Latest stories

  • Tími Breytinga

    Það er ekkert endilega jákvætt að gera of mikið af breytingum á einu sumri, sérstaklega ekki á leikmannahópi sem landaði titlinum á síðasta tímabili. Engu að síður virðist sumarið stefna í að verða tími breytinga hjá Liverpool. Nördarnir sem komu aftur fyrir síðasta tímabil eru fyrst núna að láta til sín taka og setja sitt handbragð á hópinn auk þess sem það var komin augljós þörf á breytingar í einhverjum tilvikum. Ákvörðun Trent Alexander-Arnold um að yfirgefa Liverpool kallar einnig á breytingar og ekkert endilega bara í hans stöðu á vellinum.

    Hvort sem mikið af breytingum í einu séu af hinu góða eða slæma skal ósagt látið en það er óhætt að fullyrða að Liverpool er að byrja þennan glugga með rosalegum látum og í takti við að liðið er ríkjandi meistarar, loksins. Undanfarin ár hefur Liverpool sett miklu minna í leikmannakaup heldur en öll sambærileg félög og því ekkert óeðlilegt ef það er svigrúm fyrir 200-400m núna, jafnvel meira.

    Skoðum aðeins hópinn eins og hann lítur út núna: 

    Það eru fjórtán leikmanna sem nokkuð örugglega eru ekki að fara í sumar, þar af fjórir sem koma í sumar og tveir sem voru að framlengja samninginn sinn. Það er hinsvegar óvissa með ótrúlega marga leikmenn og flestir þeirra eru líklegri en ekki til að fara í sumar.

    Samningsmál Konate og meiðslasaga hans gætu haft áhrif á hvað Liverpool gerir seinna í sumar.

    Jarrel Quansah virðist á leiðinni til Leverkusen eftir að Liverpool keypti Frimpong og Wirtz af þeim. Það er orðrétt sama umræða um Joe Gomez og öll undanfarin ár sem endar líklega með því að hann fer ekki neitt, sérstaklega ekki af Quansah fer.

    Kaupin á Kerkez verða pottþétt til þess að annaðhvort Robertson eða Tsimikas fara og jafnvel báðir. Eins og staðan er núna er líklegra að Robertson fari til Atletico á meðan Tsimikas talar um að vera frekar til í 20-30 leiki hjá Liverpool en 45 hjá liði eins og t.d. Leeds.

    Darwin Nunez fer í sumar og skilar örugglega rúmlega helmingnum af kaupverðinu í kassann. Sala á honum verður líklega til þess að Liverpool vill annan í staðin sem Slot hefur meiri trú á. Eins er nokkuð ljóst að Chiesa fari og jafnvel fara þeir bara saman til Napoli eins og staðan er núna.

    Ef að það er markaður fyrir Diogo Jota á ágætu verði fer hann líka.

    Luis Diaz er svo enn einn sem ætti kannski frekar að vera í óvíst hópnum, hann hefur hvað helst verið orðaður í burtu af framherjahópnum.

    Elliott, Doak, Bajcetic og Morton eru svo allt leikmenn sem nokkuð örugglega bætast í hópinn með Kelleher og Trent og yfirgefa Liverpool í sumar.

    Þetta gætu léttilega orðið hátt í 10 leikmann sem fara í sumar, þar af 2-3 byrjunarliðsmenn.

    Leikmannakaup

    Það er ekki þörf á að kaupa leikmenn fyrir alla þá sem eru líklegir til að fara enda skiluðu margir þeirra nákvæmlega engu á síðasta tímabili. En það að Liverpool sé nú þegar svo gott sem búið að staðfesta þrjá leikmenn sem fara beint í hóp/byrjunarliðið er stórt og mjög líklegt að við þann hóp bætist 2-3 í viðbót.

    Wirtz

    Kaupin á Florian Wirtz er alvöru yfirlýsing frá Liverpool, þetta er heitasti bitinn á markaðnum í dag og hann valdi Arne Slot og Liverpool framyfir önnur elítu lið. Hann er líklega að hugsaður sem arftaki Trent hvað færasköpun varðar mikið frekar en Frimpong. Það er ekkert endilega eðlilegt að leikstjórnandi liðsins sé hægri bakvörðurinn.

