Brighton & Hove Albion

Dagskráin er óvenju þétt þessa vikuna og er það hið besta mál eftir leik helgarinnar.

Næsta verkefni er ferðalag til Brighton og Hove á suðurströnd Englands. Eins og nafnið gefur til kynna er borgin samansett af tveimur bæjum (reyndar nokkrum fleiri) og varð ekki að borg fyrr en 1997. Það fer ekki mörgum sögum af hrepparíg þarna en jafnan er bara talað um Brighton. Lífseigur brandari íbúa Hove er þó að kynna borgina sem “Brighton – well, Hove, actually”.

Fyrir mér er þetta eins og Hella og Hvolsvöllur, nákvæmlega sama tóbakið og kemur með sömu rútunni. Því ætla ég að kíkja líklega meira á sögu og menningu Brighton til að hita upp fyrir þennan leik og tala um liðið og borgina sem Brighton. En eins og áður er stundum gaman að skoða aðeins bakgrunn og lið andstæðinganna þegar kemur að því að hita upp fyrir lið sem við þekkjum lítið til, en þurfum að spila við í tiltölulega óspennandi leik.

Blessunarlega er Brighton engin Napoli og þeir voru svo sannarlega ekkert að finna upp Pizzuna þarna, m.ö.o. saga svæðisins spannar ekkert langt aftur fyrir Jesús Kr. Jósefsson neitt, þó sögulegar heimildir komi alveg inn á búsetu á svæðinu allt aftur til 1000 (eftir Sússa). Borgin er það nálægt London að hún er síðasta stopp á Gatwick Express lestarrúntinum og er stundum kölluð London by the sea.

Á 19.öld varð sprenging í fólksfjölgun á þessu svæði og upp frá miðri þeirri öld fór að myndast sú byggð sem þekkt er í dag. Helsta ástæða þessa er sú að árið 1841 var opnað fyrir lestarsamgöngur til Brighton sem tengdi þá við London í innan við klukkutíma fjarlægð. Íbúafjöldinn fór úr því að vera 7.000 manns árið 1801 í það vera rúmlega 120.þúsund 1901 og fór mest í 160.þúsund. Á svæðinu öllu eru íbúar nú rétt um hálf milljón.

Helsta kennileiti borgarinnar er líklega bryggjan (sjá mynd) en á henni eru veitingastaðir, skemmtigarður og fleira. Hún virðist reyndar bara vera flott á mynd en ekki eins glæsileg þegar maður er mættur á staðin. Hinsvegar er þarna fínasta strönd og borgin því vinsæll ferðamannastaður og talin vera einn mesti partýbær Bretlands. Það hjálpar að þarna eru tveir stórir háskólar sem saman halda úti læknaháskóla og reyndar líka að þetta er jafnan talin vera Gay Capital of Britain.

Eins og ég segi þetta er engin Napoli en til að vekja áhuga Kristjáns Atla og fleiri á þessari borg þá er vert að koma inná að þarna varð hljómsveitin Abba heimsfræg á einni nóttu með því að sigra Eurovision í Brighton Dome. Þetta er sagður vera fæðingastaður Simon Cowell og sama á við um Katie Price  sem býr þarna núna með manni sínum, Peter Andre. Reyndar virðast þeir vera svipað uppteknir af því að bendla borgina við þekkta einstæklinga eins og við Íslendingar og eigna sér að því er virðist fólk sem keyrir þarna í gegn. Hér má sjá svona lista og það besta við hann er klárlega að Georg Hólm, bassaleikari í Sigur Rós bjó þarna einu sinni! Ef við erum alveg sanngjörn þá er hann nú enginn Hebbi Viðars bassaleikari í Skímó neitt hvað heimsfrægð varðar.

Ef ég hefði einhvern minnsta vott af áhuga (og hvað þá vit) á krikteti myndi ég líklega telja Sussex County Cricket Club með sem eitt af því merkilegasta við Brighton. En það er kriketfélag borgarinnar og elsta lið þeirrar íþróttar í Englandi og raunar er talið að íþróttin hafi verið fundin upp í Sussex (btw. Brighton er í Sussex sýslu). En þar sem ég held ekki einbeitingu þegar ég reyni að skilja kriket get ég ekki lagt mat á hversu merkilegt þetta er. En þeir á suðurströndinni virðast vera nokkuð spenntir fyrir þessari íþrótt og hafa nú ekki talist sem neinir harðkjarna fótboltaaðdáendur fyrr en rétt í seinni tíð.

