Latest stories

 • Sigurvegari ágústmánaðar í fantasy deild Kop.is

  Þá er fyrsti mánuðurinn búinn í deildinni og kominn tími til að líta á fantasy deild kop.is. Eftir að hafa eytt gríðarlegum tíma fyrir tímabilið og skoðað mikið magn af tölfræði skila það sér að sjálfsögðu fyrir liðið mitt sem situr í 285. sæti í 407. liða deild. Ef við heimfærum það yfir í tuttugu liða deild væri mitt lið í 14. sæti þar sem sum liðin mættu seint til leiks. Svona er þetta stundum í fantasy og maður tekur ekki alltaf réttar ákvarðanir, nema Hallveig Sigurbjörnsdóttir sem er sigurvegari ágústmánaðar hjá Kop.is. Hún hafði trú á John Lundstram frá upphafi, bæti við Pukki eftir fyrstu umferð og Cantwell í þeirri þriðju en það eru einmitt þeir þrír sem hafa skilað flestum stigum miðað við kosnað, ásamt Patrick Van Aanholt í fyrstu fjórum umferðunum.

  Hallveig var efst í deildinni þegar við kynntum verðlaunin en missti toppsætið í síðustu umferð. Hún komst þó aftur á toppinn þegar það skipti máli, þó það hafi verið tæpt. Eysteinn Guðvarðarson skellti í wildcard fyrir þessa umferð og náði 86 stiga umferð og er aðeins stigi frá toppsætinu. Af pennum síðunar eigum við einn að berjast um toppsætið ( eftir stuttan yfirlestur vona ég sé ekki að missa af einhverjum ) en Ólafur Haukur er í tuttuguasta sæti, en spurning hvort það ætti að telja það með þar sem hann hefur verið með þrjá Man Utd leikmenn frá fyrstu leikviku.

  Sigurvegari ágústmánaðar er því eins og áður sagði Hallveig sem á þá tvær máltíðir á BK Kjúklingi og getur nálgast það á staðnum á Grensásvegi 5. Hallveig er einnig í þriðja sæti af íslendingum sem spila leikinn og í 2731. sæti heilt yfir sem þýðir að hún er í topp 0,00044% þeirra spilara sem tóku þátt í ár og því alls enginn skömm að ná ekki að skáka henni í þessum mánuði!

  [...]
 • Opnunarleikur kvennaliðsins gegn Reading

  Núna kl. 13 að íslenskum tíma hefst fyrsti leikur tímabilsins hjá stelpunum okkar. Leikurinn fer fram á heimavelli, þ.e. á Prenton Park. Liðið hefur verið tilkynnt og lítur svona út:

  Bekkur: Kitching, Purfield, Kearns, Hodson, Babajide, Linnett

  Afar ánægjulegt að sjá Jesse Clarke aftur í byrjunarliðinu eftir meiðsli sem héldu henni frá vellinum seinnihluta síðasta tímabils. Þá verður athyglisvert að sjá nýju leikmennina, en þær byrja allar inná.

  Reading verða klárlega erfiðir andstæðingar, enda er þetta lið sem endaði í efri hluta deildarinnar á síðasta tímabili. Leikir liðanna voru þó jafnir og okkar konur voru síst lakari aðilinn, töpuðu vissulega fyrri leiknum 0-1, en gerðu 2-2 jafntefli í þeim síðari, og svo áttust liðin við í bikarnum þar sem venjulegum leiktíma lauk með jafntefli en okkar konur unnu í vítaspyrnukeppni. Það má því reikna með að allt verði í járnum í dag.

  Vert að minna á að það er hægt að horfa frítt á leikinn, ýmist í gegnum app sem heitir The FA Player og er fáanlegt fyrir iOS og Android, en einnig með því að fara hingað:

  https://faplayer.thefa.com/home/womens-super-league

  Í báðum tilfellum þarf þó að búa til aðgang hjá FA, og það borgar sig klára það áður en leikur hefst.

  Tveir leikir fóru fram í gær, Bristol og Brighton gerðu 0-0 jafntefli, en sá leikur sem fékk meiri athygli var derby leikur milli City og United. Sá leikur fór 1-0 fyrir City með marki frá fyrrum Liverpool leikmanninum Caroline Weir. Þar var gamla aðsóknarmetið slegið all rækilega, en rúmlega 31 þúsund manns mættu á leikinn. N.b. þá var gamla metið í kringum 5 þúsund, og það var sett í vor. Það er nú óvíst að við eigum eftir að sjá þessar tölur á Prenton Park núna á eftir, en það kæmi ekki á óvart að sjá fleiri áhorfendur en voru að jafnaði á heimaleikjum liðsins á síðasta tímabili.