    Það verður líka mjög fróðlegt að sjá hvar Slot hugsar Wirtz hjá Liverpool. Hann var að mestu framarlega á miðjunni vinstra megin hjá Leverkusen sem spilaði með þriggja manna vörn, tvo fljúgandi bakverði og tvo varnarsinnaða miðjumenn fyrir aftan sig. Það er erfitt að sjá Slot stilla honum þannig upp næsta vetur. Mun líklegra er eitthvað í ætti við 4-2-3-1 þar sem Wirtz er í gömlu góðu Gerrard holunni eða einhverja útgáfu af 4-3-3 þar se Wirtz er fremstur.

    Önnur pæling er hvort koma Wirtz verði til þess að öll miðjulínan okkar færist aftar, Szoboszlai verði meira átta, MacAllister og Jones meira í holunni og Gravenberch í miðverði líkt og við sáum stundum í leikjum á síðasta tímabili?

    Slot seldi Wirtz það að koma til Liverpool með því að sýna honum skýrt hvert hans hlutverk yrði, það verður mjög spennandi að sjá hvað hann meinti nákvæmlega.

    Besta við kaupin á Wirtz er kannski að hann eykur breiddina á miðjunni um einn alvöru miðjumann. Slot notaði bara Gravenberch, MacAllister, Szoboszlai og Jones á síðasta tímabili sem var bara of fámennur hópur þegar á reyndi undir lok tímabilsins. Miðjan var gjörsamlega sprungin í leikjunum gegn Newcastle og PSG sem dæmi. Wirtz eykur ekki bara breiddina heldur kemur inn með eiginleika sem hinir fjórir búa ekki yfir.

    Tæknilega séð er Wirtz líklega að koma inn í hópinn í stað Harvey Elliott og það er ansi spennandi uppfærsla þó Elliott sé vissulega mjög spennandi leikmaður líka.

    Kerkez

    Það að landa Milos Kerkez strax eftir tímabil þar sem við sáum vel að Robertson er kominn yfir hæðina og Tsimikas hefur bara ekki gæðin til að vera í stóru hlutverki hjá Liverpool er rosalega traustvekjandi. Félagið hjólar þarna beint í að leysa augljóst sár á hópnum.

    Þessi staða var vandræðastaða hjá Liverpool frá því Úrvalsdeildin var stofnuð þar til Robertson breytti stöðu vinstri bakvarðar í einn helsta styrkleika Liverpool. Auðvitað vill maður helst halda Robbo a.m.k. þetta ár sem hann á eftir af samningi en það er alls ekkert víst að hann sé góður í klefanum ef hann fær ekki að spila reglulega. Hann er ekki nógu gamall til að þurfa sætta sig við slíkt hlutverk auk þess sem hann er á stórum launapakka. Atletico Mardid og Simeone gerpið hljóma leiðinlega gott move fyrir hann á þessu stigi ferilsins.

    Fari Robertson er ljóst að Kerkez þarf að vera klár frá fyrsta leik en miðað við það sem maður sá síðasta vetur er hann alltaf að fara taka stöðuna af Robbo og líklega væri hann að gera það af bara öllum vinstri bakvörðum deildarinnar. Þetta er strákur sem virðist ætla að gera það að verkum að þessi staða verður ekki áhyggjuefni þó Robertson fari.

    Frimpong

    Það verður mjóg fróðlegt að sjá hvar Slot hugsar Frimpong því það er ekkert sjálfgefið að það verði í bakverði. Conor Bradley held ég að sé a.m.k. til að byrja með hugsaður sem fyrsti kostur þar en hann hefur ennþá ekki afrekað að klára 90 mínútur hjá Liverpool. Mögulega eru þeir bara að fara rúlla þessari stöðu sín á milli í leikjum og milli leikja.

    Frimpong spilaði 25 leiki sem væng bakvörður á síðasta tímabili, hann kom inná sem varamaður í 13 leikjum og spilaði svo 10-15 leiki sem kantmaður. Hann kemur með gríðarlegan hraða sem gæti stækkað vopnabúr Liverpool töluvert gert liðum sem pakka í vörn auk þess sem þar gæti opnast möguleiki á að skapa meira pláss fyrir Salah.

    Þetta er leikmaður sem hefur verið orðaður frá Leverkusen í tvö ár og mjög mikið efni, stefnir samt í að verða svona 4-5 mest spennandi leikmannakaup Liverpool í sumar, sem er galið.

