Allar færslur eftir Daníel Sigurgeirsson

Bournemouth á sunnudaginn

Síðdegis á sunnudaginn verður flautað til leiks á Dean Court í Bournemouth, þar sem heimamenn munu taka á móti Rauða hernum. Völlurinn hefur reyndar verið kallaður Vitality Stadium upp á síðkastið.

Við viljum kannski ekki mikið vera að rifja upp leik þessara liða frá því í fyrra á þessum sama velli. Skulum bara orða það svo að Klopp og félagar eigi harma að hefna.

Andstæðingarnir

Bournemouth eru sem stendur í 14. sæti deildarinnar með 16 stig, hafa skorað 15 mörk og fengið á sig 20. Leikformið í síðustu 5 leikjum gæti verið betra. Tveir leikir hjá þeim hafa tapast: á móti toppliðunum United og Burnley, en þrír hafa endað með jafntefli. Þar á undan komu svo nokkur ágæt úrslit, eins og 4-0 á móti Huddersfield og 1-0 á móti Newcastle. Þetta er því lið sem er alveg fært um að ná úrslitum, eins og við höfum orðið svo óþyrmilega vör við. Eddie Howe er einn þessara ungu stjóra sem eru að ná aldeilis frábærum árangri, þó vissulega standi hans árangur svolítið í skugganum af því hvar Sean Dyche er staddur með sitt lið. Meira um það í seinni pistlum.

Okkar menn

Liverpool kemur inn í þennan leik eftir tvö drullusvekkjandi jafntefli. Gleymum því samt ekki að liðið hefur núna leikið 11 leiki í öllum keppnum án þess að tapa. Jafnframt er vert að minnast þess að deildarkeppnin snýst um að ná sem bestum árangri yfir 38 leiki, og það að vinna 15 leiki í röð eins og City hafa gert er einsdæmi. Breytir því að sjálfsögðu ekki að það er alltaf jafn grautfúlt að tapa stigum. Og þó svo að liðið hafi aðeins tapað tveim leikjum á leiktíðinni, þá eru jafnteflin orðin 7 bara í deildinni. Slíkt gengur auðvitað ekki til lengdar, sérstaklega þar sem í fjórum tilfellum af þessum 7 komst Liverpool yfir (á móti Everton, Chelsea, Newcastle og Watford). Tvö jafnteflin enduðu 0-0 (á móti rútufélögunum WBA og United), og á móti Burnley náðu okkar menn að jafna. Það má lengi leika sér með „ef og hefði“, hvað ef liðið hefði náð að halda fengnum hlut í einhverjum af þessum jafnteflisleikjum? En það þýðir lítið að eyða tíma í það, þessir leikir eru búnir og koma ekki aftur.

Hvaða leikmenn standa Klopp svo til boða? Tja förum fyrst yfir það hvaða leikmenn koma ekki til greina: Clyne, Matip og Moreno. Semsagt: 3/4 af varnarlínunni. Svo eru aðrir tæpir, ekki ljóst hvort Sturridge er leikfær, Mignolet virðist vera búinn að ná sér. Helsta fréttin er kannski sú að Lallana er kominn á ról og verður að öllum líkindum í hópnum. Verður hann í byrjunarliðinu? Kemur í ljós, en ég hugsa að ég sé ekki einn um að vera farinn að hlakka til að sjá Adam okkar taka nokkra Cruyff-snúninga. Manni hefur fundist vanta svolitla sköpun á miðjuna, og þar kemur Lallana sterkur inn. Klopp mun annars sjálfsagt rótera eitthvað eins og í síðustu leikjum, og við skulum bara vona að læknateymið sé með það á hreinu hver geti spilað 90 mínútur með góðu móti og hver ekki. Svo tekur við 5 daga pása þangað til liðið heimsækir Emirates, svo það mun gefast örlítið ráðrúm til að pústa þangað til.