  Við uppfærum svo færsluna að leik loknum með úrslitum, en minnum á umræðuna bæði í athugasemdum við færsluna sem og undir #kopis myllumerkinu á Twitter.


  Leik lokið með sigri Reading, 0-1. Það var að sjálfsögðu Fara Williams sem skoraði sigurmarkið með óverjandi skoti úr aukaspyrnu um 5 mínútum fyrir leikhlé. Vicky skipti síðan þeim öllum sóknarmönnunum inná í seinni hluta síðari hálfleiks, fyrst Babajide, þá Ashley Hodson, og að lokum Kirsty Linnett. Engri þeirra tókst að finna netmöskvana, þó svo að Babajide hafi nú verið ansi nálægt því með góðu skoti frá vítateigshorninu sem fór rétt framhjá.

  Anke Preuss varði mjög vel a.m.k. í tvígang, þar af á fyrstu 10 sekúndunum, en annars vil ég tilnefna Niamh Charles sem mann leiksins, en hún var sívinnandi á miðjunni og átti a.m.k. tvö góð upphlaup upp vinstri kantinn, í báðum tilfellum gaf hún stórhættulegar fyrirgjafir fyrir markið en í hvorugt skiptið voru sóknarmennirnir okkar á réttum stað.

  Semsagt, ekki úrslitin sem við óskuðum eftir, en klár bæting frá 5-0 tapinu í fyrsta leik í fyrra.

  [...]
 • Afhverju er Liverpool svona stórt á Íslandi?

  In this rugged, remote land of fire and ice, straddling the North American and Eurasian tectonic plates around a thousand miles from the shores of the River Mersey, there is a proud, fervent body of Liverpudlian passion, knowledge and culture, representing Liverpool in their own unique way.

  Svona endar Joel Rabinowitz hjá Liverpool.com grein sína um stuðningsmenn Liverpool á Íslandi. Hann hafði samband við okkur Mumma á LFCHistory.net og smíðaði þessa fínu grein út frá því.

  Hér má nálagast greinina 

  Komið inn á uppruna bæði Kop.is og LFCHistory.net, tengingu Liverpool við Ísland og rosalegan stuðning við liðið hér á landi ásamt auðvitað úrslitaleiknum í Madríd.

   

  [...]
 • Facebook leikur Kop.is

  Í tilefni af útgáfu bókarinnar Enski Boltinn – Tímablið 2018-2019, þá ætlum við að henda í léttan Facebook leik á Facebook síðu Kop.is. Það er ákaflega einfalt að taka þátt, bara kommenta undir þessari færslunni á Facebook og við munum draga út 2 heppna aðila þann 11. september nk. Vinningurinn er að sjálfsögðu þessi skemmtilega spurningabók.

  Bókin er stútfull af spurningum og er skemmtileg til að grípa í þegar vinir hittast eða bara ef maður er einn og sér og vill fræðast um enska boltann. Höfundur hennar er Gauti Eiríksson. Bókin ætti að fást í öllum helstu bókabúðum landsins.

  Sjá nánar um bókina á Youtube

  [...]
 • Gullkastið – Ekkert að óttast á Turf Moor

  Sannfærandi sigur á Turf Moor sýnir líklega best þróun Liverpool liðsins undanfarin ár. Mesta “Tony Pulis Stoke” lið deildarinnar átti ekkert í líkamlega sterka leikmenn Liverpool sem eru á sama tíma mun betri á öllum stigum fótboltans. Van Dijk og Alisson fóru á meginlandið fyrir leik til að ná í verðlaun sem bestu varnarmenn álfunnar á síðasta tímabili og Van Dijk ætti að vera næsta öruggur með Ballon d´Or. Úrslit í öðrum leikjum voru aftur með ágætum og segja kannski hvernig þetta tímabil er að þróast og leikmannaglugginn lokaði í Evrópu. Komum inn á þetta o.fl. í þætti vikunnar.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 251

  Kop.is á Facebook og Twiter – Endilega fylgið okkur þar líka.

  (more…)

  [...]
 • Kvennalið Liverpool – nýtt tímabil að hefjast


  Efsta röð frá vinstri: Jesse Clarke, Ashley Hodson, Leighanne Robe, Anke Preuss, Fran Kitching, Kirsty Linnett, Niahm Charles, Rhiannon Roberts.
  Miðröð frá vinstri: Melissa Lawley, Missy Bo Kearns, Jade Bailey, Rinsola Babajide
  Neðsta röð frá vinstri: Christie Murray, Courtney Sweetman-Kirk, Niahm Fahey, Vicky Jepson, Sophie Bradley-Auckland, Jemma Purfield, Amy Rodgers, Becky Jane

  Nú styttist óðum í fyrsta leik kvennaliðs Liverpool, en hann fer fram um næstu helgi, nánar tiltekið þann 8. september.

