Flokkaskipt greinasafn: Meistaradeildin

Uppfært: Hoffenheim framundan í CL / Lallana meiddur

Þá er komið í ljós hver mótherjinn verður í umspili fyrir Meistaradeildina.

Það er ekki einfalt verkefni að þessu sinni, þýska liðið Hoffenheim verður fyrirstaðan í því að við komumst inn í riðlakeppnina.

Við hefjum leik í Þýskalandi 15. eða 16.ágúst og síðari leikurinn er á Anfield viku síðar.

Það er bara ekkert sem heitir…við verðum að klára þetta dæmi!


Uppfært: Adam Lallana meiddur
Opinber heimasíða félagsins var að staðfesta það rétt í þessu að Adam Lallana verður meiddur í 2-3 mánuði vegna meiðsla sem hann hlaut eftir síðasta leik. Enganvegin fréttir sem Liverpool mátti við og pressan er ekkert minni núna á félaginu að bæta við nýjum leikmönnum. Þessi neglir þetta vel:

„Meistara“-deildin

8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar lauk í gær. Í kjölfarið æsti ég mig aðeins á Twitter. Best að leyfa tístunum bara að segja söguna:

Svo mörg voru þau orð. Ég stend við hvert einasta tíst!

Í kjölfarið sköpuðust líflegar umræður um málið. Besta mótsvarið sem ég sá við gagnrýni minni var þetta tíst:

Þetta er góður punktur, EN … sex af síðustu sjö árum hafa fimm stærstu klúbbarnir skipt þessu á milli sín. Á síðasta áratug gat maður séð lið eins og Porto, Liverpool og Milan (2x) vinna án þess að vera moldríkir klúbbar. Internazionale vann 2010 en þeir gerðu það með metsölu á Zlatan sem fjármagnaði einstakt kaupæði á leikmönnum í sögu þess risaklúbbs. Þýðing: þeir gátu ekki unnið CL það árið nema að eyða once-in-a-lifetime upphæðum. Og svo unnu þeir hana aldrei aftur og eru ljósárum frá því núna.

Læt þetta nægja um málefnið. Ég vildi halda þessu til haga í einni færslu. Hvað finnst lesendum Kop.is?

FC Basel – Allt undir á þriðjudaginn

Síðast þegar Liverpool átti svona mikið undir í lokaleik Meistaradeildarinnar var þann 8.desember 2004 nema þá voru okkar menn í ennþá verri stöðu í sínum riðli og urðu að vinna með tveimur mörkum. Basel er það lið sem stendur í vegi fyrir sæti okkar í 16-liða úrslitum núna og mögulega er þetta síðasta Meistaradeildarupphitunin í bili. Borgin þeirra á sér sögu, liðið þeirra á sér sögu og þessi lið eiga sér sögu.

Leikurinn 2002
Líklega fáum við ekki betra tækifæri til að hefna ófara okkar frá árinu 2002 heldur en einmitt núna því að rétt eins og við getum horft til draumatímabilsins 2004/05 þá er alveg eins hægt að horfa til ársins 2002 þegar Liverpool var í mjög svipaðri stöðu gegn einmitt Basel, bara á útivelli. Sá leikur var þannig að ég man ennþá hvar ég horfði á hann og gott ef það bættust ekki 40 ný blótsyrði við tungumálið það kvöld. Basel var ekkert nafn í Evrópskum fótbolta á þeim tíma og dugði þá eins og núna jafntefli gegn Liverpool til að komast áfram í 16-liða úrslit. Okkar menn sem voru klaufar tímabilið á undan að fara ekki alla leið voru í góðri stöðu.

Eftir hálftíma leik var staðan orðin 3-0 fyrir heimamenn og lausn Houllier í hálfleik var að taka afleitan Steven Gerrard af velli fyrir Salif Diao.

Já þú varst að lesa síðustu setningu rétt.

Jamie Carragher var næsta skipting útaf í seinni hálfleik fyrir El Hadji Diouf og það sem meira er þá svínvirkaði þetta, Liverpool náði að koma til baka með látum og Owen jafnaði leikinn 3-3 á 84.mínútu. Ef eitthvað er áttu okkar menn að klára þetta í restina.

Hér má sjá svipmyndir úr þessum leik frá sjónarhóli Hakan Yakin og Gerard Houllier. Gott ef ég er ekki ennþá pirraður yfir þessu.

Liverpool gerði einnig jafntefli á Anfield þetta ár og við töpuðum fyrir þeim á útivelli núna. Steven Gerrard er sá eini sem hefur spilað alla þessa leiki og það sem meira er þá hefur hann aldrei unnið Basel. Heldur betur kominn tími á að breyta þessu hjá okkar manni.
Continue reading

PFC Ludogorets frá Razgrad

Hlustið á þetta og spennið beltin.

Liverpool hefur unnið þessa keppni fimm sinnum og það er við hæfi að vera aftur með á þessu tímabili því að um helgina voru liðin nákvæmlega fimmtíu ár síðan Liverpool spilaði sinn fyrsta leik í Evrópu, gegn KR í Reykjavík. Þegar Liverpool hefur leik á morgun er upp á dag fimm síðan okkar menn byrjuðu riðlakeppnina gegn svipað þekktum mótherjum, Debrecen frá Ungverjalandi.

