Allar færslur eftir Daníel Sigurgeirsson

United á laugardaginn

Það hefur nú yfirleitt verið ákveðinn léttir að landsliðshléunum ljúki, en þetta hlé hefur vissulega verið ólíkt öðrum. Það þarf ekki að fjölyrða um árangur íslenska liðsins og það afrek sem það er að komast beint í lokakeppnina á HM, undirritaður átti nú ekki von á því að lifa þann dag, en það sem Heimir og strákarnir eru búnir að troða sokk upp í efasemdarpésa hverskonar. Þeir semsagt stórbættu árangurinn frá forkeppni EM þrátt fyrir að Lars hætti, og þrátt fyrir að hafa misst Kolbein Sigþórsson alveg úr liðinu.

Nóg um íslensku strákana okkar, en snúum okkur að scouse strákunum okkar. Það eru nokkur atriði sem gera það að verkum að tilhlökkunin er ekki alveg sú sama og oft áður. Mestu munar auðvitað um það að Sadio Mané þurfti að meiðast á 89. mínútu í landsleik sem skipti engu máli, og verður frá í 6 vikur, sem þýðir að hann missir af 9 leikjum. Við fögnum þessu auðvitað.

Not

Liðið var þar að auki að ganga í gegnum tímabil óöryggis áður en landsleikjahléið skall á, hvorki Firmino né Sturridge voru að finna fjölina sína, einna helst að Coutinho hafi verið í stuði. Hann þurfti svo auðvitað að spila landsleik á miðvikudagsmorguninn hinum megin á hnettinum, og óvíst um það í hvaða ástandi kappinn verður þegar flautað verður til leiks á laugardagsmorguninn. Firmino spilaði svosem bara síðustu mínúturnar, en flugið og tímamunurinn eru samt örugglega ekkert að hjálpa. Líkamlega ástandið á Lovren hefur verið þekkt, hann spilaði jú ekki fyrri leikinn fyrir Króatíu, en spilaði allan seinni leikinn, og það gefur nú smá von um að hann geti leikið á laugardaginn. Manni er samt ekkert vel við það að hafa hann inni á vellinum í einhverju pillurússi, ég efast um að það fari vel með skrokkinn á honum til lengdar.

Nú og svo hjálpar svosem ekki til að mótherjarnir eru ekki þeir auðveldustu. United menn hafa auðvitað verið á gríðarlegri siglingu það sem af er tímabils og eru jafnir City á toppnum, bara markatala sem aðskilur liðin. Þar að auki er United eitt þeirra liða sem Klopp á enn eftir að vinna í deildinni, en það hjálpar vissulega að hafa lagt þá í Evrópudeildinni fyrir rúmu ári síðan. Nú og svo má kannski segja að það hjálpi ögn að hvorki Pogba né Fellaini séu leikfærir. Breytir því ekki að það kemur maður í manns stað hjá þeim, og því engin ástæða til að ætla annað en að þeir verði mjög erfiðir. Við getum svo kannski huggað okkur við það að þó svo að þeim hafi gengið vel hingað til, þá hafa þeir bara leikið við lið sem í augnablikinu eru í sætum 12-20 í deildinni.

Nú og til að toppa vitleysuna þá bárust þær fréttir í vikunni að Klopp hafi haft augastað á stjórastarfinu hjá United á sínum yngri árum. Jafnframt kom í ljós að hann fékk tækifæri til þess, en hafnaði tilboðinu. Klopp kom svo til Liverpool „and the rest is history“ eins og skáldið sagði. Gleymum heldur ekki að Mourinho ku víst líka hafa haft augastað á því að þjálfa Liverpool á sínum tíma, og óskaði sér þess heitast að hafa Gerrard í sínum röðum. Svo þetta virkar alveg í báðar áttir.

