Porto í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar

Nú er ljóst hvernig liðin raðast í 16 liða úrslitum í Meistaradeildinni, og okkar menn munu mæta Porto. Skoðanakönnunin sem gerð var hér á síðunni fyrir skemmstu endaði þannig að Porto varð þar í þriðja sæti, semsagt ekki fyrsta val en alls ekki það síðasta. Það var Xabi okkar Alonso sem sá um að draga.

Fyrri leikirnir fara fram annaðhvort 13/14. febrúar eða 20/21. febrúar, og seinni leikirnir verða leiknir 6/7. mars eða 13/14. mars. Og já seinni leikurinn verður í Liverpool.

Ég er nokkuð viss um að Einar Matthías mun hita vel og vandlega upp fyrir þessa leiki, en þangað til þær upphitanir detta inn er hægt að ylja sér við það þegar liðin mættust síðast fyrir 10 árum síðan.

EDIT: skv. Pearce er orðið ljóst að fyrri leikurinn fari fram miðvikudaginn 14. febrúar í Portúgal, og sá seinni í Liverpool þriðjudaginn 6. mars. Þá er bara að finna miða…

Liverpool 1-1 Everton

 

Mörkin:

42′ Salah

77′ Rooney víti

 

Leikurinn:

Klopp gerði fjölmargar breytingar á liðinu frá 7-0 sigrinum gegn Spartak. Coutinho og Firmino vermdu varamannabekkinn og munar um minna í Derbyslag!! Ég spyr mig afhverju það þurfti að fara útí þessar breytingar í þessum leik þegar næsti leikur er heima gegn WBA. Þessi leikur skiptir innfædda (Og okkur flest) hreinlega öllu máli og mátti sjá twitter loga fyrir leik vegna þessarar ákvörðunar Klopp.

Þrátt fyrir allt kom Liverpool liðið vel skipulagt til leiks og það var bara eitt lið á vellinum. Taktík og leikur Everton voru með þvílíkum eindæmum að maður hefur vart séð annað eins. Everton reyndu aldrei að spila fótbolta og þeir fögnuðu fyrstu hornspyrnu sinni á 77′ mínútu eins og þeir hefðu skorað mark.

Fyrri hálfleikur var heldur tíðindalítill lengst framan af, Liverpool héldu boltanum og reyndu að finna glufu á vörn Everton sem gekk enganveginn og saknaði maður strax Coutinho í þessum leik sem hefði mögulega geta skapað eitthvað. Það þurfti einstaklingsframtak frá okkar besta leikmanni Mo Salah á 42′ mínútu til að brjóta ísinn. Hann tók frábæran snúning, snéri af sér tvo leikmenn Everton og lagði hann snyrtilega í fjærhornið 1-0 beint í andlitið á stuðningsmönnum Everton. Í uppbótartíma geystist Mané inní teig eftir góða baráttu en kaus að skjóta með þrjá leikmenn Liverpool sér við hlið fyrir opnu marki og lullaði boltinn framhjá. Óskiljanleg og eigingjörn ákvörðun hjá Mané og hreinlega grátlegt í ljósi úrslitanna.

Síðari hálfleikur fór fjörlega af stað. Solanke var nálægt því að skora með skalla eftir flotta sendingu Chamberlain en á síðustu stundu bægðu varnarmenn Everton frá. Salah fékk svo opinn en erfiðan skallabolta en setti hann framhjá. Svona leið leikurinn, við héldum boltanum og fengum ótal hornspyrnur án þess þó að neitt kæmi útúrþví og Everton lágu áfram til baka. á 67′ mínútu kom fyrsta skiptingin þegar markaskorarinn Salah var tekinn útaf í stað Firmino. Skipting sem mér þótti hreinlega stórfurðuleg enda Salah okkar langsprækasti maður, heldur hefði ég viljað sjá Solanke eða Mané út fyrir Firmino.  á 76′ mínútu kom vendipunktur leiksins. Lovren fékk dæmt á sig víti fyrir nánast sagt litlar sakir en því er ekki að neita að þetta leit klaufalega út og sennilega algjör óþarfi að „ýta“ á eftir leikmanni Everton þegar hann er að hlaupa úr teignum.  Rooney fór á punktinn og skoraði örugglega. Þarna ákvað Klopp að bregðast við og setti Coutinho inn fyrir Chamberlain sem mér fannst vera einna sprækasti maður okkar á þessum tímapunkti. Ings kom svo inná fyrir Solanke á 82´mínútu en allt kom þetta of seint og leikurinn fjaraði út. Niðurstaðan mest svekkjandi leikur tímabilsins að mínu mati og hrikalega dýrmæt stig í súginn svo ekki sé talað um gegn erkifjendunum.

