Flokkaskipt greinasafn: Meistaradeildin

Upphitun: Watford / CL dráttur: Man City

Uppfært (EMK):
UEFA fékk Shevchenko til að draga í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og hann dró að sjálfsögðu það einvígi sem stuðningsmenn City og Liverpool vildu líklega hvað síst. Hundleiðinlegt að ensku liðin hafi dregist saman á þessu stigi

Svona raðast þetta:
Liverpool – Manchester City
Juventus – Real Madrid
Barcelona – Roma
Sevilla – Bayern Munchen

Ekki að þetta verði ekki hörku leikir, Liverpool er eina liðið sem hefur unnið Man City í deildinni í vetur en það er ljóst að okkar menn þurfa að eiga toppleik til að endurtaka leikinn. Hjálpar ekki að seinni leikurinn er á útivelli.

Til gamans má geta þess að 1% lesenda Kop.is vildu þetta einvígi:

Kunni betur við Shevchenko þegar hann var að láta Dudek verja frá sér vítaspyrnu!


Íslendingasagan

Fyrir gráglettni örlaganna fellur upphitun fyrir Watford aftur mér í skaut en ég gerði fyrri leik liðanna skil í upphafsleik leiktíðarinnar. Sú upphitun dugði þó eingöngu til góðs sóknarleiks Liverpool en lakari varnarframmistöðu í 3-3 jafntefli og því dugar ekkert annað en betrumbætur í annarri tilraun. Þar sem sagnfræði milli Watford og Liverpool var sæmilega afgreidd í það skiptið þá er vel við hæfi að fjalla lítillega um Íslands-sagnfræði hinna gulrauðu í staðinn.

Af mörgu er að taka en langefstur á blaði í því ættartré er Dalvíkingurinn Heiðar Helguson sem spilaði 228 leiki fyrir Watford og skoraði í þeim 76 mörk. Herra Helguson þarf enga kynningu en sá sem rífur kröftugan kjaft við Kahn er með sönnu karl í krapinu og enginn snáði í snjónunum. Árið 1999 var hann keyptur á 1,5 milljón punda til Lundúna-liðsins frá Lilleström og var þá dýrasti leikmaður í sögu liðsins en það áttu eftir að reynast kjarakaup. Með réttu er hetjan Heiðar í hávegum hafður þar á bæ og nýlega deildi Watford þessari mögnuðu markasyrpu af bestu bombum bardaga-blondínunnar en eitt markanna er gegn LFC árið 2000 í 2-3 sigri grænklæddra Liverpool-manna á Vicarage Road.

Suðurnesjakappinn Jóhann Birnir Guðmundsson spilaði einnig með liðinu í tvö ár og afrekaði 2 mörk í 22 leikjum en hápunktur í veru hans hjá Watford kom máske á Laugardalsvelli þegar hann skoraði 2 mörk í 2-3 sigri gestanna á stórveldi Knattspyrnufélags Reykjavíkur í 100 ára afmælisleik svart-hvítu hetjanna. Meistari Sigursteinn Gíslason og Bjarki Gunnlaugsson skoruðu mörk heimamanna en KR voru gríðarlega vel mannaðir þetta árið með goðsagnirnar Gumma Ben og Þormóð Egilsson í liðinu sem varð svo Íslandsmeistari um haustið eftir 31 ára eyðumerkurgöngu. Því ber að leggjast á bæn og fara með Fowler-vorið um að bið okkar Púlara verði skammvinnari en Evrópuvina þeirra í Vesturbænum. Þá ber einnig að nefna að af sama 100 ára afmælistilefni var haldin epísk Elton John helgi á Rauða Ljóninu þar sem Maggi Kjartans og Ruth Reginalds héldu uppi fjörinu langt fram á nótt. Ó hvað glöð var vor aldraða æska á síðustu öld.

Talandi um æfingaleiki Watford hér á landi þá brá svo við að í janúar 1987 gerði vetur konungur vart við sig á Bretlandseyjum og þar sem enskurinn er frægur fyrir uppgjöf sína gagnvart smá slyddu og slabbi þá var fjölda leikja aflýst víða um breska grund. Haldið var norður til Íslands í margrómaða miðsvetrarblíðuna hér á landi og spilaður æfingaleikur á gervigrasinu í Laugardal gegn úrvalsliði úrKR, Fram og Val.

