Latest stories

 • Gullkastið – Sumarið er tíminn

  Hægt og rólega færist (Staðfest) nær á Liverpool Englandsmeistarar og ætti þetta að vera formsatriði eftir línurnar sem stjórn knattspyrnusambandsins á Englandi lagði í dag. Það kemur ekki til greina að núlla tímabilið út og ekki heldur að sleppa liðum við fall á þessu tímabili. Annaðhvort verður tímabilið klárað og vinna við það er í fullum gangi eða meðaltals stigafjöldi út frá þeim leikjum sem þegar er búið að spila verður látin ráða. Liverpool með sitt 25 stiga forskot er í últra mega ljómandi málum hvor leiðin sem verður farin í þeim efnum. Það er annars ár frá 4-0 sigrinum á Barcelona, einu besta kvöldi í sögu félagsins og að sjálfsögðu tilefni til að ryfja það upp.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 287

  [...]
 • Endurræst um miðjan júní?

  Síðasta sólahringinn hafa verið að detta inn jákvæðar fréttir um endurkomu enska boltans en breska ríkisstjórnin gaf út fimmtíu blaðsíðna bækling um áætlanir sínar um að létta á útgöngubanninu þar í landi. Þar kom fram að það mætti ekki spila neinar atvinnumannaíþróttir þar til um næstu mánaðarmót, eins og má sjá hér, en það er nú verið að undirbúa endurkomu boltans um miðjan júní mánuð.

  Þó eru vissulega margir steinar í götu þess að boltinn muni snúa aftur. Liðin eiga eftir að halda sínar kosningar um hvernig verður að þessu staðið þar sem 70% liða þurfa að vera sammála, eða fjórtán af tuttugu liðum deildarinnar. Forráðamenn Aston Villa, Brighton og Watford hafa til að mynda allir mótmælt því að spilað sé á hlutlausum völlum, nema hætt sé við fall úr deildinni í ár. Atkvæðagreiðsla um það átti upprunalega að vera í dag en það er búið að fresta henni þar til sienna í maí mánuði. Svo á eftir að sjá hvað verður gert með samningaleikmanna sem eiga að renna út um næstu mánaðarmót, en það á víst að vera fundur um þau málefni næsta mánudag. Klárt mál er að horft verður yfir til Þýskalands og séð hvernig gengur hjá þeim að endurræsa sína deild og að lokum þarf að vera betra útlit í breska heilbrigðiskerfinu en barátta þeirra við Covid-19 veiruna hefur verið erfið.

  Gangi þetta allt eftir gætum við séð ensku deildina snúa aftur 12.júní og vera spilaða yfir tveggja mánaða tímabil þar sem allir 92 leikir sem eru eftir óspilaðir verða sýndir í sjónvarp.

   

   

  [...]
 • Verður spilað í sumar?

  Það er í rauninn alveg ótrúlegt hversu lítið við vitum ennþá þrátt fyrir að það eru tæplega tveir mánuðir síðan síðast var spilað á Englandi. Auðvitað hjálpar ekki að bretar voru allt of seinir til í að bregðast við Covid19 og eru að koma verst allra út í Evrópu. Það er ennþá ekki ljóst hvort að tímabilið verði klárað á hlutlausum velli í hálfgerðu hraðmóti, hvort tímabilið verði stöðvað nú og staðan í deildinni nokkurnvegin látin ráða eða þá að tímabilið verði flautað alveg af og þurrkað út.

  Ligue 1 í Frakklandi var fyrsta deildin af stóru fimm til að slaufa tímabilinu alveg og var stigasöfnun það sem af er tímabili framreiknið út mótið og látin ráða til að skera úr um sigurverara, Evrópusæti o.þ.h. Stjórnvöld í Frakklandi bönnuðu íþróttir fram í september en hafa mætt töluverðri gagnrýni síðan.

  Þetta gæti alveg gerst á Englandi en það er alls ekki jafn auðvelt að afskrifa síðustu 9-10 umferðirnar þar vegna sjónvarpstekna af þeim leikjum. Þar eru enska og franska deildin ekki samanburðarhæfar. Ákvörðun Frakka er samt góðar fréttir fyrir Liverpool að þvi leiti að með sömu reikniformúlu eru Liverpool meistarar á Englandi. Reyndar er alveg sama hvaða formúlu er notað, Liverpool eru Englandsmeistarar.

  Ef að stigasöfnun allra liða í deildinni það sem af er tímabili yrði framreiknuð út tímabilið myndi Man City enda með 77 stig. Þeir hafa verið með um 67% stigasöfnun það sem af er tímabili og myndu með sama áframhaldi samt enda fimm stigum á eftir Liverpool þó að okkar menn myndu ekki fá neitt stig. Man City getur mest fengið 87 stig eins og staðan í deildinni er núna.

  Þessi mynd sýnir ágætlega hversu rosalega Liverpool er búið að rústa þessari deild í vetur. Það er auðveldasta ákvörðunin af öllum deildum Evrópu að afhenda Liverpool titilinn enda ekkert lið í toppdeild með stærra forskot. Liverpool er með rúmlega helmingi meira forskot en PSG var í Frakklandi

  Ítalir, Þjóðverjar, Spánverjar og Tyrkir eru allir ennþá að stefna að því að spila þá leiki sem eftir eru og byrja jafnvel í þessum mánuði (Þjóðverjar). Enska deildin er víst að fara funda aftur á mánudaginn þar sem tekin verður ákvörðun með framhaldið. Fréttir núna herma að liðin í botnbaráttunni neiti að spila á hlutlausum velli og heimti að tryggt verði að ekkert lið falli á þessu tímabili. Gangi þeim vel með það.

  Persónulega fer manni að verða slétt sama hvernig þeir komast loksins að því að Liverpool vann deildina 2019/20 svo lengi sem það verði niðurstaðan. Guð minn góður hvað það er gott að forskotið er einmitt þetta stórt þannig að þetta verður aldrei neitt argument.

  [...]
 • Endurræsing í undirbúningi

  Úrvalsdeildin gaf loksins frá sér yfirlýsingu eftir fund í dag, en þessi yfirlýsing segir okkur svosem ekki neitt sérstaklega mikið.

  Þó það líti út fyrir að það sé ennþá langur vegur þar til við sjáum boltann rúlla aftur, þá er a.m.k. farið að plana hvernig þessi endurræsing á deildinni gæti litið út. Fyrir það fyrsta, þá virðast liðin og deildin sem slík vera ákveðin í því að klára þetta tímabil. En að sjálfsögðu mun þetta líta svolítið öðruvísi út en við höfum átt að venjast. Þessu er lýst ágætlega í þessari grein hjá BBC, en þetta eru helstu atriðin:

  • Að sjálfsögðu verða allir leikir leiknir án áhorfenda.
  • Talað er um að fundnir verði allt að 10 hlutlausir vellir og spilað á þeim.
  • Læknateymi liðanna verða í fullum varnarbúningi.
  • Æfingar fara þannig fram að leikmenn mæta í búningum sínum á völlinn, og fara ekki í sturtu á staðnum
  • Stefnt er að því að leikmenn fari í Covid próf tvisvar í viku, og tékkað verði á einkennum oftar en það. Reiknað er með að það þurfi um 40.000 próf til að geta klárað deildina.

