Tottenham 1-2 Liverpool

Mörkin

0-1   Georginio Wijnaldum  39.mín
0-2   Roberto Firmino  54.mín
1-2   Erik Lamela  93.mín

Leikurinn

Varla var búið að blása til leiks á Wembley þegar að Liverpool höfðu komið boltanum í netið. 45 sekúndur voru liðnar og Firmino stýrði fyrirgjöf Milner hárnákvæmt í fjær hornið. En gula flaggið fór á loft og rangstaða var dæmd á Mané sem teygði stóru tá í áttina að boltanum. Hvort að hann hafi náð næfurþunnri stroku eða bara þótt hafa haft áhrif á leikinn úr rangri stöðu skal ósagt látið. Það sem VAR og það sem hefði geta verið voru sitt hvor hluturinn og Liverpool fékk ekki þá draumabyrjun sem Púlarar allra heimshorn höfðu hoppað hæð sína yfir.

Okkar menn héldu áfram að ógna og það var mikil Suðurlandsskjálfti í vörn Lundúna-liðsins sem gerði mýmörg mistök í sendingum og bauð hættunni heim. Eftir þessar öflugu upphafsmínútur róaðist leikurinn niður og heimamenn fóru að ná valdi á boltanum og héldu honum betur innan síns liðs. Liverpool voru þó alltaf hættulegir í skyndisóknum og á 22.mínútu fékk Salah færi vinstra megin í vítateignum en Vorm varði vel. Leikurinn hélt áfram á sömu nótum þar sem Spurs voru bróðurpartinn með boltann en Rauðliðar tilbúnir að refsa ef að tækifæri gafst.

Rúmum 5 mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks fengu Liverpool hornspyrnu sem var send á nærstöngina. Þar var Van Dijk innarlega og truflaði markvörðinn Vorm löglega frá því að komast í boltann sem barst út í teiginn og Wijnaldum samlandi þeirra skallaði öflugan bolta upp undir slánna. Vorm kom reyndar í loftköstum og náði að skófla boltanum út úr markinu en í þetta sinn var dómgæslutæknin með okkur í liði og boltinn réttilega dæmdur fyrir innan línu.

0-1 í hálfleik

Liverpool byrjuðu seinni hálfleik á sama hátt og þann fyrri með því að ógna hraustlega. Fyrst með fyrirgjöf frá Robertson sem féll ofan á slánna og svo í skyndiupphlaupi þar sem Mané átti fast snúningsskot sem var vel varið af Vorm. Mínútu síðar sýndu Spurs þó klærnar og hinn líflegi Lucas Moura skundaði inn í vítateginn og smellti skoti í utanverða stöngina.

En á 54.mínútu átti Liverpool enn eina skyndisóknina og Mané keyrði vinstra megin inn í vítateiginn. Fyrirgjöf ætluð Firmino komst á kómískan hátt í gegnum Vertonghen og Vorm og endaði hjá Brassanum okkar brosmilda sem skóflaði boltanum yfir línuna. 0-2 fyrir Liverpool.

Okkar menn voru komnir með töggl og haldirnar í þessari stöðu og Tottenham virtust með litla trú á endurkomu. Við fengum marga sénsa á góðum upphlaupum og eitt þeirra var á 64.mínútu þegar að Vorm varði öflugt vinstrifótarskot frá Keita. Um miðjan hálfleikinn gerðist óhapp þar sem að Vertongen slæmdi hendinni í augað á meistara Bobby Firmino sem lá eftir og blóð lak frá augnsvæðinu. Skipta þurfti Bobby útaf fyrir Henderson en vonandi er þetta ekki alvarleg meiðsli því að fram að þessum tíma hafði Firmino verið með ferskari mönnum og að nálgast sitt hefðbundna frábæra framlag.

Enn hélt leikurinn áfram í sama fasa. Tottenham meira með boltann en ekki að ná skapa sér teljandi færi en Liverpool beittir í skyndisóknum þó að alltaf virtist vanta smá upp á herslumuninn til að slútta sóknunum. Eitt slíkt færi var á 81.mínútu þegar að Salah dansaði sig í færi en enn varði Hollendingurinn í markinu vel. Lamela fór að færa sig upp á skaftið og ógnaði með skoti við teiginn á 84.mínútu en rétt framhjá. Leikurinn var að fjara út en aftur var Lamela að ógna og í uppbótartíma fékk hann boltann eftir hornspyrnu, tók hann viðstöðulaust og smellti með grasinu framhjá Alisson í markinu. Sem betur fer var stutt eftir og okkar menn kláruðu lokamínúturnar fagmannlega.