    Það er samt nokkuð ljóst að Frimpong er að koma í staðin fyrir Alexander-Arnold þó Conor Bradley deili þeirri ábyrgð vissulega með honum

    Orðrómur varðandi næstu leikmannakaup

    Guéhi

    Nánast samhliða fréttum um að Jarrel Quansah væri líklega að fara til Leverkusen var orðað Marc Guéhi frá Palace í hans stað. Það er fyrirliði Palace, 24 ára og tveimur árum eldri en Quansah sem var að leiða þá til fyrsta stóra titils í sögu Palace og Evrópudeildarsætis. Gangi það eftir er hann að fara veita Konate samkeppni strax og jafnvel skapa betra svigrúm til að hvíla Van Dijk í einhverjum leikjum.

    Versta við Guéhi er að hann er 1,82m sem er ekki mikið við miðvörð en á móti er hann góður á boltann og getur leyst fleiri stöður en bara miðvörð.

    Hann var sterklega orðaður við Newcastle í fyrra og eins Tottenham. Núna á hann bara eitt ár eftir af samningnum og gæti verið tilvalin díll fyrir Liverpool, ekki síst þar sem okkar menn mega alveg við því að fá home grown leikmenn.

    Isak

    Nei andskotinn er það? Helstu blaðamenn Englands eru að halda því á lofti að Liverpool hafi mikinn áhuga á Isak og þó það yrði mjög erfiður díll er hann ekki alveg útilokaður. Verðmiðinn sem þeir setja er auðvitað um 150-200m en það væri fróðlegt að sjá hvar hann endar sé í alvöru verið að vinna í honum. Isak er mjög líklega sjálfur til í að taka stökkið núna og það gæti skipt máli. Hann er 26 ára.

    Það er eðlilegt að setja aðeins spurningamerki við Isak á þessu verði, hann fór úr akademíu Dortmund til Willem II og þaðan ári seinna til Real Soceidad þar sem hann var í nokkur ár. Newcastle keypti hann þaðan auðvitað fyrir olíuauðinn og hjá þeim hefur hann unnið einn bikar.

    Á síðasta tímabili spilaði hann í fyrsta skipti á ferlinum meira en 2.500 mínútur (28 leikir) í deild, oftast hefur hann ekki verið nálægt því. Hann er núna búinn að eiga 18-24 góða mánuði á Englandi en það er galið að verðleggja hann á 150-200m og ég sé Liverpool ekki snerta slíkan díl með priki, sama hvað John W. Henry hefur verið drukkinn í sumar.

    En að þvi sögðu þá kom hann að 29 mörkum í 34 leikjum fyrir Newcastle í deildinni á síðasta tímabili, þetta er auðvitað leikmaður sem maður myndi sannarlega vilja í Liverpool.

    Aðrir

    Fyrir utan þessa stóru pósta er auðvitað verið að orða fjöldan allan af leikmönnum við Liverpool.

    En eins og þetta er núna eru breytingar á hópnum ca svona:
    Mamardashvili fyrir Kelleher
    Pesci fyrir Jaros
    Frimpong fyrir Trent
    Wirtz “fyrir Elliott”
    Kerkez fyrir Robertson
    Guéhi fyrir Quansah
    Enda svo á
    Isak fyrir Nunez, ekki?

  • Gullkastið – Wirtz Vikan

    Frá því að FSG keypti Liverpool hefur leikmannaglugginn aldrei farið eins spennandi af stað og núna. Það er búið að staðfesta kaup á Frimpong frá Leverkusen, eins er svo gott sem búið að staðfesta kaupin á besta vini hans og dýrasta leikmanni í sögu Liverpool, Florian Wirtz. Besta leikmanni þýsku deildarinnar undanfarin tvö tímabil. Ungverjinn Milos Kerkez hefur svo hamast við það sjálfur að staðfesta komu sína til Liverpool þó félagið hafi ekkert staðest með það ennþá.

    Miðað við slúðrið er þetta bara byrjunin og einnig er orðað helminginn af hópnum í burtu. Það var því af nægu að taka í leikmannaslúðurs Gullkasti. Leikjalistinn fyrir næsta tímabil kom einnig út í gær þannig að næsta tímabil er í augsýn.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    Þökkum að vanda samstarfsaðilum þáttarins fyrir að hjálpa okkur að halda síðunni úti.

    MP3: Þáttur 524

  • Liverpool byrjar á Anfield á föstudagskvöldi

    Fyrst er það Bournemouth á Anfield, föstudag 15.ágúst, opnunarleikur tímabilsins. Um að gera að grilla og opna einn Egils Gull það kvöld.

    Helgina eftir er það Newcastle á  St. Jamses 23.ágúst og við ljúkum svo ágúst með stórleik við Arsenal á Anfield. Seinni leikurinn við Arsenal er í byrjun janúar og þá verður Mo Salah ekki með enda AFCON í ár.

