Ferðasaga: Hópferð Kop.is á Liverpool – Sunderland

Þegar fram líða stundir fer þessi leikur helst í sögubækurnar sem fyrsti leikur Ben Woodburn. Hann er sá líklegasti úr akademíu Liverpool á þessari öld. Úrval Útsýn ásamt Kop.is var með ferð á leikinn af þessu tilefni og er stefnan að reyna að rifja hana upp hér.

Að vanda get ég aðeins sagt frá minni upplifun af ferðinni en blessunarlega hélt ég dagbók að þessu sinni til að hjálpa mér að muna mesta ruglið. Dagbókina skrifaði ég reyndar að öllu leiti á twitter og var hún um ævintýri SSteins og verður hann þ.a.l. aðalsögupersóna.


Þar sem ferðin var klukkan 7:50 um nótt á föstudegi og ég búsettur á Selfossi ákvað ég að gista á hóteli í Keflavík nóttina áður. Þannig næði ég mögulega nægum svefni til að sofna ekki enn eina ferðina á pizzastað í Liverpool yfir kvöldmatnum. Frábært plan sem fór út um þúfur þegar Steini ákvað að gera þetta líka. 7-8 bjórum seinna fórum við að sofa ca. 1:00, ræs 5:00. Ég svaf minna en ég hefði gert heima.

Það að labba í gegnum Leifsstöð með Steina er upplifun útaf fyrir sig, en við náðum aldrei meira en 20 metrum áður en hann hitti næsta mann sem hann þekkti.

Rútuferðina frá Birmingham notuðum við til að fara aðeins yfir dagskrá helgarinnar og eftir check-in var farið beint á Anfield Road. Flestir fóru í skoðunarferð um völlinn og er óhætt að segja að það sé búið að hressa heldur betur upp á hann og koma klúbbnum nær nútímanum. Main Stand er vígaleg.

Steini án gríns heilsar starfsfólkinu á Anfield með nafni og fer því ekki í skoðunarferðina í hvert skipti. Næsta stopp var á The Vines hjá Ron stórvini okkar og gallhörðum Everton manni. Þar var Úrval Útsýn með smá veitingar til að hita upp fyrir kvöldið og við Steini héldum pub quiz Kop.is.

Við tókum Liverpool búðina á leiðinni á Vines og gerðum þar báðir bestu kaup sem við höfum gert á ævinni.

Sigurvegarar Pub Quiz voru þeir Sigurður Einar og Stefán Bragason og ég trúi ekki öðru en að þeir hafi keypt sér jólapeysur í Liverpool búðinni fyrir vinninginn.
pub-quiz

Eftir dagskránna á Vines fórum við Steini upp á hótel á smá fund og eins til að skipta yfir í bingó gallann. Því næst var það Nando´s og þaðan beint á Bierkeller með Svenna Waage vini okkar. Þar fyrst fattaði Steini að hann hefði gleymt því að fara í bingó gallann, hann var mættur í joggingbuxum og jólasveinapeysu. Þannig fékk hann ekki að fara inn og fékk skýr fyrirmæli hjá geðgóðri gæslunni að skipta um buxur.

Steini tók þessum fyrirmælum mjög alvarlega og kom ca. 40 mínútum seinna, vissulega í betri buxum en hann var ennþá í jólasveinapeysunni. En ótrúlegt en satt, hann bara fékk inngöngu þannig.

Steini sagði mjög ítrekað allt kvöldið að það væri allt við það að fara úr böndunum á Rubber Soul (grín úr síðustu ferðum) þannig að eftir Bierkeller var haldið á Matthew Street. Við SWaage fórum beint á Flanagans og vorum til lokunar þar. Steina týndum við strax en ég fékk það upp úr honum seinna að hann hefði farið á Rubber Soul, þar var allt við það að fara úr böndunum, og svo bara upp á hótel. Við sem sagt komum ekki á sama tíma heim og ég talsvert á eftir Steina.

Þetta blasti við mér uppi á hótelherbergi.


Þarna hraut hann eins og togari með fullt bjórglas á náttborðinu, líklega aldrei sáttari.


