Latest stories

  • FSG OUT?

    Undanfarnir dagar hafa heldur betur verið viðburðaríkir og má segja að fótboltasamfélagið hafi farið gjörsamlega á hliðina þegar félögin 12 tilkynntu um stofnun Ofurdeildar Evrópu. Líklegast höfum við aldrei séð stuðningsmenn erkifjenda í boltanum svo sameinaða í einhverju máli tengdu fótboltanum. Nánast allir voru á móti stofnun þessarar deildar, mis heitir í andstöðu sinni, en engu að síður afskaplega fáir sem voru sammála þessari leið.

    Við fórum yfir þetta í Gullkastinu, tvö kvöld í röð. Atburðarásin var ótrúleg og hlutirnir gerðust hrikalega hratt, svo hratt að maður varla náði að melta þá hluti sem voru í gangi. Eins og fram kom í fyrra Gullkastinu, þá vorum við að horfa á skrítinn hlut, deiluaðila þar sem enginn gat flokkast sem góði aðilinn. Þetta snerist meira um hver var minna vondur, hver var minna gráðugur. Það var athyglisvert að sjá samtök eins og UEFA hoppa á vagninn með stuðningsmönnum fótboltans og tala um að leikurinn væri ekkert án stuðningsmanna og að þeir ættu að hafa rödd í þessu öllu. Samtök sem byggst hafa upp á græðgi og spillingu í mörg, mörg ár. Samtök sem úthluta stuðningsmönnum liðanna í úrslitum Meistaradeildarinnar 15% af miðum á leikinn. Hægt væri að týna til ótal atriði sem sýna fram á hræsnina.

    En hræsnin er víða og hún er svo sannarlega líka hjá okkur stuðningsmönnum. Við viljum að sjálfsögðu halda í öll góðu fínu gildin okkar, en öskrum svo á að kaupa Mbappé og Haaland í næstu setningu. Maður hefur staðið sjálfan sig af hræsni þegar kemur að fótboltanum, alveg ótal sinnum, og maður mun væntanlega standa sig af slíku líka í framtíðinni. Þannig er þetta og mun alveg pottþétt verða þannig áfram þegar kemur að blessuðum fótboltanum sem er svona elskaður út um allan heim.

    En hvað næst, hversu mikill er skaðinn orðinn og hvert verður framhaldið? Það er ómögulegt um að segja, en vonandi var þetta stórt viðvörunarljós fyrir alla aðila sem að þessu koma. UEFA, FIFA og svo æðstu stjórnendur/eigendur knattspyrnuliða á þessu stóra sviði þar sem peningarnir eru svona miklir, verða hreinlega að læra af þessu rugli öllu saman. Það þarf að koma í veg fyrir að svona fíaskó geti gerst aftur, finna farveg þar sem allir geta notið góðs af. Þessi stóru lið eru forsenda þess að þessir sjónvarpsréttarsamningar eru jafn stórir og verðmætir og raunin er og það efast enginn um að þessar fjárhæðir hríslast niður allan fótbolta pýramídann. Menn verða eflaust aldrei sammála um sanngjarna skiptingu á peningunum, en það hlýtur að vera hægt að finna lausn sem menn geta sætt sig við.

    Þá að okkar málum. Eigendur okkar, FSG, hafa verið mikið á milli tannanna á stuðningsmönnum og það réttilega. Það má með sanni segja að þeir hafi skitið langt upp á hnakka. Enn og aftur er ein helsta ástæða þess að þeir eru bara engan veginn nógu vel tengdir raunveruleikanum. Ekkert samtal við stjórnendur liðsins, leikmenn eða stuðningsmenn. Því miður hefur það verið helsta ástæða fyrir þeim mistökum sem þeir hafa gert í eigendatíð sinni og virðist sem þeir haldi bara áfram að berja hausnum í vegginn. Þeir hafa nokkrum sinnum komið fram og beðist afsökunar á mistökunum, og hafa gert það í þessu tilfelli líka. Málið er að í þetta skiptið eru mistökin svo stór og hafa skapað enn stærri gjá á milli sín og stuðningsmannanna. Verður þeim fyrirgefið í þetta skiptið líka? Líklegast ekki, það verða allavega mjög margir sem munu aldrei fyrirgefa þeim þetta.