Hitt liðið sem telst sem stolt borgarinnar og það íþróttalið af þessu svæði sem einhver hefur heyrt um eru sjálfir meistarar suðurdeildarinnar 1910, Brighton & Hove Albion F.C. en saga þess félags er svo niðurdrepandi og ómerkileg að eini titillinn í sögu félagsins er frá 1910 er þeir sem meistarar suðurdeildar lögðu Aston Villa í uppgjöri meistara deildarkeppninnar og suðurdeildarinnar, eini titillinn auðvitað utan þess er þeir sigra í neðri deildum á flakki sínu milli deilda.

Knattspyrnulið Brighton var stofnað 1901 og spilaði í svokallaðri suðurdeild fram til 1920 er þeir fengu inngöngu í deildarkeppnina sem þá hafði nýlega sett á laggirnar þriðju deildina.

Viðurnefni félagsins er “The Seagulls” eða Mávarnir og í merki félagsins í dag er mynd af Mávi. Þetta festist við félagið árið 1977 en fram að því hafði merki borganna, Brighton (Höfrungur) og Hove (Skjöldur) verið uppistaðan í merki félagsins. Helstu erkifjendur liðsins eru Crystal Palace sem staðsettir eru í London.

Liðið náði ekki að setja mark sitt á þriðjudeildina af einhveju viti fyrr en árið 1959 er þeir náðu loksins að komast upp um deild. Þeir féllu þó strax árið 1962 aftur og árið 1964 féll liðið niður í 4.deild. Liðið komst upp aftur í lok sjöunda áratugarins og var m.a. þjálfað af Brian Clough í eitt ár á þeim áttunda. Liðið komst aftur í aðra deild og árið 1979 komst liðið alla leið í efstu deild í fyrsta og eina skipti í sögu félagsins og var þar þrjú tímabil. Fyrsta tímabilið bjargaði Brighton sér með góðun endaspretti, annað árið voru þeir um miðja deild en 82/83 endaði ævintýrið og liðið féll. Þeir komust þó alla leið í úrslit FA Cup það sama ár þar sem þeir töpuðu í endurteknum úrslitaleik fyrir Man United.

Eftir fall úr efstu deild fór liðið beint niður í 3.deild og síðan beint upp aftur og komst m.a. í úrslitakeppnina 1991 án árangurs. Í kjölfarið fór allt í rugl hjá félaginu og árið 1997 var liðið hársbreidd frá því að fara á hausinn, falla út úr deildarkeppni á Englandi og hreinlega hætta starfsemi. Fjárhagsstaðan var svo slæm að liðið þurfti að selja völlinn sinn 1995 og bjargaði sér frá falli á lokadegi tímabilsins 1997 með því að gera jafntefli við Hereford, sem féll. Umferðina áður hafði liðið kvatt heimavöll sinn frá 1901 með sigri á Doncaster. Í kjölfarið var þeim gert að hypja sig og völlurinn rifin og sett vöruhús í staðin ásamt Burger King stað!

Frá 1997 til 1999 spilaði Brighton heimaleiki sína á heimvelli Gillingham sem er í meira en 100 km fjarlægð á meðan plönum um byggingu nýs heimavallar var sífelt frestað. Liðið flutti samt aftur heim til Brighton er þeir gerðu upp frjálsíþróttavöll í borginni, Withdean Stadium. Sá flutningur var skítaredding til að standast kröfur enska knattspyrnusambandsins.

Leyfi og fjármögnun fyrir byggingu nýs heimavallar gekk þó svo illa að Withdean var notaður frá 1999 þar til nú í sumar og var m.a. valinn 4. versti heimavöllur á Englandi af the Observer, enda hannaður fyrir frjálsar og með ömurlegt aðgengi og aðstæður fyrir aðdáendur.

Liðið náði sér engu að síður aftur á strik um aldamótin og með Bobby Zamora í broddi fylkingar náði liðið að rífa sig upp um deild tvö ár í röð og komast aftur í næstefstu deild. Þeir hafa síðan haldið áfram að rokka milli deilda og eru núna nýliðar í Championship deildinni og hafa byrjað með látum á þessu tímabili 5 sigra í fyrstu 7 leikjunum.

Liðið spilaði sitt síðasta tímabil á Withdean Stadium í fyrra og náði t.a.m. 27 leikjum í röð á heimavelli í deild og bikar án þess að tapa. Gus Poyet er þjálfari liðsins núna og hefur verið að gera frábæra hluti með liðið.

