Flokkaskipt greinasafn: Meistaradeildin

PFC Ludogorets frá Razgrad

Hlustið á þetta og spennið beltin.

Liverpool hefur unnið þessa keppni fimm sinnum og það er við hæfi að vera aftur með á þessu tímabili því að um helgina voru liðin nákvæmlega fimmtíu ár síðan Liverpool spilaði sinn fyrsta leik í Evrópu, gegn KR í Reykjavík. Þegar Liverpool hefur leik á morgun er upp á dag fimm síðan okkar menn byrjuðu riðlakeppnina gegn svipað þekktum mótherjum, Debrecen frá Ungverjalandi.

Kristján Atli fór í gær yfir þraugargöngu Liverpool og fimm árin sem við vorum ekki með í þessari keppni en þrautarganga Liverpool er ekki neitt miðað við andstæðinga okkar annað kvöld. Þeir hafa aldrei komist í Meistaradeildina áður og eru að fara úr límingunum af spenningi og hafa fengið alla þjóðina með sér. Uppgangur þeirra er efni í kvikmynd og náði hápunkti er þeir tryggðu sér sætið með vægast sagt ævintýralegum hætti.
Lesa meira

Útlegð

AnfieldCL

Liverpool FC lék síðast leik í Meistaradeild Evrópu þann 9. desember 2009. Það eru næstum því fimm ár síðan. Það kvöld tapaði liðið á heimavelli fyrir Fiorentina og datt þar með út úr Meistaradeildinni, í 3. sæti riðilsins, og inn í Evrópudeildina þar sem liðið fór í undanúrslit á sama tímabili. En þetta kvöld í desember 2009 skrifaði ég leikskýrslu og lauk henni á þessum vongóðu orðum:

„Ég ætla mér allavega að taka mér svona mánaðarfrí frá Evrópupælingum og svo ætla ég að sökkva mér í Evrópudeildina og gleyma því alveg að Meistaradeildin sé til … fram á næsta haust. ;) „

Þetta véfengdi líka enginn sem las færsluna. Við ætluðum okkur langt í Evrópudeildinni áður en við mættum aftur til leiks í Meistaradeildinni haustið 2010.

Svo fór nú aldeilis ekki. Haustið 2010 var Rafa Benítez farinn, þessi gæi hér tekinn við, félagið stóð í eigendaskiptum og lagabaráttu um, hreinlega, framtíð sína, og Meistaradeildin var ekki bara fjarlæg heldur horfin.

Næstu fjögur tímabilin lék Liverpool tvisvar utan Evrópukeppna alfarið og tvisvar í Evrópudeildinni, en fóru stutt í bæði skiptin. Á endanum tókst Brendan Rodgers að rífa deildarformið í gang á síðasta ári og eftir að hafa náð 2. sæti og verið hársbreidd frá titli í vor er liðið ekki aðeins komið aftur í Meistaradeildina heldur er það komið með hvelli, svo eftir var tekið.

Og mikið er ég feginn.

Þessi fimm ár hafa ekki verið auðveld. Meistaradeildin er skemmtilegasta knattspyrnukeppni hvers tímabils og það hefur verið drepleiðinlegt að horfa á hana án þess að geta tekið þátt í dramatíkinni með sínu liði. Auk þess hafa erkifjendur okkar í Englandi skemmt sér konunglega yfir þessari Útlegð síðustu árin. Það var því kannski ákveðið karma fólgið í því að grimmustu erkifjendurnir skuli hafa verið þeir sem gáfu eftir sitt sæti svo við kæmumst loks inn í ár. Sá hlær best sem síðast hlær og allt það.

Það eru tveir dagar í að Liverpool spili Meistaradeildarleik á ný, gegn Ludogorets Razgrad. Babú er að sjálfsögðu að smíða eina af sínum klassísku Evrópu-upphitunum (enn ein ástæða þess að það er gott að vera komin aftur í Meistaradeildina) og birtir hana á morgun, en ég vildi bara nota tækifærið og fagna því að okkar menn séu komnir aftur á meðal þeirra bestu, þar sem þeir eiga að vera.

Hér er að lokum stutt upprifjun um hvernig Liverpool hefur gengið í Meistaradeildinni frá því að hún var stofnuð árið 1992 (og tók við af Evrópukeppni meistaraliða, sem okkar menn höfðu unnið fjórum sinnum). Það tók Liverpool reyndar níu ár að komast í Meistaradeildina frá stofnun hennar, en vorið 2001 vann liðið frábæra þrennu og tryggði sér um leið þátttökurétt í Meistaradeildinni með 3. sæti í Úrvalsdeildinni. Næstu árin fór liðið mikinn í Evrópu:

  • 2001-02: Inn í 3. sæti EPL, komst í 8-liða úrslit CL.
  • 2002-03: Inn í 2. sæti EPL, duttu út í riðlum CL.
  • 2003-04: 5. sæti EPL, spilað í Evrópudeild.
  • 2004-05: Rafa mættur. Inn í 4. sæti EPL, sigurvegarar CL.
  • 2005-06: Inn sem meistarar, komst í 16-liða úrslit CL.
  • 2006-07: Inn í 3. sæti EPL, komst í úrslit CL.
  • 2007-08: Inn í 3. sæti EPL, komst í undanúrslit CL.
  • 2008-09: Inn í 4. sæti EPL, komst í 8-liða úrslit Cl.
  • 2009-10: Inn í 2. sæti EPL, duttu út í riðlum CL.