    Erum við þá komin á stað sem er no way back, og þeir þurfi bara að selja félagið frá sér? Það er ljóst að margir eru komnir á þá skoðun. Ég er ekki þar, svo það sé nú fært til bókar, og er það ekki vegna þess að maður sé ekki hundfúll með það hvernig þeir hafa höndlað þetta allt saman. Þögn þeirra sem var svo ærandi þegar fréttirnar brutust út og svo yfirlýsingin sem kom í kjölfarið. Þeir stein héldu kjafti og settu Klopp og liðið “out for dry”. Það er ekki hægt að afsaka slíkt og ætla ég mér ekki að gera það. En þrátt fyrir allt finnst mér við vera nokkuð heppnir með eigendur. Það er ansi margt sem þeir hafa gert sem maður er virkilega ánægður með og eitthvað sem maður verður að setja inn í jöfnuna þegar maður er að hugsa um þetta FSG OUT mál.

    – Þeir björguðu félaginu frá gjaldþroti
    – Þeir réðu Michael Edwards
    – Þeir réðu Jurgen Klopp
    – Þeir aðstoðuðu þessa menn í því að búa til eitt allra besta og skemmtilegasta Liverpool lið fyrr og síðar
    – Þeir rifu félagið upp og hafa komið því á stall með allra allra stærstu félögunum í veröldinni
    – Fyrsti Englandsmeistaratitillinn í 30 ár og sjötti Evrópumeistaratitillinn
    – Þeir gerðu félagið sjálfbært með sinn rekstur
    – Þeir afstýrðu því að fara frá Anfield og endurbyggðu hluta hans á glæsilegan máta
    – Þeir byggðu nýtt æfingasvæði sem gjörbreytti allri umgjörð liðsins og öll lið Liverpool núna á sama svæði

    Þetta er það allra helsta sem þeir hafa gert í eigendatíð sinni og þetta eru ekki neinir smá faktorar. Ef breyta ætti um eigendur núna, þá værum við að halda enn og aftur inn í óvissuna.
    Hvaða aðilar eru það sem gætu reitt fram 2-3 milljarða punda til að kaupa félagið? Olíufurstar frá mið-austurlöndum? Myndu nýjir eigendur ekki horfa til þess að ávaxta fjárfestingu sína, þ.e. vera fyrst og síðast peningadrifnir líkt og núverandi eigendur? Myndu nýjir eigendur eitthvað frekar fókusa á gildi félagsins? Erum við almennt til í að fara í gegnum allt það sem fer í gang þegar um svona söluferli er um að ræða? Í algjörum draumaheimi þá ættu stuðningsmenn félagið, hvort sem það væri mjög dreifð eignaraðild eða með nokkrum vel efnuðum stuðningsmönnum. En ég bara sé það ekki gerast, fjárfestingin er það stór að það þarf gríðarlegt fjármagn bara til að kaupa félagið. Við þurfum bara að líta aðeins í kringum okkur. Flest liðin í efsta þrepinu á Englandi eru í eigu forríkra aðila. Nánast allir þessir eigendur eru drifnir áfram af peningum, eða því að bæta ímynd sína útávið. Þannig er fótboltinn bara orðinn og þetta er heldur ekkert nýtt af nálinni.