Áhugamennirnir íslensku í minniháttar leikæfingu náðu virðingarverðu 1-1 jafntefli gegn Watford með enska landsliðsmanninn Luther Blissett framlínunni en John Barnes var því miður hvíldur og hálfu ári síðar var hann seldur til Liverpool sælla minninga. Í úrvalsliðinu öfluga voru Guðni Bergsson og Þorgrímur Þráinsson hafsentar með Willum Þór Þórsson, Andra Marteinsson og Rúnar Kristinsson á miðjunni og Pétur Pétursson í framlínunni  svo einhverjir séu nefndir. Einvalalið einstakra víkinga en nóg um nostalgíuna og aftur í nútíðina.

Mótherjinn

Mikið er um meiðsli í herbúðum gestanna en þó verða Troy Deeney og Richarlison í framlínunni og í þeim felst talsverð ógn fyrir okkar misgóðu varnarlínu. Útivallarform þeirra gulrauðu hefur ekki verið gott og þeir eiga við það lúxusvandamál að vera í 10.sæti með 36 stig fjarri fallhættu þannig að stóra spurningin felst í hugarfarinu komandi inn í leikinn.

Hinn splúnkunýi  spænski þjálfari Watford sem tók við í janúar heitir Javi Gracia Carlos og hefur stýrt liðinu til sigurs og taps í hárfínu jafnvægi eða þrjú skipti hvort um sig. Við hverju má búast frá gestunum er því vandsvarað þar sem Arsenal fór létt með Watford í forleiknum á undan og ef okkar menn skora snemma leiks þá gæti eftirleikurinn verið auðveldur (7,9,13).

Liverpool

Rauði herinn mætir með sært stolt eftir síðustu helgi og þó að Þórðargleði í miðri viku hafi kætt stuðningsmenn þá breytir það litlu fyrir leikmennina sem þurfa að gíra sig aftur í gang og á sigurbraut. Eftir þennan leik verður langdregið landsleikjahlé og því þarf Klopp ekki að stunda neinar taktískar sparnaðaraðgerðir með næstu leiki í huga. Sterkasta liði verður stillt upp en þó geri ég ráð fyrir nokkrum breytingum í kjölfar misgóðrar frammistöðu sumra leikmanna á Old Trafford.

Mitt hundsvit segir mér að þríeykið í framlínunni verði óbreytt en á miðjunni taki kafteinninn Henderson við stýrinu á freygátunni og Wijnaldum snúi aftur úr pestabælinu. Lovren á skilið bekkjarsetu eftir síðasta leik og Alexander-Arnold líka þannig að mín spá er að Matip og Gomez fái þeirra sæti og jafnvel gæti Moreno fengið smá sprett en Robertson er þó líklegri til að halda byrjunarliðssætinu. Liðsuppstillingin væri því eftirfarandi:

Líklegt byrjunarlið Liverpool í leikkerfinu 4-3-3

Spakra manna spádómur

Það verður grjóthörð ákveðni hjá okkar mönnum að bæta upp fyrir skipbrotið í nágrannasveitarfélaginu þannig að allt kapp verður lagt á að komast aftur á beinu brautina og skora eins mörg mörk og hægt er fyrir landsleikjahlé. Mín bjartsýna spá verður sú að þau áform gangi fullkomlega eftir með vel matreiddri markasúpu að hætti hússins.

Niðurstaðan verður 4-0 sigur með mörkum frá Salah, Mané, van Dijk og Henderson úr víti en þó verður Firmino maður leiksins með 3 stoðsendingar. Bon appetit.

YNWA

Hvaða lið viljum við í næstu umferð?

Nú liggur fyrir hvaða lið verða í pottinum á föstudaginn þegar dregið veruð í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og með því að renna yfir þann lista er ljóst að Liverpool er komið aftur á meðal þeirra bestu. Við höfum ekki mikið annað að gera fram að drættinum en að velta því fyrir okkur hvaða lið viljum helst fá og afhverju.

