íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

íslensk aðdáendasíða besta félags í heimi

Latest stories

 • Kvennaliðið tekur á móti MK Dons í bikarnum

  Í dag fer fram leikur Liverpool og MK Dons í FA bikarkeppni kvenna. Þessi leikur átti að fara fram um síðustu helgi, en var frestað vegna aðstæðna á Prenton Park, þ.e. völlurinn var víst frosinn. Hann var því færður til dagsins í dag, en leikur Liverpool og Arsenal sem átti að fara fram í dag var færður fram í mars.

  MK Dons er hvorki í efstu né næstefstu deild, heldur í því sem kallast „FA Women’s National League“, og eru þar í 9. sæti. Það á því að gera kröfu um sigur í dag, þó svo við vitum að leikirnir gegn neðrideildarliðum séu líklega ekki jafn auðveldir og þeir ættu að vera á pappírnum.

  Það er aðeins verið að rótera liðinu, en svona verður stillt upp í dag:

  Kitching

  Purfield – Bradley-Auckland – Little – Robe

  Roberts – Coombs – Rodgers

  C.Murray – Sweetman-Kirk – Daniels

  Bekkur: Preuss, Fahey, S.Murray, Babajide, Hodson

  Ashley Hodson er semsagt komin aftur úr meiðslum, lék með yngra liðinu fyrr í mánuðinum og er nú komin á bekkinn. Fyrsti skiptið sem Jemma Purfield er í byrjunarliði, og mér sýnist að hún sé sett í bakvörðinn. Þá getur líka vel verið að það eigi að stilla upp í 4-4-2, enda held ég að Christie Murray sé miðjumaður að upplagi, en látum það bara koma í ljós.

  Það er ekki vitað til þess að leikurinn sé sýndur beint á netinu, en við hendum slíku þá inn í athugasemdir við færsluna ef svoleiðis nokkuð skyldi dúkka upp.

  Við uppfærum svo færsluna með úrslitum að leik loknum.


  Leik lokið með sigri Liverpool, 6-0. Þetta var semsagt ekki þessi týpa af bikarleik þar sem neðrideildarliðið nær með baráttu að hirða stig af liði úr efstudeild.

  Fyrsta markið kom reyndar ekki fyrr en á 31. mínútu, og það var Laura Coombs sem skoraði það. Mínútu síðar skoraði Courtney Sweetman-Kirk sitt 10. mark á leiktíðinni í öllum keppnum. Áður en leiknum lauk hafði Leandra Little opnað markareikning sinn hjá félaginu með góðu skallamarki, Jemma Purfield hélt upp á sinn fyrsta leik með tveim mörkum, og að lokum skoraði Ashley Hodson gott mark eftir að hafa komið inná fyrir Sweetman-Kirk þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður.

  Það var svo ljóst fyrr í vikunni hvaða andstæðinga okkar stúlkur myndu fá með sigri í þessum leik, en það verða annaðhvort Milwall eða Lewes (undirrituðum er ekki kunnugt um hvort sá leikur hafi e.t.v. þegar farið fram). Bæði þessi lið leika í næstefstu deildinni, og eru þar í næstneðsta og neðstu sætum deildarinnar.

 • Liverpool 3-0 Bournemouth

  Mörkin

  1-0  Sadio Mané 24.mín
  2-0  Wijnaldum 34.mín
  3-0  Mohamed Salah 48.mín

  Leikurinn

  Bournemouth hófu leik með upphafssparki Ryan Fraser og rétt rúmri mínútu síðar átti sá hinn sami fyrsta færi leiksins. Fraser fékk boltann á vinstra megin við vítateiginn og átti fast skot í fjær hornið sem að Alisson varði vel. Við tók stöðubarátta á miðjunni og Liverpool voru meira með boltann en með litlum ógnunum þó. Salah átti klassískan sprett frá hægri væng og með vinstri fótarskot í átt að vinstri vinkli en skotið sigldi upp í stúku og á 12.mínútu varði Boruc vel eftir að Mané hafði lagt upp færi fyrir Firmino í teignum. Gestirnir áttu þó góða kafla á boltanum á upphafsmínútunum og pressuðu af skynsemi þess á milli að liggja djúpt og sækja.