Bestu menn Liverpool

Frammistaðan var frekar jöfn heilt yfir hjá okkar mönnum í dag. Milner hljóp manna mest að vanda og Wijnaldum var öflugur með fyrsta mark leiksins. Mané og Salah voru líflegir þó að það vantaði endapunktinn hjá þeim til að skora. Að mínu mati var Firmino maður leiksins og hann virtist vera búinn að hrista af sér slenið frá upphafsleikjum tímabilsins. Skapandi, hlaupandi, pressandi og skoraði. Vonandi verður hann klár í slaginn sem fyrst eftir þessi meiðsli.

Vondur dagur

Enginn okkar mann lendir í þeim flokki í dag enda góð og jöfn liðsframmistaða. Það var helst að Joe Gomez ætti slæmar 10 mínútur þar sem hann gerði tvenn slæm mistök sem hefði getað farið illa en það slapp fyrir horn. Strákurinn hefur verið frábær og var að spila með landsliðinu þannig að honum er fyrirgefið að hafa átt örlítið einbeitingarleysi. Ef einhver átti vondan dag þá var það enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane sem var týndur og tröllum gefinn allan leikinn. Ágústmarkið langþráða gerði í það minnsta ekki mikið fyrir hann í dag og blessunarlega þá var hann í vasanum á varnarmönnum okkar í rúmar 90 mínútur.

Tölfræðin

Okkar menn voru óvenju lítið með boltann í leiknum miðað við meðaltalið en það er vandsagt hvort að það hafi verið taktík eða bara þannig sem leikurinn þróaðist. Í það minnsta virkaði það ágætlega að vera ekki nema 40% með boltann og beita skyndisóknum þegar að tækifæri gafst. Við áttum heil 10 skot á rammann og með betri nýtingu hefði þessi leikur verið markasúpa hjá okkar mönnum.

Umræðan

Við erum á toppnum! Með fullt hús stiga! Ósigraðir! Efstir á Englandi!

Þarf eitthvað að ræða það?

YNWA

Byrjunarliðið gegn Tottenham

Þá er löngu landsleikjahlé loksins lokið og kominn tími á alvöruna á ný. Stórslagur er í boði á Wembley á milli liðanna sem enduðu í þriðja og fjórða sæti á síðasta tímabili. Liverpool fór flatt á sama velli gegn Tottenham í fyrra en það skipbrot varð að vissu leyti til góðs því að í kjölfarið voru haldnir neyðarfundir um varnarúrbætur sem svínvirkuðu. Nú reynir á fyrir rauðliða að sýna og sanna að við höfum lært ansi margt frá lexíunni í fyrra.

Van Dijk var valinn leikmaður ágústmánaðar hjá Liverpool og verður að sjálfsögðu á sínum stað í hjarta varnarinnar

 

Byrjunarliðið hefur verið kunngert af Klopp og í því er fátt sem kemur á óvart, en Henderson fer þó á bekkinn fyrir Naby Keita. Fabinho er einnig á bekknum.

Bekkurinn: Mignolet, Fabinho, Henderson, Sturridge, Moreno, Shaqiri, Matip

Pochettino hefur einnig birt sína liðsuppstillingu og hún er svona:

Bekkurinn: Gazzinga, Aurier, Davies, Sanchez, Wanyama, Lamela, Son.

Eins og Daníel fór svo listavel yfir í upphitun sinni þá eru Lloris og Dele Alli ekki leikfærir en Son er kominn á bekkinn eftir sigur í Asíubikarnum.

Það er síðbúinn sumarhiti í Lundúnum og því verður heitt á kolunum innan vallar sem utan. Skellið ykkur í rauðu treyjuna og skundið á næsta boltapöbb, hertakið fjölskyldusjónvarpið eða bara mætið á leikinn ef þið eigið miða. Koma svo Liverpool!

Come on you REDS! YNWA!

Wembley um helgina

Þessu blessaða landsleikjahléi lýkur formlega á laugardaginn næstkomandi, þegar okkar menn hefja eina erfiðustu lotu sem liðið hefur staðið frammi fyrir lengi með því að heimsækja Spurs á Wembley. Það má segja að lotunni ljúki þegar liðið fær City í heimsókn þann 10. október, og mun þá hafa spilað á móti Tottenham, PSG, Milano, Southampton og Chelsea (tvisvar). Þetta verða ansi margir erfiðir leikir á ekki lengri tíma, svo nú loks fer að reyna á breiddina.

