Allar færslur eftir Daníel Sigurgeirsson

Æfingaleikur: Chester – Liverpool

Í dag fór fram æfingaleikur milli Chester og Liverpool, reyndar á sama tíma og England og Svíþjóð léku á HM. Af einhverjum ástæðum var ekki hægt að færa þennan æfingaleik, mögulega barst sú beiðni ekki með 3ja vikna fyrirvara eins og krafa er um í slíkum tilfellum.

Klopp stillti upp tveim liðum í sitt hvorum hálfleiknum, Moreno var fyrirliði í þeim fyrri og Milner í síðari.

Karius

Clyne – Gomez – Phillips – Moreno

Fabinho – Jones – Woodburn

Wilson – Solanke – Origi

Í síðari hálfleik var stillt svona upp:

Ward

Robertson – Klavan – Phillips/Chirivella – Camacho

Milner – Keita – Kent

Ojo – Ings – Sturridge

Það er skemmst frá því að segja að okkar menn áttu góðan dag. Wilson setti fyrstu tvö mörkin og staðan því 2-0 í hálfleik. Í síðari hálfleik byrjaði Milner á að skora úr eina vítinu sem Liverpool fær á þessari leiktíð eftir að Ojo var felldur í teignum. Síðan skoraði Sturridge, Kent átti næsta mark með góðu langskoti, Ings átti svo næsta mark áður en Sturridge bætti við öðru. Lokastaðan því 7-0.

Það var haft orð á því að Woodburn hafi virkað massaðri heldur en áður, kannski er hann einfaldlega bara búinn að vera í ræktinni allt síðasta tímabil og það er að koma í ljós núna. Þá er ljóst að Harry Wilson heldur áfram að banka all hressilega á dyrnar hjá aðalliðinu, og eins kæmi ekki á óvart þó Curtis Jones haldi áfram að vekja athygli.

Það er síðan skammt stórra högga á milli því liðið mætir Tranmere á þriðjudaginn.

Spádómar síðuhaldara 2017-2018

Rétt eins og undanfarin ár tóku kop.is meðlimir sig til áður en tímabilið hófst síðastliðið haust, og settu saman spá fyrir deildina (fyrri hluti og seinni hluti). Eins og lesendur e.t.v. muna spáðum við allir City titlinum, sem síðan gekk eftir. Restin gekk svo mjög svo misverr, t.d. vorum við allir í ruglinu hvað varðar gengi Burnley.

Eins og síðustu ár hef ég nú tekið saman tölfræði yfir niðurstöðurnar, og er þar að vinna út frá því hvert frávik spárinnar er fyrir sérhvert lið. Dæmi: við spáðum City í 1. sæti, og það var sætið sem City lenti í, svo þar er frávikið 0. Annað dæmi: samanlagt settum við Tottenham í 6. sæti, en liðið endaði í 3ja sæti, svo þar erum við með frávik upp á 3. Semsagt, því lægra frávik, þeim mun betra. Þessi tölfræði gerir ekki greinarmun á því hvort frávikið er upp (liðinu gekk betur en við reiknuðum með) eða niður (liðinu gekk verr).

Síðustu árin hefur frávikið verið eftirfarandi:

  • 2016-2017: 2.8
  • 2015-2016: 3.8
  • 2014-2015: 2.6
  • 2013-2014: 2.8
  • 2012-2013: 3.5
  • 2011-2012: 4.0
  • 2010-2011: 2.3
  • 2009-2010: 2.2
  • 2008-2009: 3.6

Og hvernig gekk okkur svo þetta árið? Jú, heildarniðurstaðan er frávik upp á 2.8 fyrir sameiginlegu spána. Semsagt, hefur bæði verið betri og verri. Fyrir þau ykkar sem vilja skoða gögnin nánar er hægt að skoða tölurnar hér.