  Liverpool sýndi þó yfirvegun og þolinmæði og það skilaði sér um miðjan fyrri hálfleikinn þegar að flott fyrirgjöf frá Milner á hægri vængnum fann ennið á Mané sem stangaði boltann í nærhornið. Búnir að brjóta ísinn og með meðvind þá fóru heimamenn að hnykkla vöðvana og sýna mátt sinn og megin. Einhverjir skarpskyggnir menn töldu sig sjá rangstöðu í markinu en slíkar samsæriskenningar og villusýnir reyndust ómarktækar og var vísað frá dómi. Stuttu eftir markið sóttu rauðliðar hratt upp í skyndisókn og Wijnaldum fékk boltann í góðu færi í teignum en lagði upp á Sala í enn betra færi en hinn egypski kóngur kingsaði boltann hressilega.

  Það var kominn rytþmi og melódía í samspil Rauða hersins og Firmino var agnarögn of þöndum brjóstkassavöðvum frá því að taka boltann niður í úrvals marktækifæri einn gegn Boruc eftir hálftíma leik. Það átti ekki eftir að koma að sök þar sem að einni ögurstund síðar hafði Liverpool tvöfaldað forustu sína. Skoski snillingurinn Robertson sendi flotta fyrirgjöf á Wijnaldum í teignum og sá hollenski minnti á sóknarhæfileika sína frá fyrri tíð með því að lyfta boltanum listavel yfir hinn háaldraða Boruc í markinu.

  Heimamenn héldu boltanum vel innan liðsins út hálfleikinn og vörðust vel þegar að Bournemouth leitaði stöðugt eftir skyndisóknum ef boltinn tapaðist. Á lokamínútum hálfleiksins átti svo Salah hörkuskot er hann tók boltann á lofti og hamraði að marki en Boruc var kattliðugur í markinu og varði vel.

  2-0 í hálfleik

  Seinni hálfleikur var á sínum upphafsmínútum þegar að glæsilegt upphlaup heimamanna endaði með glæsilegri hælsendingu Firmino á Salah sem skrúfaði hann niðri út við stöng og í netið. Frábært mark og sigurinn orðinn öruggur snemma leiks. Eftir þetta réðu Liverpool-menn lögum og lofum á vellinum, héldu boltanum og sköpuðu mörg marktækifæri. Á 56.mínútu átti Wijnaldum góða fyrirgjöf á skallann á Mané sem var dauðafrír í teignum en í þetta skiptið brást honum bogalistin og skallinn fór framhjá.

  Heimamenn stýrðu leiknum þægilega að megninu til og á 76.mínútu slapp Salah í gegn en setti skot sitt í slánna. Stuttu síðar svöruðu gestirnir með sjaldséðri sókn en Alisson varði vel fast skot Mousset á nærstöng. Leikurinn var líflegur á þessum kafla og fjórða mark leiksins líklegt en Keita fékk færi í teignum sem hann skaut yfir markið. Undir lok leiksins fengu svo Firmino og varamaðurinn Trent Alexanders-Arnold kjörin marktækifæri til að auka sigurstöðuna en tókst ekki að nýta færin. Ágætur dómari leiksins John Moss blés til leiksloka og öruggur sigur staðreynd.

  3-0 í leikslok og 3 stiga forskot á toppi deildarinnar

  Bestu leikmenn Liverpool

  Flestir leikmenn áttu flottan leik í dag og það var allt annar bragur á spilamennskunni frá stresskasti síðustu tveggja leikja. Robertson var fantaflottur að vanda og á miðjunni var Fabinho grjótharður. Matip var fínn í hafsentinum og VVD sultuslakur á cruise control. Keita var líflegur og átti einn sinn besta leik síðan hann kom til liðsins í sumar. Milner skilaði sínu og Alisson varði allt sem þurfti að verja. Hin heilaga þrenning í framlínunni var í stuði og sérstaklega var gaman að sjá Firmino sýna sína sambatakta á ný.

  Minn maður leiksins að þessu er þó Gini Wijnaldum en hans var saknað í jafnteflinu gegn West Ham. Stýrði spilinu vel á miðjunni, var sókndjarfur og skoraði glæsilegt mark til að kóróna sína frammistöðu. Flottur dagur hjá Hollendingnum brosmilda.