Völlurinn

Eins og kunnugt er átti þetta að verða opnunarleikur hins nýja heimavallar Tottenham – White Hart Lane – en af ýmsum ástæðum þurfti að fresta þeirri opnun, ástæðan sem gefin hefur verið upp er sú að ýmis öryggiskerfi séu ekki tilbúin. Heimamenn hafa reyndar verið í standandi vandræðum með að finna staði fyrir þá leiki sem áttu að fara fram í haust, því Wembley er alls ekkert laus alla daga sem Tottenham á heimaleiki. Þar að auki er ekki einusinni vitað hvenær nákvæmlega hægt verður að opna völlinn, opinberlega er talað um að það verði í lok október í fyrsta lagi, heyrst hefur að það verði jafnvel ekki fyrr en um áramótin (en það eru sjálfsagt bara getgátur). Við skulum vona – svona fyrir hönd Spursara – að það fari ekki með þessa framkvæmd eins og Brandenburg flugvöllinn í Þýskalandi sem átti að vera tilbúinn árið 2011 en hefur enn ekki verið opnaður.

Hinn nýji White Hart Lane mun verða hinn glæsilegasti, verður með sæti fyrir 62062 manns, og byggingin sjálf er á 9 hæðum.

En við erum semsagt ekki að fara þangað.

Heldur á Wembley.

Það þarf kannski ekki að rifja upp síðustu heimsókn Rauða hersins á Wembley, en sá leikur tapaðist 4-1. Reyndar hefur svo öll tölfræði síðan þá verið ákaflega jákvæð, hvort sem við horfum á skoruð mörk, hrein lök (sorrýmemmig), mörk fengin á sig o.fl. Mögulega hefur þessi leikur verið dropinn sem fyllti mælinn hjá Klopp, eða svo segir a.m.k. James Pearce í grein á Liverpool Echo.

Andstæðingarnir

Tottenham voru fyrir síðustu umferð eitt fjögurra liða sem höfðu unnið fyrstu 3 leikina á mótinu, en misstigu sig í stórleiknum gegn Watford og þurftu þar að lúta í gras. Þeir mæta því væntanlega foxillir til leiks, en jafnframt örlítið vængbrotnir, því nú hefur verið staðfest að hvorki Hugo Lloris né Dele Alli verði með. Báðir eru þeir meiddir, Lloris auðvitað bæði með hnjask í baki og tognun á heila eftir að hafa verið gripinn glóðvolgur fullur undir stýri. Þetta mun þó engu breyta um stöðu hans sem fyrirliða. Það má því reikna með Vorm í markinu, en það eru svosem engar stórfréttir í ljósi þess að hann var líka í markinu í síðasta leik. Það að Dele Alli verði frá setur kannski meira strik í reikninginn hjá Pochettino. Þá kom Son aftur til klúbbsins frá Asíukeppninni núna í vikunni, og ólíklegt að honum verði hent í djúpu laugina strax um helgina. Enda eru bæði Kane og Lucas Moura leikfærir eftir því sem best er vitað. Jafnvel þó svo Son væri kominn á fullt væri vafasamt að hann ætti öruggt sæti í byrjunarliðinu. Lucas Moura hefur heldur betur fundið taktinn, var valinn leikmaður mánaðarins í úrvalsdeildinni í ágúst, og var m.a. potturinn og pannan í sigri liðsins á United.

Kane skyldi svo enginn vanmeta. Ef við skoðum tölfræði síðasta tímabils, þá var það aðeins Christiano Ronaldo sem fékk fleiri færi heldur en Kane. Þá er markaskorunin hjá honum með því besta, á síðasta tímabili var hann með fimmta hæsta xG (expected goals) í efstu 5 deildunum í Evrópu, 0.742 nánar tiltekið, og hann gerði svo gott betur með því að skora að meðaltali 0.817 mörk pr. 90 mínútur. Kane er búinn að spila 83 leiki síðan í ársbyrjun 2017, og það þrátt fyrir að hafa meiðst tvisvar á þessum tíma. Þess háttar leikjaálag getur auðvitað haft neikvæð áhrif, sérstaklega ef meiðsli blandast þar inn í. Það er ekki ólíklegt að hann hafi farið að spila eins fljótt og mögulegt var eftir meiðslin í vor til þess að eiga einhvern séns í að hirða markakóngstitilinn af Salah, og mögulega fór hann of snemma af stað því hann hefur ekki átt jafnmörg skot á mark eftir meiðslin eins og fyrir þau.