Allavega, það er engin ástæða til að ætla annað en að þetta verði hörkurimma eins og venjulega. Og ef það er einhverntímann tækifæri til að rífa sig upp úr lægð, þá er það með því að vinna United á Anfield. Það eru bara þessar örfáu spurningar sem þarf að spyrja:

  • Verða Brassarnir og Lovren leikfærir?
  • Mætir miðjan til leiks?
  • Mun Salah halda áfram þar sem frá var horfið frá síðasta landsleik?
  • Hver fær sénsinn í bakvörðunum?
  • Fær Alex Oxlade-Chamberlain sénsinn nú þegar Mané er meiddur?
  • Hrekkur Firmino í gírinn sem hann virðist hafa hrokkið úr þegar hann brenndi af vítinu á móti Sevilla?

Semsagt, bara örfáar spurningar, annars liggur þetta allt ljóst fyrir.

Ég ætla að spá þessu svona:

Mignolet

TAA – Matip – Lovren – Moreno

Can – Henderson – Winjaldum

Salah – Firmino – Coutinho

Bekkur: Karius, Gomez, Klavan, Milner, AOC, Solanke, Sturridge.

Ég sé auðvitað alveg fyrir mér að Klopp geti tekið einhvern annan pól í hæðina. Kannski metur hann það svo að Gomez eigi að byrja frekar en TAA, ég myndi persónulega vilja sjá einhvern innfæddan í byrjunarliðinu, þetta er þannig leikur, nú og þar að auki er Gomez búinn að vera ögn villtur í síðustu leikjum. Held við megum síst við því að missa mann af velli með rautt spjald, eins og hefur nú gerst í eitt skipti eða tvö þegar þessi lið eigast við. Þá er þetta spurning um líkamlegt form á mönnum, ef menn meta það svo að Coutinho verði ekki orðinn 100% leikfær þá fær AOC e.t.v. sénsinn. Og hvað veit maður, aldrei að vita hvaða „plot twist“ koma upp í reyfaranum sem sagan um þetta lið okkar óneitanlega er.

Ég ætla ekkert að spá um það hverjir byrja fyrir hönd United manna, enda er mér drullusama, og okkar mönnum ætti í raun að vera það líka. Þeir eiga bara að mæta eins og grenjandi ljón, og ekki sætta sig við neitt nema sigur.

Eigum við ekki að segja að Klopp sé búinn að stúdera leikstíl Mourinho nægilega og að okkar menn vinni þennan leik? Þess má geta að Liverpool Ladies riðu á vaðið núna í fyrrakvöld og unnu Sheffield 6-0, þar sem Gemma Bonner fyrirliði lék sinn 100. leik fyrir liðið. Segjum að þetta verði strákunum innblástur og að þeir taki þetta 2-0 með mörkum frá Coutinho og Matip eftir hornspyrnu.

Koma svo!

Landsleikjahlé – opinn þráður

Þá er blessað landsleikjahléð skollið á. Má alveg deila um hvort það sé bölvun eða blessun, kannski er bara fínt að brjóta upp stemminguna hjá hópnum.

Það eru engar stórfréttir af okkar mönnum. Ben Woodburn var reyndar valinn ungi leikmaður ársins í Wales af almenningi, og er vel að því kominn.

Enn er verið að karpa um það hvenær leikurinn við Arsenal verður spilaður nákvæmlega, tillögur um að spila hann á aðfangadag virðast fara illa í nánast alla sem koma að leiknum, skal það engan undra. Fyrir okkur sem horfum heima í stofu gæti þetta mögulega virkað, en ég myndi ekki vilja vera að fara á völlinn og eiga svo eftir að koma mér heim eftir leik kl. 18 á aðfangadagskvöld.

Orðið er annars laust.

Spartak 1 – 1 Liverpool

Mörkin
23. Fernando 1-0
31. Coutinho 1-1

Leikurinn
Þetta var leikur sem okkar menn áttu að vinna, en verður líklega helst minnst fyrir glötuð marktækifæri. Firmino fann sig alls ekki í leiknum, hefði getað skorað snemma í leiknum þegar hann fékk frían skalla rétt fyrir framan markteig en skallaði nánast beint á markvörðinn. Salah fékk svipað færi í lokin. Sturridge kom inn á í seinni hálfleik og fann sig ekki, fékk samt nokkur færi til að skora en nýtti ekkert þeirra. Mané og Coutinho gerðu vel í markinu, en því miður var það eina sóknin sem skilaði marki.

