Etihad næst á dagskrá

Andstæðingar Liverpool á morgun eru að mínu mati þeir bestu í ensku deildinni um þessar mundir. Þeir eru vissulega 10 stigum á eftir Chelsea en núna eftir áramót myndi ég frekar velja að mæta þeim bláu frekar en þeim ljósbláu. Liðið hans Guardiola var aðeins seinna í gang í vetur, þeir eru að spila mikið fleiri leiki og hafa lent í mun meiri meiðslavandræðum en þeir stefna hratt þangað sem svona ríkt lið á að vera.

City hefur aðeins tapað einum leik á Etihad í vetur og það var einmitt gegn Chelsea. Fimm leikir hafa hinsvegar endað með jafntefli og þar á meðal er síðasti heimaleikur þeirra gegn Stoke. Liverpool er aðeins einu stigi á eftir þeim í töflunni en City á leik til góða, þetta er því rándýr leikur fyrir okkar menn upp á sæti í Meistaradeildinni.

City spilaði síðast á miðvikudaginn er liðið féll eftirminnilega úr leik í Meistaradeildinni gegn frábæru liði Monaco. City menn virkuðu þreyttir á lokamínútunum í þeim leik og vonandi situr þessi skellur eitthvað í þeim er ferskt Liverpool lið mætir í heimsókn.

Vandamál City eru nákvæmlega þau sömu og Liverpool er að glíma við. Markmaðurinn er ekki nógu góður og vörnin er mikið í meiðslavandræðum og lekur allt of mikið af mörkum. Sóknarlega eru þeir hinsvegar ógnvekjandi svo vægt sé tekið til orða.

Raheem Sterling hefur verið einn af þeirra betri leikmönnum í vetur. Á hinum vængnum er Leroy Sané farin að finna fjölina en þar er á ferðinni hrikalega spennandi leikmaður. Tríóið var fullkomnað með Gabriel Jesus en eftir að hann meiddist kom Aguero bara aftur inn, besti sóknarmaður deildarinnar.

David Silva er besti leikmaður liðsins og hefur þessar sprengjur til að leita uppi, De Bryne er með honum á miðjunni ásamt annaðhvort Yaya Toure eða Fernandinho. Gundogan er meiddur. Það er því kannski ekki skrítið að þetta lið sé gott sóknarlega.

Það er samt ekkert lið sem hefur skorað meira í deildinni heldur en okkar menn og engin ástæða að fara inn í þennan leik með einhverja minnimáttarkend. Liverpool vann fyrri leik liðanna á gamlaársdag með 1-0 sigri sem reyndar útskýrði alls ekki afhverju þetta eru bestu sóknarlið deildarinnar.

Lið Liverpool 

Klopp hefur ekki marga möguleika þessa dagana og byrjunarliðið segir sig nokkuð sjálft fyrir leiki. Bekkurinn ætti þó að vera aðeins meira fullorðins í þessum leik heldur en þeim síðasta.

Lovren spilaði með U23 ára liðinu í vikunni, spilaði þar 75 mínútur og var góður. Ég tippa á að hann komi inn fyrir Klavan þrátt fyrir að hann hafi staðið sem vel gegn Burnley. Firmino á séns á að ná þessum leik skv. Klopp en ég tippa á að hann verði bara á bekknum. Henderson og Sturridge eru pottþétt ekki leikfærir.

Grujic ætti að koma aftur inn í hópinn, hann var mjög góður í miðri viku með U23 ára liðinu og virðist vera búinn að ná sér af meiðslum.

Trent Alexander-Arnold er farinn að pressa fast á sæti Clyne í liðinu, hann var maður leiksins með U23 ára liðinu um daginn og rúmlega það.

Ben Woodburn var settur inná um síðustu helgi þegar hálftími var eftir og það fyrir Coutinho sem var ekki meiddur. Það segir líklega töluvert um það hversu nálægt liðinu hann er kominn.

Ef að Monaco getur spilað eins og þeir gera með 18-22 ára stráka ættu þessir gríðarlega efnilegu leikmenn Liverpool að geta gert sér vonir um sénsa, sérstaklega undir stjórn Klopp.

Spá:

Alltaf finnst manni að þetta góða gegni gegn toppliðunum geti ekki gengið endalaust og af öllum leikjum tímabilsins held ég að þetta sé sá erfiðasti á pappír. Það eru samt veikleikar á liði City sem henta okkar mönnum mjög vel og þeir eru vonandi ekki búnir að jafna sig bæði líkamlega og andlega eftir ferðalagið til Frakklands í miðri viku.