  Rétt er að taka fram að þetta er ennþá allt á hugmyndastigi, í raun er ekki búið að ákveða neitt ennþá. Jafnframt eru hugmyndir um að byrja aftur fyrstu vikuna í júní, og að æfingar hefjist um miðjan maí, en þetta eru ennþá bara hugmyndir.

  [...]
 • Gullkastið – Flautað af?

  Það vantar ekkert upp á misvísandi fréttir þessa dagana og ljóst að óvissan með framhaldið er ennþá töluverð, ekki bara þegar kemur að fótboltanum. Fórum yfir helstu fréttir vikunnar.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 286

  [...]
 • Trent

  Tímabilið 2015-2016 reyndist að mörgu leyti vera ansi örlagaríkt fyrir Liverpool. Þetta var jú tímabilið þar sem Brendan Rodgers fékk að fjúka, og Jürgen Klopp tók við. En það var fleira sem gerðist þetta tímabil, þar á meðal á undirbúningstímabilinu. Liðið hafði farið í ferðalag til Asíu þar sem nýjir leikmenn voru kynntir til sögunnar (eins og Firmino), og ungir og efnilegir leikmenn fengu tækifæri til að sýna sig og sanna. Fæstir þeirra gripu tækifærið. Maggi átti ágæta samantekt um þessa kjúklinga á sínum tíma, og þegar við skoðum þennan lista sjáum við að í raun er það aðeins Harry Wilson sem ennþá á einhvern séns á að komast að hjá klúbbnum, aðrir leikmenn reyndust einfaldlega ekki nógu góðir.

  Viku fyrir fyrsta leik tímabilsins var liðið svo komið heim og spilaði æfingaleik við Swindon Town. Undir öllum hefðbundnum kringumstæðum hefði þetta átt að verða einn gleymanlegasti leikur liðsins á síðustu árum. Nema hvað að þarna sáum við í fyrsta skipti nafn á leikskýrslu sem átti heldur betur eftir að koma við sögu síðar, 16 ára uppalinn scouser með sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið.

  Trent Alexander-Arnold.

  Mynd tekin í algjöru leyfisleysi af Google Maps, sem þurfti að sjálfsögðu að blörra andlitið. Annars hefðum við mögulega getað haft hugmynd af hverjum myndin er.

  Umfjöllunin um leikinn á sínum tíma bendir til þess að hann hafi einfaldlega skilað sínu, án þess að hafa átt neina flugeldasýningu, enda var hann að stíga sín fyrstu skref með aðalliðinu. Reyndar voru þessi skref svo snemmstigin að nánast enginn hafði heyrt þetta nafn nefnt áður. Maggi kom a.m.k. af fjöllum í leikþræði/skýrslu um þennan æfingaleik, rétt eins og undirritaður og aðrir lesendur síðunnar (sjá athugasemdir við þráðinn).

  Reyndar var það svo að við höfðum reyndar séð hann áður á Anfield. Bara ekki í Liverpool búningi, því sagan segir að hann hafi verið boltastrákur á leiknum alræmda; Liverpool-Chelsea í apríl 2014. Við ætlum nú ekki að gera nokkrum manni það að rifja þann leik upp (og ef einhver spyr “hvaða leik?” þá mun ég svara “nákvæmlega”).

  En hann hlaut semsagt sína eldskírn sumarið 2015. Hann kom ekkert við sögu í aðalleikjum liðsins um veturinn, kannski ekki skrýtið því kappinn varð jú 17 ára í október, og þó við vitum öll hvað Klopp er tilbúinn að gefa ungum strákum sénsinn, þá virðist hann alltaf passa sig á því að gefa þeim nægan tíma til að þroskast líkamlega. Hann birtist því ekki aftur fyrr en næsta sumar, eða í æfingaleik gegn Tranmere. Þá gerði hann sér lítið fyrir og lagði upp sigurmarkið í þeim leik, mark sem Danny Ings skoraði. Fleiri æfingaleikir fylgdu í kjölfarið: Fleetwood Town, Wigan, Huddersfield, AC Milan, Roma (þar sem Mohamed nokkur Salah skoraði fyrir Roma), Barcelona (sá leikur fór 4-0, eitthvað könnumst við nú við svoleiðis úrslit), og svo afar misheppnaður leikur gegn Mainz daginn eftir. Allt leikir þar sem Trent kom við sögu, var fjarri því að vera mest áberandi leikmaðurinn, en var alltaf að skila dagsverki eins og ætla mátti að 17 ára unglingur myndi gera, og vel rúmlega það.

  Hann var svo á bekk í fyrsta leik tímabilsins gegn Arsenal, þar sem Oxlade nokkur Chamberlain skoraði á móti okkar mönnum… gamalkunnugt stef.

  Fyrsta skiptið hans í byrjunarliði var svo gegn Tottenham í deildarbikarnum. Aftur stóð hann sig vel. Fyrsta innkoman í leik í deildinni var gegn Middlesbrough í desember, og svo fékk hann fyrsta sénsinn í byrjunarliði í deild í janúar í leik gegn United. Hversu ljóðrænt er það að scouser fái að byrja sinn fyrsta deildarleik gegn rauðu djöflunum? Eyþóri fannst full ástæða til að hrósa honum sérstaklega í leikskýrslunni.

  Nú var komið að því að fara að ákveða hvað við ættum að kalla kappann. Alexander-Arnold? Alexander? Arnold? Trent? TAA? Trent AA? Það voru ýmsar útgáfur sem dúkkuðu upp, og satt að segja erum við enn að sjá ýmiskonar útgáfur af nafni hans.

  Leikjunum fór að fjölga eftir þetta, sérstaklega þar sem Clyne var að slást við eitthvað hnjask, en oftar var hann þó á bekknum. Í mikilvægum leik gegn Stoke var hann í einhverskonar vængbakvarðarhlutverki en þó jafnvel sem hreinræktaður vængmaður í einhverju sem var hugsanlega 4-5-1 uppstilling, en alla jafna var hann þó bara að spila sem bakvörður, og þá í stað Clyne.

  Það sem gerist svo um sumarið átti eftir að reynast hafa mikið að segja um framhaldið, en Clyne meiðist á baki. Upphaflega var talið að þessi meiðsli myndu halda honum frá keppni fram í febrúar 2018, en reyndin varð sú að Clyne spilaði fyrst í apríl 2018. Þetta var tækifærið fyrir Trent, sem var þarna hárréttur maður á réttum stað, búinn að umgangast aðalliðið í tvö ár, þar af eitt ár að mestu á bekknum en með stöku innkomu.