Kristján Atli fór í gær yfir þraugargöngu Liverpool og fimm árin sem við vorum ekki með í þessari keppni en þrautarganga Liverpool er ekki neitt miðað við andstæðinga okkar annað kvöld. Þeir hafa aldrei komist í Meistaradeildina áður og eru að fara úr límingunum af spenningi og hafa fengið alla þjóðina með sér. Uppgangur þeirra er efni í kvikmynd og náði hápunkti er þeir tryggðu sér sætið með vægast sagt ævintýralegum hætti.
Continue reading

Útlegð

AnfieldCL

Liverpool FC lék síðast leik í Meistaradeild Evrópu þann 9. desember 2009. Það eru næstum því fimm ár síðan. Það kvöld tapaði liðið á heimavelli fyrir Fiorentina og datt þar með út úr Meistaradeildinni, í 3. sæti riðilsins, og inn í Evrópudeildina þar sem liðið fór í undanúrslit á sama tímabili. En þetta kvöld í desember 2009 skrifaði ég leikskýrslu og lauk henni á þessum vongóðu orðum:

„Ég ætla mér allavega að taka mér svona mánaðarfrí frá Evrópupælingum og svo ætla ég að sökkva mér í Evrópudeildina og gleyma því alveg að Meistaradeildin sé til … fram á næsta haust. ;) „

Þetta véfengdi líka enginn sem las færsluna. Við ætluðum okkur langt í Evrópudeildinni áður en við mættum aftur til leiks í Meistaradeildinni haustið 2010.

Svo fór nú aldeilis ekki. Haustið 2010 var Rafa Benítez farinn, þessi gæi hér tekinn við, félagið stóð í eigendaskiptum og lagabaráttu um, hreinlega, framtíð sína, og Meistaradeildin var ekki bara fjarlæg heldur horfin.

Næstu fjögur tímabilin lék Liverpool tvisvar utan Evrópukeppna alfarið og tvisvar í Evrópudeildinni, en fóru stutt í bæði skiptin. Á endanum tókst Brendan Rodgers að rífa deildarformið í gang á síðasta ári og eftir að hafa náð 2. sæti og verið hársbreidd frá titli í vor er liðið ekki aðeins komið aftur í Meistaradeildina heldur er það komið með hvelli, svo eftir var tekið.

Og mikið er ég feginn.

Þessi fimm ár hafa ekki verið auðveld. Meistaradeildin er skemmtilegasta knattspyrnukeppni hvers tímabils og það hefur verið drepleiðinlegt að horfa á hana án þess að geta tekið þátt í dramatíkinni með sínu liði. Auk þess hafa erkifjendur okkar í Englandi skemmt sér konunglega yfir þessari Útlegð síðustu árin. Það var því kannski ákveðið karma fólgið í því að grimmustu erkifjendurnir skuli hafa verið þeir sem gáfu eftir sitt sæti svo við kæmumst loks inn í ár. Sá hlær best sem síðast hlær og allt það.

Það eru tveir dagar í að Liverpool spili Meistaradeildarleik á ný, gegn Ludogorets Razgrad. Babú er að sjálfsögðu að smíða eina af sínum klassísku Evrópu-upphitunum (enn ein ástæða þess að það er gott að vera komin aftur í Meistaradeildina) og birtir hana á morgun, en ég vildi bara nota tækifærið og fagna því að okkar menn séu komnir aftur á meðal þeirra bestu, þar sem þeir eiga að vera.

Hér er að lokum stutt upprifjun um hvernig Liverpool hefur gengið í Meistaradeildinni frá því að hún var stofnuð árið 1992 (og tók við af Evrópukeppni meistaraliða, sem okkar menn höfðu unnið fjórum sinnum). Það tók Liverpool reyndar níu ár að komast í Meistaradeildina frá stofnun hennar, en vorið 2001 vann liðið frábæra þrennu og tryggði sér um leið þátttökurétt í Meistaradeildinni með 3. sæti í Úrvalsdeildinni. Næstu árin fór liðið mikinn í Evrópu:

  • 2001-02: Inn í 3. sæti EPL, komst í 8-liða úrslit CL.
  • 2002-03: Inn í 2. sæti EPL, duttu út í riðlum CL.
  • 2003-04: 5. sæti EPL, spilað í Evrópudeild.
  • 2004-05: Rafa mættur. Inn í 4. sæti EPL, sigurvegarar CL.
  • 2005-06: Inn sem meistarar, komst í 16-liða úrslit CL.
  • 2006-07: Inn í 3. sæti EPL, komst í úrslit CL.
  • 2007-08: Inn í 3. sæti EPL, komst í undanúrslit CL.
  • 2008-09: Inn í 4. sæti EPL, komst í 8-liða úrslit Cl.
  • 2009-10: Inn í 2. sæti EPL, duttu út í riðlum CL.

Þegar Liverpool datt óvænt út úr riðli sínum í desember 2009 var liðið skráð efst allra liða í Evrópu, byggt á frammistöðu liða í Meistaradeild í fimm ár á undan því tímabili. Liðið hafði unnið einu sinni, farið tvisvar í úrslit, einu sinni í undanúrslit og einu sinni í 8-liða úrslit á þeim tíma. Þetta gengi var betra en öll önnur lið í Evrópu á sama tíma, sem verður að teljast magnaður árangur miðað við það sem á undan fór og ekki síður það sem kom á eftir.

Í dag er Liverpool í 45. sæti á þessum lista, enda bara með einn CL-riðil, undanúrslit EL, 16-liða úrslit EL og tvisvar utan Evrópukeppni sl. fimm ár.

Ég ætla að spá því að liðið verði talsvert ofar en í 45. sæti á þessum lista eftir ár. Ég held að liðið fari upp úr þessum riðli og útiloka ekki að það fari lengra. Og vonandi, vonandi, vonandi verður þetta ekki eina árið okkar í Meistaradeild Evrópu að sinni. Ég get ekki aðra Útlegð.

Í dag skulum við samt fagna því að þessar stundir eru komnar aftur á Anfield:

Stevie, Brendan, strákar: MAKE US DREAM!