Flokkaskipt greinasafn: Um síðuna

TAW og ferð til Liverpool

Minnum á hópferð Kop.is á leik Liverpool og Fulham – sjá nánar hér


Líklega fór það ekki framhjá lesendum/hlustendum síðunnar að við félagarnir skelltum okkur til borgarinnar góðu um daginn og fórum á leik Liverpool og Brighton. Án þess að hlaða í eiginlega ferðasögu langar okkur aðeins að fara yfir það helsta úr þessari ferð og þá sérstaklega heimsókn okkar í höfuðstöðvar The Anfield Wrap.

Þetta er alls ekkert okkar fyrsta ferð til Liverpool og hefð er farin að skapast fyrir því að sofa í Keflavík daginn fyrir ferð með það fyrir augum að ná að sofa aðeins lengur enda flugtími jafnan aldrei i dagsbirtu og þreytandi að sofna jafnan í kvöldmatnum fyrsta daginn úti, enda jafnan borðað á veitingastöðum! Happy Hour á hótel barnum frá 13:00 – 00:30 fór alveg með þær áætlanir (aftur) og líklega sefur maður bara heima næst til að koma betur sofin í Leifsstöð.
Continue reading

Vilt þú skrifa fyrir Kop.is?

Kop.is ætlar að bæta við sig penna fyrir komandi tímabil!

Við leitum að skemmtilegri og vel skrifandi manneskju til að taka þátt í almennum pistlaskrifum hjá Kop.is í vetur. Við erum að tala um almenna pistla auk upphitana og leikskýrslna í kringum leiki liðsins á komandi leiktíð og næstu árin ef báðum aðilum líkar vel.

Hæfniskröfur eru einfaldar: kanntu að skrifa? Telurðu þig geta skrifað pistla og/eða leikskýrslur á Kop.is sem lesendur síðunnar gætu haft gaman af? Þetta er ekki flóknasta verkefni í heimi, en það getur samt verið furðu snúið. Fyrst og fremst leitum við að fólki sem hefur persónuleika sem skín í gegn þegar það vélritar orð á tölvuskjá og hefur brennandi ástríðu fyrir besta félagi í heimi.

Við hvetjum konur sérstaklega til að sækja um! Á þrettán ára líftíma Kop.is hefur kona aldrei sótt um þegar við bætum við penna, það væri gaman að breyta þeirri tölfræði núna. Ekki svo að skilja að konur fái forgang og karlar þurfi ekki að sækja um. Ef þú hefur áhuga, karl eða kona, sendu mér póst og við munum svo velja hæfustu manneskjuna í plássið.

Áhugasamir geta sent mér póst á kristjanatli (hjá) gmail. Ég hef samband við alla umsækjendur.

Í umsókn vil ég sjá eftirfarandi: nafn, almennar upplýsingar, smá pistil um hvers vegna þú heldur með Liverpool og hvað þú hefur gert það lengi, og vísanir á skrif á netinu ef þú hefur slíkt til að vísa í. Reynsla af skrifum á netinu er að sjálfsögðu kostur en ekki nauðsynleg.

YNWA

Kop.is semur við Úrval Útsýn!

Kop.is og Úrval Útsýn tilkynna endurnýjað samstarf um hópferðir til Liverpool tímabilin 2017/18 og 2018/19!

Síðan 2013 höfum við hjá Kop.is boðið upp á hópferðir til Liverpool-borgar með frábærum árangri. Undirtektirnar hafa verið ótrúlega góðar og ferðirnar hafa heppnast gríðarlega vel. Í vor undirtók stjórn Kop.is samningaferli sem hefur nú klárast með því að samstarf Kop.is og Úrval Útsýnar hefur verið formlega endurnýjað til næstu tveggja ára.

Luka Kostic frá Úrval Útsýn og Sigursteinn Brynjólfsson frá Kop.is innsigla samstarfið.

