FSG OUT?
Undanfarnir dagar hafa heldur betur verið viðburðaríkir og má segja að fótboltasamfélagið hafi farið gjörsamlega á hliðina þegar félögin 12 tilkynntu um stofnun Ofurdeildar Evrópu. Líklegast höfum við aldrei séð stuðningsmenn erkifjenda í boltanum svo sameinaða í einhverju máli tengdu fótboltanum. Nánast allir voru á móti stofnun þessarar deildar, mis heitir í andstöðu sinni, en engu að síður afskaplega fáir sem voru sammála þessari leið.
Við fórum yfir þetta í Gullkastinu, tvö kvöld í röð. Atburðarásin var ótrúleg og hlutirnir gerðust hrikalega hratt, svo hratt að maður varla náði að melta þá hluti sem voru í gangi. Eins og fram kom í fyrra Gullkastinu, þá vorum við að horfa á skrítinn hlut, deiluaðila þar sem enginn gat flokkast sem góði aðilinn. Þetta snerist meira um hver var minna vondur, hver var minna gráðugur. Það var athyglisvert að sjá samtök eins og UEFA hoppa á vagninn með stuðningsmönnum fótboltans og tala um að leikurinn væri ekkert án stuðningsmanna og að þeir ættu að hafa rödd í þessu öllu. Samtök sem byggst hafa upp á græðgi og spillingu í mörg, mörg ár. Samtök sem úthluta stuðningsmönnum liðanna í úrslitum Meistaradeildarinnar 15% af miðum á leikinn. Hægt væri að týna til ótal atriði sem sýna fram á hræsnina.
En hræsnin er víða og hún er svo sannarlega líka hjá okkur stuðningsmönnum. Við viljum að sjálfsögðu halda í öll góðu fínu gildin okkar, en öskrum svo á að kaupa Mbappé og Haaland í næstu setningu. Maður hefur staðið sjálfan sig af hræsni þegar kemur að fótboltanum, alveg ótal sinnum, og maður mun væntanlega standa sig af slíku líka í framtíðinni. Þannig er þetta og mun alveg pottþétt verða þannig áfram þegar kemur að blessuðum fótboltanum sem er svona elskaður út um allan heim.
En hvað næst, hversu mikill er skaðinn orðinn og hvert verður framhaldið? Það er ómögulegt um að segja, en vonandi var þetta stórt viðvörunarljós fyrir alla aðila sem að þessu koma. UEFA, FIFA og svo æðstu stjórnendur/eigendur knattspyrnuliða á þessu stóra sviði þar sem peningarnir eru svona miklir, verða hreinlega að læra af þessu rugli öllu saman. Það þarf að koma í veg fyrir að svona fíaskó geti gerst aftur, finna farveg þar sem allir geta notið góðs af. Þessi stóru lið eru forsenda þess að þessir sjónvarpsréttarsamningar eru jafn stórir og verðmætir og raunin er og það efast enginn um að þessar fjárhæðir hríslast niður allan fótbolta pýramídann. Menn verða eflaust aldrei sammála um sanngjarna skiptingu á peningunum, en það hlýtur að vera hægt að finna lausn sem menn geta sætt sig við.
Þá að okkar málum. Eigendur okkar, FSG, hafa verið mikið á milli tannanna á stuðningsmönnum og það réttilega. Það má með sanni segja að þeir hafi skitið langt upp á hnakka. Enn og aftur er ein helsta ástæða þess að þeir eru bara engan veginn nógu vel tengdir raunveruleikanum. Ekkert samtal við stjórnendur liðsins, leikmenn eða stuðningsmenn. Því miður hefur það verið helsta ástæða fyrir þeim mistökum sem þeir hafa gert í eigendatíð sinni og virðist sem þeir haldi bara áfram að berja hausnum í vegginn. Þeir hafa nokkrum sinnum komið fram og beðist afsökunar á mistökunum, og hafa gert það í þessu tilfelli líka. Málið er að í þetta skiptið eru mistökin svo stór og hafa skapað enn stærri gjá á milli sín og stuðningsmannanna. Verður þeim fyrirgefið í þetta skiptið líka? Líklegast ekki, það verða allavega mjög margir sem munu aldrei fyrirgefa þeim þetta.
Erum við þá komin á stað sem er no way back, og þeir þurfi bara að selja félagið frá sér? Það er ljóst að margir eru komnir á þá skoðun. Ég er ekki þar, svo það sé nú fært til bókar, og er það ekki vegna þess að maður sé ekki hundfúll með það hvernig þeir hafa höndlað þetta allt saman. Þögn þeirra sem var svo ærandi þegar fréttirnar brutust út og svo yfirlýsingin sem kom í kjölfarið. Þeir stein héldu kjafti og settu Klopp og liðið “out for dry”. Það er ekki hægt að afsaka slíkt og ætla ég mér ekki að gera það. En þrátt fyrir allt finnst mér við vera nokkuð heppnir með eigendur. Það er ansi margt sem þeir hafa gert sem maður er virkilega ánægður með og eitthvað sem maður verður að setja inn í jöfnuna þegar maður er að hugsa um þetta FSG OUT mál.
