Napoli á morgun

Fyrr í dag flaug einhver reitingur af leikmönnum Liverpool á S-Ítalíu þar sem verkefni morgundagsins er leikur fyrir framan 60.þúsund snarbilaða aðdáendur Napoli. Við erum dugleg að benda á að stuðningsmenn Liverpool og Anfield sé alvöru og því ekki annað hægt en að taka strax fram að þeir sem mæta á leiki í Napoli eru svo sannarlega líka alvöru. Besta dæmið um það er að þegar liðið fór á hausinn árið 2004 og þurfti að hefja leik undir nýju nafni í C1 deild. Heimamenn litu á það sem ákaflega léttvæglegt aukaatriði og fylgdu sínum mönnum sem aldrei fyrr og héldu áhorfendafjölda sem var meiri en hjá flestum öðrum liðum á Ítalíu og í lokaleik tímabilsins mættu 51.þúsund manns á völlinn sem er auðvitað met í þessari deild. Þetta er m.ö.o. fimm þúsund aðdáendum fleira en komast á Anfield. Eins verður að hrósa þeim fyrir að vilja spila við Liverpool á jafnréttisgrundvelli því eins og oft hefur verið komið inná gerðu þeir völlinn nákvæmlega eins og Liverpool vill hafa hann (þessa dagana) þ.e. þeir reyndu að eyðileggja hann.

Napoli er annars höfuðborg Campania héraðs og er hafnarborg á suðurströnd Ítalíu og er þekkt fyrir mikla sögu, listir, menningu, arkitektúr og fleira í þeim dúr. M.ö.o. nokkuð típísk ítölsk borg þó Napoli sé reyndar sögufræg borg ekki bara ítalskan mælikvarða heldur heimsmælikvarða og spannar saga borgarinnar um 2.800 ár þó ég dragi allt í efa sem skrifað var upp borgina frá þeim tíma! Það er kannski ekki skrítið að aðdáendurnir séu heitir enda svæðið staðsett á milli tveggja virkra eldgosastöðva, önnur þeirra heitir Mount Vesúvíus. Reyndar dreg ég þessa kenningu strax til baka um að nálægð við eldfjöll geri aðdáendur „heitari“ enda hafa stuðningsmenn KFR algjörlega afsannað þessa kenningu í gegnum tíðina!

Borgin myndaðist semsagt 8-9 öldum fyrir krist og er þar með ein af eldri borgum í heiminum. Upphaflega var þetta grísk nýlenda og er nafnið dregið þaðan, Neápolis eða Nýja Borgin. Borgin spilaði lykilhlutverk þegar Rómarveldið blandaðist grískri menningu og skipaði borgin stórt hlutverk í veldi Rómverja og var ég nokkuð hissa og klárlega fyrir vonbrigðum að hvergi var minnst á Ástrík og Steinrík þegar ég var að lesa mig til um borgina. En eins og gefur að skilja er saga borgarinnar gríðarleg og hefur hún staðið af sér hin ýmsu tímabil og var Napoli m.a. Konungsdæmi í 6.aldir. Þetta hefur allt sett sinn svip á borgina sem hægt er að sjá með ýmsum hætti eins og t.d. í arkitektúr. Borgin var reyndar sú borg á ítalíu sem verst varð úti í seinni heimsstyrjöldinni og var mikið sprengt þar. Hún var þó byggð upp aftur og á síðustu áratugum hefur myndast þar einskonar viðskiptahverfi með skýjakljúfum og álíka nútímabyggingum sem slíku fylgir.

Íbúar voru rétt tæplega milljón þegar ég taldi síðast og er borgin talin vera sú fjórða sterkasta hvað kaupmátt varðar á Ítalíu og í 91.sæti á heimsvísu. Lífskjör Napolíbúa hafa batnað mikið síðastliðin ár og síðan 1999 hefur atvinnuleysi á svæðinu minnkað mikið og höfnin er ein sú mikilvægasta í Evrópu. Borgin er samt ennþá alveg frá suður ítalíu og er ennþá talað um pólitíska spillingu og öflugan svartan markað á þessu svæði.

En þrátt fyrir alla sína sögu, menningu og hefðir þá er aðeins eitt sem hægt er að tengja við Napoli sem skiptir virkilega einhverju máli. Eitt sem virkilega hefur komið heimsbyggðinni allri að góðum notum og á hvað mestan heiður af því að ég er eins og ég er… þessar elskur fundu upp pizzuna!!!

Það þarf ekkert að ræða frekar sögu fólksins sem fann upp pizzuna, þau toppuðu sig þar. Því snúum við okkur að fótboltanum aftur enda Napoli þræl sögufrægt lið og vel stutt eins og áður hefur komið fram.