  Við tók tímabilið 2017-2018, og það þarf í sjálfu sér ekkert að rifja upp með lesendum hvernig það gekk. Trent spilaði flesta leiki, og festi sig í sessi sem aðal hægri bakvörður liðsins. Hann kynnti sig til leiks á stóra sviðinu í leik gegn Hoffenheim þar sem hann skoraði beint úr aukaspyrnu, og sýndi þar að hann er einn fremsti spyrnumaður liðsins.

  Og eftir tímabilið 2018-2019 var óhætt að segja að Trent hafi verið kominn í hóp bestu hægri bakvarða heims. Það tímabil átti hann flestar stoðsendingar hjá Liverpool, og aðeins Eden Hazard og Ryan Fraser áttu fleiri stoðsendingar í deildinni. Hann og Andy Robertson hafa átt nánast fast sæti í bakvarðarstöðum í liði ársins, og skiptir þá afskaplega litlu hver er að setja slíkt lið saman.

  Hann var valinn í enska landsliðið fyrir HM sumarið 2018. Við reiknuðum nú flest með að hann yrði þar í algjöru aukahlutverki, og það varð svosem reyndin, en þó fékk hann mínútur í leik þar sem England gat leyft sér að rótera svolítið. Og í júní 2019, þegar Þjóðadeildin alræmda kláraðist, þá má segja að hann hafi farið að banka all hressilega á dyrnar sem kandídat í að vera fyrsti kostur hjá Gareth Southgate í hægri bakvarðarstöðuna. Í leiknum um þriðja sætið gegn Sviss var Kyle Walker settur til hliðar, og Trent byrjaði leikinn. Margir töluðu um hann sem einn af bestu leikmönnum liðsins í þessum leik, hann átti líklega einhverjar 7 fyrirgjafir sem voru hver önnur nákvæmari, og það var í raun bara fyrir einstakan klaufaskap í fremstu mönnum Englands að það yrðu ekki úr þessu mörk.

  Í dag er hann ekki lengur einn efnilegasti bakvörðurinn í fótboltanum, og hann er hættur að banka á dyrnar að komast í hóp þeirra bestu. Í dag er einfaldlega talað um Trent sem annaðhvort besta hægri bakvörðinn í heiminum í dag, eða þá að hann sé einn af 2-3 bestu. Vefmiðillinn FourFourTwo setti hann t.a.m. í efsta sæti þegar tekinn var saman listi yfir bestu hægri bakverði í heiminum. (Á sambærilegum listum fyrir vinstri bakvörð og markvörð voru Andy Robertson og Alisson Becker báðir settir í 2. sæti). Þá telur Transfermarket að hann sé verðmætasti bakvörðurinn í heiminum í dag:

  Þessar tölur voru vissulega gefnar út áður en Covid-19 faraldurinn hófst, svo það er óvíst að neinn þessara leikmanna færi á þessar upphæðir í dag, en það ætti ekki að breyta neinu um röðina.

  Hversu gaman er það að fara frá því að vera í stöðugum vandræðum með báðar bakvarðastöðurnar, yfir í að eiga núna tvo bestu bakverðina í boltanum í dag?

  Umræðan um að hann eigi eftir að verða fyrirliði Liverpool í framtíðinni er ansi hávær, og hann var í raun ekki búinn að vera lengi í aðalliðinu þegar fólk fór að tala um þetta. Það að vera með scouser sem fyrirliða Liverpool er vissulega nokkuð sem okkur dreymir um, sérstaklega eftir Gerrard tímabilið. Trent hefur líka látið hafa það eftir sér að þetta sé langtímamarkmiðið. Hins vegar er ekki alveg ljóst hvenær þetta gerist. Henderson er óumdeilt fyrirliðið liðsins í dag, og verður það sjálfsagt á meðan Klopp er stjóri, og á meðan Hendo er leikfær. Það hefur talsvert verið talað um að van Dijk taki svo við af Henderson, en vissulega hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum. Við fengum vissulega að sjá hvernig liðið plumar sig með Virgil sem fyrirliða núna í febrúar þegar Hendo meiddist og van Dijk tók við fyrirliðabandinu, og ekki var nú árangurinn neitt til að hrópa húrra fyrir. Á hinn bóginn væri ósanngjarnt að dæma Virgil sem fyrirliða á jafn stuttu tímabili og það nú var. Það myndi nú samt ekki koma neitt á óvart þó við sæjum Trent með fyrirliðabandið einhverntímann í framtíðinni, þó ekki hafi hann náð að verða yngsti fyrirliði liðsins. Það er annar scouser sem ber þann titil í dag – Curtis Jones, og hver veit nema við verðum með tvo scousera sem fastamenn í liðinu í framtíðinni? Það væri nú ekki leiðinlegt.

  Þá hefur umræðan um bestu stöðu Trent á vellinum verið lengi í gangi. Á að færa hann yfir á miðjuna? Það var lengi vel það sem margir héldu, en í dag eru sífellt fleiri á þeirri skoðun að hann hafi einfaldlega tekið hægri bakvarðarstöðuna, og endurskilgreint hana á eigin forsendum. Undirritaður er a.m.k. á því að það sé engin ástæða til að færa hann eitthvað til, nema mögulega sem hluti af taktískum viðbrögðum í stöku leikjum. Klopp hefur jú sýnt að hann er hrifinn af því að hafa fjölhæfa leikmenn innan sinna raða, leikmenn sem geta fært sig til á vellinum eftir þörfum. Það má vel vera að Trent muni færa sig yfir á miðjuna í stöku leikjum, og þá sérstaklega ef við sjáum Neco Williams koma meira við sögu, en að hægri bakvarðarstaðan verði áfram hans aðal staða.

  Við vonum að sjálfsögðu að Trent muni eiga langan og sigursælan feril með Liverpool. Hvernig sem fer, þá mun hann alltaf eiga eitt allra eftirminnilegasta augnablik í sögu meistaradeildarinnar á Anfield, augnablik sem gæti mögulega hafa breytt því hvernig lið undirbúa sig fyrir föst leikatriði eins og hornspyrnur. Við erum að sjálfsögðu að tala um “Corner taken quickly, ORIGI!” augnablikið gegn Barcelona í undanúrslitum meistaradeildarinnar vorið 2019. Það er hreint magnað að jafn ungur strákur og Trent var hafi haft kjarkinn til að taka þennan séns sem hann gerði, en jesúsminnalmáttugur hvað við erum öll fegin að hann tók þennan séns.

  Og kannski var þetta dæmigert fyrir Trent sem leikmann. Hann þorir nefnilega að reyna hluti sem flestir aðrir myndu afskrifa, einfaldlega af því að það væru litlar líkur á því að þeir takist. Að taka horn áður en andstæðingurinn er búinn að skipuleggja sig er eitt slíkt, að reyna þversendingar er annað. Sumar þessara tilrauna misheppnast líka. En svo eru það hinar sem heppnast, og afraksturinn af slíku getur verið gríðarlegur.

