Southampton: Fyrri hluti

Tjallinn er með’etta. Tjallinn er langt frá því að vera vanafastur. FA bregðast hratt og vel við breyttu umhverfi. FA leggur mikið upp úr að leikjaálag sé ekki of mikið. England á þar af leiðandi algjörlega frábært landslið. Það er nefninlega svo ótrúlega gáfað að taka bikarkeppnina sem hefur hvað mest átt undir högg að sækja og halda þar forminu um tvo undanúrslitaleiki. Þetta hér að framan sagði ekki nokkur maður, bara aldrei. Það er auðvitað jákvætt við þetta að við fótboltafíklarnir fáum aukaleik hjá okkar liði, en hvernig má það vera að FA horfir á þetta með blinda auganu. Rétt eftir gríðarmikla jólatörn, þá fara liðin sem árangri hafa náð í þessari keppni í tveggja leikja undanúrslitaleiki. Og svo hefur FA haft af því miklar áhyggjur að liðin sýni þessari keppni ekki nógu mikla virðingu og tefli oft á tíðum fram hálfgerðum varaliðum. Já, þessi heimur er stundum svolítið skrítinn og stundum efast maður hreinlega um hvað menn séu að gera hjá Enska Knattspyrnusambandinu, svona almennt séð.

En hvað um það, það er bara alveg æðislegt að vera komin með liðið á þennan stað í keppninni. Þó svo að þessi bikar sé álitinn sá sísti af þeim þremur sem í boði eru á Englandi, þá er bikar alltaf bikar. Að vinna þennan bikar vs. FA bikarinn er stigsmunur, ekki eðlismunur. Við erum tveim leikjum frá því að fara enn og aftur á Anfield South og það er alltaf gaman. Að vinna titil getur virkað sem algjör vítamínsprauta á það sem eftir er tímabilsins. Menn fá blóð á tennur og vilja meira, þannig er það bara. Það er allt miklu skemmtilegra þegar vel gengur, ekki bara hjá okkur stuðningsmönnunum, heldur líka hjá leikmönnum og aðstandendum félagsins. Það sem flækir þennan leik aðeins er reyndar sú staðreynd að liðið á leik gegn Man.Utd næsta sunnudag. OK, en það er góð hvíld á milli leikjanna? Já, mikið rétt og ég efast um að menn finni fyrir þreytu næsta sunnudag þótt þeir spili þennan leik. Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um meiðslahættu, þ.e. það verður ekki tekinn neinn séns með tæpa leikmenn. En þetta er fyrri leikurinn, hann er á útivelli og menn ættu alltaf að geta notað hópinn aðeins núna, án þess að eiga á hættunni að tapa allri viðureigninni í þessum leik. Það spiluðu til að mynda mjög fáir lykilmenn um síðustu helgi, í rauninni enginn af okkar sterkasta 11 manna liði.

Síðast þegar við fórum til Southampton, þá náðu þeir að hanga á jafnteflinu. Við áttum klárlega að vinna þann leik, en náðum ekki að finna leiðina í markið hjá þeim. Ég væri reyndar alveg sáttur við sömu úrslit núna, en ég er nokkuð viss um að Klopp fer ekki með sína menn til þess að taka jafnteflið, hann mun spila til sigurs. Það eru margir ágætis leikmenn í þessu Southampton liði og ég hef ekki farið í grafgötur með álit mitt á Virgil van Dijk, en gengið hjá þeim upp á síðkastið hefur ekki verið gott. Þeir gerðu jafntefli í bikarnum um síðustu helgi, líkt og við, en þar áður höfðu þeim tapað þremur leikjum í röð í deildinni. Þeir verða án Charlie Austin, þeirra markahæsta manns, en hann verður frá alveg fram í apríl. Þeir Boufal, Targett og Pied verða einnig fjarri góðu gamni. Jay Rodriguez hefur verið að stimpla sig inn eftir löng og erfið meiðsli og þeir Tadic og Long geta svo sannarlega verið skeinuhættir. En það er samt algjörlega ljóst mál að markaskorun er lang stærsta vandamál Southampton, því aðeins 2 lið í deildinni hafa skorað færri mörk en þeir, það eru Hull og Middlesbrough. Southampton hafa bara skorað 19 mörk í þeim 20 leikjum sem þeir hafa spilað í deildinni. Vonandi heldur þessi markaþurrð þeirra bara áfram.

Hjá okkar mönnum er það að frétta að þeir Henderson, Matip og Grujic verða ekki með vegna meiðsla og James Milner er sagður tæpur fyrir leikinn. Coutinho mun væntanlega snúa aftur í liðið og verður örugglega á bekknum. Mér finnst ákaflega líklegt að Klopp gefi honum einhverjar mínútur þegar líður á leikinn, svona til að koma sér í betra spilastand fyrir sunnudaginn. Mané verður heldur ekki með þar sem hann er horfinn á braut í Afríkumótið og vil ég bara nota tækifærið og óska liði Senegals slaks gengis í mótinu og með von um að þeir detti út sem allra fyrst. En það eru klárlega jákvæðar fréttir að fá Coutinho aftur inn um leið og Mané fer út. Ég nenni ekki neinu rausi um álag fyrir þennan leik, það er jafnt á báðum liðum. Nota hópinn, já, en vera með sterkan kjarna. Ef allt hefði verið eðlilegt, þá hefðu menn eins og Emre Can, Divock Origi og Alberto Moreno stimplað sig rækilega inn í síðasta leik og gert tilkall á byrjunarliðssæti í þessum. Í staðinn voru þeir mestu vonbrigðin í 0-0 jafnteflinu gegn Plymouth, en ekki ungu og óreyndu strákarnir. En það geta allir átt slakan dag og vonandi að menn rísi núna upp. Þar sem ég á ekki von á því að þeir spili stór hlutverk á sunnudaginn, þá gæti ég vel trúað því að þeir myndu fá þennan leik aftur í byrjunarliði.