Vörnin fannst mér alls ekki slæm í þessum leik, þó svo að hún sé auðvitað ennþá umfjöllunarefni og verður það alveg örugglega næstu mánuðina. Markið má e.t.v. einna helst skrifa á Can sem tapaði boltanum klaufalega á miðjunni, það leiddi til áhlaups sem endaði á því að Coutinho gaf aukaspyrnu, og svo má spyrja sig hvort Karius hefði átt að gera betur í aukaspyrnunni. Almennt fannst mér Karius ekki vera að gera neitt til að undirstrika að hann eigi að fá einhver fleiri tækifæri í deildinni, og undirritaður er hreinlega farinn að hallast að því að Ward megi alveg fara að fá fleiri tækifæri á kostnað Karius og jafnvel Mignolet.

Bestu menn leiksins
Eins og kemur fram að ofan voru nokkrir leikmenn sem voru ekki að finna sig. Mér fannst vörnin þó vera nokkuð solid, en ætla að tilnefna fyrirliðann Henderson sem mann leiksins, mér fannst hann vera að vinna vel allan leikinn, braut upp nokkrar skyndisóknir Spartak og hefði með réttu átt að eiga stoðsendingu þegar hann átti frábæra sendingu á Sturridge sem var aleinn fyrir innan vörnina en náði ekki að klára sitt færi. Coutinho og Mané áttu líka spretti, persónulega hefði ég viljað sjá Mané klára leikinn og frekar að fá Firmino útaf þegar Sturridge kom inn á. Þá fannst mér varnarlínan eiga nokkuð góðan dag, svona heilt yfir.

Vondur dagur
Hér er það klárlega Can sem er nefndur fyrstur. Hann fékk á sig gult spjald strax á 5. mínútu, missti boltann klaufalega í markinu, og var svo að lokum tekinn út af. Honum skammt á hæla kemur svo Firmino sem er í einhverri lægð. Ég er búinn að nefna Karius, ef hann er sá sem Klopp keypti til liðsins til að verða markvörður nr. 1, þá má hann alveg fara að sýna það. Það þarf klárlega að gefa honum tíma, rétt eins og öðrum leikmönnum, en í augnablikinu virkar hann ekki á mig sem upgrade á Mignolet.

Umfjöllunin eftir leik
Færanýtingin. Þetta átti að vera sterka hlið þessa liðs, nú loksins með Coutinho, Mané, Salah og Firmino í framlínunni. En nei, útkoman er eitt mark. Maður spyr sig hvort Solanke hefði mátt koma inn á, Klopp notaði bara tvær skiptingar og hefði að mínu mati alveg mátt skipta Firmino fyrr út og setja Solanke inn á.

Við skulum samt muna að þetta var útileikur í Rússlandi, stemmingin á pöllunum var gríðarleg, og í sjálfu sér er ágætt að fara þaðan með eitt stig. En þá verður líka heimaleikurinn að vinnast. Nú er það ljóst að liðið má t.d. ekki tapa úti á móti Sevilla, verður að vinna Spartak heima, og svo þarf að sjálfsögðu að klára Maribor bæði heima og heiman, ekkert ósvipað eins og Sevilla gerðu í kvöld með því að vinna 3-0.

Næst heimsækja okkar menn St. James’ Park og hitta þar fyrir Rafa nokkurn Benitez. Newcastle töpuðu síðasta leik og verða því örugglega grimmir, enda höfðu þeir átt nokkuð gott mót fram að því, voru í efri hlutanum, og vilja örugglega komast þangað aftur. Sá leikur er á sunnudaginn svo okkar menn fá nú smá hvíld fyrir þann leik. Ég á svosem ekki von á því að liðið sé orðið eitthvað úrvinda strax í lok september, og virtist a.m.k. vera í mun betra leikformi heldur en Spartak menn.

Byrjunarliðið gegn Spartak

Upphitunin var svo löng að þessi póstur verður með styttra lagi.