  Endum þennan pistil á laginu hans Trent sem áhorfendur hafa sungið svo oft síðustu mánuði. Takið vel undir!

  [...]
 • Magnaður uppgangur Michael Edwards

  Kveikjan að bókinni Moneyball var magnaður árangur hafnaboltaliðsins Oakland Athletics í byrjun aldarinnar, þar náði lið sem var með hvað lægstu launaveltu deildarinnar að festa sig ágætlega í sessi yfir 3-4 tímabil sem eitt besta lið deildarinnar. Bókin og nokkrum árum seinna kvikmyndin var ekki með bestu leikmennina eða þjálfarann í aðalhlutverki heldur manninn sem óumdeilanlega var á bak við þennan óvænta uppgang liðsins, Billy Beane.

  Ef að það yrði gerð sambærileg kvikmynd heimfærð yfir á knattspyrnu í dag er ekki ólíklegt að Michael Edwards yrði aðalsöguhetjan. Hann er auðvitað langt í frá eini maðurinn á bak við uppgang Liverpool undanfarin ár en miðað við mikilvægi hans er í raun ótrúlegt hversu lítið er vitað um hann. Yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool er ekki einu sinni með Wikipedia síðu öfugt við t.d. Rick Parry, Ian Ayre og Christian Purslow.

  Það er ótrúlegt hvað það fer lítið fyrir honum í ljósi þeirrar stöðu sem hann gegnir  og þeim árangri sem hann hefur náð en um leið engin tilviljun. Edwards sækist alls ekki eftir athygli, gefur nánast aldrei viðtöl og sést mjög sjaldan opinberlega. Það er ekki langt síðan það var erfitt að finna mynd af honum á Google og það var ekkert um hann á heimasíðu Liverpool fyrr en hann var gerður að yfirmanni knattspyrnumála árið 2016. Liverpool er auðvitað í mjög góðum málum með Jurgen Klopp sem sinn talsmann (ásamt Peter Moore þegar það á við).

  Miðað við það sem hægt er að lesa sig til um hinn fertuga Edwards er engu að síður ljóst að mjög margir hafa ekki alveg rétta mynd af kappanum. Hann er töluvert meira en bara tölvunörd og hlutverk hans hefur þróast gríðarlega hjá Liverpool á þeim níu árum sem hann hefur verið hjá félaginu.

  (more…)

  [...]
 • Hvað næst?

  Umræðan um hvort klára eigi tímabilið 2019/20 í helstu deildum Evrópu er á undraverðum tíma búin að taka framúr VAR umræðunni í leiðindum. Umræða um snarvitlausan VAR dóm hljómar eins og gömlu góðu dagarnir akkurat núna. En eins lítið og það er nú að gera hjá öllum íþróttafréttamiðlum er voðalega lítið um fréttir þar sem kafað er af einhverri alvöru ofan í afleiðingarnar sem það hefði í för með sér að afskrifa bara heilt tímabil og láta eins og það hefði aldrei gerst. Það væri töluvert meiri vigt í að skoða slíkt betur en að búa til fyrirsagnarfrétt með nánast ekkert kjöt á beinunum þegar smellt er á linkinn um það að fyrrverandi markmaður Aston Villa sé á því að eina rétta í stöðunni sé að aflýsa mótinu. Já eða sjö fréttir af sjö mismunandi mönnum tengdum Manchester United sem eru á því Liverpool eigi ekki að skilið að vinna ef mótið er ekki klárað. Það eru 2-5 fréttir á dag á þessum nótum, ásamt auðvitað einhverju frá meirihlutanum sem er á því að það verði að fá niðurstöðu í mótið.

  Það er alveg hægt að skoða áhugaverða vinkla í þessari umræðu enda hefur knattspyrna blessunarlega sárasjaldan stöðvast með þeim hætti sem við erum að upplifa núna.

  Byrjum aðeins á þessari umræðu þó hér verði ekki unnið vinnuna eins vel og blaðamaður í fullri vinnu gæti gert í þessari mestu gúrkutíð greinarinnar í sögunni. Hvaða afleiðingar hefði það að slaufa bara mótinu?

  Fjárhagslegt afhroð

  Allir sjónvarpssamningar, styrktarsamningar, ársmiðar og leikmannasamningar með tilheyrandi bónusum miðast eðlilega við heilt tímabil og margir þessara samninga eru mjög breytilegir eftir niðurstöðu tímabilsins.

  Sjónvarpstekjur eru orðnar langstærsti og mikilvægasti tekjuliðurinn í stærstu deildum Evrópu og gera t.a.m. umræðu um enska boltann og t.d. handbolta og körfubolta hér á landi ekki samanburðarhæfan. Reyndar tapa bæði handbolta-og körfuboltaliðin hér á landi flest sínum aðal tekjustofni sem er úrslitakeppnin og er mjög líklegt að það komi til með að hafa gríðarleg áhrif á rekstur nánast allra liða næstu misseri. Þetta er samt ekki einu sinni dropi í hafið m.v. rekstur og tekjur úrvalsdeilarliða á Englandi sem dæmi.

  Sjónvarpstekjur eru greiddar mjög snemma (fyrir tímabil) og eru flest liðin búin að gera ráð fyrir þeim í rekstrinum og ráðstafa þeim fjárhæðum. Sky og BT Sport eiga bókstaflega töluvert undir því að þessum fjárhæðum sé eytt í nýja leikmenn sem bæði auka gæði vörunnar (sjónvarpsefnið) og skapa auðvitað tilheyrandi umræðu og sjónvarp því tengdu á meðan deildin er ekki í gangi. Það er talað um að þetta séu einhversstaðar í kringum £800 – £1.200m sem búið er að greiða.

  Hvað á að gera ef tímabilið er bara flautað af og núllað út þegar 9 leikir eru eftir? Bara það að endurgreiða 25% af þessum pening er ekki raunhæft fyrir meirihluta liðanna í deildinni. Hvað þá fyrir utan tengdar fjárhagslegar afleiðingar. Hvað með kostnað við að klára ekki mótið, varan sem Sky og BT (sem dæmi) hafa greitt svona rosalega fyrir er þar með ónýt og væntanlega þarf að bæta þeim tjónið á einhvern hátt? Þarna erum við bara að tala um sjónvarpsstöðvarnar, það eiga miklu fleiri mikið undir því að niðurstaða fáist í tímabilið.

  Það eru alls ekkert bara úrvalsdeildarlið í þessari jöfnu og líklegt að því neðar sem farið er því meiri verði vandræði liðanna.

  Það er satt að segja ótrúlega óábyrgt að heyra einn eigenda West Ham tala fyrir því í fullri alvöru að þetta tímabili eigi ekki að telja. Það er svo augljóst að þar er eingöngu verið að hugsa um sína eigin hagsmuni því með þessu myndi West Ham pottþétt hefja leik að nýju í Úrvalsdeildinni, eitthvað sem er ekkert öruggt ef tímabilið verður klárað. Tottenham er annað lið sem ætti töluvert undir að byrja frekar upp á nýtt til að hylma yfir hversu hræðilegir þeir hafa verið lengst af vetri.