  Okkar konur hafa ekki setið auðum höndum yfir sumarið, og það hafa orðið nokkrar breytingar á hópnum, en þó sem betur fer ekki jafn margar og fyrir ári síðan! Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:

  • Leandra Little var leyst frá samningi. Óhætt að segja að tilraunin með þennan fyrirliða liðsins hafi ekki gengið upp. Svipað gildir um Jasmine Matthews og Yana Daniels, en þær voru líka leystar frá samningi. Engar af þessum leikmönnum spiluðu neitt aðalhlutverk á síðasta tímabili.
  • Laura Coombs er sömuleiðis farin frá félaginu. Nú var hún með mikilvægari leikmönnum liðsins á miðjunni á síðasta tímabili, og gekk til liðs við City í sumar. Það er því ekki víst að þessi breyting sé eitthvað sem Vicky hafi viljað, en það verður líklega að koma í ljós hvaða áhrif þessi vistaskipti munu hafa. Veltur aðeins á því hversu mikið hún mun fá að spila hjá þeim bláklæddu. Laura er 28 ára svo aldurinn ætti ekki að vera lykilatriði í þessum gjörningi.
  • Fyrsti leikmaðurinn sem bættist við hópinn var Becky Jane, en hún er 27 ára varnarmaður sem spilaði fyrir Reading síðustu 8 ár.
  • Þá kom Melissa Lawley í hópinn. Hún er 25 ára miðjumaður/sóknarmaður sem kemur frá City, var þar frá 2016 – 2019 og spilaði 22 leiki á þeim tíma. Hún var nýverið kölluð í landsliðshóp Englendinga vegna vináttuleikja sem liðið mun spila í vikunni.
  • Að lokum var samið við Jade Bailey. Hún verður 24 ára í lok árs og spilar ýmist sem varnarmaður eða sem varnarsinnaður miðjumaður. Jade var á mála hjá Chelsea síðustu 4 ár en þar af var hún á láni hjá Reading síðasta árið á meðan hún var að ná sér af slæmum liðbandameiðslum. Hún hefur leikið með U17 og U20 landsliðum Englands.
  • Svo má ekki gleyma akademíunni, en Missy Bo Kearns fékk sínar fyrstu mínútur með aðalliðinu í mars á síðasta tímabili, og hefur nú verið tekin formlega inn í aðalliðshópinn. Hún er uppalin hjá klúbbnum, og þær Vicky hafa unnið saman frá því að Kearns byrjaði að æfa með klúbbnum 8 ára. Þá hefur undirritaður ekki fengið það að fullu staðfest, en ég hef lúmskan grun um að hún sé skyld manni að nafni Jamie Carragher.
  • Að lokum var svo samið við fyrirliðann Sophie Bradley-Auckland upp á nýtt, og þá fengu markverðirnir okkar, þær Anke Preuss og Fran Kitching báðar nýja samninga í sumar. Jú og Niahm Fahey var gerð að varafyrirliða.

  Af öllu framansögðu þá verður nú að teljast að liðið sé sterkara í upphafi þessarar leiktíðar heldur en fyrir ári síðan, þó ekki nema vegna þess að nú er liðið búið að spila saman í heilt ár. Vissulega verður samt að koma í ljós hvaða áhrif það mun hafa að hafa misst Coombs.

  Í sumar var svo tekið upp á þeirri nýbreytni að bæði karla- og kvennaliðin fóru saman í æfingabúðir í Bandaríkjunum. Ferðalag liðanna var það sama, en liðin æfðu nú samt á sitt hvorum stöðunum. Leikirnir sem stelpurnar léku voru líka bara tveir. En þetta var afar gleðileg nýbreytni, og sýnir vonandi aukna áherslu á kvennaliðið hjá klúbbnum okkar.

