Flokkaskipt greinasafn: Meistaradeildin

Liverpool 2 – Sevilla 2

0-1 Ben Yedder 5.mín
1-1 Firmino 21.mín
2-1 Salah 37.mín
2-2 Correa 72.mín

Leikurinn

Tveir hálfleikir. Sá fyrri mjög góður, gáfum reyndar mark en það gerum við oft en eftir það geggjaður sóknarleikur, tvö mörk sem áttu að verða þrjú en vítið sem við klúðruðum á 42.mínútu reyndist dýrkeypt. Ég pirraði mig mjög á aðhlaupi og framkvæmd spyrnunnar hjá Firmino. Í hálfleik virtist allt vera í góðu.

Seinni hálfleikurinn var einfaldlega slakur. Allt önnur orka, Sevilla færðu varnarlínuna sína og djúpa miðjumanninn aftar og skyndilega áttum við engin svör sóknarlega. Þeir jafna eftir barnalegan varnarleik okkar upp úr innkasti og svo voru það þeir sem hefðu getað stolið sigri þegar þeir sluppu einir í gegn í uppbótartíma en brenndu af algeru dauðafæri. Við vorum ráðvilltir og lélegir síðustu 20 mínúturnar og innkoma Coutinho breytti engu.

1 stig niðurstaðan á Anfield. Ekki gott.

Bestu menn Liverpool

Fyrri hálfleikurinn var góður. Mér fannst frábært að sjá Moreno sóknarlega og Salah var á flottum stað. Salah hélt höfði allan leikinn og mér fannst Wijnaldum koma vel út allan leikinn en ansi margir í okkar liði áttu mjög erfitt að halda orkunni allan leikinn.

Vondur dagur

Ég sagði á laugardag að þessi leikur segði svolítið til um veturinn. Eftir stóran skell kemur í ljós hvað í þig er spunnið. Í kvöld var varnarleikurinn a.m.k. jafn lélegur á köflum og gegn City. Fyrra markið þá eru Can og Gomez með lina vörn og Lovren hittir ekki rútínubolta. Seinna markið er innkast, Gomez gleymir sér, Can og Hendo eru gripnir við „ball-watching“ og svæðið milli hafsentanna til að vinna í var svakalegt. Ömurlegur varnarleikur. Meira síðar. Gomez lét svo reka sig útaf í blálokin. Hann átti arfaslakan dag elsku karlinn.

Umræðan

Það þarf ekkert að bíða eftir umræðuefninu.

Lið sem verst svona nær engum árangri. Punktur. Ég veit ekki hvað mér finnst um markmannsskiptin því við kennum ekki Karius um þessi mörk. Varnarlína skipuð Gomez, Lovren, Matip og Moreno féll á þessu prófi ásamt þeirri varnarvinnu sem á að fara fram á miðsvæðinu en sást ekki í kvöld.

Klopp hefur að sjálfsögðu völdin hjá Liverpool og hans verkefni fram í janúar verður að vinna úr þessum hóp einhvern varnarleik. Ég held að við verðum að sætta okkur við það að vera enn á ný skítstressuð í hvert sinn sem lið fer í sókn gegn okkur. Bakverðirnir okkar gefa mikil svæði fyrir aftan sig og bilin milli hafsentanna annars vegar og svo á milli varnar- og miðjulínu eru hreinlega sláandi. Menn ákváðu að kaupa ekki hafsent eða djúpan miðjumann.

Eftir tvo síðustu leiki er ég skíthræddur um að það hafi verið rosaleg mistök því okkar frábæri blitzkrieg-sóknarleikur er að týnast í harakiri-varnarleik.

Næst er Burnley á Anfield.

Það er SKYLDUSIGUR!!!

Upphitun: Sevilla í Meistaradeild

Þá er komið að fyrsta leik Liverpool í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og á Anfield mætir óljúfur óperudraugur fortíðar eða Sevilla Fútbol Club sem við mættum síðast ósælla minninga fyrir rúmlega ári síðan. Baslið í Basel er óþarfi að tíunda mikið hér enda búið að eyða of miklum tíma í dáleiðslu og áfallahjálp við að gleyma þeirri minningu til að rifja hana upp að nýju. Þetta er þó tækifæri til að kvitta fyrir það klúður og skipbrot síðustu helgar samtímis og vonandi grípum við það tvöfalda tækifæri tveimur höndum. En til þess að það geti gerst þá þarf að hita sig upp á eldheitt tapas-hitastig með sjóðandi salsa og fuðrandi flamencó-fótbolta.

Comenzar el calentamiento!