Liðið heitir Società Sportiva Calcio Napoli (S.S.C. Napoli) og varð til með sameiningu tveggja liða árið 1926. Upp úr aldarmótum kom breskur sjómaður til borgarinnar og kynnti þá fyrir þessari annars ágætu íþrótt og stofnaði Napoli Foot-ball club ásamt öðrum tjalla og þremur ítölum. Liðið spilaði í búningi áþekkum búningi Inter Milan en keppti bara í keppni sem Sir Thomas Lipton kom á fót fyrir lið á suður Ítalíu. Deildarkeppnin á Ítalíu innihélt bara lið frá Norður Ítalíu á þessum árum. Liðið splittaðist upp árið 1912 úr til varð Inter Napoli sem var helsti keppinautur upprunalega liðsins í áratug eða þar til þau sameinuðust aftur 1922 vegna fjárhagsörðugleika.

Árið 1926 mætti lið Napoli til leiks í deildarkeppnina á Ítalíu sem var tvískipt tíu liða deild og er óhætt að segja að okkar menn hafi byrjað með látum! Liðið náði 1 stigi á sínu fyrsta tímabili sem spannaði 18 leiki. Þessi “góði” árangur þeirra var kveikjan af einu af gælunöfnum liðsins sem var The Little Donkey´s (Litlu asnarnir). Þetta var auðvitað ekki meint sem neitt hrós, þeir höfðu notað merki borgarinnar sem er hestur og þaðan kom þetta skot með ansnann, en Napoli menn sneru þessu sér í vil seinna og gerðu Asna að lukkudýri sínu.

Árið 1930 hafnaði liðið í 5.sæti og var í topp tíu næsta áratug eða svo en halla fór undan fæti hjá þeim rétt fyrir seinni heimsstyrjöldina og liðið féll um deild. Liðið kom aftur upp um deild eftir stríð og stóð sig vel án þess þó að berjast um titla. Merkilegast var líklega að liðið ásamt Fiorentina var það fyrsta sem var sýnt í beinni útsendingu á Ítalíu, árið 1956 á RAI sjónvarpsstöðinni.

Næstu áratuga óx liðinu vel ásmegin og festi sig í sessi sem eitt af stóru liðunum í Seria A. En líkt og með Pizzuna skiptir saga liðsins ekkert gríðarlega miklu máli þar til kom að Diego Maradona. Staða hans meðal stuðningsmanna Napoli náði langt út fyrir fótboltann og er hann var á hátindi ferils síns hjá Napoli hefði hann líklega unnið guð almáttugan í borgarstjórnarkosningum með líklega öllum greiddum atkvæðum, hefðu þeir félagar og samherjar í Argentínska (´86) landsliðinu gefið sig í það auðvitað.

Maradona kom árið 1984 frá Barca og var liðið í 2 ár að slípast til áður en það varð að besta liði landsins og auðvitað leitt af besta leikmanni sögunnar. Tímabilið 86/87 vann liðið sinn fyrsta titil í sögu félagsins og til að toppa það tóku þeir bikarinn líka. Árið eftir unnu þeir UEFA Cup og fóru aftur í úrslit bikarsins. Árið þar á eftir (1990) vann liðið titilinn aftur, en hafa líkt og okkar menn ekki unnið síðan þá.

HM var haldið á Ítalíu þetta ár og Maradona áleit sig svo stóran í Napoli að hann biðlaði til stuðningsmanna liðsins að halda með Argentínu frekar en Ítölum á HM þar sem aðrir ítalir litu alltaf á Napolibúa sem hálfgerða útlendinga. Stuðningsmenn Napoli urðu ekki við þessari beiðni en þetta var þó eini völlurinn þar sem ekki var baulað á þjóðsöng Argentínumanna og á vellinum mátti sjá þennan borða.

“Maradona, Naples loves you, but Italy is our homeland”

Flestir kannast líklega við eftirleik HM ´90. Argentínumenn töpuðu fyrir ógnarsterku liði Þjóðverja og hetja þeirra og Napolímanna féll á lyfjaprófi og var dæmdur í 15 mánaða bann. Hann spilaði aldrei aftur með liðinu og aðeins ári eftir brotthvarf hans lenti liðið í fjárhagsvandræðum. Maradona er engu að síður ennþá svakalega vinsæll í Napoli og sjálfur dýrkar hann Napoli álíka mikið og heimalið sitt, Boca.

Það var ekki fyrr en seinna að Maradona komst að þessu með Napoli og Pizzuna!