  Í framhaldi af því er svo komin upp umræða um að kvennaliðið leiki e.t.v. leik á Anfield í vetur. Á síðasta ári var heimavöllur Tranmere Rovers – Prenton Park – heimavöllur liðsins, en sá völlur er tæknilega séð ekki í Liverpool heldur í Birkenhead (sem er vissulega skammt frá Liverpool). Aðsóknin á leikina á síðasta ári var vissulega ekki slík að það væri ástæða til að opna allan Anfield leikvanginn, áhorfendatölur voru að jafnaði mældar í hundruðum og í besta falli í einhverjum þúsundum. En í kjölfar allrar umræðunnar um kvennaboltann eftir HM í sumar, þar sem leikir enska kvennalandsliðsins drógu jafnvel fleiri áhorfendur að sjónvarpinu heldur en úrslitaleikurinn í meistaradeildinni í vor, þá er kannski ekki loku fyrir það skotið að þessar tölur stefni upp á við. Það var víst gerð tilraun með að láta kvennaliðið spila á Anfield fyrir nokkrum árum, þá var eingöngu hleypt inn í Kop stúkuna, og ku víst hafa tekist vel. Það verður gaman að sjá hvort af verður í vetur. A.m.k. væri undirritaður alveg til í að skella sér á tvennutilboð einhverntímann í vetur: sjá leik með karlaliðinu og svo annan með kvennaliðinu, helst báða á Anfield.

  Það mun þó sem betur fer ekki verða nauðsynlegt að ferðast til Bretlands til að sjá leiki liðsins á næsta tímabili, því það nýmæli verður tekið upp að það verður hægt að horfa á alla leikina í FAWSL deildinni í vetur í gegnum sérstakt app sem var einmitt sett í loftið í dag. Appið er ókeypis og allir leikirnir þar inni verða opnir. Þetta er að sjálfsögðu mikil og jákvæð breyting, þar sem þessir leikir voru almennt ekki sýndir á síðasta tímabili, nema þá stöku leikur í beinni á Facebook, en nú er hægt að ganga að þeim vísum þar inni.

  Semsagt, fyrsti leikurinn verður næstkomandi laugardagsunnudag þegar okkar konur mæta Reading. Við munum að sjálfsögðu hita upp fyrir þann leik, og vonandi mun sá leikur hjálpa aðeins til við fráhvarfseinkennin vegna landsleikjahlésins hjá strákunum.

  [...]
 • Burnley 0 – 3 Liverpool

  Mörkin

  0-1 Wood (sjálfsmark, en samt eiginlega Trent) 33. mín
  0-2 Mané 37. mín
  0-3 Firmino 80. mín

  Gangur leiksins

  Það þurfti rétt um hálftíma til að fá fyrsta markið í leikinn, fram að því hafði leikurinn svosem verið sæmilega fjörlegur. Burnley fengu eitt færi sem lyktaði mjög af rangstöðu, Salah átti skot sem fór í stöngina (mögulega með viðkomu á litlaputtanum hjá Pope), og svona eitt og annað fleira. En í eitt skiptið sem okkar menn unnu boltann og sóttu hratt á Burnley þá léku Trent og Hendo aðeins sín á milli hægra megin áður en Trent lét vaða með fyrirgjöf á markið. Boltinn fór aðeins í öxlina á Wood, nógu mikið til að breyta um stefnu og fara úr því að vera fyrirgjöf yfir í að vera fallegt skot sem fór beint í vinkilinn. Formlega séð verður markið skráð sem sjálfsmark, en Trent á að sjálfsögðu allan heiðurinn af markinu og naut fagnaðarlátanna skuldlaust.

  Aðeins fjórum mínútum síðar töpuðu Burnley boltanum klaufalega beint í lappirnar á Firmino, hann sótti upp að markinu með Salah hægra megin við sig og Mané vinstra megin, endaði á að stinga boltanum á hárréttum tíma inn fyrir á Mané sem afgreiddi boltann örugglega í fjærhornið.

  Seinni hálfleikur var svo ágætlega líflegur, en skilaði ekki marki fyrr en á 80. mínútu. Áður en að því kom komu alls konar hálffæri en fátt sem mun rata í sögubækurnar. Henderson varð fyrir hnjaski og var skipt út fyrir Ox nokkrum mínútum síðar. En það var semsagt um 10 mínútum fyrir leikslok að boltinn barst á Salah á hægri kantinum, hann var nálægt því að leika á varnarmanninn en spilaði svo boltanum inn að vítateigsboganum, þar kom Firmino aðvífandi og var í betra skotfæri en Salah. Brassinn lét vaða og skoraði þar með sitt 50. mark í deildinni, og er fyrsti Brasilíumaðurinn til að ná þeim áfanga (sá næsti í röðinni er Philippe nokkur Coutinho). Nokkrum mínútum síðar var svo Mané og Firmino skipt útaf fyrir Origi og Shaqiri, Shaq fékk þar með sínar fyrstu mínútur í deildinni á þessu tímabili. Mané var eitthvað fúll þegar hann settist á bekkinn, svo virtist vera að hann væri ósáttur við að Salah hafi ekki gefið á hann skömmu áður þegar Mané var í upplögðu færi. Rétt undir lokin komust svo Burnley í hættulega sókn þegar maður hafði á tilfinningunni að okkar menn væru bara komnir í þann gír að sigla þessu örugglega heim, en þar spilaði frammistaða Adrian aðeins inn í. Meira um það á eftir. En leiknum lauk semsagt með frekar öruggum sigri, og liðið því eitt á toppi deildarinnar þegar við siglum inn í landsleikjahlé.