En ég ætla allavega að spá eftirfarandi byrjunarliði:

Mignolet

Gomez – Lovren – Klavan – Robertson

Henderson – Lallana – Winjaldum

Coutinho – Firmino – Mané

Bekkur: Karius, Alexander-Arnold, Milner, Can, Salah, Oxlade-Chamberlain, Ings

Eins og áður er þetta svolítið skot í myrkri. Ef eitthvað er að marka fréttir af samningsmálum Can við Juventus þá er hann kominn með annan fótinn til Juventus. Ef ég væri í sporum Klopp myndi ég gefa mönnum eins og Grujic frekar tækifæri frekar en að láta Can taka pláss í byrjunarliðinu eða á bekknum. Þá er vissulega áhyggjuefni hve fáir varnarmenn eru á bekknum, og það er hluti ástæðunnar af hverju Milner og Can eru þar í minni spá. Síðan set ég Ings þarna bara af því að mig langar svo svakalega til að hann nái sér á strik. Líklega er Klopp samt með Solanke framar í röðinni, svo ég yrði ekkert hissa þó hann yrði þarna í staðinn. Ég set svo að lokum Salah á bekkinn þar sem hann var að glíma við eitthvað smá hnjask fyrir stuttu síðan, en ég myndi svo innilega vilja sjá hann koma inn á og setja eins og eitt-tvö.

Mín spá? Held þetta verði erfiður leikur. Ég vona svo innilega að við fáum eitt stykki aðventusigur í skóinn, segjum 1-2 þar sem Firmino og Henderson skora. Með góðum úrslitum í þessum leik og svo á móti Arsenal næsta föstudag þá verða jólin rauð. Það gerist ekki fallegra.

Porto í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar

Nú er ljóst hvernig liðin raðast í 16 liða úrslitum í Meistaradeildinni, og okkar menn munu mæta Porto. Skoðanakönnunin sem gerð var hér á síðunni fyrir skemmstu endaði þannig að Porto varð þar í þriðja sæti, semsagt ekki fyrsta val en alls ekki það síðasta. Það var Xabi okkar Alonso sem sá um að draga.

Fyrri leikirnir fara fram annaðhvort 13/14. febrúar eða 20/21. febrúar, og seinni leikirnir verða leiknir 6/7. mars eða 13/14. mars. Og já seinni leikurinn verður í Liverpool.

Ég er nokkuð viss um að Einar Matthías mun hita vel og vandlega upp fyrir þessa leiki, en þangað til þær upphitanir detta inn er hægt að ylja sér við það þegar liðin mættust síðast fyrir 10 árum síðan.

EDIT: skv. Pearce er orðið ljóst að fyrri leikurinn fari fram miðvikudaginn 14. febrúar í Portúgal, og sá seinni í Liverpool þriðjudaginn 6. mars. Þá er bara að finna miða…

Brighton á laugardaginn

Það verður skammt stórra högga á milli núna næstu vikurnar, og eitthvað af minni höggum sömuleiðis inn á milli. Á laugardaginn leggja Klopp og lærisveinar hans land undir fót og heimsækja hina ágætu borg Brighton & Hove, en eins og glöggir lesendur muna sjálfsagt frá ágætri upphitun Einars Matthíasar síðan í deildarbikarnum 2011, þá varð sú borg til rétt um aldamótin þegar bæirnir Brighton og Hove sameinuðust og úr varð þessi borg. Nóg um það, saga borgarinnar og liðsins var rakin þar og ekki stórkostleg ástæða til að endurtaka það hér, enda erfitt að toppa pistlana hans Einars.

Eins og gefur að skilja hafa liðin ekki verið að mætast neitt mjög ört undanfarin ár, þar sem þetta er í fyrsta skiptið í langan tíma sem þau eru saman í deild. Í reynd er það stórfurðulegt að þau skyldu dragast saman tvö ár í röð í bikarkeppnunum, því árið 2012 mættust þau einmitt síðast, og þá unnu okkar menn sannfærandi.