  Vondur dagur

  Enginn af heimamönnum átti slæman dag í þessum leik og frammistaðan bæði fagmannleg og flott. Þetta er helst vondur dagur fyrir Liverpool-haters sem óska þess að við förum á taugum og klúðrum okkar tækifæri á titlinum. Einnig er ánægjulegt að þetta var vondur dagur fyrir Everton sem að töpuðu þriðja leiknum í röð og voru svo óforskammaðir að hvíla lykilmenn á heimavelli gegn City í miðri viku. Þetta kallast að vera böstaður af Karma Police og bláliðar eru blúsaðir í dag.

  Tölfræðin

  Við þetta má bæta að Sadio Mané hefur núna skorað í 4 leiki í röð og megi sú markasyrpa halda endalaust áfram. Þá var þetta 13. skiptið sem við höldum hreinu í deildinni í vetur og það er akkúrat helmingshlutfall af öllum deildarleikjum spiluðum.

  Umræðan

  Líklegt er að léttir og gleði mun vera helst í huga Púlara eftir að hafa komist aftur á sigurbraut og endurheimt toppsætið með 3ja stiga forskot. Anfield var líka öflugur í dag og áhangendur tóku betur undir en í síðasta heimaleik þegar að of mikið stress var í mannskapnum. Á morgun á City að spila erfiðan leik en eflaust vinna þeir hann og setja aftur pressu á okkar stöðu að vinna leik sem við eigum inni. Þá styttist í leiki í Meistaradeildinni og það gæti haft áhrif á deildarformið hjá báðum liðum.

  En í dag er hægt að lyfta glasi og skála fyrir góðum sigri og flottri frammistöðu hjá Rauða hernum.

  Top of the league! Allez allez allez!

  YNWA

 • Byrjunarliðið vs. Bournemouth á Anfield

  Eftir tvo leiki með töpuðum stigum og toppsætið týnt og tröllum gefið þá snýr Rauði herinn aftur til leiks á Anfield Road til að reyna að klífa tindinn að nýju. Gestaliðið að þessu sinni eru suðurstrandardrengirnir í Bournemouth en þeir hafa verið á ágætis róli um miðja deild í vetur. Sveiflukennt lið sem getur dottið í stuð en einnig tapað illa þegar sá gállinn er á þeim. Við Púlarar vonumst að sjálfsögðu eftir hinu síðarnefnda og að Liverpool komist aftur á sigurbraut enda ekki seinna vænna í kapphlaupinu um ensku ljónakórónuna.

  Það hefur rofað ögn til í meiðslamálum þessa vikuna en þó ekki þannig að allar stöður séu mannaðar sérhæfðum mönnum í hverri stöðu. Enn er hægri bakvarðarstaðan í reddingum og því þarf þúsundþjalasmiðurinn James Milner að leysa það vandamál að nýju í dag. Trent Alexander-Arnold er þó mættur á bekkinn þannig að væntanlega er stutt í að sjá hann í byrjunarliðinu. Wijnaldum snýr einnig aftur til leiks en hans hefur verið saknað á miðjunni.

  Bekkurinn: Mignolet, Henderson, Sturridge, Lallana, Origi, Camacho, Alexander-Arnold.

  Eddie Howe, hinn hæfileikaríki og efnilegi stjóri Bournemouth stillir sínu liði svona upp í dag. Þar má finna tvo fyrrum leikmenn Liverpool en Jordon Ibe byrjar á vængnum en Solanke vermir tréverkið.

  Upphitunarlag dagsins ber með sér að pressan er að aukast og við leyfum Queen og David Bowie að leiða gegenpressen með Under Pressure! Take it away!

  Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

  YNWA!

  Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


   

 • Upphitun: Bournemouth mætir á Anfield

  Á morgun heldur leitinn að deildarmeistaratitlinum áfram þegar suðurstrandar drengirnir í Bournemouth mæta á Anfield. Liðið okkar hefur aðeins hikstað í síðustu tveimur leikjum með jafnteflum gegn Leicester og West Ham og því mjög mikilvægt að hrista af sér slenið og halda áfram að setja þrjú stig á töfluna, sérstaklega þar sem Man City á erfiðan leik á sunnudaginn.