Útlitið er einnig töluvert bjartara hjá þeim eftir að sterkefnaður aðdáandi félagsins keypti klúbbinn og tryggði fjármagn í byggingu á nýjum og stórglæsilegum heimavelli Brighton sem tekur rúmlega 22.þús manns og hefur möguleika á að stækka í 35.þúsund manna völl. Samgöngur á völlinn er allar eins og best verður á kosið sem er breyting frá vellinum sem þeir voru að kveðja en á honum mátti ekki leggja bílum í kílómetra radíus á leikdegi og ekki heldur spila tónlist of hátt!

Nýji völlurinn heitir í raun Falmer Stadium en stærsti vinnuveitandi í Brighton, American Express (með höfuðstöðvar UK í Brighton og 3000 starfsmenn) keypti nafnaréttinn. Þ.a.l spila okkar menn á American Express Community Stadium á morgun og stuðningsmönnum Brighton finnst augljóslega gaman að vera fluttir:

Völlurinn er auðvitað notaður í ýmislegt annað en bara fótbolta en er þó fyrst og fremst heimili liðsins og án vafa gríðarleg lyftistöng fyrir félagið.

Liðið þeirra í dag er ekki það þekktasta þó eitt og eitt nafn sé þar að finna sem við gætum kannast við. Helsti markaskorari þeirra er Ashley Barnes sem var heitur í 1.deildinni í fyrra og hefur byrjað vel núna með 4 mörk í 7 leikjum. Einnig er á mála hjá þeim gamli Púllarinn Alan Navarro sem var hjá okkur sem kjúklingur. Að auki er t.d. yngri bróðir LuaLua hjá þeim á láni frá Newcastle.

Það er þó aðeins einn leikmaður sem ég held að við verðum að hafa sérstakar gætur á og hann heitir Roland Bergkamp. Ég veit ekkert um þennan leikmann utan það hann er sóknarmaður fæddur 1991 en ég myndi ekki treysta sóknarmanni með þetta eftirnafn. Reyndar er líka leikmaður hjá þeim sem heitir Matthew Sparrow en svo lengi sem okkar menn eru ekkert að fara á sjóinn hef ég minni áhyggjur af honum.

Leikurinn á morgun verður 24. viðureign liðanna og tölfræðin er okkur aðeins í vil, 11 sigrar, 8 jafntefli og 4 töp. Okkar menn þurfa líklega ekkert að gíra sig sérstaklega upp fyrir þennan leik enda vafalaust æstir í að bæta fyrir síðustu tvo leiki. Skrtel og Adam verða í banni í þessum leik og ásamt þeim verða þeir Glen Johnson, Martin Kelly og líklega Daniel Agger allir frá vegna meiðsla.

Fyrirliðinn verður vonandi í hóp og þar sem búið er að selja flest alla okkar aukaleikara býst ég við sterku liði Liverpool í þessum leik. Við þurfum að spila liðið saman og fara vinna leiki aftur.

Tippa nokkuð blint í sjóinn á að liðið verði ca. svona:

Reina

Flanagan – Carragher – Coates – Enrique

Kuyt – Henderson – Lucas – Downing

Carroll – Suarez

Á bekknum værum við síðan með menn eins og Gerrard, Bellamy og Maxi sem gætu reyndar vel komið inn í byrjunarliðið, Spearing sem ég var með þarna inni til að byrja með, Aurelio og jafnvel unga pjakka.

Spá: Brighton verða pottþétt vel gíraðir í þennan leik á meðan ég spái því að við byrjum þetta frekar rólega. Segi 1-2 í frekar erfiðum leik og það verði Kuyt og Suarez sem skora fyrir okkur.

Kick off er 18:45 og leikurinn er í beinni á Stöð 2 Sport.

Babu

60 Comments

 1. Með enga evrópukeppni til að angra okkur þá tel ég mjög mikilvægt að stilla upp sterku liði í þessum leik og fara sem lengst í þessari keppni. Spái 2:4, Brighton kemst yfir en þá fara Suarez og Carroll í gang og setja sína tvennuna hvor. Brighton skorar síðan úr víti í lokin til að bæta aðeins stöðuna.