Gengi okkar manna gegn suðurstrendingum er ágætt: þrettán sigar, 8 jafntefli og 4 töp. Reyndar er það svo að til að finna úrslit sem eru okkar mönnum í óhag gegn Brighton þarf að fara aftur til ársins 1984, þegar rauði herinn datt úr FA bikarnum, síðan þá hafa liðin leikið 5 sinnum, ýmist í bikar eða deildarbikar, og Liverpool hrósað sigri á endanum (eitt replay árið 1991).

En þessi saga segir okkur lítið núna, enda allt önnur lið sem munu spila á laugardaginn heldur en þau sem spiluðu síðast. Til gamans má geta þess að árið 2012 var þetta liðið sem spilaði gegn Brighton:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Enrique

Henderson – Adam – Gerrard – Downing

Carroll – Suarez

Semsagt, Henderson er sá eini sem er líklegur til að vera í liðinu á laugardaginn af þeim sem þá spiluðu. Já ég held ég geti bara fullyrt að þeir verði ekki fleiri. (Suarez: vertu velkominn heim, hvenær sem þú vilt).

Hvað gengi liðanna í síðustu leikjum varðar (í öllum keppnum), þá má segja að þar halli heldur á nýliðana. Þeir hafa gert 3 jafntefli, tapað einum og unnið tvo, á meðan okkar menn hafa unnið 4 og gert 2 jafntefli. Það er líka athyglisvert að skoða frammistöðu Liverpool eftir sneypuförina á Wembley, því síðan þá hefur liðið aðeins tapað stigum gegn Chelsea í deildinni, á meðan Tottenham hafa fengið 4 stig af 15 mögulegum og eru nú komnir niður fyrir Burnley í töflunni. Átti einhver von á því eftir þann leik? Ekki ég a.m.k.

Semsagt, ef marka má stöðu liðanna í deildinni, leikformið, og fyrri úrslit þessara liða, þá má slá því föstu að Rauði herinn eigi sigurinn vísan. Það virkar þó ekki þannig eins og við ættum að vera löngu búin að læra, stigin þrjú eru ekki í hendi, og það er hlutverk piltanna okkar að tryggja að þau lendi hjá okkur.

En hverjir munu spila? Það er góð spurning. Klopp ætlar greinilega ekki að enda með örþreyttan (og meiðslahrjáðan) hóp í lok desember, og hefur því greinilega hugsað sér að nota hópinn vel. Í síðasta leik komu t.d. Coutinho og Firmino ekkert við sögu, undirritaður telur fullvíst að þeir verði í byrjunarliðinu á laugardaginn. Fleiri breytingar eru mjög líklegar. Mér kæmi ekki á óvart að Gomez fái smá hvíld enda búinn að leika nokkra leiki í röð og Alexander-Arnold brennur sjálfsagt í skinninu að fá að spreyta sig. Mögulega gefur hann Moreno pásu og hleypir Robertson inn á, jú ég ætla að spá því. Ég hugsa að Matip og Lovren spili í miðverðinum, en vonandi verður Klavan búinn að jafna sig á veikindunum og getur því a.m.k. komið á bekkinn. Hver veit, kannski kemur hann inn í staðinn fyrir Matip í nafni róteringar.

Það er einna helst að miðjan sé spurningamerki. Fyrirliðinn hefur verið í eldlínunni upp á síðkastið og mikið gagnrýndur fyrir sína frammistöðu, og kom bara rétt svo inná í lokin í Stoke leiknum. Ég reikna nú frekar með að hann spili á laugardaginn, en það er samt alveg 50/50, kannski vill Klopp gefa Hendo aðeins meira andrými til að íhuga sinn leik. Lallana var ekki í hóp síðast, og það var víst bara einhver varúðarráðstöfun, ég ætla bara rétt að vona að það hafi ekki verið neitt meira en það. Hvort honum verði hent í byrjunarliðið er svo annað mál. Can spilaði síðasta leik, og var þar bara líkur sjálfum sér: með ágætis vinnslu en hann er ekki sá hættulegasti fram á við. Maður spyr sig hvað samningamálin hafa að segja um það hvort hann verði valinn: ef ég væri Klopp og ég vissi að þarna væri leikmaður sem væri á útleið gæti ég alveg freistast til að afskrifa hann einfaldlega og gefa öðrum leikmönnum sénsinn, eins og t.d. Grujic. Klopp virðist þó enn halda í vonina að geta haldið Can áfram, og það virðist svosem ekki vera útilokað þó svo að líkurnar minnki með hverjum deginum.