  Fyrir tíu árum síðan var Bournemouth hársbreidd frá því að falla úr deildarkeppninni á Englandi en síðan er Eddie Howie búinn að stýra þessum klúbbi yfir í að vera miðlungslið í efstu deild. Í dag situr liðið í tíunda sæti deilarinnar og réttlætanlega vakið mikla athygli fyrir spilamennsku sína. Hinsvegar er tvennt við þeirra stöðu í dag sem hagnast Liverpool í þessum leik. Annarsvegar er liðið búið að vera afleitt á útivöllum á tímabilinu og hafa aðeins náð í níu af þeim 33 stigum sem liðið er með þegar þeir ferðast. Einnig töpuðu þeir eina bikarleiknum sem þeir spiluðu á útivelli og því vonandi að Anfield vinni með okkur í þessum leik. Hinsvegar er það meiðslalisti Bournemouth þessa dagana. Callum Wilson, markahæsti leikmaður liðsins, missti af fyrri leik liðanna vegna meiðsla og er aftur frá núna vegna hnémeiðsla. David Brooks sem hefur farið hamförum á kantinum undanfarið mun ekki spila vegna ökklameiðsla. Auk þeirra eru Lewis Cook og Simon Francis frá út tímabilið og að sjálfsögðu má Nathaniel Clyne ekki spila gegn móðurfélaginu og verður því ekki með á morgun.

  Fyrir utan frábæran sigur suðurstrandarmanna gegn Chelsea í þarsíðustu umferð hefur Bournemouth gegnið frekar illa gegn stórliðunum í ár en þetta voru þeirra fyrstu stig gegn topp sex liðunum. Howie hefur stillt upp frekar varnarsinnað í þessum leikjum í ár og ég býst við að það haldi áfram á morgun og því býst ég við að okkar maður Solanke missi sæti sitt í liðinu og það bætist við miðjumaður og Jefferson Lerma komi inn í liðið ef hann er orðinn nægilega heill til að byrja eftir að hafa byrjað á bekknum í síðasta leik. Ég tippa á að liðið verði í þessa áttina.

  Boruc

  Smith – S. Cook – Aké – Daniels

  Stanislas – Gosling – Lerma – Surman – Fraiser

  King

  Þá að okkar mönnum. Þrátt fyrir úrslit síðustu tveggja leikja og sú staðreynd að Man City er fyrir ofan okkur í töflunni eins og er þá má ekki gleyma því að þetta er enn allt í okkar höndum og City mönnum leið alveg jafn illa eftir tap sitt gegn Newcastle eins og okkur leið í þessum jafnteflum. Mómentumið er fljótt að sveiflast það getur allt eins sveiflast okkur í hag um helgina.

  Það komu góðar fréttir í vikunni en þrímenningarnir Trent, Henderson og Wijnaldum eru allir byrjaðir aftur að æfa og er von á að einhverjir þeirra, ef ekki allir gætu byrjað á morgun. Lovren er enn frá en vonast er til að hann verði heill fyrir leikina gegn Bayern en Gomez verður frá í rúman mánuð í viðbót. Ef Trent nær að byrja er vörnin sjálfvalinn þar sem Matip og Van Dijk eru einu heilu miðverðir liðsins líkt og í undanförnum leikjum og Moreno er ekki að fara starta fram yfir Robertson og ég tel að fremstu þrír séu sömu og vanalega þrátt fyrir að Firmino og Salah hafi verið slakir í síðustu tveimur leikjum en hress innkoma Origi í síðasta leik gæti orðið til þess að hann komi fyrr inn í þessum leik ef ekkert er að ganga upp. Hinsvegar er miðsvæðið stórt spurningamerki. Naby Keita átti afleytan fyrri hálfleik gegn West Ham en vann sig vel inn í leikinn í þeim seinni og væri áhugavert að gefa honum sénsinn til að komast loksins í gang en það er erfitt að spila menn í gang í meistarabaráttu. Á mjög erfitt með að gera mér grein fyrir hvaða miðjumenn Klopp notar í þessum leik ef allir nema Chamberlain eru orðnir heilir.

