Allar færslur eftir Daníel Sigurgeirsson

Liverpool 5 – 0 Watford

Mörkin

1-0 Salah – 4. mín
2-0 Salah – Markamínútan
3-0 Firmino – 49. mín
4-0 Salah – 77. mín
5-0 Salah – 85. mín

Leikurinn

Leikurinn byrjaði í svolítilli snjókomu, sem þó var heldur á undanhaldi. Maður var ögn smeykur um að þetta myndi hafa áhrif á framlínuna okkar sem eru kannski ekki beint uppaldir á norðurslóðum, en þær áhyggjur reyndust ástæðulausar. Strax á 3. mínútu var Salah kominn í færi upp hægri vænginn, og mínútu síðar skoraði hann fyrsta markið eftir að hafa leikið varnarlínu Watford sundur og saman eftir góða sendingu frá Mané.

Síðan tók við tæplega 40 mínútna kafli þar sem lítið var um stórfréttir. Can þurfti að fara af velli eftir ca. 25 mínútur, og Milner tók við. Firmino slapp í gegn eftir hraðaupphlaup og fallega sendingu frá Salah, en setti boltann full nálægt markverði Watford sem tók boltann örugglega. Hinum megin þurfti Karius að taka einn skallabolta sem fór beint á hann, en átti að öðru leyti náðugan dag í markinu.

Það var svo á 43. mínútu sem Robertson og Mané tóku skemmtilegan þríhyrning vinstra megin á vallarhelmingi Watford, Robertson átti hina fullkomnu fyrirgjöf sem fór beint í lappirnar á Salah, og hann einfaldlega gat ekkert annað gert en skorað, algjörlega í takt við þessa leiktíð því Salah hefur jú ekki getað hætt að skora.

Seinni hálfleikur hófst svo eiginlega nákvæmlega eins og sá fyrri, nema að núna var það Firmino sem skoraði eftir að Salah hafði unnið boltann og sendi fyrir. Oxlade-Chamberlain kom svo inn á fyrir Winjaldum um miðjan síðari hálfleik. Þegar tæpt korter var svo til leiksloka fullkomnaði Salah þrennuna eftir laglega fótavinnu hjá Mané. Salah átti samt nóg eftir til að klára færið, en það voru líklega fjórir varnarmenn Watford að vandræðast í kringum hann, án árangurs. Í kjölfarið kom svo Danny Ings inn á í stað Firmino sem hafði átt góðan leik sem endranær. Ings átti eftir að setja mark sitt á leikinn, því hann átti gott færi nokkrum mínútum síðar, og hann „lagði upp“ fjórða mark Salah með góðu skoti sem var varið en Salah hirti frákastið. Það var n.b. Salah sem átti sendinguna á Ings sem var óheppinn að skora ekki sjálfur.

Umræðan eftir leik

Mjög einfalt: Salah. Maðurinn var að skora sína fyrstu þrennu fyrir Liverpool, og ákvað að bæta um betur og hafa þetta 4 mörk. Hann er kominn með 28 mörk í deildinni og 37 mörk í öllum keppnum. Það fer alveg að verða spurning um að kaupa faxtækið af Madrid? En já, hann fær að sjálfsögðu nafnbótina maður leiksins. Það er líka rétt að nefna að Karius var að næla sér í enn eitt hreina lakið, og er núna kominn yfir 50% hlutfall, þ.e. meira en helmingur leikja hans í deildinni hafa endað með hreinu laki. Eins og svo oft áður var liðið allt að spila vel, það var einna helst að manni fyndist Henderson vera aðeins úr takti á köflum, en það voru bara einstaka tilfelli. Líka rétt að minnast á frammistöðu Mané, þó hann kæmist ekki á blað átti hann mjög góðan leik og virtist á köflum liggja aðeins dýpra en áður.

Nú tekur við landsleikjahlé, Liverpool verður í 3ja sæti fram að næsta leik þar sem Tottenham lék í bikarnum. Næsti leikur er á móti Palace sem virðast vera að rétta aðeins úr kútnum, svo ekki verður það auðvelt. Síðan þarf að mæta einhverju liði úr Manchester, en við spáum í þá leiki síðar.

