íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Fulham mætir á Anfield

  Í hádeginu á sunnudaginn mun Fulham heimsækja Anfield í tólftu umferð Úrvalsdeildarinnar og verða okkar menn, Einar Matthías og Steini, á vellinum og sjá til þess að menn rífi sig upp af rassgatinu og geri betur en þeir gerðu fyrr í vikunni.

  Menn hafa eflaust reynt að loka á þær minningar eða þá tuðað ansi rækilega yfir því sem Liverpool bauð upp á í útileiknum gegn Rauðu Stjörnunni í riðlakeppni Meistaradeildar á þriðjudagin. Þvílíkt og annað eins þrot sem það nú var!

  Leikmenn Liverpool mættu varla til leiks, eflaust fullir vanmats, og það bara small ekkert. Liverpool kannski líklegri aðilinn fyrstu mínúturnar og fengu tækifæri til að komast yfir og eflaust gera út um leikinn en tóku ekki þá sénsa. Rauða Stjarnan komst yfir og eftir það var ekki snúið, sérstaklega þar sem þeir settu svo annað mark skömmu síðar og það sást langar leiðir að það var aldrei séns á að Liverpool gæti komið sér inn í leikinn.

  Hugurinn virtist kominn í næsta verkefni sem er Fulham og menn ansi fljótir að gefa þessa baráttu við Rauðu Stjörnuna upp á bátinn. Þá vill maður nú fá að sjá jákvæð viðbrögð frá Klopp og leikmönnum liðsins á sunnudaginn. Það var eitthvað róterað í hópnum, Shaqiri fékk frí og sterkir leikmenn komnir upp úr meiðslum. Ekkert kjaftæði og koma bara öruggum og góðum þremur stigum í hús fyrir enn eitt landsleikjahléð, gott ef þetta er ekki bara áttunda lansleikjahléð sem við fáum síðan deildin hófst.

  Fulham virkuðu sprækir í upphafi leiktíðar og fengu til sín nokkra mjög áhugaverða leikmenn, ég átti nú alveg von á þeim sem svona eitt af hugsanlegum spútník liðum deildarinnar þetta árið en það virðist bara ekki stefna í það. Liðið er í neðsta sæti með fimm stig og -18 í markatölu, svona fyrirfram myndi ég giska á að Cardiff væri lélegasta lið deildarinnar og Huddersfield þar rétt á eftir en Fulham er að veita þeim ansi harða samkeppni um þann ómerkilega titil.

  Liðið leit út fyrir að vera mjög áhugavert í Championship-deildinni í fyrra og voru með ansi áhugaverða leikmenn í sínum röðum sem manni hlakkaði svolítið til að sjá á stóra sviðinu, ber þar hæst að nefna hinn unga og bráðefnilega Ryan Sessegnon og Aleksandar Mitrovic sem var á láni frá Newcastle.

  Þeir kaupa Mitrovic frá Newcastle síðastliðið sumar, fá áhugaverða leikmenn frá Sevilla, Villareal, Atletico Madrid, lánsmenn frá Arsenal og Man Utd, kaupa Andre Schurrle á mikinn pening og fá Jean Michel Seri sem var mjög lengi orðaður við stærstu lið Evrópu. Á pappír er þetta Fulham lið ansi áhugavert en það er bara engan veginn að ná saman.

  Sóknarlega eru þeir með leikmenn sem geta gert skaða en þeir komast bara svo örsjaldan í þær stöður að þeir geti látið á það reyna og þeir eru skelfilegir til baka í vörninni. Það er bara ekkert rosalega mikið jákvætt í kringum Fulham þessa dagana en þeir töpuðu 1-0 gegn Huddersfield í síðustu umferð.

  Við sáum Liverpool mæta ansi daufa til leiks gegn Rauðu Stjörnunni og eflaust með vanmat í huganum og það er alveg hætta við því að slíkt gæti sést aftur á sunnudaginn þar sem vonlausir Fulham menn ættu að vera leiddir til slátrunar á Anfield. Ég ætla hins vegar að vona að menn hafi fengið kinnhestinn gegn Rauðu Stjörnunni, girði sig í brók og gangi úr skugga um að slíkt gerist ekki aftur á sunnudaginn.

  Lovren var veikur í miðri viku og var ekki í hópnum en kemur líklegast inn í hann aftur. Shaqiri var skilinn eftir heima í Liverpool af „öryggisástæðum“ og þeir Naby Keita og Jordan Henderson eru klárir í slaginn aftur sem eru frábærar fréttir.