 

Bestu leikmenn Liverpool:

Það spilaði engin leikmaður illa í dag en það var heldur engin frábær.  Mér fannst Salah okkar sprækasti maður og hann skorar þetta gull af marki og fær því nafnbótina Maður leiksins. Einnig fannst mér Gomez og Chamberlain komast vel frá sínu.

 

Slæmur dagur:

Solanke þrátt fyrir að vera gríðarlegt efni er hreinlega ekki tilbúinn að byrja svona leik en hann var samt ekkert slæmur en það vantaði töluvert uppá hjá honum í dag. Klúðrið hjá Mané var svo stórt að það er erfitt að horfa framhjá því þótt hann hafi alls ekki verið lélegur. Henderson heldur svo áfram að vera á milli tannana á fólki og það skiljanlega en mér fannst hann betri í dag en undanfarnar vikur. Hvort hann er rétti maðurinn til að leiða þetta lið eru margir farnir að efast um en hann er góður fótboltamaður þegar sá gállinn er á honum.

 

Umræðan eftir leik:

Umræðan mun snúast um vítaspyrnudóminn og uppstillingu Klopp. Ég var sultuslakur að fara að skrifa um hvað það væri nú gott að vinna Everton og rótera aðeins og hvíla menn en svo kom þetta blessaða víti og á örstundu fór maður í að blóta því að hafa ekki byrjað leikinn á okkar sterkasta liði. Ég ætla að segja að þetta hafi verið víti fyrst að Jamie Carragher segir það en soft var það. Ótrúlega klaufalegt hjá Lovren sem annars var fínn í þessum leik. Maður spyr sig hvort Klopp átti sig ekki á hversu stórir leikir þetta eru fyrir aðdáendur?  Sjálfssagt veit hann það en tók þessa svakalegu ákvörðun með liðsuppstillingu sinni. Þetta er ekkert svartnætti, við sitjum ennþá í fjórða sæti deildarinnar og erum að spila skemmtilegan fótbolta ( Svona mest þegar önnur lið vilja spila fótbolta á móti okkur).

 

Næsta verkefni:

WBA á Anfield á miðvikudagskvöld í deildinni og þar er ekkert annað í boði en þrjú stig. Vonandi Keyrum við á okkar sterkasta liði í þeim leik. Þangað til lifið heil. YNWA!!!!

 

Liðið gegn Everton.

Góðan dag og gleðilega hátíð! Klopp hefur valið liðið sem mætir til leiks í grannaslagnum og lítur það svona út:

 

 

Mignolet

Gomez – Klavan – Lovren – Robertson

Milner – Henderson – Chamberlain

Salah – Solanke – Mané

Bekkur: Karius, Wijnaldum, Firmino, Coutinho, Can, Ings, Alexander-Arnold.

Virkilega óvænt lið hjá Klopp sem setur Solanke á topp og Chamberlain á miðjuna. Robertson fær svo sénsinn í vinstri bakverðinum. Firmino og Coutinho á bekknum ásamt Danny Ings!! Sturridge ekki í hóp í dag.

Sjáum hvað setur koma svo!!!

Við minnum á hashtaggið okkar #kopis og umræðurnar hér að neðan.


 

Grannaslagur á sunnudag!

Á sunnudaginn heldur veislan áfram hjá okkar mönnum sem eru sjóðandi heitir um þessar mundir eftir tvo risa sigra í röð, 5-1 og 7-0. Næstu mótherjar eru Gylfi Sig og félagar í Everton á Anfield. Það má því segja að síðustu tveir leiki hafi verið fínasta upphitun fyrir þann leik!

Það á víst að vera mikil snjókoma og ekki gott fótboltaveður á sunnudaginn þegar liðin mætast sem vonandi setur ekki of mikið strik í reikninginn en eitthvað getur þetta Liverpool lið hlaupið svo það má nú alveg reikna með að það verði hiti í skrokknum á þeim.

Everton byrjaði leiktíðina hreint ömurlega og þá sérstaklega í ljósi yfirlýsinga þeirra eftir sumargluggann þar sem þeir eyddu miklum pening í marga leikmenn en seldu sinn besta mann og komu út á sléttu. Það var að myndast valdaskipting í Liverpool-borg og augljóslega myndi Everton enda fyrir ofan Liverpool þar sem þeir keyptu betri leikmenn og allt það.

Ronald Koeman, sem komst í hann krappann á þessum tíma í fyrra þegar hann skreytti jólatréð sitt með rauðu skrauti og fékk heldur betur skítkast frá stuðningsmönnum þeirra bláu. Hvernig dirfist hann?! – Úps, smá útúrdúr!

Ronald Koeman var rekinn frá Everton eftir nokkra leiki sem töpuðust og hreint út sagt ansi daprar frammistöður. David Unsworth tók við keflinu tímabundið og náði nú ekki beint mikið betri árangri og nú er nýkominn Sam Allardyce við stýrið. Hann meira að segja setti á sjálfstýringu og nennti ekki með liðinu sínu í útleik í Evrópudeildinni, þar sem Everton er dottið úr leik eftir hreint hörmulega frammistöðu í riðlakeppninni.

Þeir hafa unnið síðustu tvo deildarleiki sína og litið töluvert betur út í þeim en í mörgum öðrum leikjum sínum. Þeir lögðu West Ham 4-0 og Huddersfield 2-0 svo þeir virðast aðeins vera að ranka við sér og vonandi nær Liverpool að slá þá aftur í rot. Ég get vel ímyndað mér að Everton hefði kosið að fá Liverpool ekki akkúratt á þessum tímapunkti.

Það er alls ekki mikill hraði í þessu Everton liði og það er þá einna helst þeir Calvert-Lewin og Aaron Lennon, sem er frábært að sjá aftur á vellinum eftir að hann hefur náð sér aftur á ról eftir að hafa verið kominn á slæman stað vegna andlegra veikinda, sem sjá um að keyra upp púlsinn hjá Everton. Wayne Rooney hefur verið á góðu skriði undanfarið með þrjú mörk og tvær stoðsendingar í þessum síðustu leikjum og Gylfi okkar Sigurðsson er farinn að finna taktinn. Þetta eru einna helst þessir tveir sem þyrfti helst að loka á í sóknarspili Everton að mínu mati, það má annars reikna með að Everton muni liggja djúpt og munu líklega forðast það eins og heitan eldinn að opna pláss fyrir aftan sig.

Það er erfitt að lesa í það hvað Klopp hyggist gera með liðið fyrir leikinn en hann hefur gefið það upp að Henderson muni byrja leikinn þar sem hann var ekki með gegn Spartak. Væntanlega þá fyrir annað hvort Can eða Wijnaldum. Chamberlain og Sturridge byrjuðu á bekknum og gætu komið inn, Matip verður enn frá vegna meiðsla og líklega verður vörnin óbreytt fyrir utan Milner eða Robertson í vinstri bakverði fyrir meiddan Moreno. Mignolet mun koma aftur í markið og stóra spurningin er auðvitað hvort Klopp muni halda áfram að rótera í þessum fjóru sóknarstöðum.