    Hvað er þá til ráða? Það er alveg ljóst mál að það er mikið verk fyrir höndum ætli FSG sér að vinna stuðningsmenn á sitt band. Í mörgum tilvikum mun það ekki gerast, sama hvað. Fyrir það fyrsta þá VERÐA þeir að fara að hlusta meira og leita sér meiri ráðlegginga varðandi það sem þeir hafa litla sem enga hugmynd um. Í mínum huga er tvennt í stöðunni. Annað hvort að láta hluta af félaginu í hendur stuðningsmanna, þyrfti ekki að vera stór hluti, fyrst og fremst til að tryggja inn aðila úr þeim hópi í stjórn félagsins. Mér finnst þetta vera ólíklegt í stöðunni. Hinn kosturinn væri að fá einhvern inn í stjórn án einhvers eignarhalds. Einhvern sem er með tengsl inn í borgina, tengsl við stuðningsmenn. Einhvern eins og Kenny Dalglish t.d. Eins komu þeir í Blood Red Podcastinu fram með nafn Tony Barrett. Sá er mjög vel tengdur í allar áttir og ætti að geta komið inn með þennan vinkil sem sárlega vantar í stórar ákvarðanatökur. Þetta yrði allavega fyrsta skrefið í átt að því að koma í veg fyrir mistök sem verða vegna þess að eigendurnir skilja ekki kúltúrinn í fótboltanum. Þeir hafa sýnt það í gegnum tíðina að þeir eru tilbúnir að taka U-beygjur þegar á þarf að halda, en það er bara ekki alltaf nóg og núna eiga þeir akkúrat ekkert inni lengur, ekkert rúm fyrir fleiri svona mistök.

    Er ég stuðningsmaður FSG? Langt því frá. Ég er fyrst og fremst stuðningsmaður Liverpool Football Club. Ég hef verið það alla tíð og mun vera það þar til ég yfirgef þetta líf. Ég vil veg þessa félags sem mestan, en vil jafnframt halda í þau góðu gildi sem félagið stendur fyrir. Það reynir vel á alla tengda félaginu þessa dagana, eigendur, stjórnendur liðsins, leikmenn og ekki síst stuðningsmennina. Við höfum oft lent í áföllum og erum orðin ýmsu vön. Við höfum gengið í gegnum miklu verri atburði, því miður. Ég er á því FSG OUT sé ekki málið á þessum tímapunkti. Sú skoðun mín er mynduð fyrst og fremst útfrá því hvað ég tel farsælast fyrir félagið. Eeen…þeir þurfa svo sannarlega að sýna það í verki að þeim hafi verið alvara með þessari afsökunarbeiðni sinni. Sýnið okkur það að þið ætlið að hlusta og breyta rétt, annars mun maður hoppa um borð í FSG OUT vagninn.

  • Liverpool 1 – 1 Newcastle, Deja Vu. (Skýrsla uppfærð)

    Þetta var ég byrjaður að skrifa þegar mark var dæmt af Newcastle í uppbótartíma:

    Verð að taka á mig að hafa jinxað þetta

     

    Fari það í þúsund grámyglaðar grásleppur. Meiri bévítans hörmungin

    Gangur leiksins.

    Leikurinn hefði ekki getað farið betur af stað. Eftir aðeins þrjár mínútur vann Salah barátuna um frákast í teignum og sneri sér á staðnum og þrumaði boltanum viðstöðulaust í nær vinkilinn. Stórfenglegt mark sem á skilið að vera mark mánaðarins. Þetta var tuttugusta mark Salah í deild í vetur, þriðja árið í röð sem hann nær þeim árangri. Einfaldlega einn sá allra besti sem hefur klæðst treyjunni.

    Eftir þetta mark var taktur leiksins kunnulegur. Allt, allt of kunnulegur. Við vorum með boltann á bilinu 70-80 prósent, óðum í færum en framlínan okkar bara gat ekki komið boltanum í netið. Newcastle beitti hinni víðfrægu lágu blokk og beittu skyndisóknum. Náðu einni frábærri um miðjan hálfleikinn þar sem Longstaff slapp í gegn og við máttum vera þakklát Alisson fyrir frábæra markvörslu. Hraði Longstaff og Saint-Maximin var að valda varnarlínunni okkar usla. Það gæti líka tengst að okkar menn voru svo ákafir að sækja að oft á tíðum vorum við með 9 leikmenn í sóknarþriðjungi vallarins.

    Í hálfleik hefur Steve Bruce væntanlega verið nokkuð sáttur. Liverpool búin að hafa öll völd á vellinum en Newcastle enn þá inn í leiknum. Fyrri hluti seinni hálfleiks var síðan áframhald af þeim fyrri. Liverpool miklu meira með boltann, stöku glefsur af frábæru samspili en alltaf þessi ónotatilfinning… þeir þurfa bara eitt mark.

