkuð létt verk fyrir ManU. Það að Chelsea hafi tryggt titilinn gæti dregið örlítið úr ákveðninni hjá þeim og við vitum líka að þetta Palace lið lætur ekkert rúlla neitt yfir sig á sínum heimvelli.

    Man.Utd – Arsenal & Liverpool – Crystal Palace

    Verulega erfiður leikur fyrir Manchester mennina, þar sem Arsenal er líklegast það lið sem hefur spilað hvað best undanfarna mánuði og eru í bullandi baraáttu um annað sætið í deildinni. Á meðan fáum við Crystal Palace á Anfield, mun hressara að taka á móti þeim en að kíkja til þeirra. Allt opið fyrir góðum úrslitum þá helgina.

    Hull – Man.Utd & Stoke – Liverpool

    Við sáum það fyrir ekki svo löngu síðan, hvað fallbaráttulið geta gert þegar þau eru á miklu hættusvæði. Í þessari stöðu myndi ég allavega alltaf vilja frekar mæta Stoke (sem hefur að engu að keppa) en liði sem er í bullandi fallbaráttu. Allt opið bara.

    Eins og menn sjá hér að ofan, þá er þetta langsótt, en langt því frá að vera útilokað. Þegar vonin er ennþá til staðar, þá heldur maður bara í hana. Skilyrði fyrir þessu öllu saman er þó að leggja þetta Chelsea lið á morgun. Það er bara verkefni sem þarf að fara í og þrátt fyrir að ég hafi sagt hér að ofan að þeir muni selja sig mjög dýrt, þá held ég nú engu að síður að þetta sé besti tímapunktur sem hægt er að hugsa sér til að mæta þeim.

    En hvernig ætlar Brendan nú að stilla þessu öllu saman upp? King Flanno er aldrei þessu vant meiddur, Sturridge verður ekki meira með á tímabilinu og ég efast um að við eigum eftir að sjá mikið af Sakho það sem eftir lifir tímabils. Annars held ég að það séu engar nýjar meiðslafréttir. Ég á því að þetta sé leikur sem Lucas VERÐI að spila til að eiga von á sigri, það bara verður einhver að hreinsa upp það sem dettur til á milli miðju og varnar. Sem sagt, ég spái óbreyttu byrjunarliði þó svo að ég sé langt því frá sammála þeirri uppstillingu.

    Mignolet

    Can – Skrtel – Lovren

    Johnson – Gerrard – Henderson – Lallana

    Coutinho – Lambert – Sterling

    Við þurfum að láta reyna á þetta Chelsea lið, keyra á þá með hraða og krafti strax í byrjun og gera þá ringlaða. Það þýðir ekkert að fara í einhverja taktíska skák, það þarf að taka þetta á hörku, krafti og hraða. Ekkert dútl og ekkert hálfkák, mæta bara brjálaðir til leiks og leggja sig 110% fram. Því miður hefur maður séð alltof oft undanfarið að menn séu ekki á fullri keyrslu. Þessir drengir eru 3 leikjum frá sumarfríi og nú er að eyða þessum síðustu lítrum sem á tanknum eru, hann verður fylltur aftur fljótlega. Ég ætla að vera bjartsýnn og segja að við sigrum þennan leik með tveim mörkum gegn einu. Eigum við ekki að segja að Ricky Lambert setji eitt og Coutinho kóróni flott tímabil með því að setja hitt markið.

    Yfir og út og takk fyrir veturinn í upphitununum kæru lesendur.

  • Íslensk bók um Steven Gerrard

    Á meðan við bíðum eftir upphitun fyrir Chelsea-leikinn kemur hér tilkynning frá Bókaútgáfunni Hólar. Endilega kynnið ykkur þetta:


    Ágæti Liverpool-aðdáandi 

    Um mánaðamótin október/nóvember kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum og Liverpool-klúbbnum á Íslandi bókin STEVEN GERRARD. Höfundur hennar er Sigfús Guttormsson, Liverpool-aðdáandi frá blautu barnsbeini og höfundur margra greina í Rauða hernum, tímariti klúbbsins, og á vefsíðunni Liverpool.is. Í bókinni mun hann rekja feril þessa frábæra knattspyrnumanns frá því að hann hóf barnungur að æfa með Liverpool. Greint verður frá bæði sigrum og sorgum hans. Margt fróðlegt og skemmtilegt verður dregið fram í dagsljósið sem tengist þessari goðsögn hjá Liverpool og félaginu sjálfu.