  Liverpool á í raun alls ekkert mest undir að tímabilið verði klárað fyrir utan hið augljósa og auðvitað það sem er sanngjarnt. Rekstur félagsins er einn sá besti í heiminum og félagið þolir mun betur en liðin í neðri helmingnum að tapa þeim tekjum sem við erum að ræða hér að ofan. Hvað með lið eins og Newcastle, West Ham, Burnley, Southampton, Brighton, Bournemouth, Norwich o.s.frv.? Það væri mun frekar að þessi félög og stuðningsmenn þeirra væru leiðandi í umræðunni um að klára mótið.

  Hvað verður svo um þetta tímabil ef þú slaufar því núna, hvað var fólk sem keypti ársmiða að kaupa sem dæmi? Hvað var fólk að eyða í ferðalög, hótel, miða o.s.frv.? Það er ljóst að t.d. ársmiðahafar munu verða fyrir einhverju tjóni en þessi 75% sem búið er að spila telja a.m.k. ef mótið er klárað.

  Hvað verður t.d. um deildarbikarinn sem Man City er búið að vinna, missa þeir hann ef mótið er núllað út? Þurfa þeir að endurgreiða tekjurnar af þeim sigri?

  Hvað með árangurstengda bónusa sem leikmenn hafa fengið sem og árangur eins og t.d. mörk og stoðsendingar? Missir Vardy sín 19 mörk og Salah sín 16 mörk sem þeir hafa skorað það sem af er tímabili?

  Hvernig er tímabilið klárað?

  Það er nokkuð ljóst að það er engin góður kostur í stöðunni en það er skömminni skárra að klára tímabilið með leikjum fyrir tómum velli frekar en að láta núverandi stöðu gilda eða afskrifa mótið alveg án niðurstöðu. Mín niðurröðun væri svona:

  Kostur 1 – Klára mótið fyrir tómum velli á eins skömmum tíma og hægt er.

  • Þetta er að sjálfsögðu ömurlegt neyðarúrræði sem yrði ekkert án vandamála en knattspyrna í dag er að miklu leiti sjónvarpsefni og það horfa miklu fleiri á leiki t.d. Liverpool í sjónvarpi en mæta á völlinn.
  • Með þessi fæst niðurstaða í mótið og blessunarlega er búið að spila 75% af mótinu og nokkuð góð heildarmynd komin á hvernig tímabilið kemur til með að enda.
  • Hægt er að standa við sjónvarpssamninga (í helstu meginatriðum) og tryggja allt að því fullar sjónvarpstekjur

  Kostur 2 – Láta núverandi stöðu gilda

  • Ennþá verra og algjört kjarnorku neyðarúrræði enda ekkert smá ósanngjörn leið til að klára tímabil.
  • Þessi leið myndi reyndar ekki hafa nein úrslitaáhrif á tímabilið hjá Liverpool enda liðið búið að klára mótið í mars. En hversu ósanngjarnt er það fyrir lið sem er búið að spila við flest toppliðin tvisvar sem dæmi en á minni liðin eftir á lokakaflanum að missa af Evrópusæti eða missa sæti sitt í deildinni því að leikjaniðurröðunin var ekki nógu hagstæð. Það er nógu slæmt að spila heimaleikinn fyrir tómum velli eða jafnvel á hlutlausum velli.
  • Tekjur og samningar eru að miklu leiti háðar því að tímabilið sé klárað, leikmenn eru með samning út alla 38 leikina. Þetta er ekki eins og í körfuboltanum hér á landi þar sem tímabilinu var slaufað strax til þess að spara launakostnað, sem er nota bene ömurlegt fyrir þá leikmenn sem misstu með því vinnuna.
  • Mögulega er þetta raunhæf lausn sem verður farin í einhverjum deildum, Belgía fór t.a.m. þessa leið. Það er ekkert one size fit all laus í þessu og deildir mjög mismunandi eftir löndum.
  • Það er a.m.k. betra að fá niðurstöðu með þessu mætti en að slaufa mótinu alveg.

  Kostur 9.865 – Núlla þetta tímabil og byrja upp á nýtt 2020/21.

  • Þetta á bara aldrei að koma til greina, gengur bara ekki upp, sérstaklega ekki þegar búið er að spila 75% af mótinu. Galið að leggja meiri áherslu á næsta tímabil áður en núverandi tímabil er búið og satt að segja hefur engin hljómað trúverðugur sem talar fyrir þessari niðurstöðu.

  Hvað ef þetta gerist aftur? 

  Fyrir utan fjárhagslega partinn þá ætti þetta að vera ein af aðalspurningunum til þeirra sem eru svo áfjáðir í að aflýsa tímabilinu, hvað ef þetta gerist aftur?

  Hvar á viðmiðið að vera? Er það þegar það eru 6 leikir eftir eða þegar það eru 37 umferðir að lágmarki búnar? Eða er aðalatriðið að Liverpool sé ekki í langefsta sæti og svo gott sem búið að vinna mótið? (Held satt að segja að hérna sé bingó)

  Hvort er líklegra eða ólíklegra eins og staðan er í dag að Covid-19 komi til með að hafa áhrif á tímabilið 2020/21? Óháð því hvort takist að byrja tímabilið á réttum tíma í ágúst? Það er talað um hálfgert kraftaverk í læknavísindum takist að búa til bóluefni fyrir áramót.

  Er þá ekki alltaf gáfulegra að reyna klára núverandi mót og hanna svo næsta tímabil út frá því hvar við stöndum að því loknu.

  Flest liðin miða sinn undirbúning við 38 leikja tímabil, ekki bara næsta leik. Það er vissulega búið að riðla þessu tímabili laglega hvað þetta varðar en það að klára mótið núna myndi skapa töluverðan óvissufactor fyrir liðin ef þetta er líklegt til að gerast aftur.

  Banter umræðan 

  Það er ekki langt síðan það var kölluð óskhyggja hér inni að tala fyrir því að tímabilið yrði klárað með einum eða öðrum hætti og kannski ekki að undra m.v. umræðuna um þetta málefni. Þetta snýst allt um að fá smellina og að skapa umræðu, sama hversu lágu plani eða þreytt hún er.

  Þetta á alls ekkert bara við hér á landi og búum við nú vel að fotbolti.net sem okkar langstærsta og mest lesna fótboltamiðils (ekki að þeir hafi ekki hlaðið í fjölmargar svona “fréttir” einnig). Það væri nú laglegt ef gæðakröfurnar sem mbl.is hefur verið með í Liverpool fréttum undanfarið væru mest lesnu fótboltafréttir landsins. Hvað þá DV!

