Flokkaskipt greinasafn: Meistaradeildin

Hverjum viljum við mæta í 16-liða úrslitum?

Mikið óskaplega er gaman að sjá Liverpool loksins aftur í pottinum þegar dregið er í Meistaradeildinni. Ekki bara það heldur var liðið að senda skýr skilaboð um að Liverpool væri sannarlega mætt aftur til leiks meðal þeirra bestu. Það verður dregið á mánudaginn og nú er bara spurning hverja við viljum helst fá upp úr pottinum?

Hvaða lið viltu helst að Liverpool mæti í 16-liða úrslitum?

Skoða niðurstöður.

Loading ... Loading ...

Þetta eru einu liðin sem við getum mögulega mætt, Liverpool getur ekki mætt liðum sem lentu í fyrsta sæti í sinum riðlum, ekki enskum liðum og ekki Sevilla sem var með okkur í riðli.

Allt eru þetta lið sem við þekkjum vel til og Liverpool hefur mætt þeim flestum nokkrum sinnum áður.
– Bayern höfum við ekki mætt oft í alvöru leik en The Fab Four boðuðu sannarlega komu sína gegn þeim í æfingaleik í sumar.
– Er ekki kominn tími til að kveða niður þessa fáránlegu Basel grýlu?
– Porto er klárlega eitthvað sem stuðningsmenn væru til í að fá með ferðalagið í útileikinn í huga. Allir til í Portúgal í febrúar.
– Juventus og Liverpool eiga sér auðvitað töluverða sögu
– Sama á við um Liverpool og Real Madríd, þeir voru rúmlega númeri of stórir síðast þegar Liverpool var í Meistaradeildinni, spurning hvort bilið sé svo stórt ennþá?
– Shakhtar Donetsk er klárlega minnst sexy fyrir stuðningsmenn enda Shakhtar ekki spilað á heimavelli í nokkur ár og takmarkað spennandi að ferðast til Úkarínu um þessar mundir.

Liverpool – Spartak Moscow 7-0

0-1 Coutinho (víti) 4′
0-2 Coutinho 15′
0-3  Firmino 19′
4-0  Mané 47′
5-0  Coutinho 50′
6-0  Mané 75′
7-0  Salah 86′

Leikurinn

Jahérna! Þvílíkur leikur!

Leikurinn byrjaði í raun með látum og má segja að við höfum klárað hann (eða þú veist, tryggt jafnteflið þar sem þetta er Liverpool) á fyrstu 20 mínútunum og hefðum getað verið í 5-0 eftir hálftíma.

Liverpool fékk vítaspyrnu á fjórðu mínútu þegar Dzhikiya braut afskaplega klaufalega á Salah sem fékk sendinguna talsvert bakvið sig og var lítið að fara gera. Persónulega fannst mér þetta frekar „soft“ víti en ekki kvarta ég. Inn á vellinum voru Firmino og Salah, sem báðir klikkuðu á síðustu vítum, en upp steig fyrirliði dagsins og kláraði örugglega, Coutinho 1-0.

Gestirnir virkuðu alveg sprækir á mann í þessum fyrri hálfleik, sérstaklega þó fram á við. En eftir frábæra spilamennsku þá tvöfaldaði Liverpool°forystu sína. Liverpool sundurspilaði þá vörn Spartak og Firmino sendi óeigingjarnt út í teig á Coutinho sem bætti við sínu öðru marki, 2-0. Firmino bætti svo við þriðja markinu eftir að sending frá Mané hafði farið í varnarmann Spartak, 3-0.

Moreno meiddist því miður á ökla undir lok fyrri hálfleiks og Milner kom inn í hans stað. Verður væntanlega ekki með um helgina sem er mikill missir. Þrátt fyrir hræðilegar 15 mínútur gegn Sevilla þá verður ekki tekið af honum að fyrir utan það hefur hann verið mjög öflugur.

Liverpool byrjaði síðari hálfleik eins og þann fyrri. Milner átti frábæra fyrirgjöf á Mané á 47 mínútu sem tók boltann viðstöðulaust og hamraði í netið, 4-0!

Aðeins þremur mínútum síðar bætti Coutinho við marki (skráð sem hans mark fyrst um sinn a.m.k.) og þar með þrenna hjá fyrirliðanum. Milner var aftur með stoðsendinguna eftir gott samspil við Firmino (auðvitað), sendi boltann inn á miðjan teiginn þar sem Coutinho kom með hlaupið, tók boltann með sér og skaut í varnarmann og í nærhornið, 5-0!

Mané bætti við sjötta markinu eftir að Senegalinn vann boltann, sendi á Salah sem kom boltanum áfram á Sturridge. Sturridge átti frekar slaka sendingu inn á teig fyrir aftan Mané sem náði þó til boltans og kláraði vel, 6-0.