Samkvæmt þessu er Hannes því mesti spámaður kop.is, með frávik upp á 2.5, en Maggi Beardsley kemur fast á hæla honum með 2.6 og Einar Matthías þar strax á eftir með 2.7. Það er jafnframt athyglisvert að Hannes náði 6 efstu sætunum 100% rétt. Ég held að við höfum allir spáð þessum hefðbundnu topp 6 liðum í efstu 6 sætunum, bara á mismunandi hátt, með einni undantekningu þar sem Everton var sett í 6. sætið og Arsenal í því sjöunda.

Það lið sem stríddi okkur mest var að sjálfsögðu Burnley. Samanlagt setti kop.is Burnley í 17. sætið, en lokaniðurstaðan var 7. sætið, sem þýðir frávik upp á 10 sæti. Þetta er reyndar alls ekki mesta frávik á milli spáar og lokaniðurstöðu, því metið er hjá Leicester 2015-2016, þegar liðinu var spáð í 17. sæti en endaði á því að vinna deildina. Ég efast um að við eigum eftir að toppa þetta frávik nokkurntímann, því það myndi annaðhvort þýða að lið sem við spáum í top 2 myndi falla, eða að lið sem við spáum falli endi á að vinna deildina. Samt, ég hefði líklega líka sagt að við myndum aldrei sjá frávik upp á 16 áður en Leicester ævintýrið gekk yfir.

Nokkur önnur lið reyndust okkur erfið. Flestir reiknuðum við með að Southampton yrði um miðja deild, en Dýrlingarnir enduðu svo á að rétt sleppa við fall. Stoke og WBA settum við í neðri hlutann, en þó á öruggu svæði. Þau féllu hins vegar bæði. Árangur nýliðanna var hins vegar betri en við reiknuðum með, Brighton og Huddersfield var báðum spáð beint niður aftur, en náðu hins vegar að halda sæti sínu í deildinni. Að lokum má líka minnast á West Ham, því flestir reiknuðum við með að West Ham yrði í „best of the rest“ hópnum, en svo endaði liðið fyrir neðan miðju.

Hvað segir þetta okkur svo? Fyrir mér staðfestir þessi spá og lokaniðurstaðan bara það sem við höfum vitað í nokkurn tíma, og það er að deildin er tvískipt: top 6 annars vegar, og restin hins vegar. Það að Everton skyldi t.d. ná 2. sætinu í restardeildinni, þrátt fyrir að hafa í raun átt martraðartímabil (tveir stjórar reknir á tímabilinu: Koeman á miðju tímabili og Big Sam eftir að því lauk) segir kannski hvað það er erfitt fyrir öll hin liðin að hrófla eitthvað við top 6. Líklega sjáum við ekkert lið gera atlögu að efstu 6 til lengri tíma fyrr en næsta olíufurstalið kemur til sögunnar, hvert svo sem það verður. En hvað veit ég svosem, það er ekki eins og að mínir spádómar hafi náð neinum sérstökum hæðum…

Ég reikna svo með að taka saman tölfræði yfir það hvaða pistlahöfundar eiga besta árangurinn þegar kemur að upphitun og leikskýrslu. Einhverjir kunna e.t.v. að halda því fram að það hver skrifar leikskýrslu eða upphitun hafi engin áhrif á gengi liðsins, en við hlustum auðvitað ekki á svoleiðis vitleysinga. En sú samantekt kemur eftir síðasta leik tímabilsins. Það þarf ekkert að minna lesendur á hvaða leikur það er.

Chelsea á morgun

Nú er deildin heldur betur farin að styttast í annan endann, og aðeins tveir leikir eftir. Staðan er sú sama eins og eftir Stoke leikinn: okkur vantar 3 stig úr þessum tveim leikjum, og reyndar dugar að ná í eitt stig á morgun gegn Chelsea, en takist það ekki þarf að ná í 3 stig í síðasta leiknum gegn Brighton. Lærisveinar Chris Hughton náðu í síðustu 3 stigin sem þeir þurftu til að tryggja veru sína í deildinni í gærkvöldi með því að vinna United á heimavelli. Það er áhugavert að í þeim leik var marklínutæknin notuð til að dæma að um mark hafi verið að ræða, tók einhverjar 2-3 sekúndur, fumlaust, og enginn mótmælti. Það er svona sem VAR þarf helst að virka. En nóg um það. Brighton hafa því ekki að neinu að keppa þegar þeir mæta á Anfield á sunnudaginn eftir viku, en eins og sást í leiknum í gær geta þeir alveg gert toppliðunum skráveifu, og því er alls ekkert hægt að bóka 3 stig gegn þeim. Það er því fyrir öllu að ná góðum úrslitum gegn Chelsea á morgun, og það er örugglega það sem Klopp hefur í huga.

Sagan

Þessi lið eiga auðvitað langa sögu, og hafa oft mæst í öllum keppnum. Þá eru allnokkrir leikmenn sem hafa leikið fyrir bæði lið, og því eru gerð ágæt skil á heimasíðu Liverpool. Þau nöfn sem eru næst okkur í tíma eru auðvitað Mohammad Salah og Dominic Solanke, ásamt Victor Moses sem var hjá okkur 2013/14 en hefur verið lykilmaður hjá þeim bláklæddu. Svo þarf auðvitað ekkert að rifja upp sögu Fernando Torres, og þarna eru líka nöfn eins og Raul Meireles, Joe Cole, Glen Johnson, Nicolas Anelka, Benayoun og fleiri. Það hefur því verið mun meiri samgangur á milli þessara liða heldur en á milli annarra, eins og t.d. á milli Liverpool og United, eða Liverpool og Everton. Og mín upplifun er sú að þó svo að Chelsea séu auðvitað svarnir andstæðingar okkar, þá sé ekki sama ákefðin í því núna með Conte við stjórnvölinn, eins og t.d. þegar Mourinho stjórnaði þeim. Það væri gaman að heyra skoðun lesenda á því í athugasemdum.

Andstæðingarnir

Fyrri leikur liðanna á Anfield í haust endaði með jafntefli, þar sem Chelsea skoruðu jöfnunarmarkið á lokamínútum leiksins á sama tíma og Klopp vildi fá að skipta inn varnarmanni en fékk ekki. Síðan þá hafa okkar menn verið á siglingu sem hefur fleytt þeim í úrslitin í meistaradeildinni, á meðan Chelsea hafa hikstað, en að vísu er formið hjá þeim svolítið á uppleið því þeir hafa unnið þrjá síðustu leiki, gegn Swansea, Burnley og Southampton. Þeir ætla því ekki að gefa þetta 4. sæti eftir svo glatt, og verða örugglega erfiðir heim að sækja. Meiðslalistinn þeirra nær því tæpast að vera listi, Drinkwater og Luiz eru ekki leikfærir, en að öðru leyti ættu þeir að ná að stilla upp sínu sterkasta byrjunarliði, og eins og venjulega er bekkurinn alveg ágætlega sterkur hjá þeim.

Liðið

Okkar menn mæta inn í þennan leik í sæluvímu með að vera komnir til Kiev, og nú er það hlutverk Klopp að koma mönnum niður á jörðina fyrir þessa tvo síðustu leiki. Jafnframt getur vel verið að leikjaálag síðustu vikna sé farið að leggjast svolítið þungt á menn, manni fannst það nokkuð greinilegt að það var lítið eftir á tanknum síðasta korterið. En á milli miðvikudags og sunnudags eru 3 heilir dagar, þar að auki er þetta síðdegisleikur. Það er því vonandi að menn verði að mestu búnir að hrista af sér mjólkursýruna. Það kæmi mér samt ekkert á óvart þó Klopp myndi hrista örlítið upp í hópnum, þó ég telji líklegt að hann vilji mæta í þennan leik með eins sterkt byrjunarlið eins og hægt er. Meiðslalistinn er samt ennþá áhyggjuefni: Gomez, Matip, Can, Lallana og Ox allir frá. Lallana gæti hugsanlega komist á bekkinn, það er eitthvað sem læknaliðið metur örugglega í samvinnu við Klopp. Semsagt, miðjan nokkuð sjálfvalin. Hugsanlega hendir hann Ings í byrjunarliðið, en svo gæti hann alveg miðað við að fá hann inn í seinni hálfleik. Vörnin verður sjálfsagt mikið til óbreytt, mögulega fær Lovren pásu og Klavan byrji, og mögulega fær Moreno að byrja í stað Robertson. Nú og svo getur líka verið að Klopp mæti bara með sama byrjunarlið eins og í Róm.

Stillum þessu allavega upp svona:

Karius

TAA – van Dijk – Klavan – Robertson

Winjaldum – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Mané

Bekkur: Mignolet, Lovren, Moreno, Woodburn, Lallana, Ings, Solanke

Hér er ég að gera ráð fyrir einni breytingu, en þetta er jú bara ágiskun og ykkar ágiskun er jafn góð og mín.

Maður hefur smá áhyggjur að keppnin um markakóngstitilinn og hin ýmsu markamet sé að stíga Salah til höfuðs, ég vona að hann nái að hrista allt slíkt af sér og að liðið setji alla athygli á það að ná góðum úrslitum. Segjum að leikurinn endi 2-2, með marki frá Firmino og að Robertson nái loksins að brjóta ísinn og lauma inn hinu.

YNWA!

Roma 4 – Liverpool 2

Í kvöld gerðist það að Liverpool vann sér sæti í úrslitaleik Meistaradeilarinnar með því að tapa gegn Roma, við mikinn fögnuð viðstaddra.

Mörkin

0-1 Mané (9. mín)
1-1 Milner (sjálfsmark) (15. mín)
1-2 Winjaldum (25. mín)
2-2 Dzeko (52. mín)
3-2 Nainggolan (86. mín)
4-2 Nainggolan (víti) (90+4 mín)

Leikurinn

Leikurinn hófst nokkurnveginn eins og við var að búast, þ.e. með talsverðu magni af taugatitringi, og fyrstu 7 mínúturnar voru Roma nánast eingöngu með boltann. En á 9. mínútu komst Liverpool í sína fyrstu sókn eftir lélega sendingu frá Roma á miðjunni, Firmino renndi boltanum á hárréttum tíma til Mané sem gerði engin mistök og renndi boltanum framhjá Alisson. Eins og nærri má geta færði þetta ró yfir stuðningsmenn og leikmenn sömuleiðis, og tók mesta hrollinn úr. 6 mínútum síðar bættu okkar menn öðru marki við, Milner skoraði eftir glæsilega stoðsendingu frá Lovren. Að vísu fór boltinn í vitlaust mark, svo það tók örlítið broddinn af fagnaðarlátunum. (Þess má geta að hann tvítaði þetta um téð atvik). Eins og oft vill verða færist taugatitringurinn aftur yfir leikmenn og aðstandendur þegar liðið fær á sig mark, og það átti líka við í þetta skiptið. Á 24. mínútu átti síðan Henderson góða sendingu á vinstri kantinn þar sem Robertson átti gott hlaup upp að endamörkum, gaf á Mané sem var nálægt því að skora aftur, en Alisson varði í horn. Upp úr horninu barst svo boltinn inn á markteig þar sem Winjaldum náði að skalla boltann í netið, og skora þar með sitt fyrsta útivallamark og fyrsta meistaradeildarmark fyrir liðið. Hann kann að velja tímann til þess, enda gerði þetta að verkum að nú voru okkar menn búnir að jafna útivallamörkin sem Roma skoruðu á Anfield, og þar með urðu Roma að skora 4 mörk til viðbótar, bara til að fá framlengingu. Á 35. mínútu munaði engu að Milner skoraði annað sjálfsmark þegar Shaarawy átti gott skot fyrir utan teig sem fór í Milner, en boltinn hafnaði í stönginni utanverðri. Undir lok hálfleiksins fengu svo Roma aukaspyrnu á hættulegum stað rétt fyrir utan teig uppi við endalínu, og Lovren fékk gult fyrir brotið, en skotið fór lengst upp í rjáfur. Rétt áður höfðu borist fregnir af því að Karius hefði orðið fyrir hnjaski og að Mignolet væri farinn að hita upp, en ekki þurfti að kalla hann til.

Staðan 2-1 í hálfleik, og stemmingin bara aldeilis ágæt þrátt fyrir stöku hjartsláttartruflanir.

Snemma í seinni hálfleik var Karius heppinn að fá ekki á sig víti þegar hann felldi Dzeko við vítateigslínuna, honum til happs var nýbúið að lyfta rangstöðuflagginu, mjög líklega var það röng ákvörðun hjá aðstoðardómaranum. Á 52. mínútu jafnaði svo Dzeko eftir varnarmistök frá TAA, þar sem hann missti bolta fram hjá sér sem hann hefði alltaf átt að hirða. Krossinn sem kom upp úr þessum mistökum leiddu til skots á markið sem Karius varði beint út í teig, í lappirnar á Dzeko sem setti boltann í netið. Game on. TAA kom aftur við sögu á 63. mínútu þegar hann var í barningi á markteig og fékk boltann í hendina, þar var aftur heppni að liðið fengi ekki á sig vítaspyrnu, í staðinn fengu Rómverjar horn sem ekkert varð úr.

Í kringum 75. mínútu var maður að upplifa að liðin væri bæði farin að þreytast. Roma kláruðu sínar 3 skiptingar frá 53. mínútu og að þeirri 75., en ekkert bólaði á skiptingu frá Klopp. Kannski ekki gott að sjá hvaða leikmaður hefði átt að koma inn til að breyta leiknum. Þeirri spurningu var svo svarað skömmu síðar þegar Klavan kom inná í staðinn fyrir Mané, manni fannst hann reyndar vera minnst þreyttur af framlínunni. Á 86. mínútu átti svo Nainggolan fast skot fyrir utan teig sem Karius hélt líklega að væri á leiðinni útaf, en boltinn fór í stöngina og inn. 3-2, lítið eftir en samt ekki nógu lítið til að maður gæti slakað á. Enda kom það á daginn að á síðustu mínútu uppbótartímans kom löng sending inn fyrir vörnina, Klavan elti sóknarmann Roma sem náði boltanum og reyndi líklega skot frekar en fyrirgjöf sem fór í búkinn á Klavan og þaðan í hendina á honum. Þarna fyrst sá dómarinn ástæðu til að dæma víti sem Nainggolan skoraði úr af miklu öryggi. Þarna var staðan orðin 4-2, og Roma þurfti því eitt mark til viðbótar til að komast í framlengingu. En það var enginn tími til þess vegna þess að dómarinn flautaði leikinn af andartökum eftir miðjuna. Það er óhætt að segja að það hafi brotist út fagnaðarlæti meðal leikmanna, starfsmanna og stuðningsmanna Liverpool, enda liðið KOMIÐ Í ÚRSLIT MEISTARADEILDARINNAR!