Þegar Liverpool datt óvænt út úr riðli sínum í desember 2009 var liðið skráð efst allra liða í Evrópu, byggt á frammistöðu liða í Meistaradeild í fimm ár á undan því tímabili. Liðið hafði unnið einu sinni, farið tvisvar í úrslit, einu sinni í undanúrslit og einu sinni í 8-liða úrslit á þeim tíma. Þetta gengi var betra en öll önnur lið í Evrópu á sama tíma, sem verður að teljast magnaður árangur miðað við það sem á undan fór og ekki síður það sem kom á eftir.

Í dag er Liverpool í 45. sæti á þessum lista, enda bara með einn CL-riðil, undanúrslit EL, 16-liða úrslit EL og tvisvar utan Evrópukeppni sl. fimm ár.

Ég ætla að spá því að liðið verði talsvert ofar en í 45. sæti á þessum lista eftir ár. Ég held að liðið fari upp úr þessum riðli og útiloka ekki að það fari lengra. Og vonandi, vonandi, vonandi verður þetta ekki eina árið okkar í Meistaradeild Evrópu að sinni. Ég get ekki aðra Útlegð.

Í dag skulum við samt fagna því að þessar stundir eru komnar aftur á Anfield:

Stevie, Brendan, strákar: MAKE US DREAM!

Meistaradeildin – Real Madríd – Basel – Ludogorets

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

16:45: Þar með er þetta orðið ljóst, Liverpool er í B – riðli sem er svona:
Real Madríd
Basel
Liverpool
Ludogorets

Flott mál. Það var alltaf að fara koma eitt risalið úr potti 1 og Real Madríd verður spennandi, við vorum líka underdogs gegn þeim síðast og pökkuðum þeim saman.

Ef Liverpool hefur ekki Basel í annarri tilraun á liðið ekkert erindi í 16-liða úrslit keppninnar. Sluppum við mörg sterk lið í potti 2

Sama á við um nýliðana í Ludogorets, það var hægt að fá mun erfiðasri andstæðinga úr potti 4.

Hin ensku liðin eru einnig í góðum málum, Það mætti halda að Roman hafi dregið í riðla þetta árið. Arsenal fer áfram nema stórslys eigi sér stað. Man City var lang óheppnast enda fá þeir bæði Bayern og Roma. Þeir eiga samt léttilega að hafa Roma.

Næsta mál á dagskrá, hverjir í fjandanum eru Ludogorets? :)

Lesa meira

Opinn þráður – FSG, Anfield og Meistaradeildin

Þetta er ekki flókið, ég er á lokastigi hvað eftirvæntingu/spenning/stress varðar fyrir leikinn á sunnudaginn. Drög að ca. 4500 orða upphitun eru klár og kemur í loftið ca. annað kvöld.

Fram að því er kannski rétt að staldra aðeins við og skoða aðeins fréttir vikunnar. Það er svo mikil eftirvænting vegna gengi liðsins í deildinni að allt annað er tekið nánast sem aukaatriði. Sama dag og drög að endurbættum og stækkuðum Anfield Road eru tilkynnt fer færslan á Kop.is að mestu í það hvort Mignolet sé betri en Pepe Reina eða ekki. Ekki að það sé ekki fínasta umræða í opnum þræði.

Eins og staðan er nákvæmlega í dag held ég nefnilega að FSG séu bestu eigendur sem Liverpool hefur haft. Þetta vona ég auðvitað að bíti mig ekki í rassinn seinna líkt og kom fyrir Kristján Atla árið 2007. Hann sagði þetta eftir nokkra mánuði af eignarhaldi H&G í leikskýrslu við leikinn sem skilaði okkur í Úrslit CL.

Ég er að halda svipuðu fram núna um FSG eftir tæplega 4 ár af eignarhaldi þeirra. Ég hef ekki alltaf verið sannfærður um þá, sérstaklega ekki þegar leikmannaglugginn er opinn en núna er ekki annað hægt en að hrósa þeim og það með látum. Ekki meðan Liverpool er á toppi deildarinnar í apríl, ný plön fyrir Anfield eru orðin opinber og liðið er komið í Meistaradeildina á ný þökk sé þess að geta enn eitt árið ekki náð 4. sæti í lok apríl, núna hinumegin frá :)

Til að gæta sanngirnis þá voru þetta viðbrögð KAR í dag þegar ég benti honum á þessa færslu frá 2007
kar

Stækkun á Anfield Road – Gamall draumur loksins að rætast?