Sagan

Liðin hafa eingöngu mætt hvort öðru í fyrrnefndum leik og því er söguleg tölfræðin takmörkuð að því leyti. Leikmannaviðskipti liðanna síðasta áratuginn eru teljandi á fingrum annarar handar eftir alls engin í rúm hundrað ár þar á undan. Til okkar hafa komið Alberto Moreno og Luis Alberto ásamt því að Daniel Ayala og Antonio Barragán komu sem pjakkar á meðan að Rafa Benitez réð ríkjum. Á móti þá lánuðum við og síðan seldum Iago Aspas til Sevilla en á heildina litið er varla hægt að segja að hvorugt lið hafi átt blússandi velgengni að fagna í viðskiptum sín á milli.

Saga liðanna segir okkur því lítið sem ekkert annað en að áhugaverðasti safngripurinn telst vera Moreno hafandi spilað sitt hvorn Europa League úrslitaleikinn fyrir bæði lið og hafa hjálpað Sevilla að vinna í bæði skiptin! Lo siento Alberto.

Sevilla FC

Sevilla FC kemur frá samnefndum höfuðstað Andalúsíu og er rauða liðið í borginni en Real Betis eru þeirra borgarbræður og erkifjendur. Borgin er sögufræg og hefur ofanritaður notið þeirrar ánægju að eiga þar vetursetu og búa steinsnar frá heimavelli þeirra rauðu á Ramón Sánchez Pizjuán. Sevilla er margfræg fyrir að vera sögustaður fjölmargra ópera eins og Rakarinn frá Sevilla, Brúðkaup Fígarós, Carmen og Don Juan en í seinni tíð var hún notuð sem sviðsmynd í Star Wars. Í vinstra horni á merki Sevilla FC má sjá þrjá vörpulega og valdsmannslega höfðingja sem kallast á spænsku el tres reyes eða kóngarnir þrír. Þessir þríkóngar eru engir aðrir en vitringarnir þrír úr sunnudagaskólanum en á Spáni eru þeir hinir gjafmildu sveinar sem mæta á úlföldum um jólaleytið og útdeila gjöfum á þrettándanum að kaþólskum sið.

En nóg um hágólandi hárgreiðslumeistara eða úlfaldaútdeilandi yfirnáttúrulegheit. Í Andalúsíu-liðinu eru engir jólasveinar og það mætir til leiks sem það lið sem var skrifað pottinum hærra en Liverpool í CL-drættinum og hafa skilað mun fleiri titlum í hús síðustu 5 árin með því að hampa heilum þremur Europa League titlum í röð og unnu 2 slíka til viðbótar stuttu þar á undan. Þeir enduðu í 4. sæti í sinni deild líkt og við á síðasta tímabili, en ströggluðu þó við að klára lágt skrifað lið Istanbul Basaksehir í forkeppni Meistaradeildarinnar og unnu einvígið bara með samtals eins marks mun.

Á vordögum þá missti Sevilla þáverandi þjálfara sinn þegar að hinn argentínski Jorge Sampaoli tók við argentínska landsliðinu en hann hafði eingöngu verið eitt tímabil með Sevilla eftir að Unai Emery fór til PSG árið 2016. Við stjórnartaumunum tók samlandi hans Eduardo Berizzo en hann hafði gert ágæta hluti með Celta Vigo þar á undan. Undir hans stjórn hefur Sevilla byrjað tímabilið sterkt, eru taplausir í öllum keppnum og í 3. sæti La Liga með 7 stig eftir 3 leiki, en þó hafa andstæðingarnir í öllum þessum leikjum verið af veikara taginu. Þeir gátu því leyft sér þægilegheit á heimavelli í síðasta leik með 3-0 sigri á Eibar og hvílt lykilmenn fyrir átökin á Anfield.

Það mætti halda að Sevilla-menn hafi fundið á sér að þeir myndu dragast gegn Liverpool í CL því að þeir spiluðu fjóra æfingarleiki í sumar á Englandi og þar af þrjá þeirra gegn ensku úrvalsdeildarliðunum Arsenal, Southampton og Everton í Liverpool-borg. Í þokkabót þá háðu þeir einvígi gegn Leicester í 16-liða úrslitum CL á vordögum sem þeir töpuðu tæpt í frægum leik þannig að engilsaxnesk samskipti hafa verið með mesta móti hjá Spánverjunum síðustu misserin. Til viðbótar þá skarta þeir fjarska fallegri rauðri New Balance varatreyju sem myndi sóma sér vel með Liverbird í stað Sevilla-merkisins og hún gerði leikinn gegn Everton ansi derby-legan áhorfs.