Maður leiksins

Aldrei þessu vant fannst mér Salah ekki vera sá besti, hann virkaði pirraður á köflum, og fékk dæmdar á sig nokkrar rangstöður. Stóð sig samt alls ekki illa, var síhlaupandi og barðist um alla bolta. Firmino var sami vinnuhesturinn og alltaf, og Mané átti bara ansi góðan dag. Miðjan stóð sig bara nokkuð vel, Milner auðvitað sívinnandi eins og alltaf, sama með Henderson. Winjaldum átti síðan auðvitað seinna markið, takið eftir því að ef hann hefði ekki skorað þetta mark væru Rómverjar núna á leiðinni í úrslitin því 4-1 hefði dugað þeim. Varnarlega séð var svo Alexander-Arnold líklega að eiga sinn versta leik í talsverðan tíma. Lovren og Robertson voru nokkurnveginn á pari, en ég ætla að gefa Virgil van Dijk nafnbótina maður leiksins, því hann var sífellt að hreinsa á mikilvægum augnablikum, og hélt ró sinni í gegnum öll lætin. Mér fannst Karius ekki eiga neitt sérstakan dag, enda fékk hann jú á sig 4 mörk. Hann hefði líklega getað stýrt boltanum eitthvað annað en í lappirnar á Dzeko í öðru markinu, og sjálfsagt hefði hann átt að gera tilraun til að skutla sér í boltann sem varð að þriðja markinu. En ég sé litla ástæðu til að vera að agnúast út í það þó það hafi ekki allir átt sinn besta leik, þessi frammistaða dugði til að ná settu marki.

Umræðan

Núna er bara að njóta þess að okkar menn séu loksins komnir aftur í úrslit Meistaradeildarinnar. Það er ljóst að liðið mætir þangað sem „underdogs“, því þrátt fyrir að við séum með beittustu framlínu Evrópu (og þó víðar væri leitað), þá eru andstæðingarnir engu að síður ríkjandi meistarar síðustu 2 árin, og eru svo fjarri því að vera árennilegt lið. En eru Madrídingar ósigrandi? Alls ekki. Og þetta lið getur það vel. Breiddin er hins vegar áhyggjuefni, það er búið að vera ljóst í svolítið langan tíma að það vantar menn inn af bekknum sem geta breytt leikjum. Meiðsli Oxlade-Chamberlain gera það auðvitað að verkum að liðið velur sig nánast sjálft um þessar mundir. Vonum bara að Lallana og Can verði komnir til baka fyrir úrslitaleikinn, þó það sé auðvitað ljóst að þeir eru ekki í topp leikformi.

Í millitíðinni bíða okkar svo tveir agnarlitlir leikir í deildinni, og þar þarf liðið að ná sér í 3 stig. Því þó planið sé auðvitað að vinna Meistaradeildina og tryggja sig þannig inn í hana á næsta ári, þá væri auðvitað lang best að það sé tryggt fyrr, þ.e. með því að lenda í 3. – 4. sæti í deildinni. Og það næst með 3 stigum, og meira að segja myndi duga að ná jafntefli á Stamford Bridge næsta sunnudag. Það verður áhugavert að sjá hvaða leikmenn byrja þann leik, því eins og sást á síðasta korterinu í dag eru menn orðnir örlítið vígamóðir.

Eins og nærri má geta er talsvert af fólki búið að lýsa yfir ánægju sinni með að vera komin í úrslit á samfélagsmiðlum, rétt er að benda sérstaklega á tvít frá hæstvirtum forsætisráðherra þar að lútandi.

En semsagt, njótum þess kæru bræður og systur að vera komin í ÚRSLIT Í MEISTARADEILDINNI!

Byrjunarliðið gegn Roma

Þá er búið að tilkynna liðið, en það hefði nú nánast hver sem er getað giskað á uppstillinguna. Einna helst var spennandi hverjir myndu byrja á bekknum, og það er nú bara þannig að eini maðurinn sem gæti mögulega talist miðjumaður á bekknum er Woodburn.

Liðið er annars svona:

Karius

Alexander-Arnold – Lovren – Van Dijk – Robertson

Henderson – Wijnaldum – Milner

Salah – Firmino – Mane

Á bekknum: Mignolet, Clyne, Klavan, Moreno, Solanke, Woodburn, Ings.

Þá er bara að gera sig klára með sprengitöflurnar og hjartastuðtækin.

KOMA SVO!!!

Við minnum á #kopis á Twitter og umræðuna í athugasemdum hér að neðan.