Það er komið að því…

…núna ræðst það hreinlega hvort þetta tímabil telst bara ansi gott og stórt framfararskref liðsins undir stjórn Jurgen Klopp, eða hvort þetta verði hálfgerð vonbrigði, þrátt fyrir góða og bráðskemmtilega kafla inn á milli í vetur. Já, þetta veltur allt á leik á Anfield gegn föllnu liði Middlesbrough, sem var klárlega laaang næst versta liðið i deildinni á tímabilinu. Einhvern tíman hefði maður nú verið ansi hreint „cocky“ fyrir leik sem þennan. En ekki á þessu tímabili. Þetta er alveg furðulegur fjandi. Af hverju er maður svona fyrirfram hræddur? Jú því að þetta Boro lið er svo lélegt. Alla jafna myndi þessi framsetning mín ekki „meika neitt sens“, en vegna þess hvernig þetta tímabil hefur þróast, þá skilja allir hvað ég er að fara.

Ég hef verið að spyrja mig spurninga varðandi þetta. Af hverju ættu leikmenn Boro að koma með viljann að vopni inn í leikinn? Flestir þeirra eru byrjaðir að þurfa að undirbúa sig fyrir að spila í næst efstu deild á næsta tímabili. Sumir vita ekkert hvar þeir verða þá. Einn punkturinn er sá að einhverjir vilja láta taka eftir sér í veikri von um að einhver vilji kaupa þá. Ólíklegt já, því þeir hafa haft 37 leiki til þess. En þetta gæti virkað á einhverja. Eru þeir með eitthvað sjálfstraust? Ég myndi halda ekki. Ný fallnir og varla að það votti fyrir slíku. Eru þeir að ganga í augun á stjóranum fyrir næsta tímabil? Líklegast ekki, þar sem þeir eiga eftir að ráða sér slíkan. Nei, það er ansi fátt sem ætti að keyra þá áfram nema bara persónulegur metnaður að láta ekki valtra yfir sig. Að reyna með einhverjum mætti að þakka stuðningsmönnum sínum fyrir að hafa eytt fúlgum fjár í að fylgja þeim á völlinn og sjá hörmungar frammistöður leik eftir leik. Þetta er líklegast það sem ætti að ýta mönnum áfram. Samt, við erum að tala um atvinnumenn í fótbolta sem eiga ansi hreint takmarkað magn af hollustu í sínum ranni.

Horfum þá í hina áttina. Af hverju ættu okkar leikmenn að mæta með viljan að vopni inn í leikinn? Síðasti heimaleikur tímabilsins á Anfield? Já. Tækifæri til að koma sér á stall með þeim bestu og spila í Meistaradeild Evrópu á næsta ári? Hell Yeah. Tækifæri til að sýna sig og sanna fyrir Jurgen Klopp að þeir séu hluti af liðinu til framtíðar, liði sem vonandi á eftir að vaxa áfram og berjast um titla? Ekki nokkur einsta spurning. Tækifæri á að vinna sér inn spikfeitan launabónus vegna þess að markmið um sæti í deildinni séu að nást? Hvað haldið þið? Uhh, já. Fer liðið með eitthvað sjálfstraust inn í leikinn? Í síðustu 10 leikjum hefur liðið sigrað 7 leiki, gert 2 jafntefli og tapað einu sinni. Síðasti leikur vannst 0-4 á útivelli. Þannig að, já, liðið ætti að vera með bullandi sjálfstraust. Hefur varnarleikurinn eitthvað batnað? Heldur betur, liðið hefur haldið hreinu í síðustu 3 leikjum.

Miðað við þessa upptalningu hér að framan, hvernig má það hreinlega vera að maður sé á skjálftavaktinni fyrir þennan leik? Það er hreint út sagt fáránlegt. Það er hreinlega ekki neitt í neinum kortum sem ætti að vísa til neins annars en hrikalega öruggs sigur okkar manna gegn vonlausu Boro liði. En nei, það vantar einn þátt inn í þessa jöfnu. Þetta Liverpool lið hefur alltof oft í vetur ákveðið það að mæta hreinlega ekki til leiks þegar leikið er við allra neðstu og lélegustu liðin. Er skrítið þótt maður sé smá skjálfandi? Held ekki.

