Liverpool Bloggið leitar að öflugum bloggara til að ganga til liðs við síðuna!

Til að sækja um sendið umsókn og afrit af eigin skrifum á einarorn@gmail.com og kristjanatli@gmail.com undir yfirskriftinni “Liverpool Bloggari”. Lesið samt allt hér fyrir neðan fyrst:

Það eru fjögur og hálft ár síðan við (Einar Örn og Kristján Atli) stofnuðum Liverpool Bloggið og á þeim tíma hefur þessi vefsíða vaxið og dafnað jafnt og þétt. Við höfum bætt við okkur Liverpool Bloggurum (og örfáir þeirra hafa horfið á braut) svo að nú, á fimmta starfsári, erum við sex talsins. Við erum að leita að sjöunda pennanum.

Um fullgilda stöðu sem bloggari er að ræða – ekkert tímabundið heldur alvöru bloggstaða til jafns við þá sex sem fyrir eru – þannig að við hvetjum alla þá sem hafa brennandi áhuga á Liverpool og mikla þörf fyrir að láta skoðun sína í ljós til að sækja um!

Við gerum eftirfarandi kröfur til umsækjenda:

  • Umsækjendur skulu vera minnst 20 ára að aldri.
  • Umsækjendur verða að vera Liverpool-aðdáendur. 🙂
  • Æskilegt er að umsækjendur hafi umtalsverða reynslu af bloggskrifum og viti hvað við meinum þegar við segjum að við viljum fá litrík og skoðanaglöð skrif hér inn, ekki bara einhvern sem endurtekur fréttir af öðrum vefum og/eða hefur lítið um málin að segja. Við viljum fá litríkan persónuleika sem skilar sér á síðuna.
  • Menn þurfa að hafa áhuga á að skrifa reglulega um Liverpool og enska knattspyrnu. Hugsið málið vel, það er meira en að segja það að halda úti svona síðu og skrifa upphitanir/leikskýrslur um flesta leiki Liverpool. Ef þið teljið ykkur ekki hafa tíma til að sinna þessu, úthald til að endast í þessu eða metnað til að sýna hvað í ykkur býr skulið þið íhuga það vel hvort þetta hentar ykkur.
  • Við viljum fá jákvæðan penna inn! Þá á ég ekki við einhvern sem segir aldrei neitt slæmt um LFC eða gagnrýnir liðið aldrei, þvert á móti, en við viljum fá einhvern inn sem hefur gaman af því að skrifa um Liverpool og er jafnvel til í að koma með smá húmor í umfjöllunina, þótt á móti blási. Við viljum að það sé skemmtilegt að lesa þessa síðu og til þess þurfum við að fá skrif sem eru á jákvæðum og/eða léttum nótum.

Þar með er það upptalið. Ef þú ert metnaðarfullur, duglegur og skoðanaglaður einstaklingur sem hefur brennandi áhuga á Liverpool, skemmtilegum umræðum um liðið og enska knattspyrnu almennt og vilt sýna hvað í þér býr, ekki hika! Við tökum við öllum umsóknum og höndlum þær eins og trúnaðarmál, þannig að það þarf enginn að vera hræddur við að sækja um.

Við hvetjum að sjálfsögðu kvenfólk til að sækja um líka! Þetta er ekki bara strákaklúbbur og það væri frábært að fá öflugan kvenskörung með nýjan vinkil á síðuna!

Að gefnu tilefni er rétt að lokum að taka það fram að þetta er ekki starf og við borgum engin laun. Við höfum alltaf haldið þessari síðu úti á eigin kostnað og gert þetta af eigin áhuga og í okkar eigin frítíma. Það að blogga á þessari síðu er ekki skylda, en engu að síður viljum við síður fá til okkar fólk sem ekki nennir eða getur uppfært reglulega.

Þá er það komið. Umsóknarfrestur er opinn til sunnudagsins 10. ágúst og við vonumst til að sem flestir sæki um! Gengið verður frá “ráðningu” á nýjum bloggara fljótlega eftir að umsóknarfrestur rennur út og vonandi getum við kynnt nýjan bloggara fyrir lesendum síðunnar áður en fyrsta umferð Úrvalsdeildarinnar fer fram.

Til að sækja um sendið umsókn og afrit af eigin skrifum á einarorn@gmail.com og kristjanatli@gmail.com undir yfirskriftinni “Liverpool Bloggari”.

Með kveðju,
Kristján Atli og Einar Örn.