Þetta þýðir að við getum staðfest að Kop.is og Úrval Útsýn munu bjóða upp á nokkrar frábærar ferðir til fyrirheitna landsins að sjá liðið okkar allra næstu tvö tímabil, hið minnsta. Að venju munu ferðirnar innihalda:

  • Fararstjórn Kop.is
  • Flug og gistingu á góðu hóteli í frábærri borg
  • Miða á Anfield til að hvetja Liverpool til sigurs

Við hjá Kop.is og Úrval Útsýn hlökkum til að kynna fyrir ykkur fyrstu ferðirnar á næstu vikum. Leikjaplanið fyrir tímabilið 2017/18 verður birt í næstu viku og í kjölfarið stefnum við á að setja saman pakka fyrir tvær ferðir fyrir áramót, eina snemma í haust og aðra nær jólum, og munum við svo kynna þær á næstu vikum þar á eftir. Þannig að ef ykkur hefur dreymt um að koma með okkur til fyrirheitna landsins, eða ef þið hafið farið með okkur áður og viljið koma aftur, bíðið þá aðeins með sparibaukinn þar til við kynnum ferðir okkar í sumar.

Hægt er að sjá ferðasögur frá fyrri ferðum hér:

Everton í maí 2013
Crystal Palace í október 2013
Swansea í febrúar 2014
West Brom í október 2014
QPR í maí 2015
Man Utd í janúar 2016
Sunderland í nóvember 2016
Swansea í janúar 2017

Sjáumst í Liverpool í vetur með Kop.is og Úrval Útsýn!

Nýja Breiðholt, skáldsaga eftir Kristján Atla

Kristján Atli og Nýja BreiðholtKæru lesendur. Þið fyrirgefið mér vonandi sjálfsmarkaðssetninguna hér en ég má til með að segja ykkur að fyrsta skáldsagan mín, NÝJA BREIÐHOLT, kemur í verslanir næsta mánudag 3. október, og jafnvel fyrr eða um helgina á höfuðborgarsvæðinu. Hún kemur í allar bókabúðir og stakar aðrar verslanir líka.

Þessi bók hefur verið lengi á leiðinni. Ég hef alltaf stefnt á að skrifa og gefa út skáldsögu og nú er loksins komið að því. Það hefur tekið tíma og frestast, meðal annars af því að það hefur verið svo gaman að skrifa á þessa síðu, sem ég stofnaði og hef rekið í rúm tólf ár núna ásamt félögum mínum, ykkur til góða. Allan þann tíma höfum við ekki beðið um neitt í staðinn en í þetta skiptið ætla ég að brjóta þá reglu og gera nokkuð sem ég kann ekki við sjálfur: ég ætla að betla smá.

Ef þið hafið haft gaman af síðunni og metið það starf sem við höfum unnið í gegnum árin, endilega íhugið að styðja þá við annan af stofnendum síðunnar með því að kaupa eintak. Það skiptir nýliða á bókamarkaði miklu máli að selja vel af fyrstu bók upp á framhaldið og því myndi ég þiggja allan stuðning frá stórum lesendahópi síðunnar. Ef þið hafið gaman af því að lesa lofa ég að þið verðið ekki svikin af skáldsögunni, en ef ekki þá getið þið kannski gefið einhverjum bókaormi sem þið þekkið eintak eða haft bókina í huga undir jólatréð í vetur.

Betlun lokið. Nánar um bókina:

Þið getið lesið fyrsta kafla bókarinnar frítt á netinu.
Þið getið líkað við Facebook-síðu bókarinnar og fylgst með framvindu mála þar.

NÝJA BREIÐHOLT er óvenjuleg og spennandi skáldsaga eftir Kristján Atla sem kannar hvert íslenskt nútímasamfélag stefnir.

