Þriðju leikmannakaup sumarsins líkleg í þessari viku?

Liverpool Echo ásamt öðrum miðlum greinir frá því í kvöld að Andy Robertson vinstri bakvörður Hull hafi yfirgefið æfingabúðir félagsins í Portúgal þar sem hann er á leið í viðræður við Liverpool. Það stefnir því allt í að hann verði sá þriðji í röðinni í sumar og talað er um £8m verðmiða á honum sem er ansi vel sloppið á þessum sturlaða markaði.

Það er ekkert leyndarmál að Moreno á ekki framtíð fyrir sér hjá klúbbnum og þó mörgum finnist þetta ekki spennandi leikmannakaup held ég (og vona) að hann verði miklu meiri samkeppni fyrir Milner en talið er. Satt að segja grunar mig að hann verði byrjunarliðsmaður fljótlega gangi þessi kaup upp.

Hann hefur spilað yfir hundrað leiki fyrir Hull í liði sem spilar varnarsinnaðan fótbolta en Robertson vakti fyrst athygli í Skotlandi sem sóknarþenkjandi bakvörður og var einn af þeim sem naut mjög góðs af komu Silva til Hull á síðustu leiktíð. Þeir sem þekkja til telja að leikstíll Liverpool henti honum mun betur en leikstíll Hull.

Við skoðum Robertson þó nánar ef hann verður leikmaður Liverpool á næstunni. Liverpool Echo er a.m.k. sá miðill sem við treystum hvað best.

Lucas Leiva til Lazio

Lucas Leiva er farinn til Lazio eftir tíu ára dvöl hjá Liverpool sem er lengst allra í núverandi hópi.

Lucas hefur verið hjá Liverpool 1/3 af ævinni, hann hefur spilað fyrir Liverpool öll fullorðins árin sín og börnin hans eru meira Scousers en Brassar. Innan hópsins er augljóst að Lucas er og hefur lengi verið stór karakter, sérstaklega meðal leikmanna frá S-Ameríku og Spáni. Líklega eiga fleiri eftir að sakna Lucas heldur en bara félagar hans hjá Liverpool því það er alls ekki óalgengt að sjá S-Ameríku menn Manchesterliðanna á samfélagsmiðlum með Lucas. Að þessu leiti er augljóst að hans verður töluvert saknað þó auðvitað komi alltaf maður í manns stað.

Ferill Lucas innan vallar hjá Liverpool hefur vægast sagt verið sveiflukendur en skiptist í tvennt eftir á að hyggja að mínu mati. Fyrstu fjögur árin var hann oft glæpsamlega vanmetinn en eftir meiðslin árið 2011 hefur hann aldrei orðið sá leikmaður sem efni stóðu til sem er hrikaleg synd.

Lucas kom árið 2007 sem sóknartengiliður og leikmaður ársins í heimalandi sínu. Væntingarnar voru því töluverðar og ekki hjálpaði það honum að á undan honum í liðið voru bókstaflega bestu miðjumenn Liverpool síðan 1990, Gerrard, Alonso og Mascherano. Liverpool hefur ekki ennþá keypt leikmann á miðjuna sem er í þeirra klassa.

Eftir að Alonso fór 2009 stækkaði hlutverk Lucas til muna en hann náði alls ekki að fylla hans skarð það vonbrigðatímabil. Hodgson tók við af Benitez árið eftir og enginn leikmaður spilaði vel á þeim hræðilegu mánuðum. Lucas þó oftar en ekki skástur og eftir að Dalglish tók við um áramótin sprakk Lucas loksins út og var valinn besti maður liðsins tímabilið 2010/11. Hann var þar kominn aftast á miðjuna (Mascherano var farinn) og var í toppformi. Hann hélt áfram að blómstra undir stjórn Dalglish í byrjun næsta tímabils og var t.a.m. maður leiksins gegn verðandi Meisturum í Man City nokkrum dögum áður en hans tímabil endaði 1.desember 2011. Hann var töluvert frá tímabilið á eftir einnig og hefur satt að segja verið varaskeifa allar götur síðan. Hann er að byrja um 20 deildarleiki á tímabili og hefur undanfarin 3-4 tímabil oft verið nálægt því að fara. Þessu hefði enginn spáð árið 2011 þegar Lucas virtist ætla að verða næsti frábæri varnartengiliður Liverpool á eftir Hamann og Mascherano. Satt að segja hefur skarð hans ekki verið fyllt síðan 2011, miðverðir Liverpool hafa a.m.k. ekki fengið neina vernd svo heitið geti síðan þá.