  Þetta er ekkert ósvipað erlendis og neikvæðar fréttir af Liverpool fá líklega mestu smellina núna. Það er miklu betra að hafa Liverpool í þessari stöðu, dauðöfundað af andstæðingum félagsins heldur en ekki, alls ekki gleyma því.

  • Dæmi um þetta er ákvörðun Liverpool um að nýta sér ríkisaðstoð sem var harðlega gagnrýnd, LANGMEST af stuðningsmönnum félagsins sjálfum. Nú þegar þetta hefur verið leiðrétt og búið að biðjast afsökunar er samt ennþá umræðan aðallega um Liverpool og þátt þeirra í þessu, en ekki t.d. um Tottenham sem tók þessa ákvörðun á undan okkar mönnum og hafa ekki dregið hana til baka. Þeir skipta ekki eins miklu máli og fréttir um þá í þessu tilviki “selja” ekki.
  • Það er betra að vera Liverpool í þessu samhengi þó spjótin beinist að okkar félagi.

  Engu að síður væri líka gaman að sjá íslenska íþróttafréttamenn nýta betur tækifærið núna þegar það er ekkert að gera og bókstaflega engir leikir í gangi að fara í dýpri rannsóknarvinnu og gera mun ítarlegri greinar á kostnað fjölda ómerkilegra greina þar sem maður sér eftir því að hafa smellt á linkinn um leið og maður opnar fréttina.

  Það er fullt af góðum íþróttafréttamönnum blessunarlega ennþá starfandi við greinina og ég gef nú almennt lítið fyrir umræðu sem t.d. hefur verið hér inni um hlutdrægni þeirra sem vitað er að haldi með öðrum liðum (með undantekningum þó).

  Er siðlaust að spá í fótbolta núna?

  Talandi um ítarlegri greiningar, þá hefur The Athletic verið leiðandi í slíkri umfjöllun um enska boltann á þessu tímabili og gefa sig út fyrir einmitt það (fotbolti.net gerir t.a.m. oft vel í að vinna fréttir frá þeirra síðu). Grein David Ornstein á þeim miðli frá því um daginn sló eiginlega botninn úr þessari banter umræðu. Sú grein var einn eitt sviðið fyrir þann hóp sem fannst réttast að slaufa mótinu og byrja upp á nýtt næsta tímabil, nema þarna var vitnað nafnlaust í forystumenn einhverra félaga í Úrvalsdeildinni.

  Það sem helst vakti athygli þar voru ummæli stjórnarformanns einhvers liðs þess efnis að það væri siðlaust að ræða fótbolta núna þegar fólk væri að berjast og jafnvel deyja vegna Covid-19. Eina lausnin væri að aflýsa mótinu strax…því að það myndi ekki skapa neina umræðu!!!

  Ef að það er svona siðlaust að tala um fótbolta afhverju ekki þá að sleppa því alveg og taka svona ákvarðanir þegar það er við hæfi aftur? Eins er ágæt pæling hvað við sem ekki erum að glíma við Covid-19 eigum að gera? Það hafa líklega aldrei fleiri haft eins mikin frítíma og akkurat núna.

  Ömurlegt að gefa mönnum tækifæri á að tjá sig svona nafnlaust og setja þá alla undir grun. Hvað þá að leyfa stjórnarformanni hjá ensku knattspyrnufélagi að tala um siðferði!

  UEFA og FIFA vilja klára tímabilin með einhverjum hætti 

  Góðu fréttirnar varðandi þetta tímabil virðast vera að það eru allir sem skipta máli á því að eina í stöðunni sé að klára tímabilið þegar það er hægt eða í það minnsta fá í það niðurstöðu. Það losar mikla pressu að búð sé að fresta EM í sumar og ÓL seinna í sumar. Eins er erfitt að sjá landsleikjahelgi í júní ganga upp enda þvæla frá upphafi.

  Verra mál gæti verið með bikarkeppnir eins og Meistaradeildina, Evrópudeildina og bikarkeppnir í hverju landi fyrir sig. Aðalatriði þar er engu að síður að þetta eru aukakeppnir, deildin í hverju landi fyrir sig er blessunarlega ennþá aðalatriði (nema auðvitað á síðasta tímabili þegar Liverpool vann Meistaradeildina).

  Einhvernvegin þarf að útfæra hvernig þessar keppnir verða kláraðar ef það er hægt. Það er t.a.m. spurning hvernig verður með að spila leiki milli liða frá mismunandi löndum sem væntanlega eru á mismunandi stöðum í Covid-19 baráttunni. Vonandi er góðs viti að mörg félög eru farin að æfa aftur þó það sé vissulega með miklum takmörkunum. Það er bara byrjun apríl ennþá.

  Það eru reyndar aðeins lið frá fimm löndum eftir í Meistaradeildinni en á móti eru það löndin sem eru að fara hvað verst út úr Covid-19, jafnvel einmitt útaf Meistaradeildinni.

  Erfitt að sjá hvernig núverandi keppni verður kláruð, ein hugmynd væri að spila alla leikina sem eftir eru á hlutlausum velli og hafa bara einn leik í stað heima og heiman.

  Það er svo stór spurning hvað gerist næsta tímabil í þessum aukakeppnum?

  • Væri hægt að stytta Meistaradeildina með því að hafa hana bara útlsláttarkeppni?
  • Deyr ekki deildarbikarinn á næsta tímabili?
  • Er þriðja Evrópukeppnin ekki hér með dáin?

  Að lokum

  Það að aflýsa mótinu og byrja tímabilið 2020/21 út frá sömu forsendum og 2019/20 myndi gæfa svona 5 mínútna stundarró fyrir einhverja að því leiti að þarna væri komin bara einhver niðurstaða. Svo myndu menn fara að takast á við endalaust af erfiðum afleiddum vandamálum og átta sig að þetta væri ekki nokkur einasta lausn.

   

  [...]
 • Uppfært: Epískt sjálfsmark Liverpool

  Uppfært (EMK)
  Liverpool sá að sér eftir mikla óánægju stuðningsmanna félagsins og ekki vantaði heldur upp á sérfræðinga sem hoppuðu á vagninn þegar Liverpool gaf svona klaufalega höggstað á sér.

  Flott að klúbburinn hlusti á stuðningsmenn félagsins, sérstaklega þá sem eru í borginni því rekstur á nútíma knattspyrnufélagi fer ekki alltaf vel saman við hugmyndafræði heimamanna.

  Það er smá svekkjandi að FSG hafi þekkt hug stuðningsmanna betur í þessu tilviki því um er að ræða frekar lága fjárhæð m.v. heildarrekstur félagsins.