En þetta er það ótrúlega fallega við fótboltann. Þetta er ein af ástæðunum að við elskum þessa íþrótt. Það er alveg sama hvernig þetta lítur allt út á pappír (í tölvunni) það vinnst ekkert fyrirfram. Það er þessi fiðringur sem er innra með manni, þessi hrikalega spenna fyrir leiki, á meðan þeim stendur og svo hnúturinnn í maganum eða gleðin sem brýst út eftir leikina. Þetta snýst um tilfinningar, upp og niður, út og suður. Nú mun þetta allt saman súmmerast upp á einum degi, á einum sunnudegi. Öll liðin spila á sama tíma, núna er það undir hverju og einu liði komið hver örlögin verða. Eða nei, eiginlega ekki. Þetta snýst bara um eitt lið. Þetta snýst bara um þetta Liverpool lið og hvernig þeir ákveða að mæta til leiks. Það skiptir okkur ekki rassgat máli hvað Arsenal gerir í sínum leik. Þeir eru að fara að spila við Everton og bláliðar munu svo sannarlega vera farnir í sumarfrí, það er ekki fræðilegur að þeim detti til hugar að gera eitthvað sem gæti komið Liverpool til góða. Enda er þetta einfalt, sigur á Boro = Meistardeild Evrópu á næsta tímabili.

En nóg um það. Hvernig ætlum við að stilla þessu upp? Hvernig verður uppleggið hjá liðunum? Ég held að það liggi enginn vafi á því hvernig Boro muni leggja upp sinn leik. Þeir eru með stóra og sterka stráka sem munu reyna að loka sjoppunni, treysta á skyndisóknir og að reyna að fá föst leikatriði til að næla í marki. Þeir byrja með eitt stig og yrðu himinlifandi með því að halda því. Þetta er ekkert nýtt þegar Anfield er annars vegar. Öll litlu liðin gera þetta og sumum þeirra tekst að fara með eitt stig í burtu með þessari taktík, munum bara þegar Moaninho fór himinlifandi með eitt stig í töskunni sinni. Nei, þetta snýst um hvernig við ætlum okkur að brjóta svona varnarmúr á bak aftur. Eins og svo oft áður, þá mun þetta snúast um að ná að brjóta ísinn snemma, þá geta opnast flóðgáttir. Ef Boro nær að halda okkur í skefjum lengi, þá er hætt við að menn byrji að verða óþolinmóðir og missa skipulag.

Við þurfum á öllum okkar bestu mönnum að halda. Ings og Mané verða pottþétt frá vegna meiðsla og ég efast stórlega um að Hendo verði orðinn klár í slaginn. Hann verður eflaust látinn bara jafna sig almennilega og settur í sumarfrí. Stóra spurningamerkið er Bobby Firmino. Ég myndi persónulega allan tímann setja hann í liðið, en ég reikna með að Klopp verði í mesta lagi með hann á bekknum. Ég ætla því að spá óbreyttu liði frá því sem slátraði liði West Ham:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can
Wijnaldum – Coutinho
Lallana

Origi – Sturridge

Þetta lið Á að slátra þessu Boro liði á heimavelli fyrir framan okkar stórkostlegu stuðningsmenn, þetta er ekkert flókið. Ekki einn leikmaður í liði andstæðinganna ætti séns á að komast í byrjunarlið Liverpool, ekki einn einasti. En núna þarf að sýna gæðin, það er ekki nóg að tala um þau eða hugsa um þau, það þarf að sýna þessi gæði. Þó svo að ég komi til með að verða á skjálftavaktinni fyrir leikinn og þegar hann hefst, þá hef ég alveg tröllatrú á að þetta lið okkar muni mæta til leiks. Ég hef þá trú að þeir vilji klára það sem þeir hófu í ágúst. Ég vil trúa því að löngunin til að spila Meistaradeildarbolta sé það mikil að þeir munu ekki gefa andstæðingum okkar nokkurn frið. Hápressa, hraði, áhugi, fókus, harka, gæði og vilji. Þetta er það sem við þurfum að sjá. Ég ætla að spá okkur sigri, ég ætla að spá okkur stórsigri. Mikið lifandis skelfingar ósköp vona ég að ég hafi rétt fyrir mér í þetta skiptið. 5-0 skal það vera. Sturridge með 2, Coutinho 1, Lallana 1 og Matip 1.