    Tímabilið endar svo á heimaleik gegn Brentford.

    Þetta er annars bara hið dæmigerða að öll lið mætast heima og heiman yfir 38 umferðir. Það helsta sem vinnur gegn leikjalista Liverpool eru Meistaradeildarleikirnir, ef að við förum alla leið þar eru leikirnir á eftir í deild jafnan nokkuð þungir. Þrjár ferðir til London, Brighton, Bournemouth, City, Forest, Everton og United allt á útivelli í kjölfar Meistaradeildarvikna.

  • Uppgjör – yngri liðin

    Við höfum farið yfir uppgjör kvennaliðsins okkar og hjá leikmönnum í láni og við ljúkum þessum uppgjörsþráðum með að skoða niðurstöðu tveggja elstu unglingaliðanna okkar, U18 og U21s árs liðanna.

    Fínt að fara yfir það meðan við bíðum leikmannafrétta og svo auðvitað kemur leikjaniðurröðunin fyrir næsta tímabil núna næsta miðvikudag.

    Lesturinn er kannski ekki mjög upprifinn og jákvæður en það þarf líka að fara yfir þegar illa gengur. Þeir sem vilja smella á meira hér að neðan og við skoðum hvað veturinn bar í skauti sér hjá þessum liðum okkar veturinn 2024 – 2025.

    (more…)

  • Tilboði í Wirtz samþykkt (Staðfest)

    Loksins er Liverpool að landa alvöru stórlax því núna í morgun eru fréttir þess efnis að 100m tilboði í Florian Wirtz hafi verið tekið sem geti hækkað í allt að 116m með bónusum. Bara þannig gæti hann orðið dýrari en t.d. Caisedo sem við misstum af til Chelsea í fyrra.

    Þetta er fáránlega spennandi leikmaður sem hefur verið leikmaður tímabilsins undanfarin tvö ár í Þýskalandi og er ennþá bara 22 ára. Besti vinur hans er þegar búinn að semja við Liverpool þannig að hann verður vonandi fljótur að aðlagast enska boltanum.

    Frábært að þetta sé að komast á hreint þó læknisskoðun sé eftir og væntanleg þegar hann snýr aftur úr fríi. Ekki að ég held að maður myndi nú aðeins hliðra til fríinu sínu fyrir svona…

  • Wirtz er Í ALVÖRUNNI að koma!

    Nú segir Romano að það sé komið á samkomulag um kaupin á Florian Wirtz, 150 millur takk fyrir (reyndar evrur, en samt brjáluð upphæð). Vissulega með öllum mögulegum klásúlum, svo upphafsgreiðslan er eitthvað talsvert lægri, en samt vel yfir 100 milljónir punda. Semsagt, dýrasti leikmaður Liverpool sögunnar, og líklega dýrasti leikmaðurinn í sögu deildarinnar sömuleiðis. Nema að við komumst einhverntímann að því hvert raunverulegt kaupverð Haaland hafi verið. Við kannski bíðum með að opna kampavínið þar til Joyce eða þeir kappar koma með þetta, en þetta lofar góðu.

    Liverpool og Bournemouth eiga víst að vera að ræða saman um Milos Kerkez, vonandi gengur það hratt fyrir sig. Talað um að suðurstendingar vilji fá 45 millur fyrir kappann.

    Nú og svo er orðrómurinn um að Liverpool ætli að bjóða í Alexander Isak ekki alveg dáinn úr öllum æðum. Er líklegt að Newcastle selji hann? Nei. Ómögulegt? Nei ekki heldur.

  • Markaðstorg Kop.is

    Nú er það svo að við eigum flest eða jafnvel öll einhvern Liverpool varning, og eins og gengur með þann varning eins og annan þá á hann það til að skipta um hendur.

    Við gerum hér smá tilraun varðandi það að gerast milliliður ef lesendur vilja selja eða gefa slíkan varning, og eins ef einhver er að óska eftir tilteknum varningi. Nú er það svo að það er ekki í boði fyrir venjulega lesendur að setja inn myndir, en það má bjarga því með því að finna okkur Kop pennana á samfélagsmiðlum og biðja okkur um að bæta inn myndum við þráðinn eftirá.

    Ég set inn fyrsta innlegg sem athugasemd hér fyrir neðan, ykkur er velkomið að bæta við athugasemdum ef þið eruð til í að selja/gefa/býtta einhvern Liverpool tengdan varning.