 2. Ef þessi leikur á að vinnast þarf að spila með besta liðið ekki bara spila mönnum af því að þeir kostuðu svo mikla peninga.Ég vil sjá Maxi og Bellamy í byrjunarliðinu á kostnað Henderson sem greinilega á langt í land með að verða leikmaður á hæsta stigi og Carroll þarf að fara á æfingar með varaliðinu,þessir tveir ásamt Adam eiga ekki að koma nálægt fyrsta liði eins og staðan á þeim er í augnablikinu. Og svo á auðvitað að setja Kyuit og Gerrard inn og segja drengjonum að keyra á þetta Brighton lið og að reyna hafa svolítið gaman af þessu, þá vinnst þessi leikur létt.
  Við þá sem eru alveg að drepast úr svartsýni eftir tapið á móti Tottenham, þá vil ég bara segja að gömlu góðu Liverpool liðin duttu stundum niður á svona leiki.Ég er nokkuð viss um að Kenny hefur tryllst eftir þessa hörmung og hefur látið menn heyra það óþvegið svo að liðið kemur í þennann leik eins og sært tígrisdýr og keyrir yfir þetta Brighton lið.

 3. Grámyglulegur haustdagur verður að sólríku vori við lestur slíks pistils, ég er þegar búinn að panta ferð til Brighton.

  Og vel á minnst, 0-4 fyrir Liverpool.   

 4. Skemmtileg upphitun að vanda, takk fyrir það.
  “Fyrir mér er þetta eins og Hella og Hvolsvöllur, nákvæmlega sama tóbakið og kemur með sömu rútunni.”
  Eða Selfoss og Hveragerði ; )
   
  Ég vona að okkar menn komi vel einbeittir í þennan leik, og reyndar er ég viss um að svo sé.
  Við vinnum leikinn 0-2 þrátt fyrir að ná ekki að skora fyrr en í seinni hálfleik.

 5. Skemmtileg upphitum að vanda frá Babú.

  Held við verðum í miklu basli í kvöld og merjum þetta hugsanlega í framlengingu eða vító, annars gæti maður alveg eins séð Brighton klára þetta bara ef okkar menn mæta jafn þunnir og í leikinn gegn Tottenham  

  Innskot: ATH: leikurinn er annað kvöld, miðvikudag, 21.sept.

 6. Man ágætlega eftir bikarúrslitaleiknum sem Brighton spilaði á mót man united 83 – horfði aðallega á hann þar sem Jimmy Case spilaði þá með Brighton og var auðvitað að vona að hann skyti þá rauðu í kaf og það var reyndar aðallega einn maður sem kom í veg fyrir sigur Brighton og það var Gary Bailey 

 7. Við tökum þetta nokkuð örugglega, 0-2. Bið til guðs að Carroll verði betri en gegn stórliði Exeter.

  Væri ekki leiðinlegt að fá að sjá Gerrard fá einhverjar mínútur (sem hann fær skv Scott á rawk) og Coates byrja leikinn. Spurning líka um að leyfa Flanno að spila allan leikinn – sérstaklega í ljósi þess að Glen & Kelly ráða ekki við 90. mínútur, hvað þá tvo leiki í röð. Vil helst ekki þurfa að sjá Skrtel í þessari stöðu í fleiri leikjum í haust/vetur/vor.

 8. Snilldar upphitun að vanda frá Babu. Vantar þó að nefna stærsta nafnið í leikmannahópi Brighton, sjálfan meiðslapésann Vicente Rodriguez sem átti nú nokkur góð tímabil með Valencia á meðan Benitez var stjóri þar. Hann á reyndar enn eftir að spila leik með Brighton (surprise surprise). Virðist vera svona spænska útgáfan af Kieron Dyer, en gaman væri nú að sjá hann ef hann er leikfær.

 9. Taka þetta Borgarilmur af dagskrá á stöð 2 til þess að fjármagna BorgarBabú, 

  Nú það er eitthvað sem ég myndi horfa á !!

 10. Babú, ertu að segja mér að sami staðurinn á Englandi hafi getið af sér frægð ABBA, Simon Cowell og Katie Price?

  JAFNA ÞETTA PLEIS VIÐ JÖRÐU OG ÞAÐ STRAX!!!!

 11. Annars bara nokkuð frábær upphitun eins og venjulega. Ég vona að við tökum þennan leik og höldum áfram að dragast á útivelli gegn liðum sem við erum ekki vön að mæta. Það sér það hver heilvita maður hversu mikilvægar þessar sagnfræðiupphitanir eru fyrir Babú greyið…

 12. Mikið rosalega var þetta skemmtileg upphitun.
  Flanno í bakvörðinn og Wilson og Coates í miðverðunum með Enrique/Robinson í vintri bak, hvíla Carra aðeins. Svo á miðjunni væri ég til í að sjá Lucas og Aurelio(ef hann er heill) á miðjunni, með Maxi og Bellamy á köntunum með Suarez og Carroll frammi. Það er lið sem ég held að vinni þennan leik 4-0 og Steven nokkur Gerrard kemur af bekknum með 2 mörk eftir að Bellamy og Suarez hafa sett sitthvort markið.