Það er leikur gegn WBA í miðri næstu viku og Bournemouth um næstu helgi svo leikirnir eru að fara að hrúgast upp á næstunni. Það er því ekki ólíklegt að það muni vera töluverð rótering á liðinu á næstunni líkt og hefur verið undanfarið, eina spurning er hvort að hún verði gerð fyrir „stærsta“ leikinn fyrir Arsenal þann 22.desember eða hvort það gerist frekar gegn WBA og Bournemouth.

Persónulega myndi ég vilja sjá liðið alveg ósnert. Lið sem vinnur 7-0 þar sem sóknarlínan fer hamförum og allir komast á blað og holningin á liðinu almennt frábær á ekki að vera breytt en það voru menn hvíldir þegar liðið vann Brighton 5-1 leiknum áður og Stoke 3-0 þar áður svo það sýnir að breiddin og gæðin í hópnum eru mikil. Liðið vann 7-0, það er grannaslagur og momentum-ið er hátt – Klopp og Liverpool á að fara út all guns blazing.

Þetta viljum við sjá!

Mignolet
Gomez – Lovren – Klavan – Milner

Mané – Can – Henderson – Coutinho (c)

Salah – Firmino

Ég smá efast um það en ég ætla að vona að þetta verði þá bara liðið á sunnudaginn. Við hendum fallbyssunum á völlinn og freistum þess að Everton menn fari grautfúlir af velli í leikslok og hendi öllu rauðu jóladóti sem þeir finna í kringum sig. Líklega kemur Chamberlain og Sturridge inn ef einhverjar róteringar yrðu.

Sigur á sunnudaginn og „hagstæð“ úrslit úr grannaslagnum í Manchester gæti komið Liverpool í fína stöðu í þessum Meistaradeildarsætispakka fyrir jólatíðina – þar sem er fullt af leikjum sem liðið ætti að geta safnað all nokkrum stigum úr.

Höldum áfram og fletjum út Everton á sunnudaginn! Ég vil enn fleiri mörk og þetta flot í sóknarleiknum – shit, hvað þetta lið er skemmtilegt og gæti vel náð ansi langt.

Hverjum viljum við mæta í 16-liða úrslitum?

Mikið óskaplega er gaman að sjá Liverpool loksins aftur í pottinum þegar dregið er í Meistaradeildinni. Ekki bara það heldur var liðið að senda skýr skilaboð um að Liverpool væri sannarlega mætt aftur til leiks meðal þeirra bestu. Það verður dregið á mánudaginn og nú er bara spurning hverja við viljum helst fá upp úr pottinum?

Hvaða lið viltu helst að Liverpool mæti í 16-liða úrslitum?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

Þetta eru einu liðin sem við getum mögulega mætt, Liverpool getur ekki mætt liðum sem lentu í fyrsta sæti í sinum riðlum, ekki enskum liðum og ekki Sevilla sem var með okkur í riðli.

Allt eru þetta lið sem við þekkjum vel til og Liverpool hefur mætt þeim flestum nokkrum sinnum áður.
– Bayern höfum við ekki mætt oft í alvöru leik en The Fab Four boðuðu sannarlega komu sína gegn þeim í æfingaleik í sumar.
– Er ekki kominn tími til að kveða niður þessa fáránlegu Basel grýlu?
– Porto er klárlega eitthvað sem stuðningsmenn væru til í að fá með ferðalagið í útileikinn í huga. Allir til í Portúgal í febrúar.
– Juventus og Liverpool eiga sér auðvitað töluverða sögu
– Sama á við um Liverpool og Real Madríd, þeir voru rúmlega númeri of stórir síðast þegar Liverpool var í Meistaradeildinni, spurning hvort bilið sé svo stórt ennþá?
– Shakhtar Donetsk er klárlega minnst sexy fyrir stuðningsmenn enda Shakhtar ekki spilað á heimavelli í nokkur ár og takmarkað spennandi að ferðast til Úkarínu um þessar mundir.