  • Uppgjör – lánsmenn LFC

    Í þessu uppgjöri munum við fara yfir hvernig þeim leikmönnum gekk sem að Liverpool ákvað að lána út síðasta leiktímabil. Það voru alls 11 leikmenn sem léku stærstan hluta tímabilsins fyrir önnur lið að láni og hér verður farið yfir hvernig þeim gekk og hvað sumarið telst líklegt til að fela í sér fyrir framtíð þeirra. Við tökum þetta í óreglulegri og tilviljanakenndri röð.

    Nat Phillips Derby County

    Költ-hetjan Nat fór enn á ný á lán í Championship deildina í vetur, nú til nýliðanna í Derby County. Hann byrjaði frekar rólega, var inn og út úr liðinu en þegar líða tók á tímabilið festi hann sig í sessi hjá nýjum stjóra. Hápunkturinn var þegar hann skoraði sigurmark í mikilvægasta leik liðsins og tryggði þeim sigur gegn Hull City, úrslit sem að urðu til þess að lokum að liðið hélt sér uppi. Hann endaði tímabilið sem fastamaður í liðinu, lék alls 32 deildarleiki og er í miklum metum hjá aðdáendum Derby. Stjóri þeirra var skýr í lok tímabils um að hann myndi vilja halda Phillips hjá Derby næsta tímabil.

    Einkunn og útlit Við látum Nat fá 8,0 fyrir tímabilið. Hann er nýorðinn 28 ára og er nú að fara inn í síðasta árið á samningi sínum. Það eru allar líkur á að hann verði nú seldur frá félaginu. Mörg lið í Championship horfa hýrt til hans og Leeds hefur líka verið nefnt. Hann verður seldur og við fáum um 5 milljónir fyrir hann.

    Rhys Williams Morecambe

    Partnerinn hans Nat er næstur á blað. Rhys hefur satt að segja átt býsna erfitt frá því að hann lék 19 leiki með aðalliðinu 2020-2021, mörg lán hingað til hafa skilað fáum leikjum. Í vetur var hann sendur til Morecambe í D-deildinni og þar varð hann loks fastamaður hjá liði. Hins vegar gekk liðinu afleitlega og lauk á því að falla út úr deildarkeppninni. Kappinn lék 40 leiki í deild, en í líklega slökustu vörn deildarkeppninnar.

    Einkunn og útlit Hann fær 5,0 fyrir að spila fullt af leikjum en í vondu, mjög vondu, liði. Samningur hans eins og Nat á eitt ár eftir en það virðist þó vera klárt að LFC er tilbúið að láta hann fá frjálsa sölu. Í öllu falli mun hann ekki fá mínútur hjá LFC og hverfur án greiðslu á lán eða frjálsri sölu.

    Owen Beck Blackburn Rovers

    Líklegast þekktastur fyrir það að vera frændi Ian Rush en kappinn er líka býsna frambærilegur vinstri bakvörður sem fór í Championship deildina í vetur eftir árangursríka veru hjá Dundee árið áður. Hann kom mjög sterkur inn í lið Blackburn sem fór vel af stað í deildinni en tvær slæmar tognanir aftan í læri sló hann út af laginu og hann náði ekki að leika með liðinu seinni part deildarinnar. Lék að lokum 24 leiki fyrir Blackburn og skoraði 1 mark.

    Einkunn og útlit Við setjum á hann 7,0 fyrir frábæran fyrri hluta þar sem hann virkilega var að fá athygli en svo komu meiðslin inn. Hann verður 23ja ára á árinu og mun mæta til æfinga með aðalliðinu í sumar, mögulega fá mínútur í æfingaleikjum eins og hann hefur áður fengið. Það eru þó ekki miklar líkur á því að hann eigi framtíð hjá LFC og slúðrið er að hann verði lánaður aftur í Championship deildina, eða þá mögulega seldur á um 5 milljónir punda. Það er smá séns að góð frammistaða í sumar myndi gefa honum tækifæri til að verða hluti af stærri hóp LFC.