Lucas er síðasti leikmaðurinn sem kveður sem keyptur var á valdatíma Gillett og Hicks þó líklega sé sanngjarnara og réttara að tala um hann sem síðasta leikmanninn frá Benitez tímanum. Hann hefur verið leikmaður Liverpool á einhverjum stormasamasta kafla í sögu félagsins og er líklega umdeildasti leikmaður félagsins meðal stuðningsmanna á þessum tíma. Engu að síður er ágætt að hafa í huga núna þegar Liverpool er að kaupa mikið af ungum leikmönnum og byggja upp ungt og spennandi lið að Lucas er eini leikmaður Liverpool sem kom á síðasta áratug. Það er enginn leikmaður eftir sem kom árið 2008, 2009 eða 2010. Samt var alltaf (fyrir utan sumarið 2010) verið að byggja til framtíðar og kaupa leikmenn fyrir næstu 5-10 ár.

Lucas er sá eini eftir sem Hodgson, Dalglish, Rodgers og Klopp hafa allir viljað hafa í sínu liði og haldið. Við förum yfir það seinna hvað varð um alla þá leikmenn sem keytir voru á þessum tíma.

Fyrir mér er Lucas Leiva ekki eitthvað sem ég myndi kalla goðsögn hjá Liverpool. Eins er ég á því að það sé kominn tími á næsta kafla í hans ferli og finnst jákvætt að hann verði skrifaður annarsstaðar. Engu að síður er Lucas leikmaður sem á skilið hellings virðingu frá stuðningsmönnum Liverpool og hann verður aldrei sakaður um að hafa ekki gefið sig allann fram. Hann er frábær fyrirmynd fyrir unga leikmenn félagsins í dag og að mínu mati er alls ekki ólíklegt að við sjáum Lucas aftur hjá Liverpool eftir að ferli hans líkur sem leikmaður. Virkar á mann sem þannig týpa og hann er nú þegar að afla sér þjálfararéttinda.

Lazio og Seria A hljómar mjög vel fyrir mér. Öðruvísi fótbolti sem líklega hentar Lucas betur og gott lið. Hann ætti að eiga nóg eftir og persónulega finnst mér betra að sjá hann þarna en í öðru liði á Englandi þar sem hann gæti mætt Liverpool.

Lucas kom við sögu í 31 leik á síðasta tímabili sem er nokkuð magnað miðað við að liðið var ekki í Evrópukeppni. Hann byrjaði 12 deildarleiki og kom inná í öðrum tólf. Hann er því að skilja eftir sig skarð sem þarf að fylla, sérstaklega með Evrópubolta á þessu tímabili.

Vörnin
Takist Liverpool að kaupa Virgil van Dijk færast allir hinir miðverðir liðsins aftar í röðina (haldi Klopp sig við sama leikkerfi). Matip eða Lovren verða þannig varamenn þegar allir eru heilir. Klavan er að mínu mati engin bæting á Lucas þannig en ef Joe Gomez er ennþá jafn efnilegur og hann var áður en hann meiddist þarf að fara gera ráð fyrir honum sem valkost fyrir aftan þessa menn. Þannig að ef eina breytingin verður van Dijk inn fyrir Lucas og heill Joe Gomez erum við að tala um stökkbreytingu á miðvarðastöðunni.

Miðjan
Lucas var nú þegar kominn aftarlega í röðina á miðjunni og hefur hreinlega ekki þann kraft til að spila þessa stöðu lengur. 2011 útgáfan af Lucas hefði svoleiðis smellpassað inn í leikstíl Klopp.

Henderson og Can hafa leyst þetta hlutverk hingað til og verða væntanlega hugsaðir þar áfram. Wijnaldum getur alveg spilað aftast og komi t.d. Keita er alveg hægt að sjá hann (Wijnaldum) færast aftar á miðjuna.

Ef við segjum að miðjan sé Henderson, Can, Keita og Wijnaldum er augljóst að það er lítið sem ekkert pláss fyrir Lucas. Það er engu að síður sorglega algengt að fimmti kostur þurfi að spila helling hjá Liverpool. Þá er hægt að hugsa til þess að Klopp þarf einhversstaðar að gera ráð yfir Grujic og Ejaria, eða öðrum ungum leikmönnum sem félagið vill augljóslega sjá koma upp. Trent Alexander-Arnold gæti einnig þróast í að verða varnartengiliður eins og hann hefur oft spilað í yngri flokkum.

Fyrir utan þessa leikmenn erum við að hugsa Coutinho og Lallana sem miðjumenn einnig þó þeir hafi aldrei verið að keppa við Lucas um stöðu.

Hvernig sem samkeppnin er þá skilur Lucas eftir sig skrað í hópnum, innan sem utan vallar. Utan vallar þurfa aðrir að stíga upp eins og gengur og gerist í knattspyrnufélögum. Innan vallar er vonandi verið að bæta töluvert við það sem Lucas var að gefa Liverpool undanfarin ár. Þau eru óteljandi skiptin sem maður hefur séð nafn Lucas á leikskýrslu klukkutíma fyrir leik og óttast það versta en endað á að gefa honum nafnbótina maður leiksins.