 13. Ég er reyndar nokk ósammála þér með byrjunarliðið, Babú. Coates, Bellamy, Spearing, Maxi og ungu strákarnir Flanagan og Robinson eru alltaf að fara að spila þennan leik held ég. Ég sé Dalglish fyrir mér gefa Suarez frí í þessum leik.

  Mitt gisk:

  Reina

  Flanagan – Carragher – Coates – Robinson

  Maxi – Lucas – Spearing

  Kuyt – Carroll – Bellamy

  Bekkur: Gerrard, Downing, Suarez, Henderson, Enrique, Wilson og Doni.

  Sterkur bekkur eins og gegn Exeter en nýu leikmennirnir + Spearing fá alltaf að byrja þennan leik held ég.

 14. Nr.16 KAR

  Já ég hef sjaldan verið eins clueless hvað byrjunarliðið varðar og er ekkert ósammála þessu liði sem þú stillir upp. Held að Flanagan, Carra og Coates velji sig nokkuð sjálfir (ef Kelly er frá) og held að Enrique verði með þeim. Á miðjunni held ég að það sé ágætt að láta Henderson og Downing spila því þeir þurfa að fá sem flestar mínútur en að sama skapi er fjarvera Maxi farin að verða nokkuð undarleg.

  Líklega rétt hjá þér að hann hvíli Suarez (pant ekki segja honum frá því) en láti Carroll spila og þá líklega með Bellamy sem einnig þarf að fá mínútur.  

  Við þurfum sterkt lið í þennan leik og eins virðist þetta vera kjörið tækifæri til að spila nýju leikmennina saman.

 15. Úps sorrý drengir að ég segi í svari mínu að þetta verði erfitt í kvöld, það var bara kominn miðvikudagur á mínu dagatali þegar ég vaknaði í morgun…

  Það er alltaf sterkt lið að fara spila þennan leik á morgun og ég hallast að því að Kristján Atli verði nær þessu en Babú en gæti alveg séð að liðið verði sirka mitt á milli þeirra og þeir hafi hvorugur rétt fyrir sér í þetta skiptið  

 16. Spáin er s.s. að LFC merji 2-1 sigur á Brighton! Greinilegt að menn eru komnir niður á jörðina sem er ágætt per se.

  Þetta er samt leikur sem ætti að vera sem sniðinn til að koma liðinu í gang og nú sný ég mér til Mekka og bið Allah um stórsigur.
  Varðandi fræga Brighton búa man ég ekki rétt að Emiliana Torrini búi þarna?

 17. Sammála Babu með það að ég er frekar clueless á liðið, en spái þó blöndu þessara tveggja liða ykkar meistarar.
  Reina verður í markinu en ég er á því að vörnin hans Babu verði fyrir valinu en miðjan og sóknin hans Kristjáns.  Gerrard mun svo koma inná síðasta hálftímann.
  Hörkutöff leikur sem við vinnum, en munum þurfa virkilega að leggja okkur fram, hjálpar þó að mér skilst að Brighton vilji spila fótbolta og völlurinn sé afbragðsgóður!

 18. Get ekki sagt að ég sé mjög bjartsýnn eftir síðustu tvo leiki. Liðið virðist steingelt og sami andi svífur yfir vötnum og í fyrra.
  Brighton eru underdogs í þessum leik og eiga eftir að berjast til síðasta blóðdropa, þeir vinna 2-0 sigur. 

 19. Eftir útreið helgarinnar er KKD alltaf að fara stilla upp sterku liði og reyna rústa þessum leik og spila sitt sterkasta lið betur saman.

  Spái því að þetta verði 
  Reina
  Flanagan-Carragher-Coates-Enrique
  Downing-Lucas-Henderson-Kuyt
  Suarez-Carroll

  Ég hefði viljað Bellamy með suares uppi á topp frekar en ég held að KKD muni áfram spila Carroll og reyna koma honum í gang. Ef Bellamy verður í liðinu held ég að það verði á kostnað Suarez.

 20. Þegar ég les kommentin hjá þeim sem að sjá um Kop podcastið, þá heyri ég raddirnar þeirra lesa þau upp, sem að er dálítið fyndið. 

  Annars spái ég öruggum 3-0 sigri, Flanno með öll.  

 21. Það skiptir ekki máli hvernig liðinu er stillt upp í þessum leik – Liverpool er allan daginn með sterkara lið en Brighton og það gerir þennan leik einfaldlega að skyldusigri. Ekki flókið.