Byrjunarliðið gegn Watford

Þá fer leikurinn að hefjast, skemmst frá því að segja að Beardsley var spot on með liðið:

Karius
Gomez – Matip – van Dijk – Robertson

Can – Henderson – Winjaldum

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Milner, Klavan, Oxlade-Chamberlain, Alexander-Arnold, Ings, Moreno

Nú er bara að ná upp aftur dampi, það er bara akkúrat þessi leikur núna og svo tekur við landsliðshlé.

ÁFRAM ÍSLAAAA….LIVERPOOOOOOL!!!

Minnum svo á #kopis á Twitter:


Benitez kemur í heimsókn

Á laugardaginn kl. 17:30 er komið að næsta leik okkar manna í úrvalsdeildinni þegar hinir röndóttu Newcastle liðar mæta á Anfield með Rafa nokkurn Benitez í broddi fylkingar. Það má búast við hörkuleik, og stigin 3 eru svo sannarlega allt annað en örugg, því Rafa hefur aldrei tapað fyrir Liverpool.

Newcastle

Í haust léku liðin á St. James Park, það væri kannski ekki úr vegi að rifja upp upphitun Beardsley fyrir þann leik, þar sem hann tók t.d. saman sameiginlegt lið þessara tveggja liða, skipað leikmönnum sem leikið hafa með báðum liðum. Jonjo Shelvey komst bara á bekkinn í því liði. Hvar hann verður á laugardaginn er óvíst. Hann ku víst hafa meiðst á hné nýlega, og skv. Physioroom er óljóst hvort hann verður leikfær. Jafnvel þó svo hann verði það hefur hann verið gagnrýndur fyrir lélega varnarvinnu í leiknum gegn Bournemouth, en sá leikur endaði með jafntefli eftir að Newcastle komst í 2-0. En á hinn bóginn fékk hann mjög góða dóma fyrir frammistöðu sína í leiknum gegn United, sem hinir röndóttu unnu einmitt 1-0 sælla minninga. Það hvort Shelvey er með eða ekki geta því verið bæði góðar fréttir og slæmar.

Hvað varðar aðra leikmenn Newcastle, þá greinir téð Physioroom síða frá því að Dwight nokkur Gayle verði mögulega ekki leikfær, og hvorki Slimani né Gamez verði með.

Aðdáendur Newcastle eru síður en svo bjartsýnir fyrir leikinn ef marka má „pre-match“ þráð þeirra inni á Reddit. Þar er talað um að Liverpool sé með hættulegustu sóknina í deildinni, og að eini möguleikinn sé sá að spila aftarlega en treysta á að vörn þeirra rauðklæddu geri mistök. Kunnuglegt stef í þessari 38 þátta sinfóníu sem leikin er, gæti jafnvel hafa heyrst í einhverri mynd áður? Við vitum það svosem að Rafa kann alveg þá list að mæta með vel skipulagt lið til leiks, og ekkert sem segir að það klikki eitthvað núna frekar en áður. En við verðum bara að treysta á að okkar menn finni glufu á varnarmúrnum. Og talandi um okkar menn…

Liverpool

Það verður að segjast að það er erfitt að koma inn í leik sem þennan á mikið jákvæðari nótum. Liðið er á góðu „run“-i, hefur aðeins tapað einum leik í deildinni síðan hinn alræmdi leikur gegn Tottenham á Wembley fór fram, er í harði baráttu um 2. sætið í deild þar sem 1. sætið er búið að vera utan seilingar fyrir öll lið í lengri tíma, og var fyrir ekki svo löngu síðan að vinna stærsta útisigur sem unnist hefur í 16. liða umferðinni í Meistaradeildinni, og því nánast formsatriði að tryggja sig inn í 8. liða úrslitin (undirritaður verður einmitt á þeim leik og það kemur bara ekkert til greina að fara að klúðra þessu á Anfield). Þar fyrir utan eru nánast engir okkar manna meiddir: Winjaldum og Ings voru með einhverja flensu síðast en eru sjálfsagt að braggast, og Clyne er vissulega bara rétt nýskriðinn upp úr meiðslum, en spilaði þó með U23 liðinu nýlega og fer því sjálfsagt að detta í að verða leikfær með aðalliðinu. Að öðru leyti eru allir aðrir leikmenn tilbúnir í slaginn. Nú og svo er sóknartríóið okkar alltaf að verða skuggalegra og skuggalegra, komnir með yfir 60 mörk í öllum keppnum í vetur.