Árið eftir brotthvarf Maradona vann liðið bikarinn aftur en síðan þá hefur liðið ekkert unnið sem merkilegt getur talist. Liðið dalaði mikið á tíunda áratugnum og missti sína bestu leikmann. Árið 2004 var liðið síðan lýst gjaldþrota og sent niður í þriðju deild. Kvikmyndaframleiðandinn Aurelio De Laurentiis ákvað að leggja sitt af mörkum við að koma Napoli aftur meðal þeirra bestu og tókst það árið 2007 er liðið fór upp með vinaklúbbi sínum, Genoa sem líka er stórt lið á Ítalíu sem hefur verið í ströggli.

Í fyrra hafnaði liðið svo í 6.sæti í deildinni og komst þannig í Europa League. Þeir byrjuðu tímabilið undir stjórn gömlu Milan hetjunnar Roberto Donadoni en hann var rekinn og í hans stað kom núverandi stjóri og fyrrum þjálfari Sampdoria, Walter Mazzarri.

Heimavöllur Napoli er Stadio San Paolo. Völlur sem var byggður árið 1959 og endurbættur árið 1989 (fyrir HM) og tekur í dag rúmlega 60.þúsund áhorfendur. Það er til marks um það hvað Maradona var stór (miðað við hæð) er að leikur Ítalíu og Argentínu í undanúrslitum HM ´90 er það sögufrægasta sem gerst hefur á vellinum. Eins fyrir að hafa verið þriðji mest sótti völlur Ítalíu árið 2004 er liðið var í þriðju deild. Aðeins AC Milan og Inter Milan fengu fleiri áhorfendur á sína leiki og þau spila á sama velli!
Nafnið á vellinum gæti þó breyst í framtíðinni þar sem Napolimenn báðu stjórnvöld á ítalíu um leyfi til að skýra völlinn í höfuðið á Diego Maradona, en beiðninni var hafnað á þeirri forsendu að í ítölskum lögum segir að ekki megi nefna opinberar byggingar eftir neinni persónu fyrr en hún hefur verið dauð í a.m.k. 10 ár.
(í framhjáhlaupi má koma inná að þeir hafa þegar tekið Nr. 10 úr umferð hjá félaginu).

Napoli er talið vera fjórða vinsælasta liðið á ítalíu og nær aðdáaendahópur þeirra langt út fyrir borgina og jafnvel landið. Þeirra helstu andstæðingar eru Rómverjar enda tiltölulega stutt milli borganna. Eins eru þeir litlir vinir Lazio manna og Verona. Bæði lið sem eiga snarbilaða stuðningsmenn rétt eins og Napoli. Hinsvegar hafa Napoli og Genoa orðið einskonar vinaklúbbar í áratugi og ekki minkaði vináttan er bæði lið fóru upp um deild 2007 með því að gera jafntefli í lokaleiknum sem hentaði báðum liðum til að fara upp.

Napoli liðið í dag er orðið nokkuð sterkt og þeir hafa fulla trú á að þeir séu að fara klára þetta Liverpool lið sem við sendum til Ítalíu. Helstu vonarstörnur þeirra eru tveir leikmenn sem mættu alveg flytja til Liverpool á næstunni og spila þar í rauðu. Annarsvegar Marek Hamsik sem stjórnar umferðinni á miðjunni og hinsvegar Lavezzi sem við vorum ef ég man rétt ekki langt frá því að kaupa fyrir nokkrum árum. Eins eru þarna kallar eins og Cavani að ógleymdum sjálfum Andrea Dossena og fleiri… góðum.

Napoli hefur byrjað vel á Ítaíu og er þar í topp 4 eins og er. Í evrópukeppninni þurftu þeir að slá Elfsborg frá Svíþjóð út til að komast í þennan riðil og þeir hafa ekki byrjað neitt sérstaklega. Utrecht hélt þeim í 0-0 á ítalíu og gegn Steaua lentu þeir snemma leiks 3-0 undir. Steaua missti síðan mann af velli og við það fóru Napolimenn að vinna sig aftur inn í leikinn og var staðan orðin 3-2 er 4.mínútna uppbótartíminn var liðinn. Dómarinn hefur þó líklega farið í sama dómara skóla og Kjartan Börnsson fyrrum fomaður Arsenal klúbbsins því hann bætti örðum þremur við leikinn og á þeim tíma jafnaði Napoli við svo mikla kátínu Steaua manna að þeir mótmæltu við pólska sendiráðið eftir leik!! (Dómarinn er pólverji).