Klopp kemur lítið á óvart með liðsvalinu:

Karius

Alexander-Arnold – Lovren – Matip – Moreno

Henderson – Can

Coutinho
Salah – Firmino – Mané

Á bekknum eru: Mignolet, Klavan, Milner, Flanagan, Winjaldum, Oxlade-Chamberlain, Sturridge.

Það sem kemur kannski einna helst á óvart er að Flanagan skuli vera á bekknum en ekki Robertson.

Vonum svo að aðalliðinu gangi betur heldur en U19 í sínum leik við Spartak í dag.

YNWA!

Við minnum svo á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.


Upphitun: Leicester í deild

Eftir langa bið er loksins komið að því að Liverpool heimsæki Leicester, en þangað hafa okkar menn ekki komið síðan á þriðjudaginn. Reyndar eru líkur á því að þessir leikir verði alls ekkert líkir þegar kemur að liðsskipan, enda notaði Klopp breiddina í hópnum talsvert í deildarbikarnum. Þegar svona leikir tapast eins og gerðist á þriðjudaginn er þjálfarinn að jafnaði í „damned if you do, damned if you don’t“ aðstöðu, því ef þeir spila aðalliðinu og tapa þá eru þeir skammaðir fyrir að þreyta aðalliðið í ómerkilegri keppni, og ef þeir spila varaliðinu þá eru þeir skammaðir fyrir að nota ómögulega leikmenn og að henda inn handklæðinu fyrir leik.

Ég hef fulla trú á að Klopp hafi alls ekki verið að henda inn handklæðinu með liðsvalinu í síðasta leik, hann hafi einfaldlega viljað nýta breiddina, og gefa mönnum séns á að spila sig inn í aðalliðið. En það er augljóst að liðið er í einhverri krísu beggja vegna vallarins; sóknin er að skora vandræðalega fá mörk miðað við tilraunir, og vörnin er að fá á sig vandræðalega mörg mörk miðað við tilraunir andstæðinganna. Jú og miðjan er ekki að finna sig. Í raun virðist ekki skipta öllu máli hvaða leikmenn spila, þetta á við um allar uppstillingar. Eins og oft vill verða við svona kringumstæður þá vakna raddir sem fullyrða að hópurinn sé ömurlegur, þjálfarinn ómögulegur, sumarkaupin gjörsamlega misheppnuð og já, réttast væri að skipta bara öllu klabbinu út. Undirritaður er nú alls ekki í þeim hópi. Öll lið eiga lélega kafla, skemmst er að minnast septembermánaðar hjá Chelsea síðasta vetur, en þá unnu þeir ekki leik. Er það einhver afsökun? Nei, lið eiga ekki að sætta sig við það að spila illa eða ná lélegum úrslitum. Enda tel ég alveg ljóst að Klopp og félagar séu ekki par ánægðir með úrslitin í síðustu 4 leikjum, og séu að vinna að því að finna leiðir til úrbóta. Þetta kom berlega í ljós á síðasta blaðamannafundi þegar Klopp sagðist vera „sick of it“ í umræðu um mörkin sem liðið hefur verið að fá á sig.

Eftir leikinn á þriðjudaginn var undirritaður viss um að fæstir þeir sem spiluðu þann leik myndu koma við sögu í þessum leik á laugardaginn, en svo bárust fréttir af því að Lovren, Matip og Can væru að glíma við hnjösk. Sem betur fer er Can farinn að æfa aftur, en það er enn óljóst hvað verður með miðverðina okkar tvo. Sem betur fer höfum við Sakho á bekkn… æ nei alveg rétt. Jæja, við getum þá kallað Lucas inn í miðvö… já nei það er víst ekki hægt. Ekki þóttu Klavan og Gomez vera að heilla á þriðjudaginn, ætli það þurfi samt að spila þeim? Jæja það eru alltaf Masterson og Lloyd Jones úr U21 árs liðinu…

Hvað aðra varnarleikmenn varðar, þá er nokkuð ljóst að Ward fer aftur upp í stúku og Mignolet tekur við í marki. Þá á ég fastlega von á því að sjá Moreno og TAA koma í bakverðina.