  Klopp er því loksins kominn aftur með fullan leikmannahóp fyrir utan auðvitað Alex Oxlade-Chamberlain sem verður líklegast frá út leiktíðina. Það er flott vítamínsprauta fyrir Liverpool og auðvitað eitthvað sem þarf að gerast korter fyrir landsleikjahlé svo menn geti aftur meiðst þar!

  Allavega, þá verður ansi erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið í leiknum gegn Fulham en ég ætla að telja það ansi líklegt að Shaqiri komi inn í byrjunarliðið og Liverpool muni fara aftur í þessa 4-2-3-1 útfærslu sem þeir hafa spilað gegn lakari liðum á heimavelli undanfarnar vikur. Henderson og Keita eru komnir til baka, Fabinho spilaði ekkert í miðri viku og þeir þrír sem spiluðu Wijnaldum, Lallana og Milner skiluðu litlu sem engu í þeim leik.

  Mér finnst ansi líklegt að Henderson komi inn í byrjunarliðið og verði þá í tveggja manna miðju með annað hvort Wijnaldum eða Fabinho og Keita byrji leikinn á bekknum ásamt þá Milner og Wijnaldum eða Fabinho. Gomez fer eflaust í miðvörðinn með Van Dijk og Firmino byrjar frammi – já eða í holunni með Salah fremstan og Shaqiri til hægri eða eitthvað á þá leið.

  Alisson

  Trent – Gomez – Virgil – Robertson

  Henderson – Wijnaldum

  Shaqiri – Firmino – Mané
  Salah

  Ég ætla bara að taka skot út í bláinn og giska á þetta lið en það gæti svo hæglega verið að Lovren og einhverjir aðrir af miðjumönnunum hefji þennan leik.

  Það sem vantaði svo rosalega í síðustu leiki er eitthvað drive á miðsvæðinu til að geta sett hlutina af stað og það var bara alls, alls ekki til staðar á þriðjudaginn en að fá þá Shaqiri og Naby Keita aftur inn í hópinn og líklega að minnsta kosti annan þeirra í byrjunarliðið gæti svo sannarlega leyst það vandamál.

  Þetta er leikur sem ég held að við gætum séð ansi góða hluti frá Shaqiri sem hefur að mínu mati komið frábærlega inn í þetta lið og gefið liðinu mikið af nýjum möguleikum. Hann verður að byrja þennan leik.

  Skyldusigur, það er bara ekkert annað í boði. Liverpool er með jafn mörg stig og Chelsea, tveimur stigum á eftir Man City sem eiga grannaslag seinna á sunnudeginum og gætu mögulega misst stig þar. Liverpool þarf því að vera vel á tánum og klára sitt verkefni skildu liðin í kring misstíga sig. Chelsea mæta Everton á sunnudaginn og vonandi geta nágrannarnir gert okkur greiða – en ég ætla nú ekki að reikna neitt sterklega með því.

  Það er að koma núna í næstu umferðum röð stórleikja og innbyrðis viðureigna á milli keppinauta Liverpool svo það er gífurlega mikilvægt að Liverpool klára sín verkefni og nái vonandi að halda í við Man City, taka fram úr þeim eða í það minnsta ná að hrista liðin fyrir neðan betur af sér og búið til smá pláss og svigrúm fyrir mistök ef leiktíðin breytist úr titilbaráttu í Meistaradeildarbaráttu einhvern tíman á næstu mánuðum. Hugsum um það seinna – Fulham er næsta verkefni sem þarf að klára.

  Þrjú stigin eru auðvitað það sem skiptir öllu máli en ég vil sjá góðan og öruggan 3-0 eða 4-0 sigur, ég sætti mig samt við eitthvað enn stærra, þar sem menn mæta til leiks af mikilli ákefð og stúti þessum leik, sýni aftur þetta rosalega drive í sóknarleiknum sem við sáum svo oft í fyrra en höfum því miður séð ögn minna af hingað til undanfarið.