Þetta var Napoli 101 á hundavaði, að lokum bæti ég aftur við því sem ég setti á síðuna fyrr í dag um okkar menn:

Hodgson sem vonandi er að fara stýra sínum síðasta leik hefur ákveðið að skilja helstu kanónur liðsins eftir heima (utan Reina) og flugu menn eins og Gerrard, Torres, Meireles og Lucas ekki með liðinu út ásamt því að Johnson og Kuyt eru meiddir og Daniel Agger er veikur. Sjö stórir póstar ekki með en líklegt að 5-6 af þessum leikmönnum verði með gegn Blackburn á laugardaginn sem er orðin algjör must win leikur, þá sérstaklega fyrir Hodgson þó sigur þar dugi líklega og vonandi ekki til að bjarga starfi hans.

En þó við séum án þessara leikmanna er algjör óþarfi að örvænta enda höfum við endurheimt Poulsen aftur. Hæfni hans á knattspyrnuvellinum er slík að aðdáendur Napolí sáu það eitt í stöðunni að best væri að rústa vellinum og grófu 50 holur í hann í þessari viku! Himininn er eins og áður hefur komið fram ennþá í lagi svo að leikstíll Hodgson bíður auðvitað enga hnekki svo lengi sem það er ekki hávaða rok.

Hópurinn sem flaug með Bruce Dickinson söngvara Iron Maiden (can´t make this stuff up) til Napolí er því svona:
Reina, Jones, Hansen, Konchesky, Aurelio, Kyrgiakos, Skrtel, Wilson, Carragher, Kelly, Spearing, Poulsen, Shelvey, Maxi, Babel, Jovanovic, Pacheco, Eccleston, Cole, Ngog.

Líklegt byrjunarlið er svona:

Reina

Kelly – Carragher – Kyrgiakos – Konchesky
Poulsen
Maxi – Shelvey – Jovanovic
Cole
N´Gog

Sjálfur væri ég reyndar til í að sjá Babel og Wilson í þessum leik en mest af öllu vona ég bara að liðið skíti ekki alveg upp á bak á Ítalíu.

Babu

65 Comments

 1. Er að elska þessa síðu..
  Besta stuðningsmannasíða á Íslandi , og þó víðar væri leitað
  YNWA

 2. Hver er þessi Maradonna sem þú talar svo mikið um? Er hann eitthvað skyldur honum Maradona?


  -innsk. Babu. Sló mig þéttingsfast utanundir og lagaði þetta

  Poulsen með þrennu og Napoli vinnur 3-0.

 3. Frábær upphitun… textinn með myndinni af Maradona fékk mann til að skella upp úr 🙂

 4. Eiginlega fáránlega góð upphitun! Leiðinlegt að hafa lagt í svona mikla vinnu fyrir þennan leik sem að mun örugglega verða vandræðalegur fyrir klúbbinn og stuðningsmennina – ef að ég þekki Hodgson og liðið rétt. Þó má aldrei afskrifa Liverpool, hvað sem er í gangi, kannski þjappast menn saman í fjarveru Torres og Gerrard og sýna smá baráttu (sem hefur alveg vantað á þessari leiktíð). Sjáum þó til með það…
  Hef einu sinni komið til Napoli og er það skítugasta og ljótasta borg sem ég hef komið til. Þeir mega þó eiga það að eiga skemmtilegt lið og frábæra aðdáendur. Ætla að gerast svo djarfur að spá öðru liðinu sigur í þessum leik og jafnvel verða skoruð nokkur mörk!

 5. The Times: Torres is disenchanted with life under Hodgson and may seek to leave LFC

 6. Tony Barrett með grein í The Times (getum ekki linkað á hana, þarf áskrift að Times til að lesa) um að Torres hafi fengið nóg af því að spila undir stjórn Hodgson og vilji fara ef ástandið batnar ekki.

  Þetta innsiglar örlög Hodgson endanlega, held ég. Ef NESV-menn þurfa að velja á milli Torres og Hodgson verður Hodgson farinn fyrir helgi. Málið dautt.

 7. Eigum við eitthvað að ræða þessa upphitun?
  Thumbs UP Babú!!
  Takk fyrir mig.

 8. Annars frábær upphitun hjá Babu. Ég mun horfa á þennan leik með svila mínum á morgun, sá er fæddur og uppalinn í Napoli og tárast þegar hann rifjar upp æskuárin þar sem hann beið fyrir utan San Paolo á leikdegi og laumaði sér inn þegar hliðin voru opnuð í hálfleik til að hleypa reykingarmönnum út. Þetta gerði hann um hverja einustu helgi til að horfa á Maradona sem er mögulega eina mannveran sem hann elskar meira en fjölskyldu sína. Sá hefur sýnt mér muninn á venjulegri pítsu og Napoli-pítsu og við höfum beðið lengi eftir að geta horft á Liverpool – Napoli saman.

  Hann ætlar að hjálpa mér að kveðja Roy Hodgson á morgun. Við erum báðir spenntir fyrir þessum leik, af því að Napoli mun vinna (fyrir hann) og svo mun Roy Hodgson kveðja (fyrir mig).