Eins og áður sagði er líklegt að Coutinho og Firmino byrji, hafandi ekki komið inn á í síðasta leik.

Allavega, hér kemur mín spá, en eins og áður hefur komið fram, þá verða þessar spár alltaf svolítið skot í myrkri í ljósi þess hve mikið er verið að nota hópinn þessa dagana.

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Robertson

Can – Henderson – Winjaldum

Coutinho – Firmino – Salah

Bekkur: Karius, Klavan, Gomez, Milner, Mané, Sturridge, Oxlade-Chamberlain

Semsagt, hér er t.d. hvorki pláss fyrir Moreno, Solanke né Lallana, hvað þá stráka eins og Woodburn eða Grujic. Kemur í ljós að það er bara alveg ágætt að hafa smá breidd. Og svo það sé nú sagt, þá á ég fastlega von á því að skeika um a.m.k. 3 leikmenn í þessari spá, jafnvel fleiri. Og jú, ég spái því líka að Mignolet verði ekki fyrirliði, þrátt fyrir 100% vinningshlutfall sem slíkur.

Ég ætla að gerast svo kræfur að spá því að liðið haldi áfram að setja a.m.k. 3 mörk í leik, og að þessi fari 1-3 eða 1-4. Salah með a.m.k. eitt – en ekki hvað!

YNWA!

Chelsea á morgun

Það gæti vel hafa verið svartur föstudagur einhversstaðar í dag, en það verður klárlega rauður laugardagur á morgun á Anfield þegar okkar menn mæta Chelsea síðdegis.

Það er hörð samkeppni um það að komast á topp 4, sem stendur skilja fjögur stig að liðin í 2. – 7. sæti. Hinir bláklæddu eru semsagt í 3ja sæti og okkar menn í því fimmta. Það eru auðvitað bara „the usual suspects“ í þessum sætum: ManUtd, Chelsea, Tottenham, Liverpool, Arsenal og… Burnley. Um efsta sætið þarf svo lítið að fjölyrða, og í augnablikinu virðist eina liðið sem getur komið í veg fyrir að City skori vera Úlfarnir, og eina liðið sem hefur ekki tapað fyrir þeim í deildinni eru Everton. En nóg um þá ljósbláu, það er leikurinn á morgun sem er aðalatriðið.

Andstæðingarnir

Byrjum aðeins á að skoða gengi Chelsea manna. Þetta eru jú Englandsmeistararnir, og sem slíkir hefur þeim e.t.v. ekki verið að ganga jafnvel í ár eins og í fyrra, enda hafa þeir núna Meistaradeildina að hugsa um sem þeir höfðu ekki í fyrra. Gleymum samt ekki að í fyrra unnu þeir ekki leik í september, og þá töldu allir að tiltekið lið úr Manchester myndi rúlla yfir deildina… Þeir hafa verið að ná ágætum úrslitum upp á síðkastið, en töpuðu þó fyrir Crystal Palace fyrir rúmum mánuði síðan, og töpuðu svo fyrir Roma 0-3 úti á Ítalíu (hvers lags lið fær á sig þrjú mörk á útivelli í Meistaradeildinni? Skil ekki svona). Það er því klárlega hægt að ná úrslitum á móti þessu liði.

Conte virðist vera jafn öruggur í starfi eins og allir aðrir stjórar Chelsea í tíð Roman Abramovic, þ.e. eftir að hafa verið í starfi í þrjár vikur er farið að tala um hve valtur hann sé í sessi. Hann er jú einn af þeim sem er orðaður við að verða næsti stjóri Ítalíu, en það er svosem væntanlega ekki að fara að hreyfast neitt á næstu vikum.