    Á 58. mínútu kom James Milner inn á fyrir Jota og fannst mér sú skipting heppnast ágætlega. Ef eitthvað var jókst stjórn Liverpool yfir leiknum, gamli maðurinn tók stjórnina og maður sá fram á að nú yrði leikurinn drepinn. Svo komu líklega stærstu mistökin: Curtis Jones inn á fyrir Thiago.

    Ég vil hafa það krystaltært að ég kenni ekki Jones um neitt. En án Thiago á miðsvæðinu misstu okkar menn einfaldlega stjórn á leiknum. Á 85 mínútu voru okkar menn með boltann, Newcastle menn allir á eigin vallarhelmingi. Fyrir ári hefðum við látið boltann ganga endalaust á milli, bara haldið honum og drepið leikinn. Í staðinn var gerð sókn, við misstum boltann eftir hálffæri og það sem eftir lifði leiksins voru lærisveinar Bruce með vindinn í bakið. Það var eitthvað svo óhjákvæmilegt, tragískt við það sem var að gerast. Ríkjandi meistarar, rúnir sjálfstrausti og án sinna bestu manna, eftir að hafa verið með algjöra yfirburði…

    Á 93. mínútu blótuði milljón stuðningsmenn Liverpool í kór þegar Callum Wilson náði með smá heppni að skora. Hann hafði hins vegar fengið boltann í hendina. Ég byrjaði að skrifa það sem stendur hér efst. Nýttu okkar menn gjöfina frá VAR dómaranum? Nei. Þeir misstu boltann nánast strax og í þetta sinn stóð markið, Joe Willock skoraði og Meistaradeildarsætið komið algjörlega úr okkar höndum. Eiga Liverpool það svo skilið?

    Maður leiksins.

    Bara byggt á því hversu mikið leikur Liverpool hrundi eftir að Thiago var tekin útaf þá ætla ég að velja hann. Ég finn ekki tístið sem ég ætlaði að setja hérna en áður en hann var tekinn útaf vorum við 70+ prósent með boltann, þessar loka tíu mínútur undir 60 prósent með hann. Alisson átti líka tvær frábærar vörslur og þess virði að minnast á hann.

    Slæmur dagur.

    Það er alltaf pínu spes að dæma Gini Wijnaldum, vegna þess að svo mikið sem hann gerir vel er ekki neitt sérstaklega áberandi. Fannst hann samt ósýnilegri en oft áður í dag. En Jota og Mané maður minn. Maður fyrirgefur framherjum ansi margt ef þeir ná að klára eitt færi. Sem þeir gerðu ekki. Svo verður bara að setja risa spurningamerki við Klopp, hvað var hann að pæla að taka Thiago útaf?

    Umræðupunktar

    • Sigur í dag, eða gegn Leeds hefði þýtt að mögulega væri Meistaradeildarsætið í okkar höndum. En nei. Okkar menn köstuðu því frá sér. Það eru sex leikir eftir og ef annað hvort Chelsea eða West Ham vinna á eftir þá vantar okkur fjögur stig í fjórða sæti.
    • Þetta lið þarf innilega á sumarfríi að halda. Held reyndar að við stuðningsmenn þurfum það líka.
    • Það er margt sem þarf að gera upp eftir þetta tímabil en eitt sem er ekki nógu mikið rætt er hversu bitlausir við erum í föstum leikatriðum. Við misstum ansi mikið af meðalhæð þegar Van Dijk og Matip duttu út og það munar um það.
    • Það er ekki hægt að kenna vörninni um þetta í dag. 22 skot, eitt mark. Hvað er í gangi?
    • Bara svo það sé eitthvað hér á skemmtilegum nótum, James Milner var að koma inná sem varamaður í 159. sinn. Hann er því mest notaði varamaður í sögu Úrvalsdeildarinnar og tók sætið af Peter Crouch.
    • Það ótrúlega er að ef West Ham og Chelsea gera jafntefli er smá von. Ekki mikil, en smá…

    Næst á dagskrá.

    Eftir átta daga er stærsti leikurinn í enskri knattspyrnu. United, erkifjendurnir sem sitja hæst ánægðir í öðru sæti. Heil vika í undirbúning á meðan þeir keppa í Evrópudeildinni á fimmtudaginn.