    Aftast í bókinni verður „Þakkarlisti“ þar sem Gerrard verður þakkað fyrir framlag sitt til félagsins af hálfu stuðningsmanna Liverpool á Íslandi. Þar verða nöfn áskrifenda bókarinnar birt, en Gerrard mun fá eintak af henni afhent við fyrsta tækifæri. Það er okkur mjög í mun að listinn verði sem lengstur og glæsilegastur. Áskriftarverð bókarinnar verður kr. 5.980 og greiðist fyrirfram.

    Þeir sem vilja gerast áskrifendur að bókinni STEVEN GERRARD og fá um leið nafn sitt á „Þakkarlistann“ hafi samband sem fyrst á netfangið: 

    holar@holabok.is

    Nauðsynlegar upplýsingar verða að koma fram í póstinum, s.s. nafnið (hjón, feðgar, mæðgin, mæðgur geta skráð sig saman) sem á að skrá, heimilsfang viðkomandi og kennitala. Þá fær viðkomandi sent til baka reikningsnúmer til að leggja inn á verð bókarinnar. Eins má hafa samband í síma 692-8508 (eftir klukkan 16 á daginn) og skrá sig þar. Þeir sem vilja greiða fyrir bókina með greiðslukorti láti auk þess fylgja með kortanúmerið (16 stafir) og gildistímann (4 stafir).

    Koma svo!
    F.h. Bókaútgáfunnar Hóla ehf
    Guðjón Ingi

  • Sturridge frá fram í september!

    Echo slær upp eftirfarandi frétt í kvöld: Daniel Sturridge er að jafna sig eftir aðgerð á mjöðm á dögunum og nú er staðfest að hann byrjar ekki að æfa fyrr en í september í fyrsta lagi.

    Þýðing: Sturridge missir af a.m.k. fyrsta mánuði næsta tímabils, sennilega meira. Ég myndi skjóta á að við sjáum hann ekki aftur á knattspyrnuvellinum fyrr en í október í fyrsta lagi.

    Þetta setur sumarið fram undan í skýrt ljós. Hér eru framherjar Liverpool í dag: Sturridge, Balotelli, Lambert, Borini. Sturridge verður frá fram á næsta vetur, Balotelli og Borini verða nánast pottþétt í treyjum annarra liða á næstu leiktíð og líklegt verður að teljast að Lambert fylgi sömu leið.

    Framherjar óskast! Það er verkefni sumarsins. Origi kemur og við þurfum a.m.k. einn í viðbót, jafnvel tvo ef Lambert fer. Og þetta þurfa að vera alvöru leikmenn, engir helvítis sénsar úr tilboðskörfunni. Aspas er ekki að fara að færa okkur titilbaráttu á næsta ári, Balotelli ekki heldur. Nú er bara komið að því, það verður að sýna metnað í sumar.

    Þessu tengt: Memphis Depay er á leið til Man Utd og bætist því á langan lista leikmanna sem Liverpool hefur reynt við en misst af á síðustu árum. Í staðinn orða frönsk lið okkur við Paul Georges Ntep, 22 ára sóknarmann Rennes sem á að hafa heimsótt Melwood tvisvar á síðustu 10 dögum.

    Hann er þó ekki framherji, og Depay ekki heldur. Það er langt síðan krafan um alvöru framherja var jafn skýr og nú … nei bíddu, það var síðasta sumar. FSG voga sér ekki að klúðra þessari stöðu annað árið í röð.

    YNWA

  • Ferðasaga Kop.is: maí 2015

    Um nýliðna helgi fór fjórða hópferð Kop.is og Úrval Útsýnar til fyrirheitna landsins. Í þetta skiptið voru ferðalangarnir 40 talsins og ansi stórt hlutfall þeirra var að fara á sinn fyrsta leik með Liverpool FC. Það þótti okkur sérlega ánægjulegt.