Byrjum á könnun:

Hvaða lið viltu að Liverpool mæti í 8-liða úrslitum?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

Continue reading

FC Porto 0-5 Liverpool

Það var norður-enskt slagveður í Porto í kvöld og fótbolti spilaður í kunnuglegum rigningarsudda. Liverpool veðraði storminn og tók meistaraslaginn í gini drekans á  Estádio do Dragão.

Mörkin

0-1   Sadio Mané 25.mín
0-2   Mohamed Salah 29.mín
0-3   Sadio Mané 53.mín
0-4   Roberto Firmino 69.mín
0-5   Sadio Mané 85.mín

Leikurinn

Leikurinn byrjaði rólega sem hentaði Liverpool ágætlega enda á erfiðum útivelli á Estádio do Dragão. Porto fengu fyrsta færi leiksins þegar að óákveðinn varnarleikur Liverpool hleypti Otavio í skotfæri sem Lovren gerði vel í að komast fyrir og boltinn fór yfir markið. Fátt markvert gerðist næsta korterið með nokkrum hálffærum og leikurinn var í þægilegu jafnvægi.

Á 25.mínútu kastaði markvörður Porto boltanum fram á völlinn og sú sending var étinn upp af hungruðum Lovren á miðjunni og Wijnaldum göslaðist áfram í kröftugu hlaupi sem endaði með sendingu á Mané í skotfæri. Senegalinn lét vaða með æfingabolta á José Sá í markinu sem sá ekki til sólar og missti skotið undir handarkrikann. 0-1 Liverpool og komnir með gullmark á útivelli.

Einungis fjórum mínútum síðar átti James Milner flottan sprett og hann lauk honum með fallegu innanfótarskoti sem small í stönginni hjá Porto. Frákastið féll til Salah sem tók enn eitt egypska-Messi-mómentið með því að halda boltanum á lofti með rist og kolli áður en hann slúttaði í opið markið.  Þetta róaði taugar okkar manna sem höfðu þó verið vel stemmdir það sem af var leik. Fyrri hálfleikur fjaraði þægilega út og það var frekar að Liverpool myndi bæta við heldur en að fá á sig mark miðað við gang leiksins.

0-2 fyrir Liverpool

Porto hefði þurft að gera alvöru áhlaup strax í upphafi seinni hálfleiks en það virtist sem að staða leiksins og varnarveggur Liverpool soguðu alla mótstöðu úr þeim. Góð staða varð frábær á 53.mínútu þegar að Salah geystist upp í skyndisókn og lagði upp færi fyrir Firmino. Skotið var varið frá þeim brasilíska en boltinn féll þægilega fyrir Mané sem kláraði færið auðveldlega í netið. Einvígið við það að verða búið en samt var nóg eftir í þessum leik.

Liverpool gáfu engin grið og héldu áfram vinnusamri pressu og stálvilja til að gjörsamlega dauðrota drekann á hans heimavelli. Önnur skyndisókn á 69.mínútu gaf Milner hafsjó af plássi á vinstri vængnum og sá enski lagði boltann snyrtilega út í teiginn á Firmino sem slúttaði frábærlega í gegnum varnarklof og í netið.

Gjörsigraður leikur og Klopp nýtti tækifærið til að hvíla menn með þremur innáskiptingum og gaf Danny Ings sinn fyrsta Meistaradeildaleik á ferlinum. Ings launaði greiðann með stoðsendingu á Mané sem tók við boltanum fyrir utan teig, keyrði upp í átt að vítateignum og hamraði boltann í netið til að fullkomna sína þrennu á mögnuðu kvöldið Porto. Kop.is-liðar á vellinum eru eflaust ennþá að fagna á vellinum í þessum töluðu orðum enda ekki á hverjum degi sem Liverpool vinnur 0-5 útisigur gegn öflugu evrópsku liði í Meistaradeildinni.

Bestu menn Liverpool

Vörnin og markvarslan var svo gott sem fullkomin með mjög örugga frammistöðu þar sem allir leikmenn leystu fagmannlega allar tilraunir Porto til markskorunar. Wijnaldum og Milner voru kröftugir á miðjunni og báðir með stoðsendingar, en fyrirliðinn Henderson var engu síðri í sínum leik í djúpri miðjustöðu. Salah og Firmino voru mjög flottir með sín mörk og frábærir í skyndisóknum og alltaf hættulegir með sinni sköpun. En auðvitað er enginn annar en þrennu-hetjan Sadio Mané maður leiksins í kvöld. Fremstur meðal jafningja með sín mörk í frábærri liðsframmistöðu.