 9. Það má gera gott úr þessum leik. Napolí pizza og kaldur á kantinum og svo bara dunda sér við að velja þá í þessum leik sem eru á vetur setjandi. Svona eins og bóndinn áður en hann sendir meirihlutann í sláturhúsið. Afslappað nema það verði afar slappt. Takk fyrir fáránlega fína upphitun.

 10. Í áframhaldi af því sem #5 Þorgeir Óli segir varðandi það að kannski þjappist liðið saman í fjarveru “The terrible Two”, þá er ég hræddur um að við Liverpool-aðdáendur séum sumir hverjir orðnir svo háðir því að Gerrard bjargi okkur á einhvern undraverðan máta, að við séum hreinlega búnir að gleyma því að enginn (ENGINN) leikmaður er stærri en Liverpool. Ef að örlög og velgengi liðsins eru farin að velta á einum til tveimur leikmönnum þá er vandinn meiri og djúpstæðari en áður hefur verið talið.

  Ég þrái ekkert heitar þessa dagana en að nýr og spennandi þjálfari byrji strax í janúar að byggja upp nýtt Liverpool lið með Torres og Gerrard í fararbroddi. Á sama tíma skýtur sú hugmynd upp kollinum við og við hvort Gerrard sé hreinlega orðinn of stór fyrir klúbbinn eða sé hreinlega þjakaður af þeirri pressu sem fylgir því að örlög klúbbsins séu alfarið bundin við frammistöðu hans sem leikmanns.

  Nei, sennilega eru þessar síðkvölda vangaveltur svefndrukkins aðdáenda bara bull. En………….stundum finnst manni forvitnilegt að hugsa til þess hvort að liðið okkar myndi jafnvel standa sig betur án pressunar sem fylgir því að vera liðið hans Steven “Endar-hann-ferilinn-án-titils?” Gerrard.

  Tek undir orð þeirra sem hafa mært staðarhalda KOP-bloggsins upp á síðkastið. Takk fyrir að halda þessu úti og einnig takk til hinna sem commenta. Djöfull hlýtur að vera glatað að halda með einhverju örðu liði!

  • Tony Barrett með grein í The Times (getum ekki linkað á hana, þarf áskrift að Times til að lesa) um að Torres hafi fengið nóg af því að spila undir stjórn Hodgson og vilji fara ef ástandið batnar ekki.

  Ef rétt reynist þá lýst mér EKKERT á þetta því það fer í taugarnar á mér þegar leikmaður telur sig vita betur en þjálfarinn, slíkt leiðir aldrei gott af sér fyrir liðið. Aftur á móti þá er einfaldlega ekki hægt annað en skilja Torres í þessu máli enda fékk hann einn versta framherja sem maður með hans hæfileika gat mögulega fengið og það er engin tillviljun og alls ekkert bara skortur á formi sem er að hrjá Torres og aðra sóknarþenkjandi leikmenn liðsins það sem af er ári. Þó þeir megi alveg líta í eigin barm líka.

 11. Frábær upphitun 🙂 Ein smá ábending samt… það mætti mjög gjarnan sleppa enskunni í Mount Vesúvíus, The Little Donkeys og því öllu.

  – innsk Babu. Takk fyrir það, hef þetta í huga næst

 12. Stórbrotin upphitun.
  Það væri fróðlegt að gera könnun á því hvort menn óski frekar eftir sigri eða tapi í þessum leik…

 13. Stórkosleg upphitun!! skemti mér konunglega við lesturinn og fékk hroll á sama tíma með það í huga að ég eigi eftir að hafa meiri skemtun yfir upphitunninni en leiknum á morgun !! 10 þumlar upp Babú!!

 14. finnst smá eins og vitlaus Christian P hafi verið rekinn í dag og vona að hinn verði rekinn líka.. Munum tapa á morgun útaf honum og Hodgson!

  En Djöfull er http://www.kop.is góða síða maður !!

 15. þetta var mjög skemmtileg upphitun, og nú mega leikmennirnir taka sér baráttugleði fyrri eigenda sér til fyrirmyndar og ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefanna. Við vinnum 2-1

 16. Flottur pistill…..Þá er loksins komið að því Napoli-Liverpool, hef beðið eftir þessari viðureign frá því ég byrjaði að fylgjast með fótbolta þar sem ég hef haldið með Napoli frá 1984 eða frá því að Maradona gekk til liðs við liðið. Verð þó að játa að sjarminn yfir þessum leik er þó ekki eins og maður óskaði sér. Hafði verið skemmtilegra að sjá þessa viðureign í CL.