Guð má vita hvenær ég fór að sofa en það var ræs 8:00, morgunmatur og miðaafhending. Menn voru aðeins misjafnlega hressir og ekki hjálpaði að daginn áður höfðum við ekki komist í það að versla öryggisbyrgðir til viðgerðar.

Þannig að eftir að við höfðum afhent miðana á leikinn, átti grafalvarlegur Steini eftirfarandi samtal við lobbýið.

Steini: When does the rescue team arrive?
Lobbý: Wha?
Steini: When does the rescue team arrive?
Lobbý: Wha?
Steini: When does the rescue team arrive?
Lobbý: What do you mean?
Steini: When does the bar open? It’s a matter of life and death!

Maðurinn sem hann ræddi við skyldi ekki upp né niður, á meðan konan sem vann með honum í móttökunni gjörsamlega sprakk úr hlátri yfir þessu samtali.

Hluti af hópnum fór á The Vines þar sem Alan Kennedy hitaði upp fyrir leik. Við Steini fórum á Weatherspoons áður en haldið var á Anfield, það bjargaði öllu.

Fyrir leik héldum við á Park og það verður að viðurkennast að stemmingin þar hefur eiginlega alltaf verið betri, náði þó flugi fyrir leik, við fórum samt óvenju snemma inn á völl. Park, sem er beint fyrir utan Anfield, líður líklega aðeins fyrir það að klúbburinn er loksins búinn að ranka við sér og bæta gríðarlega aðstöðu inni á vellinum sjálfum. Þannig fá þeir fólk mun fyrr inn og á barina þar.

Leikurinn sjálfur var erfiður eins og við var að búast, það var mikið gert úr því þegar Klopp fór fram á meiri læti frá stúkunni en satt að segja var völlurinn ekkert svo slæmur á þessum leik. Frábært hinsvegar hjá Klopp þegar stress og pirringur stuðningsmanna var farinn að skila sér inn á völlinn.

Ég var stakur á leiknum og sat í hópi heimamanna. Þeir sem sátu við hliðina á mér hlóu svo mikið þegar Karius setti markspyrnuna útaf að maður gat ekki annað en gert það bara líka. Magnað atvik.

Það var þó fyrir öllu að leikurinn fór vel og Origi sannarlega að minna á sig. Það er rosalega gaman að horfa á pressu liðsins svona úr stúkunni, gefur manni betri heildarsýn yfir leik liðsins.

Eftir leikinn hitti ég Steina aftur í stúkunni inni á Lounge og var að labba samsíða honum í átt að fjórum stelpum sem voru að vísa fólki leiðina út. Augnablikið bauð uppá smá glens í Steina og tók ég mér stöðu og ýtti með báðum höndum á hann. Hugmyndin var að hann myndi labba á vegginn á meðan ég héldi áfram út en hann missti svona líka jafnvægið að hann fór í hliðarskrefum 4-5 metra og hvarf í gegnum hurð inn í eldhús á Anfield!

Það að horfa á eftir honum minnti mig á þennan sprett minn á Flúðum í fyrra.

Ég hinsvegar hélt áfram án Steina og framhjá stelpunum fjórum sem skildu ekkert hvað ég var að gera eða hvað orðið hefði af Steina. Hann var ekki velkominn inni í eldhúsi og kom því seint og um síðir aftur fram. Eitthvað var hann að reyna útskýra þetta fyrir stelpunum fjórum og væla yfir mér þannig að ég kom aftur inn og sýndi þeim myndina af Steina sofandi í jólasveinapeysunni, öllum til mikillar gleði.

Upp á hóteli eftir leik sá Steini að eitt parið í ferðinni var að borga reikning í sitthvoru lagi. Rétt eins og það væri ólöglegt.

Steini: Hva, eruð þið að borga í sitthvoru lagi?
Stelpan: Já, við erum sko ekki saman, ég er að spila fyrir hitt liðið…
Steini: Ha? Heldur þú með Everton?
Stelpan: Nei, ég er lesbía.
Steini: Já ok.

Hann sagði mér frá þessu í óspurðum fréttum einhverju seinna og skildi ekkert þegar ég kafnaði næstum úr hlátri yfir Everton hluta spurningarinnar. Fyrir Steina er það líklegasta skýringin að stelpa og strákur séu ekki saman í Liverpool borg ef annað þeirra heldur en Everton! Skiljanlega.