    Ben Doak Middlesborough

    Klárlega mest spennandi lánið í vetur. Doak sannarlega verið í umræðunni sem framtíðarleikmaður Liverpool og ákvörðun félagsins var að senda hann til liðs þar sem hann fengi mikið að spila sem aðalmaður. Það varð strákurinn strax hjá Boro’, liði sem var í efri helmingnum og að spila aggressívan sóknarfótbolta. Frammistöðurnar virkilega góðar og í nóvember var hann valinn besti ungi leikmaður B- til D-deilda þann mánuð. Í janúar buðu úrvalsdeildarlið 20 milljónir punda í kappann en fengu neitun, talið að lágmarksverð til að fá hann keyptan yrðu 30 milljónir. Hins vegar reið ógæfan yfir í þeim mánuði og hann meiddist það alvarlega að tímabilinu lauk án fleiri leikja. Hann var þó farinn að geta æft í maí og er sagður vera heill og tilbúinn í næstu verkefni.

    Einkunn og útlit Hann fær 9,0 fyrir tímabilið. Bara meiðslin að stoppa hann frá fullu húsi. Það er klárt að hann verður mættur í Kirkby 8.júlí og mun þar fá að sýna sig fyrir Slot og félögum. Í dag eru þó meiri líkur á því að hann verði lánaður eða seldur til liðs í Úrvalsdeildinni eða svipað sterkum deildum. Þar værum við að tala um 30+ milljónir ef af sölu yrði. Gott sumar gæti hiklaust endurvakið von hans um LFC-framtíð

    Dominic Corness Gillingham

    Corness átti gott tímabil í Sviss leiktíðina ´23 – ´24 og var ætlunin að lána hann í svipaðan styrkleikaflokk í vetur en meiðsli komu í veg fyrir það síðasta haust. Hann lék nokkra leiki með U21s árs liðinu áður en hann var svo lánaður til Gillingham í febrúa. Þar náði hann aðeins að leika þrjá leiki til vors í D-deildinni.

    Einkunn og útlit Hann fær 1,0 í einkunn enda veturinn vondur. Nú í síðustu viku var tilkynnt að hann fengi að fara frítt frá LFC og verður því samningslaus 1.júlí.

    Kaide Gordon Norwich/Portsmouth

    Gordon var keyptur 16 ára frá Derby og miklar vonir voru bundnar við hann – er jú methafi á Anfield sem yngsti markaskorari félagsins í FA cup. Mikið af meiðslum hafa hindrað hans feril og í vetur var ætlunin að endurstilla hann með láni í næstefstu deild. Fyrri helmingurinn af tímabilinu var í Norwich þar sem hann kom við sögu í 10 leikjum, LFC var ósátt við hversu lítil tækifæri hann fékk, kallaði hann til baka í janúar og sendi til Portsmouth þar sem hann fékk 4 leiki til vors. 13 af þessum 14 leikjum kom hann inná sem varamaður, bæði í liðum um miðja næstefstu deild.

    Einkunn og útlit Setjum 3,0 á þennan vetur hjá Kaide, vetur sem átti að sparka honum í gang en virkaði bara þveröfugt. Hann er til sölu en samningurinn er langur og dýr og því líklegt að aftur verði reynt að lána hann til að svo að lokum fáist þokkalegt verð fyrir hann. Verður bara 21s árs í ár svo að það er ekkert útilokað að hann hrökkvi í gang.

    Stefan Bajcetic RB Salzburg / Las Palmas

    Verulega spennandi ungur maður sem eins og sumir hér að framan hefur verið í meiðslabrasi. Því var ákveðið að vetrinum skyldi varið í að finna honum mínútur í gæðaliði. Hann fór til Austurríkis og lék fyrir Pep Lijnders en þegar sá var rekinn lét Bajcetic strax vita af því að hann vildi fara annað og það varð úr að honum var kippt til baka og sendur til Spánar þar sem hann fór til Las Palmas. Sólin á Mallorca virkaði vel á hann og hann varð að lokum fastamaður í liðinu sem þó féll úr efstu deild. Í heildina spilaði hann 33 leiki á tímabilinu og skoraði eitt mark.

    Einkunn og útlit Hann fær 8,0 – margir af leikjunum í Austurríki voru innákomur sem varamaður og hann var í ströggli þar en hins vegar var Spánardvölin fín og lauk með honum sem fastamanni. Honum eru ætlaðar mínútur nú í sumar og mun fá séns á að spila sig inn í stóru myndina hjá LFC. Hann hefur hins vegar alveg látið í ljós að hann vill verða aðalmaður í liði og útilokaði alls ekki að fara aftur til Spánar, sagðist kunna mjög við leikstílinn þar. Þar gæti komið til lán en þá líka sala sem yrði á svipuðum stað og hjá Doak. Minnst 30 millur.