Ég ætla að tippa á að Karius verði áfram í rammanum í bikarkeppnum, en ég reikna með að Clyne, Lovren og Klavan komi inn í liðið að nýju. Þar sem Milner er spurningamerki fyrir leikinn, þá finnst mér ekki ólíklegt að Moreno byrji sem vinstri bakvörður. Ég á svo von á því að Can komi aftur í þá stöðu sem hann var í gegn Sunderland og verði þar af leiðandi í Henderson rullunni. Ég væri þó mun meira til í að sjá Lucas eða Stewart í þeirri stöðu, enda Can verið arfaslakur í þessum síðustu tveimur leikjum, þó svo að hann hafi spilað sitthvora stöðuna í þeim. Málið er einfaldlega það að hópurinn er frekar þunnur og ekki mikið í boði með breytingar, ætli menn sér á annað borð að stilla upp sterku liði. Maður eins og Grujic hefði örugglega fengið þennan leik, en ætli við sjáum ekki Stewart fá annan séns, þar sem mér sýnist Klopp hugsa Lucas orðið fyrst og fremst sem miðvörð. Ég nefninlega efast um að þeir Origi og Sturridge spili báðir og ég hallast eiginlega helst að því að Daniel verði geymdur sem mest í bómul fram á sunnudag. Ég ætla því að tippa á að liðið verði svona:

Karius

Clyne – Lovren – Klavan – Moreno

Stewart – Can – Wijnaldum

Lallana – Origi – Firmino

En já, þetta lið á vel að geta klárað leikinn með góðum sigri. Eins og áður sagði, þá væri ekkert hundrað í hættunni þótt þessi leikur endaði með jafntefli, en ég reikna með að Klopp spili til sigurs. Hann vill eflaust ekki hafa liðið undir of mikilli pressu fyrir seinni leikinn á Anfield. Ég er bara býsna bjartsýnn fyrir leikinn og ég er á því að góður sigur í þessum leik, sé frábært veganesti inn í sunnudaginn. Ég ætla að reikna með 0-2 sigri okkar manna þar sem þeir Firmino og Lallana setja mörkin. The Road to Wembley.

2 Comments

  1. Það má alveg búast við að Herr Klopp noti ekki sitt allra sterkasta lið. Og ég styð það. Deildin hefur forgang. Og ég tala nú ekki um þegar næst leikur er gegn manu.
    Ég skil engan veginn þennan pirring með liðsvalið í síðasta leik. Reyndar er Ragnar Reykás á ferðinni hjá þeim sem pirra sig á þessum kjúklingum sem valdir voru og benda svo (réttilega) á að mestu vonbrigðin á móti Plymouth voru Can og Origi (sem þarfnast þess að sitja aðeins á bekknum). Eg nefni ekki Moreno. Vonandi sé ég hann aldrei í liði Liverpool aftur.
    Og ég bara spyr, hvar eiga þessir ungu leikmenn að öðlast reynslu með aðalliðinu ef ekki í svona leikjum???? Þeim tókst ekki að klára þetta, OK, en þeir fá vonandi allir að taka þátt í seinni leiknum. Bara frábært að fá annan leik fyrir þá á stóra sviðinu. Þó rimman tapist verð ég samt sáttur, ef þeir spila.
    Og eins og Herr Klopp benti á, þá er ekki öruggt að leikurinn hefði unnist með A liðinu. Það lið hefur reyndar klikkað á leikjum sem áttu að vera öruggir, munið Béin þrjú; Burnley, Bournemouth og …Sunderland.
    Leikurinn gegn Southampton verður allt öðruvísi leikur en Plymouth. Þeir munu leika til sigurs og við munum nýta okkur það og ungt og sprækt lið okkur drullurústar þeim!
    Ég er orðinn believer. Koma svo!

  2. Við erum með svo mikið yfirburðarlið miðað við Southampton að ég treysti því að Klopp taki enga sénsa fyrir baráttuna á sunnudag. Deildin er númer eitt, tvö og þrjú. Nota hópinn, ef þetta verður basl þá er alltaf seinni leikurinn eftir.. og hann verður á Anfield!

    Við förum sjaldan auðveldu leiðina svo ég get alveg séð okkur gera jafntefli á morgun, en ég ætla vera bjartur og spái 1-3 og okkar helstu menn fái góða hvíld.

Til ferðalanga og opinn þráður.

Podcast – Árleg bikarleikjavika