Völlurinn hefur verið hitamál í rúmlega 15 ár. David Moores var búinn að leita allra leiða ásamt Rick Parry til að stækka völlinn eða byggja nýjan í mörg ár áður en hann komst að þeirri niðurstöðu að hann réði ekki við það sjálfur og ákvað að selja félagið sitt. Moores er gríðarlega mikill stuðningsmaður Liverpool og ákvörðunin um að selja hefur alls ekki verið einföld. Það lá fyrir að Liverpool yrði að fá miklu meiri tekjur af innkomu heldur en félagið var að fá og hann réði ekki við að fara í þessar framkvæmdir. Eftir yfir hálfs áratugar leit af hentugum kaupendum hitti hann af óskiljanlegum ástæðum á þá Hicks og Gillett sem fengu Liverpool liðið frá David Moores að stærstum hluta út á loforð um að byggja nýjan völl. „The spade has to be in the ground withing 60 days,“ sagði Gillett digurbaklega á sínum fyrsta blaðamannafundi. Hefðu Moores og Parry verið búnir að frétta af Google hefði líklega verið hægt að afstýra þessum harmleik.

Það vantaði ekki að þeir ætluðu sér að byggja nýjan völl. Eyddu fleiri tugum milljónum af pundum sem þeir áttu ekki í hönnum á nýjum velli í Stanley Park sem lofaði heldur betur góðu.

Þetta fór eins og við þekkjum allt til andskotans. Það var ekki einu sinni farið með stunguskóflu í Stanley Park og rándýr hönnun á nýjum velli vitagangslaus nýjum eigendum.

Moores og Parry voru farnir að huga að nýjun velli um aldarmótin og líklega fyrir þann tíma og skömmu seinna að nýjum eigendum. Gillett og Hicks voru því ekki bara gífurleg vonbrigði hvað stjórnun félagsins varðar heldur einnig fyrir íbúa í kringum Anfield. Þeir stóðu nánast ekki við nokkurn skapaðan hlut og þökk sé þeim hafa stuðningsmenn Liverpool tekið öllum fréttum af nýjum velli eða stækkun á Anfield (eitthvað sem H&G sögðu vera vonlaust) með afar miklum fyrirvara.

FSG hefur passað sig að gefa ekkert út sem þeir geta ekki staðið við. Þeir sögðu strax frá upphafi að völlurinn yrði að gefa miklu meira af sér og að hann væri enganvegin samkeppnishæfur öðrum völlum í núverandi mynd. Leitað yrði leiða til að laga þetta, þeir höfðu líkt og reyndar fyrri eigendur reynslu af því að endurbæta sögufrægan völl í Bandaríkjunum, reyndar einn þann sögufrægasta af þeim öllum. Sama verk og lá fyrir á Englandi.

FSG brutu bölvun Babe Ruth á bak aftur og endurbættu Fenway frábærlega. Er það furða að stuðningsmenn Liverpool geri sér vonir um titlinn og að Anfield verði endurbættur líkt og þeir hafa lofað?

Það eru samt að verða liðin fjögur ár síðan FSG keypti Liverpool og margar fréttir af nýjum velli eða endurbættum Anfield hafa hljómað kunnuglega. Þeir hafa þó alltaf verið sannfærandi um að vinnan væri í gangi og gengi ágætlega en svona tæki langan tíma. FSG eru auðvitað alls ekki þeir einu sem koma að þessu verki, borgin er t.a.m. stór aðili að þessu líka og þetta er risamál fyrir allt svæðið í kring.

Undanfarið höfum við heyrt að nánast sé búið að kaupa öll þau hús sem þarf að kaupa til að geta farið í endurbætur á Anfield, eitthvað sem tekið hefur mörg ár og ekki allir verið sáttir með í hverfinu. Mörg höfum við séð tóm, yfirgefin og mjög hrörleg hús í kringum Anfield. Núna er búið að kaupa þessi hús upp, búið er að fá leyfi fyrir stækkun vallarins upp í tæplega 60 þúsund manns og inni í þeirri stækkun verða líklega mörg VIP box sem gefa mjög mikið af sér m.v. venjulegan miða á völlinn. Svipað og Arsenal er að moka inn pening á.

Félagið gaf síðan í dag út tilkynningu um væntanlegar framkvæmdir á Anfield Road og kynnti um leið fyrir íbúum í kringum völlin. Áætlað er stækka völlinn sjálfan í tveimur áföngum. Eins verður svæðinu í kringum völlinn gerbreytt með verslunum, börum, betri almenningssamgöngum og betri nýtingu á Stanley Park. Svæðið í kringum Anfield má sannarlega við andlitslyftingu.

Teikningarnar sem kynntar voru í dag sýna bara stækkunina á Main Stand sem verður gerð þriggja hæða og bætt við 8500 sætum þannig að í allt taki sú stúka 21.000 manns. Eins verður aðstaða fyrir fatlaða stórbætt í Main Stand, eitthvað sem mjög er ábótavant á yfir 100 ára gömlum vellinum. Eftir þessar breytingar tekur völlurinn 54.þúsund manns.