Við Liverpool aðdáendur vitum svosem ósköp vel að svona jákvæðni hefur nákvæmlega ekkert að segja um leið og flautað er til leiks. Það þarf nú ekki að fara lengra aftur en að Swansea leiknum núna í janúar, en þá var nýbúið að leggja hið alræmda City lið þrátt fyrir Coutinho leysi, og einhvers konar algleymi sveif yfir vötnum okkar Púlara, þar sem ekkert virtist geta stöðvað skósveina Klopp. Það tók nú ekki langan tíma að kippa okkur niður á jörðina og það harkalega.

Það er því ekkert annað að gera en að fylgja máltækinu gamalkunna: vona það besta en búa sig undir það versta. Með öðrum orðum: tap eða jafntefli er ekkert óhugsandi, það byrja bæði lið með 0 mörk skoruð, og ef menn mæta ekki með hausinn rétt skrúfaðan á er auðvelt að missa andstæðingana fram úr sér. En á sama tíma þarf maður líka að vona það besta, trúa því að okkar menn mæti fullir sjálfstrausts og með hæfilegt magn af sjálfsöryggi. Og gleymum því ekki heldur að það eru ýmis batamerki á liðinu. Vörnin virðist vera að fá aukið sjálfstraust. Miðjan virðist vera farin að finna eitthvað jafnvægi. Karius virðist vera farinn að finna sig í markinu. Um sóknarþríeykið þarf svo lítið að ræða.

Á maður svo að reyna að spá fyrir um liðið? Jú það er nú hluti af skemmtuninni. Þrátt fyrir að seinni Porto leikurinn sé rétt handan við hornið, þá tel ég engar líkur á að Klopp noti þennan leik fyrir eitthvað „rotation“. Hann mun einfaldlega stilla upp því liði sem hann telur sterkast gegn skósveinum Rafa. Líkamlegt ástand leikmanna spilar sjálfsagt einhverja rullu, t.d. hefur Gomez verið utan liðs síðustu leiki, og TAA hefur staðið vaktina á meðan. Kannski metur Klopp það svo að nú sé kominn tími á að hlífa Trent, það má jú ekki gleyma því að hann er ennþá bara krakki. Miðjumennirnir 6 eru allir option, í raun hefur enginn þeirra verið að standa sig eitthvað áberandi vel eða áberandi illa upp á síðkastið, nema þá kannski einna helst Milner sem sýnir engin ellimerki þrátt fyrir háan aldur. Það gæti því hver sem er þeirra verið í byrjunarliðinu: Milner, Can, Ox, Hendo, Gini eða Lallana. Karius verður nokkuð örugglega í markinu, skytturnar þrjár verða í framlínunni, van Dijk verður í miðverði og Robertson í vinstri bak. Annaðhvort Lovren eða Matip verða með van Dijk. Þannig spái ég a.m.k. Prófum því að stilla þessu einhvernveginn svona upp:

Karius

Gomez – Lovren – van Dijk – Robertson

Ox – Hendo – Can

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, TAA, Matip, Milner, Lallana, Solanke, Ings

Þeir sem eru utan hóps eru í þessari uppsetningu: Moreno, Klavan, Winjaldum og svo kjúklingar eins og Ward og Woodburn (já ég er viljandi að gleyma Bogdan).

Og spáin? Við skulum í fyrsta lagi spá því að leikurinn muni fara fram, þrátt fyrir vetrarríki á Bretlandseyjum (með 2ja cm snjódýpt og logni). Við skulum segja að nú sé komið að því að Rafa lúti í gras. Segjum 3-1, þar sem Salah skorar 2 og Ox setur eitt stykki.