Það er einna helst að miðjan fái að halda sér. Henderson, Winjaldum og Grujic voru þar á þriðjudaginn, og það er vitað að Grujic fer aftur upp í stúku eða á bekkinn. Ég tel líklegt að Can komi inn í þessum leik fyrst hann er farinn að æfa aftur, Coutinho spilaði í framlínunni fyrri hálfleikinn á þriðjudaginn og gæti komið aftur inn á miðjuna núna, en er þó tæpast kominn í fullt leikform, svo ég á ekki von á að sjá hann þar allan leikinn. Þá er möguleiki að við sjáum Milner detta þarna inn, þó að ég verði að viðurkenna að ég hálf sakna þess að hafa hann ekki bara í vinstri bak eins og á síðustu leiktíð.

Í framlínuna mæta svo sjálfsagt Firmino, Salah og einhver sem kemur í staðinn fyrir Mané sem mun taka út sinn þriðja og síðasta leik í leikbanni. Eins og svo oft áður þá er liðið að sakna Mané alveg svakalega, og við sem horfum söknum hans líka. Hvort það verður Sturridge sem kemur aftur inn eins og í síðasta deildarleik veit ég ekki. Nú sá ég ekki þann leik og get því ekki fullyrt um hvernig hann var að standa sig. Ég hef hins vegar á tilfinningunni að Firmino blómstri helst ef hann fær að vera fölsk nía, en sé ekki jafn effektívur úti á kanti með Sturridge fremstan. Sama held ég að gildi um Sturridge, hann fílar sig held ég best sem fremsti maður eða sem annar af tveim framherjum a la SAS. Engu að síður tel ég líklegast að Klopp tefli þeim tveim fram í fremstu víglínu, frekar en að setja Chamberlain þarna þó það sé vissulega möguleiki. Hann var kannski ekki að heilla neitt svakalega á þriðjudaginn, en e.t.v. þarf hann einmitt bara leikæfinguna og að fá að spila sig inn í hópinn.

Svo er auðvitað alltaf einhver smá séns á að Klopp hristi upp í þessu og spili 4-4-2 með tígulmiðju, bara til að hræra upp í hlutunum. Munum að hann gerði það í síðasta leiknum í vor, með ágætum árangri. Ég ætla þó ekki að gerast svo djarfur að spá því.

Allavega, ég ætla að tippa á að þetta verði uppstillingin:

Mignolet

TAA – Klavan – Gomez – Moreno

Can – Henderson – Coutinho

Salah – Sturridge – Firmino

Bekkur: Karius, Robertson, Masterson, Grujic, Milner, Chamberlain, Solanke.

Tek það fram að vegna þessara meiðslavandræða þá er þetta svolítið skot í myrkri. T.d. gæti alveg verið að Lovren fari á bekkinn eins og síðast, þó hann sé ekki tilbúinn í að spila 90 mínútur. Held það verði nú samt að setja einhvern miðvörð á bekkinn og þess vegna set ég Masterson þarna. Eins er aldrei að vita nema Woodburn fái einhvern séns, mér þykir hann alveg eiga það skilið, en kannski er Klopp ennþá að passa að honum verði ekki hent of snemma út í djúpu. Drengurinn enda nýskriðinn úr grunnskóla.

Hvað lið Leicester varðar, þá á ég ekki von á neinu öðru en að þeir mæti með sitt sterkasta lið. Vardy mætir sjálfsagt í framlínuna, Schmeichel í markið, og svo verða the usual suspects þar á milli. Við skulum jú muna að það er rúmt ár síðan þetta lið hampaði bikarnum, þó þeir séu reyndar búnir að missa menn eins og Kante, Drinkwater og fleiri síðan þá, en það kemur jú maður í manns stað.

Svona rétt í lokin er rétt að minna á að Liverpool Ladies eru að hefja sína leiktíð í kvöld, og fyrsti leikur er derby viðureign við erkifjendurna í Everton. Búast má við að leiknum verði útvarpað á Facebook síðu liðsins, fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á að fylgjast með Bonner, Chamberlain og öllum hinum stelpunum okkar.

Eigum við ekki bara að segja að bæði liðin taki sig til og vinni þessa leiki? 2-1 hjá strákunum og 1-0 hjá stelpunum? Díll?