  Umræðan

  Nokkrar staðreyndir áður en lengra er haldið:

  • Eins og áður kom fram er Firmino fyrsti Brasilíumaðurinn til að skora 50 mörk í úrvalsdeildinni.
  • Liðið er nú komið með 13 sigra í röð í deildinni, en svo löng hefur sigurgangan aldrei verið áður.
  • Liðið er komið í þann gír að setja hvert metið á fætur öðru, en fyrir skömmu náðist sá áfangi hjá Klopp að ná í 300. stigið með liðinu, og það gerði hann í 146 leikjum, en engum öðrum knattspyrnustjóra hefur tekist að ná þeim árangri í þetta fáum leikjum.
  • Adrian náði að halda hreinu í fyrsta skipti með liðinu.
  • Salah hefur nú átt þátt í 100 mörkum fyrir Liverpool: 74 mörk og 26 stoðsendingar.
  • Liðið er búið að vinna 4 fyrstu leikina í deildinni, annað árið í röð. Slíkt hefur ekki gerst áður.
  • Liðið er eitt efst í deildinni, og verður það a.m.k. þangað til 14. september þegar næstu leikir fara fram.

  Þetta var annars solid liðsframmistaða, og margir sem léku vel. Gefum samt Roberto Firmino nafnbótina maður leiksins, hann lagði upp mark Mané og skoraði svo síðasta markið. Enginn leikmaður átti neitt sérstaklega slæma frammistöðu.

  Það verður sjálfsagt eitthvað rætt um meinta græðgi hjá Salah varðandi það að gefa boltann ef annar leikmaður er í betra færi en hann. Þetta gerðist a.m.k. tvisvar í leiknum í dag, annars vegar þegar Firmino var í betra færi, og í seinna skiptið þegar Mané hefði átt að fá boltann. Sjálfsagt verður þetta rætt innan hópsins. Það er ansi fín lína sem þarf að finna í þessum efnum, menn verða ekki markakóngar tvö ár í röð með því að vera ekki pínku gráðugir. Þar að auki má líka alveg finna dæmi þar sem Salah lætur boltann fara til annarra leikmanna sem eru í betra færi en hann, t.d. eins og bara í þriðja markinu í dag. Það má samt reikna með einhverri umræðu um þetta á næstunni.

  Við skulum líka aðeins ræða frammistöðu Adrian í markinu. Það er greinilegt að liðið veit að hann er ekki jafn góður í löppunum eins og Alisson, reyndar alveg fjarri því, og því er boltanum minna spilað til baka. Þegar Adrian sendir boltann langt fram er það alveg hipsum haps hvort hann lendir innan vallar eða utan, og hvort hann lendir hjá okkar mönnum eða andstæðingunum. Þetta færi sem Burnley fékk í lokin kom einmitt upp úr því að menn voru að spila boltanum örugglega sín á milli, boltinn barst til Adrian sem þrumaði honum upp á hægri kantinn og þar tapaðist boltinn, Burnley komst í sókn og voru ögn óheppnir að ná ekki að skora. Það er því ljóst að við munum fagna því þegar Alisson verður leikfær aftur, en á sama tíma er líka alveg ljós að við viljum ekki að hann verði kallaður til of snemma. Á meðan liðið er að vinna leikina sína skiptir þetta ekki öllu máli.

  Að lokum er líka áhugavert að skoða stöðu hinna liðanna í hinu svokallaða “topp 6”. Það er áhugavert að í augnablikinu er Arsenal eina liðið fyrir utan Liverpool og City af þessum topp 6 liðum sem er raunverulega í topp 6. Og ef við skoðum hvaða lið eru taplaus í deildinni í fyrstu fjórum leikjunum, þá eru það Liverpool, City, Leicester og Wolves. Það borgar sig alveg örugglega að gefa þessu nokkra leiki til viðbótar, og taka stöðuna eftir 10-15 leiki, en mögulega erum við að sjá breytingu á þessum “hefðbundna” topp 6 lista.