Ég var að vona að þeir næðu að klára þennan áfanga fyrir Newcastle leikinn en líklegra er að þetta verði komið fyrir tímabilið 2016/17. Held þó auðvitað enn í vonina varðandi Newcastle leikinn, fái þeir t.a.m. Votta Jehova í þetta ætti þetta í mesta lagi að taka 4 daga.

Svæðinu fyrir utan Main Stand verður síðan gjörbreytt og þar verður aðal tenging Anfield við svæðið í kring. Völlurinn er í dag nánast lokaður inni í íbúabyggð og það er helst fyrir utan Park og þar sem hægt er að tala um eitthvað svona almenningssvæði á leikdegi. Þessi breyting gæti því orðið mjög töff.

Anfield Road endinn verður síðan stækkaður um 4500 manns, byggt verður stúka ofan á þá sem fyrir er og tekur völlurinn eftir það 58.500 manns.

Að fara úr 45.þúsund manns í 58.500 á hverjum leik er gríðarleg stækkun. Eins koma þessar breytingar til með að skila mun fleiri VIP boxum á vellinum og betri aðstöðu til að þjónusta þannig stuðningsmönnum. Sorglegt að það sé boðið svona snobbliði á leiki ef þú spyrð mig en þetta er víst partur af prógramminu í dag. Peningarnir tala. Hvað frekari stækkun varðar þá minnir mig að þetta tengist að hluta samgöngum á svæðinu og hversu mikið þær þola.

Ennþá er auðvitað ekki búið að svo mikið sem lyfta hamri og því ekki hægt að fagna strax. FSG eru engu að síður komnir mun lengra en áður hefur verið farið og þeir sem vinna með þeim að þessu eru ekki í nokkrum vafa að þeir ætli sér að láta verða af þessu. Ekkert í þeirra sögu sem eigendur Liverpool eða Boston Red Sox gefur annað til kynna en að okkur sé núna óhætt að trúa því að innan nokkura ára komist mun fleiri á Anfield Road.

Scouser-ar eru líklega sá þjóðflokkur sem ég hef komist í tæri við sem hefur hvað minnsta þolinmæði fyrir bullshiti. Hicks og Gillett geta kvittað upp á það ásamt Roy Hodgson og Christian Purslow. Ég er samt ekkert bara að tala um fótbolta, íbúar Liverpool borgar láta hvern sem er heyra það þegar það á við. No Nonsense.

Því var áhugavert að heyra skoðun íbúanna í kringum Anfield við þessum áætlunum, FSG leggur mikið upp úr að gera þetta í eins mikilli sátt við þá og hægt er . ECHO tók viðtal við nokkra og virkuðu þeir allir mjög spenntir fyrir þessu.

Þetta eru líklega stærri fréttir en margir gera sér grein fyrir og vonandi upphafið á enda mjög langrar sögu.

Meistaradeildin

Ég hef sagt það áður og segi það enn, þessi bölvaða titilbarátta er búinn að taka af manni alla gleðina við það að Liverpool sé loksins loksins komið aftur í Meistaradeildina.

Ég setti inn spá um stigasöfnun fyrir tímabilið sem ég hef uppfært jafnt og þétt. Þar spáði ég því að Liverpool næði 70 stigum og var að vonast til að það myndi duga til að ná inn í meistaradeildina. Eins setti ég þessa færslu í favorites og hefur heimsótt reglulega í vetur. Stórkostlegt að gaurinn getur bara hætt að uppfæra þetta, enda nú þegar búið tryggja a.m.k. þriðja sætið. Raunar svo hressilega að þriðja sætið úr þessu yrðu gífurleg vonbrigði.

SSteinn átti upphitun fyrir síðasta leik Liverpool í Meistaradeildinni, gegn Fiorentina þann 9.des 2009, sá var þýðingarlaus meö öllu enda Liverpool þá þegar búið að klúðra riðlinum sem fyrirfram var alls ekki svo óviðráðanlegur. Lyon og Fiorentina voru búin að tryggja sig áfram á meðan stórlið Debrecen þurfti að sætta sig við 4. sætið eftir harðan slag við Liverpool.

Svona hóf SSteinn færsluna:

Mikið skelfilegt að að segja það, en því miður, þetta er síðasta upphitunin fyrir Meistaradeildarleik á þessu tímabili. Mér er illt í maganum, fyrst og fremst vegna þess að ég ELSKA Meistaradeildarkvöldin, það er alltaf einhver sjarmi yfir Liverpool og þessum kvöldum. Reyndar er ég handviss um það að við eigum eftir að búa til eftirminnileg Evrópudeildarkvöld líka, en það verður bara ekki eins. Það er ekki eins að mæta liðum frá Fjarskanistan eins og að fá Real Madrid á Anfield eins og á síðustu leiktíð. Fjandinn hafi það bara, þetta er alveg bara grautfúlt.