  Á móti kemur að sigur í þessum leik skiptir litlu máli, þar sem Liverpool tapaði sannfærandi gegn Stoke og Tottenham. Á móti kemur þá gæti þessi leikur orðið til þess að Robinson og Flanagan, já og Kuyt og ekki síður Maxi, sýni að þeir eru betri leikmenn en þeir sem Kenny hefur valið framyfir þá í fyrstu leikjum tímabilsins.

  Eða, ég vona það allavega 🙂

  Homer
  ps. Fálkaorðuna á Babú fyrir geð.veika upphitun 🙂

 22. blehhh… á móti kemur ,,, á móti kemur! Þetta skolaðist eitthvað til hjá mér, þannig ef Eiður Guðna er að lesa þetta, þá biðst ég auðmjúklega afsökunar á málfarslegum villum 🙂

  Homer. 

 23. Alltaf mun ég hafa trú á mínu liði, sama hvaða mannskapur er inná!

  Ég myndi halda að liðið yrði svona

  Reina
  Flanno – Carra – Coates – Robbinson
  Kuyt – Henderson – Lucas – Downing
  Bellamy – Carroll.

  Bekkur: Doni, Wilson, Enrique, Maxi, Spearing, Gerrard, Suarez.

  Spurning hvort að Spearing eða Henderson byrji þennan leik og sama með Enrique og Robbinson, ætla að skjóta á þetta hinsvegar.
  Miðað við myndbandið hérna fyrir ofan þá er þetta lið með rosalega stuðningsmenn og getur það (eins og við best vitum) skipt sköpum! Þessi leikur er ekki að fara að vinnast léttilega því þetta lið á eftir að koma útá völlinn eins og graðhestur sem kemst inní hryssuhóp!!!!

  Ég ætla að spá 1-3 fyrir okkar mönnum þar sem Kuyt, Carroll og Bellamy setja hann!

  YNWA – King Kenny we trust! 

 24. Alltaf gaman að lesa pistla Babus. 

  Brighton er frábær bær. Dvaldi þar eitt sinn í 6 vikur. Keypti pint af Guinness niður á bryggju en kom aðeins tveimur sopum niður. 🙂 Bragðskynið hefur þroskast mikið síðan þá enda undir aldri að kaupa mjöð og einungis drukkið Maltextrakt.

  Spái 1-3. 

 25. Flottur pistill.
  Sem betur fer þurfum við bara að bíða í 3 daga eftir þessum leik, eftir ófarirnar um helgina.  Það hefði verið agalegt að þurfa ð bíða í viku með þetta tap á bakinu.
  Spái 2-4 í skemmtilegum leik, þar sem að Bellamy, Carrol, Henderson og Suarez skora mörkin.  Já og Reina ver fyrsta vítið sitt í alltof langan tíma, í stöðunni 0-0.

 26. Mér sýnist þetta vera á pari við lærða grein og því miður hef ég ekki tíma til að lesa fyrr en í kvöld! Ég reyndi að fá frí í vinnunni en það tókst ekki! Ég hlakka til að lesa!

 27. Þetta fer nú að verða spurning um að Agger leiti sér að annari og áreynsluminni tegund íþróttar, hann verður frá í a.m.k. fjórar vikur!!

 28. Hræðilegt að Agger sé meiddur. Það þýðir að við neyðumst til að burðast með Carragher áfram í liðinu.
  Finnst við ekki hafa náð að manna þessa stöðu almennilega í sumar enda er erfitt að treysta á tvítugan gutta frá Úrúgvæ.

  Vonandi náum við að krækja í Cahill í janúar.

 29. Frábær upphitun að vanda hjá Babu. Þó vantar að minnast á frægasta kennileiti Brighton, The Royal Pavillion sem er eitt geggjaðasta hús Bretlands. Sem og Steve Foster sem var frægasta kennileiti Brighton & Hove Albion á níunda áratugnum. Class act með mullett aldarinnar. Sem gerir þetta að glataðri upphitun;)

  Brighton er annars ágætis borg, fínasta næturlíf (líka fyrir non-gays) og prýðis hamborgarastaður þarna sem selur 140 tegundir af hamborgurum (ef ég man rétt). Hamborgarafabrikka Bretlands…

  Annars eru tvær leiðir fyrir Dalglish að stilla þessu upp. Annars vegar að leggja traust á þá sem hann hefur spilað mikið í haust, Henderson, Carroll, Downing og slíka, eða að hrista upp í þessu og setja Maxi, Kuyt, Flanagan og Robinson inn í liðið. Ég hallast að því að hann haldi sig við sína menn, setji Kuyt inn fyrir Adam og Henderson fer á miðjuna. Hann setur líklega Kelly inn ef hann er fitt, annars Flanagan. Ekkert annað í stöðunni. Að því sögðu þá vinnum við leikinn 2-1 með herkjum.