Salah vildi ekki vera útundan og bætti við sjöunda markinu. Fékk boltann í miðjum teignum, setti tvo varnarmenn á rassinn og skoraði örugglega upp í vinkilinn, 7-0, ótrúlegar tölur!

Bestu menn Liverpool

Hvar á að byrja eftir svona veislu? Coutinho er auðvitað klárlega maður leiksins. Fyrirliði í dag, var mikið í spilinu og skoraði þrennu. Þar fyrir utan var Mané með tvennu og alltaf ógnandi, Firmino var frábær (er okkur svo gríðarlega mikilvægur), Milner með tvær stoðsendingar og Salah með eitt mark og alltaf hættulegur. Meira og minna allt liðið átti frábæran leik.

Umræðan

Liverpool er komið í 16 liða úrslit og ég held að það séu nokkur lið þarna úti sem vilja forðast það að mæta okkur.

Þessi sókn! Það eru forréttindi að horfa á þetta lið spila fótbolta þegar það er í þessum gír. Nú er liðið búið að spila þrjá leiki á einni viku, vinna þá alla og með markatöluna 15-1!

Mér er alveg sama hvað fólk segir um þetta Spartak lið (sem er fínt lið), það að vinna 7-0 í CL er ótrúlega öflugt. Ef það væri auðvelt þá væri það væntanlega gert oftar, ekki satt? Liverpool tapaði ekki leik í riðlakeppninni og skoraði 23 mörk sem er rétt tæp 4 mörk að meðaltali í leik. Það er ótrúleg tölfræði!

Liverpool er annars á virkilega góðum stað. Nú er bara að halda þessu áfram. Það er hellingur af leikjum framundan.

Næsta verkefni

Það er RISA leikur framundan. Nágrannaslagur á Anfield og Kop.is á vellinum! Þrjú stig þar takk!

Liðið gegn Spartak Moscow

Jæja, komið að stærsta leik tímabilsins hingað til og Klopp blæs til sóknar. Mané, Salah, Coutinho og Firmino eru allir í liðinu og Coutinho jafnframt fyrirliði!
Erfitt að ætla að heimfæra þetta í eitthvað kerfi fyrirfram en svona sirka lítur þetta út:

Karius
Gomez – Lovren – Klavan – Moreno

Mané – Can – Wijnaldum – Coutinho (c)

Salah – Firmino

Fyrirfram myndi ég halda að þetta lið ætti að klára þetta verkefni örugglega. Liverpool fer aftur á móti aldrei auðveldu leiðina þannig að við sjáum hvað setur. Sama hvað, klárið bara verkefnið.

KOMA SVO!

YNWA

Liverpool 3 – 0 Maribor

Liverpool mætti Maribor í annað skiptið á hálfum mánuði og eftir 7 marka slátrun í Slóveníu voru gestirnir mættir á Anfield til að bjarga stoltinu.

Leikurinn

Upplegg gestanna bar þess brennimerki að þeir ætluðu að forðast eldinn í lengstu lög og öryggið var sett á oddinn frá upphafi. Lágu aftarlega með lítið sem ekkert andrými á milli varnar- og miðjulínu. Lái þeim hver sem vill og ekkert óeðlilegt við slíka nálgun á sögufrægum stað þar sem mörg frægari lið hafa fengið flengingar.

Og taktíkin gekk upp til að byrja með. Liverpool voru margfalt meira með boltann en lítið var um opnanir og því síður markfæri. Eftir akadamískt korter var fátt annað að frétta af norðurensku vígstöðvunum en að Wijnaldum hafði snúið sinn ágæta ökkla og Henderson fyrirliði kom inná í staðinn. Hálffærunum fjölgaði og eftir hálftíma leik átti Firmino skot sem fór af varnarmanni og stefndi í áttina að Samúel. Hinn 39 ára Jasmin Handanovic (frændi Samir hjá Inter) var sem köttur í markinu og varði boltann með loppunum í vinkiltréverkið. Fátt markvert gerðist utan þetta og staðan 0-0 í hálfleik.

Það var sem endurtekið efni væri í gangi frá helginni áður gegn Huddersfield því að Rauðliðar mættu einbeittir til leiks eftir hálfleiksræðu á hochdeutsch. Blessunarlega tókst okkar mönnum að brjóta ísinn snarlega og á 49. mínútu sendi Alexander-Arnold eitraða sendingu sem Mo Salah sneiddi með hælnum í netið. Skemmtilegt mark og vel að því staðið.