Fyrir tímabilið spáðum við á kop.is Liverpool titlinum enda frábært tímabil að baki þar á undan. Byrjun tímabilsins 2009 var því með stærri kjaftshöggum sem við höfum fengið og staðan var samt miklu verri utan vallar hjá félaginu en innan vallar. Enginn okkar held ég að hafi hugsað út í að biðin yrði svona ofboðslega löng, þó með tímanum hafi maður farið að hafa verulegar áhyggjur af því hvenær við kæmumst aftur þarna á meðal þeirra bestu. Við vitum það núna að það er alls ekkert grín fyrir félag sem er í basli fjárhagslega að komast aftur í meistaradeildina. Eins er alveg sama hvernig spurt er, Roy Hodgson er aldrei svarið.

Umferðina á undan átti Liverpool leik gegn Debrecen, sigur þar og hagstæð úrslit á Ítalíu gæfu von fyrir lokafumferðina, eitthvað sem gekk ekki eftir eins og allt annað þetta tímabil.

Debrecen fannst mér skemmtilega óspennandi mótherji og nýtti upphitun í að skoða borgina aðeins nánar, liðið þekkti ég auðvitað ekki staf. Ég held að þetta hafi verið mín fyrsta eiginlega Evrópu upphitun gegn liði frá Fjarskanistan, guð minn góður hvað ég bjóst ekki við því að andstæðingarnir frá þessu útnárum ættu eftir að verða svona margir.

Debrecen er næststærsta borgin í Ungverjalandi á eftir Búdapest. Það sem meira er þá er Debrecen höfuðborgin í Hajdú-Bihar sýslu, en án þess að ég hafi mikið fyrir mér í því þá tel ég nokkuð víst að SSteinn sé verulega ættaður úr sýslu sem heitir Hajdú-Bihar. Þess má svo til gamans geta að Transilvanía, þar sem Kristján Atli er fæddur og uppalinn er þarna rétt hjá. Borgin er eins og áður segir 220km frá Búdapest sem mér finnst nú slatti miðað við að leikurinn á að fara þar fram.

Spaugstofan, eat your heart out.


Toppbaráttan á auðvitað hug minn allann núna, en svona þegar maður staldrar aðeins við þá er ekki hægt að segja annað en DJÖFULL ER GOTT AÐ VERA KOMINN AFTUR Í MEISTARADEILDINA. Það sem maður hefur saknað þessara þriðjudags og miðvikudagskvölda og guð hjálpi mér hvað þessi keppni hefur saknað Liverpool.

Ofan nýjan völl og meistaradeild á næsta tímabili er Liverpool þegar þetta er skrifað á toppnum í Ensku Úrvalsdeildinni, 23 apríl. Ég veit ekki með þig en allt þetta er örlítið fram úr mínum væntingum. Hef ég þó haft yfirvegaða trú á FSG hingað til.

Þetta er tekið úr líklega rólegustu sætunum á Anfield.


Endum þetta samt á twitter færslu ársins í fyrra. Núna er ljóst að síðasta óskin var ekki að Moyes færi til United, það var bara bónus. Ekki heldur að Liverpool kæmist í meistaradeildina á ný. Það er bara eitt sem toppar hinar tvær óskirnar og það er bara eitt sem allir stuðningsmenn Liverpool myndu byrja á að óska sér með svona lampa, vonandi verður þessi twitter færsla fullkomnuð á næstu vikum

Vangaveltur um varnarleik og breytingar milli tímabila.

Sigur á Swansea og Liverpool nær mesta stigafjölda sem félagið hefur náð eftir 27 umferðir frá því Úrvalsdeildin var stofnuð. Þetta kom ég inná í síðustu viku og eins gerði ég sér færslu eftir 27 umferðir á síðasta tímabili.

Þetta er ekki bara bæting frá síðasta tímabili um heil 17 stig heldur líka bæting á tímabilinu 2008/09 þegar liðið var með 55 stig eftir 27 umferðir og endaði með 86 stig. Besta sem félagið hefur náð í Úrvalsdeild.

Það sem mig langar að skoða aðeins betur er hversu fáránlegt það er að þetta sé raunin á þessu tímabili. Það að Liverpool sé 4 stigum frá toppsætinu núna er svipað fáránlegt og að láta sér dreyma um sigur í Meistaradeildinni tímabilið 2004/05 (Hello, hello).

Eftir síðasta tímabil var ljóst að Liverpool var mjög langt á eftir liðunum fyrir ofan sig í deildinni og við þurftum stórt sumar til að brúa þetta bil.

Inn komu: Toure, Alberto, Aspas, Mignolet, Cissokho, Ilori, Sakho, Moses
Út fóru: Shelvey, Suso, Reina, Spearing, Downing, Assaidi, Borini og Carragher

Þetta er ekki nokkur bæting á pappír og skýrir alls ekki muninn á þessu tímabili og því síðasta. Kolo Toure er búinn að spila 16 af 27 deildarleikjum í byrjunarliði og hann er engu skárri en Carragher var í fyrra, líklega nokkuð langt í frá. Sakho er búinn að byrja 12 af 27 leikjum og Aly Cissokho er búinn að spila 11 af 27 deildarleikjum. Enrique er búinn að spila heila 6 deildarleiki og eins og ég sýni fram á hér neðar þá hafa sjö mismunandi leikmenn hafið leik í stöðu vinstri bakvarðar á þessu tímabili, sex mismunandi leikmenn hafa spilað í hægri bakverði eða væng bakverði. Mignolet kom í staðin fyrir Reina og telst varla mikil breyting heilt yfir.