    Fimmtudagur

    Ekki byrjaði ferðin vel, á þriðjudagskvöldi kom tilkynning frá Icelandair um að vegna „tæknilegra örðugleika“ yrði að færa flugið til Birmingham frá fimmtudagsmorgni þar til síðdegis. Þar með var fimmtudagurinn að mestu úr sögunni hvað varðaði Liverpool-borg. Við gerðum þó það besta úr þessu. Hópurinn hittist í Leifsstöð og átti gott flug út, sem og stutta og skemmtilega rútuferð milli Birmingham og Liverpool þar sem bræðurnir Óli Haukur og Víðir unnu Pub-quiz Kop.is nokkuð örugglega með 29 stig af 35 mögulegum.

    Hópurinn var kominn upp á Titanic Hotel í Liverpool-borg um ellefu að kvöldi en hressleikinn var slíkur að í stað þess að fara snemma að sofa eftir ferðalagið hoppaði meirihlutinn í leigubíla og beint upp í Chinatown þar sem veitingastaðirnir eru alltaf opnir. Menn skáluðu svo yfir hrísgrjónaskálum á góðum veitingastöðum fram eftir nóttu, frábær endir á þægilegu ferðalagi út.

    Föstudagur

    Fyrsta opinbera verkefnið var að fara með hópinn í skoðunarferð um Anfield-túrinn en við áttum bókaðan einkatúr kl. 11:15 um morguninn og mættu flestir úr hópnum í það. Með svona marga „nýliða“ í ferðinni var ómissandi að fara í skoðunarferðina og fá góða tilfinningu fyrir mannvirkinu Anfield Stadium. Eins höfðu undirritaður og SSteinn, fararstjórar þessa hóps, mjög gaman af því að ganga umhverfis stækkun Main Stand-stúkunnar sem stendur yfir á fullri ferð. Það er skemmst frá því að segja að þetta mun gjörbreyta öllu svæðinu, ekki bara færa vellinum stærri og nýrri stúku heldur breyta nágrenninu í kringum völlinn einnig svo að ég býst við að svæðið umhverfis Anfield verði óþekkjanlegt eftir þrjú ár. Mjög fróðlegt.

    Að Anfield-skoðun lokinni var frjáls tími það sem eftir lifði dags; sólin brosti við okkur og flestir nýttu tækifærið og luku skylduverkunum í verslunum Liverpool-borgar, áður en haldið var á mörg af betri veitingahúsunum. Fararstjórnin hitti meistara Babú sem hafði komið á föstudeginum frá Lundúnum á eigin vegum við annan mann og fórum við með þremur öðrum úr hópnum á Chaopraya, einn besta stað borgarinnar. Þar tókst Babú að ruglast á vínseðlinum og matseðlinum og við hlógum allir svo mikið að það var erfitt að melta matinn á eftir.

    Laugardagur

    Leikdagur. Eins og hefðin hefur skapast fyrir í hópferðum Kop.is fór hópurinn upp á The Vines bar til að hita upp fyrir leikinn. Þar var morgunverður snæddur, vökvinn innbyrtur og gamla hetjan Alan Kennedy kom og hélt stuðinu gangandi. Hann sagði sögur af mörkunum sem hann skoraði í tveimur úrslitaleikjum Evrópukeppnarinnar (geri aðrir betur, sérstaklega verandi vinstri bakverðir) og svoleiðis hraunaði yfir dekraðar, ofborgaðar ungstjörnur nútímaknattspyrnunnar. Þetta var virkilega skemmtileg og fróðleg upphitun áður en hópurinn hélt upp á Anfield og hitaði upp um og í kringum völlinn fram að leik.

    Leikurinn var síðan bráðskemmtilegur. Liverpool byrjaði illa, tók yfir eftir svona kortér og virtist ætla að kaffæra gestina í QPR. Coutinho kom okkur yfir með frábæru marki en liðsfélagar hans gátu ekki nýtt fjölmörg dauðafæri til að auka forskotið svo að það fór um mann þegar QPR jöfnuðu stuttu fyrir leikslok. Ekki skánaði skapið þegar Steven Gerrard, í næstsíðasta heimaleik sínum, lét verja frá sér vítaspyrnu. Gerrard bætti þó fyrir það með frábæru skallamarki á lokamínútunum og það var algjörlega frábært augnablik fyrir hópinn að verða vitni að.

    Við þökkum Gerrard frábærlega fyrir að redda ferðinni fyrir okkur (sem og West Brom, en við skemmtum okkur vel við að fylgjast með velgengni þeirra á laugardagskvöldinu).