– Þeir björguðu félaginu frá gjaldþroti
– Þeir réðu Michael Edwards
– Þeir réðu Jurgen Klopp
– Þeir aðstoðuðu þessa menn í því að búa til eitt allra besta og skemmtilegasta Liverpool lið fyrr og síðar
– Þeir rifu félagið upp og hafa komið því á stall með allra allra stærstu félögunum í veröldinni
– Fyrsti Englandsmeistaratitillinn í 30 ár og sjötti Evrópumeistaratitillinn
– Þeir gerðu félagið sjálfbært með sinn rekstur
– Þeir afstýrðu því að fara frá Anfield og endurbyggðu hluta hans á glæsilegan máta
– Þeir byggðu nýtt æfingasvæði sem gjörbreytti allri umgjörð liðsins og öll lið Liverpool núna á sama svæði
Þetta er það allra helsta sem þeir hafa gert í eigendatíð sinni og þetta eru ekki neinir smá faktorar. Ef breyta ætti um eigendur núna, þá værum við að halda enn og aftur inn í óvissuna.
Hvaða aðilar eru það sem gætu reitt fram 2-3 milljarða punda til að kaupa félagið? Olíufurstar frá mið-austurlöndum? Myndu nýjir eigendur ekki horfa til þess að ávaxta fjárfestingu sína, þ.e. vera fyrst og síðast peningadrifnir líkt og núverandi eigendur? Myndu nýjir eigendur eitthvað frekar fókusa á gildi félagsins? Erum við almennt til í að fara í gegnum allt það sem fer í gang þegar um svona söluferli er um að ræða? Í algjörum draumaheimi þá ættu stuðningsmenn félagið, hvort sem það væri mjög dreifð eignaraðild eða með nokkrum vel efnuðum stuðningsmönnum. En ég bara sé það ekki gerast, fjárfestingin er það stór að það þarf gríðarlegt fjármagn bara til að kaupa félagið. Við þurfum bara að líta aðeins í kringum okkur. Flest liðin í efsta þrepinu á Englandi eru í eigu forríkra aðila. Nánast allir þessir eigendur eru drifnir áfram af peningum, eða því að bæta ímynd sína útávið. Þannig er fótboltinn bara orðinn og þetta er heldur ekkert nýtt af nálinni.
Hvað er þá til ráða? Það er alveg ljóst mál að það er mikið verk fyrir höndum ætli FSG sér að vinna stuðningsmenn á sitt band. Í mörgum tilvikum mun það ekki gerast, sama hvað. Fyrir það fyrsta þá VERÐA þeir að fara að hlusta meira og leita sér meiri ráðlegginga varðandi það sem þeir hafa litla sem enga hugmynd um. Í mínum huga er tvennt í stöðunni. Annað hvort að láta hluta af félaginu í hendur stuðningsmanna, þyrfti ekki að vera stór hluti, fyrst og fremst til að tryggja inn aðila úr þeim hópi í stjórn félagsins. Mér finnst þetta vera ólíklegt í stöðunni. Hinn kosturinn væri að fá einhvern inn í stjórn án einhvers eignarhalds. Einhvern sem er með tengsl inn í borgina, tengsl við stuðningsmenn. Einhvern eins og Kenny Dalglish t.d. Eins komu þeir í Blood Red Podcastinu fram með nafn Tony Barrett. Sá er mjög vel tengdur í allar áttir og ætti að geta komið inn með þennan vinkil sem sárlega vantar í stórar ákvarðanatökur. Þetta yrði allavega fyrsta skrefið í átt að því að koma í veg fyrir mistök sem verða vegna þess að eigendurnir skilja ekki kúltúrinn í fótboltanum. Þeir hafa sýnt það í gegnum tíðina að þeir eru tilbúnir að taka U-beygjur þegar á þarf að halda, en það er bara ekki alltaf nóg og núna eiga þeir akkúrat ekkert inni lengur, ekkert rúm fyrir fleiri svona mistök.
Er ég stuðningsmaður FSG? Langt því frá. Ég er fyrst og fremst stuðningsmaður Liverpool Football Club. Ég hef verið það alla tíð og mun vera það þar til ég yfirgef þetta líf. Ég vil veg þessa félags sem mestan, en vil jafnframt halda í þau góðu gildi sem félagið stendur fyrir. Það reynir vel á alla tengda félaginu þessa dagana, eigendur, stjórnendur liðsins, leikmenn og ekki síst stuðningsmennina. Við höfum oft lent í áföllum og erum orðin ýmsu vön. Við höfum gengið í gegnum miklu verri atburði, því miður. Ég er á því FSG OUT sé ekki málið á þessum tímapunkti. Sú skoðun mín er mynduð fyrst og fremst útfrá því hvað ég tel farsælast fyrir félagið. Eeen…þeir þurfa svo sannarlega að sýna það í verki að þeim hafi verið alvara með þessari afsökunarbeiðni sinni. Sýnið okkur það að þið ætlið að hlusta og breyta rétt, annars mun maður hoppa um borð í FSG OUT vagninn.