Lið Chelsea er í 8. sæti á meiðslalistanum, með 4 menn skráða. Þar munar þá mestu um vin okkar Viktor Moses sem gæti þó náð leiknum á morgun, og verður á bekknum skv. Conte. Svo er Batshuayi frá í einhvern tíma.

Liverpool

Þá að okkar mönnum. Af hópnum er það að frétta að Lallana byrjaði að æfa aftur með liðinu fyrir rúmri viku síðan, en hefur ekki komist í hóp í síðustu tveim leikjum, enda er samkeppnin sem betur fer mikil. Emre Can ku víst hafa orðið fyrir einhverju hnjaski, e.t.v. verður honum skipt út og Lallana settur á bekkinn í staðinn. Matip sást á æfingasvæðinu eftir að hafa verið frá síðustu tvo leiki, svo það er óvíst að Clean-sheet Klavan fái að halda áfram að safna hreinum lökum. Þrátt fyrir að okkar menn séu í 2. sætinu á Physioroom listanum með 6 skráða meiðslapésa, þá eru það aðeins þessir þrír af reglulegum byrjunarliðsmönnum sem í raun skipta máli. Markverðir okkar númer 3 og 4 (5?), Ward og Bogdan eru einnig á þessu lista, og stöðuna á Clyne þekkja allir. Þetta hefur því sjálfsagt oft verið verra.

Okkar menn koma beint úr leiknum við Sevilla og eru vonandi æstir í að sýna að þetta jafntefli hafi bara verið tilfallandi, enda liðið komið á svolítið „run“ eftir Tottenham leikinn, og skorað a.m.k. 3 mörk í leik síðan. Chelsea fengu einum degi minna til að jafna sig eftir sinn Meistaradeildarleik, og alveg spurning hvaða áhrif það hafi. Mögulega verða þeir þreyttari, en mögulega munu þeir bíta enn frekar í skjaldarrendur í ljósi þessa óréttlætis.

Liðið

Ég tel persónulega engar líkur á því að Klopp fari að hræra eitthvað mikið upp í hópnum, ekki frekar en hann hefur gert frá því að hann kom. Líklegast er að Mignolet komi aftur í markið, TAA fari í bakvörðinn í stað Gomez, og að Matip komi í miðvörðinn í staðinn fyrir Klavan. Ég efast um að hann gerir mikið fleiri breytingar. Frammistaða Moreno varð mönnum hugleikin, og sumir hafa spurt sig hvenær Robertson fái sénsinn ef ekki eftir að hans helsti keppinautur um stöðuna gefi aukaspyrnu og vítaspyrnu og svona allt að því kosti okkur tvö mörk. Á blaðamannafundinum í dag talaði Klopp hins vegar eins og að hann væri ekki að fara að henda Moreno á bekkinn, enda hefur hann jú átt ágæta leiki fram að þessu. Maður spyr sig líka: ef Moreno væri sóknarmaður, væri umfjöllunin um hann jafn óvægin? Sóknarmaður sem klúðrar tveim dauðafærum í leik, er talað um að hann sé búinn að vera? Fólk getur rætt það fram og til baka hvort hann sé nógu góður fyrir Liverpool, en ég held að við munum seint eignast varnarlínu þar sem enginn gerir nein mistök.

Frammistaða Henderson hefur sömuleiðis verið til umræðu, persónulega held ég að sú frammistaða breyti engu þegar í leikinn á morgun er komið, og að hann verði þar á sínum stað á miðjunni.

Allavega, hér kemur mín spá:

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Coutinho – Henderson – Winjaldum

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Karius, Gomez, Klavan, Milner, Oxlade-Chamberlain, Lallana, Sturridge

Eins og áður er þetta bara spá, Klopp hefur ýmsa kosti í stöðunni. Ég er að spá því að Lallana komi inn og þá á kostnað Can og/eða Solanke. Kannski verður það metið sem svo að Lallana eigi að bíða aðeins lengur og taka lengri tíma í að koma sér í form, annað eins hefur nú gerst. Hann gæti líka hent Winjaldum út og sett Milner inn á, eða gefið Mané smá pásu og hent Oxlade-Chamberlain í byrjunarliðið, nú eða gefið Sturridge sénsinn á kostnað Firmino. Allar þessar breytingar kæmu mér þó á óvart, í ljósi þess hve íhaldssamur Klopp hefur verið í liðsvali.