    Eftir leik fór fólk í bæinn og aftur á veitingastaði borgarinnar áður en menn komu saman á Bierkeller og fleiri góðum stöðum sem rokkuðu fram eftir nóttu. Frábær laugardagur.

    Sunnudagur

    Sunnudagurinn var frír fram að kvöldmat. Margir fóru aftur í bæinn en sólin sneri aftur eftir að hafa vikið fyrir rigningu á leikdegi. Fararstjórnin hitti Babú og vini á Café Rouge í hádeginu og þar drakk undirritaður kókglas en aðrir drukku meira af öðru:

    Svo mörg voru þau orð. Menn voru hressir á því á köflum um helgina.

    Áfram naut fólk dagsins í blíðunni og um kvöldið hittist allur hópurinn að venju á Bem Brasil, frábæru steikhúsi með hlaðborði dauðans, þar sem borðað var eins og í gat látið. Ég fékk alla skipulagninguna í hausinn þegar þjónninn kom með reikning upp á fimmtán hundruð pund fyrir hópinn og það tók 40 mínútur af sveittum útreikningi til að finna út hver átti að borga hvað. Ég mæli ekki með því. Engu að síður gekk reikningurinn upp og það voru fegnir og glaðir ferðalangar sem nutu síðasta kvöldsins í Liverpool-borg (í bili) á rölti um bæinn og/eða ölstofurnar.

    Mánudagur

    Á sunnudeginum hafði ég fengið þau skilaboð að rútan yrði fyrr á ferðinni en áætlað var. Það reyndist algjör björgun fyrir hópinn því ekki vildi betur til en svo að það hvellsprakk á afturdekki rútunnar um þriðjung leiðarinnar frá Liverpool til Birmingham. Senda þurfti eftir annarri rútu og eftir klukkustundartafir komumst við aftur af stað í rétta átt. Þökk sé flýttri brottför um morguninn var þó nægur tími, við komum til Birmingham rúmlega klst. fyrir flugið sem var nokkuð þægilegt á leið heim, fyrir utan það hve margir sjónvarpsskjáir frusu í blessaðri vélinni þetta skiptið (ég á ennþá eftir að sjá seinni helminginn af The Judge með Robert Downey Jr. – takk Icelandair!).

    Þannig lauk frábærri, viðburðarríkri og áfallalausri helgi í Liverpool. Að undanskilinni seinkun á brottför og hvellsprungnu dekki í heimför gekk allt upp sem gat gengið upp um helgina og við fararstjórarnir munum vart eftir jafn vel heppnaðri ferð.

    Fyrir hönd mín og Steina þakka ég hópnum fyrir frábæra helgi. Við sjáumst í næstu hópferð í haust!

    Steini og Drífa voru í ansi góðum sætum!
    Steini og Drífa voru í ansi góðum sætum!


    Hópurinn hlustar af athygli á Alan Kennedy á The Vines.
    Hópurinn hlustar af athygli á Alan Kennedy á The Vines.


    Ásgeir lögga umkringdur skuggalegum ferðalöngum.
    Ásgeir lögga umkringdur skuggalegum ferðalöngum.


    Óli Haukur, Víðir og Tómas faðir þeirra voru hressir fyrir leik.
    Óli Haukur, Víðir og Tómas faðir þeirra voru hressir fyrir leik.

  • Opinn þráður

    Eitthvað efa ég að það sé von á alvöru færslu hingað inn í dag og því um að gera að opna bara fyrir umræðuna.

    Eflaust hafa margir lesið þetta nú þegar en líklega er þetta það besta um okkar menn í umræðunni núna.

    Svona á milli þess sem maður les um að Chelsea sé á eftir Lambert og Liverpool eigi í basli með að semja við Neto, hver í fjáranum sem það nú er.

    Kristján Atli græjar væntanlega ferðasögu frá Kop hópnum á næstunni en dagurinn í dag er auðveldlega lengsti dagur ársins hjá okkur nokkrum sem vorum í Lverpool borg um helgina, enda var gaman í takti við það. Förum betur í það í kjölfar ferðasögunnar, Kristján Atli var sá eini með kók á þessum sunnudags reikningi og man því meira en flestir aðrir.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close