Þó svo að Kane sé sá sem skorar mest fyrir liðið, þá er enginn skortur á mönnum sem kunna að sparka í leðurtuðruna í liðinu. Þetta er að auki lið sem er í raun búið að spila sig saman síðustu 3 tímabil. Vissulega var engum leikmönnum bætt við í sumarglugganum. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Kannski mat Pochettino það þannig að það þyrfti einfaldlega ekki að styrkja liðið. Kannski fann hann engan leikmann sem var klár bæting á hópnum sem hann er með í höndunum (staða sem maður er að vona að Jürgen Klopp sé mögulega loksins að komast í). Nú og kannski var ekki til peningur. Smíði nýja leikvangsins kostar vissulega seðilinn, og ekki bætir þessi seinkun úr skák. Hver raunveruleg ástæða er skiptir kannski ekki öllu máli, því hópurinn er einfaldlega mjög sterkur. Þá er þetta jafnframt hópur sem má segja að sé á besta aldri:

Þar að auki er Tottenham með einn yngsta hóp deildarinnar, eða með jafn lágan meðalaldur og Newcastle, 26.4 ár. Aðeins eitt lið er með lægri meðalaldur (25,9 ár), það lið spilar í rauðum búningum og er að mæta á Wembley um helgina.

Semsagt, við erum að fara að mæta gríðarsterku liði sem hefur verið meðal efstu liða í deildinni undanfarin ár, á velli sem okkar mönnum hefur ekkert gengið neitt svakalega vel á síðustu árin.

Og hvernig er svo líklegt að Pochettino muni stilla upp? Í síðasta leik henti hann í 3-5-2, í leikjunum þar á undan var verið að henda í 4-4-2 (þar á meðal með tígulmiðju) en fjarvera Dele Alli gæti þýtt að það yrði að hrista upp í kerfinu frá síðasta leik, sem þar að auki tapaðist. Nú er undirritaður alls enginn sérfræðingur í því hvernig sé best að stilla upp liði Tottenham (og ósköp lítill sérfræðingur í uppstillingu annarra knattspyrnuliða ef út í það er farið), en gerum samt tilraun til að skjóta:

Vorm

Trippier – Alderweireld – Vertonghen – Rose

Dembéle – Eriksen – Dier – Lamela

Moura – Kane

Stilli þessu upp í klassísku 4-4-2, en þetta gæti vel orðið meira 4-2-3-1, og auðvitað skal alls ekki útiloka að 3-5-2 fái að halda sér, en þá myndi Sanches væntanlega mæta í miðja vörnina milli þeirra Toby og Jan.. Hér er ég að veðja á að Lamela sé orðinn leikfær, hann var að glíma við einhver meiðsli en æfði víst í vikunni.

Lærisveinar Klopp

Hinir rauðklæddu mæta í þennan leik með einn besta árangur síðustu ára eftir fjórar umferðir á bakinu: 4 sigrar, 9 mörk skoruð, eitt fengið á sig. Og samt vitum við alveg að liðið hefur í raun bara verið í 2. gír eða svo. Sem getur auðvitað bæði verið jákvætt og neikvætt, svigrúmið til að gefa í er talsvert, en ekki gott ef liðið er fast í þessum gír. Megnið af leikmönnum kom til baka úr landsleikjahléinu í vikunni, og reyndar mun Klopp ekki fá nema tvær æfingar með öllum leikmönnum til undirbúnings.

Meiðslalistinn hefur oft verið verri. Auðvitað tókst Lallana að meiðast í byrjun landsleikjahlés, og reyndar krækti Mignolet sér líka í eitthvað smá hjask á fingri og þurfti að draga sig úr belgíska hópnum. Það kom samt ekki í veg fyrir að hann mætti á æfingu í dag (miðvikudag), svo hann verður að öllum líkindum á bekknum. Fjarvera Lallana þýðir að það losnar pláss á bekknum, Maddock vill meina að Fabinho taki það sæti. Reyndar er það svo að Klopp mun örugglega stilla upp sínu sterkasta – eða allt að því – liði, enda gæti ég alveg trúað að nú setji menn höfuðáherslu á að ná góðum árangri í deild. En auðvitað vita menn vel af því að PSG mæta á Anfield á þriðjudagskvöldið. Ég hugsa að Klopp hugsi sem svo að liðið eigi alveg að ráða við að spila tvo leiki með rúmlega þriggja sólarhringa pásu á milli, enda skammt liðið á tímabilið.