  • Liðið gegn Newcastle klárt: Framherjarnir byrja allir!

    Ég er mikill aðdáandi hádegisleikja á laugardögum, sérstaklega ef þeir vinnast og maður getur farið brosandi inn í helgina. Það er aðeins annar tónn í Liverpool borg þessa helgi en var í Leeds á mánudaginn:

    Byrjunarliðið okkar er svo svona:

    Williams er semsagt meiddur sem er ekki beint óvænt, gaman að sjá Curtis Jones aftur á bekknum. Held þetta sé sókndjarfasta uppstilling sem er völ á hjá okkar mönnum.

    Steve Bruce stillir aftur á móti upp svona:

    Þetta er skyldusigur og mig langar að trúa að allt ruglið í þessari viku hjálpi okkar mönnum, hressandi eftir allt dramað að geta bara farið út á völl og spilað.

    Hvernig lýst ykkur á?

  • Liverpool – Newcastle (Upphitun)

    Eftir furðulega viku, svo vægt sé til orða tekið, og vonbrigði mánudagsins þá er fínt að fá annan fótboltaleik strax, þó svo að ég sé ekkert sérstaklega hrifinn af hádegisleikjum almennt. Andstæðingarnir í þetta skiptið eru Newcastle og fer leikurinn fram á Anfield (kl. 11:30 á morgun, laugardaginn 24. apríl).

    Formið og sagan

    Okkur hefur gengið nokkuð vel gegn Newcastle síðastliðin ár og vorum t.a.m. á 5 leikja sigurhrinu gegn þeim í deild (3 sigrar í röð á Anfield og 2 á St. James Park) áður en kom að jafnteflinu í desember s.l. Á Anfield er árangurinn gegn þeim frábær, síðasta tap kom í deildarbikarnum árið 1995 og það þarf að fara ári betur aftar í tímann til þess að finna síðasta tap í deildarleik en þá stýrði Keegan gestunum og Andy nokkur Cole skoraði annað mark gestanna! Í síðustu 10 leikjum erum við að tala um 8 sigurleiki og 2 jafntefli.

    Eftir nokkuð erfiðan lokasprett á 2020 og slæma byrjun á 2021 þá hefur Newcastle náð að snúa við gengi liðsins og er komið langt með að tryggja sæti sitt í deildinni. Sitja í 15 sæti með 35 stig og heilum 8 stigum frá fallsæti, með leik til góða og 18 stig eftir í pottinum.

    Það segir kannski ýmislegt en liðin eru að koma inn í þennan leik í nokkuð svipuðu formi. Newcastle hefur unnið síðustu tvo deildarleiki og er með 8 stig af 15 mögulegum í síðustu 5 leikjum á meðan að okkar menn koma til leiks ósigraðir í fjórum leikjum með 10 stig af 15 mögulegum, eftir svekkjandi jafntefli gegn Leeds s.l. mánudag. Ef við ætlum að eiga einhvern möguleika á CL sæti þá megum við ekki við fleiri slíkum úrslitum, þetta er því skyldusigur.

    (more…)

  • Gullkastið – PR hamfarir hjá FSG

    Það tók ekki langan tíma að kála hugmyndum um European Super League enda viðbrögð knattspurnuheimsins (ekki síst stuðningsmanna knattspyrnuliðanna tólf) vægast sagt kröftug. Núna eru topparnir sem voru á bak við þessar hugmyndir farnir að fjúka, stór nöfn bakvið tjöldin í fótboltanum sem verður ekki saknað.
    Leikurinn gegn Leeds var í algjöru aukahlutverki að þessu sinni.

    Stjórnandi: Einar Matthías
    Viðmælendur: SSteinn og Maggi

    MP3: Þáttur 332

  • Liverpool FC hættir við þátttöku í Super League (staðfest)

    Leikhúsi fáránleikans hefur verið lokað!

    Á sunnudagskvöld kom þruma úr heiðskíru lofti um að búið væra að stofna Ofurdeild fyrir risaliðin í Evrópu, allt væri planað og klárt og Billy Hogan lét það út úr sér að þessi keppni væri rökrétt skref fyrir LFC.