Þetta er síðasta upphitun tímabilsins. Þetta hefur að vanda verið rússíbanareið og vil ég formlega þakka ykkur lesendur góðir fyrir samfylgdina í upphitunum þetta tímabilið. Að sjálfsögðu erum við ekkert hættir, það eru bara upphitanir sem eru komnar í sumarfrí. Vonandi er framundan stórkostlegt sumar þar sem bætt verður í leikmannahópinn til að takast á við deilarkeppni, bikarkeppni, deildarbikar og síðast en ekki síst, Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

KOMA SVO…

West Ham 0 – Liverpool 4 (skýrsla)

0-1 Daniel Sturridge 35.mín
0-2 Coutinho 57.mín
0-3 Coutinho 61.mín
0-4 Divorck Origi 76.mín

BESTU LEIKMENN LIVERPOOL

Algerlega frábær frammistaða hjá öllum í liðinu, það er augljóst þegar þú ferð með lið á útivöll gegn liði sem hefur valdið þér vandræðum undanfarið að þegar þú slátrar leiknum svo 4-0 að þar hafa allir 11 skilað sínu. Mignolet þurfti að verja og grípa inní og það gerði hann vel, vörnin var fín utan við eitt horn og miðjan tikkaði vel í demantinum. Hins vegar er það alveg klárt að það voru tveir leikmenn sem báru af. Fyrst er að nefna Daniel Sturridge sem er auðvitað bara heimsklassa framherji þegar hann er heill. Þegar hann var kominn einn í gegn var ekki vafi í manns huga hvað væri að fara að gerast – hann einfaldlega klárar svona færi. Kvikur og líflegur og stanslaus hausverkur fyrir varnarmenn West Ham. Hann mun skipta miklu máli um næstu helgi gegn varnarmúr á Anfield.

Hinn er svo auðvitað maður leiksins Coutinho. Flott sending á Daniel í marki 1 og svo þvílík yfirvegun í mörkum 2 og 3. Þessi leikmaður vill vera í Meistaradeildinni á næsta ári og þar á hann auðvitað að vera. Þetta leikkerfi er auðvitað smíðað fyrir hann og í dag þegar vörn mótherjanna þurfti að vera aftarlega vegna láta Sturridge fékk hann það svæði og næði sem hann þarfnast til að gera sitt. Sem hann heldur betur gerði. Heimsklassa fótboltamaður!

VONDUR DAGUR

Sumir leikir gefa ekkert tilefni til að velja einhvern sem á vondan dag hjá Liverpool. Þessi var einn slíkur.

Kannski á maður að vera bara pínu kaldhæðinn og minnast á Swarbrick sem að sleppti augljósu víti á okkur og stoppaði ekki leik við höfuðmeiðsl í atvikinu sem leiddi svo til þess að við fengum skyndisókn og skoruðum mark númer þrjú. En það var bara fínt að fá ýmislegt til baka sem við höfum lent í þennan veturinn í flautumálunum.

UMRÆÐAN EFTIR LEIK

* Ótrúlegt gengi á erfiðum útivöllum að undanförnu. Stoke, WBA, Watford og West Ham verið lögð og það er bara ekki sjálfgefið neitt! Alveg ljóst að það er til að auka sjálfstraust til framtíðar að ná slíkum úrslitum og í fyrsta sinn töpuðum við engum leik í London á tímabilinu – aftur eitthvað til að byggja á til framtíðar.

* Leikkerfið. Á viku held ég að þjálfarateymið hafi lært margt. Upplegg leiksins síðast var að halda bolta og fókus og ákveðin varkárni í gangi með 4-2-3-1 kerfið en í dag kom 4-4-2 með aggressívum sóknarleik og hápressu. Það þýddi auðvitað opnari leik en áður og með menn eins og Sturridge og Coutinho í þessum gír steinliggur það. Að mínu mati er þetta a.m.k. plan B fyrir okkar menn til framtíðar, við vitum öll að Sturridge er tæpur en Mané er smíðaður í framherjann í þessu kerfi. Öflugur senter (sækjum bara Suarez krakkar)sem tekur til sín í hinni framherjastöðunni og við erum klár í slaginn.

* Hápressan. Velkomin aftur. Góður fyrri hálfleikur þar sem við náðum að vinna boltann nokkrum sinnum hátt en fyrstu 25 mínútur seinni hálfleiks var með því besta sem við höfum séð þetta tímabilið. Ofboðsleg óþreytandi pressa sem át orku West Ham upp.

* Daniel Sturridge. Hvernig værum við eiginlega stödd ef hann væri heill. Sennilega er hann að kveðja Anfield eftir næsta leik, sem er auðvitað mikil synd því þetta er frábær leikmaður. Þessi frammistaða í dag minnir vel á hann og verður a.m.k. til þess að við munum fá stórt tilboð í hann…kannski frá West Ham bara???

NÆSTU VERKEFNI

Fyrst við unnum þá erum við komin í úrslitaleik – og nú á heimavelli.

Middlesboro’ eru fallnir. Það þýðir tvennt. Þeir munu koma mótiveraðir til þess að kveðja deildina almennilega sem lið og leikmenn til að reyna að fá athygli liða í deild þeirra bestu án pressu. Það þýðir líka það að stress og neikvæðni vetursins gerir vart við sig þegar þeir verða fyrir mótlæti.

Þetta vita okkar menn og uppleggið klárt. Þess utan hefur nú verið sett pressa líka á ná 3.sæti. City eiga heimaleik við WBA í vikunni einu stigi undir okkur og með einu mark betra í markatölu og enda svo í Watford. Svo að þegar við leggjum af stað í þessa viku erum við á þeim stað að geta náð 3.sætinu og þar með beint í riðlakeppni CL en líka séns á að enda í 5.sæti og EL næsta vetur.

Stór vika framundan fyrir Klopp og félaga.

West Ham 0- Liverpool 4

LEIK LOKIÐ Algerlega mögnuð frammistaða með bakið upp við vegginn…eitt skref eftir sem við eigum auðvitað að klára…við bíðum auðvitað með fagnaðarlætin þar til allt er klárt, en þessi dagur búinn að vera magnaður.

Skýrslan stutt undan…

0-4 – 76 mín Origi eftir frábæran undirbúning Sturridge sem hefur verið magnaður í þessum leik. Origi vantar upp á ýmislegt en hann er heldur betur flottur klárari þegar hann þarf að negla hann eins og þarna. Veisla í Austur London ennþá!

0-3 – 61 mín COUTINHO! Við þökkum dómaranum fyrir það að dæma ekki víti á hendi frá Wijnaldum upp úr horni, við sækjum hratt upp völlinn en okkar maður þarf að halda yfirvegun í teignum sem hann svo sannarlega gerir. Vel gert, en hér er hasar framundan. Hamrarnir brjálaðir í dómarann…með réttu, en mér er FULLKOMLEGA SAMA!!!

0-2 – 57 mín COUTINHO! Frábær byrjun á síðari hálfleik, við alveg með öll völd, heimamenn búnir að breyta um leikkerfi en það gefur okkar manni bara meira svæði til að vinna í og Brazzinn neglir í netið utan teigs. Frábært…og andrýmið sem við vildum…enn 30 mín eftir samt.

hálfleikur Við erum 1-0 yfir og það er sanngjarnt en West Ham klúðruðu sem betur fer mesta dauðafæri leiksins – TVISVAR!!! – auðvitað upp úr horni á 44.mínútu. Við vitum auðvitað að þetta er Liverpool FC og það kemur okkur ekki á óvart að þeir geta leikið eins vel og þeir hafa gert í fyrri hálfleik en líka skotið sig rækilega í fótinn. Tense 45 mínútur framundan.

0-1 – 34 mín JÁ!!!!! Daniel Sturridge að sjálfsögðu eftir magnaða sendingu frá Coutinho, átti verk eftir en þetta er hann, þvílíkur klárari. Aðeins getum við slakað á í bili, þetta þurftum við.

30 mín Hraðinn og lætin hafa minnkað, sennilega hafa aðstæður eitthvað þar um að segja, færum fækkað en við höfum náð að vinna boltann nokkrum sinnum á hættulegum stöðum og Sturridge er mjög líflegur…

15 mín Fjörleg byrjun, bæði lið búin að eiga þrjár tilraunir og sitt hvort dauðafærið, West Ham þrumuðu framhjá eftir skyndisókn og Matip skallaði í þverslá eftir horn frá Coutinho.

8 mín

Erum semsagt í demanti…

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Can
Wijnaldum – Coutinho
Lallana

Origi – Sturridge

Það þýðir að á mót 3-5-2 kerfi West Ham ætti að vera mikið af svæðum fyrir bæði lið að spila inní og skapa færi og mörk.

Byrjunarlið dagsins er sem hér segir:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Can – Lallana

Origi – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Karius, Moreno, Grujic, Alexander-Arnold, Lucas, Klavan, Woodburn.

Enginn Firmino í hóp, Sturridge byrjar í fyrsta sinn síðan á síðustu öld bara held ég…bekkurinn líklega ekki mikið notaður í dag.

Þetta er mesti must win leikur tímbablisins, það er einfaldlega allt undir í dag. Koma svoooooooo!