Lýsing: Reykjavík er í sárum. Helmingur þjóðarinnar flúði land og skildi eftir borg án stjórnkerfis, skipulags og yfirvalda. Þau sem eftir eru reyna að bjarga sér með því sem þau hafa en þurfa að berjast fyrir sínu og jafnvel útdeila eigin réttlæti.

Þrjátíu árum eftir flóttann gengur raðmorðingi laus og þegar hann rænir ungri stúlku úr Breiðholtinu þarf einstæður faðir að leggja allt í sölurnar til að bjarga henni en gjörðir hans ógna viðkvæmum stöðugleika borgarinnar og gætu leitt til blóðugra átaka valdaafla á milli.

Bókin verður komin í allar bókabúðir mánudaginn 3. október og verður á góðu verði, jafnvel fyrr (um helgina) á höfuðborgarsvæðinu.

Í næstu viku verður svo útgáfuhóf og mun ég láta vita af því hér á síðunni. Allir eru velkomnir og mun ég árita eintök hvar sem þið hittið mig og veifið penna.

Nýja Breiðholt

YNWA
Kristján Atli

Jólahreingerning Kop.is

Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir síðustu daga notuðum við tækifærið í landsleikjahlénu og fluttum síðuna yfir á nýjan hýsingaraðila, með tilheyrandi veseni. Íslenskir stafir töpuðust, þumallinn við ummæli stakk okkur af og síðasti podcast-þáttur komst ekki alla leið yfir á iTunes. En nú er þessu blessunarlega lokið og við getum staðfest að þið megið losa sætisólar og láta fara vel um ykkur.

seatbelt_smoking

Í kjölfarið á þessum flutningum kynnum við smá breytingu á fyrirkomulagi Kop.is Podcastsins. Framvegis mun þátturinn koma inn kvöldið sem hann er tekinn upp á SoundCloud-síðu Kop.is og um leið hér á síðunni. Hægt verður að hala skránni niður af SoundCloud fyrir þá sem vilja ekki streyma þættinum og eiga sitt eintak. Við mælum með að fólk nýti sér það því framvegis verða bara 2-3 nýjustu þættirnir í einu á netinu, bæði á SoundCloud og annars staðar, og því ekki hægt að „safna“ þáttum nema að sækja þá og geyma sjálf.

Þættirnir munu síðan koma inn sólarhring síðar sem skrá fyrir iTunes og aðrar hlaðvarps-áskriftir fyrir þá sem nota þær. Þetta gerum við til að taka broddinn af mesta niðurhalinu af hýsingaraðila okkar, nokkuð sem var farið að valda okkur höfuðverkjum og kosta pening síðustu vikur enda þátturinn búinn að springa í vinsældum síðan þetta tímabil hófst, og sérstaklega eftir að Jürgen Klopp var ráðinn til félagsins.

Allavega, framvegis: færslan birtist strax eftir upptöku á Kop.is með SoundCloud-spilara, þaðan sem hægt verður að sækja skrána. Þeir sem vilja nota áskriftarveitur eins og iTunes verða að bíða í sólarhring. Við mælum með að fólk noti SoundCloud í staðinn, það er m.a.s. frábært SoundCloud forrit fyrir snjalltæki þar sem þið getið sett Kop.is Podcastið í áskrift og fengið í raun sömu þjónustu og hjá öðrum forritum.

Næsti þáttur er á dagskrá í næstu viku.

Það er ekki fleira í bili. Ef þið finnið einhverja bögga eða villur á síðunni, endilega látið okkur vita í ummælum svo við getum unnið í því.

Einnig: WordPress-viðbótin (plugin) fyrir þumalinn var víst úrelt fyrir nýjustu útgáfu PHP og því hætti þumallinn að virka við færsluna yfir á nýjan hýsingaraðila. Ef einhver WordPress-töframanneskja þarna úti veit um nýjan þumal sem virkar fyrir PHP 5.6 eða nýrra má viðkomandi endilega benda okkur á það svo að við getum fengið „like“ á ummælin aftur.

YNWA