Spái því 2-3 sigri okkar manna. Coutinho kemst aftur í gang og skorar ásamt Origi og Matip.

 

Podcast – Einn af leikjum tímabilsins

Sérstakur gestur þáttarins að þessu sinni var Arngrímur Baldursson, einn forsprakka LFC History, og ræddi hann nýútkomna bók sína Mr Liverpool: Ronnie Moran um ævi og störf goðsagnarinnar Ronnie Moran. Þá ræddu strákarnir sigurinn gegn Burnley, leikform þeirra Phil Coutinho og Divock Origi, líkamsburði leikmanna og hituðu loks upp fyrir stórleik næstu helgar gegn Manchester City.

Stjórnandi: Kristján Atli.
Viðmælendur: SSteinn, Einar Matthías og Arngrímur Baldursson.

MP3: Þáttur 144

Liverpool 2 – Burnley 1 (leikskýrsla)

0-1 Barnes á 7.mínútu
1-1 Wijnaldum á 45.mínútu
2-1 Can á 61.mínútu

Ótrúlega mikilvægt að draga þessi þrjú stig út úr pokanum í dag. Fullt af mótlæti en bros í lokin.

Bestu leikmenn Liverpool

Ætla að fá að tala bara um fyrri hálfleikinn síðar því hann var afar slakur og í raun afskaplega erfitt að taka upp ljósa punkta. Í síðari hálfleik er hins vegar hægt að finna hrós. Emre Can steig vel upp, auk þess að skora sigurmarkið var hann grimmur varnarlega og fór að flytja boltann vel milli svæða.

Ragnar Klavan átti tvær alvöru reddingar og fær gott hrós auk félaga hans í vörninni Matip sem var yfirvegaður og skallaði marga hættuna burt, svo var Mignolet gallalaus og greip vel inní leikinn. Hefur í raun átt afskaplega langt gott tímabil í frammistöðum. Þessir fjórir voru lyklar að því að við sigruðum þennan leik.

Vondur dagur

Fyrri hálfleikurinn var hrein hörmung og hrein hending næstum að staðan var jöfn að loknum fyrstu 45. Þá var ekkert tempó í gangi, við áttum ekki skot að marki fyrr en eftir 38 mínútur og maður var að verða virkilega niðurdreginn bara þegar Wijnaldum fékk óvænt færi og kláraði vel. Enginn sem stóð uppúr.

Seinni hálfleikurinn var allt annað en það voru þó tveir leikmenn sem voru að mínu mati alveg utan takts allan tímann. Sá fyrri var Brassinn okkar, Coutinho var úti á væng og sást ekki í fyrri og svo færður meira inn á miðju en eftir kortér af seinni ákvað Klopp að kippa honum út. Svei mér ég held að hann hljóti enn að vera að vinna sig upp í leikform, hann hefur verið algerlega neistalaus í ansi mörgum leikjum að undanförnu sem er mjög vont.

Hinn er Divorck Origi sem fékk nú sénsinn. Utan við stoðsendinguna var hann ekki með því miður og að lokum fór svo að Klopp kippti honum líka út og lét Mané hlaupa uppi á topp. Origi var linur í þessum leik, varnarmenn Burnley átu hann í hvert sinn sem langur bolti kom upp, hann lét teyma sig út á kanta þar sem hann tapaði iðulega boltanum og hann var alltof langt frá sínum manni í pressunni. Betur má ef duga skal kæri Divorck.

Umræða eftir leik

* LOKSINS unnum við leik gegn „litlu“ liði eftir að hafa lent undir. Klopp var enda miklu glaðari í viðtalinu eftir hann þennan en um síðustu helgi eftir Arsenal sigurinn. Til að ná árangri þarftu að vinna „ljóta“ sigra og þessi var svo sannarlega einn slíkur.

* Skiptingar Klopp voru allt aðrar en við höfum áður séð. Woodburn kom inná og var greinilega skipað að búa til vídd á völlinn sem hann gerði vel, allt annað en þegar Coutinho leitaði inn. Svo þegar Origi var alveg búinn að tapa baráttunni uppi á topp ákvað Klopp að henda refnum Lucas inn til að verja svæðið enn betur framan við hafsentana og freista þess að Mané fengi að komast á bakvið vörnina. Við höfum oft skammast yfir skiptingum Klopp en þær virkuðu í dag.

* Hvers vegna náum við ekki að keyra eins yfir þessi lið og þegar stóru liðin mæta? Þrátt fyrir að hafa unnið í dag var þetta ólíkt síðustu helgi, um stund voru Burnley um 60% með boltann og við virtumst eiga erfitt með að ná almennilegum tökum.

* Við náðum að landa þessum sigri þó að Firmino, Lovren og Hendo væru í burtu…og svo bættist Coutinho við í þann hóp. Þegar maður horfði yfir liðið síðustu 10 mínúturnar þá var maður pínu stressaður, en baráttan var til staðar sem skiptir öllu máli þegar uppá vantar í gæðum.

Næstu verkefni

Þá er stór leikur framundan. Það var alger skylda að vinna þennan því næst förum við á Etihad Stadium. Mikið vona ég að það verði nú eitthvað komið inn af „Lasarusunum“ okkar því þeirra verður þörf í þeim stórleik. Sigur þar myndi veita okkur töluvert frumkvæði í baráttuna um Meistaradeildarsætið.

Liverpool 2 – Burnley 1

LEIK LOKIÐ!!!

75 mín Áttum flottan kafla sem kom okkur yfir í leiknum en Burnley eru nú komnir ofar á völlinn og ætla að gera læti úr leiknum. Verða spennandi síðustu 15!

61 mín 2-1 Frábært langskot Emre Can upp úr innkasti. Dásamlegt, eitthvað sem gleður mitt gamla hjarta.

60 mín Við erum loksins að ná upp smá pressu í þessum leik. Ben Woodburn var að koma inn fyrir Coutinho!!!

46 mín 1-1 Wijnaldum nokkrum sekúndum fyrir leikslok, sending frá vinstri sem vörn Burnley tekst ekki að hreinsa og Wijnaldum skorar úr markteignum. Ekkert endilega sanngjarnt en vá hvað við tökum þetta!

30 mín Sorgleg frammistaða. Eftir 30 mínútur höfum við ekki átt skot á mark og erum einu marki undir.

7.mín 0-1 Þar með hófst það. Burnley búið að vera í sókn síðustu þrjár mínútur, fengu nægan tíma til að senda sendingu frá miðju í gegnum alla vörnina á fjær þar sem Barnes kláraði örugglega. Verulega vond byrjun.

Leikur hafinn;

Þar með hefur verið lagt í hann í rigningunni á Merseyside.

Spörkum í átt að Annie Road í fyrri eins og við viljum – að Kop-stúkunni í seinni hálfleik.

Byrjunarliðið mætt:

Bekkur: Karius, Moreno, Lucas, Wilson, Gomez, Alexander-Arnold, Woodburn.

Semsagt enginn Lovren í hóp ofan á að Firmino er ekki með heldur. Risaleikur fyrir Origi í dag!!!

Minnum á tístkeðjuna.


Þá hefjum við leikþráð fyrir leik okkar við Jóa Berg og félaga í Burnley…og treystum auðvitað á það að okkar menn sýni nú fram á það að þeir hafi nú eitthvað þróað leik sinn og geti nú græjað sig upp í gæðaframmistöðu gegn liði utan topp sex sætanna.

Í Liverpool er 10 stiga hiti og milt veður, rignir eitthvað á meðan á leik stendur og eykur auðvitað möguleikann á hröðum fótboltaleik. Sem er gott. Annars er enn lítið nýtt að frétta úr þessari himnesku borg, óvíst með þátttöku Firmino og Jói Berg verður í jakkafötum og hvergi nálægt liði gestanna.

Bæti hér inn á leiðinni fram að leik ef eitthvað fréttnæmt kemur upp, tístkeðjan kemur upp 90 mínútum fyrir leik og svo auðvitað byrjunarlið og síðan breytist þráðurinn i uppfærslu af stöðunni í leiknum jafnóðum og eitthvað gerist.

KOMA SVOOOOOOOOOOO!

Upphitun: Liverpool – Burnley

Staða Liverpool sem einhvers furðulegasta liðs í sögu Ensku Úrvalsdeildarinnar breyttist ekkert um síðustu helgi. Á góðri  íslensku er liðinu best lýst sem ´reverse flat track bullies´.

Tímabilið byrjaði með frábærum sigri á Arsenal þar sem okkar menn spiluðu glimmrandi fótbolta. Helgina eftir töpðu okkar menn gegn nýliðum Burnley. Þessar tvær viðureignir lýsa tímabilinu í heild fullkomlega. Síðustu æfingaleikir Liverpool fyrir þessa fyrstu tvo deildarleiki tímabilsins voru 4-0 sigur á Barcelona sem var fylgt eftir daginn eftir með 4-0 tapi gegn Mainz. Þetta er lið okkar er stórundarlegt og hafa margir reynt að greina vanda liðsins í vetur. Niðurstaða úr þeim rannsókum er nokkuð afgerandi.

Continue reading