Við tökum feril Lucas líklega betur saman í næsta podcast þætti og mögulega vill einhver af strákunum taka hans tíma betur saman en hér er gert.

Að lokum mæli ég mjög mikið með að þið hlustið á þetta

Takk fyrir allt Lucas Leiva, toppmaður.

Tilboði í Keita hafnað, enn von engu að síður.

Fréttir í gær og dag segja að tilboði Liverpool (£57m) hafi verið hafnað af Leipzig. Ekkert sem kemur á óvart þar en þetta er engu að síður fyrsta formlega boð Liverpool í kappann sem kannski gefur til kynna að eitthvað er að gerast í þessu máli. Það er ólíklegt að Liverpool leggi inn tilboð upp úr þurru án þess að hafa rætt við Leipzig áður.

Hinn klettharði Ralf Ragnick sem er yfirmaður knattspyrnumála hjá Leipzig heldur því auðvitað áfram fram að hann sé ekki til sölu sama hvert boðið er enda væri það afleikur að segja eitthvað annað útávið. Hann er með góða hönd í þessum póker en fréttir í dag herma engu að síður að hann sé ekki einráður hjá Leipzig og að félagið gæti verið tilbúið að selja hann fyrir rétta upphæð.

Melissa Reddy er blaðamaður hjá Goal.com en telst ágætlega trúverðug þegar kemur að fréttum tengdum Liverpool (svona svipað og Barrett, Joyce, Bascombe og Pearce eru eða hafa verið). Hún setti þessa frétt í loftið í morgun. Áréttum auðvitað að þetta er ekkert gospel þó þetta komi frá vel tengdum blaðamannai, engu að síður nokkuð ljóst að Liverpool lagði inn tilboð.

Aðalatriði í þessu er samt hugur Keita sjálfs, ef hann vill fara og Liverpool er tilbúið að greiða „það sem þarf“ til að fá hann er líklegra en ekki að liðin komist að samkomulagi. Spurning líka hvað Leipzig er tilbúið að ganga langt í að halda ósáttum leikmanni innan liðsins og hvaða áhrif það hefur á aðra leikmenn þegar kemur að því að semja við Leipzig. Þetta er auðvitað dans sem öll lið glíma við og bæði Keita og Liverpool þurfa auðvitað að virða að Keita skrifaði sæll og glaður undir samning hjá Leipzig sem stendur ennþá. Þeir ráða þessu á meðan.

Tilboðið sem talað er um núna er sagt vera nokkura daga gamalt sem kannski sýnir best hvað blaðamenn vita lítið um það sem er að gerast bak við tjöldin.

Það er 14.júlí í dag, Klopp sagði í þessari viku að hann væri ekki stressaður yfir stöðu mála og við ættum því alls ekki að vera það heldur, ekki í bili a.m.k.

Tilboð í Lucas
Takist Liverpool að kaupa Keita er ljóst að einhver fer í staðin og líklega liggur beinast við að sá leikmaður verði Lucas Leiva og rétt í þessu voru fréttir að berast af tilboði Lazio í kappann.


Þetta væri flott fyrir Lucas, hann á nóg eftir fari hann í einhverja af stóru deildunum á meginlandinu.

Liverpool er nú þegar betra
Annars er ágætt líka að hafa í huga grein Paul Tomkins frá því í gær þar sem hann benti á að Liverpool væri nú þegar mun sterkara en undir lok síðasta tímabils.

Wigan í kvöld
Annars er æfingaleikur í kvöld, hinn leikurinn sem Liverpool tekur nálægt heimaslóðum á upphafsstigum undirbúningstímabilsins. Salah, Lallana og Coutinho gætu komið við sögu þar.

Tranmere 0- Liverpool 4

Fyrsti æfingaleikur að baki, gegn nágrönnum okkar í Tranmere hinu megin við Mersey-ána.

Þeir sem vilja fá frekari skýrslu geta litið á þessa af opinberu síðunni en í stuttu máli þá er þetta útgáfan:

Milner skoraði úr víti og Marko Grujic með langskoti í fyrri hálfleik. Skipt að mestu um allt liðið í hálfleik og Chirivella skoraði fljótlega í seinni hálfleik og Woodburn úr öðru víti. Flottur leikur og á fínu tempói.

Fyrst og síðast var mjög gaman að fylgjast með ungu mönnunum, það er alveg ljóst að þeir verða ekki allir í liði og hóp en ég hef fulla trú á því að margir þarna eigi bara einhverja framtíð í boltanum, ef ekki með LFC þá í öðrum liðum.