  Klárum verkefnið og höldum inn í landsleikjahléð einir á toppnum! :)

 • Gullkastið: Ekkert léttöl – þungt í mönnum

  Ekki besta vika Liverpool undir stjórn Klopp svo mikið er víst. Líklega hefur liðið aldrei spilað eins illa og gegn Rauðu Stjörnunni og frammistaðan gegn Arsenal var ekki mikið betri, þó aðeins. Næsti leikur er tilvalin til að finna mojo-ið frá því í fyrra og byrja spila alvöru Klopp fótbolta. Kop.is verður á Anfield og öskrar liðið í gang.

  Stjórnandi: Einar Matthías
  Viðmælendur: Maggi og SSteinn

  MP3: Þáttur 214

 • Rauða stjarnan 2 – 0 Liverpool

  Mörkin

  1-0 Pavkov (22. mín)
  2-0 Pavkov (29. mín)

  Leikurinn

  Það er fátt fallegt að segja um fyrri hálfleikinn. Liðið átti ekki skot á rammann. Sturridge fékk reyndar mjög gott færi sem hann setti yfir markið, en í kjölfarið komu tvö mörk frá Serbunum. Fyrra eftir hornspyrnu þar sem Pavkov stökk einfaldlega hæst allra og skallaði í netið. Síðara kom 7 mínútum síðar þegar téður Pavkov féll boltann aðeins inni á vallarhelmingi Liverpool, lék aðeins áfram og lét svo bara vaða án þess að verða fyrir neinni truflun svo heitið geti frá varnarmönnum, og boltinn söng í netinu.

  Klopp má þó eiga það að hann brást við í hálfleik með því að skipta Firmino inn fyrir Sturridge, og Gomez inn fyrir Trent. Hvorugur þeirra Sturridge og Trent höfðu átt neitt sérstakan leik, en það var svosem varla hægt að segja um nokkurn mann í liðinu hvort eð er. Lallana var líklega sá sem mestu gagnrýnina fékk, en hann fékk að hanga inn á. Það hlýtur óneitanlega að segja eitthvað þegar það er tveim leikmönnum skipt inná í leikhléi, án þess að meiðsli hafi haft nokkuð um það að segja.

  Það er líka vert að minnast á það, að vel frameftir leik var staðan sú að síðasta skot sem Liverpool átti að marki andstæðinganna á útivelli í meistaradeildinni kom í Kiev í vor.

  Það var *örlítið* betra að horfa upp á liðið í síðari hálfleik, því liðið hélt a.m.k. boltanum og var að reyna að finna glufur á vörninni. En það gekk hins vegar bara alls ekkert vel. Eins og áður sagði þurftum við að bíða vel fram í síðari hálfleik eftir að liðið næði skoti á marki, þegar Salah átti eitt slíkt. Þau urðu svosem fleiri, en í raun ógnuðu okkar menn marki andstæðinganna aldrei neitt að ráði, Robertson átti reyndar fyrirgjöf sem endaði í slánni, en þessi einstöku færi voru of fá og gæðin ekki nægjanleg. Það var svo sjaldséður hrafn sem fékk að flögra inn á völlinn þegar um 10 mínútur voru til leiksloka, en þá kom Divock Origi inná fyrir Adam Lallana. Hans innkoma breytti engu varðandi úrslit leiksins, en þess má geta að þetta var í fyrsta sinn síðan í 0-3 leiknum gegn Real árið 2014 sem liðið fær á sig 2 mörk eða fleiri í fyrri hálfleik.

  Vondur dagur

  Já hvað á maður að segja? Það er einfaldlega enginn sem var að sýna neitt af viti, kannski mögulega Andy Robertson. Samt varla. Það er mikið talað um hvað Trent hafi verið óöruggur í fyrri hálfleik, og var enda tekinn af velli. Mest þó talað um Lallana, og kannski ekki að ósekju því það er alveg spurning hvað hann megi fá marga leiki til að spila sig í gang. Þegar einkunnir verða gefnar fyrir þessa frammistöðu efast ég um að nokkur leikmaður fari yfir 5. (Uppfært: Ian Doyle gefur Robertson, Salah og Gomez 6, en aðrir fá minna). Það má líka tala um Milner og Wijnaldum, sem hvorugur var að sýna margt af viti, nákvæmlega ekkert sem kom út úr miðjunni í fyrri hálfleik. Eins og áður sagði, einhver doði yfir mannskapnum.

  Það er kannski rétt að taka það fram að auðvitað verða leikmenn Rauðu stjörnunnar að fá kredit fyrir leik sinn. Þetta er greinilega lið sem er erfitt heim að sækja, Napólí menn eru búnir að kynnast því, og það verður forvitnilegt að sjá hvað PSG gera á þessum velli.