Eina sem við settum hópnum fyrir um kvöldið var að a.m.k. einum yrði hent út af Bierkeller. Við höfum aldrei farið í ferð þar sem engum úr hópnum er hent þaðan út. Einn úr hópnum tók þessari áskorun mjög alvarlega og dansandi yfir fjögur borð áður en honum var hent skælbrosandi út.

Það var það svo Matthew Street aftur, Rubber Soul með tilheyrandi látum áður en haldið var á hótelbarinn. Daginn eftir sögðu barþjónarnir mér að við hefðum verið þar til ca. 4 þá nóttina, Steini sofnaði t.a.m. aftur með fullan bjór á náttborðinu. Virðist ekki vera alveg pointið hjá honum að drekka þá, heldur fara að sofa með einn slíkan fullan sér við hlið.

Reyndar sagði Steini mér áður en hann fór að sofa frá merkilegu atviki frá því fyrr um daginn.

Steini: Heyrðu, ég hitti næstum því Tony Barrett áðan!
Einar: Hva, hittir þú semasagt sköllóttan blaðamann?
Steini: Já.

Þið getið því rétt ímyndað ykkur hversu tilbúnir við vorum í kirkjuklukkur snemma á sunnudeginum. Hvaða helvítis hálfvita trú krefst þess að þeirra guðsmenn gjörsamlega tapi sér á kirkjuklukkunum langt fram eftir degi á hverjum andskotans sunnudegi? Það á að banna öll svoleiðis trúarbrögð strax.

Kirkjan var ekkert í næsta nágrenni neitt, hún var svo gott sem inni í herbergi hjá okkur. Þetta er ekki heldur neitt tölvustýrt dæmi heldur old skúl kirkjuklukkur og við sáum inn um gluggann þar sem þrír fávitar voru að sveifla sér í klukkunum. Allt afkomendur Hringjarans frá Notre Dame.

Þetta var ekkert smá erfitt, Steini var á tíma í svo erfiðu ástandi að hann reyndi að drekka sopa af bjórnum af náttborðinu. Ekki nema 5-7 tíma gömlum bjór. Við vorum því vægast sagt bugaðir þegar við loksins yfirgáfum hótelið.

Markmið dagsins var að versla eitthvað og það yrði ekki gert nema með pit-stop áður. Fyrir tilviljun ráfuðum við inn á Slaughterhouse þar sem vinaleg kona spurði mig. “You alright luv”? Ég var í u.þ.b. tvær mínútur að útskýra í smáatriðum afhverju ég væri bara alls ekki alright. Steini var öllu jákvæðari þegar hann fékk sömu spurningu stuttu seinna. “Ég hef bara tvisvar verið betri, það var fyrir fertugt og eftir fertugt”.

Við fórum yfir hugmyndir okkar um að drepa helvítis prestinn og banna trúarbrögð með öllu, með barþjónunum en þau sáu einn galla á því plani, “Can´t kill a priest” sagði barþjónninn. Við Steini tókum því þannig að allir aðrir væru fair game og gengum frá fávitunum á kirkjuklukkunum og jörðuðum þá á staðnum.

Verslunarferðin var gríðarlega erfið. Mæli alls ekki með því að fólk versli í útlöndum, allra síst á sunnudögum.

Síðasta kvöldið nýttum við vel, áttum pantað borð 21:00 og tókum pöbbarölt áður. Byrjuðum t.a.m. á kokteil á The Vincent sem er að hluta í eigu Steven Gerrard. Mér fannst þetta eins og að drekka áfengt salat og vildi yfirgefa staðin.

Næst var vinalegur staður sem heldur betur er kominn í jólaskapið. Steini spjallaði aðeins við barþjóninn þegar við komum þar inn.

Steini: So, did you decorate the place yourselves?
Barþjónn: Yeah we all did, twelve of us.
Steini: And just nobody ever said enough?

Staðurinn var svo mikið jólaskreyttur að það var engu líkara en jólasveinninn hefði ælt þarna inni. Steini var þarna bara alls ekki í sama jólaskapi og hann var í á föstudeginum.

