Kudos á klúbbinn

Árshátíð Liverpool klúbbsins fór fram um síðustu helgi og vil ég fyrir hönd félaga minna á Kop.is þakka kærlega fyrir helgina. Þeir stuðningsmenn Liverpool sem aldrei hafa mætt á árshátíð klúbbsins átta sig eiginlega alveg pottþétt ekki á því hversu vegleg þessi hátíð er. Flest erum við orðin vön því að heyra árlega að eitthvað risanafn úr sögu félagsins verði heiðursgestur og tökum því nánast sem sjálfsögðum hlut.

Það þarf ekki annað en að skoða önnur félög hér á landi sem mörg halda einnig úti öflugum stuðningsmannaklúbbum til að átta sig betur á hvurslags starf klúbburinn hér hefur verið að vinna undanfarna áratugi.

Jamie Carragher var auðvitað heiðursgestur að þessu sinni og mættu um 300 manns á Grand Hótel. Hann tók frábært Q&A í um klukkutíma, svo gott að það hélst sæmilega þögn í salnum á meðan sem er að ég held einstakt eftir 22:00 á svona samkomu hér á landi.

Eyþór Ingi mætti einnig, reyndar sem Kristján Jóhannsson stórsöngvari og fór fullkomlega á kostum. Þetta er grínisti sem getur sungið mikið frekar en öfugt. Stórvinur okkar Hreimur Örn sá svo um tónlistina ásamt Rúnari Eff og sjálfum Bigga Nielsen. Villi Naglbítur gerði einnig stórvel í að stjórna samkomunni.

Ferðafélagar Carragher sem koma að styrktarstjóðnum hans (Carra23) voru svo með lottó og eins uppboð á ýmsum Liverpool tengdnum varningi, pabbi hans þar fremstur í flokki en þar er á ferðinni enn meiri meistari en Jamie. Mummi hjá LFCHistory var t.a.m. að senda montsnap af áritaða Xabi Alnoso bolnum sínum, bölvaður.

Kvöldið endaði svo á að hótelið bað okkur vinsamlega um að hætta að syngja Allez Allez Allez svona hátt í lobbý-inu.

Stórvel heppnað og alls ekki eitthvað sem við ættum að taka sem sjálfgefnu. Eins var gaman fyrir okkur sem höldum úti þessari síðu að hitta á fjöldan allan af lesendum síðunnar sem og ferðafélögum okkar til Liverpool undanfarin ár.

Frábær upphitun fyrir næstu helgi. Takk fyrir okkur.


Formaður Liverpool klúbbsins Bragi Brynjarsson (sá mikli meistari) tilkynnti á hátíðinni að hann ætlar að láta af embætti á næsta aðalfundi og er vert að þakka Braga fyrir frábært starf undanfarin ár, furðulegt að hugsa sér klúbbinn án hans.


Aðeins til að árétta að lokum, þó að því sé stundum ruglað saman þá tengist Kop.is Liverpoolklúbbnum á Íslandi ekki með neinum formlegum hætti. Steini er sá eini af okkur sem hefur starfað fyrir klúbbinn. Hinsvegar er góður kunningsskapur og við höldum auðvitað öll með sama liðinu.

Spádómar síðuhaldara 2017-2018

Rétt eins og undanfarin ár tóku kop.is meðlimir sig til áður en tímabilið hófst síðastliðið haust, og settu saman spá fyrir deildina (fyrri hluti og seinni hluti). Eins og lesendur e.t.v. muna spáðum við allir City titlinum, sem síðan gekk eftir. Restin gekk svo mjög svo misverr, t.d. vorum við allir í ruglinu hvað varðar gengi Burnley.

Eins og síðustu ár hef ég nú tekið saman tölfræði yfir niðurstöðurnar, og er þar að vinna út frá því hvert frávik spárinnar er fyrir sérhvert lið. Dæmi: við spáðum City í 1. sæti, og það var sætið sem City lenti í, svo þar er frávikið 0. Annað dæmi: samanlagt settum við Tottenham í 6. sæti, en liðið endaði í 3ja sæti, svo þar erum við með frávik upp á 3. Semsagt, því lægra frávik, þeim mun betra. Þessi tölfræði gerir ekki greinarmun á því hvort frávikið er upp (liðinu gekk betur en við reiknuðum með) eða niður (liðinu gekk verr).