  Hvað er framundan?

  Jú það er blessað landsleikjahléið. Flestir okkar leikmanna eru einmitt landsliðsmenn og verða því á ferð og flugi. Það eru einhverjar undantekningar á því eins og gengur, t.d. er talað um að Shaqiri ætli ekki að gefa kost á sér í landsliðið í þetta skiptið og ætli að vinna á Melwood að því að komast betur í takt við leik Liverpool. Munum líka að hann var jú eitthvað meiddur í upphafi tímabilsins. Þetta verður svo áhugavert landsleikjahlé hjá Trent sem var valinn í enska landsliðið, á meðan Kyle Walker situr heima.

  Það verður síðan heimaleikur á móti Newcastle sem bíður okkar manna, á meðan City þurfa að sækja Teemu Pukki og félaga í Norwich heim. Krossum fingur og vonum að Finninn fljúgandi sökkvi þeim bláklæddu, í kjölfar þess að okkar menn haldi áfram að hirða 3 stig á Anfield. Og í framhaldi af því tekur við ansi þétt leikjaprógram hjá okkar mönnum, og alveg klárt mál að við munum sjá talsverða róteringu á liðinu. En njótum þess að vera á toppnum, og vonum að það vari sem lengst!

  [...]
 • Byrjunarliðið gegn Burnley á Turf Moor

  Rauði herinn hefur ferðast þær 52 mílur sem liggja frá Anfield til Turf Moor og munu mæta baráttuglöðum Burnley-mönnum í dag. Jói Berg er fjarri góðu gamni í dag vegna meiðsla en Kópavogskappinn knái hefur verið iðinn við kolann að skora í leikjum gegn Liverpool.

  Engar fréttir eru af meiðslum úr herbúðum okkar manna fyrir utan Alisson sem meiddist í fyrstu umferðinni og Naby Keita sem er tæpur. Klopp hefur því marga valkosti í liðsvalinu og hefur skilað inn skýrslunni til dómara leiksins.

  Liverpool: Adrian; Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson; Fabinho, Henderson, Wijnaldum; Salah, Mane, Firmino

  Bekkurinn: Kelleher, Milner, Gomez, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Shaqiri, Origi.

  Í stuttu máli sagt þá breytir Klopp engu frá síðasta leik gegn Arsenal enda lítil ástæða til þar sem Liverpool spilaði ljómandi vel í þeim leik.

  Burnley stilla upp í 4-4-2 með sjóðheitan Barnes í fremstu línu og Lennon á kantinum.

  Image

  Upphitunarlagið er grjóthart með Íslandsvinunum í Led Zeppelin og treystum við á að það verði ekkert Communication Breakdown innan vallar sem utan hjá Rauða hernum í dag.

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

  [...]
 • Útileikur á Turf Moor

  Það er ekki langt ferðalagið á morgun þegar evrópumeistararnir skjótast rétt norðaustur til Burnley og mæta Sean Dyche og hans mönnum í Burnley. Burnley menn hafa byrjað tímabilið ágætlega en þeir hófu tímabilið á 3-0 sigri gegn Southampton, töpuðu svo naumlega gegn Arsenal 2-1 og í síðustu umferð gerðu þeir 1-1 jafntefli við Wolves þar sem Úlfarnir skoruðu jöfnunarmark úr vítaspyurnu á 97. mínútu. Að lokum spiluðu þeir í deildarbikarnum í miðri viku þar sem þeir mættu Sunderland með róterað lið og þrátt fyrir að hafa komist yfir í leiknum steinlágu þeir 3-1 og mæta því með mikið að sanna á morgun.

  Burnley spila klassískan enskan risaeðlubolta þar sem lagt er upp með að koma boltanum á stóru sterku sóknarmennina Barnes og Wood í 4-4-2 leikkerfi en hann gæti fórnað einum sóknarmanni fyrir auka miðjumann sem Dyche gerði iðulega gegn stórliðunum þó hann hafi haldið sig við 4-4-2 á undanförnum mánuðum sama hverjum hann er að mæta. Ef hann fórnar sóknarmanni verður Barnes líklegast einn frammi enda í hrikalegu formi því aðeins Segrio Aguero (16) og Sadio Mané (15) hafa skorað fleiri úrvalsdeildarmörk á almannaksárinu en Barnes (13). Skori Barnes í leiknum verður hann fyrsti leikmaður í sögu Burnley til að skora í fimm úrvalsdeildarleikjum í röð. Þó maður óttist yfirleitt að mæta svona liðum sem eru mjög skipulögð í varnarleiknum sínum og vita hvernig þau vilja sækja og hvenær hefur Burnley gengið mjög illa gegn stórliðunum en þeir hafa tapað fjórtán af átján heimaleikjum sínum gegn topp sex liðunum síðan þeir komust upp í úrvalsdeildina.