  Napoli var náttúrlega með frábært lið frá 1984-1990 en þá fór að halla undan fæti líkt og hjá Liverpool. Ekkert varð út að þessi lið mættust á gullaldarárum þessara liða þar sem Liverpool fór í bann í Evrópukeppni, en það hefði verið frábær viðeign.

  Í dag þarf maður að sætta sig við að sjá skaddað Liverpool lið undir stjórn Mike Bassett mæta fersku Napoli liði á erfiðum útivelli. Taugarnar til Liverpool eru meiri en til Napoli en því miður þá er Napoli liðið einfaldlega betra um þessar mundir og ég spái því að þeir fari með öruggan sigur. 2-0.

 17. finnst smá eins og vitlaus Christian P hafi verið rekinn í dag og vona að hinn verði rekinn líka.

  Hann var nú ekki beint rekinn, meira svona drekinn! En annars JÁ nákvæmlega.

 18. vá metnaður hjá ykkur í upphitun, miðað við frammistöðu liðsins ætti að nægja bara, “leikur á morgun, okay”

  í blíðu og stríðu ey?

 19. Daily Mail reporting that Joe Januszewski will be in charge of NESV operations at #LFC with ‘experienced football administrator’ joining him. No indication yet of which ‘experienced football admin’ will assist Januszewski but ex-FA chief & #LFC fan Brian Barwick is surely favourite.

  Ef satt reynist þá gæti Joe verið að fara að fá draumastarfið sitt hjá uppáhalds fótboltaliði sínu og glæsilegt að fá stjórnarmann með reynslu af þessu sviði. Persónulega lýst mér gífurleg vel á Keith Edelmann, sem var eitthvað með puttana í því þegar NESV voru að kaupa félagið, og kannski jafnvel Brian Barwick. Vonandi fáum við einhverja ofurstjórn, Rijkaard+Ten Cate+Tixi Begiristain og nokkrir góðir leikmenn í janúar og þá geta hjólin farið að rúlla!

 20. Ekki það að það komi neinu við en Napolí er frábær borg. Snargeðveik en frábær. Stuðningsmenn Liverpool sem ferðast þangað fá þá a.m.k. eitthvað fyrir sinn snúð…

 21. Ahhh, ætlaði að pósta þessu á umræðuna um Purslow! Vona að menn fyrirgefi það. 😛

 22. Besta upphitun sem ég hef lesið, lá við að ég fór og bókaði mér flug til Napolí að kaupa mér eina spekaða 16″ með pepp og svepp! 🙂

  Enn ef Hodgson vinur okkar gæti nú látið liðið spila jafn vel og þessi upphitun er þá færi leikurinn 0-8 og hann gæti sjálfur spilað seinnileikinn á heimavelli…

  Ég veit samt ekki hvað ég er að spá, en ég hef verið að hugsa að það væri best að skít tapa þessum leik!, ekki það að ég elski að horfa á liðið mitt tapa, heldur er ég orðinn svo þreyttur á “Kick in the air and RUN” taktík og vill fá ALVÖRU mann í stjórastöðuna.

  Ég heeeeeld samt að við vinnum þennan leik 4-0…nei djók 😉 1-0 fyrir Pizzastrákonum í Napoli

  (Er búinn að skoða þessa síðu svona 20 sinnum á dag síðustu viku, þið fáið 10 af 10 mögulegum fyrir framtakið strákar)

 23. Maður er orðinn mun spenntari að sjá hvað Babú grefur upp úr skúffunum í þessum útileikjum í Evrópudeildunum heldur en leikjunum sjálfum. Nokkrir skelltuppúrpunktar:

  “enda hafa stuðningsmenn KFR algjörlega afsannað þessa kenningu”

  “Eitt sem virkilega hefur komið heimsbyggðinni allri að góðum notum og á hvað mestan heiður af því að ég er eins og ég er… þessar elskur fundu upp pizzuna!!!”

  “En líkt og með Pizzuna skiptir saga liðsins ekkert gríðarlega miklu máli þar til kom að Diego Maradona.”