    Callum Scanlon Millwall

    Scanlon er einn af þeim leikmönnum sem LFC binda miklar vonir við. Öskufljótur vinstri bakvörður með fullt af hraða og sköpun, leikið töluvert af yngri landsleikjum og fengið töluvert af sumarmínútum. Í vetur var ákveðið að hann þyrfti kjöt og mínútur og sendur í framhaldi til suður London í “ljónshreiðrið” The Den hjá nöglunum í Millwall. Dálítið í anda vetursins þá flaug hann af stað og hann skoraði og lagði upp í fyrstu leikjunum. Þeir urðu þó bara fjórir vegna meiðsla og hann hefur verið meira og minna í Liverpool í endurhæfingu.

    Einkunn og útlit Skellum á hann 5,0 því hann fékk fullt af fyrirsögnum í þessum fáu leikjum. Hann mun fá mínútur í sumar og stefnan er að gera aðra tilraun til að lána hann í Championship, Millwall eru mjög spenntir.

    Lewis Koumas Stoke

    Koumas kom óvænt inn hjá Klopp, er með markanef og aggressívur framherji. Það voru mörg lið um hituna en að lokum var ákveðið að hann færi eins og margir aðrir til Championshipliðs þó að fyrst hafi skoska deildin og LeagueOne talið líklegri kostur. Koumas fór því til Stoke þar sem hann náði að koma við sögu í 49 leikjum þó meira en helmingur hafi verið sem varamaður þá er það sannarlega fínasti árangur. Hann skoraði 2 mörk og gaf 4 stoðsendingar á leiðinni. Stuðningsmenn Stoke voru eilítið beggja blands með kappann þó, vantaði svolítið upp á stöðugleikann en margt flott á ferðinni.

    Einkunn og útlit Hann fær alveg 8,0 fyrir það að fá svo mikinn spiltíma í mjög erfiðri deild og hjá liði sem var að ströggla. Sýnir ákveðið traust. Þessi strákur verður 20 ára í haust og er nú orðinn fastur í landsliðshóp Wales, nokkuð sem mun bara styrkja hann. Stefnan er að lána hann aftur, annað hvort í topplið í Championship eða liðs á meginlandinu. Við munum sjá hann fá sumarmínútur fyrst samt.

    Luke Chambers Wigan

    Annar vinstri bakvörður, fengið sumarmínútur og verið í lánum. Bakmeiðsli hafa hrjáð hann allan ferilinn og sama var í vetur. Náði aðeins 15 leikjum í LeagueOne hjá Wigan en stóð sig vel þegar hann náði að spila.

    Einkunn og útlit Fær 5,0 fyrir veturinn, fínar frammistöður en mikið um meiðsli. Líklegur í annað lán frekar en sölu en á ekki framtíð hjá LFC. Meira verið að lána til að hækka verðmiðann. Wigan hafa hug á að fá hann, en á frjálsri sölu.

    Calvin Ramsay Wigan/Kilmarnock

    Keyptur fyrir 6 milljónir punda frá Aberdeen en meiðsli og í kjölfarið algert sjálfstraustshrun hafa þýtt það að hann er bara dálítið kominn út í kuldann. Hann lék í heildina 12 leiki fyrir Wigan en náði aldrei að festa sig neitt í sessi og var kippt til baka og sendur upp til Skotlands í janúar þar sem hann kom nánast ekkert við sögu.

    Einkunn og útlit Blessaður karlinn fær 2,0 í einkunn. Einfaldlega misheppnuð kaup og í vetur varð alveg ljóst að hann kemst ekkert lengra nema að fá að kveðja þessa LFC-martröð. Liðið vill selja hann fyrir “cut-price” og talað er um að einhver lið í Skotlandi hafi áhuga á þessum strák sem átti frábært upphaf með Aberdeen og á landsleiki fyrir Skota. Eigum við segja milljón í bankann frekar en nýtt lán?

    Luca Stephenson Dundee United

    Kappinn fékk fínar sumarmínútur 2024 og þá að mestu á miðsvæðinu og í kjölfarið var ákveðið að senda hann á lán. Mörg lið lýstu áhuga en ákveðið var að senda hann til Skotlands í efstu deild. Þar varð hann lykilmaður í spútnikliði Dundee United sem lauk keppni í 5.sæti og leika í Conference deildinni á næsta ári. Hann lék að mestu sem vængbakvörður í 3-4-3 leikkerfi og endaði á að leika 34 af 38 keppnisleikjum liðsins og var nú nýlega valinn besti ungi leikmaður liðsins. Grjótharður með mikla hlaupagetu og olli mikilli lukku á meðal aðdáenda liðsins.