 30. Agger meiddur í mánuð tvo brákuð rifbein. það góða er að það kemur landleikjahlé þarna inn í. Það slæma er að á þessum mánuði spilum við við Everton og Man united. væri fínt að hafa hann með í þeim. United leikurinn er reyndar eftir 25 daga, hann gæti nú mögulega spilað hann. Vonandi því þetta er sterkasti miðvörðurinn okkar. 

 31. #29. Já nákvæmlega hvernær varði hann eiginlega síðast víti, man að hann byrjaði svakaleg þegar hann kom varði næstum öll víti og síðan ekki söguna meir. Eða hvað?

 32. Nr. 36 
  Fínt fyrir þig að spjalla bara um það við einhvern á facebook…eða jafnvel United síðum. Þetta er aðallega um leikinn gegn Brighton. Vanda sig betur í þráðránum.  

  Uppfært: Fjarlægði umræðu um Owen í fæðingu sem var aldrei að fara annað en í sandkassann.

 33. Vonandi gengur okkar mönnum allt í hagin á morgun, gaman að sjá þennan leik því ég held að þeir verði alveg dýrvitlausir 🙂

  YNWA – King Kenny we trust! 

 34. Gaman að ýta á Napoli hlekkinn, skoða hugsanlega liðsuppstillingu þar og gleðjast yfir því hvað margt hefur breyst. 🙂

 35. Wolves vinnur Millwall 5-0 og Liverpool á að spila við þá næstu helgi. Ef leikurinn á morgun verður “erfiður” og endar segjum 1-2 og Liverpool spilaði “ílla” .. þá segi ég bara eitt! 

  KENNY ÞARF AÐ VEKJA STRÁKANA!

  Raunsætt.. Liverpool á að vinna þennan leik minnst 0-3 örugglega, þrátt fyrir að við notum aðeins 4-5 leikmenn úr síðasta byrjunarliði. Sama hvað þið hugsið/segið .. Þetta er LIVERPOOL!
  Bara það að segja LIVERPOOL á að hræða Brighton/hove leikmenn það mikið að þeir verða hræddir að fara í sókn! Ég ætlast til þess að fá fallegt spil og leikgleði á morgun! Gefa okkur smá von um það að menn séu farnir að vakna fyrir næsta deildarleik!
  Ég elska það að vera Liverpool stuðningsmaður! 🙂

  YNWA 

 36. Flott upphitun!

  BTW. EF það var einhver vafi á því, þá er Roland Bergkamp frændi Dennis

  Spái því að Bergkamp komi Brighton yfir en Spearing setur 2, svona bara til að sýna að meira að hver sem er getur skorað tvö mörk í þessari keppni víst að Owen getur það

 37. Yndislegt.  Þegar á að vera einhenda sér í önnur verkefni…. þá týnir maður sér í upphitun frá Babú!! Það verður náttúrulega aldrei annað en talið staðnum til stórkostlegra tekna að hafa hýst Eurovison á því herrans ári þegar STÓR hljómsveitin ABBA komst á heimskortið.   Hvað eiga ABBA og Kóngurinn sameiginlegt?  🙂

  Áfram Liverpool…   Þetta á að vera auðveldur sigur.   Eins og leiðarahöfundur benti á þá er búið að klórþvo hópinn af meðaljónum svo hákarlarnir verða að afgreiða málið.   En það kæmi samt ekki á óvart að Kóngurinn hrifsi nokkra kjúklinga með sér og skelli þeim í hóp.