Síðustu árin hefur frávikið verið eftirfarandi:

  • 2016-2017: 2.8
  • 2015-2016: 3.8
  • 2014-2015: 2.6
  • 2013-2014: 2.8
  • 2012-2013: 3.5
  • 2011-2012: 4.0
  • 2010-2011: 2.3
  • 2009-2010: 2.2
  • 2008-2009: 3.6

Og hvernig gekk okkur svo þetta árið? Jú, heildarniðurstaðan er frávik upp á 2.8 fyrir sameiginlegu spána. Semsagt, hefur bæði verið betri og verri. Fyrir þau ykkar sem vilja skoða gögnin nánar er hægt að skoða tölurnar hér.

Samkvæmt þessu er Hannes því mesti spámaður kop.is, með frávik upp á 2.5, en Maggi Beardsley kemur fast á hæla honum með 2.6 og Einar Matthías þar strax á eftir með 2.7. Það er jafnframt athyglisvert að Hannes náði 6 efstu sætunum 100% rétt. Ég held að við höfum allir spáð þessum hefðbundnu topp 6 liðum í efstu 6 sætunum, bara á mismunandi hátt, með einni undantekningu þar sem Everton var sett í 6. sætið og Arsenal í því sjöunda.

Það lið sem stríddi okkur mest var að sjálfsögðu Burnley. Samanlagt setti kop.is Burnley í 17. sætið, en lokaniðurstaðan var 7. sætið, sem þýðir frávik upp á 10 sæti. Þetta er reyndar alls ekki mesta frávik á milli spáar og lokaniðurstöðu, því metið er hjá Leicester 2015-2016, þegar liðinu var spáð í 17. sæti en endaði á því að vinna deildina. Ég efast um að við eigum eftir að toppa þetta frávik nokkurntímann, því það myndi annaðhvort þýða að lið sem við spáum í top 2 myndi falla, eða að lið sem við spáum falli endi á að vinna deildina. Samt, ég hefði líklega líka sagt að við myndum aldrei sjá frávik upp á 16 áður en Leicester ævintýrið gekk yfir.

Nokkur önnur lið reyndust okkur erfið. Flestir reiknuðum við með að Southampton yrði um miðja deild, en Dýrlingarnir enduðu svo á að rétt sleppa við fall. Stoke og WBA settum við í neðri hlutann, en þó á öruggu svæði. Þau féllu hins vegar bæði. Árangur nýliðanna var hins vegar betri en við reiknuðum með, Brighton og Huddersfield var báðum spáð beint niður aftur, en náðu hins vegar að halda sæti sínu í deildinni. Að lokum má líka minnast á West Ham, því flestir reiknuðum við með að West Ham yrði í „best of the rest“ hópnum, en svo endaði liðið fyrir neðan miðju.

Hvað segir þetta okkur svo? Fyrir mér staðfestir þessi spá og lokaniðurstaðan bara það sem við höfum vitað í nokkurn tíma, og það er að deildin er tvískipt: top 6 annars vegar, og restin hins vegar. Það að Everton skyldi t.d. ná 2. sætinu í restardeildinni, þrátt fyrir að hafa í raun átt martraðartímabil (tveir stjórar reknir á tímabilinu: Koeman á miðju tímabili og Big Sam eftir að því lauk) segir kannski hvað það er erfitt fyrir öll hin liðin að hrófla eitthvað við top 6. Líklega sjáum við ekkert lið gera atlögu að efstu 6 til lengri tíma fyrr en næsta olíufurstalið kemur til sögunnar, hvert svo sem það verður. En hvað veit ég svosem, það er ekki eins og að mínir spádómar hafi náð neinum sérstökum hæðum…

Ég reikna svo með að taka saman tölfræði yfir það hvaða pistlahöfundar eiga besta árangurinn þegar kemur að upphitun og leikskýrslu. Einhverjir kunna e.t.v. að halda því fram að það hver skrifar leikskýrslu eða upphitun hafi engin áhrif á gengi liðsins, en við hlustum auðvitað ekki á svoleiðis vitleysinga. En sú samantekt kemur eftir síðasta leik tímabilsins. Það þarf ekkert að minna lesendur á hvaða leikur það er.

Zócalo í Tivoli

Hér á Kop.is hef ég ekki skrifað í tvö ár. Síðasta leikskýrsla sem ég skrifaði dró úr mér viljann til að skrifa meira en nokkur orð á Twitter um Liverpool og núna geri ég varla meira hér á Kop en að retweet-a skemmtilegum tístum á Kop.is Twitter aðganginum okkar.

Ég ætla þó að biðja lesendur Kop.is um smá greiða. Ég er að standa í því basli að reka veitingastaði í Svíþjóð og nú í Danmörku líka. Í nóvember opnuðum við okkar fyrsta stað í Köben í Tivoli Food Hall og núna eru við tilnefnd sem besti Street Food staðurinn í borginni. Ég væri rosalega þakklátur ef þið kæru Kop.is lesendur mynduð fara inná þessa síðu og kjósa þar ZÓCALO í þeirri vinsældakosningu. Takk kærlega!

Carragher áritar í Jóa Útherja

Tilkynning frá Liverpool klúbbnum á Íslandi.

Jamie Carragher áritar í Jóa útherja á laugardaginn

Liverpool goðsögnin Jamie Carragher mætir í Jóa útherja Ármúla 36 á laugardaginn frá kl. 15:30 Þar mun hann árita fyrir stuðningsmenn treyjur, myndir eða annað sambærilegt til kl.16.30

Það er ljóst að mikill áhugi er fyrir komu Carragher og er fólk því hvatt til þess að mæta tímanlega þar sem búast má við töluverðri örtröð.

Við biðjum fólk um að sýna hvort öðru tillitsemi og virða þann tímaramma sem áritunin stendur yfir. Athugið miðað er við að hver einstaklingur mæti með einn hlut til áritunar.

Við hvetjum alla til þess að nýta þetta einstaka tækifæri til þess að mæta og hitta þessa Liverpool goðsögn í návígi.

Vangaveltur um leikmannakaup

Þegar leikmannaglugganum lokaði síðasta sumar voru flestir á því að þetta hefði verið frekar misheppnaður gluggi. Það var enginn óánægður með Salah, Ox og Robertson en aðalskotmörkin klikkuðu. Ekki hjálpaði að Coutinho neitaði að spila fyrir liðið. Sumarið áður vorum við ekkert að sleppa okkur yfir kaupum á Wijnaldum, Mane, Karius og Matip. Salan á Coutinho í janúar skyggði svo verulega á kaupin á Van Dijk. Það er alltaf eins og þetta megi aldrei vera bara jákvætt.

Núna þegar þessir leikmann hafa haft 6-24 mánuði til að sanna sig erum við líklega að horfa á bestu leikmannaglugga Liverpool á þessari öld. Það er rosalega sjaldgæft að svona margir komi inn í liðið á svona skömmum tíma. Kaupin á Salah ein og sér fara reyndar langt með að gera síðasta glugga þann besta. Þessi fullyrðing helgast líka rosalega mikið af því að Liverpool hefur stóran hluta þessarar aldar verið algjörlega afleitt á leikmannamarkaðnum. Allt of oft farið langt niður óskalistann til þess eins að kaupa leikmenn sem verða til sölu nokkrum mánuðum seinna og bæta liðið ekki neitt.

Frá því Klopp tók við hefur enginn leikmaður gjörsamlega floppað, það eru engin Andy Carroll, Cheyrou eða Diouf kaup komin ennþá. Klopp er mun ólíklegri til að kaupa leikmann eins og Benteke sem passar enganveginn inn í leik liðsins. Kaup á Mario Balotelli eru allt að því óhugsandi, frekar tæki Klopp líklega fram skóna sjálfur.

Svona slæm leikmannakaup koma samt pottþétt, meðaltalið segir að innan við helmingur leikmannakaupa „heppnist vel“. Árangur Klopp á leikmannamarkaðnum er með ólíkindum og það er ekkert sem er bara að byrja hjá Liverpool. Hann veit nákvæmlega hvað hann vill sem er töluvert meira forskot en maður líklega áttar sig á og hann nær nánast öllu út úr þeim leikmönnum sem hann hefur. Flestir leikammagluggar Brendan Rodgers hjá Liverpool gefa t.d. til kynna að hann vissi sjaldnast í hvorn fótinn hann ætti að stíga.

Ekkert af þessu breytir því að krafan er á mun meiri flugeldasýingu í sumar heldur en undanfarin ár. Staðan er gjörbreytt hjá Liverpool miðað við fyrir 12 mánuðum og nokkrum ljósárum frá stöðunni fyrir 24 mánuðum.
Continue reading