    Einkunn og útlit Hann fær alveg solid 9,0 út frá lykilhlutverkinu en vissulega deildin ekki rosalega sterk. Stjóri Dundee United er mjög skýr með að hann vill kaupa kappann og það er ekki ólíklegt að sú verði raunin. Hann verður 22ja ára og alveg ljóst að hann komst í gluggann í vetur. Þó er ekki ólíklegt að hann fái sumarmínútur fyrst og yrði þá lánaður aftur og þá til sterkara liðs.

    Samantekt

    Heilt yfir þá var veturinn ágætur þegar kemur að því að senda leikmenn á lán. Það var þó enginn sem náði þannig árangri að hægt sé að reikna með því að frammistaðan hafi skilað viðkomandi sterku tilkalli til að verða hluti af hópnum sem ver meistaratitilinn. Langlíklegastur þar er Bajcetic og þar á eftir má horfa til Ben Doak og Owen Beck. Það er mjög líklegt að þeir verði í leikmannahópnum gegn Preston. Það er þó allt eins líklegt að góðar frammistöður þeirra þýði hærri verðmiða og sölu líkt og við reiknum með hjá Nat Phillips og þar gætum við séð Luca Stephenson líka. Þetta væri að skila töluverðum milljónum í kassann. Corness og Rhys Williams munu fara án greiðslu og svo eru bæði Ramsay og Chambers til sölu fyrir klink. Við munum sjá Koumas og Scanlon lánaða næsta vetur og ákvörðun um þá tekin í framhaldinu.

    Liverpool hefur ákveðið að stokka upp í U18 og U21 liðunum með því að skipta þar um þjálfara og það hefur verið umræða um það í vor að áherslan á öfluga yngri leikmenn hafi aðeins lent úti á kanti. Því hefur verið talað um það að færri leikmenn verði lánaðir frá félaginu næsta tímabil og það gæti alveg þýtt að einhver nöfn hér að ofan verði á Kirkby í stað þess að vera sendir á lán. Lokapistillinn í uppgjöri vetrarins verður um yngri liðin og þá skoðum við líka hvaða nöfn væru líklegust til að fá mínútur í sumar og/eða svo fara á lán.

  • Næstu kaup sumarsins: Armin Pesci

    Þá er búið að gefa út hver næstu kaup félagsins í sumar verða, en það er tvítugur markvörður frá Ungverjalandi sem heitir Armin Pesci, þykir ansi efnilegur, en er nú væntanlega keyptur með það í huga að byrja í akademíunni a.m.k. svona að mestu leyti. Semsagt; einn markvörður út, annar inn (og svo einn að koma sem var keyptur síðasta sumar). Alltaf nóg að gera í markvarðadeildinni hjá Liverpool.

    Við vonum auðvitað að þetta verði ekki eini ungverski leikmaðurinn sem verður keyptur í sumar…. *hóst*Kerkez*hóst*

    Annars er orðið laust, er ekki eitthvað áhugavert slúður sem þið hafið rekist á?

    Maggi er svo að vinna í pistli um gengi lánsmanna Liverpool á síðasta tímabili, þið getið beðið spennt!

  • Kelleher farinn til Brentford

    Caoimhin Kelleher hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Liverpool – allavega í bili, því hann er farinn til Brentford. Ekkert sem kemur á óvart, í raun var helsta undrunarefnið að hann skyldi ekki fara síðasta sumar.

    Það er eitt og annað sem kemur í ljós þegar tölfræðin hans er skoðuð. Hann er t.d. með besta sigurhlutfallið af þeim markvörðum Liverpool sem hafa spilað 50 leiki eða fleiri:

    Kelleher – 65.7%
    Alisson – 65.4%
    Doig – 64.2%
    Grobbelaar – 57.6%
    Westerveld – 56.3%
    Slater – 55.5%
    Clemence – 54.7%
    Reina – 53.3%

    Þar spilar auðvitað inn í hversu gott liðið er sem er fyrir framan markvörðinn.

    En svo er hann líka sá markvörður sem hefur unnið flestar vítakeppnir í sögu félagsins – eins og kom fram í PubQuiz þættinum fyrir áramót. Það hefur líka enginn annar markvörður tekið þátt í fleiri vítakeppnum en hann.

    Takk fyrir samstarfið Kvív, hver veit nema þú snúir aftur einn daginn!

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close