  Í Burnley liðinu er lítið um fjarverur en Steven Defour og Robbie Brady verða frá en þeir hafa ekkert verið með á tímabilinu. Svo er óvissa í kringum Jóhann Berg Guðmundsson sem meiddist í síðasta deildarleik en fyrstu fréttir voru á þá veg að hann myndi líklega getað verið á bekknum í þessum leik en landsliðsþjálfari okkar Erik Hamrén tilkynnti í morgun að hann yrði ekki valinn í landsliðið sem spilar aðra helgi og yrði frá í nokkrar vikur. Skelfilegar fréttir fyrir okkur sem íslendinga en fínar fréttir fyrir Liverpool því Jóhann hefur verið hættulegur í leikjum sínum gegn félaginu og hefur átt það til að skora í leikjum liðanna.

  Það verður einnig gaman að sjá hvernig Burnley höndlar þennan leik enda sjaldan þar sem Liverpool fær meiri undirbúningstíma en andstæðingurinn nema þegar andstæðingurinn er einnig eitt af topp liðunum. Burnley hefur verið með hálfan hugan við deildarbikarleikinn og því fengið minni tíma til að einblína á Liverpool. Dyche skaust svo suður eftir leikinn gegn Sunderland og sást á Reading tónlistahátíðinni en hann hafði mest gaman af 21 Pilots fyrir þá sem hafa áhuga á tónlistarsmekk Dyche.

  Ég tel að hann haldi sig við leikkerfið sitt líkt og hann gerði gegn gegn Arsenal á þessu tímabili og í seinni leikjunum gegn Liverpool og City í fyrra og reiði á að Barnes og Wood geti ollið ursla í sókninni en nýti meiðsli Jóhanns Bergs og setji Jeff Hendick á kantinn sem er að upplagi miðjumaður og gæti því hjálpað miðsvæðinu betur.

  Hægt er að ýta á myndina til að sjá hana skýrar.

  Þá að okkar mönnum en Liverpool liðið er á ótrúlegri siglingu en við höfum unnið síðustu tólf deildarleiki, eitthvað sem hefur ekki gerst síðan í október 1990 undir Kenny Dalglish og félagið aldrei unnið þrettán leiki í röð og því getur liðið brotið blað í sögu félagsins um helgina. Það væri risastórt statement fyrir þetta Liverpool lið að vera með flesta sigurleiki í röð í sögu hjá liði sem hefur verið jafn dóminerandi og Liverpool hefur verið.

  Hjá okkar mönnum eru Naby Keita og Nathaniel Clyne frá vegna meiðsla auk Alisson Becker en Klopp vildi meina að það væri enn óvíst hvenær hann kæmi tilbaka og hann væri enn ekki búinn að fá áætlaðan dag þannig Alisson myndi fá þann tíma til að jafna sig sem hann þyrfti. Í fjarveru hans hefur Adrian verið í markinu sem er ágætis markmaður en vissulega langt frá þeim gæðum sem við höfum fengið að kynnast síðasta árið. Það sást augljóslega milli leikjanna gegn Southampton og Arsenal að vörnin treystir Adrian lítið fyrir boltanum hvort sem það er vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í ofurbikarnum eða að hann sé bara ekki nógu góður þá fækkaði sendingum tilbaka á markmanninn hjá Liverpool úr 16 niður í 6 milli þessara tveggja leikja og megum við því búast við því að varnarmenn Liverpool haldi áfram að leitast eftir að koma boltanum til hliðar eða fram völlinn næstu vikurnar, nema þetta hafi hreinlega verið vegna meiðslanna.

  Í fyrsta sinn í langan tíma virðumst við vera komnir með “fyrstu ellefu”, það er byrjunarlið sem virðist vera það lið sem Klopp grípur í þegar hann fer í erfiða leiki. Burnley á útivelli er vissulega skrýtinn erfiður leikur því það þarf sköpun en einnig þarf mikla þolinmæði og því býst ég við að hann fari í það lið sem við höfum séð mest núna í vor, þó gæti ég séð að annaðhvort Chamberlain eða Milner fái að byrja einmitt vegna þessara eiginleika – þolinmæði og sköpunargáfa.

  Skori Bobby Firmino í leiknum þá verður hann fyrsti brasilíumaðurinn til að skora fimmtíu mörk í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði þrjú mörk í leikjunum tveimur gegn Burnley í fyrra.