  “hefði hann líklega unnið guð almáttugan í borgarstjórnarkosningum með líklega öllum greiddum atkvæðum”

  “Dómarinn hefur þó líklega farið í sama dómara skóla og Kjartan Börnsson”

  “Hópurinn sem flaug með Bruce Dickinson söngvara Iron Maiden (can´t make this stuff up)”

  Þetta er bara meistarastykki þessi upphitun, væri þess vert að þýða hana og leyfa fleirum að njóta hennar. Eftir svona lestur verður maður bara bjartsýnn á leikinn, við tökum stig þarna…

  1
 24. …já en óþarfi að setja svona skelfilega mynd af guðinum þarna…

 25. Bara adeins meira um Napoli. Tad hefdi kannski matt nefna ad nokkrir af tektari leikmonnum sidari àra eru tadan eda hafa spilad med teim, Fabio Cannavaro og Ciro Ferrara eru tadan, Quagliarella, Crippa, Zola, Blanc, Careca, Alemao, Dino Zoff hafa allir verid tarna. Tannig ad tetta er ekki smalid, teir hafa bara aldrei tekid tatt i muturleiknum eins og Juventus.
  I dag er lidid nokkud gott og adeins fleiri en Hamsik, Cavani og Lavezzi sem eru godir. Til daemis er tarna Gargano fra Uruguay, Maggio sem er oftast i Italska hopnum, Paolo Cannavaro svo einhverjir seu nefndir.

 26. Stórkostleg, skemmtileg og fræðandi upphitun Babu, þér eruð snillingur.

  Ég ætla að vona að það sjáist eitthvert lífsmark í okkar mönnum og að þeir nái að pota inn marki. Miðað við spilamennskuna upp á síðkastið, þá er ég ekkert alltof bjartsýnn en … skýt hér inn úrslitunum 2:1 fyrir Napoli og Ngog skorar.

  Áfram Liverpool.

 27. Svei mér þá, held að Liv, haldi áfram að gera ekki neitt, bara skil þetta ekki hversu lélegir þeir eru og maður trúir ekki þessu að þetta geti farið svona niður. Hef sagt fyrir nánast hvern leik að Liv taki þetta en núna er maður bara með hvíðakast fyrir hvern leik og læðist meðfram veggjum og ef maður hittir einhvern er maður fljótur að tala um ríkisstjórnina eða veðrið. LIVERPOOL verður að fara að spila almennilega og spila til að vinna, ekki bara vera með en ekki vinna eins og ríkisstarfsmenn. Koma svo kvikindin ykkar..

 28. Þið sem sjáið um þessa síðu eruð snillingar,.. alltaf gaman að kíkja hingað inn fyrir Liverpool leiki og lesa pistlana ykkar. Eins og staðan er í dag hef ég meira gaman af að lesa pistlana ykkar en að horfa á rauðsokkurnar okkar spila knattleik.

  Keep up the good work!

 29. Hvað hefur Jovanovic gert framyfir Babel í vetur til að verðskulda sæti í liðinu í kvöld?

 30. Hamsik er maður sem ég vildi fá til Liverpool fyrir tímabilið eftir að hafa séð hann á HM í sumar.

  Annars er maður orðin svona dofinn þegar liverpool spilar þessa dagana, Spennan og ástríðan er í dvala á meðan liðið spilar eins og það gerir í dag maður er bara hættur að kippa sér upp við tap. Sem er mjög sorglegt.

 31. @Babu

  Ég veit ekkert hvað þú vinnur við en ef allt fer í klessu einhvern tímann í framtíðinni þá ferðu bara að skrifa ferðabækur. Maður hlakkar orðið til að lesa þessa pistla þína fyrir útileikina í Evrópudeildinni.

 32. Sammála 35

  Eina góða við að vera í Evrópudeildinni er að fræðast um borgir, lönd og hefðir þar sem maður þekkir lítið til. Maður veit allt um Madrid, Barcelona og Milan….

 33. Glæsileg upphitun hjá þér Babu. Varð að skjóta aðeins á þig sbr. komment #3. Eina sem stakk í augun í frábærri grein.

  Fer að styttast í það að íslenskir Man. Shitty aðdáendur reyni að kaupa þig yfir á sína aðdáendasíðu 🙂

 34. Jónsi 36# Byrjunarliðið er eitthvað í þessa átt.
  Reina; Kelly, Carragher, Kyrgiakos, Konchesky; Spearing, Poulsen; Rodríguez, Cole, Babel; Ngog.

  Subs from Jones, Aurélio, Skrtel, Wilson, Darby, Pacheco, Shelvey, Eccleston, Jovanovic.

  Kemur frá sömu aðilum og venjulega.

 35. Takk fyrir magnaða og skemmtilega upphitun. Þér eruð snillingur Sir Babu.

  Finnst fleirum en mér það stórfurðulegur grefill að byrjunarliðið hjá RH skuli ætíð leka út á Veraldarvefinn sólarhring fyrir leik!? –_–

 36. Þakka snilldar upphitun. Hún náði að gera mig spenntan fyrir leiknum sem ég hélt að myndi einungis gerast þessa dagana ef Hodgson yrði rekinn og nýr stjóri með tvo nýja leikmenn undir hendinni tæki við sama daginn!

  EN 39. Ef þetta lið er rétt þá er ég nú eiginlega farinn að vorkenna Jovanovic. Hvað þarf maðurinn eiginlega að gera og hversu illa þarf liðið að spila til að hann fái sénsinn? Er hann kannski ekki nógu varnarsinnaður leikmaður?

 37. Ef hann ætlar að spila Spearing og Poulsen saman þá nenni eg ekki einu sinni að horfa á þennan leik, þá er hann að bjóða uppá allt það sama og í undanförnum leikjum! Burt með þetta RH kvikindi.

 38. EFtir komment SLoj Hodgson um hugsanlega sölu á Torres til Man Utd. ætti hann að vera rekinn í hálfleik í kvöld. “I think I’d have to say we’d cross that bridge when we come to it,”

  Sagði sauðurinn. Sem þýðir að hann er alveg til í það. Ætli honum finnist það ekki bara skynsamlegt, og kaupa svo Carlton Cole eða einhvern sem getur tekið við stungusendingum frá okkar eigin teig.

  og stóri viðbjóðurinn við þetta er að þarna er hann að sýna vini sínum Ferguson miklu miklu meiri virðingu um leið og hann dissar sinn hæfileikaríkasta leikmann.

  Hodgson er alltof mikill meðalmennsku maður til að fá að snerta Anfield.

 39. Frábær upphitunn Babu.

  Núna langar mig samt óstjórnlega mikið í pizzu og ég er fastur upp í sveit.

 40. Haha nei reyndar ekki, ég mundi bara eftir þessar flottu mynd frá Gumma Kalla (Sunnlenska.is).
  En við fórum annars á þjöppu hjá Árborg stuttu seinna og drulluðum duglega yfir þá fyrir þetta tap 🙂

  En þetta byrjunarlið er allt í lagi miðað við hópinn sem fór út enda skiptir nákvæmlega engu hverjir eru á miðjunni hjá okkur (eða seinni varnarlínunni) því hún er lítið sem ekkert notuð.

 41. eitthvað sem Hodgson vantar:
  The secret of this Napoli is Mazzarri. The coach is very close to the players. He gives us confidence and manages to motivate us in moments of difficulty. Feeling the coach’s confidence is a good point of departure to do well.”

 42. Napoli lyktar líka álíka og árangur Liverpool udanfarið, en vonandi ná þeir að yfirstíga þessa djöfulsins skítalykt og gera kannski gott mót í kvöld.

 43. Besta upphitun ever Babu!!!

  Ég hef haldið með Napoli frá 1986 og Liverpool frá 1984 og hef beðið eftir að þau mættust í stórleik.

  Fyrir tuttugu árum hefði mátt sjá Maradona vs. Barnes

  Núna fáum við Dossena vs. Poulsen! Og tuttugu ár síðan bæði lið urðu meistarar. Aldrei hefði mig grunað það vorið 1990.

 44. 55 Djöfull hló ég hátt, þetta er ekkert annað en kjaftæði að menn standi við bakið á ” ” því að það sést innan sem utanvallar.

  P.s. ég ætla aldrei aftur að nefna núverandi strengjabrúðu Alex Ferguson á nafn.

 45. Staðfest lið komið fyrir kvöldið:

  The Reds side in full is: Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Konchesky, Poulsen, Spearing, Jovanovic, Shelvey, Babel, Ngog.
  Subs: Jones, Kyrgiakos, Aurelio, Wilson, Maxi, Cole, Eccleston.

 46. Held ég hafi aldrei verið eins áhugalaus yfir leik hjá Liverpool nokkurntíma !! Eiginlega bara alveg sama hvernig þessi leikur fer, það góða við tap væri að Hodgson væri nánast endanlega búinn að vera !

 47. The Reds side in full is: Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Konchesky, Poulsen, Spearing, Jovanovic, Shelvey, Babel, Ngog. Subs: Jones, Kyrgiakos, Aurelio, Wilson, Maxi, Cole, Eccleston.

 48. Fínt í reynslubankann hjá ungu mönnumum okkar að spila þennan leik.

  Annars bíður maður bara eftir tilkynningu um að RH sé hættur.

 49. Já vonandi fer hann eftir leikinn í kvöld en ég óttast að hann verði hérna ennþá í næstu viku.

 50. Maður er farinn að sjá fyrir sér fyrirsögnina “Hrói hættur” (sbr. Hrói höttur), en lengra nær líklega samlíkingin ekki

 51. Napoli liðið er mikið slappara en ég bjóst við, þetta gæti hreinlega endað með sigri okkar manna.

 52. Vill einhver vera svo vænn að setja link á leikinn hér inn?

One Ping

 1. Pingback:

Christian Purslow hættur sem framkvæmdarstjóri

Liðið komið