  Að sama skapi er líka verið að gera töluvert stóran úlfalda úr mýflugu ef málið er skoðað í stærra samhengi, Liverpool er frekar lítið fyrirtæki (atvinnurekandi) og er ekki að greiða eigendum sínum viðlíka arð á ári hverju og mörg þeirra risafyrirtækja sem nú sækja í samskonar styrki eru að gera og fá jafnvel bara hrós fyrir því ekki er verið að segja upp starfsfólki á meðan. Arðgreisðlur sem eru meira og minna geymdar í skattaparadísum utan Englands. Þessir auðjöfrar og stjórnmálamennirnir sem þeir hafa keypt vita ekkert betra akkurat núna en rosalega reiði út í fyrirtæki eins og Liverpool og fótboltamenn almennt sem tekur athyglina frá þeim.

  ——————————————————————–

  Upphafleg færsla Ingimars

  Maður getur auðveldlega séð Peter Moore fyrir sér: Hokinn yfir tölvunni seint um kvöld, þrjú til fjögur excel skjöl opin, fimm hálf kláraðir tebollar á borðinu ásamt tugum blaða með krassi á. Síminn logar, John Henry meðal þeirra sem hafa verið í sífellu símasambandi. Hann er búin að vera á skrifstofunni í tólf tíma að reyna að leysa einfalt vandamál, allar tekjur Liverpool hafa þornað upp og styrktaraðilar eru sumir hverjir farnir að krefjast endurgreiðslna. Hann þarf að halda stjörnunum sínum ánægðum og glíma við að halda klúbbnum gangandi. Þess fyrir utan er hann með 200 starfsmenn sem hann hefur lofað að missi ekki tekjur, en hafa ekkert að gera því klúbburinn, borgin og landið er stopp.

  Peter sýpur á ísköldu tei og lætur vaða. Ekkert stórmál, hann ákveður að nýta úrræði breskra stjórnvalda og fá skattgreiðendur til þess að borga 80% af launum starfsmanna sem hann hefur ekki vinnu fyrir. Þetta er t.d. öryggisverðir á Anfield, fólkið í afgreiðslunni og fleiri starfsmenn sem vinna bara í kringum leiki. Hann veit að hann er að gera sjálfsmark en sendir enga síður skilaboð til almannatengils Liverpools, sem tilkynnir þetta. Svo brestur á stormurinn.*

  *Höfundur tekur fram að þessi sena er algjörlega skálduð, allt nema að Peter Moore tók þessa ákvörðun.

  Hví eru stuðningsmenn Liverpool brjálaðir?

   

  Ef einhver var á Twitter rétt áður en Heima með Helga hófst í gær hefur hann líklega tekið eftir að stuðningsmenn Liverpool voru brjálaðir vegna ákvörðunar klúbbsins að setja starfsmenn hans á „furlough.“ Það er þess virði að fara í hvað þetta er og af hverju klúbburinn varð sér til skammar með þessu.

  Furlough er er samskonar viðbragð breskra stjórnvalda við Covid og 25% leiðin hér á Íslandi. Í grunninn þýðir þetta að ríkið tekur á sig stóran hluta launakostnaðar fyrirtækja, svo þau segi fólki ekki upp. Það er útfærslumunur hér og þar, til dæmis mega starfsmenn ekki vinna neitt fyrir fyrirtækið á meðan þeir eru á þessu plani á Bretlandseyjum. Að sama skapi þarf vinnuveitandi ekki að borga nein laun ef þau vilja það ekki. Furlough dekkar allt að 80% af launum starfsmanna, það skal tekið fram að Liverpool lofaði að greiða hin tuttugu prósentin. Eins og hér heima er þak á greiðslunum frá ríkisstjórninni, 2500 pund á mánuði. Það eru um það bil 440.000 íslenskar. Það eru ýmsir vankantar á þessu prógrammi sem er ennþá verið að vinna í og bregðast við en það skiptir ekki öllu máli fyrir þessa grein.

  Allavega. Liverpool ákvað að nýta sér þetta ráð og stuðningsmenn telja það vera til skammar og ég er sammála. Í fyrra græddi Liverpool um 50 milljónir fyrir skatt. Mörgum stuðningsmönnum finnst það vera móðgun við sósíaliskar stoðir Liverpool að velta þessum launakostnaði yfir á skattgreiðendur þegar Liverpool gætu líklega tekið höggið. Bara þó þú getir gert eitthvað, þýðir ekki að þú ættir að gera það.

  Það er líka þess virði að benda á að miðað við PR slysið sem þetta hefur valdið, virðist upphæðin ekki stór. 200 starfsmenn sem gætu hámark fengið 2500 pund hver frá ríkinu, í þrjá mánuði er heildar upphæð uppá 1.5 milljón punda. Það er um það bil það sem liðið borgaði fyrir fingur hægri handar Virgil Van Dijk (baugfingur til þumalputta sirka, ég er ekki viss um litli putti teljist með).

  Þannig að bara svo það sé á hreinu: Þetta var skammarlegt bragð og þó að klúbburinn dragi þetta til baka (sem mér finnst líklegt, FSG mega eiga það að þeir ná venjulega í boltann eftir sjálfsmark) þá er þetta svartur blettur á þeim sem eigendum.

  Við erum öll hrikalega ánægð með FSG sem eigendur í dag (eða vorum það fyrir helgi) en það er auðvelt að gleyma að þeir voru alls ekki svona vinsælir fyrstu árin. Stuðningsmenn Liverpool voru illa brenndir af síðustu bandarísku eigendum liðsins og nálguðust þá nýju af varfærni. Þó Bretar noti orðin Yank og American ekki alltaf sem diss, þá eru þessi orð aldrei hrós. Ég hef áður hrósað FSG á Kop.is fyrir að læra af mistökum sínum og þangað til fyrir viku hélt maður að þeir væru búnir að finna jafnvægið milli eigin viðskiptahugmynda og hugsjóna Liverpool FC, þeir þurfa að bregðast hratt við storminum og þó þeir geri það óaðfinnanlega þá mun þetta seint gleymast. Epískt sjálfsmark, svo ekki sé meira sagt.

  Það gerir furlough ákvörðun Liverpool að þeim mun stærra klúðri að fyrir utan hana virðist Liverpool vera að gera allt rétt: styrkja góðgerðarsamtök, verja starfsmenn sína frá tekjutapi og hafa ekki sagt neinum upp. En þetta verður það sem allir munu minnast.

  Stærra samhengið

  Ekkert hér fyrir neðan er ætlað að afsaka ákvörðun FSG og Liverpool. En þessi ákvörðun vekur nokkrar áleitnar spurningar um fótbolta, Bretland og framtíð íþróttarinnar.

  Satt besta að segja, ef maður hefur fylgst með breskum miðlum síðustu vikur, væri skiljanlegt ef maður héldi að það væri fótboltamönnum að kenna að heilbrigðiskerfi breta sé við það að springa. Svo ég segi það eins skýrt og ég get: Af hverju í andskotanum er heilbrigðisráðherra Bretlands að nota daglegu blaðamannafundi sína til að tjá sig um laun fótboltamanna?