Éver Banega mætti Everton í sumar og lét Rooney finna fyrir því

 

Í leikmannamálum þá seldi Sevilla tvo sterka leikmenn, spænska landsliðsmanninn Vitolo til Atletico Madrid og Vicente Iborra til Leicester, fyrir samanlagt 50 millur evra í sumar en í staðinn snéru Jesús Navas og Éver Banega aftur eftir mislanga fjarveru og auk þeirra komu í hús Luis Muriel, Simon Kjær og Nolito sem helst ber að nefna. Sumarinnkaupin voru svo gott sem á sléttu og hafa Sevilla hafa verið ansi lunknir í leikmannamálum síðustu 17 ár undir stjórn señor Monchi sem el director de fútbol en hann var reyndar keyptur til starfa hjá Roma nú í apríl. Þeir eru því með ansi sterkan hóp og reynslumikið lið í Evrópufótbolta sem mun því miður ekki víla fyrir sér að mæta á öflugan Anfield.

Ég ætla að spá þessari uppstillingu hjá Sevilla þar sem þeir munu vera þéttir fyrir með N’Zonzi djúpan á miðjunni og reyna að nýta hraða vængmenn og sendingargetu Éver Banega í skyndisóknir.

Líklegt byrjunarlið Sevilla í taktíkinni 4-1-4-1

Liverpool FC

Skellur síðustu helgar er ólíklegur til að hafa mikil áhrif á liðsval Jürgen Klopp þar sem að hann hefur væntanlega verið búinn að lista upp megnið af byrjunarliðinu fyrirfram með róteringu í huga. Að því marki má taka mark á þeirri umræðu að markvörður þessa leiks verði hinn sultuslaki og smjörgreiddi en þó áhættusækni Loris Karius. Hvort að það sé sanngjarnt skal ósagt látið en það sem Herr Klopp vill blífur og á Herr Klopp leggjum við okkar trú og traust.

Ég gæti vel séð að báðum bakvörðum verði skipt út (perdón otra vez Alberto) og að Lovren komi inn við hlið Matip í hafsentinn. Varnartilburðir síðustu helgar hafa að sjálfsögðu ýft upp þá tilfinningu að við hefðum átt að styrkja okkur varnarlega í kaupglugganum en það skip hefur siglt að sinni og við verðum að láta þessa háseta duga fram að næstu höfn.

Kafteinn Henderson verður fastur punktur á miðjunni og mig grunar að Milner fái tækifærið til að hlaupa víðavangshlaup en stóra spurningin mun snúast um hvort að Coutinho fái að koma inn úr skammarkróknum. Ég ætla að spá því að Philippe í Kattholti sé ekki búinn að tálga nógu marga spýtukarla ennþá og þurfi að láta sér tréverkið duga í þessum leik, en hann mun pottþétt byrja næstu helgi þegar Mané verður í banni. Að því leyti verður okkar uppstilling svona að mínu mati.

Líklegt byrjunarlið Liverpool í taktíkinni 4-3-3

Spaks manns spádómur

3-1 sigur Liverpool þar sem Anfield tekur völdin og okkar eigin þrír vitringar, Mané, Salah og varamaðurinn Coutinho, sjá um mörkin.

Hópferðir / Dregið í riðla Meistaradeildar

Við minnum á hópferðir Kop.is núna fyrir áramót. Skráning hefur farið vel af stað og við hvetjum fólk til að slást í hópinn. Skellið ykkur með og sjáið markaveislur á Anfield:

Liverpool – Huddersfield, 27. – 30. október. Nánari upplýsingar og skráning á vef Úrval Útsýnar.

Liverpool – Everton, 8. – 11. desember. Nánari upplýsingar og skráning á vef Úrval Útsýnar.


Nú síðdegis var dregið í riðla Meistaradeildar Evrópu fyrir komandi tímabil. Okkar menn voru loksins aftur sestir að borðinu á meðal þeirra bestu í Evrópu og voru dregnir í riðil E ásamt Spartak Moskvu, Sevilla og NK Maribor frá Slóveníu. Sterkur riðill og spennandi, erfiður en ekki óyfirstíganlegur.

Hér eru riðlarnir í heild sinni:

Hvernig lýst ykkur á þetta? Ég hlakka bara til, Rauði Herinn marsérar upp á meginlandið á ný!

YNWA

Uppfært: Hoffenheim framundan í CL / Lallana meiddur

Þá er komið í ljós hver mótherjinn verður í umspili fyrir Meistaradeildina.

Það er ekki einfalt verkefni að þessu sinni, þýska liðið Hoffenheim verður fyrirstaðan í því að við komumst inn í riðlakeppnina.

Við hefjum leik í Þýskalandi 15. eða 16.ágúst og síðari leikurinn er á Anfield viku síðar.

Það er bara ekkert sem heitir…við verðum að klára þetta dæmi!


Uppfært: Adam Lallana meiddur
Opinber heimasíða félagsins var að staðfesta það rétt í þessu að Adam Lallana verður meiddur í 2-3 mánuði vegna meiðsla sem hann hlaut eftir síðasta leik. Enganvegin fréttir sem Liverpool mátti við og pressan er ekkert minni núna á félaginu að bæta við nýjum leikmönnum. Þessi neglir þetta vel: