Meistaradeildarupphitun: Man City er ekkert fallegt ævintýri

Það vantar ekkert upp á umfjöllun um Manchester City liðið undanfarin ár. Forráðamenn félagsins hafa botnlausar hirslur og eru á góðri leið með að búa til félag sem ætti að öllu eðlilegu að vera leiðandi í íþróttinni næstu ár og jafnvel áratugi. Þetta á við hvort sem horft er á núverandi lið og stjóra eða starfsemi félagsins almennt. Þarna er bókstaflega stefnt á heimsyfirráð.

Eigendur Man City stofnuðu eignarhaldsfélagið á City Football Group sem á í dag Man City sem og önnur lið í flestum heimsálfum. Þessi City lið eiga að vinna saman og eftir svipaðri hugmyndafræði. Man City er auðvitað langstærst af þessum félögum og móðurfélag hinna. Þetta er stundum kallað Disneyfication fótboltans. Eigendum Man City er gríðarlega umhugað um orðspor sitt og vilja margir meina að kaup þeirra á félaginu sé fyrst og fremst svokallað reputation laundering, þ.e.a.s. félagið er notað til að bæta ímynd eigendanna (Abu Dhabi), eins til að auglýsa önnur fyrirtæki í þeirra eigu og að einhverju leiti til að stýra umfjöllun fjölmiðla.

Upplýsingar um raunverulegt eignarhald Manchester City eru ekkert auðfengnar eða skýrar enda ekkert eðlilegt við það að eigandi félagsins (að nafninu til) hafi aðeins einu sinni mætt á leik hjá félaginu á þeim tíu árum sem hann hefur átt félagið og ekki sagt eitt aukatekið orð í breska fjölmiðla. Saga Man City verður líklega héðan af flokkuð sem fyrir og eftir 2008 enda er lítið eftir af félaginu sem var stofnað 1880.

Aðdragandi eigendaskipta

Ballið byrjaði í rauninni árið 2007 er hinn vægast sagt umdeildi forsætisráðherra Taílands, Thaksin Shinawatra keypti félagið í júní 2007 á £81,6m. Hann hafði árin á undan reynt að kaupa Liverpool og Fulham án árangurs. Kaup forsætisráðherra Taílands voru talin vera partur af tilraun hans til að bæta eigin ímynd enda sakaður um spillingu sem og ýmiskonar aðrar misgjörðir heimafyrir. Hann byrjaði ágætlega, fékk Sven-Goram Erikson sem stjóra og nokkra öfluga leikmenn þá um sumarið. Adam var þó ekki lengi í paradís og náði fortíð Shinawatra í skottið á honum aftur i kjölfar þess að herinn í Taílandi steypti honum af stóli og frysti eigur hans. Seinna var hann svo dæmdur fyrir spillingu. Hann seldi því félagið til Abu Dhabi United Group í september 2008 fyrir £150-200m. Ansi gott verð sem hann fékk fyrir félagið m.v. kaupverð árið áður og stöðuna sem hann var kominn.

Sheikh Mansour

Man City er í dag í eigu félags sem heitir City Football Group en það félag á öll knattspyrnuliðin í City fjölskyldunni. City Football Group er hinsvegar í eigu Abu Dhabi United Group (ADUG) sem upphaflega keypti Man City. Eigandi ADUG heitir Sheikh Mansour bin Zayed Al Nahyan. Hann er vara forsætisráðherra Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna og hálfbróðir forsætisráðherrans sem er jafnframt Emír í Abu Dhabi. Hann er einn af sex sonum uppáhalds eiginkonu Sheik Zayed sem var driffjöðurin í stofnun Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna (SAF) árið 1971 og Emír í Abu Dhabi sem er langöflugasta furstadæmið af þeim sjö sem mynda Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, enda með um 90% af olíuauðlindunum.

Nicholas McGeehan rannsóknarblaðamaður hjá Human Rights Watch sem starfað hefur í Arabalöndunum undanfarin 10 ár skrifaði magnaða og upplýsandi grein um raunverulegt eignarhald Man City og stjórnarhætti í þeirra heimalandi. Hann vill meina í sinni grein að Sheikh Mansour komi í raun ekki nálægt rekstri Man City og það sé ekki heldur verið að spila með hans peninga í því verkefni. Hann hefur eins og áður segir aðeins einu sinni mætt á Eithad og skýring þess efnis að hann hafi ekki kunnað að meta fjaðrafokið sem það olli flýgur ekki alveg.

Sheikh Mansour er einn af æðstu og voldugustu meðlimum konungsfjölskyldunnar í Abu Dhabi og gegnir nokkrum mikilvægum embættum í stjórnkerfi SAF. Mansour er situr m.a. í nefnd sem heldur utan um olíuauðlindirnar og er í stjórn IPIC og ADIC sem sjá um fjárfestingar erlendis. Markmiðið þar er að fjárfesta þannig að Abu Dhabi verði ekki eins háð olíu í framtíðinni og það er í dag. Mansour á svo sjálfur hlut í fullt af öðrum félögum, t.a.m. Virgin Galatic, félags sem stefnir að því að bjóða upp á geimferðir fyrir almenning. Hann á félag í samstarfi við British Sky Brodcasting og tók þátt í að setja á fót Sky News Arabia sem flytur vafalaust mjög hlutlausar fréttir úr heimalandinu, en Abu Dhabi hefur verið kallað svarthol mannréttinda. Hann á svo auðvitað Abu Dhabi United Group sem á m.a. Man City.

Rekstur Man City er í raun bara smámunir m.v. þá fjármuni sem verið er að sýsla með í þessum sjóðum. Allt er þetta samt upphaflega olíusjóðir Abu Dhabi sem meðlimir konungsfjölskyldunnar eru að sýsla með og fjárfesta fyrir. Ríkisfé.

Þeir sem stjórna Man City eru samt ekki menn Sheik Mansour ef svo má segja heldur mun frekar bróður hans sem er öllu hærra settur innan konungsfjölskyldunnar.

Mohamed bin Zayed Al Nahyan (MBZ)

Abu Dhabi er ríkasta og voldugasta ríkið af þeim sjö sem mynda SAF. Maðurinn sem stjórnar Abu Dhabi og allri stefnumörkun er Mohamed bin Zayed Al Nahyan (MBZ) bróðir Sheikh Mansour. Hann er einnig yfir herafla SAF og sér um utanríkisstefnuna. Hann er næstæðsti maður SAF á eftir hálfbróður sínum Sheikh Khalifa sem er elsti sonur Sheikh Zayed (fyrsta forseta landsins).

MBZ hefur varnarmál SAF á sinni könnu og er að koma sér upp gríðarlega öflugum herafla. Fyrirtæki í hans eigu getur núna framleitt vopn og selt hernum (sem hann stjórnar sjálfur). Hernaðarumsvif SAF hafa aukist umtalsvert undanfarin ár og er MBZ sakaður um að bera töluverða ábyrgð t.a.m. á ástandingu í Jemen með hernaðarbrölti sínu þar. Rétt eins og með Man City eru umsvif hans í þessum geira ekkert smáræði og er hann nánast orðin eins mans hernaðarvél m.v. McGeehan.

MBZ stjórnar Abu Dhabi með harðri hendi svo vægt sé til orða tekið enda er þetta ekkert lýðræðisríki, langt í frá. Hann er sakaður um að hafa haft áhrif á kosningar erlendis, m.a. með því að styrkja Marie Le Pen í Frakklandi og með því að hafa áhrif á leiðtoga ríkja sem flest eiga mikið undir góðu viðskiptasambandi við Abu Dhabi. Heimafyrir er MBZ sagður vera mjög mikill harðstjóri en fréttir af því eru auðvitað verulega takmarkaðar enda beinlínis hættulegt og bannað að flytja af þeim neikvæðar fréttir. Herlögregla ekur um í sérútbúnum 4×4 jeppum með hlekki utan á bílunum.

Eitt dæmi um það hvernig fjölskydan stjórnar er þegar 45 mínútna upptöku var smyglað út úr landinu árið 2009 sem sýnir einn af bræðrum MBZ og Mansour, Issa bin Zayed Al Nahyan pynta fyrrum viðskiptafélaga sinn verulega hrottalega. Hann notar á hann svipu, gefur honum rafstuð, ber hann með spítu með nagla á endanum og keyrði ítrekað yfir hann á einum af þessum 4×4 jeppum. Issa var þrátt fyrir þetta sýknaður af dómstóli í Abu Dhabi í einhverri undarlegustu dómsniðurstöðu sögunnar, dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að eitrað hefði verið fyrir Issa greyinu með eiturlyfjum og þess vegna hagaði hann sér svona. Þeir sem smygluðu upptökunni voru hinsvegar ákærðir fyrir reyna svíkja út úr honum peninga með upptökunni! Issa er fyrir utan þetta atvik sakaður um að hafa pyntað marga aðra, helst erlenda verkamenn í landinu og látið taka þessar athafnir upp til að horfa á seinna. Með þessu er auðvitað ekki sagt að öll konungsfjölskyldan sé svona illa innraætt, en dómskerfið er alfarið á valdi konungsfjölskyldunnar.

SAF hafa öfugt við mörg önnur ríki að mestu sloppið við Arabíska vorið enn sem komið er og það er ekki tilviljun á meðan MBZ stjórnar öryggismálum. Meira en 100 manns sem vildu sjá breytingar var hent í fangelsi og pyntað. Eins hefur ríkisborgararéttur verið tekinn af sumum. Ein aðferðin sem SAF hafa tekið upp er að banna háð á netinu er snýr að tilraunum ríkisins við að bæla niður skipulagningu mótmæla á samfélagsmiðlum.

Svipuhögg og það að kasta grjóti í dæmda sakamenn eru löglegar refsiaðgerðir í SAF og hafa sumir erlendir verkemenn í landinu hlotið slíka refsingu en réttindi og meðferð þeirra er jafnvel ennþá verri en kollegar þeirra í Qatar þurfa að þola, sviðsljósið er bara meira á þeim vegna HM og annarra stórmóta sem þeir eru að halda í sinni herferð til að byggja upp jákvæða ímynd. Erlendir verkamenn eru sagðir vera um 90% af íbúum Abu Dhabi og vinna flestir í byggingariðnaði eða við þjónustustörf, fá hræðilega lítið borgað fyrir vinnu sína og lifa oft við ömurlegar aðstæður. Hér er áægt grein sem fjallar ítarlegar um stöðu verkamanna í SAF.

Ástandið í Jemen er einnig beintengt við konungsfjölskylduna í Abu Dhabi og þá sérstaklega MBZ. Þar hefur eitt fátækasta ríki heims verið lagt í rúst ekki hvað síst vegna árása sameiginlegs hers Arabaríkja undir stjórn Saudi Arabíu. Þeir hafa beint árásums sínum m.a. á skóla, sjúkrahús, brúðkaup og jarðafarir, meira en 1000 af 5000 fjórnarlömbum þessara árása hafa verið börn skv. Sameinuðu Þjóðunum. Það virðist sem sérstaklega hafi verið miðað á fjölmenna staði til að skapa sem mest mannfall.

Árið 2013 var Hotmail aðgangi Yousef Al-Otaiba utanríkisráðherra SAF í Bandaríkjunum hakkaður og hellingur af merkilegum samskiptum hans við sína yfirmenn gerð opinber. Einn pósturinn fjallaði um stefnumörkun til að takmarka pólitískan skaða sem þetta hernaðarbrölt hefði í för með sér. “At least temporarily, urge caution when selecting military targets” sagði Otaiba sem gefur til kynna að þeir geti þá aftur hafist handa þegar um hægist. Einn af þeim sem fékk þennan póst er hægri hönd MBZ og stjórnarformaður Man City, Khaldoon Al-Mubarak.

Khaldoon Al-Mubarak

Eitt af því sem kannski gefur hvað helst til kynna að afskipti Sheik Mansour séu ekkert rosalega mikil þegar kemur að rekstri Man City er að Khaldoon Al-Mubarak var gerður stjórnarformaður félagsins árið 2008. Al-Mubarak er sonur fyrrverandi sendiherra SAF í Frakklandi (sem var myrtur þar árið 1984) og er eins og áður segir mun frekar einn af mönnum Mohamed bin Zayed Al Nahyan (MBZ) frekar en Mansour. Ekki að það skipti höfuð máli.

Fyrir utan City Fooball Group er Mubarak einnig stjórnarformaður í aðal fjárfestingastjóði Abu Dhabi (Mubadala) sem hefur úr £50 milljöðrum úr að spila á heimsvísu á mjög margvíslegan hátt (fasteignir, lyfjafyrirtæki, tækifyrirtæki o.f.l). Hann er auk þessa í stjórnum fleiri félaga eins og First Gulf Bank og Ferrari. Eins og með flestar alþjóðlegar fjárfestingar Abu Dhabi er markiðið að skapa tekjur af öðru en sölu olíu. Man City og City Football Group eru eins og hjá bræðrunum ekkert það umsvifamesta sem hann hefur á sinni könnu en líklega er Man City mikilvægasta verkefnið er kemur að því að bæta ímyndina enda ekkert annað félag í þeirra eigu með aðgang að áhrofendum í yfir 200 minmunandi löndum í hverri viku.

Al-Mubarak er ekki partur af konungsfjölskyldunni en er sagður vera einn af hennar nánustu ráðgjöfum.

Simon Pearce

Einn af mikilvægustu hlekkjunum í rekstri City Football Group er sá sem sér um ímyndina, ástralinn Simon Pearce sem heldur einnig utan um ímynd og kynningu Abu Dhabi á heimsvísu. Hann vann áður hjá almannatengslafyrirtækinu Burson-Marsteller sem McGeehan lýsir með góðri setningu “when evil needs public relations, evil has Burson-Marsteller on speed-dial.” Abu Dhabi fékk hann alveg í vinnu fyrir sig og sér hann um að upphefja ímynd og orðspor Abu Dhabi.

McGeehan bendir máli sínu til stuðnings á ansi áhugaverð samskipti Pearce við sendiherra SAF í Bandaríkjunum sem voru opinberuð er Hotmail aðgangur sendiherrans var hakkaður. Af póstsamskiptum sendiherrans láku fáar fréttir tengdar fótbolta í fréttirnar á sínum tíma en hann og Pearce áttu í samskiptum vegna stofnunar knattspyrnuliðs í New York.

Meðal atriða sem Pearce taldi vera vandamál var að eigendahópurinn var í fjölmiðlum tengdur við Abu Dhabi ekki City Football Group. Hann vill að fjallað sé eingöngu um eigendur félaganna sem CFG vegna viðkæmrar stöðu Abu Dhabi enda passar stefna ríkins oft alls ekki vel við það sem reynt er að selja stuðningsmönnum knattspyrnuliðanna sem eru í eigu þessara aðila. Eins listaði hann sem möguleg vandamál stefnu Abu Dhabi þegar kemur að samkynhneigðum, konum og þá líklega kvennréttindum, auðæfum konungsfjölskyldunnar og stefnu þeirra í málefnum Ísrael. Það væri fróðlegt t.d. að sjá Man City eða New York City boða sömu stefnu þegar kemur að kvennréttindum og málefnum samkynheigðra og eigendur félagsins fylgja heimafyrir.

Rétt eins og þegar City var keypt árið 2008 töldu þeir þetta verkefni í New York áhættunnar virði á og stofnuðu lið í New York tveimur dögum eftir þessi póstsamskipti. Miðað við móttökurnar sem þeir fengu í Manchester er líklega ekki skrítið að þeir hafi talið þetta verkefni vera áhættunnar virði. Man City og New York City veita Abu Dhabi fótfestu á mikilvægum svæðum sem nýtist þeim vel er kemur að viðskiptum með önnur fyrirtæki í þeirra eigu. Man City setur vissulega sviðsljósið á brútal einræðisríki sem lítið er vitað um þannig séð, til að vinna upp á móti þessari áhættu er maður eins og Simon Pearce mikilvægur.

McGehan vill meina í sinni grein að hann noti þrjár aðferðir til að viðhalda jákvæðri ímynd City Fooball Group, fyrst með því að hafa Sheik Mansour sem skráðan eiganda, mun betra að hafa hann sem sæmilega vel liðin viðskiptamann fyrir hönd konungsfjölskyldunnar frekar en hinn valdamikla og afar umdeilda bróðir hans (MBZ). Þetta er auðvitað ekkert nema hringavitleysa enda á endanum alltaf verið að spila með sömu peningana, olíuauðlindir Abu Dhabi og ætti ekki að skipta nokkru máli í umfjöllun um City hvor bróðirinn sé skráður eigendi. Önnur taktík Pearce er að fá fjölmiðla til að dæla út jákvæðum fréttum af uppgangi Man City og nóg er af þeim. Coca-Cola fótboltans, Disneyfication og hvaðeina. Þriðja aðferðin er svo að ráðast með hörku á orðspor og ástæður allra samtaka, blaðamanna og hópa sem gangrýna SAF á einhvern hátt. Skv. McGehan er hann því miður mjög góður í sínu starfi. Það hjálpar auðvitað að hann er að vinna fyrir svo moldríkt ríki að fáir pólitíkusar þora að gangrýna þá af einhverri alvöru og vilja frekar eiga áfram í mikilvægum viðskiptum við Abu Dhabi. Það er ekki bara heimafyrir sem menn veigra sér við að gangrýna stjórnvöld í Abu Dhabi.

Fyrir utan kaupin á félaginu 2008 var tekið risaskref í rekstri Man City árið 2013 um svipað leiti og Financial Fair Play reglur UEFA áttu að fara taka almennilega gildi. Abu Dhabi gerði samning við borgaryfirvöld í Manchester upp á £1 milljarð er sneri að gríðarlegri uppbyggingu á svæðinu í kringum Etihad. Þ.á.m. bygging á flottustu æfingaaðstöðu og akademíu í heimi.

Hvað nákvæmlega felst í samningnum hefur ekki verið gert opinbert þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölmiðla á borð við The Guardian. Borgaryfirvöld báru fyrir sér viðskiptahagsmunum en tiltóku ekki hverra, fyrirtækið sem Manchester er t.a.m. með aðsetur í skattaparadísinni Jersey. Botninn tók svo úr þegar einn af þeim sem sá um að semja fyrir Manchester fékk vinnu hjá City Football Group.


Samantekt

Þetta er verulega lausleg yfirferð yfir þá sem eru í raun á bak við velgengni Man City undanfarin ár. Það er svo miklu meira efni að vonlaust er að gera því skil. Það eitt að kynna sér konungsfjölskylduna í Abu Dhabi og frændur þeirra í öðrum furstadæmum SAF lætur fyrstu kaflana í Njálu virka minna en ekkert ruglandi. Hvað þá hvernig stjórnarkerfið virkar enda eru menn titlaðir Emír, Prins, Súltan, Sheik eða forsætisráðherra. Eins er jafnan talað um Sameinuðu Arabísku Furstadæmin en allt eru þetta konungsfjölskyldur. Mæli ég þá frekar með að þið kynnið ykkur Njál frá Bergþþórshvoli og alla hans ætt.

Lokaorð McGehan í hans grein fjölluðu um eigendur Man City og annarra stórliða í Evrópu:

Kína komið í eigendahópinn

Ef það var ekki nóg að Man City sé í eigu konugsfjölskyldunnar í Abu Dhabi þá hefur félag í eigu Kínverska ríkisins einnig keypt hlut í félaginu (City Football Group). Xi Jinping forseti Kína mætti á Etihad í október 2015 og tveimur mánuðum seinna keyptu Kínverskir fjárfestar (CMC Football Holdings Limited) rúmlega 13% í félaginu á £265m. Af Xi Jinping er það annars að frétta að hann lagði það til um daginn að takmörk yrðu afnumin á setu forseta í Kína svo hann gæti sjálfur haldið áfram. Þetta var auðvitað klappað ákaft upp og samþykkt heimafyrir.

Endum þetta á samantekt sem skýrir eignarhald Man City á einfaldan hátt


Seinni leikurinn í Meistaradeildinni

Þrátt fyrir að eigendur Man City séu vægast sagt umdeildir og ættu með réttu að vera miklu meira til umræðu en þeir eru þá er ljóst að þeir hafa notað olíuauðinn í Abu Dhabi til að byggja upp lið sem verður það besta í heimi á næstu árum með þessu áframhaldi. Vonandi verða það okkar menn sem standa í vegi því því að þeir nái þeim status á þessu tímabili. Þegar þeir keyptu City var ævintýri Guardiola hjá Barcelona rétt að hefjast og nú tíu árum seinna eru þeir komnir með alla helstu lykilmenn Barcelona (utan vallar) við stjórnvölin hjá Man City. Stjórnarformaðurinn er Ferran Soriano sem var hjá Barcelona í fimm ár (2008-2013). Hann er maðurinn á bak við uppbyggingu City Football Group, þar er verið að framfylgja hans framtíðarsýn. Txiki Begiristain er yfirmaður knattspyrnumála og Guardiola er auðvitað stjórinn. Vantar í raun bara Messi og þetta er komið.

Það er ljóst að hjá City er horft mikið til La Masia hjá Barcelona og engu hefur verið til sparað við að búa til flottustu akadeími í heimi. Þrátt fyrir það, núna tíu árum eftir að þeir keyptu félagið er ekki einn uppalinn leikmaður í byrjunarliðið Man City. Þetta er enda dýrasta knattspyrnulð sem nokkurntíma hefur verið sett saman og því erfitt fyrir unga leikmnenn að komast í gegn. Ekki vantar efniviðin hjá félaginu svo mikið er víst.

Árangur Man City í Meistaradeildinni undanfarin ár hefur verið lélegur miðað við hvað sett hefur verið í félagið. Á þessu tímabili hefur félagið klárlega skipt um gír og er farið að spila fótbolta á við hin “Olíufélögin” sem hafa einokað Meistaradeildina undanfarin ár. Þetta lið innan sem utan vallar er alveg á pari við Barcelona, Real Madríd, PSG og Bayern.

Það er því eitthvað mikið rómantískt og gott við það að Anfield á Evrópukvöldi er ennþá eitt erfiðasta vígið í Meistaradeildinni og þessi rasskelling sem Man City fékk innan sem utanvallar á miðvikudaginn var klárlega þungt högg fyrir Man City. Fyrir mót vorum við ef ég man rétt alveg að gera okkur vonir um að sjá Liverpool í 8-liða úrslitum og úr því liðið er komið þangað veðja menn á eigin ábyrgð gegn þeim. Sérstaklega þegar annar leikurinn af tveimur er á Anfield. Why not us? var slagorðið 2005 og það á við líka núna.

Það er líka aðeins til marks um hversu sterkt þetta Man City lið er að ennþá hef ég ekki hitt einn Liverpool mann sem heldur því fram að þetta einvígi sé búið. (Hef reyndar hitt mjög marga United menn sem halda því fram en það er önnur saga). City getur alveg unnið með þriggja marka forystu á heimavelli, ekki hvað síst gegn liði sem þorir að mæta þeim. Á móti getur Liverpool farið illa með lið sem þarf að sækja til sigurs. Það er ennþá naglanagandi spenna fyrir seinni leikinn. Mögulega er þetta of mikil svartsýni og vantrú á okkar mönnum því að á sama tíma talar maður um öll hin einvígin sem búin. Bayern vann sigur í Sevilla, það gera nánast engin lið. Real og Barcelona kláruðu síðan sín einvígi bæði og þau eru sannarlega búin þó markamismunurinn sé sá sami og í okkar einvígi.

Bæði lið eru að spila 3 leiki á 6 dögum og bæði áttu leiki núna um helgina sem ekki er leyfilegt að “tanka”. Klopp var brjálaður að Everton leikurinn væri settur á hádegi þegar það var tilkynnt en fyrir seinni leikinn ætti það að vinna örlítið með okkur enda fengu okkar menn það sem eftir var dags í recovery á meðan City var ekki búið að spila fyrr en um kvöldmat. Eins vinnur það með báðum liðum að þetta voru leikir sem ekki kröfðust ferðalags.

Byrjunarlið Man City

Það er erfitt að lesa í móralinn hjá City eftir þessa viku. Þeir virkuðu þreyttir og annarshugar í seinni hálfleik gegn United og nánast allt sem gat farið á móti þeim í seinni hálfleik gerði það. United skoraði þrjú mörk úr fjórum færum á meðan City átti að fá tvö augljós víti í leiknum og hefði átt að vera mun meira en 2-0 yfir í hálfleik. Maður horfði einmitt á fyrri hálfleik í þeim leik og sá að þetta einvígi í Meistaradeildinni er alls ekkert búið.

Það skiptir engu máli svosem fyrir City hvort þeir vinni deildina núna eða eftir viku, líklega er það betra fyrir þá að bíða aðeins með það enda ekki séns að fanga neitt eftir leikinn um helgina.

City hefur auðvitað miklu meiri breidd en Liverpool og geta notað hópinn mun meira. Kompany spilaði bæði á miðvikudaginn og gegn United og því spurning hvort hann geti þriðja leikinn á sex dögum? Otamendi var sömuleiðis í vörninni í báðum leikjunum. Walker kemur klárlega aftur inn og spurning hvort Danilo verði í vinstri bak? Fernandinho, Silva, Sané og Gundogan hafa spilað báða leikina og líklegt að Jesus/Aguero og Sterling komi inn núna ásamt auðvitað De Bruyne sem var hvíldur megnið af leiknum gegn United.

Svona tippa ég á lið City:

Ederson

Walker – Kompany – Otamendi – Danilo

Silva – Fernandino – De Bruyne

Sterling – Aguero – Sané


Byrjunarlið Liverpool

Krafan fyrir Everton leikinn var einföld, engin meiðsli og alls ekki tapa leiknum. Jafntefli voru ekkert æðisleg úrslit neitt og gerir baráttuna um annað sætið nánast útilokaða en á meðan liðið fer ekki niður fyrir fjórða sæti og áfram í Meistaradeild er öllum meira en nákvæmlega sama. David Moyes og hans menn í West Ham gerðu okkur gríðarlega mikinn greiða í dag með því að ná jafntefli á brúnni sem þýðir að Liverpool þarf að vinna þrjá leiki til að ná fjórða sætinu, eða þá vinna Chelsea og einn leik til viðbótar. Það er miðað við að Chelsea tapi ekki fleiri stigum.

Að tryggja Meistaradeildarsæti á næsta tímabili sem allra fyrst er gríðarlega mikilvægt ef Liverpool kemst í gegnum þennan City leik áfallalaust. Liverpool þarf þá að setja allan fókus í Meistaradeildina rétt eins og hin liðin sem eru eftir verða í keppninni koma líklega til með að geta gert (eða eru að gera nú þegar).

Það kemur ekki alltaf strax í ljós hvort einhver hafi meiðst í síðasta leik, satt að segja koma eiginlega alltaf nýjar og vondar fréttir af nýjum meiðslum lykilmanna Liverpool. Við verðum því að leggjast á bæn um að Klopp komi ekki með neitt slíkt á blaðamannafund á morgun. Hópurinn er svo þunnur núna að liðið er nánast sjálfvalið. Nákvæmlega núna erum við að sjá afhverju það var svona heimsklulegt að láta Coutinho fara án þess að kaupa engan í staðin og eins að lána alla í janúar sem væru í og við hópinn núna. Eitt árið mun Liverpool hafa vit á því að eiga “of” stóran hóp allt tímabilið því að ég man ekki eftir neinu tímabili á þessum áratug sem svona sambland af leikjaálagi og “óvæntum” meiðslum kom ekki upp.

Ef þessir eru ennþá heilir verður liðið mjög líklega svona:

Karius

TAA – Lovren – Van Dijk – Robertson

Ox – Wijnaldum – Milner

Salah – Firmino – Mané

Ef þið hefðuð boðið mér þetta lið fyrir Meistaradeildarleik gegn Man City fyrir tímabilið hefði ég útilokað einvígið, þetta er rosalega tæpt hjá okkur. Van Dijk hefur með Karius og Robertson samt snarbreytt varnarleik liðsins og þetta verður svaklega stór leikur fyrir hann. Þurfum að loka á öll skot þeirra aftur í þessum leik. Miðjan er gríðarlega tæp og líklega vantar allt byrjunarliðið (plús Coutinho) í Henderson, Can og Lallana. Milner og Ox verða því aftur að eiga eins góðan dag og Wijnaldum verður að fylla skarðið aftast.

Hinsvegar á Liverpool alltaf séns á að skora ef heilaga þrenningin byrjar.

Spá:

Ef að Liverpool klárar þetta einvígi við City og nær aðeins að safna vopnum sínum á ný getur liðið alveg farið alla leið í þessari keppni. Það er bannað að klúðra niður þessari þriggja marka forystu. Hinsvegar man ég ekki eftir Liverpool liði sem gerði sér ekki erfitt fyrir og ég óttast að það verði enn á ný raunin í þessum leik. Spái að einvígið farið 4-3 fyrir Liverpool eftir framlengingu. Mjög ólíklegt samt að ég verði ennþá á lífi ef þetta spilast þannig.

57 Comments

  1. Það er allavega ekki séns á að þetta verði eitthvað þægilegt. Kæmi mér ekkert á óvart ef atburðarrásin yrði á þessa leið: City komast í 3-0 tiltölulega snemma í leiknum, pressa endalaust og ná fjórða markinu rétt fyrir lok leiks. Við náum svo á einhvern ævintýralegan hátt að ná útivallarmarkinu rétt áður en dómarinn flautar leikinn af og förum áfram.

  2. Mikið er nú gott að Liverpool lenti ekki í höndum þessara manna sem eiga Man City.Það er samt umhugsunarefni að öll bestu fótboltalið evropu séu komin á einn eða annan hátt undir þessa menn,nema okkar lið, það má bara aldrei ske .
    Ég vona fótboltans vegna að þessir oliueigendur missi áhugann á að eyða peningonum sínum í þetta sem fyrst, annars fer illa fyrir íþróttinni.
    Ég er eins og flestir smá stressaður fyrir seinni leiknum,en samt held ég að þetta hafist af því að við höfum Van Dijk og Karius sem verða sennilega okkar mikivægustu menn á morgun.

  3. Ég yrði vægast sagt hissa ef okkar ástkæra Liverpool færi ekki í undanúrslit CL. Til þess eru einfaldlega þýsku áhrifin í liðinu of afgerandi. Ég dreg ekki dul á að ég er hrifinn af Þjóðverjum. Ég hef unnið í næstum tvo áratugi í Þýskalandi hluta ársins og lært að meta land og þjóð.

    Þjóðverjar eru vitanlega ekki gallalausir og fáránlegt í raun að alhæfa um 90m manna þjóð. Þjóðverjar eru bara allskonar eins og aðrar manneskjur. Það má þó finna þjóðareinkenni hjá flestum þjóðum og ég er að vísa til þeirra þegar ég tala um “þýsku áhrifin”. Það er Bismarck járnkanslari sem lemur saman það Þýslaland sem við þekkjum í dag. Bismarck var Prússi og hugmyndir Prússa um hernað o.fl. hafa mótað þjóðverja og fótboltaleikfræði þeirra þar með að mínum dómi.

    Til einföldunar mætti svo segja að undir stjórn Friðriks mikla og hans helsta hugmyndasmiðs, von Clausewitch, hafi hugmyndir þjóðverja um hvernig á að taka á andstæðingum sínum litið dagsins ljós. Þegar við lesum um “gegenpressen”, “German ruthlessness, o.s.frv. er það á sinn hátt endurómur hugmyndafræði Prússanna um það sem er kölluð Huiter taktíkin. Það er nánast í erfðaefni þjóðverja að berjast við ofurefli og skipulag þeirra gengur því mikið út á að þekkja andstæðingin út frá veikleikum og styrkleikum. Þjóðverjinn mun alltaf reyna að sækja á veiku punkta andstæðingins af algjöru miskunnarleysi.

    Sumir halda að þjóðverjar séu bara skipulag og verklagsreglur en það er misskilningur. Þvert á móti er mjög hvatt til sköpunar og frumlegrar hugsunar og það hef ég oft séð sjálfur. Seinni heimsstyrjöldin var einnig gott dæmi þetta. Nú má engin halda að ég sé að mæra þá viðbjóðslegu stjórn sem réði í Þýskalandi hin myrku ár nasismans. Vitanlega ekki ég fyrirlít nasismann af öllu hjarta eins og allir góðir menn. Ég er einfaldlega að líta á herfræðina og reyna að tengja hana við fótbolta. Ég held líka þó að þýsku hermennirnir væru að verja ömurlegan málstað voru þeir bara flestir venjulegir strákar í aðstæðum sem voru ekki á þeirra ábyrgð.

    Eitt af því sem olli Bandamönnum erfiðleikum eftir innrásina í Normandí var harðfylgni þýsku hermannanna. Bandaríkjamenn, Bretar, o.fl. höfðu ótrúlega yfirburði í fjölda hermanna og vopnabúnaðar. Yfirráð í lofti voru einnig algjör en þrátt fyrir alla þessa yfirburði tók það þessi heri næstum ár að komast inn í Þýskaland frá Frakklandi. Þarna lék hugmyndafræði þjóðverja um liðið “mannchaft” og Huiter taktíkin stórt hlutverk. Þessi hugmyndafræði var ólík því sem kennt var í bandarískum herskólum. Staðaleiningin kallaðist riðill og var eiginlega eins og fótboltalið þ.e. 10 menn voru í riðli. Áherslan var lögð á að hermennirnir impróviseruðu og jafnvel þó að yfirmaðurinn félli þá tók bara næsti við öfugt við t.d. bandaríska herflokka sem áttu við forystuvanda að etja félli liðsforinginn.

    Þessir herflokkar gáfu yfirleitt ekki eftir fyrr en í lengstu lög og til eru margar ótrúlegar sögur af undankomu þýskra herflokka eftir harða bardaga gegn ofurefli. Það sem meira var þeir réðust alltaf aftur til baka (gegenpressen) þ.e. gerðu gagnárás gegn ofureflinu sem fór mjög illa með taugakerfi andstæðinganna.

    Áherslan var einnig lögð á rétta samsetningu vopna. Þar lék hin fræga vélbyssa MG34 stórt hlutverk og bardagaharka þýsku strákanna ávann sér fljótt mikla virðingu t.d. bandarískra hermanna. Staðreyndin var sú að fyrir hvern einn þýskan hermann sem féll eða særðist féllu eða særðust tveir hermenn Bandamanna. Á austurvígstöðvunum var þetta hlutfall samt miklu hærra, jafnvel einn þýskur á móti sjö sovéskum hermönnum.

    Árangur þjóðverja í íþróttum er ágætis dæmi um þeirra hugarfar. Ekki síst í fótbolta. Ef ég man rétt hafa verið haldin 20 heimsmeistaramót í fótbolta. Í sjö skipti af þessum tuttugu hafa þýsk landslið spilað úrslitaleikinn sem segir sína sögu um þýsku gæðin. Mér finnst komin þessi þýsku gæði í Liverpool. Þjálfarinn er þýskur, Can og Karius eru þýskir. Lovren ólst upp í Þýskalandi og Firmino, Matip og Klavan lærðu sína iðn í Þýskalandi og Mané í Austurríki. Þá má ekki gleyma Keita sem kemur frá Leipzig.

    Það væri verulega “óþýskt” að klúðra þessari stöðu. General Klopp verður búinn að liggja yfir taktíkinni með það hugarfar að “Planung ist alles aber” en leggur jafnframt áherslu á að “das Manschaft” geti impróviserað.

  4. Takk fyrir þessa fróðlegu og skemmtilegu upphitun. Manni finnst nú ekki geðslegt að hafa svona lið bak við tjöldin í ensku deildinni en þetta er víst víða svona því miður.
    Hvað liðið okkar varðar þá kaupi ég það ekki alveg að hópurinn sé ekki nógu fjölmennur. Hann er nógu fjölmennur en plagandi meiðsli sem nú hrjá liðið myndu hafa áhrif á öll lið. Gleymum því ekki að núna þetta tímabil hafa þrír til fjórir menn verið keyptir sem eru meira og minna í fyrsta liði, MS, VVD, AR og AOC . Af þeim sem voru seldir var Couthino sá eini sem var í fyrsta liði, jújú Lúkas annarslagið en Sakho var aldrei í plönunum. Ef Klopp hefði talið hópinn of fámennan þá hefði hann kallað fleiri menn til baka úr láni um áramótin. Síðan er það styrkleikinn á mannskapnum, það er svo önnur ella. Það er kannski ekki neitt bakkupp fyrir Lallana og Can í þeirra meiðslum (ef þeir eru nr 4 og 6 á miðjunni, sennilega Can ofar ef hann reynir að spila eins og maður), Ings nýkominn til baka úr meiðslum og svo greyið hann Solanke sem átti að vera einhver efnilegasti ungi leikmaður Evrópu. TAA var örugglega ekki hugsaður sem byrjunarliðsmaður nema þá til að hvíla aðalmenn, eins með Comez og Klaven.

  5. Geisp !! Einar er alveg búinn eftir þennan lestur .
    sem betur fer er leikurinn á morgun 😉

  6. Nr.4

    Hugsa að Liverpool sé ekkert alltaf með einhver siðfræðileg sjónarmið þegar kemur að viðskiptasamningum og ég tel alls ekki ólíklegt að félagið hafi nú þegar gert eða komi til með að gera einhversskonar samninga við aðila frá þessum svæðum. Klárt mál að Liverpool myndi ekki neita peningum frá Abu Dhabi ef þeir væru í boði. Þessi yfirferð um eigendur Man City var a.m.k. ekkert hugsuð til að mála allt varðandi eignarhald Liverpool einhverjum dýrðarljóma.

    Liverpool (og flest lið) er samt blessunarlega ennþá ekki mikivægt áróðurstól í eigu einræðisríkis með eins galið stjórnarfar og er við líði í Abu Dhabi eða Qatar þar sem PSG er notað nákvæmlega eins og Man City. Eigendur þessara liða munu ekkert missa áhugan á enska boltanum í bráð, ekki meðan hann er svona vinsæll um allan heim.

    Ágætur punktur sem einn Chelsea félagi minn kom með, munurinn á umfjöllun um eignarhald Chelsea og Man City er magnaður þó aðeins séu fjögur ár á milli þess að liðin eru keypt. Roman hefði betur lagt eins mikla áherslu á að ímynd útávið og þeir frá Abu Dhabi eru að gera.

  7. hvernig er það, er ekki bannað að ríkisstyrkja félög í evrópu og er ekki jafn augjóst að City er ríkisstyrkt af tveim löndum utan evrópu, hverjum ætli sé borgað til að leifa þessu að viðgangast?

  8. Þökk fyrir fína upphitun, Einar.

    Mikilvægt að halda umræðunni lifandi um eignarhald evrópskrar knattspyrnu frá þessum hræðilegu löndum í mið-austurlöndum. Á því að þetta ógnar knattspyrnuheiminum meira en allt annað, og enn verra eins og þú réttilega minnist á, hvernig þeir nota boltann til að hvítþvo ógnarstjórn sína í heimalöndum sínum. Við eigum að vera þakklát fyrir að hafa flotta eigendur frá (enn?) lýðræðisríki sem hefur mannréttindi að leiðarljósi. Aldrei vanmeta þessa gjöf!

    Að boltanum, þetta City lið er eitt það besta sem maður hefur séð og því er maður langt í frá öruggur með þennan leik þrátt fyrir stórkostleg úrslit í síðustu viku. Þetta á eftir að vera umsátur dauðans og mun reyna allsvakalega á varnar- og miðjumenn að vera á fullu gasi og með einbeitinguna í lagi. Möguleikinn á að setja hraðaupphlaupsmark verða til staðar og djö…. vona ég að við náum að pota inn einu. Mun róa mann allsvakalega og draga úr áfengisdrykkju morgundagsins líklega…. 🙂

    Ætla að vera bjartsýnn og segja að við löndum þessu. Hugsanlega töpum við baráttunni, en við sigrum stríðið!

    YNWA!

  9. Ég held að fólk sé aðeins of svartsýnt. Við þurfum bara 1 mark, þá þurfa þeir 5. Come on, lið hafa alveg skorað hjá city. En þetta gæti endað 3 -2, þess vegna 3-1. Og þá er ég svartsýnn!!

    YNWA

  10. Maður berður sennilega en meora stressaður á morgun en fyrir fyrri leikinn og er í raun löngu orðin stressaður. Þetta er ennþá 50/50 fyrir mér. Það yrði mesta martröð lifa mína ef city myndi snúa þessu við, ef þeir skora mark á fyrstu 10-15 mínútunum mun maður gersamlega missa hjartað í buxurnar og einvígið galopið. Hins vegar vona ég að Klopp mæti í þennan leik og pressi á þá þessar fyrstu 10-15 og Reyni að pota þessu marki því ef við kæmumst yfir þá fyrst gæti maður aðeins andað léttar. Okkar lið yrði gert af athlægi ef við myndum missa þetta forskot niður og detta út bara eitthvað sem má alls ekki gerast..

    Ég spái að við töpum 2-3, verður öruggt allan tímann þar sem. Við annaðhvort komumst yfir eða jöfnum 1-1…eitt er. Víst að maður mun naga sælar neglur á morgun og sennilega flesta puttana líka…

  11. Ég er bjartsýnn, ekki vegna þess að við erum með betra lið, heldur vegna þess að við erum með snilling sem stjóra. Hann talar aldrei niður til sinna leikmanna heldur liftir þeim á hærra plan. Býr til leikmenn en rífur þá aldrei niður.
    YNWA.

  12. Er hægt að fá þessa pistla í hljóðbókarformi manni verður ekkert úr verki í vinnunni !!!!!

  13. Virkilega áhugaverður pistill. Vandamálið við fótboltann er í hvaða tilgangi peningahyggjuöflin nota hann. Það er algjört augnayndi að horfa á Man City spila fótbolta og þeir eru klárlega flaggberar áferðarfallegrar knattspyrnu sem auðveldara er að heillast að en ekki. Það breytir því ekki að eigendur klúbbsins eru vægt til orða tekið vafasamir og ekki hægt annað en að horfa á þá með gagnrínisaugum.

    Í raun þykir mér kraftaverki Líkast að, Liverpool er líklegt að Man City út úr meistaradeildinni á morgun miðað við hvað Man City eru fjársterkir.

  14. Salah var á æfingu hjá Liverpool í dag svo að hann verður með á morgun 🙂

  15. Liverpool býður fótboltaunnendum upp á spennandi fotbolta um þessar mundir. Í fyrri leiknum gegn City í síðust viku sýndi Liverpool gæði, áræðni og sprengikraft í leik sínum sem minnir á gamla tíma sem gefur fullt tilefni til að vera bjartsýnn um framhaldið. Jurgen Klopps Volswagen getur vel rutt Guardiolas Ferrari af veginum. Það eru 10 ár síðan Liverpool lék síðast til undanúrslita í Meistaradeildinni og ofan á fjarveruna frá stóra sviðinu þá hefur liðið aldrei verið nálægt því að að ná þangað fyrr en nú. Draumur um sigra á stóra sviðinu hefur enga dagsetningu, hann lifir út fyrir undanúrslita og lokaleikinn í meistaradeildinni og svo lengi sem framþróun í leik Liverpool heldur áfram í anda Klopps. Úrslitin á Anfield í síðustu viku voru ekki bara skref í átt að úrslitaleiknum heldur einnig sýning fyrir Evrópu. Áminning um að sofandi risi sé að vakna af áratugs dvala. Liverpool hefur ekki bara sýnt hversu öflugir þeir eru heldur vill ekkert af þeim liðum sem eru eftir í keppninni fá þá sem mótherja. Ástæðan “gegenpressning”.

  16. Ég er ekki viss um að ég geti setið kyrr fyrir framan skjáinn á morgun út af spenningi, held ég standi bara og voni að MC spili ekki eins vel og í fyrri hálfleik á móti MU. Þá gætum við verið í slæmum málum, og þó við höfum VVD og MoSala 🙂
    Og svo “off topic” Ég fæ hroll þegar ég sé fautan Fellaini orðaðan við Liverpool.

  17. Væri ekki einhverjir til í að Jeff Bezos eða Bill Gates myndu kaupa félagið er ekki eitthvað til af peningum þar og jafnvel heiðarleiki ?

  18. Spái 3-0 í hálfleik fyrir city. Þeir bæta svo við einu á 67 mínútu, 4-0. VVD setur svo mark með skalla í uppbótartíma og förum áfram með marki á útivelli 4-1

  19. Fyrstu 20 mín eru gríðarlega mikilvægar í svona leik þar sem annað liðið þarf að skora nokkur mörk.
    Mark í upphafi gefur liði mikið sjálfstraust og setur efa í andstæðingana en haldi liverpool þessar mín út þá fer hægt og rólega að koma smá stress í heimamenn. Þeir fara að berjast við klukkuna og einbeiting getur farið.

    Man City munu koma af gríðarlegum krafti inn í þetta og sjá hvort að við föllum til baka en við verðum að vera hugrakir og mæta þeim af krafti og ekki falla of langt tilbaka.

    Spái því að okkur takist að halda hreinu í fyrirhálfleik. Man City skorar svo í síðari og svo alveg í blálokinn en það dugar ekki til. 2-0 sigur Man City og við förum áfram með bros á vör.

  20. Ég úthluta meistaragráðu í sagnfræði á Einar Matthías, og á Guderian líka!

    Algjört eðalstöff.

    1
  21. Við fáum einhverja þvælu svipað og Man City vs Monaco í fyrra. Spái þessu 4-3 fyrir City

  22. Verðum að skora a.m.k. eitt mark á morgun annars er þetta búið spil.

  23. Storkostleg skrif herna a thessari sidu, annad en thetta norska lyklabord sem eg er med herna i vinnunni minni. Tusen takk for meg!

    Eg er alveg a mørkunum ad getad girad mig upp i ad horfa a leikinn, søkum stress og annarra tilfinninga. Eg veit bara eitt, ef vid leyfum theim ad komast 2 mørkum yfir i fyrri halfleik, tha er eg farinn i gøngutur ut i myrkrid med hundinn, bara einhvern hund, thvi eg a engan!

    Sjæse… Eg finn hjartad kippast vid thegar eg hugsa um leikinn. Er madur rugladur eda hvad?

  24. Ég veit ekki með ykkur en ég er strax farinn að finna fyrir hjartsláttartruflunum út af leiknum.

  25. tökum city 4:0.. þeir munu missa allt niðrum sig strax í byrjun leiks.

  26. Þetta er fótboltaleikur en ekki stríð. Það er ekkert ömurlega en stríð og að tala um seinni heimsstyrjöldina og allan þann viðbjóð eykur ekki spennuna fyrir leiknum gegn City.

  27. VÁ! Þvílík upphitun og mikið æðislega náðiru að stressa mig en meira fyrir leikinn í kvöld.

    Dreymdi að Salah tryggi okkur 6-3 ósigur (samt sigur) með síðasta marki leiksins. Sjáum til með það.

    Bring it on Abu Dhabi!

  28. #28 Hendo er því miður í banni, væri annars sjálfvalinn í liðið.

    Ég hef trú á okkar mönnum og spái 2-0 fyrir Liverpool, City sækja örvæntingarfullt og okkar menn setja á þá í fyrri hálfleik og svo annað rétt fyrir leikslok svona til að negla þetta endanlega.

    Segjum að fyrra markið verði Mané og svo setur van Dijk seinna eftir horn.

  29. Stórskostleg upphitun og að mínum dómi sú besta frá upphafi.

    Las á einum stað eftir einhvern snargeðveikan tjalla og ætla að þýða orð hans og gera að mínum.

    City er sært dýr og hvað gerirðu við sært dýr – Þú deyðir það !
    Það er það sem við eigum að gera í kvöld !

    2-1 fyrir Liverpool í kvöld og Salah (Góði Fowler – Leyfð´onum að sleppa)

  30. Takk fyrir athyglisverða ummfjöllun í upphituninni.

    Við skorum fyrsta markið í kvöld, þar með er þetta einvígi búið.

  31. Liverpool vinnur City ekki þrisvar sama árið en við förum samt áfram…

  32. Virkilega skemmtileg og flott umfjöllun, takk fyrir það.

    Koma svoooo og klára þetta í kvöld!!!!!!!!

  33. Sófapekingurinn ég skrifaði þetta fyrir síðasta leik.

    “TAA hefur verið í lægð að undanförnu og Sane er búinn að vera í þvílíku formi. Efa að Clyne sé tilbúinn í slaginn og því myndi ég vilja sjá Millner í hægri bakverðinum. Sem sófaspekingur tel ég þetta vera einn af lykilþáttunum til að standast áhlaup þeirra ljósbláu á morgunn. En ef TAA byrjar að þá vona ég að hann troða þessu jafn harðan ofan í mig og sýni fram á að ég sé aðeins sófaspekingur. YNWA”

    sófaspekingurinn skrifar þetta aftur. Virkaði síðast.

    YNWA

  34. Nr. 35
    Spurning hvort þú verðir þá ekki að troða sófanum upp í þig ef TAA spilar jafn vel í kvöld og í fyrri leiknum? 🙂

    Held ég fari annars með Svavari að labba með hundinn komist City í 2-0. Ég bý samt ekki einu sinni í Noregi og á heldur engan helvítis hund!

  35. Menn sem hafa áhyggjur af þessu Fellaini dæmi þetta var lélegt apríl gabb sem var lengi á miðlum og spjallborðum þannig engar áhyggjur við erum ekki að fara fá þessa hárkollu til Liverpool.

    Við þurfum mark helst að skora fyrst þá verður þetta of mikið fyrir City og þeir verða stressaðir og gera mistök við að flýta sér.

    Ég mun aldrei í helvíti vanmeta City samt á þessum velli er drullu smeykur fyrir kvöldinu og það er ekkert sem breytir því.
    Ef að City byrja á að skora þá er ég ekki viss um að ég hafi taugar að horfa held ég muni gera það sama og Einar fara út að labba með hundinn og já ég á engan.

  36. Sæl og blessuð

    Þvílíkur snilldarpistill og það er í raun framlag til heimsmenningarinnar að sigra City og hina olíuklúbbana svo við hömpum CL titlinum í vor.

    Þetta verður geigvænlegt. City er ekki bara með breidd í mannskap, völlurinn er mun stærri en okkar og gerir okkur erfiðar um vik að sækja á þá eins og geitungahópur. Þeir fá meira pláss til að athafna sig og kunna á sínar heimalendur.

    Miklu varðar að Salah verði með. Hann er búinn að gera sig algjörlega ómissandi. Ef við njótum ekki krafta hans þá verður þetta allt miklu erfiðara og bitið úr skyndisóknum minnkar svo mjög að sóknarþunginn verður hálfu meiri.

    Svo er ég logandi smeykur við Aguero. Það munaði nú miklu að hann skyldi ekki vera með síðast. Svakalegur leikmaður þar á ferð og stríðsmaður. Það verður ekki auðvelt að halda aftur af honum í kvöld.

    Þori ekki að spá en er skítlogandidrulluhræddur og ætla að fá að vera það þangað til blásið verður til leiksloka í kvöld!

  37. Frábær upphitun.

    Ég er bjartsýnn, er samt reiðubúinn því versta.

  38. #33. Við gerum það bara víst.
    Annars agalegt að vera settur í uppskurð á svona degi en ætti þó að ná leiknum. Enn ein vísbending um að heilbrigðiskerfið er ekki upp á sitt besta. ?

  39. Hvernig er ætlast til þess að maður mæti í skola/vinnu og geti gert nokkurn skapaðan hlut á svona degi.

    Hlakka til kvöldsins og vona að ég þurfi ekki að fara út að hlaupa eftir 30 mínutna leik. Hef samt fulla trú á Klopp hann hefur bara einu sinni tapað með mun sem myndi gefa city sigurinn gegn Guardiola og það manni færri þegar City voru a sinni mestu siglingu og Mane sem var rekinn utaf var líklega okkar stærsta nafn á þeim tíma það gleymist.

    Ég spái því að Liverpool mæti í leikinn eins og staðan sé 0-0 og reyni að spila sama leik og síðast enda ekkert annað í stöðunni muniði þegar Paris ákvað að halda að eitt mark myndi duga og vera bara sáttir með að tapa 5-1 það gekk ekki alveg en Klopp er mun reyndari stjóri en sá sem þjálfar það ólíufélag.

    Mín spá er að staðan verði 2-1 í hálfleik Liverpool í vil og Klopp tekur þá Salah útaf í staðinn fyrir 3. miðvörðinn og spilar kerfið sem hann hefur verið að prufa í lok leikja á tímabilinu og jafnvel að mane fari útaf fyrir Moreno og höfum þá meiri vernd á vinstri helmingnum hja okkur hinum megin munu Milner og Arnold aftur sjá um Sane.

    Leikurinn endar 3-2 fyrir City og stuðningsmenn þeirra fara grátandi heim eins og þegar þeir mættu United um helgina og það tafðist að þeir vinni deildina formlega. Ef Liverpool væri i stöðu með 6 leiki eftir að geta unnið United og tekið deildina en myndum tapa þeim leik þá væri mér held ég alveg sama þessir stuðningsmenn eru ekki að standa með liðinu í gegnum allt ekki einu sinni þegar deildin er unnin þeir vilja alltaf meira og bestu spilamennskuna og vinna allt 3-0.

    Þess vegna held ég að stuðningurinn á Etihad verði ekki mikill ef að okkar menn skora í fyrri hálfleik og eins og við Liverpool menn vitum þá skiptir stuðningur bara miklu meira máli en allt annað í svona einvígjum höfum kynnst því þar sem að endalaust af ótrúlegum hlutum hafa gerst á Anfield þegar við spilum í þessari keppni nefni hér dæmi eins og Olympiakos, Chelsea(2005), Chelsea (2007), Real Madrid (2009).

    Ekki hef ég séð City vinna alvöru einvígi í meistaradeildinni fyrir kannski utan París hitt í fyrra ef ég man rétt. Þeir duttu út gegn Monaco í sturluðum leik á Etihad síðast.

    Hef fulla trú á Clean Sheet Karíus og markvarslan hans um helgina var ekkert til þess að minnka trúnna á að hann nái að verja allavega nokkur frábær skot í þessum leik. Erum með flest Clean Sheet í þessari keppni og flest mörk City er ekki nálægt okkur í tölfræði í keppninni og hafa þannig séð verið í henni af hálfum krafti ótrulegt en satt.

    City bregðast ekkert rosalega vel við mótlætinu sem hefur keyrt yfir þá síðustu vikuna og vona ég að Jesus og félagar haldi bara áfram að missa haus og trú við smá mótlæti og sterling haldi áfram að klúðra færum eins og gegn United.

    Endar 3-2 city (5-3 Liverpool áfram í Undanúrslit)

    #UpTheReds
    #YNWA

  40. Frábær upphitun!
    Ég þori ekki að spá fyrir þennann leik. Ég bið bara til Salah að setja þrennu.
    Sjitturinn titturinn m.. og h.. hvað ég er stressaður.
    Þetta verður alvöru slagur en ég vona!

  41. Ég skil alveg að fólk er stressað og vill ekki jinxa leikinn. En líkurnar á að LFC komist áfram eru yfirgnæfandi. Það er alveg hægt að teikna einhverja hryllingsmynd þar sem Sittí skora 2 mörk snemma, en…

    … síðan VVD kom til liðs við félagið hefur það einungis gefið 3 mörk gegn Sittí í sigri 4:3 og með varaliðinu gegn West Brom í bikarnum.
    … síðan að VVD kom til liðs við félagið í janúar, hefur liðið skorað í öllum leikjum nema 3 — og tveir þeirra voru merkingarlaus seinni leikurinn gegn Porto og viljandi rólegur leikur nú gegn Everton.
    … þau lið sem hafa sótt gegn LFC hafa ÖLL fengið á sig mark.
    … LFC hefur skorað fleiri mörk í UCL en nokkuð annað lið
    … Samkvæmt 538/ESPN eru 94% líkur á að LFC komist áfram (https://projects.fivethirtyeight.com/soccer-predictions/champions-league/)

    Það er kominn tími á að endurheimta sjálfstraustið sem Dalgliesh, Rush og Carra höfðu. Liverpool er best.

  42. Andri minn, prósentureikningur er ekki að fara að gera neitt fyrir okkur í þessum leik.
    Það voru nú ekki miklar líkur á að leicester hefði orðið meistari um árið og prósentureikningur var alls ekki united í hag síðustu helgi í hálfleik á einmitt Ethiad.
    Það þarf að spila leikinn og ég er hræddur við að okkar menn gætu hugsað svipað og þú. Spennustig og hugarfar mun ráða úrslitum í kvöld. Vonum að það verði Liverpool.
    YNWA!!

  43. Spennustigið virkar báðar leiðir til allrar hamingju maður vonar að City menn reyni að rusha sig áfram og geri mistök Liverpool er fljótt að refsa fyrir mistök en City eru líka góðir í að nýta sér okkar þetta verður spurning um andlegan styrk ekki bara líkamlegan.

    Vonum að Klopp sé búin að koma með eitthvað svaðalegt battleplan því það mun þurfa í kvöld!

  44. Þetta er erfitt dæmi. Við megum ekki reyna að halda, heldur að skora útimark og þá ætti þetta að vera komið í höfn. ÁFRAM LIVERPOOL.

  45. Ég ber von í brjósti að herr Klopp stilli okkar menn rétt í höfðinu sem og á vellinum.
    Þetta verður allavega markaleikur og mikil skemmtun. Góði guð, ekkert 2017 Barcelona vs PSG rugl á Ethiad í kvöld, amen.
    Áfram Liverpool, keyra þetta sittí lið í svaðið!!!

  46. Liðið er komið. Winjaldum inn fyrir Henderson(banni). Allt annað sama og í síðasta leik gegn city.

  47. #46

    Ég hef 0% áhyggjur af því að Klopp, hans aðstoðarmenn, og leikmenn sem hafa verið atvinnumenn í fótbolta hugsi eins og miðaldra kontóristi og verði að velta fyrir sér prósentum í leiknum…

    En ég er líka 100% viss um að innst inni er Klopp ekki að skjálfa á beinunum yfir þessum leik. Hann veit að ef liðið spilar eins og það hefur spilað í næstum 40 leikjum þetta tímabil þá hefur það styrk bæði til að vinna leikinn og ef ekki til að vinna leikinn til að komast áfram. Þetta er ekki spurning um að gera eitthvað ógurlegt og nýtt, heldur að halda því áfram sem hefur verið að virka.

    En sjálfstraust er ekki það sama og kæruleysi — er sammála því. #YNWA

  48. Eruð þið ekki að grínast með spennuna fyrir þennan leik maður bókstaflega nötrar útí eitt !! KOMA SVO LIVERPOOL LETS GOOOO !!!

Everton 0 – 0 Liverpool

Byrjunarlið gegn City