Þessi færsla er í grunninn um breytingar á varnarlínunni milli leikja en til að klára síðasta sumar þá tókst ekki að landa neinum af helstu skotmörkum sumarsins, Mkhitaryan, Costa eða Willian sem hafa allir verið mjög öflugir hjá sínum liðum. Moses er mun verri en Downing var í fyrra, Aspas er engu betri en Borini, Alberto mun verri en bæði Suso og Shelvey.

Aðrir eins og Assaidi, Ilori og Spearing skipta ekki máli í samanburði milli tímabila.

Sex lið enduðu tímabilið fyrir ofan Liverpool og markmið sumarsins var því að reyna brúa það stóra bil og helst þá með því að gera betur en þau á leikmannamarkaðnum.

Deildin í fyrra

Þessi lið voru ekki beint samvinnuþýð og svona var sumarið hjá þeim (Smellið á liðin til að sjá leikmannaviðskipti á þessu tímabili):

Everton – 2 stigum fyrir ofan Liverpool. Skiptu um stjóra, fengu betri mann inn.

Fellaini var frábær hjá þeim og Anichebe drjúgur en Lukaku rúllar Anichebe upp á meðan Barry og McCarthy hafa verið mun sterkari en Fellaini. Ofan á það styrkja þeir hópinn með hinum stórefnilega Delofeu, Wigan strákunum og núna í janúar tveimur leikmönnum til viðbótar. Mun sterkara lið á pappír sem reyndar er að standa sig vel.

Samt er Everton 11 stigum frá okkur núna.

Tottenham – 11 stigum fyrir ofan Liverpool. Þeir misstu vissulega sinn langbesta leikmann og losuðu sig ofan á það við marga squad leikmann á háum launum sem eru að gera ágæta hluti í EPL.

Fyrir þá komu leikmenn fyrir 100m sem allir voru eftirsóttir og spennandi. Á pappír ættu Spurs að vera sterkari en í fyrra með þessa inn Paulinho, Chadli, Soldado, Capoue, Chiriches, Lamela, Eriksen. Af þessum sem fóru var Bale sá eini í risahlutverki, aðrir spiluðu lítið en voru á góðum launum. Fyrir er Spurs með gott lið og Adebayor er nánast nýtt signing hjá þeim núna.

Þeir hafa núna skipt um stjóra og eru ennþá okkar helsta ógn en þó 6 stigum á eftir Liverpool.

Arsenal – 12 stigum á undan Liverpool í fyrra. Fyrir það fyrsta héldu Arsenal öllum þeim leikmönnum sem þeir vildu halda og bættu við Özil á 42m og Flamini í stöðu sem þeim hefur vantað mann síðan hann fór frá Arsenal.

Þeir hafa líka alveg haldið dampi í vetur en eru nú bara þremur stigum á undan Liverpool.

Chelsea – 14 stigum á undan Liverpool. Þetta er auðvitað hálfgert svindllið og ekki hægt að keppa við þá á leikmannamarkaðnum. Þeir hafa verslað mikið af leikmönnum undanfarin ár og eru með afar sterkan hóp sem þeir bættu bara enn frekar í sumar. Þeir skiptu um stjóra sem ég fagna mikið en það fá fáir meiri pening til að styrkja sín lið en Motormouth.

Þennan hóp þurfti lítið að styrkja og bæði í sumar og janúar hafa þeir keypt leikmann sem var sterklega orðaður við Liverpool og rétt rúmlega það. Fyrst Willian og svo núna Salah. Eins var Atsu sterklega orðaður við okkur líka en fór til Chelsea og hefur ekki frést af honum síðan. Þeir bættu þremur mönnum við hópinn hjá sér í janúar líka.

Hópur Chelsea er svo stór að ekki er hægt að hafa þá alla og því eru þeir með 1-2 sterk byrjunarlið úti á láni líka. Þeir hafa ekki látið neinn fara sem þeir sakna nema þá líklega Lukaku sem er á láni hjá Everton. Mata var ekki í náðinni hjá Motormouth.

Chelsea er núna 4 stigum á undan Liverpool. Magnað ef skoðað er hvernig þessi lið hafa nýtt leikmannamarkaðinn á þessu tímabili.

Man City – 17 stigum á undan Liverpool. Þetta er hitt svindlliðið og að mínu mati skiptu þeir inn mun betri stjóra en var hjá þeim áður. Hópur City var fyrir alveg fáránlega sterkur og þeir bættu við hann Navas, Negredo, Fernandinho og Jovetic. Allir hafa verið mjög góðir það sem af er þó Jovetic sé bara ný stigin upp úr meiðslum.