Ef maður á að vera svakalega bjartsýnn þá vinnum við þetta 3-0 og komumst þar með upp fyrir Chelsea í töflunni. Svo væri nú ekki verra að WBA menn haldi upp á það að Tony Pulis sé farinn með því að vinna Tottenham, og þá endum við þessa umferð í 3ja sæti. Getum við ekki öll verið sammála um það?

YNWA!

West Ham 1 – 4 Liverpool

Mörkin

0-1 Salah (21. mínúta)
0-2 Matip (24. mínúta)
1-2 Lanzini (55. mínúta)
1-3 Oxlade-Chamberlain (56. mínúta)
1-4 Salah (75. mínúta)

Leikurinn

Liverpool mættu á London Stadium og unnu sannfærandi 1-4 sigur. Ég verð að byrja á því að segja að ég vorkenni West Ham örlítið. Bilic með fallöxina hangandi yfir sér, liðið verður að leika vel til að hann haldi starfinu, eru með megnið af varnarlínunni á sjúkralistanum, og svo spila þeir í raun ágætlega fyrstu mínúturnar en eru að mörgu leyti óheppnir. Dómgæslan var þeim ekki alltaf í vil, t.d. þegar Matip felldi Chicarito rétt fyrir utan teig en ekkert var dæmt. Eins fengu þeir færi sem fór í stöngina og út.

Nú og svo til að bæta gráu ofan á svart þá voru þeir að mæta Liverpool liði sem virðist vera að finna fjölina sína, og refsaði fyrir einföld mistök eftir hornspyrnu West Ham á 21. mínútu. Í raun minnti þetta mark um margt á markið sem Salah skoraði á móti Arsenal fyrr í haust. Þarna kom í ljós að þrátt fyrir að vera nýstiginn upp úr meiðslum hefur Mané ekki misst neinn hraða. Þeir tveir kláruðu þetta mjög vel. Og það voru ekki liðnar 3 mínútur þegar Matip hafði bætt við öðru marki, aftur eftir fast leikatriði en núna eftir horn okkar manna sem Salah tók.

Í seinni hálfleik fengu Hamrarnir smá vonarglætu, þegar Lanzini skoraði eftir klaufalegan varnarleik hjá Gomez. En Adam var ekki lengi í paradís því okkar menn brunuðu í sókn, Firmino fann Oxlade-Chamberlain sem átti gott skot, Hart varði en boltinn barst aftur til AOC sem gerði engin mistök. Þetta var í raun gríðarlega mikilvægt mark, því það drap niður alla von hjá andstæðingunum.

Þegar 75 mínútur voru liðnar var maður farinn að óskapast út í Klopp fyrir að vera ekki löngu búinn að taka Mané út af, manninn sem átti bara að geta spilað í 25 mínútur. En sem betur fer beið Klopp með það, því það síðasta sem Mané gerði var að eiga gott hlaup upp völlinn, lét t.d. ekki stoppa sig að vera felldur heldur stóð upp og hélt áfram, og gaf svo á Salah sem gerði engin mistök og tryggði sigurinn endanlega.

Síðustu mínúturnar voru svo bara einstefna, West Ham voru búnir að gefast upp, en okkar menn bættu ekki við fleiri mörkum þrátt fyrir fjölda tækifæra.