Við minnum á tístkeðjuna okkar. Takið þátt í umræðum yfir leik með því að nota #kopis með tístum ykkar.Þá er komið að næstsíðasta leik okkar rauðliða á tímabilinu og það er stórt verkefni, að fara til austurhluta London og leika við West Ham á ólympíuleikvangi þeirra Breta.

Eftir leiki gærdagsins getum við lagt húsið okkar og bílinn undir að bæði Arsenal og Manchester City munu enda tímabilið með 75 stig a.m.k. svo að verkefni okkar manna er mjög skýrt. Sex stig úr síðustu tveimur leikjunum munu ákvarða tímabilið. Hvort að við munum í júní geta rifjað upp stórkostlega frammistöðu fyrir áramót og í lykilleikjunum eftir þau…eða þurfum við að velta upp í huganum ömurlegri frammistöðu í janúarmánuði og síðan nokkur epísk klúður á heimaVivelli undir lok tímabilsins. Um það snýst málið krakkar.

Við uppþræðum þennan leikþráð í gegnum daginn og breytum í atvikalýsingu. Styttist í tístkeðjuna.

Þangað til skulum við senda strauma til drengjanna í sólinni í London. Það er bara ekki annað í boði en að vinna Hamrana, nokkuð sem okkur hefur ekki tekist í síðustu sex viðureignum okkar í deild og bikar.

Upphitun: Úrslitaleikur gegn West Ham

Um mikilvægi næsta leiks þarf ekkert að fjölyrða þetta er klárlega stærsti leikur tímabilsins hjá Liverpool, úrslitaleikur um sæti í Meistaradeildinni. Því miður er það einmitt það sem gerir mann hvað helst stressaðan fyrir leik því þetta lið okkar hefur fallið á gjörsamlega öllum stórum prófum undanfarin áratug. Það vantar ekki að Liverpool komi sér í úrslitaleiki eða í séns í deildinni, en að klára dæmið er eitthvað sem við treystum þeim því miður ekki ennþá til að gera. Það er pressa fyrir þennan leik og auðvitað þann næsta líka, standist liðið hana væri það risastór þröskuldur sem liðið myndi labba yfir.

Tímabilið er búið hjá West Ham og þeir koma áhyggjulausir inn í þennan leik. Þeir hafa verið að sigla lygnan sjó undanfarið sem hefur hentað þeim vel því liðið hefur ekki tapað í síðustu fimm leikjum og haldið hreinu í fjórum þessara leikja. Síðast unnu þeir Totthenham nokkuð sannfærandi og ljóst að það er hörku stemming komin í kringum þetta lið eftir mjög brösótta byrjun á nýjum heimavelli. Treystið Liverpool til að eiga þá ekki úti fyrr en það er komið í lag.

West Ham er með flesta leikmenn á meiðslalista eða níu talsins skv. physioroom.com. Mark Noble er tæpur, Kouyate er frá út tímabilið, sama má segja um Shako, Antonio og Ogbonna en allt eru þetta mikilvægir leikmenn hjá West Ham. Andy Carroll er einnig sagður tæpur rétt eins og vanalega og væri mikið gott að losna við hann að þessu sinni.

West Ham nær engu að síður að stilla upp ágætu byrjunarliðið. Bilic er farinn að spila 3-4-3 sem er satt að segja mikið nær 5-3-1-1 hjá honum og það hefur hentað liðinu vel undanfarið.

Líklegt byrjunarlið miðað við Tottenham leikinn og meiðsli leikmanna væri einhvernvegin svona:

Adrian

Fonte – Reid – Collins

Byram – Fernandes – Nordveit – Cresswell

Ayew – Calleri – Lanzini

Noble og Kouyate voru á miðjunni í síðasta leik en fari svo að hvorugur er með óttast ég að inn komi tveir djúpir miðjumenn í Fernandes og Nordveit sem hreinsi upp fyrir ansi reynda miðverði West Ham. Á köntunum eru svo bara bakverðir sem hafa spilað vörn alla ævi. Það er ekki tilviljun að þetta West Ham lið fær á sig fá mörk núna undanfarið. Þrátt fyrir öll meiðsli og þetta byrjunarlið ættu þeir ennþá Snodgrass og Fenghouli á bekknum. M.ö.o. þá er West Ham enn eitt liðið með miklu meiri breidd en Liverpool.