  Maður þarf eiginlega að setja þetta í annað samhengi til að átta sig á hversu absúrd þetta er. Sjáið þið fyrir ykkur að Víðir Reynisson myndi á morgun segja í beinni: Já, svo verða íþróttafélög hér á landi að hætta að greiða fólki laun, það er algjör tímaskekkja að fólk fái borgað fyrir íþróttastarf á svona tímum.

  Það er ofboðslega auðvelt að benda á ríka fótboltakalla á svona tímum og segja að laun þeirra séu fáránleg. Í hjarta fótboltans (sérstaklega á Englandi) er líka ákveðin togstreita sem hefur aldrei verið leyst úr.

  Leikurinn var fyrir þrjátíu árum stærsta og mest áberandi útrás menningar verkamannastéttarinnar. Svo byrjaði Úrvalsdeildin og peningar flæddu inn í boltann, sérstaklega efsta lag hans. En þann dag í dag eru flestir enskir fótboltamenn úr neðri lögum samfélagsins og almennt bera Englendingar ekki virðingu fyrir fólki sem klífur upp samfélagsstigan. Þar að auki er ákveðin þversögn að stemningin sem myndast á völlunum er risahluti af vinsældum enska boltans en fólkið sem bar ábyrgð á að halda uppi sú stemningu hefur í sífellt minna mæli efni á að mæta á leiki.

  Það er út af þessari togstreitu sem svo auðvelt er að benda á fótboltamenn og gera grýlur úr þeim þegar þarf á að halda. Ég er ekki að segja að leikmennirnir ættu ekki að taka á sig hluta að högginu sem nú ríður yfir samfélagið, en ég er ósammála því að stilla þeim svona upp við vegg.

  Auðvitað hefur deildin og leikmenn málað sig út í horn með því að vera sein að bregðast við. Jordan Henderson er víst búin að vera hlaupa á milli manna til að fá skipuleggja risagjafir til góðgerðamála, ef það hefði verið búið áður en leikmannasamtökin tilkynntu að þau ætluðu að biðja leikmenn um 30% launlækkun liti dæmið öðruvísi við. Auk þess kom Wayne Rooney með mjög góðan punkt í pistli sínum um helgina: Allt ferlið um viðbrögð deildarinnar hefur verið bakvið luktar dyr, af hverju þurftu samtökin að tilkynna opinberlega að leikmenn ættu að taka á sig launalækkun? Áður en þeir höfðu fengið að vita af þessari ákvörðun það er að segja.

  Enska deildin lítur líka extra illa út vegna þess að spænsku og ítölsku deildirnar eru löngu búnar að taka ákvarðanir um lækkun launa leikmanna og að verja minni starfsmenn. Skiptir engu þó þessi lönd hafi þurft að glíma við veiruna fyrr og eru þess vegna fyrri til að taka þessar ákvarðanir, þetta lætur Englendinga líta illa út.

  Utan frá virðist staðan vera þannig að flestir leikmenn vilja hjálpa og allir vilja að þeir hjálpi. Hins vegar er greinilega gangi eitthvað stríð bakvið tjöldin sem tefur ákvarðanir og lætur alla líta illa út. Ég er þeirrar skoðunar að það er ekki á ábyrgð fótboltaheimsins að leysa úr þeim risavandamálum sem heimsbyggðin stendur frami fyrir, en fótboltamenn eru enga síður leiðtogar og geta gert heilmikið gott. Þeir eru bara ekki að gera það núna og þess vegna líta þeir og félögin illa út. Sé frá Íslandi virðist líka sem það sé verið að leita að blóraböggli fyrir léleg viðbrögð, við skulum muna að sú ótrúlega samstaða sem náðst hefur á Íslandi um viðbrögðin við Covid eru nánast einsdæmi, í stærri löndum þar sem breyturnar eru fleiri hefur engan vegin gengið jafn vel að sameina þjóðir gegn vágestinum fræga.

  (Enn þá) Stærra samhengi: Er spilaborgin að hrynja?

  “When Richard Branson, the wealthy owner of Virgin Atlantic Airways, was asked how to become a millionaire, he had a quick answer: ‘There’s really nothing to it. Start as a billionaire and then buy an airline.’

  Maður hefur séð ýmsar útgáfur af þessu spakmæli, sem ýmist Richard Branson eða Warren Buffet eiga að hafa sagt. Ástæðan fyrir að ég set þetta hér að flugfélög og fótboltalið eru að miklu leyti svipuð fyrirtæki. Bæði brenna gífurlegu fjármagni, eru mun minni gróðakýr en maður hefði haldið miðað við hversu mikið við hugsum um þau og bæði treysta á að það sé aldrei stoppað.

  Núna er allt stopp. Alls staðar. Liverpool, United, City, Burnley, Motherwell, Icelandair, Virgin Airlines FH, Valur, KR… þessi félög og fyrirtæki munu ekki fá krónu í kassann næstu mánuði, kannski ekki fyrr en í júlí-ágúst. Það er sjaldgæft fyrirtæki sem getur lifað af hálft ár alveg tekjulaust. Styrktaraðilar eru þegar farnir að krefjast endurgreiðslu, sjónvarpspeningarnir hafa þornað upp. Burnley, úrvalsdeildarlið til margra ára, voru fyrsta liðið til að segja opinberlega að þeir munu fara á hausinn í ágúst ef deildin fer ekki aftur af stað fyrir það. Skoska FA gaf það út að furlough planið muni líklega bjarga meirihluta liða þar frá gjaldþroti.

  Ástæðan fyrir þessu er auðvitað hin ótrúlega samkeppni í fótboltaheiminum. Lið verða að eyða hverri krónu sem þau eiga í að keppa um að komast upp á næsta stig, ef stuðningsmenn kæmust að því að liðið sæti á digrum sjóð til að veðra af sé slæm ár myndu þeir líklegast brjálast.

  Sem kveikir síðustu spurningu mína, sem ég hef ekkert gott svar við: Hvað ef ástæðan fyrir að Peter Moore ákvað að setja starfsmenn á þetta prógramm er að liðinu munar um þessar milljónir. Ef meira segja lið eins og Liverpool, sem er á efsta tindi fótboltans munar um þennan pening, hvað þýðir það fyrir liðin neðar í keðjunni? Erum við að fara að missa einhverja tugi liða í gjaldþrot?

  Martröð ensku úrvalsdeildarinnar er ekki að deildirnar klárist í júlí bakvið luktar dyr. Matröð allra liða er að efstu deildirnar séu ekki að fara að klárast og Sky, BT og tugir annara sjónvarpstöðva og styrktaraðila krefjist endurgreiðslu. Ef það gerist mun þurfa meira en 30% launalækkun leikmanna til að stoppa uppí gatið. Liverpool skaut sig í fótinn í gær, illa. En ég óttast að þeir hafi skotið sig í fótinn til að reyna að ná honum úr gildru sem þeir eru fastir í og ef þeim tekst ekki að losa fótinn þá sé allur skrokkurinn í hættu.

  [...]
Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close