Magnús Gunnlaugur Þórarinsson heiti ég og mín fyrsta minning sem Púlari var að horfa á þáverandi Evrópumeistara Liverpool spila gegn KR á Laugardalsvellinum árið 1984. Ég var 7 ára á þeim tímapunkti og þó að þann leik muni ég mætavel þá man ég varla eftir mér fótboltalega að nýju fyrr en 2 árum síðar horfandi á bikarúrslitaleikinn gegn Everton í lýsingu Bjarna Fel. Og að sjálfsögðu að sigra 3-1! 

Hvort að það segi meira um mitt sérhæfða minni eða fjölmiðlun þess tíma skal ósagt látið en ást mín á LFC fæddist á þessum ágætu mótunarárum. Ástin og hollustan hefur haldist síðan þá í gegnum súrt og sætt og maður styrkist bara í trúnni ef eitthvað er.

Hillsborough-slysið 1989 skyldi eftir sig djúp sár um sorg og óréttlæti sem grætir mig enn þann dag í dag. Sá sorglegi skuggi hvílir oft á mér þegar ég hugsa til míns heitelskaða liðs en sem betur fer höfum við notið meira sannmælis í seinni tíð og réttlætið mun vonandi sigra að lokum. Justice for the 96!

Ég og faðir minn ákváðum að láta Anfield-drauminn rætast árið 1996 og okkur tókst að græja ferð á hinn klassíska leik LFC-Newcastle sem endaði 4-3. Sá leikur hefur oft verið flokkaður sem besti leikur í sögu Úrvalsdeildarinnar og ég get vottað fyrir að hann er vel verðugur þeirrar nafnbótar. Kamakazi-football sagði Roy Evans og sú lýsing var hárrétt á því hátempó brjálæði.

Þar sá ég minn mann Peter Beardsley mæta uppáhalds Liverpool-leikmanninum mínum Steve McManaman sem ég sá reyndar síðar spila aftur í El Clasico á Bernabeu árið 2001. Síðan þá hef ég farið á marga Liverpool-leiki á Anfield sem víðar. Séð fyrsta deildarmark Steven Gerrard syngja í skeytunum sem og fjölskyldudjásn Phil Babb kremjast við markstöngina.

Þegar kom að því að gera konu mína heiðvirða þá þótti vinum mínum eina vitið að marksetja mig á skotlöppina með Liverbird í steggjuninni. Síðasta áratug hef ég látið gamminn geisa undir nafninu Peter Beardsley á kommentakerfinu á Kop.is og þar áður á spjallinu á Liverpool.is. Viðurnefnið Beardsley hefur loðað við mig í Liverpool-kreðsum en það á sér enga tengingu við fótboltahæfileika eða hárgreiðslu, bara einskæra aðdáun mína á magnaðri sjöu sem heillaði mig í LFC-treyjunni.

Í dag er ég 42 ára verkefnisstjóri hjá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og ástríða mín á Liverpool hefur sjaldan verið meiri. Mér finnst það mikill heiður að fá að tjá mig um málefni LFC á þessum glæsilega og metnaðarfull vef Kop.is.

Ég læt einnig í mér heyra stöku sinnum á Twitter undir Maggs Beardsley og ræði þar boltatengd málefni í kór með Kop-liðum og öðrum Púlurum.

You’ll Never Walk Alone