Díll?
YNWA!

Porto – Liverpool: leikþráður

Þá er leikdagur runninn upp, liðið verður auðvitað ekki tilkynnt fyrr en rétt fyrir leik, en við hendum inn leikþræði til að kynda undir stemminguna.

Það er fjöldinn allur af íslendingum úti sem verða á leiknum í kvöld, þar á meðal stór hluti af kop.is genginu. Hver veit nema það detti inn myndir og athugasemdir frá okkar fólki á staðnum, hvort sem er hér á þræðinum eða á Twitter undir myllumerkinu #kopis:


 

Spurs mæta á Anfield

Þegar þessi leiktíð hófst var vitað að nokkrir leikir yrðu erfiðari viðfangs en aðrir: City úti, Tottenham á Wembley, og Swansea úti. Og mikið rétt, þessir leikir töpuðust allir. Sem betur fer hefur náðst að rétta okkar hlut með því að vinna City heima, og Svanirnir máttu líka lúta í gras á Anfield. Nú er komið að því að svara fyrir þriðja tapið, því seinnipartinn á sunnudaginn mæta Kane, Eriksen, Alli og félagar, og freista þess að ná einhverjum úrslitum á Anfield.

Þetta er klassískur 6 stiga leikur, en með aukinni vikt því Spursarar hafa verið þeir sem helst hafa andað ofan í hálsmálið á okkar mönnum í baráttunni um Wenger bikarinn fjórða sætið. Frækinn sigur Eddie Howe og félaga hjá Bournemouth á Chelsea í síðustu umferð gerði það vissulega að verkum að Rauði herinn færðist upp í 3ja sætið á kostnað þeirra bláklæddu, en það eru bara 2 stig sem aðskilja þessi 3 lið, og nóg eftir í pottunum. United menn eru svo auðvitað bara í seilingarfjarlægð, svo þetta er barátta þriggja liða um sæti 2-4 eins og staðan er núna. Þessi lið mega svo lítið misstíga sig því Arsenal skyldi síst vanmeta.

Andstæðingarnir

Tottenham mæta á Anfield eftir frækinn sigur á United í síðustu umferð, þar sem Eriksen skoraði 3ja fljótasta markið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, eða eftir 11 sekúndur. Sá leikur var á miðvikudaginn meðan okkar menn spiluðu á þriðjudaginn. Skiptir það máli? Ég efast um það, 5 daga hvíld hjá öðru liðinu vs. 4 dagar hjá hinu ætti ekki að skipta sköpum, en útilokum samt ekkert. Allavega, þeir yfirspiluðu djöflana og fóru heim með öll 3 stigin, þó það hefði e.t.v. hentað okkur betur ef leikurinn hefði endað með jafntefli. Þýðir ekki að gráta það núna.

Þá hefur nýr liðsmaður bæst í hóp andstæðinganna: Lucas Moura sem var keyptur frá PSG fyrir einhverjar 25 millur sem eru auðvitað bara smáaurar nútildags. Hvor honum verði hent út í djúpu laugina strax á sunnudaginn er ekki gott að segja, skv. þessari grein ku Pochettino hafa sagt að hann reikni síður með að spila honum.

Formið hjá Coys í síðustu leikjum verður að teljast bara ágætt. Sigrar á United, Everton og Swansea í síðustu 5 leikjum, auk tveggja jafntefla gegn Southampton og West Ham. Þeir töpuðu síðast leik gegn City þann 16. desember sl., og þar á undan þurftu þeir að lúta í gras gegn Leicester í lok nóvember. Semsagt, þeir eru á ágætis rönni og eru bara alls ekkert árennilegir. Kane er auðvitað markahæsti leikmaður deildarinnar í augnablikinu, og er tveim mörkum fyrir ofan hinn Egypska Messi Mohammad Salah. Það vekur athygli að þeir eru báðir að skora með 98 mínútna millibili að meðaltali. Salah er hins vegar með fleiri stoðsendingar.