  Síðustu daga hefur mest verið rætt um stuðningsmenn félagsins en Anfield var frekar hljóðlátur gegn Leicester og ég var sjálfur á London Stadium gegn West Ham og það kom mér einmitt á óvart hversu lítil stemmingin var meðal Liverpool stuðningsmannanna nema þegar við vorum yfir í leiknum. Maggi skrifaði flotta færslu um þetta sem er hægt að finna hér fyrir neðan. Klopp bætti við þetta á blaðamannafundinum í morgun

  “I think I never left it in doubt how much I appreciate the support, and I believe in the help of support.
  “It would be nice [if they turn up early]. It’s getting exciting, it was always clear there would be games you have to really keep your nerves, in the stand, on the pitch. That’s a part of the game.
  “So the good thing is we pretty much know what we have to do, on the pitch and in the stand.
  “I’m really looking forward to [Saturday’s game]. It’s a 3 o’clock kickoff, it’s not that dark, but we can create an outstanding atmosphere.
  “Everybody who saw matches in the past knows how big an influence atmosphere is.
  “I don’t know if I have to ask for it, but whoever wants us to succeed in this game, and in general wants to help, I don’t have the English saying for it, but it’s like shouting your soul onto the pitch.”

  Það er ákveðinn klisja að stuðningsmennirnir séu tólfti maðurinn en við hofum oft séð hvernig Anfield hræðir andstæðingana sem þangað koma, sérstaklega í stórleikjunum. Nú eru sjö deildarleikir eftir á heimavelli og þeir sem þangað fara verða að gera allt sitt til að hjálpa og halda leikvanginum sem því vígi sem hann hefur verið á þessu tímabili. Í sextán heimaleikjum í öllum keppnum á þessu tímabili höfum við unnið þrettán gert jafntefli við Man City og Leicester og tapað gegn Chelsea í deildarbikarnum.

  Alisson

  Trent – Matip – Van Dijk – Robertson

  Wijnaldum – Fabinho – Keita

  Salah – Firmino – Mané

  Ég ætla að skjóta á þetta byrjunarlið hjá okkur á morgun. Henderson hefur verið svo brothættur að þó ég myndi sjálfur vilja hafa hann inni á miðjunni býst ég við að hann verði á bekknum til að vera klár fyrir Bayern og Man Utd. Helsta spurningin hjá mér var Keita eða Shaqiri en fannst Keita sýna líf í seinni hálfleiknum gegn West Ham meðan Shaqiri hefur verið í smá lægð í síðustu leikjum sem hann hefur spilað.

  Þá er það að spánni en ég held að Liverpool hristi af sér slenið og keyri yfir Bournemouth á morgun, menn að koma tilbaka úr meiðslum meðan þeir eru að missa sín lykilmenn í meiðsli. Ég ætla að skjóta á 4-0 sigur þar sem allavega eitt markanna verður ekki skorað af fremstu þremur sem væri fyrsta deildarmark Liverpool ekki skorað af þeim þremur síðan 26. desember!

  Endilega hafið okkur með í twitter umræðum í aðdraganda leiksins með myllumerkinu #kopis

 • Að setja hlutina í samhengi

  Fimmtudagur 7.febrúar og skyndilega opnar maður stöðutöflu PL og í fyrsta skipti í 7 vikur situr þar olíubarónaliðið frá Manchester. Það ætti ekki að koma neinum á óvart svosem en auðvitað er það áminning um það að ákveðið hæp sem fór af stað fyrir um 9 dögum þegar Rafa Benitez framkvæmdi kraftaverkasigur á City væri nú ekki hinn eini sanni raunveruleiki.

  Við hrukkum öll við á miðvikudaginn og mánudagurinn var líka erfiður. Þeir sem sáu mig á Twitter greindu það klárlega að ég var ósáttur, ég var með hástafina á Facebookþráðum og svo reyndum við að rýna til gagns í podcasti. Geðsveiflur.is á 6 dögum staðreynd!

  En…svo auðvitað sest maður niður og veltir sér upp úr skynseminni. Fyrst reynir maður að greina hvers vegna maður stendur öskrandi á sjónvarpsskjá við að horfa á íþróttamenn berjast um bolta í snjómuggu eða skítakulda. Á maður ekki að vera vaxin upp úr svoleiðis, rétt rúm 2 ár í 50 ára aldurinn, maður orðinn afi og svona…á hverju stendur. Ég held ég sé kominn með svarið við því.