  Ég býst við hrikalega erfiðum leik sem mun ráðast í seinni hálfleik en þar hefur Klopp verið að skína undan farið og ég ætla að skjóta á 2-0 sigur þar sem fyrra markið kemur stuttu eftir hálfleikinn og Firmino mun komast í sín fimmtíu mörk í leiknum.

  Minni á umræðu á Facebook síðu Kop.is þar sem hefur verið mikið líf undanfarna daga!

  [...]
 • Van Dijk og Alisson bestir í Evrópu

  Samhliða drættinum í Meistaradeildarriðlunum var veitt verðlaun fyrir bestu leikmenn síðasta tímabils. Virgil Van Dijk kom einn til greina sem varnarmaður ársins og sigur Alisson í kjöri á markmanni ársins var jafnvel ennþá meira afgerandi. Þeir voru langbestir í sínum stöðum.

  Van Dijk var einnig tilnefndur sem besti leikmaður Evrópu og sat því á fremmsta bekk við Messi og Ronaldo og var verðskuldað valinn besti leikmaður Evrópu.

  Liverpool leggur allajafna töluvert meira upp úr liðsheildarverðlaunum og þakkaði Van Dijk liðsfélögum sínum sannarlega fyrir er hann veitti bikarnum viðtöku. Það að hann sé valin er viðurkenning á leik liðsins í heild þó Evrópumeistaratitilinn í vor sé það sem öllu skiptir.

  Það er engu að síður mikilvægt að leikmenn Liverpool séu aftur farnir að fá þessar viðurkenningar og táknrænt að Van Dijk skildi vinna á meðan Messi og Ronaldo eru ennþá að. Þeir hafa einokað þetta undanfarin ár og viðkvæðið undanfarin ár nánast orðið að þú þarft að vera leikmaður annaðhvort Real Madríd eða Barcelona til að eiga séns á stóru titlunum.

  Það er talað um að Van Dijk og Alisson hafi komið fyrir Coutinho peningana sem er svolítil einföldun, salan á honum fjármagnaði engu að síður kaupin á þessum tveimur leikmönnum sem voru þeir dýrustu í sínum stöðum þegar þeir gengu til liðs við Liverpool. Þeir hafa á 18 mánuðum staðið undir þeirri nafnbót og stafest að þeir eru bestir í sínum hlutverkum. M.ö.o. bestu leikmenn í heimi eru að semja við Liverpool og uppskera fyrir það. Coutinho vann vissulega stóra titla sem leikmaður Barcelona enda gekk hann til liðs við besta liðsins í þriggja liða deild en var svo mikill aukaleikari að hann er núna farinn frá þeim aftur á láni. Hrikalega gott á hann eftir að hann fór með skít og skömm frá Liverpool. Liðinu sem gerði hann að stórstjörnu. Það að Liverpool hafi endað Meistaradeildardraumana með þeim hætti sem það var gert er svo á pari við það þegar Ísland niðurlægði Roy Hodgson svo mikið að hann sagði af sér strax eftir leik.

  Síðasti leikmaður Liverpool til að vera kjörin Knattspyrnumaður Evrópu var Steven Gerrard árið 2005, að sjálfsögðu. Ronaldo var leikmaður United þegar hann var valin 2009 en hann og Gerrard eru einu Úrvalsdeildarleikmennirnir til að hljóta þessa nafnbót síðan Beckham 1999. Þetta er semsagt á 10 ára fresti 🙂 Það eru 10 ár síðan varnarmaður úr Ensku Úrvalsdeildinni var kjörin besti varnarmaður Evrópu, John Terry 2008/09.

  Þetta verður ekki svona næstu 10 árin, það fullyrði ég. Einokun Spænsku risanna ætti að dvína þegar tíma Messi og Ronaldo líður undir lok og vonandi verður Liverpool áfram á þessu sviði.

  Þetta tryggir Van Dijk hinsvegar ekki Ballon d´Or en líkurnar eru sannarlega með honum. Frá því að George Best hlaut þá nafnbót árið 1968 hafa aðeins tveir leikmenn enskra liða unnið Ballon d´Or. Ronaldo árið 2008 (ekki árið sem hann var kjörin Knattspyrnumaður Evrópu) og Michael Owen árið 2001. Gerrard var aðeins í þriðja sæti árið 2005. Síðast þegar varnarmaður fékk Ballon d´Or var Fabio Cannavaro árið 2006.

  En það er í raun bara einn sem gæti ógnað Van Dijk…

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close