Ég ætla því að spá sama byrjunarliði og síðast:

Alisson

TAA – Gomez – Van Dijk – Robertson

Winjaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Clyne, Fabinho, Matip, Shaqiri, Keita, Sturridge

Í ljósi væntanlegs leikjaálags er auðvitað allt eins líklegt að Klopp fari nú að rótera, t.d. gæti hann hent Keita aftur í byrjunarliðið. Hvað bekkinn varðar, þá miða ég við að taka Moreno af bekknum, síðast var Clyne sá sem fékk að færa sig upp í stúku. Veit ekkert um það hvorn Klopp vilji hafa til að geta skipt inná.

Þá er það spáin (mjög mikilvægt, og að sjálfsögðu er haldið bókhald yfir allar spár okkar kop.is penna, sama hvar þær koma fram). Einar Matthías vill meina að Alisson muni ekki fá á sig fleiri mörk. Eigum við ekki bara að segja að það sé rétt hjá honum, og að þetta fari 2-0? Mané með bæði mörkin.

Það væri a.m.k. æðislegt að vera komin með 15 stig eftir 5 leiki, og veitir víst ekki af miðað við liðin sem eru að narta í hælana á okkur.

Koma svo!

Gullkastið – Tottenham umræða

Þáttur vikunnar var að nánast öllu leiti helgaður næstu andstæðingum Liverpool. Við og við er gagnlegt og gaman að fá sjónarmið andstæðinganna og fengum við heldur betur fagmann með okkur að þessu sinni, sjálfan Boga Ágústsson fréttamann sem líklega hefur haldið hvað lengst með Tottenham hér á landi.

Kafli 1: 00:00 – Intro – Afhverju Tottenham á sínum tíma?
Kafli 2: 21:40 – Sumarglugginn hjá Tottenham
Kafli 3: 28:20 – Vesen með New White Hart Lane
Kafli 4: 37:00 – Mikilvægi Meistaradeildarinnar fyrir Tottenham
Kafli 5: 48:15 – Hvar verður Pochettino eftir 2-3 ár?
Kafli 6: 53:00 – Tottenham – Liverpool um helgina

Stjórnandi: Einar Matthías
Viðmælendur: Maggi og Bogi Ágústsson fréttamaður

Gullkastið er þáttur í boði Egils Gull (léttöl)

MP3: Þáttur 206

Opinn þráður

Landsleikjahléð rétt rúmlega hálfnað. Sitthvað að frétta:

  • Brasilía og USA léku um helgina, Firmino skoraði og Fabinho vann víti. Alisson auðvitað í markinu.
  • Salah var allt í öllu þegar Egyptaland unnu Níger 6-0 á laugardaginn, og skoraði m.a. 2 af þessum mörkum.
  • Winjaldum og Virgil van Dijk léku með Hollandi gegn Frökkum í gær. Van Dijk var fyrirliði, og Winjaldum náði 100% sendingahlutfalli. Hann er sá fyrsti sem gerir það fyrir hollenska landsliðið í 5 ár.
  • Shaqiri lék ágætlega í stórsigri Sviss í þjóðadeildinni (þarf eitthvað að koma fram við hverja þeir voru að spila?)
  • Robertson lék sinn fyrsta leik sem fyrirliði Skotlands þegar liðið tapaði fyrir Belgum 0-4. Eins gott að við þekkjum engan sem er að fara að spila við Belga á næstunni.
  • Henderson og Gomez léku með Englandi í tapleik á móti Spáni, TAA var á bekknum.
  • Kvennalið Liverpool hóf leik í deildinni í gær þegar þær heimsóttu Arsenal. Það er ljóst að það er allnokkur brekka framundan hjá Neil Redfearn að púsla saman liðinu eftir hræringar sumarsins, því Arsenal konur unnu örugglega 5-0. Ekki bætti úr skák að um morguninn var tilkynnt að Becky Flaherty varamarkvörður myndi yfirgefa klúbbinn og ganga til liðs við Everton, þó þetta ætti svosem ekki að koma mikið á óvart í ljósi þess að tveir markverðir voru keyptir í sumar.

Talandi um Henderson, þá hefur því oft verið haldið fram að hann spili boltanum bara til baka eða til hliðar. Tölfræðin segir okkur samt annað. Þessar tölur eru frá síðasta tímabili:

Það væri nú gaman ef Henderson fengi þá umfjöllun sem hann á skilið hjá okkur aðdáendum.

Annars er orðið laust.