Grujic, Ojo og Alexander Arnold fannst mér bestir, Solanke leit skemmtilega út og Woodburn var ansi beinskeyttur.

Mikið ofboðslega er nú gaman að sjá Liverpool aftur í sjónvarpi, jafnvel þó um æfingaleik sé að ræða og sá næsti er skammt undan, gegn Wigan strax á föstudaginn.

Opinn þráður – Solanke skrifar undir

Solanke besti leikmaður HM u20 ára er formlega orðinn leikmaður Liverpool og mættur til æfinga.


Þetta eru auðvitað ekki nýjar fréttir en fínt að þetta er frágengið.

Batur má samt ef duga skal hjá okkar mönnum því núna er leikmannahringekjan sannarlega farin af stað og keppinautar Liverpool styrkja sig af miklum móð. Þessi vika hefur verið sérstaklega leiðinleg á markaðnum enda ekki þverfótað fyrir fréttum af United og Everton.

United þurfti auðvitað að fylla skarð Zlatan og gera það nokkuð vel að mínu mati með því að kaupa Lukaku. Eins held ég að það komi United vel að losna við Rooney núna. Lindelof á svo að styrkja vörnina töluvert þó ekki viti maður mikið um þann leikmann. Mournho ætti hinsvegar að þekkja hann vel enda búinn að vera í Portúgal undanfarin ár.

Everton hefur verið hvað virkast á markaðnum en það er óljóst hvort þeir endi sumarið með betra lið. Ef Pickford heldur áfram þaðan sem frá var horfið hjá Sunderland ætti hann að styrkja Everton mikið í markvörslunni. Keane er líklegrri en allir sem þeir eiga fyrir til að mynda öflugt miðvarðapar með Williams. Ramirez og Rooney fylla ekki skarð Lukaku en Giroud eða Benteke gætu gert það í þessu liði. Klaassen og Gylfi myndu svo styrkja miðjuna mikið jafnvel þó Barkley fari á móti. Held samt að Everton hafi ekki keypt neinn í sumar sem ég hefði viljað sjá Liverpool fara á eftir.

Arsenal er búið að styrkja liðið gríðarlega með Lacazette, glansinn fer auðvitað eitthvað af þeim kaupum ef þeir selja Sanchez á móti. Eins ætti Kolasinac að fara beint í byrjunarliðið og styrkja varnarlínuna. Arsenal hefur enn sem komið er gert meira en Liverpool og keypt menn sem maður hefði vel viljað sjá á Anfield.

Man City er annað árið í röð búið að kaupa markmann en þar var augljóst að þeir þyrftu að styrkja sig. Bravo spilaði reyndar langt undir getu á síðasta tímabili og er ekki jafn lélegur og hann leit út oft á tíðum síðasta tímabil. Bernardo Silva er einnig gríðarlega öflug kaup. City endurheimtir svo Gundogan líklega og hefur Jesus núna frá byrjun tímabilsins.

Chelsea er nú þegar búið að selja leikmenn fyrir £50-60m sem skipta byrjunarliðið þeirra litlu sem engu máli. Rudiger er kominn frá Roma og Bakayoko frá Monaco verður væntanlega kynntur fljótlega. Costa á væntanlega ekki framtíð fyrir sér hjá Chelsea og úr því Lukaku fór til United er líklegt að þeir fái Morata í staðin. Þar er ég ekki viss um að Chelsea sé að styrkja sig mikið enda Costa karakter sem gott er að hafa í sínu liði en fullkomlega óþolandi á móti. Eins er Edin Hazard meiddur og missir a.m.k. af undirbúningstímabilinu og því líklega að Chelsea komi töluvert breytt til leiks í ágúst.

Tottenham er eina toppliðið sem hefur ekki keypt neitt en sumarið hjá þeim snýst væntanlega meira um að halda sínum mönnum frekar en að kaupa mikið.

Undanfarin sumur hefur Liverpool ekki verið að klára sín mál fyrr en þegar vel er liðið á júlí og jafnvel í ágúst. Eins gott og það nú er að liðið er komið í Meistaradeildina gerir það markaðinn einnig aðeins erfiðari að því leiti að standardinn hækkar og verið er að reyna kaupa betri leikmenn. Salah er einn af bestu leikmönnum Meistaradeildarliðs Roma, það er frábært að vera búin að landa honum. Það að aðrar viðræður dragist eitthvað fram á sumar er líklega ekkert sem kemur þeim sem þekkja til innanbúðar á óvart.

Liverpool mun styrkja sig það er öruggt, snýst bara um það hvort takist að landa Keita, van Dijk eða The Ox eins og slúðrarð hefur verið um eða það poppi upp svona Wijnaldum kaup líkt og í fyrra sem höfðu lítið sem ekkert verið í umræðunni.