Liverpool endurheimtir einn leikmann fyrir þennan leik í Lallana sem þýðir að tveir aðrir eru tæpir (Firmino og Lucas). Þetta hefur verið svo gott sem lögmál í vetur en vonandi verða þeir allir leikfærir. Klopp er búinn að stilla upp sama leikkerfi allt þetta tímabil og sama liði í að verða mánuð. Þetta eru öll lið fyrir löngu búin að lesa og læra á. Því finnst mér alveg kominn tími til að hann breyti aðeins til gegn West Ham og leggi upp með að vinna þá á sóknarleik frekar en varnarleik. Þegar Liverpool verst vel er ekkert að frétta frammi og þegar Liverpool spilar sóknarbolta er allt í rugli varnarlega. Klopp hefur ekki náð að sýna svo mikið sem vott af jafnvægi þarna á milli, ekki frekar en forverar hans í starfi.

Tímabilið 2013/14 var Liverpool í titilbarátti allt til enda spilandi 4-4-2 með tígulmiðju. Leikkerfi sem auðveldlega var hægt að brjóta upp í margar aðrar útfærslur eftir aðstæðum í leikjunum. Afhverju þetta kerfi hefur síðan nánast ekki sést skil ég ekki en miðað við þá leikmenn sem eru í boði núna og þörf fyrir mörk myndi ég vilja sjá Klopp fara í þessa átt. Svona myndi ég vilja sjá liðið gegn West Ham:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Moreno

Can
Wijnaldum – Lallana
Coutinho

Firmino – Sturridge

Ef Lallana er ekki klár í byrjunarliðið myndi ég færi Coutinho niður á miðju og Firmino í holuna fyrir aftan Sturridge og Origi. Coutinho spilaði á miðjunni með Henderson og Gerrard fyrir aftan 2013/14 og var frábær. Sterling var í holunni og Suarez og Sturridge frammi. Hann ætti að mínu mati að vera þar líka núna, leikur Liverpool ætti að snúast um að koma boltanum á Coutinho (á miðsvæðinu) mikið frekar en Wijnaldum og Can og hvað þá Lucas eins og verið hefur undanfarið. Hafa þann sem er líklegastur til að skapa eitthvað í leikstjórnanda hlutverkinu. Þegar hvorki Lallana eða Henderson eru til taks ætti þessi maður að mínu mati klárlega að vera Coutinho.

Já og ég myndi klárlega taka Milner út og setja Moreno í bakvörðinn. Moreno rétt eins og í fyrra er eini tiltæki leikmaður liðsins með einhvern alvöru hraða og það er einmitt það sem þarf gegn varnarmúr eins og þeim sem West Ham er líklegt til að leggja upp með. Rétt eins og nánast öll lið hafa gert undanfarið og gegnið vel. Varnarleikur Liverpool myndi nákvæmlega ekkert versna við það að missa dauðþreyttan Milner með eina hraðastillingu út núna.

En ég hef enga trú á að Klopp fari að mínum óskum hvað þetta varðar og svona spái ég byrjunarliðinu á morgun:

Mignolet

Clyne – Matip – Lovren – Milner

Wijnaldum – Can – Lallana

Firmino – Sturridge – Coutinho

Lallana kemur vonandi inn á miðjuna aftur og Lucas á bekkinn. Hann er sagður vera meiddur en ég vill fá hann á bekkinn hvort heldur sem er. Eins held ég að Sturridge hljóti að vera líklegur til að taka sæti Origi ef hann er heill heilsu þ.e.a.s.

Það er ekki úr miklu að velja hjá Klopp en engu að síður nokkrir möguleikar í stöðunni.

Spá:
Ég treysti þessu Liverpool liði bara enganvegin og ekkert í leik liðsins eftir áramót finnst mér gefa til kynna að þeir ætli að standast pressuna. Þetta lið hefur alltaf fallið á prófinu og ég óttast mikið að þeir geri það einnig núna. Klopp fór inn í þetta tímabil með fáránlega lítinn hóp, bæði miðað við sögu Liverpool undanfarin ár og ekki síst reynslu Klopp sjálfs hjá Dortmund þar sem hálft liðið var sífelt í meiðslum. Það er bara stórhætta á að þetta komi hressilega í bakið á okkur. Ég tippa á 0-0 jafntefli í þessum leik.

Yrði auðvitað meira en himinlifandi með hvaða tegund af þremur stigum úr þessum leik sem er. Sigur sama hvað það kostar er númer eitt tvö og þrjú en þar fyrir utan er ég farinn að sakna þess óskaplega að sjá Liverpool eiga góðan leik þar sem mótherjinn er yfirspilaður fyrir alvöru.