Steini á jólabarnum með eiganda staðarins í bakgrunni.
Steini á jólabarnum með eiganda staðarins í bakgrunni.

Eftir 1-2 staði til viðbótar var haldið á Tælenska staðinn Chaophraya. Þar sögðum við strax við innkomu að Maggi (einn af okkur fjórum saman) ætti afmæli. Hann á vissulega afmæli á hverju ári en ekkert endilega í nóvember. Chaophraya tekur afmælisfögnuði algjörlega upp á næsta level í óþolandi syngjandii starfsfólki og var komið fram með bongo, hristu og bjöllu til að styðja sönginn fyrir afmælisbarnið. Kaka og kerti á Magga og alles.

Megnið af hópnum endaði svo ferðina á hótelbarnum til að verða eitt en það var brottför strax sjö daginn eftir til Birmingham.


Svona var þetta í meginatriðum frá mínum sjónarhóli og útskýrir mögulega 10% af því hvað er gaman þessar helgar í Liverpool. Megnið af þessu eru svokölluð had to be there moment sem vonlaust er að koma á prent svo vel sé.

Hinsvegar er hægt að koma með okkur í næstu ferð en Kop.is er að fara á Swansea leikinn í janúar. Það er um að gera að panta strax miða í þá ferð því hún er við það að veraða uppseld (ef hún er það ekki nú þegar).

15 Comments

  1. Á ég að trúa því að það sé strax uppselt? Ég sem ætlaði í afmælisferð á Anfield 😛
    Er ekki séns að fá stærri vél?

  2. Einar eg mæli sterklega med þvì ad þu takir med þer ùlpu í næstu ferd, madur var farin ad drulla vorkenna þer a löngum köflum í ferdinni horfandi à þig i hverju horni skjàlfandi eins og hrìsla ùr kulda en þad hjalpadi ter mikid þegar èg gaf þer knùs af og til 😉

    Annars bara takk fyrir fìnustu ferd þo stemmningin bædi a park og a anfield hafi verid svipud og à òlafsfjardarvelli a sumrin og þad allra lèlegasta sem eg hef upplifad a Anfield. Þad sem stòd uppùr a vellinum var þegar Karius skaut boltanum í horn og legendary atridid þehar Klopp trylltist í stùkunni og reif lidid í gang.

  3. Sælir hvenær er dregið í deildarbikar? 🙂 Og hvort vilja menn 2 x leiki við man utd í undanúrslitum eða mögulegan úrslitaleik á móti þeim?

  4. Frábær lesning eins og alltaf. Óborganlegt með að spila fyrir hitt liðið. 🙂

    Mun einhvern tíma fara með í svona ferð, það er alveg á hreinu!

  5. Takk fyrir okkur og jú jólapeysurnar voru keyptar enda ekki annað hægt eftir að hafa séð ykkur félagana í þeim 🙂
    Annars fannst mér einn af hápunktur ferðarinar að fá að hlusta á Alan Kennedy tjá sig um liðið í dag og sögur frá því að hann var að spila og að hitta Phil Neal fyrir Sunderland leikinn.

    Var að vonast eftir að fá tvo auka leiki gegn Man utd en við fáum uppeldisfélag Liverpool(Southampton sem eru að ala upp leikmenn fyrir okkur) og fáum við það gott tækifæri til þess að skoða betur leikmenn sem við kaupum af þeim á næstuni.

  6. Frábær lesning!
    Magnað þegar konan lítur upp og spyr reglulega.. “Hvað er svona fyndið..?”

    Ég hef aldrei farið ferð með Kop.is og læt verða að því núna!
    Strax farinn að hlakka til og treysti því að Kristján Atli og Maggi haldi uppi stuðinu 🙂

  7. Mjög skemmtileg ferðasaga og fyndin, ekki laust við að maður verði hálf þunnur á þessum lýsingunum öllum. Hef nú ekki sjálfur snert áfengi í mörg ár og verð að segja að ég dáist að úthaldinu hjá ykkur strákunum 🙂

  8. Kærar þakkir fyrir frábæra ferð!
    Kem klárlega með aftur síðar!

Liverpool 2 Leeds 0 [skýrsla]

Hópferð í janúar: Uppselt!