  YNWA 

 38. Ömurlegar fréttir af Agger, mikið sem ég finn til með karlanganum!
  Var glaður að lesa það hjá Dalglish í gær að leikmennirnir hefðu tekið eftir stuðningnum á laugardaginn og ættu að hafa það hugfast í kvöld, sem og það að hann sagðist ætla að taka þennan leik, eins og alla, alvarlega og vildi vera sem lengst í þessari keppni.
  Nákvæmlega algerlega það sem ég hef verið að vonast eftir um nokkurt skeið.  Hef látið pirra mig gríðarlega í gegnum tíðina á útópískt miklum varaliðsuppstillingum í bikarkeppnum sem vonandi er að baki eftir Northampton-niðurlæginguna í fyrra.  Það er eitt að láta unga menn spila, en að stilla þeim upp með leikmönnum sem ekki eru aðalliðsmenn þýðir alltaf að leikurinn verður marklaus fyrir alla.
  Við fáum að sjá marga okkar lykilmanna í kvöld, er sannfærður um það og svo 3-4 leikmenn sem hafa verið á bekknum og þar um bil í byrjunarliði.  Miðað við það sem maður les hjá Brighton er feykileg stemming í gangi og bara ljóst að við fáum alvöruleik, sem er nákvæmlega það sem við þurfum!

 39. Er það nokkuð til fullsmikils mælst að Liverpool að telja það að Liverpool eigi að klára þennan leik sannfærandi, alveg óhátt því hvort við sjáum lykilmenn hvílda eða ekki?

  Ef Liverpool getur ekki leyft sér að hvíla nokkra leikmenn eða hræra aðeins upp í hópnum í leik gegn liðum í neðri deildum, eins og Brighton, þá ætla ég að setja stórt spurningamerki við breiddina í hópnum sem ég hef alltaf talið nokkuð góða þetta tímabilið.

  Brighton eru auðvitað sýnd veiði en ekki gefin svo þetta verður líklega ekkert “walk in the park”. Ég fer samt hins vegar fram á öruggan sigur þar sem Liverpool verður áberandi betri aðilinn í leiknum.

  Ég vil sjá Bellamy, Coates, Jonjo, Carroll, Downing og Maxi byrja leikinn. Restina af liðinu er mér svona nokkuð sama hvernig verður stillt upp. Þessir sex sem ég nefndi eru allt leikmenn sem mér finnst vanta þennan leik til að komast betur í liðið, öðlast sjálfstraust í gegnum spilaða leiki – í raun bara að spila sig í gang.

  1-3, öruggur sigur en þar sem við gætum séð unga leikmenn og/eða miklar róteringar í vörninni þá gætum við séð Brighton lauma inn einu marki sem hefur samt engin áhrif á leikinn.

 40. Reina
  flanagan-carrhager-coates-robinson
  kuyt-hendo-spearing-downing
  suarez
  bellamy

 41. Frábær upphitun að venju, vonandi verður þessi leikur eithvað til að gleðja mann eftir síðustu 2vikurnar, Úlfarnir jarða sinn leik í gær 5-0 og koma með blússandi sjálfstraust í leikinn um helgina, mikilvægt að
  Liverpool geri hið sama og enganvegin ráðlegt að enda í framlengingu 🙂

  Annars er þetta frekar magnað ef rétt er,
  Liverpool flop Milan Jovanovic faces a five-year ban for aiming an imaginary machine gun at rival fans. 

 42. Það eru góðar fréttir að Gerrard verður í hópnum.
  Nú þurfum við að sýna okkar rétta andlit. ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!

 43. One to watch hjá Brighton Craig Mackail-Smith öflugur leikmaður. Markahæstur í fyrstu deildinni í fyrra með Peterbrough.

 44. Mig minnti endilega að Portishead væru frá Brighton, fannst þú lélegur að muna ekki eftir þeim….en eftir smá aðstoð frá vini mínum google komst ég að því að þeir væru frá Bristol….en Brighton/Bristol, er munur á kúk og skít? ;p

 45. Við skulum vona það að Jonjo nokkur Shelvey komi ekki nálægt þessum leik, megum ekki við því að vera mörgum færri miðað við spilamennsku liðsins undanfarið.

 46. Afsakið þráðránið

  Nú ætla ég að fara á leik þann 5. nóvember, Liverpool – Swansea. Ég hef ekki kynnt mér þetta nóg hvernig maður kaupir miða.. en þarf hver og einn einasti sem kaupir miða að vera skráður í Liverpool FC klúbbinn úti eða er nóg að einn geri það og kaupi t.d. 3 miða? hvar get ég kynnt mér þetta nánar og hvernig hafið þið gert þetta ?

  Væri frábært að fá svar við þessu, afsaka aftur þráðránið 🙂 

 47. Það þarf hver og einn að vera skráður í klúbinn, mér skilst að mar geti bara keypt 1 miða per FANCARD

 48. #52

  Svo sannarlega, Bristol menn þróuðu skala til að greina þar á milli. Athugaðu hvað Google frændi veit um Bristol-skalann.

Skrtel og Adam í banni gegn Brighton

Liðið í kvöld – Gerrard á bekknum