  Mig LANGAR SVO að sjá liðið mitt vinna ensku deildina. Svei mér, ég skal taka það að við dettum út fyrir Bayern í CL (þó ég ætli að fara til Munchen og öskra okkur áfram) og þess vegna enda í 5.sæti næstu tvö tímabil. Ég hef alveg fram í desember verið handviss um það að City sé það miklu betra en við að þeir verði meistarar en fann eitthvað gerast þegar við stútuðum B’mouth og Newcastle, hvað þá að vera á staðnum þegar við bökkuðum yfir Arsenal. Þá örugglega hvarf öll skynsemi og lógík.

  Eftir sveiflurnar síðustu daga þá er mikilvægt held ég að maður aðeins rýni í spegilinn og finni samhengið. Því það eru mörg atriði sem vert er að rýna í.

  * Liverpool hefur aldrei í sögu klúbbsins átt eins góðan fyrri helming tímabils.
  * Liverpool er búið að setja nýtt félagsmet í leikjum á heimavelli án taps.
  * Einn tapleikur eftir 25 leiki er næstbesti árangur félagsins, sá besti var 29 leikir árið 1988. Í febrúar það ár var ég ekki kominn með bílprófið, Candy þvottavélar voru aðalsponsorarnir okkar og höfðu tekið við af málningarverktökunum í Crown Paints. Efst á vinsældalistanum var hin margrómaða Tiffany með lagið I think we’re alone now.

  Bara þessir þrír hlutir eiga einir og sér að hrista mann niður á jörðina. Það er nákvæmlega EKKERT sem á að gefa manni tilkall að ergja sig og vera grautfúll eftir 2 jafntefli í röð.

  Því í rauninni erum við í dag á undan áætlun. Hversu erfitt það er að þurfa aftur að horfa upp á við og hlusta á ný á vini manns með glottið tala liðið niður og kalla stjórann nöfnum. Að koma í vinnu á þriðjudegi og hlusta á aðdáendur liðs í 5.sæti tala um hvað við séum „búnir á því“ á ekki að hreyfa við okkur, hvað þá þegar góðir „bitrir“ vinir mínir sem eru að styðja lið í 10.sæti sem ákveður að sleppa því að spila lykilmönnum á heimavelli gegn ríkjandi meisturum blása á mann.

  Því staðan er auðvitað sú að öll lið utan Man. City (og mögulega Tottenham) vildu vera á okkar stað. Örlögin eru í okkar höndum þegar 13 umferðir eru eftir, staðreynd sem var síðast uppi árið 1990.

  Svo…nú er að trúa og njóta ferðarinnar. Ég held að þessir 6 dagar séu alveg að verða okkur öllum og félaginu áminning. Við eigum að setja kassann út líkt og meistari Milner gerði í viðtali eftir West Ham leikinn þegar hann var spurður hvort að hann væri áhyggjufullur. „Með það að vera efstur í deildinni þegar 13 umferðir eru eftir, nei ég er góður“…og labbaði svo í burt. Frábært móment sem vert er að googla.

  Anfield var þögull síðast og það sló líka. Góður vinur okkar félaga sendi mér í gær skilaboð sem nú fara um sem eldur í sinu á meðal stuðningsmanna. Menn ætla ekki að sætta sig við það að völlurinn „skili auðu“ þá 7 leiki sem á eftir að spila þar. Anfield er einstakur völlur og á að hræða fólk. Skilaboðin voru þessi:

  Everyone going on Saturday, no matter what stand you’re in, get in as early as possible. There’s lads getting in an hour before kick off to get Anfield back to its best. It needs to be as loud as possible for when the players come out to warm up. Get the momentum going again and get behind them. Pass this about your groups and help us between now and the last home game against Wolves. In as early as possible with flags, scarves, rattles, voices, whatever. WE’VE GOT A TITLE TO WIN!

  Frábær skilaboð sem við skulum hlusta eftir. Hér með er áskorun á alla þá sem að búa við þá gæfu að komast á Anfield til vors að fara raddlaus af vellinum, njóta þess að taka þátt í ævintýrinu sem við viljum öll að endi vel. Þar skipta allir máli.

  Raggi Reykásinn í okkur öllum vill auðvitað vera með, en við skulum hafa hann í vasanum blessaðan.

  Í samhengi…við eigum möguleika á enska titlinum. Hvernig sem það allt endar skulum við ekki láta neitt skemma fyrir þeirri gleði krakkar!

  KOMA SVOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOOO!

Back to Top

Ad Blocker Detected!

Advertisements fund this website. Please disable your adblocking software or whitelist our website.
Thank You!