Bestu menn liðsins

Hér er erfitt að taka einhvern út. Liðið lék einfaldlega mjög vel sem lið, pressaði vel og þetta var klárlega sigur liðsheildarinnar. Salah á nú líklega helst skilið að fá nafnbótina maður leiksins, enda skoraði hann tvö mörk. Mané gæti líka alveg fengið titilinn, enda átti hann báðar stoðsendingarnar á Salah. Oxlade-Chamberlain kemur líka vel til greina, markið sem hann skoraði var e.t.v. mikilvægasta markið í leiknum, enda vitum við hvernig stressið nær stundum tökum á okkar mönnum þegar andstæðingarnir ná að minnka muninn. Hann virtist líka njóta sín vel í sínu hlutverki á miðjunni, ógnaði vel fram á við, og það er vissulega jákvætt að fá ógn frá miðjunni. Kannski er þarna að koma í ljós hvaða leikmann Klopp var raunverulega að kaupa, en ég er engu að síður á því að hann eigi að fá allt tímabilið til að sanna sig.

Þá var Milner kraftmikill þegar hann kom inn á, Can átti góða spretti, og vörnin var að standa sig vel allan leikinn. Winjaldum var kannski ekki sá mest áberandi, en er þessi vinnuhestur sem alltaf skilar sínu.

Vondur dagur

Erfitt að taka einhvern fyrir hér. Jú, Gomez hefði líklega átt að gera betur í markinu. Mignolet fór svo í eina skógarferð undir lok fyrri hálfleiks sem hefði vel getað endað með ósköpum. Annars reyndi ekki svo mjög á hann, og reyndar var hann mjög duglegur að fara út úr teignum. Þá fannst mér að Firmino hefði klárlega átt að setja eitt mark þegar hann komst einn í gegn. En svo má ekki heldur gleyma því að hann átti líka t.d. stoðsendinguna á Ox í þriðja markinu, og var sípressandi allan leikinn. Semsagt, ekki fullkominn leikur hjá þessum, en alls ekki slæmur hjá neinum.

Umræðan eftir leik

Eigum við eitthvað að ræða kaupin á Salah? Hann hefur nú skorað 7 mörk í deildinni, sem er jafn mikið og Agüero, Lukaku og Sterling hafa skorað, reyndar er það bara Harry Kane sem hefur skorað meira, eða 8 mörk. Samtals er Salah búinn að skora 15 mörk á tímabilinu í öllum keppnum. Að vera með Salah, Mané og Firmino er auðvitað bara pjúra lúxus, og þó einn þeirra finni ekki fjölina sína þá gerir það ekki svo mikið til á meðan hinir gera það. Það er akkúrat það sem við erum að upplifa núna þegar Firmino er ekki að skora mjög mikið. Liðið er núna búið að vinna 3 síðustu leiki með 3 mörkum, þrátt fyrir að hafa spilað heldur meira varnarsinnað, a.m.k. hvað bakverðina varðar. Það má að vissu leyti færa rök fyrir því að Moreno fái að fara fram á meðan Gomez er meira til baka, sem þýðir að kannski er liðið að spila oft með 3 í öftustu línu, samt ekki eins og Chelsea voru að gera í fyrra.

Liðið er núna í 4. – 7. sæti, jafnt Chelsea, Arsenal og Burnley. Þau tvö fyrsttöldu eiga reyndar leik á morgun, en það vill til að þetta eru stórleikir: Chelsea mætir United á Stamford Bridge, og Arsenal heimsækir City á Etihad. Það munu því a.m.k. tvö af þessum liðum tapa stigum á morgun.

Nú tekur auðvitað við landsleikjahlé, megum við plís biðja um að enginn meiðist í hléinu? Næsti leikur er svo ekki fyrr en 18. nóvember, þegar Southampton mæta á Anfield. Það væri rosalega gott að vera kominn með Lallana, Coutinho og Henderson í hópinn aftur þá, en liðið sýndi engu að síður í kvöld að þó þessara leikmanna njóti ekki við, þá er liðið vel fært um að vinna leiki án þeirra. Það er þó klárt mál að við viljum frekar hafa þá með frekar en ekki. Southampton voru óþægur ljár í þúfu Klopp og félaga á síðasta tímabili, og það verður gaman að sjá hvernig uppleggið verður á móti van Dijk og félögum eftir hálfan mánuð.