Út fór enginn sem veikti hjá þeim byrjunarliðið og varla hópinn heldur. Samt eru þeir bara stigi á undan Liverpool núna en eiga reyndar leik til góða.

Ég óttast að á endanum bíti munurinn á hópum þessara liða okkur í rassinn en það að vera ennþá með í samtalinu í febrúar er gott afrek eftir sl. sumar.

Man United – 28 stigum á undan Liverpool. Meistararnir eru svo skemmtilegasta dæmið. Enn eitt liðið sem skipti um stjóra og sú breyting hefur farið betur en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Enn sem komið er a.m.k.

Ekki geta þeir bent á leikmannagluggann sem afsökun enda þótt þeir hafi verið skemmtilega klaufskir þar þá fengu þeir inn miðjumann á tæplega 30m og misstu engann úr leikmannahópi sem vann deildina af öryggi í maí sl. Þeir bættu svo ennþá dýrari miðjumanni við í janúar og tóku upp úr akademíunni eitt mesta efnið í fótboltanum í dag. Eini sem fór frá þeim sem einhver alvöru söknuður er af er svo Bebe.

Samt er Liverpool núna með 11 stiga forystu á United.


Endalaust rót á vörninni

Ekki getum við þakkað stöðugleika þetta bætta gengi okkar því nánast allir leikmenn liðsins hafa á einhverjum tímapunkti dottið í meiðsli eða leikbönn, flestir í nokkrar vikur í senn. Mest hefur rótið verið á vörninni og þar eru líka flest öll okkar vandamál.

Auðvitað er það þannig í fótbolta að allir leikmenn liðsins bera ábyrgð á varnarleiknum og það hvernig Liverpool leggur leiki upp á þessu tímabili er alltaf að fara skapa vandræði í varnarleiknum. Það er einfaldlega fórnarkostnaður sem stjóri Liverpool er tilbúinn að taka og gerir ítrekað. Hann hefur eftir síðasta leik talað um að vilja mun frekar klára leiki með style og/eða reyna við öll þrjú stigin heldur en að pakka í vörn og merja leiki með herkjum. Eins hefur hann talað um að einhverjir þeirra varnarmanna sem hann fékk í arf þegar hann tók við sé ekki hægt að þjálfa í hans hugmyndafræði og það er augljóslega farið að fara aðeins í taugarnar á honum.

Agger, Skrtel og Toure eru ekki á góðum aldri hvað leikmenn hjá Liverpool í dag varðar og verða aldrei allir þrír ennþá hjá okkur á næsta tímabili. Leikmenn sem eru komnir á aldur og eru á góðum launum verða að skila betur af sér inni á vellinum til að réttlæta veru sína hjá FSG sem er vægðarlaust hvað þetta varðar. Johnson er líka mjög tæpur og staða Enrique getur ekki talist örugg. Nánast öll vörnin og allir (utan Skrtel og Toure) eiga þeir það sameiginlegt að vera allt of mikið frá svo hægt sé að stóla á þá.

Ef Liverpool heldur áfram á þeirri braut sem þeir eru á núna endar liðið á því að skora meira en það hefur áður gert í Úrvalsdeild áður en afreka þá líka á sama tíma að leka inn fleiri mörkum en liðið hefur áður gert. Hversu dæmigert er það fyrir okkar ástkæra félag? Aldrei eðlilegir, aldrei leiðinlegir.

Það er því að sjálfsögðu alls ekki hægt að kenna varnarmönnum liðsins einum um og miðjan hefur oft á tíðum verið ansi fámenn og hjálplítil varnarlega. Engu að síður er það rót sem verið hefur á varnarleiknum klárlega helsta ástæðan fyrir því hvað liðið lekur inn af mörkum. Þetta er eitthvað sem Rodgers þarf að laga og það strax og vonandi næst það með minna leikjaálagi og smá heppni.

Mjög mörg þeirra marka sem Liverpool hefur fengið á sig í vetur er vegna afar klaufalegra varnarmistaka sem skrifast einfaldlega bara á varnarmennina, ekki skyndisóknir sem eru tilkomnar vegna þess að allir aðrir voru í sókn. Hef ekki tölur yfir þetta en mig grunar að svona mistök hafi kostað fleir mörk en stórsókn okkar manna.

Ég tók saman út frá leikskýrslum hér á kop.is byrjunarliðið í hverjum leik það sem af er þessu tímabili, þ.e. hvernig varnarlínan hefur verið.

Breytingar á vörn 27 umferðir
*Mögulega eru einhverjar smávægilegar villur í þessu og þetta tekur ekki á skiptingum í miðjum leik.

Liverpool hefur spilað 32 leiki í öllum keppnum og í 23 skipti hefur varnarlínunni verið breytt milli leikja. Ein breyting eða fleiri.

Liðið hefur spilað 27 deildarleiki og í 18 skipti hefur vörninni verið rótað milli leikja.