Þar sem greinarhöfundur er að öðru leyti alls enginn sérfræðingur í því hvernig téður Pochettino stillir upp sínum liðum, þá verður ekki gerð nein tilraun til að spá fyrir um þeirra lið. Held að það megi einfaldlega reikna með feikisterku liði sem mætir á Anfield, væntanlega með Hugo Lloris í markinu, Harry Kane frammi, og svo fullt af sterkum leikmönnum þar á milli.

Okkar menn

Á blaðamannafundi fyrr í dag talaði Klopp aðeins um það hvernig staðan á hópnum væri. Það styttist í Clyne (sem var skráður til leiks í seinni hluta Meistaradeildarinnar, ásamt Ings og van Dijk, en það er önnur saga), þó hann sé ekki farinn að æfa með liðinu ennþá. Lallana er að æfa, en hvort honum verði hent í byrjunarliðið skal ekkert fullyrt um. Í öllu falli virðist hann ekki vera kominn í 100% líkamlegt ástand. Umræðan um van Dijk er búin að vera mjög skrýtin. Bæði var frammistaðan hjá honum í leikjunum á móti Swansea og WBA ekkert endilega til að hrópa húrra yfir þó svo hann hafi klárlega verið slakasti maður liðsins í hvorugum leiknum. Hitt er svo annað mál að hann er kynntur til sögunnar í byrjun janúar, þá er liðið búið að vera að spila saman síðan í júlí og hann þarf að venjast fullt af nýjum liðsfélögum, breyttum áherslum í leikstíl, og þar að auki venjast gagnrýni á holdafar sitt frá Carragher (sem Klopp svaraði síðan með því að taka undir það að Carra mætti örugglega létta sig eitthvað). Í öllu falli er afskaplega eðlilegt að hann þurfi sinn tíma til að aðlagast og smella almennilega inn í liðið. Kannski gerist það ekki fyrr en í haust, kannski fyrr. Undirritaður hefur fulla trú á að van Dijk verði einn af máttarstólpum liðsins áður en langt um líður.

Væntanlega eru samt áhangendur ólmir í að sjá Virgil aftur í rauðu treyjunni, og hann var a.m.k. að æfa í dag ef marka má myndir frá æfingu á Facebook síðu klúbbsins. Ég ætla því að veðja á að við sjáum hann í byrjunarliðinu á sunnudaginn. Reyndar spái ég ekkert svo mörgum breytingum á liðinu frá síðasta leik, ætla að spá því að Oxlade-Chamberlain komi inn í staðinn fyrir Milner og van Dijk inn fyrir Lovren. Það mætti líka alveg færa rök fyrir því að Lovren ætti að fá að halda sæti sínu, enda er hann búinn að vera frekar öflugur upp á síðkastið þegar hann hefur spilað. En svona er spáin:

Karius

Gomez – van Dijk – Matip – Robertson

Can – Henderson – Chamberlain

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, TAA, Lovren, Moreno, Winjaldum, Ings, Solanke

Á bekkinn vantar bæði Milner, Klavan og Lallana, mögulega fær Milner frekar að setjast þar í stað Moreno. Kannski ætti Ward líka að vera á bekknum í stað Migs, enda er ég sammála Magga í síðasta podcasti þar sem hann talaði um að hausinn á Mignolet sé kominn annað.

Og úrslitin? Þetta verður auðvitað hörkuleikur, en það hefur vissulega alltaf verið þannig að Tottenham hafa verið frekar sókndjarfir gegn okkur, og það hefur oftast hentað ágætlega. Eigum við ekki að segja að okkar menn haldi dampi frá síðasta leik, og að Salah setji eitt í hvorum hálfleik? 2-0 takk fyrir, og þá verðum við öll sátt. Á sama tíma væri rosalega gaman ef Wagner og co. hjá Huddersfield standa sig á laugardaginn, og þá mega Watford alveg krækja í eins og eitt stig eða þrjú á mánudaginn (ég leyfi lesendum að finna út við hvaða lið þessi eru að fara að spila).

Að lokum óska ég þess að Gemma Bonner nái sér sem allra fyrst af sínum meiðslum, enda má kvennaliðið alls ekki við því að missa fyrirliðann, ekki frekar en karlaliðið.

YNWA!