Anfield lifnaði við og tempóið í sóknarfærslum jókst að sama skapi. Firmino framkvæmdi brasilískt galdraverk með hælklobba á Rajcevic í vítateignum sem verðlaunaði listamanninn með því að brjóta á honum. Víti! Upp steig hin þindarlausa og þaulvana vítaskytta James Milner sem flestir hefðu veðjað bjórsjóðnum á að myndi klára slík skylduverk en Jasmin frændi var á öðru máli og varði glæsilega í tréverkið öðru sinni í leiknum. Örstuttu síðar varði hinn frækni frændi frá Firmino í góðu færi og kom sér kirfilega á lista markmanna sem eiga leik lífs síns á móti Liverpool.

Til þess að hrella okkar Púlara í tilefni hrekkjavökunnar þá skelltu Maribor sér beint í kjölfarið í hættulega sókn og voru nærri því að skora í sínu fyrsta alvöru færi í leiknum. Á 64. mínútu kláruðum við þó leikinn að mestu þegar að Can og Milner áttu frábært samspil við teiginn og hinn hárfagri Þjóðverji smellti glæsilegri innanfótar snuddu niðri við stöng. Eftir þetta datt leikurinn nokkuð niður með nokkrum innáskiptingum en þó áttu Maribor 1-2 hálffæri og fyrnafast langskot sem Karius varði vel. Á 90. mínútu skellti varamaðurinn Sturridge góðri slettu af glassúr á snúðinn með því að skora í teignum eftir fyrirgjöf Moreno og sitt annað mark í tveimur leikjum.

3-0 fer í sögubækurnar þrátt fyrir eilítið japl og juml og fuður til að byrja með.

Bestu menn Liverpool

Flestir leikmenn fóru ekki mikið upp úr 2. gírnum í kvöld en góðar frammistöður ber að nefna hjá Salah, Firmino, Alexander-Arnold og Moreno sem allir voru líflegir og lögðu sitt af mörkum. Minn maður leiksins er Emre Can sem mér fannst gefa sig allan í leikinn frá upphafi til enda með baráttu, tæklingum og áræðni. Hann uppskar sem hann sáði og skoraði glæsilegt mark sem gerði í raun út um leikinn.

Vondur dagur

Í sjálfu sér enginn sem á skilið blammeringu eftir þennan sigurleik. Helst að það sé bömmer fyrir Milner að klikka á sínu öðru víti í röð og fyrir leikmenn eins og Solanke og Robertson sem hefðu gert sér vonir um að spila einhverjar mínútur í kvöld.

Tölfræðin

Fjórða vítaspyrnan sem fer í súginn í röð á Anfield. Þetta fer að verða dýrt spaug og mín uppástunga að næstu vítaskyttu er minn maður þessa leiks, Emre Can. Held að hann sé með nógu mikið hárgel á sjálfstraustinu til að taka hlutverkið að sér. Og hann er þýskur.

Umræðan

Allt er í rólegheitum í rauðheimum eftir tvo 3-0 skyldusigra í röð og það með Klavan í vörninni í báðum leikjum. Efstir í riðlinum í Meistaradeildinni og allt í rétta átt með að komast áfram. Næst er West Ham í höfuðborginni og það er annar skyldusigur þar sem endurteknar lokatölur væru vel þegnar.

Byrjunarliðið gegn Maribor

Meistaradeildin á Anfield á þessu ágæta miðvikudagskvöldi er fín leið til að hefja nóvembermánuð. Eða það vonum við í það minnsta og í heimsókn eru komnir fyrrum heiðursgestir úr Hafnarfirði sem Púlarar unnu sögulegan 0-7 stórsigur á fyrir skemmstu. Það verður erfitt að toppa slík úrslit en eins lengi og stigin 3 falla í okkar skaut þá grunar mig að flestum Púlurum verði nokk sama um markatöluna.

Byrjunarliðið hefur verið kunngert og er eftirfarandi:

Liverpool: Karius, Alexander-Arnold, Matip, Klavan, Moreno, Can, Milner, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain, Salah, Firmino.

Bekkurinn: Mignolet, Gomez, Robertson, Henderson, Grujic, Sturridge, Solanke

Mestu athygli vekur að Oxlade-Chamberlain byrjar inná og það er fyrsti byrjunarliðsleikur hans á Anfield og í CL fyrir LFC. Í markið er Karius mættur,  Alexander-Arnold í hægri bakvörðinn og Emre Can á miðjuna. Einhverjir hefðu vonast eftir að sjá Robertson fá einn leik í vinstri bakverðinum en það verður að bíða betri tíma og er hann til taks á bekknum.

Skyldusigur, 3 stig og ekkert múður!

Come on you REDS! YNWA!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.