Sex mismunandi leikmenn hafa hafið leik í hægri bakverði eða sem væng bakverðir í deildarleikjum og sjö ef við teljum bikarleiki með, Kelly bætist þá við hópinn.

Sjö leikmenn hafa hafið leik í vinstri bakverði eða í væng bakverði.

Ef maður skoðar þetta svona er ekki hægt að segja að vandræði varnarinnar komi beint á óvart.

Fyrir mót hefði maður talið okkar bestu varnarlínu vera Johnson – Agger – Sakho – Enrique. Þeir hafa afrekað svona marga leiki í byrjunarliði og aldrei allir í einu:

Leikir

Fyrir mót vorum við búin að afskrifa Skrtel með öllu og raunar hefur hann gert ansi mörg varnarmistök. Hann hefur þó verið eini kletturinn í vörninni á þessu tímabili og bjargað því sem bjargað verður. Cissokho var hálfgert grín en er að koma ágætlega til. Kolo Toure byrjaði vel en hefur á köflum ekki verið í Championship klassa og fyrir mót var ekki nokkur einasti maður að svo mikið sem tala um Flanagan, hann er núna búinn að spila 12 deildarleiki og það í bæði hægri og vinstri bakverði.

Wisdom var sendur á láni, Ilori fékk ekki leik og Kelly hefur svo gott sem ekkert spilað.

Úr þessu hefur Rodgers náð að moða hingað til, ekki beint með glæsibrag varnarlega en það er nokkuð keppnis að bregðast við vandræðum í vörninni með því að skora bara meira en andstæðingurinn.

Liverpool er einu marki frá því að vera búið að skora jafn mörg mörk núna og það gerði allt tímabilið í fyrra, með nákvæmlega sömu leikmenn (Sturridge og Coutinho þó bara hálft tímabil í fyrra).

Bætingin á Suarez er ótrúleg og hann á Rodgers mjög margt að þakka, hvað þá eftir endirinn á síðasta tímabili og sápuóperu sumarsins. Hans saga er síðan heldur betur búinn að drepa þá klisju að það sé aldrei gott að halda leikmönnum gegn þeirra vilja. Það er að ganga fínt hjá okuur þakka þér fyrir.

Bætingin á Sturridge er engu minni, hann væri ennþá varamaður hjá Chelsea og líklega farinn á láni hefði Rodgers ekki kippt honum yfir og bjargað ferli hans. Rifjum aðeins til gamans upp álit margra þegar Liverpool keypti hann á 12m. Á sama tíma og Chelsea keypti sjóðandi heitan Demba Ba á 7m. Hvor er hlæjandi núna?

Coutinho var varamaður hjá Inter í fyrra og það lið var ekki að gera merkilega hluti. Sterling vorum við búnir að afskrifa nánast bara í október og hlógum að „good game son“ línunni í ferðinni okkar frægu þegar við hittum kappann eftir leik. Eitthvað held ég að hann hafi fengið að heyra þessa setningu oft undanfarið.

Henderson er síðan að stórbæta sig með hverjum leik á meðan Gerrard er að læra nýtt hlutverk 33 ára gamall og ennþá að skapa fullt af færum og mörkum.

Þetta eru sömu leikmenn og við vorum með í fyrra og ef eitthvað er þá hefur sóknarógnin frá varnarmönnunum minnkað og það all verulega.


Toppbaráttan eða baráttan um 4. sæti

Ef við viljum skoða toppbaráttuna út frá þessu tímabili hingað til þá er þetta það sem þarf til að ná 85 stigum (sem gæti vel dugað).

Þetta er hinsvegar það sem þarf til að tryggja 4.sætið (eða ætti að gera það)

Ef síðasta tímabil er eitthvað til að fara eftir þá er hér samanburður á Liverpool nú og liðunum sem voru að keppa um 4. sæti á síðasta tímabili.

Hér er síðan hægt að sjá myndrænt hvernig þetta er okkar besti árangur eftir 27 umferðir síðan úrvalsdeildin var stofnuð


Hér er síðan að lokum árangur Rodgers í sögulegu samhengi. Hugsið ykkur ef hann/FSG nær að versla inn meistaradeildarklassa leikmenn? Hvað getur hann gert þá? Þar fyrir utan ættu flestir af núverandi hóp að vera nokkuð frá hátindi síns ferils.

Ennþá er allt of snemmt að fagna nokkrum sköpuðum hlut, fjórða sætið er ennþá fyrsta takmark og því hefur ekki ennþá verið náð. Engu að síður eru FSG og Rodgers svoleiðis að hala inn bónusstigum þessa dagana að ekki er annað hægt en að virða það. Þetta er fram úr mínum vænginum enn sem komið er, svo mikið er víst.

Það er ekki fyrir taugaveiklaða að halda með Liverpool og hefur aldrei verið. Þetta tímabil er eitt það klikkaðasta af þeim öllum og útilokað að spá fyrir um nokkurn hlut.

Ef við tökum ekki titlatímabil með þá hefur líklega aldrei verið skemmtilegra að horfa á leiki liðsis. Hvað þá að vera á þeim.