  Umræðan

  Umræðan eftir leik hlýtur að einkennast af áhyggjum af spilamennsku okkar manna. Við höfum einfaldlega ekki séð tangur né tetur af þessu liði okkar sem var að vinna 7-0 oftar en einu sinni á síðasta tímabili. Engu að síður er liðið ósigrað í deild, og þegar þetta er skrifað er ennþá möguleiki á því að liðið verði áfram í efsta sæti riðilsins í lok dags, en það er reyndar háð því að Napoli og PSG geri jafntefli. Mögulega myndi koma liðinu betur ef PSG vinnur þann leik, því þá þarf „bara“ að vinna Napoli á heimavelli, og þá er sætið í 16 liða úrslitum tryggt. Hvað veldur samt því að liðið er ekki búið „að finna mojoið sitt“ eins og Klopp orðaði það svo skemmtilega eftir leik? Er það niðursveifla hjá Firmino? Er að koma í ljós hvað Buvac skipti miklu máli? Kláraði Milner Ribena safann sinn? Við fáum kannski aldrei almennileg svör við þessum spurningum.

  En kannski verður þessi leikur til þess að leikmenn vakna almennilega til lífsins, kannski svipað eins og 4-1 tapið á móti Spurs í fyrra varð. Eigum við ekki bara að vona það?

  Nú svo er það Fulham um helgina. Þá duga sko engin vettlingatök. Kannski sjáum við Henderson koma aftur þar. Kannski fær Clyne loksins sénsinn, en hann ku víst hafa verið að glíma við einhver veikindi. Kannski mætir Keita aftur inn á miðjuna, eða Fabinho. En mestu máli skiptir að það mæti 11 dýrvitlausir rauðklæddir leikmenn inn á Anfield, og hætti ekki fyrr en 3 stig eru í höfn.

 • Liðið gegn Rauðu stjörnunni

  (Vegna veikinda komst þessi færsla ekki í loftið fyrr)

  Liðið sem mætir Rauðu stjörnunni í Belgrad er eftirfarandi:

  Alisson

  Trent – Matip – Virgil – Robertson

  Milner – Winjaldum – Lallana

  Salah – Sturridge – Mané

  Bekkur: Mignolet, Gomez, Moreno, Fabinho, Keita, Firmino, Origo

  Þegar þetta er skrifað er Rauða stjarnan komin í 1-0, og því á brattann að sækja hjá okkar mönnum.

  KOMA SVO!

 • Rauða Stjarnan frá Belgrad

  Eftir tvo áratugi samfellt í Meistaradeildinni hóf Arsenal leik í Evrópudeildinni í fyrsta skipti á síðasta tímabili. Stuðningsmenn Liverpool þekkja af eigin raun hversu spennandi sú keppni er og Arsenalmenn voru engu minna spenntir, einn hafði þetta að segja eftir að dregið var í riðla:

  “You know you’re in the Europa League when you draw teams called Crvena zvezda.”

  Þessi ágæti stuðningsmaður Arsenal gerði reyndar lítið annað þarna en að útvarpa fáfræði sinni og fékk að heyra það margfalt til baka að Crvena zvezda væri ekki bara eitthvað lið frá Austur-Evrópu, þetta er Rauða Stjarnan frá Belgrad. Það nafn hefur í sögulegu samhengi töluverða vigt í Evrópu, meiri en Arsenal.

  Rauða Stjarnan urðu síðustu meistarar Evrópukeppni Meistaraliða í upprunalega formati keppninnar þegar um var að ræða útsláttarkeppni frá fyrstu umferð og aðeins meistarar hverrar þjóðar gátu tekið þátt. Rauða Stjarnan varn mótið árið 1991. Tímasetningi gat ekki verið verri fyrir Júgóslavnesku meistarana því stríð var að brjótast út í heimalandinu. Þeir fengu keppnisrétt árið eftir en þurftu að spila heimaleiki sína í Búlgaríu og Austurríki vegna ástandsins heimafyrir. Síðan þá hefur Rauða Stjarnan aldrei komist þetta langt í keppni þeirra bestu. Það mun ekkert fara á milli mála þegar við setjumst niður til að horfa á leikinn á þriðjudaginn að Serbarnir eru ánægðir með að vera komnir aftur.
  (meira…)

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!