Vondur dagur

Augljóslega átti enginn hjá Liverpool vondan dag á kvöldi sem þessu, en það er helst að morgundagurinn verði í þynnra lagi fyrir Kopverja og íslenska Púlara í Porto-borg sem munu vafalítið fagna fræknum fimm-marka sigri langt fram á nótt. Endurminningarnar munu þó ylja þeim snögglega um hjartarætur og auðvelda lífið í fyrramálið.

Tölfræðin

Karius hélt hreinu í 8. skipti í 16 leikjum á þessum vetri og er með ansi vígalegt vinningshlutfall. Hann er að vaxa hratt í sínu hlutverki og megi það það halda áfram sem lengst þannig að fáum þann toppmarkmann sem okkur dreymir um að hafa í rammanum.

Umræðan

Púlarar verða í sjöunda himni með stöðu mála og munu núna taka sér 10 daga leikhlé vegna ónefndra bikarkeppni sem engu máli skiptir. Við erum komnir áfram í CL og erum ósigraðir í appelsínugula yfirstrikunar-varabúningnum (7-9-13). Einnig er sú sögulega staðreynd á sveimi að síðustu skiptin sem Liverpool vann útisigra í Portúgal að þá urðu þeir Evrópumeistarar árin 1978 og 1984 (aftur 7-9-13).

Eins og meistari Sigkarli myndi orða það: Það er nú þannig!

YNWA

Byrjunarliðið gegn Porto í CL

Þá er komið að því! Rauðliðar eru mættir til púrtvínsborgarinnar Porto til að etja kappi við FC Porto í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Eftirvæntingin er massíf og til mikils að vinna.

Lið Liverpool hefur verið kunngert og er eftirfarandi:

Bekkurinn: Mignolet, Gomez, Moreno, Lallana, Oxlade-Chamberlain, Ings, Matip.

Breytingar frá síðasta leik gegn Southampton er að Matip og Oxlade-Chamberlain fara á bekkinn og Emre Can er í banni. Fyrirliðinn Henderson er mættur í hjarta miðjunnar ásamt samlanda sínum Milner og Lovren fær tækifæri við hlið Virgils van Dijk.

Miðverðir Liverpool voru með framherja Porto í gjörgæslu!

 

Íslenskir Kopverjar eru með öfluga stuðningsmannasveit á suðrænum slóðum sem munu gefa líkama og sál í að styðja Rauða herinn á erfiðum útivelli. Fylgist því vel með á Twitter undir #kopis þar sem Kop.is-meistararnir verða duglegir við að gefa okkur innsýn í útivallarstemmningu með harðkjarna Púlurum.

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Porto

Það eru níu löng ár síðan Liverpool kjöldró Real Madríd í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, síðan þá hafa okkar menn ekki komist á þetta stig keppninnar og því óhætt að segja að tilhlökkunin sé töluverð og ekki skemmir að andstæðingurinn er áhugaverður og frá borg sem var valin ágangastaður Evrópu árið 2017.

Portúgal dregur nafn sitt frá Porto, upphaflega hét borgin Portus Cale sem var sambland af Keltnestu og Latnesku en fyrstu heimildir fyrir byggð í Porto eru Keltneskar. Á Portúgölsku er nafn borgarinnar sagt með ákveðnum greini „o Porto“ sem olli misskilningi þegar nafn borgarinnar var þýtt yfir á ensku og er oft vísað í Oporto bæði í bókmentum og töluðu máli.

Porto hefur tvö viðurnefni, annað er höfuðborg norðursins en þessi næst stærsta borg Portúgal telur 2,4 milljón íbúa. Hitt viðurnefnið fyrir borgina er borgin ósigrandi (Cidade Invicta). Knattspyrnulið borgarinnar er nú ekki ástæða þessa viðurnefnis en það væri þó ekki svo fjarri lagi. Það er íbúum Porto í blóð borið að verja sitt heimasvæði og þeir hafa gert það vel hingað til. FC Porto hefur sannarlega staðið undir því viðurnefni, þangað fara ekki mörg lið og koma með eitthvað til baka.
Continue reading