    Stormurinn fauk af stað og sem lengra leið á hann var fullkomlega ljóst að hér voru á ferðinni eins hrikaleg mistök og hægt er að gera í rekstri Liverpool FC og hægt var. Aldrei frá þeim tíma hefur komið upp hóst eða stuna frá eigendum félagsins, þeir létu bara í alvöru framkvæmdastjórann svara fyrir þessa gjörð og gerðu ekkert í því að laga orðspor félagsins í heiminum. Eftir leik og í dag hefur svo komið í ljós að mánuðum saman hefur verið unnið að þessu verkefni en algerlega vanmetið á allan hátt hversu ríkar tilfinningr liggja í evrópskum fótbolta, hvað þá á Englandi og HVAÐ ÞÁ Í LIVERPOOL!

    Í einhver augnablik gat maður gripið það í kollinn að eitthvað mögulega lægi að baki. Aldrei kom neitt. Í dag gáfust önnur lið upp á hugmyndinni og að lokum hættu okkar eigendur við þennan mánaðalanga blauta draum um að hafa margfaldað virði “fyrirtækisins” síns til að geta selt það með hámarks hagnaði.

    Þeir vaða skítinn uppfyrir axlir. Allir sem tengjast félaginu hafa snúið við þessu bulli baki. Stjórinn, leikmennirnir, goðsagnir og hver einasti aðdáendaklúbbur LFC.

    Við podcöstuðum um málið í gær og tökum annað stutt upp núna innan skamms – verður komið inn upp úr hálf ellefu

    Þetta má ekki stoppa hér takk. Fyrsta skrefið í að taka íþróttina úr græðgisveröldinni verður að hafa fleiri í kjölfarið.

  • Lið farinn að yfirgefa Ofurdeildina

    Tveimur dögum eftir stofnun umdeildu Ofurdeildarinnar er spilaborgin fallinn liðin er farinn að efast og líklegt að fallið verði frá þessum plönum á næstu dögum. Chelsea voru fyrstir að tilkynna í dag að þeim hefði snúist hugur og ætla ekki að taka þátt í þessu verkefni. Chelsea voru ekki eitt af þeim liðum sem keyrðu þetta í gegn heldur stukku þeir seint á vagninn og því eðlilegt að þeir væru fyrstir til að bakka út þegar mótlætið var jafnmikið og raun hefur verið.

    Á síðustu mínútum hafa Atletico Madrid og Manchester City einnig tilkynnt að þeir ætli að bakka með þessa ákvörðun og því líklega nú orðið kapphlaup um að vera ekki síðasta liðið til að hætta við. Spilaborgin er því að falla og ætla liðin að funda um áframhaldið í kvöld. Uppfærum færsluna þegar meira kemur í ljós.

    (19:04) Talksport og fleiri miðlar tala um að Ed Woodward hafi sagt upp hjá Manchester United í kvöld.

    19:11 Fleiri hausar að fljúga vegna málsins þar sem talað er um að Andrea Agnelli hafi gengið frá borði sem forseti Juventus í kvöld.

  • Leeds United 1-1 Liverpool

    Mörkin

    0-1  Sadio Mané 31. mín
    1-1  Diego Llorent 87. mín

    Leikurinn

    Í skugga reiðiöldu víðast um fótboltaheiminn þá hófst leikur Liverpool gegn Leeds í Jórvíkurskíri. Okkar menn voru einbeittir frá byrjun og virkuðu mótiveraðir þrátt fyrir mótlætið utan vallar. Gott tempó var á báðum liðum og gestunum gekk vel að láta boltann ganga innan liðsins og skapa góð upphlaup með bakvörðunum upp vængina. Jota var líflegur og á 18. mínútu keyrði hann frá vinstri vængnum og kom sér í skotstöðu en Llorente tókst að tækla áður en skotið reið af.

    Heimamenn voru þó hættulegir og um miðbik fyrri hálfleiksins vann Phillips boltann á miðjunni og sendi gegnumsendingu á Bamford sem var sloppinn einn á markvörð. Alisson kom vel út á móti og truflaði skotið en að lokum skaust boltinn af Fabinho og rétt framhjá rammanum.

    Rauði herinn opnaði markareikning sinn á kvöldinu eftir hálftíma leik það var glæsilegt samspil sem skóp gott liðsmark. Kabak bar boltann upp úr vörninni og lagði boltann á Jota sem sendi langa og djúpa sendingu inn fyrir vörnina á frábært hlaup Trent Alexander sem lagði boltann Mané sem skoraði í opið markið. 0-1 fyrir Liverpool.

    Á 39. mínútu voru Liverpool nálægt því að tvöfalda forystuna þegar að góð sending Thiago startaði skyndisókn og hinn sókndjarfi TAA reyndi að finna Jota en markvörðurinn Meslier tókst að bjarga því að sá portúgalski gæti lyft boltanum í markið.

    0-1 fyrir Liverpool í hálfleik.

    Firmino byrjaði seinni hálfleikinn með skoti á markið eftir að fyrirgjöf Jota var skölluð til hans en Meslier varði ágætlega aftur fyrir endamörk. Úr hornspyrnunni fékk Jota dauðafæri er hann fékk skallafæri einn og óvaldaður fyrir miðju marki og hefði átt að þenja netmöskvana með öflugum þrumuskalla en setti boltann yfir.

    Okkar menn héldu áfram að gera sig líklega til markaskorunar og Milner fór upp hægra megin og sendi hættulegan bolta á nærstöngina en Meslier bjargaði vel með því að vera á undan Mané. Hvítliðar svöruðu með nokkrum sóknarlotum þar sem fyrirgjafir og hornspyrnu fóru hættulega í gegnum vítateiginn.

    Ein slík fyrirgjöf strauk hendina á TAA í teignum en VAR komst að þeirri skynsömu niðurstöðu að handleggurinn hafi verið í eðlilegri stöðu og engin vítaspyrna dæmd. Úr horninu sem fylgdi ógnuðu Leeds aftur er Costa var í færi á fjærstönginni en enn sluppu Liverpool með skrekkinn og héldu naumu forskoti áfram.

    Leeds héldu áfram að þjarma að okkur og á 69.mín dansaði Roberts inn í teiginn og lagði á Harrison sem var kominn einn á móti markverði en Alisson varði glæsilega með fótunum og bjargaði marki. Klopp hafði fengið nóg og gerði breytingar með skiptingu á Mo Salah fyrir markaskorarann Mané.

    Leeds-mark lá í loftinu og á 74.mínútu leit út fyrir að það væri komið er Ayling fann Bamford í dauðafæri en sá enski lyfti boltanum yfir markvörðinn og beint í þverslánna. Örstuttu síðar bjó Poveda til dauðafæri fyrir Roberts sem hamraði boltann með þrumuskoti beint í bringuna á Alisson sem stóð sína plikt í markinu.

    Eftir þessa stanslausu orrahríð fengu Liverpool allt einu nokkra sénsa á færibandi eftir skyndisókn, mistök Meslier og hættulega hornspyrnu en hvorki Salah né Jota tókst að koma boltanum í markið til að tvöfalda forystuna. Salah fékk gott færi á 84.mín eftir flotta sendingu Thiago inn fyrir vörnina en sá egypski skaut framhjá fjærstönginni.

    Sú vannýting átti eftir að brenna okkur illþyrmilega þar sem að stuttu síðar fengu Leeds hornspyrnu og Llorente náði að skalla góða hornspyrnu Harrison framhjá Alisson af stuttu færi. Leikar jafnir 1-1 og stutt til leiksloka. Varamaðurinn Oxlade-Chamberlain fékk hálffæri í uppbótartíma en náði ekki að koma boltanum fyrir sig og fleiri mörk voru ekki skoruð þetta kvöldið.

    1-1 jafntefli hjá Leeds og Liverpool.

    Tölfræðin

    Viðtölin

    Klopp tjáði sig fyrir leik um Ofurdeildina:

    James Milner eftir leik:

    Bestu menn

    Rauði herinn leit vel út í fyrri hálfleik með líflega framlínu og þar var Jota mjög áberandi á vinstri vængnum, Firmino duglegur að tengja spilið og Mané með sitt fyrsta mark í 10 deildarleikjum. Trent var öflugur upp hægri vænginn með stoðsendingu og Robertson einnig í góðu formi hinu megin. Miðjan var að ná vel saman og hafsentaparið ágætt framan af leik en mistækir inn á milli.

    Minn maður leiksins er Alisson sem stóð stór í markinu og hélt hreinu lengi vel með góðum markvörslum. Gat lítið gert við eina markinu en bjargaði því að Liverpool fékk ekki á sig fleiri mörk og hefði hugsanlega tapað leiknum.

    Vondur leikur

    Leikmenn voru flestir á pari eða betra miðað við aðstæður en frammistöðurnar döluðu eftir því sem leið á leikinn. Það er helst að Fenway Sports Group hafi spilað slæman afleik á síðasta sólarhring og enginn eigendanna hefur haft hugrekki til þess að svara fyrir þeirra eigin ákvörðun. Í staðinn láta þeir Klopp og leikmenn mæta í mótmælin innan vallar sem utan og sem skotspæni fyrir framan myndavélarnar í viðtölum. Fyrir þá frammistöðu fá FSG beint rautt spjald.

    Umræðan

    Þessi mikilvægi leikur hinna fornu stórvelda Leeds og Liverpool féll að miklu leyti í skuggann af Ofurdeildar-umræðunni. Engu síður var um mjög líflega leik að ræða og hefðu mörkin auðveldlega geta verið fleiri en á endanum voru úrslitin sanngjörn miðað við að sitt hvort liðið hafði yfirburði í hvorum hálfleik fyrir sig.

    Liverpool misstu þó af tveimur mikilvægum stigum í baráttunni um að vera í efstu 4 sætunum til að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili. Írónían er þó sú að framtíðin er í mikilli óvissu varðandi það hvort að Liverpool ásamt ESL-hópnum verði hent út úr Meistaradeildinni og sexmenningunum hent út úr ensku úrvalsdeildinni.

    Þá myndi litlu máli skipta hvar Liverpool lendir í deildinni á þessu hörmungartímabili Covid, meiðsla og núna græðgisvæðingu eigendanna. En við skulum vona að skynsemin ráði og það takist að slíðra sverðin á næstunni þannig að eðlilegu ástandi verði komið á sem fyrst.

    YNWA

  • Byrjunarliðin vs. Leeds United á Elland Road

    Rauði herinn ferðast stutta leið til austurs og munu nema land í Jórvíkurskíri og mæta þar heimamönnum í Leeds United. Kærkomið tækifæri til að reyna að nýta sér góð úrslit um helgina og tryggja sér 3 stig en einnig gott að hvíla súperdúperdeildar-umræðuna í nokkrar knattspyrnuklukkustundir.

    Byrjunarliðin

    Í 500. skipti í vetur þá er hafsent meiddur og í þetta sinn er Nat Phillips fjarri góðu gamni en Fabinho er hrókerað niður í vörnina. Salah er í bekkjarsetu með Jota í framlínunni og Thiago kemur inn á miðjuna:

    Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Kabak, Fabinho, Robertson; Wijnaldum, Thiago, Milner; Mane, Jota, Firmino

    Bekkurinn: Adrian, Keita, Salah, Oxlade-Chamberlain, Tsimikas, Shaqiri, B.Davies, R.Williams, N.Williams

    Heimamenn stilla sínum liðsmönnum upp á eftirfarandi hátt:

    Leeds: Meslier, Ayling, Struijk, Llorente, Alioski, Phillips, Dallas, Harrison, Roberts, Costa, Bamford

    Bekkurinn: Casilla, Berardi, Davis, Koch, Shackleton, Klich, Poveda, Hernandez, Gelhardt

    Blaðamannafundurinn

    Klopp ræddi við pressuna á laugardaginn og hægt er að renna yfir viðtalið hér til að stytta sér stundir fram að leik.

    Come on you REDS! Allez! Allez! Allez!

    YNWA!

    Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan og á Facebook.

Load More
Congratulations. You've reached the end of the internet.
Back to Top
Close